Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w95 1.7. bls. 23-27
  • Mikill múgur sannra tilbiðjenda — hvaðan eru þeir komnir?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Mikill múgur sannra tilbiðjenda — hvaðan eru þeir komnir?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Hverjir eru ‚þjónar Guðs vors‘?
  • Hinir ‚aðrir sauðir‘ — eru þeir kristnir menn af þjóðunum?
  • Virðing fyrir yfirráðum Guðsríkis
  • ‚Múgurinn mikli‘ — hvað verður um hann?
  • Hvaða framtíð bíður sauðanna og hafranna?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1996
  • Styðjum bræður Krists dyggilega
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2015
  • Spurningar frá lesendum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
  • Breyttu tafarlaust í samræmi við „táknið“!
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
w95 1.7. bls. 23-27

Mikill múgur sannra tilbiðjenda — hvaðan eru þeir komnir?

„Sjá: Mikill múgur, . . . af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum. Þeir stóðu frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu.“ — OPINBERUNARBÓKIN 7:9.

1. Af hverju eru spádómssýnir Opinberunarbókarinnar mjög áhugaverðar fyrir okkur núna?

UNDIR lok fyrstu aldar okkar tímatals sá Jóhannes postuli stórkostlega atburði í sýnum sem tengdust tilgangi Jehóva. Sumt af því sem hann sá er að uppfyllast núna. Annað á að uppfyllast í náinni framtíð. Allar þessar sýnir snúast um það er hinn stórkostlegi tilgangur Jehóva að helga nafn sitt frammi fyrir allri sköpuninni nær áhrifamiklu hámarki. (Esekíel 38:23; Opinberunarbókin 4:11; 5:13) Auk þess snerta þær lífshorfur okkar allra. Hvernig þá?

2. (a) Hvað sá Jóhannes postuli í fjórðu sýn sinni? (b) Hvaða spurningar um þessa sýn fjöllum við um?

2 Í fjórðu sýn Opinberunarbókarinnar sá Jóhannes engla halda aftur af eyðingarvindum uns ‚þjónar Guðs vors‘ höfðu fengið innsigli á enni sér. Síðan sá hann mjög spennandi framvindu — ‚mikinn múg, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum‘ sameinaðan í að tilbiðja Jehóva og heiðra son hans. Jóhannesi var sagt að þetta væru menn sem koma myndu úr þrengingunni miklu. (Opinberunarbókin 7:1-17) Hverjir eru kallaðir ‚þjónar Guðs vors‘? Og hverjir mynda hinn ‚mikla múg‘ sem lifir þrenginguna af? Verður þú einn þeirra?

Hverjir eru ‚þjónar Guðs vors‘?

3. (a) Hvaða líkingu notaði Jesús í Jóhannesi 10:1-18 um samband sitt við fylgjendur sína? (b) Hvað gerði Jesús sauðum sínum kleift með fórnardauða sínum?

3 Um fjórum mánuðum fyrir dauða sinn talaði Jesús um sjálfan sig sem ‚góða hirðinn‘ og fylgjendur sína sem „sauði“ er hann legði líf sitt í sölurnar fyrir. Hann minntist sérstaklega á sauði sem hann fann í táknrænu sauðabyrgi og tók síðan að annast af alúð. (Jóhannes 10:1-18)a Í kærleika sínum lagði Jesús sál sína eða líf í sölurnar fyrir sauðina og greiddi þar með lausnargjaldið sem þurfti til að frelsa þá undan synd og dauða.

4. Hverjum er fyrst safnað saman sem sauðum í samræmi við orð Jesú?

4 En áður en góði hirðirinn Jesús gerði það safnaði hann sjálfur saman lærisveinum. Jóhannes skírari, sem var „dyravörðurinn“ í dæmisögu Jesú, leiddi þá fyrstu til hans. Jesús var að leita að fólki sem myndi grípa tækifærið til að verða hluti hins samsetta ‚afkvæmis Abrahams.‘ (1. Mósebók 22:18; Galatabréfið 3:16, 29) Hann kenndi því að meta himnaríkið mikils og fullvissaði það um að hann ætlaði að búa því stað í húsi föður síns á himnum. (Matteus 13:44-46; Jóhannes 14:2, 3) Hann sagði þess vegna: „Frá dögum Jóhannesar skírara og til þessa er himnaríkið það markmið sem menn keppa að og þeir sem keppa að því höndla það.“ (Matteus 11:12, NW) Þeir sem fylgdu Jesú til að ná þessu markmiði reyndust vera í sauðabyrginu sem hann talaði um.

5. (a) Hverjir eru kallaðir ‚þjónar Guðs vors‘ í Opinberunarbókinni 7:3-8? (b) Hvað sýnir að margir fleiri myndu fylkja sér með hinum andlegu Ísraelsmönnum í tilbeiðslu þeirra?

5 Í Opinberunarbókinni 7:3-8 er líka talað um þá sem keppa að og ná þessu himneska markmiði, og þar eru þeir kallaðir ‚þjónar Guðs vors.‘ (Sjá 1. Pétursbréf 2:9, 16.) Eru þessir 144.000, sem þar eru nefndir, aðeins Gyðingar að holdinu? Eru einungis Gyðingar í sauðabyrginu táknræna í samlíkingu Jesú? Alls ekki; þessir 144.000 tilheyra andlegum Ísrael Guðs og eru allir félagar með Kristi í andlegu afkvæmi eða sæði Abrahams. (Galatabréfið 3:28, 29; 6:16; Opinberunarbókin 14:1, 3) Sá tími kæmi auðvitað að hinni fastákveðnu tölu yrði náð. Hvað þá? Eins og Biblían sagði fyrir myndu aðrir — mikill múgur — slást í lið með þessum andlegu Ísraelsmönnum í tilbeiðslunni á Jehóva. — Sakaría 8:23.

Hinir ‚aðrir sauðir‘ — eru þeir kristnir menn af þjóðunum?

6. Hvaða framvindu bendir Jóhannes 10:16 á?

6 Eftir að hafa nefnt eitt sauðabyrgi í Jóhannesi 10:7-15 nefndi Jesús annan hóp til sögunnar og sagði: „Ég á líka aðra sauði, sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.“ (Jóhannes 10:16) Hverjir eru þessir ‚aðrir sauðir‘?

7, 8. (a) Af hverju er sú hugmynd að hinir aðrir sauðir séu kristnir menn af þjóðunum reist á röngum forsendum? (b) Hvaða staðreyndir um tilgang Guðs með jörðina ættu að hafa áhrif á skilning okkar á því hverjir hinir aðrir sauðir eru?

7 Biblíuskýrendur kristna heimsins taka yfirleitt þá afstöðu að þessir sauðir séu kristnir menn af þjóðunum, og að þeir sem eru í áðurnefndu sauðabyrgi séu Gyðingar, sem voru undir lagasáttmálanum, og að báðir hóparnir fari til himna. En Jesús var fæddur Gyðingur og var sem slíkur undir lagasáttmálanum. (Galatabréfið 4:4) Þeir sem telja hina aðra sauði vera kristna menn af þjóðunum er verði umbunað með lífi á himnum, taka auk þess ekki með í reikninginn mikilvægan þátt í tilgangi Guðs. Þegar Jehóva skapaði fyrstu mennina og setti þá í Edengarðinn kom skýrt fram sá tilgangur hans að jörðin yrði byggð mönnum, að hún yrði öll paradís og að mennirnir, sem önnuðust hana, fengju að lifa að eilífu — að því tilskildu að þeir virtu skapara sinn og hlýddu honum. — 1. Mósebók 1:26-28; 2:15-17; Jesaja 45:18.

8 Tilgangur Jehóva varð ekki að engu við það að Adam syndgaði. Í kærleika sínum gerði hann ráðstafanir til að afkomendur Adams fengju tækifæri til að öðlast það sem Adam kunni ekki að meta. Jehóva sagði fyrir að hann myndi vekja upp frelsara, sæði eða afkvæmi sem yrði öllum þjóðum til blessunar. (1. Mósebók 3:15; 22:18) Þetta fyrirheit fól ekki í sér að allir góðir menn á jörðinni færu til himna. Jesús kenndi fylgjendum sínum að biðja: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:9, 10) Skömmu áður en Jesús kom með líkinguna, sem skráð er í Jóhannesi 10:1-16, hafði hann sagt lærisveinum sínum að faðir hans hefði ákveðið að gefa aðeins ‚lítilli hjörð‘ himnaríkið. (Lúkas 12:32, 33) Þegar við lesum líkinguna þar sem Jesús kallar sig góða hirðinn er leggur sál sína eða líf í sölurnar fyrir sauðina, væru það mistök að horfa fram hjá meirihluta þeirra sem Jesús sýnir ástríka umhyggju, þeim sem verða jarðneskir þegnar hins himneska ríkis hans. — Jóhannes 3:16.

9. Hvað skildu Biblíunemendurnir strax árið 1884 um hina aðra sauði?

9 Strax árið 1884 benti Varðturninn á að hinir aðrir sauðir væru menn sem fengju tækifæri til að lifa hér á jörð við aðstæður sem samræmdust upphaflegum tilgangi Guðs. Biblíunemendurnir skildu á þeim tíma að sumir þessara annarra sauða væru menn sem hefðu lifað og dáið áður en Jesús þjónaði á jörðinni. Hins vegar skildu þeir ekki allt rétt. Til dæmis héldu þeir að samansöfnun hinna annarra sauða myndi eiga sér stað eftir að allir hinir smurðu hefðu hlotið himneska umbun sína. Þeim var samt fullljóst að hinir aðrir sauðir voru ekki einfaldlega kristnir menn af þjóðunum. Bæði Gyðingar og aðrir, fólk af öllum þjóðum og kynþáttum, eiga möguleika á að verða í hópi hinna annarra sauða. — Samanber Postulasöguna 10:34, 35.

10. Hvað verðum við að gera til að Jesús geti litið á okkur sem aðra sauði sína?

10 Til að samsvara lýsingu Jesú verða hinir aðrir sauðir, óháð kynþætti eða þjóðerni, að viðurkenna Jesú Krist sem góða hirðinn. Hvað þýðir það? Þeir verða að vera auðmjúkir eða hógværir og fúsir til að láta leiða sig en það eru einkenni sauða. (Sálmur 37:11) Líkt og litla hjörðin verða þeir að „þekkja raust“ góða hirðisins og ekki leyfa öðrum, sem reyna kannski að hafa áhrif á þá, að leiða sig burt. (Jóhannes 10:4; 2. Jóhannesarbréf 9, 10) Þeir verða að skilja mikilvægi þess sem Jesús gerði er hann lagði sál sína eða líf í sölurnar fyrir sauðina, og trúa fullkomlega á þá ráðstöfun. (Postulasagan 4:12) Þeir verða að „heyra“ raust góða hirðisins er hann hvetur þá til að veita Jehóva einum heilaga þjónustu, halda áfram að leita fyrst Guðsríkis, halda sér aðgreindum frá heiminum og sýna hver öðrum óeigingjarnan kærleika. (Matteus 4:10; 6:31-33; Jóhannes 15:12, 13, 19) Á þessi lýsing á þeim sem Jesús álítur aðra sauði sína við þig? Vilt þú að hún geri það? Öllum sem verða aðrir sauðir Jesú býðst sannarlega dýrmætt samband við hann!

Virðing fyrir yfirráðum Guðsríkis

11. (a) Hvað sagði Jesús um sauðina og hafrana á nærverutíma sínum? (b) Hverjir eru bræðurnir sem Jesús talaði um?

11 Nokkrum mánuðum eftir að Jesús kom með áðurnefnda líkingu var hann aftur staddur í Jerúsalem. Er hann sat á Olíufjallinu og horfði yfir musterissvæðið gaf hann lærisveinum sínum ítarlegar upplýsingar um ‚tákn nærveru sinnar og endaloka veraldar.‘ (Matteus 24:3) Aftur talaði hann um að safna saman sauðum. Hann sagði meðal annars: „Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu. Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum, og hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum. Sauðunum skipar hann sér til hægri handar, en höfrunum til vinstri.“ Í þessari dæmisögu sýndi Jesús að þeir sem konungurinn beindi athyglinni að yrðu dæmdir eftir því hvernig þeir kæmu fram við ‚bræður‘ hans. (Matteus 25:31-46) Hverjir eru þessir bræður? Þeir eru andagetnir kristnir menn sem eru þar af leiðandi „Guðs synir.“ Jesús er frumgetinn sonur Guðs. Þess vegna eru þeir bræður Krists. Þeir eru ‚þjónar Guðs vors,‘ sem nefndir eru í Opinberunarbókinni 7:3, útvaldir úr hópi mannanna til að vera með Kristi í himnesku ríki hans. — Rómverjabréfið 8:14-17, NW.

12. Af hverju skiptir framkoma fólks við bræður Krists miklu máli?

12 Framkoma annarra við þessa erfingja Guðsríkis skiptir geysimiklu máli. Lítur þú þá sömu augum og Jesús Kristur og Jehóva gera? (Matteus 24:45-47; 2. Þessaloníkubréf 2:13) Afstaða manns til þessara smurðu þjóna Guðs endurspeglar afstöðu hans til Jesú Krists sjálfs og til föður hans sem er alheimsdrottinn. — Matteus 10:40; 25:34-46.

13. Að hvaða marki skildu Biblíunemendurnir dæmisöguna um sauðina og hafrana árið 1884?

13 Í ágústhefti Varðturnsins árið 1884 var réttilega á það bent að „sauðirnir“ í þessari dæmisögu væru þeir sem hefðu þá framtíðarvon að öðlast fullkomleika á jörðinni. Þar kom einnig fram sá skilningur að dæmisagan hlyti að eiga við þann tíma er Kristur ríkti frá dýrlegu hásæti sínu á himnum. En á þeim tíma skildu Biblíunemendurnir samt ekki greinilega hvenær hann myndi hefja aðgreininguna, sem þar er lýst, eða hve langan tíma hún tæki.

14. Hvernig hjálpaði mótsræða árið 1923 Biblíunemendunum að skilja hvenær spádómleg dæmisaga Jesú átti að uppfyllast?

14 Árið 1923 skýrði J. F. Rutherford, þáverandi forseti Varðturnsfélagsins, uppfyllingartíma dæmisögunnar um sauðina og hafrana í mótsræðu. Á hvaða forsendum? Meðal annars þeim að dæmisagan sýnir að bræður Krists — í það minnsta sumir þeirra — væru enn á jörðinni þegar uppfyllingin hæfist. Meðal manna gátu einungis andagetnir fylgjendur Jesú kallast bræður hans. (Hebreabréfið 2:10-12) Þeir yrðu ekki á jörðinni allt þúsundáraríkið þannig að fólk hefði þá tækifæri til að gera þeim gott eins og Jesús lýsti. — Opinberunarbókin 20:6.

15. (a) Hvaða framvinda hjálpaði Biblíunemendunum að bera rétt kennsl á sauðina í dæmisögu Jesú? (b) Hvernig hafa sauðirnir sýnt að þeir meti Guðsríki mikils?

15 Í þessari ræðu árið 1923 var reynt að bera kennsl á þá sem samsvara lýsingu Drottins á sauðunum og höfrunum, en menn urðu að skilja ýmis önnur atriði áður en þeir gátu skilið til fulls hvað dæmisagan fjallar um. Á næstu árum vakti Jehóva athygli þjóna sinna stig af stigi á þessum mikilvægu atriðum. Árið 1927 skildu þeir til dæmis greinilega að hinn „trúi og hyggni þjónn“ væri allur hópur andasmurðra kristinna manna á jörðinni, og árið 1932 varð þeim ljóst að sauðirnir þyrftu að taka óttalausa afstöðu með smurðum þjónum Jehóva, eins og Jónadab fylgdi Jehú að málum. (Matteus 24:45; 2. Konungabók 10:15) Á þeim tíma voru þessir sauðumlíku menn sérstaklega hvattir út frá Opinberunarbókinni 22:17 til að taka þátt í að bera boðskapinn um Guðsríki til annarra. Svo mikils myndu þeir meta Messíasarríkið að þeir sýndu smurðum þjónum Drottins ekki bara mannúð og góðvild heldur vígðu Jehóva líf sitt fyrir milligöngu Krists, tengdust smurðum þjónum hans nánum böndum og tækju kostgæfilega þátt í sama verki og þeir. Gerir þú það? Konungurinn segir þeim sem gera það: „Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims.“ Þeir eiga þær stórkostlegu framtíðarhorfur að öðlast eilíft líf í fullkomleika á jarðnesku yfirráðasvæði Guðsríkis. — Matteus 25:34, 46.

‚Múgurinn mikli‘ — hvað verður um hann?

16. (a) Hvaða ranghugmyndir höfðu Biblíunemendurnir í fyrstu um múginn mikla í Opinberunarbókinni 7:9? (b) Hvenær og með hliðsjón af hverju voru viðhorf þeirra leiðrétt?

16 Um skeið héldu þjónar Jehóva að múgurinn mikli í Opinberunarbókinni 7:9, 10 væri annar hópur en hinir aðrir sauðir í Jóhannesi 10:16 og sauðirnir í Matteusi 25:33. Biblían segir að þeir ‚standi frammi fyrir hásætinu‘ þannig að talið var að þeir væru á himnum, ekki í hásætum sem samerfingjar og meðstjórnendur Krists, heldur lægra settur hópur frammi fyrir hásætinu. Álitið var að þessir kristnu menn væru ekki eins trúfastir og hinir, menn sem sýndu ekki sanna fórnfýsi. Árið 1935 var þetta viðhorf leiðrétt.b Rannsókn á Opinberunarbókinni 7:9 með hliðsjón af textum svo sem Matteusi 25:31, 32, sýndi greinilega að fólk hér á jörðinni gat verið „frammi fyrir hásætinu.“ Einnig var bent á að Guð hafi ekki tvenns konar staðla á trúfesti. Allir, sem vilja njóta velþóknunar hans, verða að varðveita ráðvendni við hann. — Matteus 22:37, 38; Lúkas 16:10.

17, 18. (a) Hvað orsakaði hina miklu aukningu þeirra sem hlakka til eilífs lífs á jörðinni, einkum frá 1935? (b) Hvaða mikilvægu starfi tekur múgurinn mikli kostgæfilega þátt í?

17 Fólk Jehóva hafði í mörg ár talað um fyrirheit hans með jörðina. Vegna væntinga sinna á þriðja áratug aldarinnar boðuðu þeir að ‚milljónir núlifandi manna myndu aldrei deyja.‘ En á þeim tíma tóku engar milljónir við lífsráðstöfunum Guðs. Heilagur andi vakti von um líf á himnum í brjósti flestra sem tóku við sannleikanum. En sérstaklega eftir 1935 varð greinileg breyting þar á. Ekki svo að skilja að Varðturninn hafi ekki tekið mið af voninni um eilíft líf á jörðinni. Um áratuga skeið höfðu þjónar Jehóva talað um hana og haft augun opin fyrir þeim sem samsvöruðu lýsingu Biblíunnar á þessum einstaklingum. En á tilsettum tíma sá Jehóva til þess að þeir kæmu fram á sjónarsviðið.

18 Fyrirliggjandi gögn sýna að um árabil tóku flestir sem sóttu minningarhátíðina af brauðinu og víninu. En innan við 25 árum eftir 1935 var aðsóknin að hinni árlegu minningarhátíð um dauða Krists orðin ríflega hundraðföld miðað við tölu þeirra sem neyttu brauðsins og vínsins. Hverjir voru það sem komu en tóku ekki af brauðinu og víninu? Þeir sem yrðu hluti múgsins mikla. Tími Jehóva var greinilega kominn til að safna þeim saman og búa þá undir að komast lifandi gegnum þrenginguna miklu sem er rétt framundan. Eins og sagt var fyrir eru þeir „af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum.“ (Opinberunarbókin 7:9) Þeir taka kostgæfir þátt í því verki sem Jesús spáði er hann sagði: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ — Matteus 24:14.

[Neðanmáls]

a Ítarlega og nýlega umfjöllun um sauðabyrgin í 10. kafla Jóhannesarguðspjalls er að finna í Varðturninum 1. ágúst 1984, bls. 7-17, og í enskri útgáfu blaðsins 15. febrúar 1984, bls. 31.

b Varðturninn (ensk útgáfa) 1. og 15. ágúst 1935.

Hvert er svar þitt?

◻ Af hverju er sýnin í 7. kafla Opinberunarbókarinnar sérstaklega áhugaverð?

◻ Hvers vegna takmarkast hinir aðrir sauðir í Jóhannesi 10:16 ekki við kristna menn af þjóðunum?

◻ Hvað verða menn að gera til að samsvara lýsingu Biblíunnar á hinum öðrum sauðum?

◻ Hvernig leggur dæmisagan um sauðina og hafrana áherslu á virðingu fyrir yfirráðum Guðsríkis?

◻ Hvað sýnir hvenær tími Jehóva kom til að safna saman múginum mikla í Opinberunarbókinni 7:9?

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila