„Nærður af orði trúarinnar“
1 Við þurfum að leggja okkur mikið fram til að lifa guðrækilega. (1. Tím. 4:7-10) Ef við reyndum það í eigin mætti myndum við fljótt lýjast og okkur myndi skriðna fótur. (Jes. 40:29-31) Ein leið til að fá styrk frá Jehóva er að vera „nærður af orði trúarinnar“. — 1. Tím. 4:6.
2 Nærandi andleg fæða: Jehóva notar orð sitt og ‚hinn trúa og hyggna þjón‘ til að sjá okkur fyrir ríkulegri andlegri fæðu. (Matt. 24:45) Leggjum við okkur fram um að hafa gagn af henni? Lesum við daglega í Biblíunni? Tökum við frá tíma fyrir einkanám og íhugun? (Sálm. 1:2, 3) Heilnæmar andlegar venjur endurnæra okkur og vernda gegn illum áhrifum frá heimi Satans. (1. Jóh. 5:19) Jehóva er með okkur ef við nærum huga okkar á því sem er heilnæmt og förum eftir því í lífi okkar. — Fil. 4:8, 9.
3 Jehóva styrkir okkur einnig með safnaðarsamkomum. (Hebr. 10:24, 25) Andlegar leiðbeiningar og heilnæmur félagsskapur á samkomum veita okkur styrk til að vera staðföst í prófraunum. (1. Pét. 5:9, 10) Kristin unglingsstúlka sagði: „Ég er í skólanum allan liðlangan daginn og það gerir mig niðurdregna. En samkomurnar eru eins og vin í eyðimörkinni, þar sem ég fæ hressingu sem hjálpar mér til að takast á við næsta skóladag.“ Við fáum svo sannarlega blessun fyrir að leggja okkur fram við að sækja samkomur.
4 Boðun sannleikans: Boðunarstarfið var sem matur fyrir Jesú og veitti honum kraft. (Jóh. 4:32-34) Við endurnærumst einnig þegar við tölum við aðra um stórkostleg loforð Guðs. Með því að vera önnum kafin í boðunarstarfinu beinum við huga okkar og hjarta að Guðsríki og þeim blessunum sem eru rétt fram undan. Það er svo sannarlega hressandi. — Matt. 11:28-30.
5 Það er mikill heiður að fá að njóta hinnar ríkulegu andlegu fæðu sem Jehóva sér fólki sínu fyrir nú á dögum. Við skulum halda áfram að fagna af hjartans gleði, honum til lofs. — Jes. 65:13, 14.