Skipulagt fyrir hið komandi þúsundáraríki
„Þeir munu ríkja með honum um þúsund ár.“ — OPINBERUNARBÓKIN 20:6.
1. Hvernig verður ástatt á jörðinni eftir meira en þúsund ár?
HVAÐ? Eruð þið að halda því fram að mannkynið verði enn á jörðinni eftir þúsund ár? Já, það er einmitt það sem við erum að halda fram! Auk þess mun mannkynið á þeim tíma vera fullkomið í hjarta, huga og líkama, nákvæmlega eins og fyrsti maðurinn og fyrsta konan við upphaf mannlífsins hér á jörð. Já, eftir þúsund ár mun mannkynið líkjast Guði sínum eins og það var skapað til í upphafi. (1. Mósebók 1:26-30) Það mun geta notið lífsins til fulls í unaðslegri paradís, ‚aldingarðinum Eden,‘ á hreinsaðri jörð þar sem ekki verður óhóflega þéttbýlt. (1. Mósebók 2:15) Allt mun þetta vera uppfylling hins upprunalega tilgangs skaparans með jörðina og þá sem byggja hana. Þessi fögru málalok munu sanna það að hann hvikar ekki frá kærleiksríku loforði sínu um að blessa allt mannkyn, þótt hann hafi átt við andstöðu að glíma.
2. Hvernig fengu sumir fyrir nítján öldum innsýn í það hvernig fullkomnað mannkyn muni vera?
2 Þetta verður árangur þúsund ára stjórnar hins dýrlega gerða sonar Guðs er eyddi 331⁄2 ári á jörðinni sem fullkominn maður fyrir meira en nítján öldum. Við lesum um tilkomu hans á þeim tíma: „Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.“ (Jóhannes 1:14) Ísraelsmenn gátu því séð í Jesú Kristi hvernig fullkominn maður er. (Lúkas 3:23, 38) Fyrir nítján öldum fengu sumir að sjá hvaða eiginleikum fullkomið mannkyn mun verða gætt í hinni komandi paradís á jörð.
3, 4. (a) Hve lengi mun stjórn Jehóva í höndum Jesú Krists og hinna 144.000 vera? (b) Hvað er stjórnartíð Krists oft kölluð og hvernig var það heiti stundum notað?
3 Sagt var fyrir að ríki Jehóva í höndum Jesú Krists og 144.000 dýrlega gerðra lærisveina hans ætti að fara með völd í þúsund ár. Hinn aldurhnigni Jóhannes postuli skrifaði um þúsundáraríkið: „Og ég sá hásæti og menn settust í þau og dómsvald var þeim fengið, og ég sá sálir þeirra, sem hálshöggnir höfðu verið sakir vitnisburðar Jesú og sakir orðs Guðs. Það voru þeir hinir sömu sem höfðu ekki tilbeðið dýrið né líkneski þess og ekki fengið merki á enni sér og hönd. Og þeir lifnuðu og ríktu með Kristi um þúsund ár. En aðrir dauðir lifnuðu ekki fyrr en þúsund árin voru liðin. Þetta er fyrri upprisan. Sæll og heilagur er sá, sem á hlut í fyrri upprisunni. Yfir þeim hefur hinn annar dauði ekki vald, heldur munu þeir vera prestar Guðs og Krists og þeir munu ríkja með honum um þúsund ár.“ — Opinberunarbókin 20:4-6.
4 Úr því að ríkið á að fara með völd í þúsund ár er talað um þúsundáraríki Krists. Þeir sem viðurkenna og prédika þessa biblíukenningu hafa stundum verið kenndir við hana og kallaðir þúsundáraríkismenn eða eitthvað í þá áttina. Athyglisvert er að upphaflega var ritsafnið Studies in the Scriptures (Rannsóknir á Ritningunni), sem Biblíufélagið Varðturninn gaf einu sinni út, kallað Millenial Dawn eða Dögun þúsundáraríkisins.
5. Hvað verður um Satan og illa anda hans meðan þúsundáraríki Krists stendur?
5 Orðin „þúsund ár“ í Opinberunarbókinni 20:4 eru ekki táknræn heldur merkja þúsund, bókstafleg almanaksár. Þessi þúsund ár verður Satan djöfullinn og djöflasveitir hans lokaðar niðri í undirdjúpi, því að rétt áður en Jóhannes postuli sagði frá þúsundáraríki Krists skrifaði hann: „Nú sá ég engil stíga niður af himni. Hann hélt á lykli undirdjúpsins og stórum fjötri í hendi sér. Og hann tók drekann, þann gamla höggorm, sem er djöfull og Satan, og batt hann um þúsund ár. Hann kastaði honum í undirdjúpið og læsti og setti innsigli yfir, svo að hann leiddi ekki framar þjóðirnar afvega, allt til þess er fullnuðust þúsund árin. Eftir það á hann að vera leystur um stuttan tíma.“ — Opinberunarbókin 20:1-3.
6. (a) Hvenær lauk þúsund ára stjórn Krists að sögn sumra kaþólskra manna? (b) Hve langur væri hinn stutti tími, sem Satan á að verða sleppt lausum, orðinn ef kaþólskir menn hefðu á réttu að standa?
6 Rómversk-kaþólskir menn hafa sumir hverjir staðhæft að þúsund ára stjórn Krists hafi tekið enda árið 1799 þegar franskur her tók Róm, steypti páfanum af stóli og flutti hann sem fanga til Frakklands þar sem hann lést. Kaþólskir klerkar hafa sagt að Satan og illir andar hans hafi þá verið leystir úr ‚undirdjúpinu‘ til að afvegaleiða menn á ný um „stuttan tíma.“ (Opinberunarbókin 20:1-3) Ef það væri rétt hefði hinn ‚stutti tími‘ nú staðið í 191 ár og endir ekki í sjónmáli.
7. Hvað gefur Biblían til kynna um tímann skömmu áður en þúsundáraríki Krists hefst?
7 Samkvæmt Biblíunni er hið raunverulega þúsundáraríki Jesú Krists enn ókomið. Uppfylling biblíuspádómanna á okkar tímum sýnir þó að það er mjög nálægt. Í þúsundáraríkinu verður Satan og illum öndum hans raunverulega kastað í undirdjúp og Jesús Kristur og 144.000 samerfingjar hans munu ríkja yfir öllu mannkyni án íhlutunar nokkurs skipulags sem djöfullinn stjórnar. Eilíf blessun allra endurleystra manna, sem er uppfylling sáttmála Jehóva við „vin“ sinn, Abraham, mun byrja að rætast á ‚múginum mikla‘ sem lifa mun af hina óviðjafnanlegu ‚miklu þrengingu‘ eða endalok þessa illa heimskerfis. Sú blessun mun síðan ná til þeirra milljarða manna sem liggja látnir í gröf sinni og ‚blóð lambsins,‘ Jesú Krists, nær til. (Jakobsbréfið 2:21-23; Opinberunarbókin 7:1-17; 1. Mósebók 12:3; 22:15-18; Matteus 24:21, 22) Til að það geti orðið verða þeir vaktir af dauðasvefni sínum í minningargröfunum til lífs á jörðinni. — Jóhannes 5:28, 29.
Kristið skipulag
8. Hvaða skipulagi lýsti bókin Hin nýja sköpun en hvaða skipulagsstarf sá hún ekki fyrir?
8 Í tengslum við framgang vilja Guðs var nýtt skipulag sett á laggirnar mörgum öldum áður en fyrrnefnd blessun átti að verða að veruleika. Við lesum um þetta skipulag: „Ef einhver er í Kristi, er hann skapaður á ný.“ „Umskurn eða yfirhúð skipta engu, heldur að vera ný sköpun.“ (2. Korintubréf 5:17; Galatabréfið 6:15) Árið 1904 vakti bókin The New Creation (Hin nýja sköpun) athygli á þessu nýja skipulagi sem varð til á fyrstu öld okkar tímatals. (Studies in the Scriptures, 6. bindi, 5. kafli sem ber heitið „Skipulag hinnar nýju sköpunar.“) Vegna þáverandi skilnings á því hvað endalok heiðingjatímanna myndu hafa í för með sér talaði bókin ekki um hið stórkostlega skipulagsstarf sem átti að eiga sér stað eftir að fyrsta heimsstyrjöld í sögu mannkyns væri hjá. — Lúkas 21:24.
9. Hvaða vanda reyndust leifar hinnar nýju sköpunar vaxnar?
9 Það kom leifum hinnar andlegu, nýju sköpunar gleðilega á óvart að þær skyldu varðveittar til loka fyrri heimsstyrjaldarinnar árið 1918 og enn vera í holdinu árið 1919. Það ástand, sem átti að einkenna þúsundáraríkið, var enn ekki sýnilegt og leifar hinnar nýju sköpunar skildu það svo að þær ættu enn starf fyrir höndum á jörðinni áður en þær yrðu reistar upp til að lifa og ríkja með Kristi á himnum um þúsund ár. Þess vegna var brýn þörf núna á að endurlífga og endurskipuleggja þá sem eftir voru af þessum hópi. Þeir sýndu sig vandanum vaxnir og hófust handa með óhagganlegri trú og brennandi af ákafa að vinna það verk sem framundan var.
10. Hvaða spurningar vöknuðu viðvíkjandi þeim milljónum sem væntu þess að lifa af inn í nýja heimsskipan?
10 Hinar smurðu leifar væntu þess að einhverjir menn myndu lifa af hinar miklu hamfarir er þetta óguðlega heimskerfi liði undir lok, ekki síst eftir að hafa heyrt fyrirlesturinn „Milljónir núlifandi manna þurfa aldrei að deyja“ sem fluttur var í Los Angeles í Kaliforníu stríðsárið 1918. Átti að safna þessum milljónum, sem skyldu lifa af Harmagedón, saman í skipulega heild? (Opinberunarbókin 16:14-16) Áttu þeir að taka þátt í boðun Guðsríkis ásamt leifunum áður en þeir yrðu leiddir inn í þúsundáraríkið til að verða hluti hinnar ‚nýju jarðar‘? (2. Pétursbréf 3:13) Þróun mála eftir stríðið svaraði þessum spurningum.
11. (a) Hvað hlaut að þurfa að gerast viðvíkjandi hinum öðrum sauðum sem áttu að sameinast leifunum í eina hjörð? (b) Hvers vegna olli það engri sundrung milli leifanna og hinna annarra sauða þótt framtíðarvonir væru ólíkar?
11 Vakin var athygli á eftirfarandi orðum góða hirðisins, Jesú Krists, eins og vel var við hæfi: „Ég á líka aðra sauði, sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.“ (Jóhannes 10:16) Koma þurfti skipulagi á hinar smurðu leifar til þess starfs sem vinna átti eftir stríðið frá og með 1919. En hvað með þá „aðra sauði“ sem áttu að verða ein hjörð með leifunum í þessu sauðabyrgi? Að sjálfsögðu þurfti líka að koma skipulagi á þann hóp. Þótt hinir aðrir sauðir hefðu annars konar von — þá að lifa í paradís unaðarins á jörð — olli það engri sundrung milli þeirra og leifanna. Allir fylgdu aðeins einum hirði og enginn aðskilnaður skyldi vera milli hópanna tveggja fyrr en hinar smurðu leifar yrðu gerðar dýrlegar í Guðsríki.
12. (a) Hvað er langtum þýðingarmeira en hjálpræði manna? (b) Hvenær og hvers vegna varð það forgangsmál að kunngera ríkið?
12 Hinn ástríki tilgangur Jehóva felur meðal annars í sér frelsun manna frá synd og dauða, endi yfirráða Satans og endurreisn paradísar á jörð til blessunar hlýðnum mönnum. Þó er annað sem hefur langtum meiri þýðingu fyrir alheim allan. Hvað er það? Það er upphafning drottinvalds Jehóva Guðs yfir alheimi og helgun nafns hans. Lögð var á það áhersla árið 1922, á öðru móti Alþjóðasamtaka biblíunemenda í Cedar Point í Ohio, að nú væri kominn tími til að kunngera ríki Jehóva í höndum hins ríkjandi konungs, Jesú Krists. Þar eð heiðingjatímunum hafði lokið árið 1914 var nú kominn tími til að framfylgja spádómsorðum Jesú: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:14) Ríkið, sem átti að upphefja drottinvald Jehóva yfir alheimi og helga nafn hans, hafði verið stofnsett á himnum árið 1914 og Jesús Kristur drottnaði nú mitt á meðal óvina sinna. Þetta voru stórkostleg fagnaðartíðindi sem þurfti að prédika með öllum tiltækum ráðum. Það þurfti að kunngera konunginn og ríki hans!
13. Hverju sá Guð fyrir til að boða mætti Guðsríki og hvers vegna?
13 Jehóva er hinn mikli skipulagssnillingur alheimsins. Hann er hinn hæsti. Hann sá nú til þess að það starf að kunngera ríki hans hér á jörð áður en endirinn kæmi yrði skipulagt vel og rækilega. Þeim sem eftir voru á jörð af hópi hinna smurðu var því safnað saman í alþjóðaskipulag til að gera vilja hans. Þeir verða að kunngera heiminum að drottinvald Jehóva yfir alheimi sé bæði raunverulegt og réttmætt og að nauðsynlegt sé, vegna ögrana Satans, að upphefja það í eitt skipti fyrir öll.
Skipulag Guðs fyrir þúsundáraríkið
14. (a) Hvaða skipulag varð jarðneskur hluti alheimsskipulags Jehóva fyrir okkar tímatal? (b) Hvernig reyndist Davíð afbragðsskipulagsfrömuður?
14 Í fimmtán aldir fyrir upphaf okkar tímatals átti Jehóva Guð sér sýnilegt skipulag á jörð. Hann notaði spámanninn Móse sem milligöngumann við að skipuleggja Ísraelsþjóðina eftir frelsun hennar úr Egyptalandi, fyrsta heimsveldi biblíusögunnar. Undir Móselögunum urðu Ísraelsmenn sýnilegur hluti alheimsskipulags Jehóva. Fjárhirðirinn og konungurinn Davíð reyndist merkur skipulagsfrömuður meðal útvalinnar þjóðar Guðs. Við lesum um hann: „Davíð skipti þeim [levítunum sem þjónuðu í helgidómi Jehóva] í flokka eftir þeim Gerson, Kahat og Merarí, Levísonum.“ „Og hvorum tveggja skiptu menn [prestunum] eftir hlutkesti, því að helgidómshöfðingjar og Guðs höfðingjar voru af niðjum Eleasars, og af niðjum Ítamars.“ — 1. Kroníkubók 23:3, 6; 24:1, 5.
15. (a) Með hvaða hætti yfirgáfu Ísraelsmenn Egyptaland? (b) Hverjir kusu einnig að yfirgefa Egyptaland og héldu þeir tryggð við Ísraelsmenn?
15 Öldum fyrir daga Davíðs yfirgáfu Ísraelsmenn Egyptaland, en þeir gerðu það ekki í óskipulegri kös. Þeir yfirgáfu Egyptaland í röð og reglu sem bendir til góðs skipulags af hálfu milligöngumannsins Móse. Mikill hópur manna, sem ekki voru Ísraelsmenn, slógust í för með þeim og kusu að deila örlögum með þjóð þessa máttuga Guðs, Jehóva, sem hafði með kraftaverkum sýnt að hann væri máttugri en allir guðir Egypta. Þrátt fyrir margs konar þrengingar var þessi ‚mikli fjöldi af alls konar lýð,‘ sem fylgdi útvalinni þjóð Jehóva að málum, enn í fylgd með henni er hún stóð í hinni ógnvekjandi Sínaíeyðimörk. (2. Mósebók 12:37-51; 4. Mósebók 11:4) Þessi mikli fjöldi af öðrum þjóðernum komst einnig inn í fyrirheitna landið undir forystu arftaka Móse, Jósúa, því að Jehóva gerði ýmsar ráðstafanir handa þeim sem útlendingum búsettum í landinu.
16. (a) Hverja táknar hinn mikli fjöldi af alls konar lýð? (b) Hvað verða þeir að gera til að lifa af endalok þessa heimskerfis?
16 Þessi mikli fjöldi af öðrum þjóðernum, sem slóst í för með Ísraelsmönnum frá Egyptalandi, táknaði múginn mikla á 20. öld. Í honum eru ekki andlegir Ísraelsmenn heldur aðrir sauðir góða hirðisins, Jesú Krists. Ásamt hinum smurðu leifum hlakka þeir til algerrar frelsunar úr því sem Egyptaland táknaði, því heimskerfi sem hinn meiri Faraó, Satan djöfullinn, er guð yfir. (Jóhannes 10:16; 2. Korintubréf 4:4; Opinberunarbókin 7:9) En hvað þurfa þeir að gera til að lifa af hin voveiflegu endalok heims Satans og fá að ganga inn í hinn fyrirheitna nýja heim undir forystu hins meiri Jósúa, Jesú Krists? (2. Pétursbréf 3:13) Þeir verða að vera samstilltir kjarna hins sýnilega skipulags Jehóva, hinum smurðu leifum.
17. Hvernig hegðar hinn mikli múgur sér í þessum sundraða heimi og til hvers hlakkar hann?
17 Einkum frá miðjum fjórða áratug þessarar aldar hefur verið unnið að söfnun hins mikla múgs annarra sauða í eina, skipulega hjörð undir stjórn hins dýrlega gerða eina hirðis, hins ríkjandi konungs Jesú Krists. Í heimi vaxandi glundroða, þrátt fyrir tilvist Sameinuðu þjóðanna, styðja þeir sem mynda múginn mikla hinar smurðu leifar af öllu hjarta og bera með því vitni um sameiningarmátt heilags anda Jehóva. Þeir eru ráðnir í að halda áfram að varðveita skipulagseiningu sína með leifunum meðan þeir bíða þeirrar sérstöku þjónustu sem þeir eiga í vændum á jörðinni í þúsundáraríki Jesús Krists.
Upprifjun
◻ Hvað gefur Ritningin til kynna um það hvenær þúsundáraríki Jesú Krists skuli hefjast og atburðina fram til þess tíma?
◻ Hvað er langtum þýðingarmeira en hjálpræði mannkynsins?
◻ Hvað varð sýnilegur hluti alheimsskipulags Jehóva fyrir okkar tímatal?
◻ Hvernig munu þeir, sem hinn mikli fjöldi af alls konar lýð táknaði, lifa af og ganga inn í þúsundáraríkið?