Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g95 8.10. bls. 17-20
  • Samræður eru list

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Samræður eru list
  • Vaknið! – 1995
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Við þurfum að tala!
  • Samræðutálmar
  • ‚Hvað get ég sagt?‘
  • Vertu góður áheyrandi
  • Einlægur áhugi skilar sér
  • Samúðarskilningur — undirstaða samræðna
  • Þú getur það!
  • Samræðuleikni
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Hvernig get ég lært að halda uppi samræðum?
    Vaknið! – 1989
  • Ættirðu að binda enda á samtalið?
    Elskum fólk og gerum það að lærisveinum
  • Hvernig get ég orðið færari í að tala við aðra?
    Ungt fólk spyr
Sjá meira
Vaknið! – 1995
g95 8.10. bls. 17-20

Samræður eru list

ALLIR menn þurfa að borða, sofa og vinna. Þetta eru frumþarfir okkar. En við höfum líka aðra þörf sem við þurfum að fullnægja. Hver er hún?

Látum mann svara því sem sat í fimm ár í einangrun í fangelsi þar sem hann var sviptur einni af brýnustu nauðsynjum lífsins. „Ég þráði félagsskap, einhvern til að tala og spjalla við,“ viðurkennir hann. „Mér varð ljóst að ég yrði að gera eitthvað til að sporna gegn einmanaleikanum. Annars yrði hugurinn fyrir áhrifum af einveru minni og þögn.“

Já, okkur er meðfædd sú þörf að eiga tjáskipti við aðra. Samræður eiga sinn þátt í að fullnægja þeirri þörf. Rannsóknarmennirnir Dennis R. Smith og L. Keith Williamson segja: „Við þurfum að eiga einhverja að sem við getum trúað hreinskilnislega fyrir leyndarmálum okkar, deilt með gleði okkar og sorgum og talað við.“

Við þurfum að tala!

Málið er undursamleg gáfa sem okkur er gefin. Okkur er eiginlegt að eiga samræður við aðra. Maður nokkur sagði: „Guð skapaði okkur félagslynd. Ef maður hefur ekki tækifæri til að tala eða einhver hindrar mann í að tjá sig, þá er það eins og refsing. Það er verðmætt sem gerist þegar maður talar. Maður er ánægðari með sjálfan sig og nýtur góðs af því að vita hvað aðrir hugsa og hvernig þeim líður.“

Elín, eiginkona farandumsjónarmanns, segir: „Orð tjá tilfinningar. Við getum ekki gengið að því sem gefnum hlut að maki okkar viti hve mikils virði hann er okkur. Það verður að segja það; eyrað þarf að heyra orðin. Við þurfum að ræða saman.“

Davíð, sonur kristins safnaðaröldungs, tjáir sig þannig: „Stundum er ég vonsvikinn og gramur og veit eiginlega ekki hvernig mér líður. Þá hef ég tilhneigingu til að steinþagna og svo finn ég þrýstinginn vaxa innra með mér. Það er mín reynsla að ég fæ útrás með því að tala; þannig losna ég við þrýstinginn. Þegar ég tala hef ég tækifæri til að finna út hvað mér finnst um sjálfan mig og þá get ég greitt úr því öllu saman.“

Samræðutálmar

Samræður fullnægja ákveðinni þörf. En margt getur verið þrándur í götu samræðna. Fyrir suma eru samræður svo mikið átak að þeir forðast þær ef þeir geta.

„Mestalla ævi fannst mér skást að sneiða hjá samræðum við aðra,“ segir Garðar. Hann bætir við: „Það stafar af því að mig skortir sjálfstraust. Ég er enn dauðhræddur við að ég hljómi kjánalega þegar ég tala við fólk eða að einhver geri grín að einhverju sem ég segi.“

Elín segir vandamál sitt vera feimni. Hún útskýrir: „Ég ólst upp á heimili þar sem innihaldsríkar samræður þekktust ekki. Okkur stóð gríðarleg ógn af pabba. Þegar ég stækkaði fannst mér ég ekki hafa neitt sérstakt að segja.“ Já, feimni getur verið fjallhá hindrun í vegi ánægjulegra samræðna. Hún getur lokað mann innan þagnarmúra!

„Þetta er eins og plága,“ segir Jón, kristinn öldungur sem viðurkennir að sjálfsmat hans sé ekki upp á marga fiska. „Ef maður lætur undan feimninni einangrar maður sig. Maður tekur ekki þátt í samræðum jafnvel þótt það séu hundrað manns í herberginu. Og maður geldur það dýru verði.“

Öldungur, sem heitir Daníel, segir hins vegar: „Ég á mjög auðvelt með að tala. En áður en ég veit af er ég búinn að grípa fram í fyrir öðrum og farinn að stjórna samræðunum. Ég átta mig á því þegar ég sé þennan sérstaka svip á andliti konunnar minnar, og þá hugsa ég með sjálfum mér: ‚Ó, nei, nú er ég búinn að klúðra því einu sinni enn.‘ Ég veit að ég hef spillt gleði hennar af samræðunum.“

Hvernig er hægt að yfirstíga þessar samræðuhindranir og aðrar fleiri? Hvaða eiginleikar eru nauðsynlegir til að ná tökum á þessari list? Hvernig er hægt að beita þeim?

‚Hvað get ég sagt?‘

‚Hvað get ég talað um?‘ ‚Ég veit ekki neitt.‘ ‚Það vill enginn heyra hvað ég hef að segja.‘ Þér finnst þetta kannski en sennilega er það ekki rétt. Þú veist miklu meira en þú gerir þér grein fyrir og sumt af því er líklega áhugavert fyrir aðra. Kannski ertu nýlega kominn úr ferðalagi. Vera má að fólk langi til að vita hvernig þeir staðir, sem þú sóttir heim, eru frábrugðnir heimahögum þeirra.

Auk þess bæði geturðu og ættirðu að auka þekkingu þína á ýmsum málaflokkum með lestri. Það er góður siður að taka sér tíma til að lesa eitthvað daglega. Rit votta Jehóva innihalda bæði upplýsingar um Biblíuna og um ýmis almenn áhugamál. Því meira sem þú viðar að þér, þeim mun meiru hefur þú frá að segja. Gott dæmi er dagstextinn í bæklingnum Rannsökum daglega ritningarnar sem vottar Jehóva nota. Á hverjum degi gefur hann okkur eitthvað nýtt til að tala og hugsa um.

Þú þarft ekki að tala allan tímann sjálfur til að taka þátt í samræðum. Báðir ættu að tjá sig. Leyfðu hinum að tala. Ef hann er hljóður gætirðu hvatt hann með háttvíslegum spurningum. Setjum sem svo að þú sért að tala við þér eldri mann. Þú gætir spurt hann um liðna atburði og hvernig heimurinn eða fjölskyldulíf manna hafi breyst frá því að hann var ungur. Þú átt eftir að njóta þess að hlusta á hann og læra af honum.

Vertu góður áheyrandi

Að hlusta vandlega er verðmætur þáttur samræðna. Við getum stutt þá sem eru að sækjast eftir hjálp við að bera byrðar sínar með því hvernig við hlustum. Manni nokkrum, er áleit sjálfan sig vera á ‚ruslahaug mannlegs samfélags,‘ leið ömurlega og hann hringdi í vin sinn til að leita hjálpar. Jafnvel þótt það stæði sérstaklega illa á hlustaði vinurinn vingjarnlega — í tvær klukkustundir! Þegar maðurinn lítur um öxl segir hann að þetta eina símtal hafi valdið straumhvörfum í lífi sínu. Hvað gerði gæfumuninn? „Bara það að hlusta vel,“ viðurkennir vinurinn sem var svo umhyggjusamur. „Ég minnist þess ekki að hafa látið nokkur viskuorð falla. Ég spurði bara réttu spurninganna: ‚Af hverju finnst þér það?‘ ‚Hvers vegna gerirðu þér áhyggjur af því?‘ ‚Hvað heldurðu að geti hjálpað þér?‘ Hann svaraði sjálfur öllum spurningum sínum þegar hann svaraði mínum.“

Foreldrar, sem gefa sér tíma til að ræða við börnin sín, eru þeim mikils virði. Ungur piltur, Skúli, segir: „Það er gott þegar foreldrarnir koma og spyrja hvað mér liggi á hjarta. Pabbi hefur gert það upp á síðkastið og það er mikils virði af því að sumt ræður maður bara ekki við á eigin spýtur.“

„Ég verð að skapa þannig andrúmsloft að börnin vilji tala við mig,“ segir faðir nokkur. Hann tekur sér reglulega tíma til að vera einn með hverju og einu barna sinna fjögurra af því að hann álítur að eigi börn að þroskast og verða heilbrigðir og öfgalausir einstaklingar þurfi foreldrarnir að hlusta á þau með athygli og skilningi. Hann ráðleggur foreldrum að vera tilbúnir til að hlusta þegar tækifæri bjóðast og börnin vilja tala. „Það skiptir engu máli hve þreyttur þú ert eða byrðum hlaðinn, þaggaðu aldrei niður í þeim! Hlustaðu,“ segir hann.

Einlægur áhugi skilar sér

Margir þarfnast stuðnings til að geta opnað sig og sagt það sem þeim liggur á hjarta. Ungur maður sagði í kvörtunartón: ‚Ég þarf að geta talað við einhvern, en hver ætti það að vera? Ég á ekki auðvelt með að tala. Það þarf að vera einhver sem sýnir mér áhuga!‘ Ósvikinn og einlægur áhugi getur skapað það trúnaðartraust sem gerir manni auðveldara að tala og opna hjarta sitt fyrir öðrum.

Maður nokkur segir: „Fyrir mörgum árum reyndi ég að ræða við vin þegar ég átti erfitt með að taka á vissum fjölskylduvandamálum. Það eina sem hann sagði var: ‚Harkaðu bara af þér og vertu ákveðinn og þá verður allt í fína lagi.‘ Það urðu engar umræður um málið, ekkert samtal og það hjálpaði mér ekki neitt. Það fékk mig bara til að draga mig inn í skel. Síðar talaði ég við umsjónarmann í söfnuði votta Jehóva og fékk allt önnur viðbrögð. Ég sá á augum hans, svipbrigðum og vingjarnlegu fasi að hann var skilningsríkur. Það kom mér til að opna mig og ræða meira við hann af því hann sýndi mér einlægan áhuga. Hann sagði: ‚Við skulum gera allt sem við getum til að styðja þig í því sem þú átt við að glíma.‘ Maður bregst jákvætt við slíku fólki!“

Geta fleiri opnað hjörtu sín og dregið aðra inn í innihaldsríkar samræður? Þegar við sjáum að einhver verður útundan, er of feiminn til að taka þátt í samræðum, reynum við þá að draga hann inn í samræðurnar? Jón, sem áður er nefndur, segir: „Ég skil þessa tilfinningu af því að ég get sett mig í spor þessa manns og fundið til með honum!“ Hann bætir við: „Það er mjög þýðingarmikið að gefa sig að honum og draga hann inn í samræðurnar. Við gætum jafnvel beðið um hjálp í hljóðri bæn.“

Daníel segir um vin: „Ragnar hafði svo litla trú á að hann gæti tekið þátt í samræðum að þegar hópur fór að tala saman gekk hann alltaf nokkur skref frá. Ég spurði hann því spurningar: ‚Heyrðu, Ragnar, hvað varstu að segja um þetta eða hitt?‘ Þá fór hann að tala. Það varð til þess að aðrir sáu nýja hlið á honum sem þeir vissu ekki af.“ Daníel hvetur: „Gefstu ekki upp þegar erfitt er að eiga samræður við einhvern og varla hægt að draga orð upp úr honum. Hugsaðu með þér að hann hafi góðan mann að geyma sem vilji tala. Haltu bara áfram að fá hann til að opna sig.“

Þú hefur sjálfur gott af því að rækta með þér kærleiksríkan og einlægan áhuga á öðrum — jafnvel þótt þú sért sjálfur feiminn. Jón komst að raun um að það hjálpaði honum að sigrast á þeirri tilhneigingu að einangra sig. Kærleikurinn „leitar ekki síns eigin,“ bendir hann á. (1. Korintubréf 13:5) „Maður verður að tala við aðra og spyrjast fyrir um þá til að vera kærleiksríkur. Maður gerir ekkert gagn með því að láta undan vanmáttarkenndinni. Með hjálp bænarinnar getur maður sigrast á tilhneigingum sínum.“ Hann bætir við: „Maður fær svo ríkulega umbun fyrir það. Maður uppbyggist sjálfur þegar maður sér aðra bregðast vel við og uppörvast. Og það ætti að veita manni hugrekki til að láta til sín taka aftur og aftur.“

Samúðarskilningur — undirstaða samræðna

Samúðarskilningur er einhver verðmætasti eiginleiki manna. Hvað er samúðarskilningur eiginlega? Dr. Bernard Guerney við Pennsylvania State University segir að samúðarskilningur sé ‚hæfnin til að lifa sig inn í tilfinningar og sjónarmið annars manns — óháð því hvort maður er honum sammála eða ekki.‘ Hve miklu máli skiptir samúðarskilningur í samræðum? „Hann er undirstaðan! Hann er grundvöllurinn sem allt annað byggist á.“

Dr. Guerney útskýrir að samræður séu lífæð allra góðra sambanda. Skoðanamunur er auðvitað algengur. Til að greiða úr honum og viðhalda góðu sambandi verðum við að sjálfsögðu að vera fús til að ræða vandamálið. Margir forðast það af því að þeir kunna ekki að tala án þess að koma viðmælanda sínum í varnarstöðu eða reita hann til reiði. Að sögn dr. Guerney „rugla flestir saman annars vegar að skilja og virða afstöðu viðmælanda síns og hins vegar að vera honum sammála. Þar af leiðandi eru menn ekki skilningsríkir og sýna ekki virðingu þegar þeir verða ósammála. Samúðarskilningur gerir manni kleift að gera greinarmun á því að vera sammála öðrum og skilja afstöðu þeirra.“

Með því að setja sig í spor viðmælanda síns getur maður skilið hugsanir hans og tilfinningar. Sá sem gerir það kemst að raun um að skilningur hans og virðing eykst, jafnvel þótt hann sé viðmælanda sínum ósammála.

Tökum Jönu, fjögurra barna móður, sem dæmi. Um tíma var hún úrræðalaus og fannst hún einskis nýt. Núna er henni ljóst hve samúðarskilingur er mikilvægur til að hjálpa öðrum. Hún segir: „Ég man að þegar mér fannst allt sem ég gerði vera einskis virði, talaði maðurinn minn við mig og útskýrði fyrir mér á hve marga mismunandi vegu ég væri til gagns og hjálpar. Hann hlustaði mjög elskulegur á mig meðan ég talaði með tárin í augunum og síðan uppbyggði hann mig. Ef hann hefði gert lítið úr því sem ég var að hugsa eða sagt: ‚Þetta er tóm vitleysa,‘ eða eitthvað í þá áttina, þá hefði ég steinþagnað og rokið út. En þetta kvöld áttum við langar og innihaldsríkar samræður.“

‚Samúðarskilningur ber vitni um áhuga og umhyggju. Hann stuðlar að tjáskiptum, þeim gagnkvæmu boðskiptum sem flestir þrá og þarfnast,‘ segir dr. Guerney.

Þú getur það!

Þú getur verið góður samræðumaður. Við höfum fjallað um nokkur grundvallaratriði sem þarf til að ná tökum á samræðulistinni. Mörg fleiri mætti nefna, svo sem að vera vingjarnlegur, háttvís og geta séð skoplegu hliðarnar. En eins og reynsla og þjálfun listmálara gerir honum kleift að skapa meistaraverk er hann strýkur penslinum yfir léreftið, eins þurfum við að vinna að því að þroska þá eiginleika sem til þarf.

Daníel er til dæmis orðinn góður samræðumaður. Hvernig? Með því að læra að hafa hemil á tilhneigingu sinni að grípa fram í og yfirgnæfa aðra í samræðum. Hann viðurkennir: „Ég þarf að leggja mig meðvitað fram við að fara ekki að stjórna samræðunum. Það þýðir að ég verð að beisla tunguna. Þegar ég finn að mig langar til að leggja orð í belg stíg ég á hemlana í huga mér. Ef ég held að athugasemd frá mér leiði samræðurnar inn á nýjar brautir eða spilli fyrir því að aðrir geti tjáð sig, þá þegi ég!“

Hvað hjálpaði Elínu? Eftir að hún komst til nákvæmrar þekkingar á Biblíunni gerði hún sér ljóst að hún hafði margt verðmætt til að tala um við aðra. Hún segir: „Þegar ég beini athyglinni frá sjálfri mér og tala um andleg mál við aðra, þá á ég auðveldara með að taka þátt í samræðum. Það hjálpar mér líka að lesa hin biblíutengdu rit sem við fáum reglulega. Þegar ég geri það hef ég eitthvað nýtt og ferskt að segja frá og samræður verða auðveldari.“

Reyndu að þroska með þér þessa nauðsynlegu eiginleika þegar þú ræðir við aðra. Þá getur þú líka hresst og glatt aðra og notið þeirrar ánægju að ná tökum á list sem fullnægir sannarlega mikilvægri þörf.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila