Síðustu dagar — Hallæri, drepsótt, mengun — og prédikun Guðsríkis
„Hungursneyð birtist einnig í annarri mynd. Það er hungrið sem kvelur yfir 700 milljónir manna daginn út og daginn inn. . . . Ár hvert drepur þetta hungur, sem er mestan part ósýnilegt, allt að 18 til 20 milljónir manna — yfir tvöfalt fleiri en dóu á ári í síðari heimsstyrjöldinni.“ — World Hunger—Twelve Myths eftir Frances Moore Lappé og Joseph Collins.
EINS og Jesús sagði fyrir hefur okkar kynslóð fengið sinn skerf af hungursneyð og matvælaskorti þótt síður skyldi í sumum tilfellum en fyrri kynslóðir. Hvers vegna má segja það? Af því að framfarir í fjarskipta-, samgöngu- og flutningatækni, svo og tækni almennt, ættu að láta hungursneyð og matvælaskort heyra fortíðinni til. Landeigendur og stjórnmálamenn hafa hins vegar notað fólk eins og peð í tafli, án tillits til þeirra þjáninga sem það hefur valdið fátækum og landlausum.
Hungur og hallæri herja linnulaust á Afríku. Ekki er lengra síðan en í september 1987 að The New York Times sagði frá því að umsátursástand ríkti nú aftur í Eþíópíu í þeim skilningi að „hungur breiddist nú ört út á nýjan leik í þessu fátæka Afríkuríki.“ Fyrrverandi forstöðumaður neyðarhjálpar við hungraða í Eþíópíu sagði: „Svo virðist sem hungursneyðin nái til fimm milljóna manna núna og við vitum ekki hve alvarleg hún getur orðið.“
Samtímis berast fregnir frá hinu víðáttumikla Indlandi af þurrkum sem draga upp uggvænlega mynd. Landbúnaðarráðherra Indlands segir: „Um það bil 60 af hundraði allra landsmanna munu líða af völdum þessara þurrka.“ Hann bætti því við að „þessi tala sé langtum hærri en fyrri áætlanir og þýddi að um það bil 470 milljónir af þeim 780 milljónum, sem byggja Indland, yrðu fyrir áhrifum.“ Skiljum við til fullnustu hvað þessar tölur þýða og hver eru áhrif þeirra á mannkynið?
Við hina stöðugu hringrás hungursneyða, flóða og þurrka má svo bæta þeim ægiháa tolli sem hungrið heimti í heimsstyrjöldunum tveim og eftirköstum þeirra. Rithöfundur lýsir ástandinu á árunum 1945-46 svo: „Það var skortur á matvælum út um allan heim af völdum stríðsins og ástandið um Evrópu alla . . . var skelfilegt. Innan tíðar skall á alvarleg hungursneyð í hlutum Rússlands og Rúmeníu, og þúsundir sultu í hel í Grikklandi. Jafnvel á Bretlandseyjum þurfti að skammta brauð í fyrsta sinn í sögu þjóðarinnar.“
Já, svartur hestur hungursneyðarinnar með riddaranum er hafði vog í hendi sér, hefur farið á harðastökki frá einni þjóð til annarrar og fer enn geyst. — Opinberunarbókin 6:5, 6.
Plágur og drepsóttir
Jesús sagði að „drepsóttir“ yrðu hluti táknsins um hina síðustu daga. (Lúkas 21:11) Hefur 20. öldin fengið sinn skerf af plágum og drepsóttum? Já, talið frá spánsku veikinni, sem gaus upp við lok fyrri heimsstyrjaldarinnar og tók um 20 milljónir mannslífa, hefur mannkynið verið þjakað sjúkdómum eins og fyrri kynslóðir. En jafnvel þótt vísindum og læknisfræði hafi fleygt mjög fram á síðustu dögum krefjast sjúkdómar og dauði enn þann dag í dag mannsfórna í milljónatali.
