Unglingar — eruð þið andlega framsæknir?
„Stunda þetta, ver allur í þessu, til þess að framför þín sé öllum augljós.“ — 1. TÍMÓTEUSARBRÉF 4:15.
1, 2. Hvað merkir það að vera andlega framsækinn og hvað merkir það ekki?
HVAÐ merkir það að vera andlega framsækinn? Það merkir að hafa sama viðhorf og Jesús og Tímóteus höfðu á unga aldri, að láta andleg mál ganga fyrir öðru í lífinu. Ef þú ert andlega framsækinn veist þú hvernig þú vilt verja lífi þínu. Þú segir ekki: ‚Ég skal hugsa alvarlega um að þjóna Jehóva þegar ég verð eldri.‘ Þú munt þjóna honum núna!
2 Sá sem vill vaxa andlega þarf aftur á móti ekki að lifa hálfgerðu munkalífi, setja upp helgisvip eða gerast algjör bókaormur; hann þarf ekki heldur að ganga um með sorgar- eða alvörusvip og vera ófélagslyndur. (Jóhannes 2:1-10) Jehóva er hamingjusamur Guð og vill að jarðnesk börn hans séu hamingjusöm. Hann hefur því ekkert á móti hóflegri þátttöku í íþróttum eða annarri afþreyingu. — 1. Tímóteusarbréf 1:11; 4:8.
Skírn er merki framfara
3. Hvenær var Tímóteus líklega skírður?
3 Undirbúningur fyrir skírn og skírnin sjálf er merki þess að unglingur sé andlega framsækinn. Ef Tímóteus var enn á táningaaldri þegar hann gerðist ferðafélagi Páls postula, eins og ætla má, hefur hann trúlega látið skírast á aldrinum 14 til 17 ára. Hann hafði verið fræddur í Ritningunni frá blautu barnsbeini og hikaði ekki við að láta skírast eftir að hafa aflað sér viðhlítandi þekkingar á sannleikanum og lært að meta hann. — 2. Tímóteusarbréf 3:15.
4. Hvaða spurning var lögð fyrir Filippus þótt fyrirspyrjandinn væri þá nýbúinn að fræðast um Krist, og hvers vegna varð Filippus við ósk hans?
4 Hvað um ykkur unglingana sem hafið verið fræddir í Ritningunni? Hafið þið hugleitt hvað hindri ykkur í að láta skírast? Á fyrstu öldinni var þessi spurning borin fram af manni sem var vel heima í Ritningunni en var nýbúinn að uppgötva hver Kristur var. Að vísu þekkti maðurinn ekki tilgang Guðs til hlítar, en hann mat mjög mikils það sem hann vissi! Filippus hafði því enga réttmæta ástæðu til að skíra hann ekki. — Postulasagan 8:26-39.
5. Hvaða kröfur þarf að uppfylla til að láta skírast?
5 Hvað hindrar þig í að láta skírast? Til að vera hæfur til skírnar þarft þú að sjálfsögðu að skilja hvað í skírninni felst. Þú þarft í einlægni að vilja þjóna Jehóva vegna kærleika til hans. Þú þarft líka að vígjast honum persónulega í bæn. Auk þess þarft þú að halda þér við siðferðiskröfur Biblíunnar og hafa næga reynslu í að segja öðrum frá trú þinni. Þegar þú uppfyllir þessar kröfur er mikilvægt að þú stígir skrefið til fulls og látir skírast. — Matteus 28:19, 20; Postulasagan 2:38.
6. Við hvað má líkja skírninni og hvað þarf að fylgja í kjölfar hennar?
6 Þótt skírn sé merki þess að þú sért andlega framsækinn skalt þú muna að skírnin er aðeins frumskref. Með því að vígjast Jehóva verður þú eins og útlendingur í þessum gamla heimi undir stjórn Satans. Það má líkja vígslu við það að sækja um eilíft líf í nýrri skipan Guðs og skírnarathöfnin er eins konar yfirlýsing í votta viðurvist um að þú hafir sent inn slíka umsókn. (Jóhannes 12:31; Hebreabréfið 11:13) Eftir skírnina verður þú að lifa trúfastur samkvæmt vígsluheiti þínu til að hljóta þá Guðs gjöf sem eilíft líf er. — Rómverjabréfið 6:23.
Hegðun þín ber þér vitni
7. Hvernig er andleg heilsa þín tengd viðhorfi til þess sem í heiminum er?
7 Viðhorf þín til þess sem tilheyrir heiminum munu líka bera vitni um hvort þú sért andlega framsækinn. Hvað er það sem honum tilheyrir? Meðal annars líferni sem tekur ekkert mið af viðurkenndum siðferðisreglum, fíkniefni, „frjálst“ kynlíf, siðlausar kvikmyndir, djörf tónlist, klúrt málfar, lostafullur dans, kynþáttafordómar, þjóðernishroki og svo framvegis. (1. Jóhannesarbréf 2:16; Efesusbréið 5:3-5) Einkum unglingar þurfa að vera vel á verði. Munið að hegðun ykkar í þessum efnum leiðir í ljós á hvaða stigi andlegt heilsufar ykkar er. — Orðskviðirnir 20:11.
8. Hvers vegna hika sumir unglingar við að láta skírast?
8 Satan sér til þess að siðlausir hættir heimsins virðast mjög eftirsóknarverðir. Fimmtán ára unglingur sagði: „Því meira sem við sjáum af kynlífi og fíkniefnum í sjónvarpinu, þeim mun eðlilegra finnst manni það vera í þjóðfélaginu.“ Unglingar, sem ekki taka þátt í háttarlagi heimsins, fá á tilfinninguna að þeir séu eitthvað skrýtnir eða verði af einhverju gamni og skemmtun. Hefur þú slíkt á tilfinningunni? Sumir, sem hafa tengsl við söfnuðinn, gera það og vita ekki alveg í hvoru fótinn þeir eiga að stíga. Aðspurður hvað honum fyndist um að láta skírast sagði unglingur: ‚Ég vil ekki láta skírast núna því að ég kynni að gera eitthvað sem ég yrði rekinn fyrir.‘ En það er ekki hægt að leika tveim skjöldum eða haltra til beggja hliða. Spámaður Guðs sagði einu sinni: „Sé [Jehóva] hinn sanni Guð, þá fylgið honum, en ef Baal er það, þá fylgið honum.“ — 1. Konungabók 18:21.
9. Hvaða vernd er fólgin í því að vera andlega framsækinn?
9 Það einasta sem þú „missir af,“ með því að forðast siðlausa hætti heimsins, eru erfiðleikar í tonnatali. „Það sótti á mig óstjórnlegur viðbjóður og samviskubit vegna þess lífs sem ég hafði lifað,“ sagði kona. „Ég hafði auvirt og svikið sjálfa mig og barnið, sem ég bar undir belti.“ Já, allur sá glaumur og glys, sem heimur Satans virðist bjóða upp á, er einungis sjónhverfing, blekking. Hann veitir mönnum ekkert sem hefur varanlegt gildi. Að ganga vegu heimsins hefur í för með sér þungun utan hjónabands, sundruð heimili, samræðissjúkdóma og ólýsanleg vonbrigði og eymd. Því skalt þú leggja eyrun við þeim ráðum sem þú færð og vera andlega framsækinn. ‚Sneiddu hjá illu og gjörðu gott.‘ — 1. Pétursbréf 3:11.
10. Hvaða leiðbeiningum og hvers fordæmi fylgja andlega framsæknir unglingar?
10 Andlega framsækinn unglingur fer eftir áminningarorðum Páls postula: „Verið . . . sem ungbörn í illskunni, en fullorðnir í dómgreind.“ (1. Korintubréf 14:20) Ljóst er að hinn ungi Tímóteus fór eftir þessu ráði. Getur þú ímyndað þér hann leita sér félagsskapar lauslátra, veraldlegra unglinga samtíðar sinnar? Auðvitað ekki! Allir vinir hans og félagar voru þjónar Guðs. (Orðskviðirnir 13:20) Líktu eftir fordæmi hans. Áður en þú gerir eitthvað sem er vafasamt eða varhugavert skaltu spyrja þig: Hefði Tímóteus eða Jesús gert þetta?
Biblíunám sýnir framsækni
11. (a) Hvað getur ungt fólk í heiminum ekki séð? (b) Hvernig öðlast menn framtíðarvon og hvernig er hægt að viðhalda henni?
11 Í grein frá Ítalíu, sem birtist í tímaritinu World Press Review, sagði: „Hugvilla og örvænting unglinga vex dag frá degi og enginn getur bent þeim á uppörvandi framtíðarhorfur.“ Þeir sem eru í heimi Satans eru blindaðir svo að þeir sjá ekki hinn fyrirheitna nýja heim Guðs og þá dýrlegu framtíð sem bíður þeirra er sýna sig hæfa til að búa þar. (2. Korintubréf 4:4; Orðskviðirnir 29:18; 2. Pétursbréf 3:13) En andlega framsæknir unglingar sjá hina nýju heimsskipan greinilega fram undan, og þeir næra von sína með reglulegu námi í Biblíunni.
12. (a) Hvað þarf að gera til að afla sér þekkingar um Guð? (b) Hvers vegna er þessi þekking þess virði að afla sér hennar?
12 Er nýr heimur Guðs þér raunverulegur? Hann getur verið það en það kostar vissa viðleitni af þinni hálfu. Þú þarft að þroska með þér löngun til að skilja Biblíuna þannig að ‚þú leitir að skilningi sem að silfri og grafist eftir honum eins og fólgnum fjársjóðum.‘ (Orðskviðirnir 2:1-6) Hvað er það sem fær suma til að leita og grafa eftir fjársjóðum, jafnvel svo árum skiptir? Það er áfergja þeirra í þann auð sem fjársjóðurinn mun færa þeim. En þekking er miklum mun verðmætari en efnislegir fjársjóðir. „Það er hið eilífa líf,“ sagði Jesús, „að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Ef þú trúir því í alvöru sem Jesús sagði þarna verður þú áhugasamur og ákafur biblíunemandi. Það mun síðan veita þér sjóð sem er langtum verðmætari en dýrustu eðalsteinar. — Orðskviðirnir 3:13-18.
13. Hvaða tillögum varðandi nám og þekkingaröflun munu andlega framsæknir unglingar fylgja?
13 Þú munt komast að raun um að því meira sem þú nemur, þeim mun sterkari verður löngun þín í andlega fæðu. Temdu þér góðar námsvenjur. Gerðu meira en að strika undir svörin, flettu líka upp ritningarstöðum, sem vísað er til og skildum ritningargreinum með hjálp millivísana. Efnisskrár og innbundnir árgangar Varðturnsins geta hjálpað þér við frekari þekkingaröflun og rannsóknir. Íhugaðu hvernig efnið á við og hvernig þú getur notað það. Talaðu við aðra um það sem þú ert að nema. Ýmislegt mun þá festast betur í huga þér og auk þess munt þú hvetja aðra til að afla sér þekkingar líka. Ef þú leggur þig vel fram ert þú að fylgja því ráði sem hinum unga Tímóteusi voru gefin: „Stunda þetta, vera allur í þessu, til þess að framför þín sé öllum augljós.“ — 1. Tímóteusarbréf 4:15; 2. Tímóteusarbréf 2:15.
Kemur fram á samkomum og í boðunarstarfinu
14. Hvað getur hjálpað ungu fólki að hafa meira gagn af kristnum samkomum og hvernig er hægt að hvetja aðra á samkomunum?
14 Þegar þú nýtur þess að nema Biblíuna og undirbýrð þig vel verða kristnar samkomur ánægjulegri fyrir þig. (Sálmur 122:1; Hebreabréfið 2:12) Þá hlakkar þú enn meira til þess að taka beinan þátt í samkomunum með svörum og athugasemdum og flytja ræður í Guðveldisskólanum. En samkomurnar bjóða upp á fleiri möguleika til að fylgja þeirri áminningu að ‚uppörva hver annan‘ og ‚hvetja hver annan til kærleika og góðra verka.‘ (Hebreabréfið 10:24, 25) Átt þú frumkvæðið að því að tala við aðra? Það getur verið mjög hvetjandi þegar ungt fólk heilsar vingjarnlega („Sæll, gaman að sjá þig!“) eða spyr spurninga sem bera vott um umhyggju fyrir öðrum („Hvernig hefurðu það?“).
15. Hvernig getum við sýnt að við viljum vera til hjálpar og hvers vegna er gott að hafa fordæmi Krists í huga?
15 Starfræksla safnaðarins kostar mikla vinnu. Getur þú hlaupið undir bagga? Líklegt er að hinn ungi Tímóteus hafi veitt Páli hjálp og þjónustu á marga vegu — senst fyrir hann, aflað vista, flutt öðrum boð frá honum og svo framvegis. Ef þú hefur ekki þegar gert það gætir þú nefnt við öldungana að þú viljir gjarnan verða að liði. Kannski verður þú beðinn að útbýta verkefnablöðum fyrir Guðveldisskólann, að hjálpa til við hreingerningar í Ríkissalnum eða veita aðra nauðsynlega þjónustu. Hafðu í huga að Kristur þvoði fætur lærisveinanna þannig að ekkert starf er fyrir neðan virðingu þess sem er andlega framsækinn. — Jóhannes 13:4, 5.
16. Hvaða starf er kristnum mönnum falið að vinna og hvernig var það viðurkennt í kaþólsku tímariti?
16 Þegar við lítum á önnur trúfélög megum við vera þakklát fyrir þá kennslu og þjálfun sem við fáum á samkomunum fyrir prédikunarstarfið, en það er þýðingarmesta starf kristinna manna nú á tímum. Í september árið 1986 skrifaði Kenneth Guentert í blaðið U.S. Catholic: „Ég ólst upp á þeim tíma þegar kaþólskir áttu ekki að lesa Biblíuna af því að það gæti vakið hjá þeim undarlegar hugmyndir — svo sem þá að kristnir menn ættu að fara að ganga í hús til að reyna að snúa fólki til trúar. Þá kom annað Vatikanþingið og ég fór að lesa Biblíuna. Eins og við var að búast finnst mér núna að kristnir menn ættu að ganga í hús og reyna að snúa fólki til trúar.“ Hann bætti við: „Ekki svo að skilja að mér geðjist sérlega vel að þessari hugmynd, en ef menn lesa Nýjatestamentið er þessi niðurstaða nánast óumflýjanleg.“ — Matteus 10:11-13; Lúkas 10:1-6; Postulasagan 20:20, 21.
17. Hvað er hægt að gera til að þjónustan á akrinum verði ánægjulegri?
17 Já, frumkristnir menn tóku virkan þátt í prédikun hús úr húsi og ljóst er að ungt fólk eins og Tímóteus tók þátt í þjónustunni ásamt þeim sem eldri voru. En sumum þykir þetta ekki skemmtilegasta starf sem þeir geta hugsað sér. Hvers vegna? Kannski vegna þess að þeim finnst þeir ekki leiknir í því. Yfirleitt þykir mönnum skemmtilegra að stunda það sem þeir eru leiknir í, til dæmis ákveðna íþróttagrein eða leik. Hið sama gildir um þjónustuna. Eftir því sem þú verður leiknari í að nota Biblíuna og ræða um biblíuleg efni verður þjónustan ánægjulegri, einkum þegar þú finnur einhvern sem þú getur veitt hlutdeild í lífgefandi þekkingu! Vertu andlega framsækinn! Æfðu kynningarorð til að nota hús úr húsi. Fáðu tillögur frá öðrum og biddu Jehóva að hjálpa þér. — Lúkas 11:13.
Sést af sambandi þínu við þá sem eldri eru
18. Hvers konar samband áttu Jesús og Tímóteus við þá sem eldri voru?
18 Jesús var aðeins tólf ára þegar hann átti langar og ánægjulegar samræður um andleg efni við sér eldri menn. Foreldrar hans fundu hann einu sinni „í helgidóminum. Þar sat hann mitt á meðal lærifeðranna, hlýddi á þá og spurði þá.“ (Lúkas 2:46) Eins var það með Tímóteus. Þegar Páll postuli og félagar hans komu til Lýstru hafði Tímóteus greinilega ánægju af félagsskap þeirra og hlustaði með athygli á kennslu þeirra. Hann hafði góðan orðstír meðal bræðranna þar í borg og fékk mjög góð meðmæli frá þeim. — Postulasagan 16:1-3.
19. Hvers vegna valdi Páll Tímóteus fyrir ferðafélaga og hvernig var Tímóteus honum til hjálpar?
19 Þótt Tímóteus hafi verið fús til að þjóna öðrum með ýmiss konar móti kaus Páll hann fyrir ferðafélaga einkum vegna hæfni hans til að þjóna andlegum þörfum fólks. Þess vegna sendi Páll hinn unga Tímóteus til Þessaloníku til að hughreysta og styrkja hina nýju lærisveina eftir að múgur hafði neytt Pál til að yfirgefa borgina. Tímóteus hafði ekki bara gaman af að vera mér sér eldri bræðrum og læra af þeim; hann var þeim líka mikil hjálp í andlegum efnum. — Postulasagan 17:1-10; 1. Þessaloníkubréf 3:1-3.
20. Hvað er viturlegt af þér að gera og hvaða þjónustu getur þú veitt þeim sem eldri eru?
20 Það er viturlegt af þér að líkja eftir Jesú og Tímóteusi og vera ákafur að læra af reynslu og þekkingu þeirra sem eldri eru. Leitaðu eftir félagsskap þeirra og leggðu fyrir þá spurningar. En sýndu líka að þú sért andlega framsækinn með því að vera þeim til aðstoðar. Eru einhverjir aldraðir eða lasburða sem myndu vera þakklátir ef þú færir fyrir þá í verslun eða hjálpaðir þeim á annan hátt? Kannski getur þú bara heimsótt þá, lesið fyrir þá eða sagt þeim frá einhverju sem hefur drifið á daga þína í þjónustunni.
Hlutverk foreldra og annarra
21. Hve mikla þýðingu hefur fordæmi foreldranna og hvað er ekki hægt að undirstrika nógsamlega?
21 Andlegt heilbrigði unglinga er að verulegu leyti komið undir þeirri fræðslu og fordæmi sem foreldrarnir veita þeim. (Orðskviðirnir 22:6) Jesús hafði greinilega mikið gagn af handleiðslu guðhræddra, jarðneskra foreldra sinna. (Lúkas 2:51, 52) Og öruggt er að Tímóteus hefði ekki verið jafnframsækinn andlega og raun ber vitni, hefðu ekki móðir hans og amma uppfrætt hann vel. (2. Tímóteusarbréf 1:5; 3:15) Mikilvægi reglulegrar biblíufræðslu verður aldrei nógsamlega undirstrikað! Þið foreldrar, sjáið þið um að börnin fái hana eða vanrækið þið hana?
22. (a) Hvaða áhrif hefur það á börnin þegar foreldrarnir telja biblíunám mikilvægt? (b) Hvaða leiðbeiningar ber foreldrum að gefa börnum sínum?
22 Ungur maður, sem starfar á aðalstöðvum votta Jehóva, segir að á uppvaxtarárum sínum hafi vikulegt biblíunám með börnunum verið fastur þáttur fjölskyldulífsins. „Stundum var pabbi svo þreyttur eftir vinnuna að hann gat varla haldið sér vakandi, en námið var haldið þrátt fyrir það og það hjálpaði okkur að skilja hversu þýðingarmikið það væri.“ Það er ólíklegt að börnin læri að meta andleg mál mikils nema því aðeins að þið foreldrarnir gerið það. Haldið þeim fyrir hugskotssjónum markmiðum svo sem brautryðjandastarfi, trúboðsstarfi og þjónustu á Betel. Hjálpið þeim að meta að verðleikum að þjónustan er framtíðarstarf og að starfsframi í heiminum á enga framtíð fyrir sér. — Samanber 1. Samúelsbók 1:26-28.
23. Hvernig geta aðrir í söfnuðinum hjálpað unglingum að vera andlega framsæknir?
23 Aðrir geta líka hjálpað unglingunum að taka framförum andlega. Þið getið gert ykkur far um að ræða við þá á samkomunum. Reynið líka að hafa þá með í sumu af því sem þið takið ykkur fyrir hendur. Með leyfi foreldranna gæti öldungur tekið ungling með sér þegar hann fer í fyrirlestrar- eða útivistarferð. (Jobsbók 31:16-18) Smáu atriðin geta verið mikils virði. Farandumsjónarmaður veitti því athygli að piltur, sem hlýddi á ræðu hans, átti ekki biblíu, og gaf honum biblíu á eftir. Það hafði djúp áhrif á drenginn, ekki aðeins að fá Biblíuna, heldur líka að honum skyldi sýndur þessi áhugi. Núna, meira en þrem áratugum síðar er hann sjálfur orðinn öldungur, en hann minnist enn með þakklæti umhyggju þessa bróður.
24. Hvað er ánægjulegt umhugsunarefni og hver ætti að vera ásetningur okkar?
24 Það er ánægjulegt til þess að hugsa að ungir menn í hundruðþúsundatali skuli boða hinn hressandi boðskap um Guðsríki, og að í það minnsta jafnmargar ungar konur skuli mynda ‚mikinn her sem boðar fagnaðarerindið.‘ Megi þau öll leggja sig fram um að vaxa andlega og megum við öll hjálpa þeim að ná því marki. — Sálmur 110:3; 68:12.
Spurningar til upprifjunar
◻ Hvað getur hjálpað unglingi að ákveða sig hvenær hann láti skírast?
◻ Hvers vegna er hegðun unglings mælikvarði á það hvort hann sé andlega framsækinn?
◻ Hvað getur hjálpað unglingi að hafa ánægju af samkomum og þjónustunni á akrinum?
◻ Hvers konar samband ættu unglingar að þroska við þá sem eldri eru?
◻ Hvernig geta foreldrar og aðrir hjálpað unglingunum?
[Mynd á blaðsíðu 14]
Hvað hamlar þér að láta skírast?