Ertu skilningsríkur áheyrandi?
HUGSAÐU þér að þú hefðir efni á að gefa öllum vinum þínum dýra gjöf. Þeir yrðu eflaust mjög glaðir og þakklátir! En sannleikurinn er sá að þú getur gefið öðrum sérstaka gjöf sem kemur þeim í mjög góðar þarfir. Og það kostar þig ekki krónu. Hvað er það sem þú getur gefið? Athygli. Flestir þrá athygli og bregðast þakklátir við henni. En til að veita öðrum athygli þína í alvöru þarftu að vera skilningsríkur áheyrandi.
Ef þú átt börn, ert vinnuveitandi eða ert á annan hátt í þeirri aðstöðu að fólk leitar ráða og leiðbeininga hjá þér þarftu að vera skilningsríkur áheyrandi. Fólk finnur það fljótt ef þú ert það ekki og hættir að sýna þér trúnað.
Jafnvel þótt ekki sé oft leitað ráða hjá þér þarftu að geta hlustað með skilningi á fólk, til dæmis þegar vinur kemur til þín að leita huggunar eða hughreystingar. Eins og biblíuorðskviður segir getur það orðið manni til minnkunnar að hlusta ekki áður en hann talar. (Orðskviðirnir 18:13) Hvernig geturðu þá sýnt að þú sért skilningsríkur áheyrandi?
Sýndu fulla athygli
Hvað er skilningsríkur áheyrandi? Orðabók Menningarsjóðs skilgreinir orðið „skilningsríkur“: „Sem sýnir öðrum samúð og skilning.“ Önnur orðabók skilgreinir sögnina „að hlusta“ þannig: „Að hlýða á með íhygli og athygli.“ Skilningsríkur áheyrandi heyrir því ekki bara það sem annar segir. Hann gefur því gaum og setur sig inn í hugsanir og tilfinningar hins.
Þetta útheimtir að veita því fulla athygli sem maður heyrir, að leyfa ekki huganum að reika. Jafnvel það að hugsa um hvernig maður ætli að svara dregur úr athyglinni. Agaðu þig þannig að þú getir einbeitt þér að því sem hinn segir.
Horfðu beint á þann sem er að tala við þig. Ef þú lætur augun reika virðist þú áhugalítill. Fylgstu með tilburðum hans og látbragði. Brosir hann eða hleypir brúnum? Geisla augun af glettni, hryggð eða kvíða? Skiptir það máli sem hann lætur ósagt? Hafðu ekki áhyggjur af því hvernig þú eigir að svara; það kemur sjálfkrafa ef þú einbeitir þér að því að hlusta.
Þegar þú hlustar kinnkar þú líklega kolli og skýtur inn orðum svo sem „nújá“ og „ég skil.“ Það getur sýnt að þú fylgist með. En það er ekki hægt að þykjast hlusta með því að kinnka nógu oft kolli og skjóta inn upphrópunum. Ef þú kinnkar kolli í erg og gríð geturðu meira að segja óafvitandi sýnt að þú sért óþolinmóður. Það er eins og þú sért að segja: ‚Flýttu þér nú. Áfram með smjörið. Ljúktu þér af.‘
Þú þarft að minnsta kosti ekki að hugsa of mikið um áheyrnartækni. Hlustaðu bara með athygli, þá endurspegla viðbrögð þín einlægni.
Góðar spurningar bera líka vitni um að þú sýnir fulla athygli og fylgist með. Þær endurspegla áhuga. Spyrðu um nánari skýringu á því sem er ósagt eða óskýrt. Spyrðu spurninga sem hvetja viðmælanda þinn til að skýra mál sitt nánar og tjá sig frekar. Vertu ófeiminn við að grípa fram í af og til en gættu þess þó að það sé í hófi. Að skilja málið er hluti af því að hlusta. Ef þú grípur ekki fram í meira en góðu hófi gegnir skynjar viðmælandinn löngun þína til að skilja til fulls allt sem hann segir.
Sýndu skilning
Það er oft það erfiðasta, jafnvel þótt þú getir auðveldlega sett þig í spor viðmælanda þíns. Þegar einhver raunamæddur leitar til þín, ryður þú þá í hann tillögum með ákafa og bjartsýni? Segirðu honum í flýti að hann hafi það nú ekki svo slæmt í samanburði við þjáningar annarra? Það gæti virst hvetjandi en getur líka haft öfug áhrif.
Margt getur orðið þess valdandi að þú hafir tilhneigingu til að hætta að hlusta og farir að reyna að leysa málið. Kannski finnst þér að ákafar uppástungur þínar sé einmitt það sem þurfi til að létta lund hins niðurbeygða. Eða þér finnst það skylda þín að „lagfæra“ það sem er „að“ og að þú sért ekki hjálpsamur eða „standir þig ekki í stykkinu“ ef þú gerir það ekki.
En ef maður reynir að ryðja úr sér lausnum snemma í samtalinu er maður yfirleitt að senda fremur letjandi skilaboð svo sem þessi: ‚Mér finnst vandamálið miklu einfaldara en þú heldur fram,‘ eða: ‚Ég hef nú meiri áhuga orðstír mínum sem bjargvætti en vellíðan þinni,“ eða kannski: ‚Ég skil þetta bara ekki — og mig langar ekki til þess.‘ Samanburður á erfiðleikum hins raunamædda og einhvers annars sendir yfirleitt þessi skilaboð: ‚Þú ættir að skammast þín fyrir þessar áhyggjur; aðrir eru miklu verr settir en þú.‘
Ef þú sendir óafvitandi slík letjandi skilaboð, þá finnst vini þínum að þú hafir í rauninni ekki hlustað á hann, að hann nái ekki til þín. Honum finnst kannski að þú teljir þig yfir hann hafinn. Næst leitar hann hughreystingar hjá einhverjum öðrum. — Filippíbréfið 2:3, 4.
Hvað þá ef vinur þinn gerir sér óþarfar áhyggjur? Hann getur til dæmis verið með sektarkennd af tilefnislausu. Ættirðu að flýta þér að segja honum það þannig að honum létti? Nei, vegna þess að ef þú hlustar ekki á hann fyrst er hughreysting þín lítils virði. Honum léttir ekki, heldur finnst hann ekki enn hafa létt á hjarta sínu og hann er enn með sektarkennd. Eins og nítjándu aldar heimspekingurinn Henry David Thoreau orðaði það „þarf tvo til að segja sannleikann; annan til að segja hann og hinn til að heyra hann.“
Ábending Biblíunnar er sannarleg viðeigandi: „Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala.“ (Jakobsbréfið 1:19) Og það er líka mjög þýðingarmikið að hlusta með samúðarskilningi! Lifðu þig inn í tilfinningar þess sem trúir þér fyrir áhyggjum sínum. Viðurkenndu að vandamál hans sé erfitt og örvilnan hans mikil. Gerðu ekki lítið úr vandamáli hans með því að segja eitthvað þessu líkt: ‚Þetta er bara erfiður dagur hjá þér,‘ eða: ‚Þetta er nú ekki alveg svona slæmt.‘ Það er kaldhæðnislegt að með því að gera þannig lítið úr vandamáli hans geturðu aukið á vanlíðan hans. Hann verður vonsvikinn yfir að þú skulir ekki taka orð hans alvarlega. Sýndu því með viðbrögðum þínum að þú heyrir það sem hann segir og viðurkennir að honum líði núna eins og hann lýsir.
Að vera skilningsríkur áheyrandi merkir ekki að þú þurfir að samsinna þeim sem trúir þér fyrir vandamálum sínum. Þér finnst það kannski alls ekki réttlætanlegt að hann skuli segjast „hata vinnuna!“ En ef þú lætur í ljós vanþóknun (‚Þú ættir ekki að hugsa þannig‘) eða neitun (‚Þú meinar það nú ekki í alvöru‘) finnst honum að þú skiljir hann ekki. Viðbrögð þín ættu að endurspegla skilning. Við þann sem segist hata vinnuna gætirðu sagt: ‚Hún hlýtur að vera erfið.‘ Biddu síðan um nánari skýringar. Þú ert ekki sjálfkrafa að samsinna því að hann ætti að hafa andstyggð á vinnunni heldur einfaldlega að viðurkenna að honum sé þannig innanbrjósts núna. Þar með ertu að veita honum þá ánægju að hafa hlustað á hann, tækifæri til að viðra tilfinningar sínar til fulls. Oft verður minna úr vandamálinu með því að segja öðrum frá því.
Eins gæti sá sem segir: „Konan mín er í læknisrannsókn í dag,“ raunverulega meint: „Ég er áhyggjufullur.“ Láttu viðbrögð þín endurspegla það. Það sýnir að þú hlustaðir á merkinguna á bak við orð hans sem er meiri hughreysting fyrir hann en hefðir þú ekki látist heyra það, afneitað því eða reynt að leiðrétta hann með því að segja honum að hafa ekki áhyggjur. — Rómverjabréfið 12:15.
Góður áheyrandi talar líka!
Bókin The Art of Conversation talar um þá sem hlusta en segja mjög lítið „í þeirri trú að þannig sýni þeir virðulega hlédrægni.“ Það neyðir viðmælandann til að halda samræðunum uppi einsamall sem er dónaskapur. En það er líka dónaskapur og þreytandi ef viðmælandi þinn talar linnulaust og leyfir þér ekki að komast að. Vissulega þarftu að vera góður áheyrandi en þú þarft líka að láta viðmælanda þinn vita að þú hafir eitthvað gagnlegt til málanna að leggja.
Hvað gætirðu sagt? Ættirðu að koma með ráðleggingar eftir að hafa hlustað með virðingu á vin þinn? Ef þú ert fær um ættirðu kannski að ráða honum heilt. Segðu vini þínum fyrir alla muni frá lausninni á vandamáli hans ef þú veist hver hún er. Orð þín hafa meira vægi af því að þú tókst þér tíma til að hlusta á hann fyrst. Sértu ekki í stakk búinn að veita vini þínum þá leiðsögn eða hjálp, sem hann þarfnast, reyndu þá að koma honum í samband við einhvern annan sem er fær um það.
Í sumum tilvikum er hins vegar hvorki þörf á ráðleggingum né þeirra óskað. Þú skalt því gæta þín á því að veikja ekki hin góðu áhrif áheyrnar þinnar með því að segja allt of mikið. Vinur þinn þarf kannski bara að þola óviðráðanlegar aðstæður eða fá tíma til að vinna úr neikvæðum kenndum sínum. Hann kom til þín til að segja frá vandræðum sínum. Þú hlustaðir. Þú deildir tilfinningum hans með honum, fullvissaðir hann um að þér væri annt um hann og að þú munir hugsa um hann og biðja fyrir honum. Láttu hann vita að honum sé velkomið að leita til þín aftur og að þú virðir vandamál hans sem trúnaðarmál. Hann þarf kannski meira á slíkri hughreystingu að halda en að þú reynir að leysa vandamál hans. — Orðskviðirnir 10:19; 17:17; 1. Þessaloníkubréf 5:14.
Hvort sem ráð eru veitt eða ekki er það báðum til gagns að hlusta. Sá sem opnaði hjarta sitt er ánægður yfir að það skyldi hafa verið hlustað á hann með skilningi. Sú vitneskja hughreystir hann að einhver skuli láta sér nógu annt um hann til að hlusta á hann. Áheyrandinn nýtur líka góðs af. Aðrir kunna að meta umhyggju hans. Ef hann veitir ráð eru þau enn trúverðugri fyrir þá sök að hann talaði ekki fyrr en hann hafði skilið til fulls það mál sem lagt var fyrir hann. Vissulega tekur það tíma að vera skilningsríkur áheyrandi. En þeim tíma er vel varið! Með því að gefa fólki athygli þína og umhyggju ertu svo sannarlega að gefa því sérstaka gjöf.