Á hinum efnuðu Vesturlöndum er sífellt verið að heimta fé og hvetja til rannsókna í því skyni að ráða niðurlögum krabbameins, hjartasjúkdóma og eyðni. Þessir sjúkdómar og ýmsir fleiri verða að vísu hundruð þúsundum manna að fjörtjóni ár hvert, en aðrir sjúkdómar eru til sem ræna milljónir manna lífinu árlega í Afríku, Asíu og Rómönsku Ameríku.
Í bók sinni Mirage of Health segir René Dubos: „Malaría, aðrir frumdýrasjúkdómar og ormaveiki valda lífeðlislegri og efnahagslegri eymd á flestum bágstöddum svæðum.“ Af því leiðir að „milljónir manna þjást og deyja ár hvert í Asíu, Afríku og Rómönsku Ameríku af krókormasýki, afrískri svefnsýki og malaríu.“ Sú eymd, sem þessir sjúkdómar valda, er ekki mælanleg aðeins í tölu látinna af þeirra völdum. Dubos segir: „Ekki hefur unnist sigur á örverusjúkdómum.“
Hann heldur áfram: „Eigingirni [hvíta mannsins] kemur honum hins vegar til að hjúpa vísindalegum ævintýraljóma hverja þá uppgötvun sem stuðlar að vellíðan hans.“ Af þessum orsökum beinist svo mikil athygli á Vesturlöndum að krabbameini og hjartasjúkdómum, að ekki sé minnst á samræðissjúkdóma. Læknatímarit segir að upp komi um það bil þrjár milljónir nýrra lekandatilfella árlega í Bandaríkjunum einum.
En hvort sem við virðum fyrir okkur hin iðnvæddu þjóðfélög eða hin vanþróuðu sjáum við merki þess að ‚bleikur hestur dauða og drepsóttar,‘ fjórði hestur Opinberunarbókarinnar, sé á ferðinni. — Opinberunarbókin 6:8.
Eyðilegging jarðarinnar
Með mengun, rányrku, vanrækslu og eyðingu skóga er maðurinn langt kominn með að eyðileggja hið viðkvæma og nákvæma jafnvægi náttúrunnar innan hins þunna lífhvolfs sem hann hrærist í.
Súrt regn hefur valdið verulegu tjóni á vötnum og skógum á norðurhveli jarðar, en það stafar af því að regn eða snjór blandast köfnunarefnisoxíði og brennisteini sem berst út í andrúmsloftið við brennslu kola eða olíu. Eins og höfundar bókarinnar Earth segja: „Ein af afleiðingum súrrar úrkomu er sú að fjöldi vatna á stöðum eins og Nýja-Englandi og í Skandinavíu hafa breyst úr lífauðugum og arðsömum vistkerfum í fátækleg eða stundum nánast dauð vötn. Til dæmis er svo til allur fiskur dauður í hundruðum vatna í Adirondack-fjöllum [í Norður-Ameríku] og sömu örlög ógna næstum 50.000 vötnum í Kanada.“
„Skógardauði“ er einnig alvarlegt vandamál. „Einkenna ‚skógardauða‘ hefur orðið vart í skógum Austur-Evrópu, Sovétríkjanna, Ítalíu, Spánar, Kanada, Bretlandseyja og nyrðri hluta miðvesturríkja Bandaríkjanna.“ Höfundar bókarinnar halda áfram: „Í vissum skilningi er mannkynið að gera tilraun sem er risavaxin í sniðum. Það eitrar stóran hluta af öðrum helmingi jarðar (og sennilega hluta af hinum einnig) og bíður svo átekta hvað muni gerast.“
Annað er það sem eykur vægðarlaust álagið á lífhvolf jarðar — íbúatala heims fór nýlega yfir 5 milljarða markið. Líffræðingarnir Anne og Paul Ehrlich segja: „Nálega öll lífsform jarðar líða fyrir útbreiðslu Homo sapiens.“ Maðurinn eykur áhrifasvæði sitt og rányrku. Ókomnar kynslóðir geta séð um sig sjálfar.
Samviskulaus misnotkun mannsins á auðlindum jarðar óhreinkar og mengar ár, vötn og úthöf. Skolpi, sorpi og efnafræðilegum úrgangi er dembt miskunnarlaust í sjóinn rétt eins og hann væri almenningsskolpræsi, óþarfur fylgihluti lífsins á jörðinni.
Við erum því fyrsta kynslóð jarðarbúa sem hefur bókstaflega verið fær um að eyða jörðina. Fyrst núna hefur ræst spádómurinn í Opinberunarbókinni 11:18 þar sem segir að Guð muni „eyða þeim, sem jörðina eyða.“ Það hlýtur að gerast við lok þess tímabils sem nefnt er ‚endalokin.‘ — Daníel 12:4.
Einstæð viðvörun
Einn þáttur í spádómi Jesú er ónefndur sem nú er að uppfyllast með markverðum hætti. Hann sagði fyrir að fram myndi fara mikið prédikunarstarf, vitnisburður, meðal allra þjóða áður en endirinn kæmi. (Matteus 24:14; Markús 13:10) Og þetta starf yrði unnið innan æviskeiðs kynslóðarinnar frá 1914. Fyrst núna á 20. öldinni hafa framfarir í samgöngum, fjarskiptum, tölvutækni og prentun gert vottum Jehóva kleift að láta fræðslustarf sitt ná til allra króka og kima jarðarinnar á um það bil 200 tungumálum.
Vottar Jehóva gefa núna út tímaritið Varðturninn á 103 tungumálum! Dreift er yfir 13 milljónum eintaka af hverju tölublaði. Tímaritið, sem þú ert að lesa, er gefið út á 54 tungumálum, og yfir 11 milljónir eintaka prentaðar af hverju tölublaði tvisvar í mánuði. Um það bil þrjár og hálf milljón votta boða reglulega fagnaðarerindið um Guðsríki í 210 löndum.
Þetta einstæða starf er unnið þrátt fyrir ofsóknir á heimsmælikvarða sem Jesús sagði einnig fyrir að sannir fylgjendur hans skyldu búast við. Já, tilvera og starf votta Jehóva um allan hnöttinn er lifandi vitnisburður þess að við lifum á hinum síðustu dögum! — Markús 13:9, 10.
Atburðarásin nær brátt hámarki
Í nútímauppfyllingu spádóms Jesú mynda allir þessir atburðir tákn ósýnilegrar nærveru Jesú og hinna síðustu daga eða ‚endaloka veraldar‘ í sinni núverandi mynd. (Matteus 24:3) (Sjá rammann á bls. 11.) Þeir falla hver að öðrum eins og bútar í myndþraut svo að við blasir skýr mynd sem segir: „Þetta eru síðustu dagar þessarar heimsskipanar.“ — Sjá einnig 2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 12, 13.
Margar af þeim aðstæðum, sem Jesús sagði fyrir, hefur líka verið að finna fyrr á öldum, en þær hafa aldrei komið allar upp í einu innan sömu kynslóðar. Og eins og við höfum séð hafa sumar þeirra aldrei komið upp meðal fyrri kynslóða og gátu það ekki. Sumar bíða þess enn að uppfyllast algerlega áður en þessi kynslóð er á enda. Og það eru fleiri atburðir sem vottar Jehóva bíða með óþreyju. Þeir eru undanfari þess að Guð láti ríki sitt fara með fullt vald yfir jörðinni. Því er eðlilegt að spyrja hvað gerist næst.
[Rammi á blaðsíðu 7]
Hvað hefur gerst frá 1914?
1. Hvaða stórstyrjaldir hafa verið háðar?
2. Hve mörgum meiriháttar jarðskjálftum manst þú eftir?
3. Hafa stórfelldar farsóttir og sjúkdómar hrjáð mannkynið?
4. Hvaða lönd hafa mátt þola meiriháttar hallæri og hungursneyð?
5. Hafa falsspámenn og falskristar komið fram?
6. Eru einhver merki um aukið ofbeldi og lögleysi?
7. Hefur kærleikur og hjálpfýsi verið á undanhaldi?
8. Hafa einhver samtök ætlað sér þá dul að koma á friði í heiminum?
9. Er merkjanleg angist meðal þjóða og ótti við framtíðina?
10. Er verið að prédika Guðsríki um allan heim?
(Svörin er að finna á bls. 11.)
[Rammi á blaðsíðu 11]
Svör við spurningum á bls. 7a
1. Matteus 24:7 — Tvær heimsstyrjaldir (1914-18; 1939-45); spænska borgarastyrjöldin (1936-39); Kóreustríðið; Víetnamstríðið; stríð Írana og Íraka; stríð í Miðausturlöndum og fleiri.
2. Matteus 24:7 — Jarðskjálftar: 1920 og 1932 í Kansu í Kína, 200.000 og 70.000 létust; 1923 í Kanto í Japan, 142.000 létust; 1935 í Quetta í Pakistan, 60.000 létust; 1939 í Chillán í Chile, 30.000 létust; 1939 í Erzincan í Tyrklandi, 30.000 létust; 1960 í Agadir í Marokkó, 12.000 létust; 1970 í Perú, 66.700 létust; 1972 í Managúa í Níkaragúa, 5.000 létust; 1976 í Guatemalaborg í Guatemala, 23.000 létust; 1976 í Tangshan í Kína, 800.000 létust.
3. Lúkas 21:11 — Hjartasjúkdómar; krabbamein; eyðni; árblinda; malaría; samræðissjúkdómar.
4. Lúkas 21:11 — Hungursneyð: 1920-21 í Norður-Kína, snerti um 20 milljónir manna; 1943-44 á Indlandi, 1.500.000 létust; 1967-69 í Nígeríu, yfir 1.500.000 börn létust; 1975-79 í Kampútseu, 1.000.000 lést; 1983-87 í Svörtu-Afríku, snerti 22 milljónir manna.
5. Matteus 24:11 — Vakningarprédikarar, sjónvarps-messíasar og gúrúar leiða milljónir manna á villigötur.
6. Matteus 24:12; 2. Tímóteusarbréf 3:13 — Glæpir, ofbeldi, lögbrot og fíkniefnaneysla er víðast hvar útbreidd. Verslun með fíkniefni hefur myndað stétt samviskulausra fíkniefnakónga og morðingja.
7. Matteus 24:12 — Dyr eru með margföldum lokum og lásum; varðhundar notaðir til að vernda eignir og nágrannar þekkjast oft ekki.
8. Opinberunarbókin 17:3, 8-11 — Þjóðabandalagið og Sameinuðu þjóðirnar.
9. Lúkas 21:26 — Tvær heimsstyrjaldir ollu ólýsanlegum þjáningum og angist. Óttinn við gereyðingu í kjarnorkustyrjöld frá 1945 hefur breitt út ótta og angist til allra heimshluta.
10. Matteus 24:14 — Yfir þrjár milljónir votta Jehóva prédika ‚fagnaðarerindið um ríki Guðs‘ á um það bil 200 tungumálum.
[Neðanmáls]
a Hér er um að ræða dæmi eingöngu, ekki tæmandi yfirlit.
[Myndir á blaðsíðu 10]
Hungur hrjáir stóran hluta jarðarbúa.
Margs kyns sjúkdómar herja á milljónir manna.
Maðurinn er að menga lífhvolfið sem hann deilir með öllum öðrum lifandi verum.
Einstætt aðvörunarstarf fer nú fram um allan heim á um það bil 200 tungumálum.
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 10]
Ljósmynd: FAO (Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ)