Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w89 1.6. bls. 22-27
  • Hver hlýtur velþóknun Jehóva?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hver hlýtur velþóknun Jehóva?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Hvað merkja orð hans?
  • Hann bauð fólki að tilbiðja sig
  • Kristni söfnuðurinn og þeir sem ekki trúðu
  • Hvernig hægt er að varðveita velþóknun Guðs til hjálpræðis
  • Öðrum hjálpað að þjóna Guði
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
  • Spurningar frá lesendum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
  • Hvað hamlar þér að skírast?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
  • Skírð í nafni hverra?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2010
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
w89 1.6. bls. 22-27

Hver hlýtur velþóknun Jehóva?

„Vinnið nú að sáluhjálp yðar . . . því að það er Guð, sem verkar í yður bæði að vilja og framkvæma sér til velþóknunar.“ — FILIPPÍBRÉFIÐ 2:12, 13.

1, 2. Við hvaða aðstæður lýsti Guð yfir velþóknun sinni á Jesú og hvers vegna er það áhugavert fyrir okkur?

ÞETTA voru þáttaskil í mannkynssögunni. Jóhannes skírari hafði verið að prédika boðskap Guðs og skíra í vatni þá sem iðruðust. Þá kom til hans maður sem hann vissi að var réttlátur. Það var Jesús. Hann hafði engar syndir drýgt, sem hann þurfti að iðrast, en þó bað hann Jóhannes að skíra sig til að „fullnægja öllu réttlæti.“ — Matteus 3:1-15.

2 Eftir að Jóhannes hafði gert eins og hann var beðinn steig Jesús upp úr vatninu og „þá opnuðust himnarnir, og hann sá anda Guðs stíga niður eins og dúfu.“ Þar að auki heyrðist „rödd . . . af himni: ‚Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.‘“ (Matteus 3:16, 17; Markús 1:11) Hvílík yfirlýsing! Öll viljum við njóta velþóknunar þess sem við berum virðingu fyrir. (Postulasagan 6:3-6; 16:1, 2; Filippíbréfið 2:19-22; Matteus 25:21) Hugsaðu þér þá hvernig þér myndi líða ef alvaldur Guð lýsti yfir: ‚Ég hef velþóknun á þér!‘

3. Hvað ætti að vera okkur umhugað í sambandi við velþóknun Guðs?

3 Er þess nokkur kostur fyrir okkur að fá notið velþóknunar Guðs nú á dögum? Við skulum taka sem dæmi mann sem er ‚vonlaus og guðvana í heiminum,‘ ‚fjarlægur lífi Guðs.‘ (Efesusbréfið 2:12; 4:18) Getur hann komist úr þeirri aðstöðu og hlotið velþóknun Jehóva? Hvernig getur hann gert það, ef svo er? Við skulum kynna okkur það.

Hvað merkja orð hans?

4. (a) Hver er merking gríska orðsins sem þýtt er „velþóknun“ í yfirlýsingu Guðs? (b) Hvers vegna er notkun orðsins sérlega áhugaverð í þessu tilviki?

4 Guðspjöllin geyma orð Guðs, „Ég hef velþóknun á [Jesú].“ Þar er á grísku notað sagnorðið eudokeo. (Matteus 3:17; Markús 1:11; Lúkas 3:22) Það merkir „að vera ánægður með, hafa jákvætt viðhorf til, hafa yndi af,“ og tilsvarandi nafnorð merkir „velvild, velþóknun, hylli, ósk, þrá.“ Eudokeo er ekki notað eingöngu um velþóknun Guðs. Til dæmis er það notað um velþóknun kristinna manna í Makedóníu á því að gefa öðrum af efnum sínum. (Rómverjabréfið 10:1; 15:26; 2. Korintubréf 5:8; 1. Þessaloníkubréf 2:8; 3:1; sjá The Kingdom Interlinear Translation.) Það var hins vegar Guð, ekki menn, sem lýsti yfir velþóknun á Jesú. Orðið er ekki notað um Jesú fyrr en eftir að hann var skírður. (Matteus 17:5; 2. Pétursbréf 1:17) Athyglisvert er að Lúkas 2:52 notar annað orð — kharis — þegar talað er um Jesú sem óskírðan ungling er hlaut „náð“ hjá Guði og mönnum.

5. (a) Hvað sýnir að ófullkomnir menn geta áunnið sér velþóknun Guðs? (b) Hverjir eru þeir menn sem Guð „hefur velþóknun á“?

5 Er einnig mögulegt fyrir ófullkomna menn eins og okkur að hljóta velþóknun Guðs? Til allrar hamingju er svarið já. Þegar Jesús fæddist tilkynntu englar: „Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun [eudokias] á.“ (Lúkas 2:14) Samkvæmt orðréttri þýðingu gríska textans voru það „góðviljaðir menn“ sem englarnir sungu um og áttu að hljóta frið, það er að segja menn sem nutu velvildar Guðs eða hann hafði „velþóknun“ á. Prófessor Hans Bietenhard segir um orðin en anþropois eudokias sem svo eru þýdd: „Þessi orð eiga við menn sem Guð hefur velþóknun á . . . Hér er ekki átt við góðan vilja mannanna . . . Hér er um að ræða hinn æðsta náðarvilja Guðs sem útvelur sér fólk til hjálpræðis.“ Eins og vottar Jehóva hafa lengi bent á gefur Lúkas 2:14 þannig til kynna að ófullkomnir menn eigi þess kost með vígslu sinni og skírn að öðlast velþóknun Guðs.a

6. Hvað þurfum við enn að vita um velþóknun Guðs?

6 Það er að sjálfsögðu mikill munur á því að vera annars vegar ‚fráhverfur Guði og óvinveittur honum í huga sér og hneigjast til vondra verka‘ og hins vegar njóta velþóknunar sem vinir okkar réttláta og vitra Guðs. (Kólossubréfið 1:21; Sálmur 15:1-5) Þótt það sé viss léttir að vita að menn geti öðlast velþóknun Guðs vilt þú vafalaust vita hverjar kröfurnar eru. Við getum lært um þær af athöfnum Guðs til forna.

Hann bauð fólki að tilbiðja sig

7. Hvað sýnir 2. Mósebók 12:38 um viðhorf Guðs?

7 Um margar aldir áður en Jehóva mælti fram orðin í Lúkasi 2:14 bauð hann fólki að koma og tilbiðja sig. Að sjálfsögðu átti hann þá eingöngu samskipti við Ísraelsþjóðina sem var vígð honum. (2. Mósebók 19:5-8; 31:16, 17) Þó ber að hafa í huga að „mikill fjöldi af alls konar lýð“ fór með Ísraelsmönnum er þeir gengu út af Egyptalandi. (2. Mósebók 12:38) Þessir menn, sem voru ekki ísraelskir, hafa trúlega áður átt nokkur samskipti við þjóð Guðs og orðið vitni að plágunum sem komu yfir Egyptaland. Nú kusu þeir að fara með Ísraelsmönnum. Sumir þeirra snerust líklega alveg til trúar.

8. Hvaða tveir hópar útlendinga bjuggu í Ísrael og hvers vegna var munur á framkomu Ísraelsmanna við þá?

8 Lagasáttmálinn tók tillit til aðstöðu manna af öðrum þjóðum gagnvart Guði og þjóð hans. Sumir höfðu einfaldlega sest að í Ísraelslandi og bjuggu þar án þess að hafa tekið trú. Eigi að síður urðu þeir að hlýða grundvallarlögum svo sem um hvíldardagshald og bann við morði. (Nehemía 13:16-21) Ísraelsmenn litu ekki á þessa innflytjendur sem bræður og gættu eðlilegrar varúðar er þeir töluðu við þá eða áttu við þá önnur samskipti, því að þeir tilheyrðu enn ekki þjóð Guðs. Til dæmis leyfðist Ísraelsmanni ekki að kaupa og leggja sér til munns kjöt af sjálfdauðri skepnu (sem ekki var blóðguð), en aftur á móti gátu innflytjendur, sem ekki höfðu tekið gyðingatrú, hugsanlega gert það. (5. Mósebók 14:21; Esekíel 4:14) Með tíð og tíma urðu kannski sumir þessara erlendu innflytjenda umskornir trúskiptingar. Þá fyrst var komið fram við þá eins og bræður í sannri guðsdýrkun og þess krafist að þeir héldu allt lögmálið. (3. Mósebók 16:29; 17:10; 19:33, 34; 24:22) Rut hin móabíska og Sýrlendingurinn Naaman, sem var holdsveikur, voru í hópi þeirra manna af öðrum þjóðum er Guð viðurkenndi. — Matteus 1:5; Lúkas 4:27.

9. Hvernig staðfesti Salómon viðhorf Guðs til útlendinga?

9 Á dögum Salómons konungs veitti Guð einnig fúslega viðtöku mönnum sem ekki voru ísraelskir. Við vígslu musterisins bað Salómon: „Ef útlendingur, er eigi er af lýð þínum Ísrael, en kemur úr fjarlægu landi vegna nafns þíns . . . og biður frammi fyrir þessu húsi, þá heyr þú það á himnum, . . . til þess að öllum þjóðum jarðarinnar verði kunnugt nafn þitt og þær óttist þig, eins og lýður þinn Ísrael.“ (1. Konungabók 8:41-43) Já, Jehóva hlýddi á einlægar bænir útlendinga sem leituðu hans. Kannski myndu þeir einnig kynnast lögum hans, láta umskerast og verða viðurkenndir meðlimir heilagrar þjóðar hans.

10. Hvernig hafa Gyðingar vafalaust komið fram við eþíópska hirðmanninn og hvers vegna var umskurn honum til gagns?

10 Einn þeirra sem gerði það síðar á tímum var féhirðir Kandake drottningar hinnar fjarlægu Eþíópíu. Trúlega voru lífshættir hans og guðsdýrkun óaðgengileg fyrir Jehóva er hann fyrst heyrði um Gyðinga og guðsdýrkun þeirra. Gyðingar þurftu því að sýna þessum útlenda manni töluvert umburðarlyndi meðan hann var að kynna sér lögmálið til að læra að þekkja kröfur Guðs. Bersýnilega tók hann framförum og breytti því sem hann þurfti til að vera hæfur til umskurnar. Postulasagan 8:27 segir að hann hafi „farið til Jerúsalem til að biðjast fyrir.“ (2. Mósebók 12:48, 49) Það bendir til þess að hann hafi verið trúskiptingur. Hann var þannig í aðstöðu til að taka á móti Messíasi og láta skírast sem lærisveinn hans, og samstilla sig með þeim hætti vilja Guðs eins og hann opinberaðist hverju sinni.

Kristni söfnuðurinn og þeir sem ekki trúðu

11, 12. (a) Hvaða önnur breyting átti sér stað þegar Eþíópíumaðurinn lét skírast? (b) Hvernig var það í samræmi við Filippíbréfið 2:12, 13?

11 Jesús sagði fylgjendum sínum: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ (Matteus 28:19, 20) Eþíópski trúskiptingurinn, sem áður er getið, vissi nú þegar talsvert um Jehóva og heilagan anda. Þegar því Filippus hjálpaði honum til skilnings og viðurkenningar á því að Jesús væri Messías og sonur Guðs gat hann látið skírast. Hann gat þannig hlotið velþóknun sem einn af þjónum Jehóva er fylgdi Kristi. Að sjálfsögðu þurfti hann að standa ábyrgur gerða sinna gagnvart Guði og það krafðist þess að hann ‚héldi allt það sem kristnum mönnum var boðið.‘ En jafnhliða þessari ábyrgð opnaðist honum stórfengleg von — vonin um hjálpræði!

12 Síðar skrifaði Páll að allir kristnir menn þyrftu að ‚vinna að sáluhjálp sinni með ugg og ótta.‘ Það var mögulegt „því að það er Guð, sem verkar í yður bæði að vilja og framkvæma sér til velþóknunar [eudokias].“ — Filippíbréfið 2:12, 13.

13. Hvernig hljóta kristnir menn að hafa komið fram við þá sem voru ekki jafnfljótir til að láta skírast og eþíópski hirðmaðurinn?

13 Ekki voru allir sem komust í snertingu við sanna kristni reiðubúnir og hæfir til að láta skírast jafnfljótt og Eþíópíumaðurinn. Sumir voru ekki Gyðingar eða trúskiptingar og höfðu litla eða enga þekkingu á Jehóva og vegum hans; þeir fylgdu þar af leiðandi ekki siðferðisstöðlum hans. Hvernig átti að koma fram við þá? Kristnir menn áttu að fylgja fordæmi Jesú. Hann hvorki hvatti til né lét sér synd í léttu rúmi liggja. (Jóhannes 5:14) Engu að síður var hann umburðarlyndur gagnvart syndurum sem komu til hans og þráðu að samræma líf sitt vilja Guðs. — Lúkas 15:1-7.

14, 15. Hverjir sóttu samkomur í Korintu auk smurðra kristinna manna, og skyldu þeir allir hafa tekið jafnskjótum, andlegum framförum?

14 Ljóst er af orðum Páls um samkomur í Korintu að kristnir menn sýndu umburðarlyndi þeim sem voru að kynnast Guði. Páll fjallaði þar um notkun náðargjafa andans, sem í upphafi voru tákn þess að kristnir menn nytu blessunar Guðs, og minnist hann þar bæði á ‚þá sem trúa‘ og ‚vantrúaða.‘ (1. Korintubréf 14:22) ‚Þeir sem trúðu‘ voru þeir sem tóku við Kristi og létu skírast. (Postulasagan 8:13; 16:31-34) „Margir Korintumenn, sem á hlýddu, tóku trú og létu skírast.“ — Postulasagan 18:8.

15 Samkvæmt 1. Korintubréfi 14:24 komu líka ‚vantrúaðir eða fáfróðir‘ á samkomur í Korintu og fengu þar góðar viðtökur.b Trúlega höfðu þeir náð mislangt í því að nema og heimfæra á sig orð Guðs. Sumir voru ef til vill enn syndgandi en aðrir höfðu byggt upp vissa trú, gert ýmsar breytingar í lífi sínu og jafnvel byrjað að segja öðrum frá því sem þeir höfðu lært þótt þeir væru enn ekki skírðir.

16. Hvernig gátu þessir nýju haft gagn af því að vera viðstaddir safnaðarsamkomur kristinna manna?

16 Að sjálfsögðu var enginn þessara óskírðu manna „í Drottni.“ (1. Korintubréf 7:39) Ef þeir höfðu áður fyrr verið sekir um alvarlega siðferðilega og andlega bresti er skiljanlegt að það hafi tekið þá tíma að samlaga sig stöðlum Guðs. En á meðan þeir reyndu ekki af illum hug að spilla trú og hreinleika safnaðarins voru þeir velkomnir. Það sem þeir sáu og heyrðu á samkomunum gat ‚sannfært‘ þá er ‚leyndardómar hjartna þeirra urðu opinberir.‘ — 1. Korintubréf 14:23-25; 2. Korintubréf 6:14.

Hvernig hægt er að varðveita velþóknun Guðs til hjálpræðis

17. Hvernig uppfylltist Lúkas 2:14 á fyrstu öld?

17 Þúsundir manna heyrðu fagnaðarerindið vegna opinberrar prédikunar skírðra kristinna manna á fyrstu öld. Sumir tóku trú á það sem þeir heyrðu, iðruðust fyrri breytni og létu skírast og ‚játuðu þar með til hjálpræðis.‘ (Rómverjabréfið 10:10-15; Postulasagan 2:41-44; 5:14; Kólossubréfið 1:23) Enginn vafi leikur á að skírðir lærisveinar fortíðar nutu velþóknunar Jehóva, því að hann smurði þá með heilögum anda og tók sér þá fyrir andlega syni. Páll postuli skrifaði: „Hann [ákvað] fyrirfram að veita oss sonarrétt í Jesú Kristi. Sá var vilji hans og velþóknun [eudokian].“ (Efesusbréfið 1:5) Þannig fór að rætast á þessari sömu öld það sem englarnir höfðu spáð við fæðingu Jesú: „Friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.“ — Lúkas 2:14.

18. Hvers vegna gátu smurðir kristnir menn ekki tekið sem sjálfsagðan hlut að þeir nytu velþóknunar Guðs?

18 Til að varðveita þennan frið var nauðsynlegt að þeir sem nytu velþóknunar Guðs ‚ynnu að sáluhjálp sinni með ugg og ótta.‘ (Filippíbréfið 2:12) Það var ekki auðvelt því að þeir voru enn ófullkomnir menn. Þeir myndu standa frammi fyrir freistingum og þrýstingi í þá átt að gera það sem rangt var. Ef þeir létu undan og syndguðu myndu þeir glata velþóknun Guðs. Í kærleika sínum sá Jehóva þeim fyrir andlegum hirðum bæði til að hjálpa söfnuðunum og vernda þá. — 1. Pétursbréf 5:2, 3.

19, 20. Hvaða ráðstöfun gerði Guð til að hjálpa kristnum mönnum að halda velþóknun hans?

19 Slíkir safnaðaröldungar myndu fylgja leiðbeiningu Páls: „Ef einhver misgjörð kann að henda mann, þá leiðréttið þér, sem andlegir eruð, þann mann með hógværð. Og haf gát á sjálfum þér, að þú freistist ekki líka.“ (Galatabréfið 6:1) Eins og skiljanlegt er tóku þeir á sig aukna ábyrgð sem stigu það þýðingarmikla skref að láta skírast, alveg eins og sá sem snerist til gyðingatrúar og lét umskerast í Ísrael. Ef skírður kristinn maður gerði eitthvað rangt gæti hann eigi að síður fengið kærleiksríka hjálp innan safnaðarins.

20 Öldungar safnaðarins gátu boðið hjálp þeim sem gerðist sekur um alvarlega rangsleitni. Júdas skrifaði: „Verið mildir við suma, þá sem eru efablandnir, suma skuluð þér frelsa, með því að hrífa þá út úr eldinum. Og suma skuluð þér vera mildir við með ótta, og hatið jafnvel kyrtilinn, sem flekkaður er af holdinu.“ (Júdas 22, 23) Skírður safnaðarmeðlimur, sem fékk slíka hjálp, gat haldið áfram að njóta velþóknunar Jehóva og þess friðar sem englarnir höfðu talað um við fæðingu Jesú.

21, 22. Hvernig fór fyrir syndara sem ekki iðraðist og hvernig áttu trúfastir meðlimir safnaðarins að bregðast við?

21 Þótt ekki væri það algengt voru þess dæmi að syndari iðraðist ekki. Öldungarnir myndu þá gera hann rækan til að vernda hreinleika safnaðarins. Þannig fór fyrir skírðum karlmanni í Korintu sem ekki vildi hætta siðlausu sambandi er hann átti í. Páll ráðlagði söfnuðinum: „Ég ritaði yður í bréfinu, að þér skylduð ekki umgangast saurlífismenn. Átti ég þar ekki við saurlífismenn þessa heims yfirleitt, ásælna og ræningja eða hjáguðadýrkendur, því að þá hefðuð þér orðið að fara út úr heiminum. En nú rita ég yður, að þér skuluð ekki umgangast nokkurn þann, er nefnir sig bróður, en er saurlífismaður eða ásælinn, skurðgoðadýrkari eða lastmáll, ofdrykkjumaður eða ræningi. Þér skuluð jafnvel ekki sitja að borði með slíkum manni.“ — 1. Korintubréf 5:9-11.

22 Úr því að maðurinn í Korintu hafði stigið hið þýðingarmikla skref að láta skírast, og hlotið þar með velþóknun Guð og orðið meðlimur safnaðarins, var það alvörumál að gera hann rækan. Páll vakti athygli kristinna manna á að þeir skyldu ekki umgangast hann, því að hann hafði fyrirgert stöðu sinni sem velþóknanlegur þjónn Guðs. (Samanber 2. Jóhannesarbréf 10, 11.) Pétur skrifaði um þá sem gerðir höfðu verið rækir: „Betra hefði þeim verið að hafa ekki þekkt veg réttlætisins en að hafa þekkt hann og snúa síðan aftur frá hinu heilaga boðorði, sem þeim hafði verið gefið. Fram á þeim hefur komið þetta sannmæli: ‚Hundur snýr aftur til spýju sinnar.‘“ — 2. Pétursbréf 2:21, 22.

23. Hve stór hluti kristinna manna á fyrstu öld varðveitti velþóknun Guðs?

23 Jehóva gat augljóslega ekki lengur litið með velþóknun á slíka einstaklinga því að þeir höfðu verið gerðir rækir sem iðrunarlausir syndarar. (Hebreabréfið 10:38; samanber 1. Korintubréf 10:5.) Ljóst er að einungis lítill minnihluti var gerður rækur. Flestir sem hlutu ‚náð og frið frá Guði‘ og ‚sonarrétt samkvæmt vilja hans og velþóknun‘ voru trúfastir. — Efesusbréfið 1:2, 5, 8-10.

24. Hvaða hlið þessa viðfangsefnis verðskuldar athygli okkar?

24 Aðstæður eru mikið til þær sömu núna. Við skulum samt sem áður athuga hvernig hægt er að hjálpa ‚vantrúuðum og fáfróðum‘ að hljóta velþóknun Guðs núna og hvað hægt er að gera þeim til hjálpar ef þeir stíga víxlspor á þeirri leið. Í greininni á eftir verður fjallað um það.

[Neðanmáls]

a Sjá Varðturninn þann 1. október 1965, bls. 178-182.

b „ἄπιστοσ (apistos, ‚vantrúaður‘) og ιδιώτης (idiōtēs, ‚sá sem ekki hefur skilning,‘ ‚sá sem spyr‘) eru báðir í hópi þeirra sem ekki trúa, ólíkt þeim sem eru frelsaðir í hinni kristnu kirkju.“ — The Expositor’s Bible Commentary, 10. bindi, bls. 275.

Manst þú?

◻ Síðan hvenær og hvernig geta menn, samkvæmt Ritningunni, hlotið velþóknun Guðs?

◻ Hvernig leit Guð á útlendinga er bjuggu meðal þjóðar hans, og hvers vegna þurftu Ísraelsmenn að sýna bæði varúð og umburðarlyndi í samskiptum við þá?

◻ Hvað má ráða af því að „vantrúaðir“ skyldu koma á kristnar samkomur í Korintu?

◻ Hvað hefur Guð gert til að hjálpa skírðum kristnum mönnum að varðveita velþóknun hans?

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila