Kjarnorkuváin fjarlægð fyrir fullt og allt!
GUÐ vill ekki að menn búi við óhugnanlegan ótta. Sem „hinn hamingjusami Guð“ vill hann að þeir búi við frið og öryggi — í stuttu máli að þeir séu hamingjusamir. (1. Tímóteusarbréf 1:11, NW) Í heimi, sem fullur er af kjarnorkuvá, er það greinilega ógerningur.
‚Friður og öryggi‘ — tálvon
Það ætti að vera öllum augljóst að kjarnorkuváin er langt frá því að vera liðin hjá. Þrátt fyrir pólitískan, efnahagslegan og félagslegan óróa virðast þjóðirnar samt bjartsýnar þegar á heildina er litið. Stöðug viðleitni til að bægja hættunni frá hefur verið greinileg síðan árið 1986 sem var alþjóðlegt friðarár Sameinuðu þjóðanna.
Tímaritið The Bulletin of the Atomic Scientists hefur á síðasta áratug fært vísinn á dómsdagsklukku sinni — aðferð þess til að sýna líkurnar á kjarnorkustyrjöld — frá 3 mínútum fyrir miðnætti aftur til 17 mínútna fyrir miðnætti. Árið 1989 sagði Alþjóðafriðarrannsóknarstofnunin í Stokkhólmi að „von um friðsamlega úrlausn deilumála standi traustari fótum en nokkurn tíma frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar.“
Á síðustu árum hafa Sameinuðu þjóðirnar verið efldar til að taka á málum á vandræðasvæðum víða um heim. Þótt árangurinn hafi ekki verið fullkominn hefur hann nægt til að ýta undir almenna bjartsýni. Búast má við frekari tímamótaárangri. Yfirlýsingar um „frið og öryggi“ verða líklega háværari og ákafari. Þær kunna jafnvel að verða trúverðugri.
En gættu að! „Þegar menn segja: ‚Friður og engin hætta,‘“ varar Biblían við, „þá kemur snögglega tortíming yfir þá, eins og jóðsótt yfir þungaða konu. Og þeir munu alls ekki undan komast.“ Þannig verða yfirlýsingar um ‚frið og öryggi‘ merki um að kominn sé tími Guðs „til að eyða þeim, sem [með kjarnorkumengun eða annarri mengun] jörðina eyða.“ — 1. Þessaloníkubréf 5:3, 4; Opinberunarbókin 11:18.
Taktu eftir að Biblían segir ekki að þjóðirnar muni koma á ‚friði og öryggi.‘ Þær munu, að því er virðist, tala um það á einstakan hátt, láta í ljós von og sannfæringu sem menn hafa ekki fundið fyrir fram að því. Horfurnar á að koma á friði og öryggi munu sýnast betri en nokkru sinni fyrr. Þrátt fyrir áframhaldandi kjarnorkuvá munu þjóðirnar láta sefa sig til falskrar öryggiskenndar.
Sannkristnir menn láta hins vegar ekki blekkjast. Með miklum áhuga líta þeir lengra en friður og öryggi manna nær. Þeir líta til þess sem betra er.
Friður og öryggi — sem ekki bregst
Samkvæmt Sálmi 4:9 er sannan frið og öryggi aðeins að finna innan fyrirkomulags Jehóva Guðs: „Í friði leggst ég til hvíldar og sofna, því að þú, [Jehóva], lætur mig búa óhultan í náðum.“ Hver sú yfirlýsing um „frið og öryggi,“ sem gefin er úr samhengi við ríki Jehóva, getur aðeins veitt tálvon. Hún getur ekki áorkað neinu sem hefur varanlegt gildi.
Guðsríki undir stjórn Krists lætur sér ekki nægja hálfkák. Stjórn frá Guði mun gera meira en fækka kjarnavopnum; hún mun útrýma þeim algerlega og öllum öðrum stríðstólum. Sálmur 46:10 lofar: „Hann stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar, brýtur bogann, slær af oddinn, brennir skjöldu í eldi.“
Á sama hátt mun kjarnorkuvá, sem til er orðin vegna bilaðra kjarnakljúfa eða kjarnorkuúrgangs, heyra sögunni til. Að öðrum kosti reyndust þessi orð ósönn: „Hver mun búa undir sínu víntré og undir sínu fíkjutré og enginn hræða þá. Því að munnur [Jehóva] allsherjar hefir talað það.“ Guð getur ekki logið. Við höfum enga ástæðu til að draga orð hans í efa. — Míka 4:4; Títusarbréfið 1:2.
Myndir þú njóta þess að eiga þá von að lifa í heimi sem laus er við kjarnorkuvá fyrir fullt og allt? Þú getur það vegna þess að orð Guðs sýnir greinilega hver skilyrðin fyrir því eru. Með því að fræðast um þau og lifa samkvæmt því kann þér dag einn að veitast sú ánægja að geta sagt með feginsandvarpi: „Kjarnorkuváin er loksins liðin hjá!“
[Mynd á blaðsíðu 7]
Friður mun ríkja í nýjum heimi Guðs án þess að þar sé nokkur kjarnorkuvá.
[Rétthafi]
M. Thonig/H. Armstrong Roberts
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 6]
Mynd frá Þjóðskjalasafni Bandaríkjanna