Spurningar frá lesendum
Hvað gefur Biblían í skyn um dauðarefsingu glæpamanna?
Skiljanlega gæti hvert og eitt okkar haft persónulegar tilfinningar sem byggjast á eigin reynslu eða aðstæðum í lífinu. En vottar Jehóva ættu að reyna að laga sig að afstöðu Guðs til dauðarefsingar, en gæta jafnframt hlutleysis gagnvart þeirri pólitísku afstöðu sem margir taka í þessu máli.
Segja má umbúðalaust að Guð gefur ekki til kynna í rituðu orði sínu að dauðarefsing sé röng.
Snemma í sögu mannkynsins lét Jehóva uppi hug sinn í þessu efni eins og við lesum í 9. kafla 1. Mósebókar. Þar er meðal annars fjallað um Nóa og fjölskyldu hans sem urðu forfeður alls mannkyns. Eftir að þau stigu út úr örkinni sagði Guð að þau mættu nota dýr til matar — það er að segja drepa þau, blóðga og því næst borða. Síðan sagði Guð í 1. Mósebók 9:5, 6: „En yðar eigin blóðs mun ég hins vegar krefjast. Af hverri skepnu mun ég þess krefjast, og af manninum, af bróður hans, mun ég krefjast lífs mannsins. Hver sem úthellir mannsblóði, hans blóði skal af manni úthellt verða. Því að eftir Guðs mynd gjörði hann manninn.“ Þannig heimilaði Jehóva dauðarefsingu ef um morðingja var að ræða.
Meðan Guð átti samskipti við Ísrael sem þjóð sína lá dauðarefsing við ýmsum öðrum alvarlegum brotum á lögum hans. Í 4. Mósebók 15:30 lesum við þessa almennu yfirlýsingu: „Sá maður, er fremur eitthvað af ásetningi, hvort heldur er innborinn maður eða útlendingur, hann smánar [Jehóva], og skal sá maður upprættur verða úr þjóð sinni.“
En hvað nú eftir að kristni söfnuðurinn var stofnsettur? Við vitum að Jehóva heimilaði mönnum að fara með stjórn og hann nefndi stjórn þeirra yfirvöld. Eftir að hafa hvatt kristna menn til að vera slíkum yfirvöldum hlýðnir segir Biblían að þau séu „þjónn Guðs þér til góðs. En ef þú gjörir það sem illt er, þá skaltu óttast. Yfirvöldin bera ekki sverðið ófyrirsynju, þau eru Guðs þjónn, hegnari til refsingar þeim er aðhefst hið illa.“ — Rómverjabréfið 13:1-4.
Þýðir þetta að stjórnvöld hafi jafnvel heimild til að taka af lífi þá sem eru sekir um alvarlega glæpi? Við verðum að draga þá ályktun af orðunum í 1. Pétursbréfi 4:15. Þar áminnir postulinn bræður sína: „Enginn yðar líði sem manndrápari, þjófur eða illvirki eða fyrir að hlutast til um það, er öðrum kemur við.“ Tókstu eftir orðunum „enginn yðar líði sem manndrápari“? Pétur var ekki að gefa í skyn að stjórnvöld hefðu engan rétt til að láta manndrápara líða fyrir glæp sinn. Þvert á móti gaf hann til kynna að morðingi gæti réttilega fengið tilhlýðilega refsingu. Gæti það verið dauðarefsing?
Já, svo gæti verið. Það er ljóst af orðum Páls í 25. kafla Postulasögunnar. Gyðingar höfðu ákært Pál fyrir að brjóta gegn lögmáli þeirra. Þegar hersveitarforinginn sendi fanga sinn, Pál, til rómverska landstjórans sagði hann í bréfi í Postulasögunni 23:29: „Komst ég þá að raun um, að hann var kærður vegna ágreinings um lögmál þeirra, en engin sök var honum gefin, er sætir dauða eða fangelsi.“ Að tveimur árum liðnum var Páll kominn fyrir Festus landstjóra. Við lesum í Postulasögunni 25:8: „Páll varði sig og sagði: ‚Ekkert hef ég brotið, hvorki gegn lögmáli Gyðinga, helgidóminum né keisaranum.‘“ En taktu nú eftir því sem hann segir um refsingu, jafnvel dauðarefsingu. Við lesum í Postulasögunni 25:10, 11:
„Páll svaraði: ‚Ég stend nú fyrir dómstóli keisarans, og hér á ég að dæmast. Gyðingum hef ég ekkert rangt gjört, það veistu fullvel. Sé ég sekur og hafi framið eitthvað, sem dauða sé vert, mæli ég mig ekki undan því að deyja. En ef ekkert er hæft í því, sem þessir menn kæra mig um, á enginn með að selja mig þeim á vald. Ég skýt máli mínu til keisarans.‘“
Páll, sem stóð hér frammi fyrir löglega skipuðu yfirvaldi, viðurkenndi að keisarinn hefði rétt til að refsa afbrotamönnum, jafnvel taka þá af lífi. Hann var ekki mótfallinn refsingu ef hann væri sekur og hann sagði ekki heldur að keisarinn gæti með réttu einungis tekið morðingja af lífi.
Að vísu var réttarkerfi Rómverja ekki fullkomið og það eru dómskerfi manna ekki heldur nú á dögum. Bæði þá og nú hafa saklausir menn verið dæmdir sekir og hlotið refsingu. Jafnvel Pílatus sagði um Jesú: „Enga dauðasök hef ég fundið hjá honum. Ætla ég því að hirta hann og láta hann lausan.“ Jafnvel þótt lögskipaður valdamaður viðurkenndi að Jesús væri saklaus var þessi saklausi maður líflátinn. — Lúkas 23:22-25.
En slík dómsmorð fengu ekki Pál og Pétur til að halda því fram að dauðarefsing sé í eðli sínu siðlaus. Afstaða Guðs í málinu er öllu heldur sú að svo lengi sem yfirvöldin séu til ‚beri þau sverðið sem hegnari til refsingar þeim er aðhefst hið illa.‘ Og í því felst að beita sverðinu í þeim skilningi að grípa til dauðarefsingar. En þegar hin umdeilda spurning er annars vegar hvort stjórnir þessa heims eigi að beita rétti sínum til að lífláta morðingja, þá gæta sannkristnir menn þess að vera hlutlausir. Ólíkt klerkum kristna heimsins halda þeir sig utan við sérhverja deilu um þetta efni.