Sláðu ekki vindhögg
1. Hvernig heimfærum við 1. Korintubréf 9:26 á boðunarstarfið?
1 Páll postuli skrifaði: „Þess vegna hleyp ég ekki stefnulaust. Ég berst eins og hnefaleikamaður sem engin vindhögg slær.“ (1. Kor. 9:26) Páll vísaði hér til þess hve einbeittur hann var og að hann missti ekki sjónar á verðugum markmiðum sínum. Í meginatriðum eiga þessi orð líka við um boðunarstarfið. Við viljum ekki slá „vindhögg“, eða sóa kröftum okkar, heldur viljum við nýta þá svo að þeir komi að sem bestum notum. Hvernig gerum við það?
2. Hvernig getum við líkt eftir Páli og öðrum trúboðum á fyrstu öld þegar við ákveðum hvar og hvenær við störfum?
2 Förum þangað sem fólk er: Bæði Páll og aðrir trúboðar á fyrstu öldinni störfuðu þar sem þeir bjuggust við að hitta fólk. (Post. 5:42; 16:13; 17:17) Ef margir á starfssvæði okkar eru heima á kvöldin gæti það verið besti tíminn til þess að starfa hús úr húsi. Er margt fólk við strætisvagnabiðstöðvar snemma á morgnana eða seinni part dags þegar það er á leið í eða úr vinnu? Hvenær eru viðskiptasvæði iðandi af fólki? Það gæti borið góðan árangur að vera í götustarfinu á þeim tímum.
3. Hvernig getum við forðast að ,hlaupa stefnulaust‘ um starfssvæðin?
3 Störfum skipulega á svæðinu: Við ættum heldur ekki að ,hlaupa stefnulaust‘ yfir starfssvæðin. Ef starfshópurinn er stór ætti að skipuleggja starfið vel. Það gæti til dæmis verið betra að skipta hópnum í stað þess að fara með alla á sama svæðið. Þannig nýtist tíminn líka betur. Þegar farið er í sveitastarf er hægt að fara hraðar yfir svæðið og fá fleiri tækifæri til þess að hefja samtöl ef það eru ekki of margir í sama bíl. Geturðu fengið starfssvæði nálægt heimili þínu til þess að stytta ferðatíma?
4. Hvernig getum við náð betri árangri í boðunarstarfinu?
4 Jesús líkti þeim sem boða fagnaðarerindið við veiðimenn. (Mark. 1:17) Markmið veiðimannsins er ekki einungis að kasta neti í vatn heldur að veiða fisk. Farsælir fiskimenn fara þess vegna þangað sem þeir reikna með að finna fisk og hefja veiðar samstundis. Þeir slá svo sannarlega ekki vindhögg. Sýnum þess konar vinnusemi í starfinu. – Hebr. 6:11.