Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w92 1.2. bls. 9-14
  • „Ljósið er komið í heiminn“

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • „Ljósið er komið í heiminn“
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • „Guð er ljós“
  • ‚Ég er ljós heimsins‘
  • ‚Höfðingi lífsins‘ frá Guði
  • „Höfuðið yfir öllu“
  • „Börn ljóssins“
  • „Þér eruð ljós heimsins“
  • „Klæðumst hertygjum ljóssins“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Fylgið ljósi heimsins
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1993
  • Ljós Guðs hrekur burt myrkrið!
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2002
  • Hverjir fylgja ljósi heimsins?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1993
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
w92 1.2. bls. 9-14

„Ljósið er komið í heiminn“

„En þessi er dómurinn: Ljósið er komið í heiminn, en menn elskuðu myrkrið fremur en ljósið.“ — JÓHANNES 3:19.

1. Hvers vegna ættu allir að hafa áhuga á dómi Guðs?

FÆSTIR nútímamenn gera sér miklar áhyggjur af dómi Guðs. Sumir ganga að því sem gefnum hlut að Guð muni fella yfir þeim hagstæðan dóm ef þeir sækja kirkju reglulega og gera náunga sínum ekki mein. Í hugum margra hafa kenningar kristna heimsins um brennandi helvíti og hreinsunareld gert heildarhugmyndina um dóm Guðs afar tortryggilega. En útbreitt sinnuleysi og lygar kristna heimsins fá ekki breytt þeirri staðreynd að hver maður mun um síðir hljóta dóm af hendi Guðs. (Rómverjabréfið 14:12; 2. Tímóteusarbréf 4:1; Opinberunarbókin 20:13) Og margt er undir þessum dómi komið. Þeir sem fá hagstæðan dóm hljóta eilíft líf sem gjöf frá Guði en þeir sem hljóta óhagstæðan dóm munu taka út að fullu laun syndarinnar: dauða. — Rómverjabréfið 6:23.

2. Hver er grundvöllurinn að dómi Guðs?

2 Sannkristnir menn hafa því mikinn áhuga á dómi Guðs og leggja sig einlæglega fram um að þóknast honum. Hvernig geta þeir gert það? Jesús svarar því í Jóhannesi 3:19. Hann segir: „Þessi er dómurinn: Ljósið er komið í heiminn, en menn elskuðu myrkrið fremur en ljósið, því að verk þeirra voru vond.“ Já, dómur Guðs mun byggjast á því hvort við elskum ljósið fremur en myrkrið.

„Guð er ljós“

3. Hvað er myrkrið og hvað er ljósið?

3 Í andlegum skilningi er myrkur tengt þeirri fáfræði og vonleysi sem ríkir í heimi Satans — þótt Satan komi oft fram í „ljósengilsmynd.“ (2. Korintubréf 4:4; 11:14; Efesusbréfið 6:12) Ljós er á hinn bóginn tengt skilningi og upplýsingu sem kemur frá Jehóva Guði. Páll talaði um ljósið er hann skrifaði: „Því að Guð, sem sagði: ‚Ljós skal skína fram úr myrkri!‘ — hann lét það skína í hjörtu vor, til þess að birtu legði af þekkingunni á dýrð Guðs, eins og hún skín frá ásjónu Jesú Krists.“ (2. Korintubréf 4:6) Andlegt ljós er svo nátengt Jehóva Guði að Jóhannes postuli skrifaði: „Guð er ljós.“ — 1. Jóhannesarbréf 1:5; Opinberunarbókin 22:5.

4. (a) Hvernig hefur Jehóva gert ljósið aðgengilegt? (b) Hvernig getum við sýnt að við elskum ljósið?

4 Jehóva hefur gefið mönnum aðgang að ljósinu með því að senda þeim orð sitt, sem nú á dögum er auðfáanlegt í rituðu máli í heilagri Biblíu. (Sálmur 119:105; 2. Pétursbréf 1:19) Sálmaritarinn var því í raun að tjá kærleika sinn til ljóssins er hann skrifaði: „Hve mjög elska ég lögmál þitt, allan liðlangan daginn íhuga ég það. Sál mín varðveitir reglur þínar, og þær elska ég mjög.“ (Sálmur 119:97, 167) Elskar þú ljósið jafnheitt og sálmaritarinn greinilega gerði? Lest þú orð Guðs reglulega, hugleiðir það og leggur þig fram við að fara eftir því sem það segir? (Sálmur 1:1-3) Ef þú gerir það ert þú að keppa eftir hagstæðum dómi af hendi Jehóva.

‚Ég er ljós heimsins‘

5. Að hverjum beinist ljós Guðs fyrst og fremst?

5 Lífgefandi ljós frá Jehóva beinist fyrst og fremst að manninum Jesú Kristi. Í inngangsorðum Jóhannesarguðspjalls lesum við: „Í honum [Jesú] var líf, og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því [„myrkrið hefur ekki yfirbugað það,“ NW].“ (Jóhannes 1:4, 5) Svo náið samfélag hefur Jesús við ljósið að hann er kallaður „hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann.“ (Jóhannes 1:9) Jesús sjálfur sagði: „Meðan ég er í heiminum, er ég ljós heimsins.“ — Jóhannes 9:5.

6. Hvað þarf að gera til að hljóta hagstæðan dóm sem leiðir til eilífs lífs?

6 Þeir sem elska ljósið elska þess vegna Jesú og trúa á hann. Það er óhugsandi að hljóta hagstæðan dóm óháð Jesú. Já, það er aðeins með því að horfa til hans sem hjálpræðisleiðar Guðs að við getum hlotið hagstæðan dóm. Jesús sagði: „Sá sem trúir [„iðkar trú,“ NW] á soninn, hefur eilíft líf, en sá sem óhlýðnast syninum, mun ekki sjá líf, heldur varir reiði Guðs yfir honum.“ (Jóhannes 3:36) En hvað merkir það að iðka trú á Jesú?

7. Trú á hvern annan gefur trú á Jesú til kynna?

7 Í fyrsta lagi sagði Jesús sjálfur: „Sá sem trúir á mig, trúir ekki á mig, heldur þann sem sendi mig, og sá sem sér mig, sér þann er sendi mig. Ég er ljós í heiminn komið, svo að enginn, sem á mig trúir, sé áfram í myrkri.“ (Jóhannes 12:44-46) Þeir sem elska Jesú og iðka trú á hann verða líka að bera djúpan kærleika til Guðs og föður Jesú, Jehóva, og trúa á hann. (Matteus 22:37; Jóhannes 20:17) Hver sem notar nafn Jesú í tilbeiðslu sinni en veitir Jehóva ekki enn meiri virðingu sýnir ekki ósvikinn kærleika til ljóssins. — Sálmur 22:28; Rómverjabréfið 14:7, 8; Filippíbréfið 2:10, 11.

‚Höfðingi lífsins‘ frá Guði

8. Hvernig beindist ljós Guðs að Jesú jafnvel áður en hann fæddist sem maður?

8 Að iðka trú á Jesús innifelur líka að viðurkenna til fullnustu hlutverk hans í tilgangi Jehóva. Lögð var áhersla á mikilvægi þessa hlutverks þegar engillinn sagði Jóhannesi: „Vitnisburður Jesú er andi spádómsgáfunnar.“ (Opinberunarbókin 19:10; Postulasagan 10:43; 2. Korintubréf 1:20) Allir spádómar innblásnir af Guði, allt frá fyrsta spádóminum í Eden, varða hlutverk Jesú í framvindu tilgangs Guðs þegar grannt er skoðað. Eins sagði Páll kristnum Galötum að lagasáttmálinn væri „tyftari vor, þangað til Kristur kom.“ (Galatabréfið 3:24) Lagasáttmálinn til forna var til þess gerður að búa þjóðina undir komu Jesú sem Messíasar. Ljós frá Jehóva beindist því fyrst og fremst að Jesú jafnvel áður en hann fæddist sem maður.

9. Hvað hefur frá árinu 33 falist í því að elska ljósið?

9 Árið 29 bauð Jesús sig fram til skírnar, var smurður með heilögum anda og varð þannig hinn fyrirheitni Messías. Árið 33 dó hann sem fullkominn maður, var reistur upp, steig upp til himna og bar þar fram verðmæti lífs síns fyrir syndir okkar. (Hebreabréfið 9:11-14, 24) Þessi atburðarás markaði straumhvörf í samskiptum Guðs við menn. Jesús var núna ‚höfðingi lífsins,‘ ‚hann er leiddi menn til hjálpræðis,‘ ‚höfundur og fullkomnari trúarinnar.‘ (Postulasagan 3:15; Hebreabréfið 2:10; 12:2; Rómverjabréfið 3:23, 24) Frá árinu 33 hafa unnendur ljóssins gert sér ljóst og viðurkennt að „ekki er hjálpræðið í neinum öðrum. Og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld, sem getur frelsað oss.“ — Postulasagan 4:12.

10. Hvers vegna er svo mikilvægt að hlusta á orð Jesú og hlýða þeim?

10 Það að iðka trú á Jesú merkir líka að viðurkenna hann sem „Orðið“ og ‚undraráðgjafa.‘ (Jóhannes 1:1; Jesaja 9:6) Það sem Jesús segir endurspeglar alltaf sannleika Guðs. (Jóhannes 8:28; Opinberunarbókin 1:1, 2) Það er spurning um líf og dauða fyrir okkur að hlusta á hann. Jesús sagði Gyðingum sinnar samtíðar: „Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim, sem sendi mig, hefur eilíft líf og kemur ekki til dóms, heldur er hann stiginn yfir frá dauðanum til lífsins.“ (Jóhannes 5:24) Á fyrstu öld okkar tímatals var þeim sem fóru eftir orðum Jesú bjargað frá myrkrinu í heimi Satans og segja má að þeir hafi lifnað. Þeir voru lýstir réttlátir með það fyrir augum að verða samerfingjar með honum að ríkinu á himnum. (Efesusbréfið 1:1; 2:1, 4-7) Það að hlýða orðum Jesú opnar mörgum nútímamönnum leið til að verða lýstir réttlátir og eiga í vændum að lifa af Harmagedón og öðlast fullkomið líf sem menn í nýjum heimi. — Opinberunarbókin 21:1-4; samanber Jakobsbréfið 2:21, 25.

„Höfuðið yfir öllu“

11. Hvaða vald var Jesú gefið árið 33?

11 Eftir upprisu sína opinberaði Jesús fylgjendum sínum enn eina hlið ljóssins. Hann sagði: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu.“ (Matteus 28:18) Jesús var þannig upphafinn yfir allt annað í alheimsskipulagi Jehóva. Páll skýrir það nánar er hann segir: „[Guð] vakti [Jesú] frá dauðum og lét hann setjast sér til hægri handar í himinhæðum, ofar hverri tign og valdi og mætti, ofar öllum herradómi og sérhverju nafni, sem nefnt er, ekki aðeins í þessari veröld, heldur og í hinni komandi. Allt hefur hann lagt undir fætur honum og gefið hann kirkjunni sem höfuðið yfir öllu. En kirkjan er líkami hans.“ (Efesusbréfið 1:20-23; Filippíbréfið 2:9-11) Frá árinu 33 hefur það að elska ljósið falið í sér að viðurkenna þessa háu stöðu Jesú.

12. Hvað hafa smurðir kristnir menn fúslega viðurkennt frá upphafi og hvernig hafa þeir sýnt það í verki?

12 Að því kemur að allt mannkynið mun þurfa að viðurkenna vald Jesú. (Matteus 24:30; Opinberunarbókin 1:7) Þeir sem unna ljósinu hafa hins vegar fúslega viðurkennt það allt frá upphafi. Smurðir meðlimir kristna safnaðarins viðurkenna Jesú sem „höfuð líkamans, kirkjunnar,“ eða safnaðarins. (Kólossubréfið 1:18; Efesusbréfið 5:23) Um leið og þeir verða hluti af þeim líkama eru þeir ‚frelsaðir frá valdi myrkursins og fluttir inn í ríki hins elskaða sonar Guðs.‘ (Kólossubréfið 1:13) Þaðan í frá fylgja þeir einlæglega forystu Jesú á öllum sviðum lífsins, og á okkar tímum hafa þeir kennt hinum ‚öðrum sauðum‘ að gera það líka. (Jóhannes 10:16) Eitt meginskilyrði fyrir því að hljóta hagstæðan dóm er að viðurkenna yfirráð Jesú.

13. Hvenær hóf Jesús að beita valdi sínu sem konungur Guðsríkis og til hvers hefur það leitt hér á jörð?

13 Jesús byrjaði ekki að beita valdi sínu til fulls strax eftir að hann var stiginn upp til himna árið 33. Þótt hann væri höfuð kristna safnaðarins beið hann með að fara með fullt vald yfir mannkyninu í heild uns rétti tíminn væri kominn. (Sálmur 110:1; Postulasagan 2:33-35) Sá tími rann upp árið 1914 er Jesús var krýndur sem konungur Guðsríkis og ‚hinir síðustu dagar‘ þessa heims hófust. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Frá 1919 hefur samansöfnun þeirra sem eftir voru af hinum smurðu komist á lokastig. Einkanlega frá 1935 hefur Jesús verið að skilja mannkynið sundur í ‚sauði,‘ sem munu erfa ‚ríkið sem þeim var búið frá grundvöllun heims,‘ og ‚hafra‘ sem munu „fara til eilífrar refsingar“ eða afnáms. — Matteus 25:31-34, 41, 46.

14. Hvernig hefur hinn mikli múgur sýnt kærleika til ljóssins og hvað mun það hafa í för með sér fyrir hann?

14 Það er gleðilegt að fram skuli hafa komið fjölmargir sauðir núna á síðustu dögum. Þeir hafa komið fram í milljónatali sem mikill múgur „af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum.“ Líkt og félagar þeirra, hinir smurðu, unna þessir sauðumlíku menn ljósinu. Þeir hafa „þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins“ og þeir hrópa hárri röddu: „Hjálpræðið heyrir til Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu.“ Sökum þessa mun múgurinn mikli sem hópur fá hagstæðan dóm. Þeir sem mynda hann munu ‚koma úr þrengingunni miklu‘ og lifa af eyðinguna er kemur í Harmagedónstríðinu yfir þá sem elska myrkrið. — Opinberunarbókin 7:9, 10, 14.

„Börn ljóssins“

15. Hvernig sýna verk okkar undirgefni við konunginn, Jesú Krist?

15 En, þegar til framkvæmdanna kemur, hvernig lúta þá þeir sem unna ljósinu, bæði hinir smurðu og hinir aðrir sauðir, Jesú sem krýndum konungi Guðs og dómara? Ein leiðin er sú að reyna að vera þess konar menn sem Jesús hefur velþóknun á. Meðan Jesús var á jörðinni sýndi hann að hann kynni að meta eiginleika svo sem einlægni, innileik og eldmóð gagnvart sannleikanum, og sjálfur var hann fordæmi til eftirbreytni á því sviði. (Markús 12:28-34, 41-44; Lúkas 10:17, 21) Ef við þráum hagstæðan dóm verðum við að þroska með okkur slíka eiginleika.

16. Hvers vegna er lífsnauðsynlegt að leggja af verk myrkursins?

16 Þetta er sérstaklega áríðandi því að myrkrið í heimi Satans verður æ svartara eftir því sem endirinn nálgast. (Opinberunarbókin 16:10) Orð Páls til Rómverjanna eiga því mjög vel við: „Liðið er á nóttina og dagurinn í nánd. Leggjum því af verk myrkursins og klæðumst hertygjum ljóssins. Framgöngum sómasamlega eins og á degi, ekki í ofáti né ofdrykkju, ekki í saurlífi né svalli, ekki í þrætu né öfund.“ (Rómverjabréfið 13:12, 13) Eilíft líf er gjöf frá Guði en það hversu ósvikin trú okkar og kærleikur til ljóssins er birtist í verkum okkar. (Jakobsbréfið 2:26) Þess vegna er sá dómur, sem við hljótum, að miklu leyti undir því kominn í hvaða mæli við iðkum góð verk og forðumst vond verk.

17. Hvað merkir það að ‚íklæðast Drottni Jesú Kristi‘?

17 Eftir að Páll hefur gefið leiðbeiningar sínar í Rómverjabréfinu 13:12, 13 heldur hann áfram: „Íklæðist heldur Drottni Jesú Kristi, og alið ekki önn fyrir holdinu.“ (Rómverjabréfið 13:14) Hvað merkir það að ‚íklæðast Drottni Jesú Kristi‘? Það merkir að kristnir menn ættu að feta nákvæmlega í fóspor Jesú, leitast við að líkjast Kristi og íklæðast, ef svo má að orði komast, fordæmi hans og viðhorfum. „Til þessa eruð þér kallaðir,“ sagði Pétur. „Því að Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor.“ — 1. Pétursbréf 2:21.

18. Hvaða róttækar breytingar geta verið nauðsynlegar til að hljóta hagstæðan dóm?

18 Þetta hefur oft haft í för með sér róttækar breytingar í lífi kristins manns. „Eitt sinn voruð þér myrkur,“ sagði Páll, „en nú eruð þér ljós í Drottni. Hegðið yður eins og börn ljóssins. — Því að ávöxtur ljóssins er einskær góðvild, réttlæti og sannleikur.“ (Efesusbréfið 5:8, 9) Hver sá sem iðkar verk myrkursins elskar ekki ljósið og hlýtur ekki hagstæðan dóm nema hann breyti sér.

„Þér eruð ljós heimsins“

19. Á hvaða mismunandi vegu getur kristinn maður endurkastað ljósinu?

19 Það að elska ljósið merkir loks að endurkasta ljósinu þannig að aðrir geti séð það og laðast að því. „Þér eruð ljós heimsins,“ sagði Jesús og bætti við: „Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna, að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar, sem er á himnum.“ (Matteus 5:14, 16) Hin góðu verk kristins manns fela í sér að sýna hvers kyns gæsku, réttlæti og sannleika, því að slík góð breytni er kröftugur vitnisburður um sannleikann. (Galatabréfið 6:10; 1. Pétursbréf 3:1) Þau fela sérstaklega í sér að tala við aðra um sannleikann. Nú á dögum merkir það að taka þátt í að prédika „þetta fagnaðarerindi um ríkið . . . um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar.“ Það merkir líka að heimsækja aftur með þolinmæði þá sem sýna áhuga, nema Biblíuna með þeim og hjálpa þeim síðan að vinna þau verk sem tilheyra ljósinu. — Matteus 24:14; 28:19, 20.

20. (a) Hve skært skín ljósið núna? (b) Hvaða ríkulegra blessana njóta þeir sem taka á móti ljósinu?

20 Svo er kostgæfri prédikun trúfasta, kristinna manna að þakka að fagnaðarerindið heyrist á okkar dögum í liðlega 200 löndum og ljósið skín skærar en nokkru sinni fyrr. Jesús sagði: „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins.“ (Jóhannes 8:12) Það er mikil gleði að geta átt hlutdeild í uppfyllingu þessa fyrirheits! Líf okkar er svo miklu auðugara núna eftir að við hættum að vanmegnast í myrkrinu í heimi Satans. Og framtíðarhorfur okkar eru stórkostlegar er við hlökkum til að hljóta hagstæðan dóm af hendi dómara Jehóva. (2. Tímóteusarbréf 4:8) Það væri afskaplega sorglegt ef við létum berast aftur út í myrkrið, eftir að hafa komist inn í ljósið, og hlytum óhagstæðan dóm. Í næstu grein munum við fjalla um hvernig við getum haldið okkur sterkum í trúnni.

Getur þú svarað?

◻ Hver er grundvöllurinn að dómi Guðs?

◻ Hvaða aðalhlutverki gegnir Jesús í sambandi við tilgang Guðs?

◻ Hvernig sýnum við að við séum undirgefin Jesú sem krýndum konungi Jehóva?

◻ Hvernig getum við sannað að við séum „börn ljóssins“?

◻ Á hvaða veg skín ljósið skærar en nokkru sinni fyrr í þessum myrka heimi?

[Mynd á blaðsíðu 11]

Að því kemur að allt mannkyn mun verða að viðurkenna vald Jesú.

[Mynd á blaðsíðu 13]

Við sýnum að við elskum ljósið þegar við endurspeglum það til annarra.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila