Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w13 15.2. bls. 13-16
  • Vitnað fyrir lífvarðarsveitinni

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Vitnað fyrir lífvarðarsveitinni
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2013
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • POSTULINN PRÉDIKAR „TÁLMUNARLAUST“
  • PÁLL VITNAR FYRIR HÁUM OG LÁGUM
  • „AÐ TALA ORÐ GUÐS ÓTTALAUST“
  • „Hann … vitnaði ítarlega“
    Vitnum ítarlega um ríki Guðs
  • Að verja fagnaðarerindið frammi fyrir háttsettum embættismönnum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2016
  • Boðið ríki Jehóva með djörfung!
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2013
w13 15.2. bls. 13-16

Vitnað fyrir lífvarðarsveitinni

[Mynd á bls. 13]

Ferðalúnir hermenn eru á leið inn í Rómaborg með hóp af föngum. Þetta er árið 59 e.Kr. Þeir ganga inn um borgarhlið sem nefnist Porta Capena. Höll Nerós keisara gnæfir efst á Palatínhæð. Hennar er gætt af sveit lífvarða sem fela sverð sín undir skikkjunni.a Júlíus hundraðshöfðingi fer með fangana fram hjá Forum Romanum og sem leið liggur upp á Vimínalhæð. Þeir ganga með fram garði þar sem standa fjölmörg ölturu helguð rómverskum guðum, og síðan fram hjá stórum velli sem notaður er til hersýninga og þjálfunar.

[Mynd á bls. 13]

Lágmynd af hermönnum lífvarðarins, talin vera af Kládíusarboganum sem var reistur árið 51.

Páll postuli er einn fanganna. Nokkrum mánuðum áður hefði engill Guðs birst honum þar sem hann var á skipi í ólgusjó og sagt við hann: „Fyrir keisarann átt þú að koma.“ (Post. 27:24) Er stundin nú runnin upp? Meðan hann horfir í kringum sig í höfuðborg Rómaveldis verður honum eflaust hugsað til þess sem Drottinn Jesús sagði við hann í Antoníusarturninum í Jerúsalem. „Vertu hughraustur!“ sagði Jesús. „Svo sem þú hefur vitnað um mig í Jerúsalem eins ber þér og að vitna í Róm.“ – Post. 23:10, 11.

Páll nemur ef til vill staðar og virðir fyrir sér lífvarðarhöllina, Castra Praetoria. Þetta er stórt og mikið virki með háum múrum úr rauðum tígulsteini. Ofan á múrnum eru turnar og brjóstvörn. Virkið er aðsetur lögreglu borgarinnar og lífvarðarsveitarinnar sem gætir keisarans. Í lífverðinum eru 12 sveitirb og þar eru að auki nokkrar borgarsveitir. Virkið rúmar þúsundir hermanna, þar á meðal riddaralið. Lífvarðarhöllin minnir fólk á vald keisarans. Lífvarðarsveitin ber einnig ábyrgð á föngum frá skattlöndum Rómar og því fer Júlíus með hópinn inn í Rómaborg. Að baki er nokkurra mánaða háskalegt ferðalag en nú er hann loksins kominn með fangana á áfangastað. – Post. 27:1-3, 43, 44.

POSTULINN PRÉDIKAR „TÁLMUNARLAUST“

Páll hafði séð sýnir á leiðinni til Rómar þar sem hann fékk að vita að öll áhöfnin myndi lifa af skipbrot. Hann var bitinn af eitruðum höggormi en varð ekki meint af. Hann læknaði sjúka á eynni Möltu og heimamenn álitu hann vera guð. Vera má að fréttir af þessum atburðum hafi verið á sveimi meðal lífvarðarins og þar voru menn hjátrúarfullir.

Bræður frá Róm höfðu komið til móts við Pál „allt til Appíusartorgs og Þríbúða“. (Post. 28:15) En hann var fangi. Hvernig gat hann boðað fagnaðarerindið í Róm eins og hann langaði til? (Rómv. 1:14, 15) Sumir telja að farið hafi verið með fangana til foringja lífvarðarins. Sé það rétt hefur Páll líklega verið leiddur fyrir Afranius Burrus en hann mun hafa gengið keisaranum næstur að völdum.c En það eru ekki hundraðshöfðingjar sem gæta Páls heldur einn óbreyttur hermaður úr lífvarðarsveitinni. Páli er leyft að leigja sér eigið húsnæði, taka á móti gestum og prédika fyrir þeim „tálmunarlaust“. – Post. 28:16, 30, 31.

Lífvarðarsveitin á dögum Nerós

[Mynd á bls. 14]

Peningur frá fyrstu öld með mynd af búðum lífvarðarsveitarinnar.

Lífverðir keisarans unnu eið að því að vernda hann og fjölskyldu hans. Í stríði báru þeir gunnfána með táknmyndum keisarans og skjöld skreyttan sporðdrekamyndum en það var stjörnumerki Tíberíusar keisara. Þeim var skipað í sveitir sem voru undir stjórn foringja og hundraðshöfðingja. Þeir héldu uppi lögum og reglu í hringleikahúsum og leikhúsum, auk þess að aðstoða slökkvilið borgarinnar. Lífverðir gátu sest í helgan stein eftir 16 ár en almenn herþjónusta stóð venjulega í 25 ár. Þeir fengu þreföld laun hermanna, ágæta kaupauka og ríkuleg eftirlaun. Lífverðir voru einnig látnir pynda og lífláta fanga. Vera má að það hafi verið hermenn, eins og þeir sem Páll reyndi að bjarga, sem tóku hann af lífi eftir að honum var varpað í fangelsi í Róm í síðara skiptið. – 2. Tím. 4:16, 17.

Með góðfúslegu leyfi Classical Numismatic Group, Inc./​cngcoins.com

PÁLL VITNAR FYRIR HÁUM OG LÁGUM

[Mynd á bls. 15]

Múrar Castra Praetoria eins og þeir líta út núna.

Burrus kann að hafa spurt Pál um mál hans, annaðhvort í búðum lífvarðarins eða í höllinni, áður en hann leggur málið fyrir Neró. Páll grípur þetta einstaka tækifæri til að „vitna bæði fyrir háum og lágum“. (Post. 26:19-23) Við vitum ekki hvort Burrus mat Pál sekan eða saklausan en honum er að minnsta kosti hlíft við fangavist í búðum lífvarðarins.d

Leiguhúsnæði Páls var nægilega rúmgott til að hann gæti tekið á móti „helstu mönnum Gyðinga“ og vitnað fyrir þeim. Auk þess komu „mjög margir til hans þar sem hann dvaldi“. Hermennirnir, sem gæta Páls, komast ekki hjá því að heyra hann vitna fyrir Gyðingum „frá morgni til kvölds“ um ríki Guðs og Jesú. – Post. 28:17, 23.

[Mynd á bls. 15]

Hermenn heyrðu Pál lesa fyrir bréf meðan hann var fangi í Róm.

Skipt er daglega um vörð í höllinni á áttundu stundu dags. Páll fær líklega nýjan fangavörð á hverjum degi. Þau tvö ár, sem hann er í haldi, heyra hermenn hann lesa fyrir bréfin til safnaðanna í Efesus, Filippí og Kólossu og til kristinna Hebrea. Þeir sjá hann skrifa með eigin hendi bréf til trúbróður síns sem heitir Fílemon. Meðan Páll er fangi liðsinnir hann strokuþrælnum Onesímusi. Hann kallar hann ,barnið sitt sem hann hafi getið í fjötrum sínum‘ og sendir hann aftur til húsbónda síns. (Fílem. 10) Páll sýnir eflaust einnig áhuga á vörðunum sem gæta hans. (1. Kor. 9:22) Við getum séð hann fyrir okkur spyrja hermann um hlutverk hinna ýmsu hluta herklæðanna sem hann ber og nota síðan upplýsingarnar sem efni í prýðisgóða líkingu. – Ef. 6:13-17.

„AÐ TALA ORÐ GUÐS ÓTTALAUST“

Þeir sem búa í lífvarðarhöllinni hafa tengsl út um allt Rómaveldi og jafnframt við keisarann og heimili hans sem er æði fjölmennt. Þarna eru skyldmenni keisarans, þjónar og þrælar, og sumt af þessu fólki tekur kristna trú. Fangavist Páls er því „fagnaðarerindinu til eflingar“, bæði meðal lífvarðarsveitarinnar og annarra. (Fil. 1:12, 13; 4:22) Með því að boða trúna með djörfung er Páll trúsystkinum sínum í Róm hvatning til að „tala orð Guðs óttalaust“. – Fil. 1:14.

[Mynd á bls. 16]

Hverjar sem aðstæður okkar eru getum við fengið tækifæri til að vitna fyrir þeim sem veita okkur þjónustu af ýmsu tagi.

Boðun Páls í Róm er okkur einnig hvatning til að boða orðið hvort sem aðstæður eru góðar eða ekki. (2. Tím. 4:2) Sumir á meðal okkar eiga ekki heimangengt, eru á elliheimili, spítala eða sitja jafnvel í fangelsi vegna trúarinnar. Hverjar sem aðstæður okkar eru getum við gripið tækifærið og boðað þeim trúna sem koma til okkar í sjúkravitjun eða til að veita ýmiss konar þjónustu. Þegar við vitnum hugrökk eftir því sem tækifæri gefst sjáum við með eigin augum að „orð Guðs verður ekki fjötrað“. – 2. Tím. 2:8, 9.

Sextus Afranius Burrus

[Mynd á bls. 16]

Áletrun með nafninu Sextus Afranius Burrus.

Burrus fæddist sennilega í Vaison-la-Romaine sem nú er í suðurhluta Frakklands. Nafn hans fannst þar á steintöflu árið 1884. Árið 51 var hann skipaður æðsti yfirmaður lífvarðarsveitarinnar. Það var Agrippína yngri, eiginkona og frænka Kládíusar keisara, sem var þar að verki. Agrippína bjó Neró, yngri son sinn, undir það að gegna keisaraembætti og fékk til liðs við sig tvo einkakennara. Annar þeirra var Burrus en hann var virtur hermaður og þjálfaði Neró í hernaði. Hinn kennarinn var heimspekingurinn Seneca sem hafði það verkefni að þroska vitsmuni hans. Þegar tækifæri gafst lét Agrippína eitra fyrir manni sínum. Burrus fylgdi Neró til Castra Praetoria og lét lífvarðarsveitina lýsa hann keisara áður en fréttist af dauða Kládíusar. Öldungaráðið átti því ekki annarra kosta völ en að samþykkja útnefningu hans. Burrus hylmdi yfir með Neró þegar hann lét myrða móður sína árið 59. Rómversku sagnaritararnir Svetóníus og Cassíus Dio halda því fram að Neró hafi látið eitra fyrir Burrusi árið 62.

Musée Calvet Avignon.

a Sjá rammagreinina „Lífvarðarsveitin á dögum Nerós“.

b Í rómverskri sveit voru allt að 1.000 hermenn.

c Sjá rammagreinina „Sextus Afranius Burrus“.

d Tíberíus keisari hneppti Heródes Agrippu í fangelsi í búðum lífvarðarins á árunum 36-37 en Heródes hafði látið í ljós þá ósk sína að Kalígúla tæki fljótlega við keisaraembætti. Þegar Kalígúla komst til valda launaði hann Heródesi með því að skipa hann konung. – Post. 12:1.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila