Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w89 1.11. bls. 4-7
  • Abraham — spámaður Guðs og vinur

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Abraham — spámaður Guðs og vinur
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Viðhorf presta
  • Úr í Kaldeu
  • Innrás Kedorlaómers
  • Áreiðanlegasti vitnisburðurinn
  • Abraham – vinur Guðs
    Biblíusögubókin mín
  • Jehóva kallaði hann vin sinn
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2016
  • Abraham og Sara hlýddu Guði
    Lærum af sögum Biblíunnar
  • Hefur þú trú eins og Abraham?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1999
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
w89 1.11. bls. 4-7

Abraham — spámaður Guðs og vinur

FJÓRIR Austurlandakonungar hafa sameinað heri sína og flutt þá yfir Efrat. Leið þeirra liggur eftir Konungaveginum til austurhluta Jórdandals. Á leið sinni sigra þeir Refaíta, Súsíta, Emíta og Hóríta. Síðan snýr innrásarherinn við og sigrar alla íbúa suðurhluta Negeb.

Hver er tilgangur þessarar herfarar? Að leggja undir sig Jórdansléttlendið, eftirsóttan dal á milli innrásarsvæðanna austur af Jórdan og Negeb. (1. Mósebók 13:10) Þar búa íbúar fimm borgríkja, Sódómu, Gómorru, Adma, Sebóím og Bela, áhyggjulausu lífi við efnalega velsæld. (Esekíel 16:49, 50) Áður höfðu þeir verið þegnskyldir Kedorlaómer, konungi í Elam, sem greinilega er leiðtogi hinna sameinuðu herja, en síðan höfðu þeir gert uppreisn gegn honum. Núna er stuðningur nágranna þeirra brostinn og komið að skuldadögunum. Kedorlaómer og bandamenn hans sigra þá og leggja af stað í hina löngu heimför með mikið herfang.

Meðal bandingjanna er réttlátur maður Lot að nafni. Hann er frændi Abrahams sem býr í tjöldum á Hebronfjöllum þar í grenndinni. Er Abraham heyrir þessi válegu tíðindi kallar hann þegar í stað saman 318 af mönnum sínum. Ásamt nokkrum nágrönnum sínum elta þeir konungana uppi hugrakkir í bragði, og koma þeim að óvörum að næturlagi. Innrásarherinn flýr. Lot og heimilisfólk hans er frelsað ásamt öðrum bandingjum og herfangi.

Hvaða ástæðu höfum við til að trúa þessari frásögu 14. kafla 1. Mósebókar? Var sagan spunnin upp til að gera forföður fjölmargra þjóða, meðal annarra Gyðinga, að þjóðhetju? Hvað um aðra atburði á ævi Abrahams?

Viðhorf presta

Snemma á 19. öld staðhæfði lúterski guðfræðingurinn Peter von Bohlen að Abraham væri þjóðsagnarvera og frásagan af innrás Kedorlaómers ætti sér engan sögulegan grundvöll. Annar guðfræðingur, prófessor Julius Wellhausen, sagði: „Við getum ekki staðfest með aðferðum sagnfræðinnar að ættfeðurnir hafi verið til.“ Hann hélt áfram: „Réttara er að líta á [Abraham] sem afkvæmi frjálsrar listsköpunar.“

Enskir guðfræðingar fetuðu í fótspor starfsbræðra sinna í Þýskalandi. „Hinar miklu frásögur 1. Mósebókar af ættfeðrunum eru forsögulegar og ekkert sannsögulegri en ævintýri . . . Artús konungs,“ sagði presturinn Stopford Brooke í bók sinni The Old Testament and Modern Life. „Við fáum einungis samhengislausa og brenglaða mynd af ævi og persónuleika ættfeðranna úr . . . 1. Mósebók,“ skrifaði John Colenso, biskup anglíkana í Natal sem þá var bresk nýlenda. Hann bætti við: „Ógerlegt er að bera fullt traust til nokkurrar þessara frásagna.“

Þessi gagnrýni breiddist út eins og helbruni. (2. Tímóteusarbréf 2:17) Nú er svo komið að milljónir þeirra sem sækja kirkju taka ekki frásögurnar af ættfeðrunum alvarlega. En guðsafneitarar halda því nú fram að biblíugagnrýnin hafi gengið of langt, og er það guðfræðingum kristna heimsins til skammar. Til dæmis segir Bolshaia Sovetskaia Entsiklopediia (Stóra sovéska alfræðibókin): „Á síðustu árum hafa ýmsar staðhæfingar biblíugagnrýnenda verið skoðaðar með hliðsjón af niðurstöðum nýlegra rannsókna, einkum á grundvelli svokallaðrar biblíufornleifafræði. Sumar arfsagnir Biblíunnar, sem áður höfðu verið álitnar þjóðsögur, . . . virðast hafa sannsögulegan kjarna.“ Skoðum hvernig fornleifafræðin hefur varpað ljósi á frásöguna um Abraham.

Úr í Kaldeu

Að sögn Biblíunnar var Abraham alinn upp í „Úr í Kaldeu.“ (1. Mósebók 11:27-31; 15:7) Svo öldum skipti vissi enginn hvar Úr hafði verið. Gagnrýnendur voru sannfærðir um að Úr hefði verið ómerkileg, vanþróuð borg, ef hún hefði þá verið til á annað borð. En þá var sýnt fram á svo ekki varð um villst, að rústir milli Babýlonar og Persaflóa væru rústir borgarinnar Úr. Þúsundir leirtaflna, sem grafnar voru úr jörð, leiddu í ljós að Úr hafði verið fjölmenn heimsborg og miðstöð í viðskiptalífi veraldar. Á tímum Abrahams voru meira að segja skólar í borginni þar sem drengjum var kennt að skrifa og reikna.

Uppgröftur í Úr leiddi einnig í ljós að arkitektar borgarinnar höfðu notað súlur, boga, hvelfingar og hvolfþök. Listiðnaðarmenn borgarinnar bjuggu til undurfagra skartgripi, íburðarmiklar hörpur og rýtinga með blöðum úr skíragulli. Í allmörgum húsum fundu fornleifafræðingar frárennslisrör úr brenndum leir sem lágu út í stórar safnþrær allt niður í 12 metra djúpar.

Þessar uppgötvanir gáfu mörgum fræðimönnum nýtt viðhorf til Abrahams. „Við höfðum verið vanir því að hugsa um Abraham sem ósköp venjulegan tjaldbúa, en nú er komið í ljós að hann kann að hafa búið í fínu tígulsteinshúsi í borg,“ skrifaði Sir Leonard Woolley í bók sinni Digging up the Past. Fornleifafræðingurinn Alan Millard segir í bók sinni Treasures From Bible Times að „Abraham hafi yfirgefið háþróaða borg með öllu sínu öryggi og þægindum til að gerast einn af hinum fyrirlitnu hirðingjum!“

Innrás Kedorlaómers

Hvað um sigur Abrahams yfir Kedorlaómer konungi í Elam? Í byrjun 19. aldar var lítið vitað um Elamíta. Biblíugagnrýnendur töldu fráleitt að Elam hefði nokkurn tíma ráðið yfir Babýloníu og þaðan af síður Palestínu. En nú eru Elamítar litnir öðrum augum. Fornleifafræðin hefur sýnt fram á að þeir hafi verið voldug hernaðarþjóð. Funk & Wagnalls Standard Reference Encyclopedia segir: „Elamítar lögðu borgina Úr í rúst árið 1950 f.Kr. . . . Síðan höfðu þeir töluverð áhrif á valdhafa Babýloníu.“

Fornleifafræðingar hafa auk þess fundið áletranir með nöfnum elamískra konunga. Sum þeirra byrja með orðinu „Kúdúr“ sem er líkt „Kedor.“ Ein af hinum æðri gyðjum Elamíta hét Lagamar sem minnir á „Laómer.“ Sum veraldleg heimildarrit líta nú á Kedorlaómer sem sannsögulegan valdhafa og telja nafn hans hugsanlega merkja „þjónn Lagamar.“ Í einu safni áletrana í Babýlon er að finna nöfn lík nöfnum þriggja af innrásakonungunum — Tudúla (Tídeal), Eri-akú (Aríok) og Kúdúr-lamil (Kedorlaómer). (1. Mósebók 14:1) Í bókinni Hidden Things of God’s Revelation bætir dr. A. Custance við: „Auk þessara nafna voru ýmis smáatriði sem virðast vísa til þeirra atburða sem áttu sér stað í Babýloníu þegar Elamítar tryggðu sér yfirráð yfir landinu. . . . Þessar leirtöflur staðfestu svo vel frásögn Biblíunnar að hinir æðri biblíugagnrýnendur gerðu allt sem þeir gátu til að gera sem minnst úr gildi þeirra.“

Hvað um innrás konunganna fjögurra? Hafa fundist einhverjar fornleifar í Negeb og svæðinu austur af Jórdan henni til stuðnings? Já. Í bók sinni The Archaeology of the Land of Israel nefnir prófessor Yohanan Aharoni að þjóðmenningin, sem var þar fyrir daga Ísraels og hafi átt sér „tilkomumiklar“ byggðir í Negeb og á svæðinu austur af Jórdan, hafi horfið „um árið 2000 f.o.t.“ Aðrir fornleifafræðingar segja það hafa gerst um árið 1900 f.o.t. „Leirmunir bæði í Negeb og svæðinu austur af Jórdan frá þessum tíma eru nákvæmlega eins og vitna í báðum tilvikum um að þjóðmenningin hafi verið afmáð skyndilega og með ofbeldi,“ segir dr. Harold Stigers í bók sinni Commentary on Genesis. Jafnvel biblíugagnrýnendur, svo sem John Van Seters, sætta sig við þessi sönnunargögn. „Það er óráðin gáta hvert þessi þjóð fór, ef hún þá fór burt, við lok þessa tímabils,“ segir hann í bók sinni Abraham in History and Tradition.

Fjórtándi kafli 1. Mósebókar kann að geyma lausn gátunnar. Samkvæmt tímatali Biblíunnar kom Abraham til Kanaan árið 1943 f.o.t. Innrás Kedorlaómers og eyðileggingin sem henni fylgdi hlýtur að hafa átt sér stað skömmu eftir það. Síðar á þeirri sömu öld eyddi Guð hinum siðlausu borgum Sódómu og Gómorru í eldi. Neðri hluti Jórdandalsins hafði fram til þessa verið frjósamur en nú varð þar varanleg breyting á. (1. Mósebók 13:10-13; 19:24, 25) Nú girntist erlendur her ekki framar að ráðast þangað inn.

Auk þess eru mörg önnur dæmi hvernig fornleifafræðin fellur vel saman við Biblíuna í því að varpa ljósi á atburði í ævi Abrahams. En fornleifafræðinni eru takmörk sett. Sannanir hennar eða vísbendingar eru oft óbeinar og háðar túlkun ófullkominna manna.

Áreiðanlegasti vitnisburðurinn

Áreiðanlegasta sönnunin fyrir því að Abraham hafi verið til í raun og veru er vitnisburður skapara mannsins, Jehóva Guðs. Í Sálmi 105:9-15 fór Guð lofsamlegum orðum um Abraham, Ísak og Jakob sem „spámenn“ sína. Meira en þúsund árum eftir dauða Abrahams talaði Jehóva Guð um Abraham fyrir munn minnst þriggja spámanna og kallaði hann jafnvel „vin“ sinn. (Jesaja 41:8; 51:2; Jeremía 33:26; Esekíel 33:24) Jesús Kristur benti einnig á Abraham sem fordæmi. Meðan sonur Guðs var andi á himnum, áður en hann varð maður, hafði hann orðið persónulega vitni að samskiptum föður síns við ættföðurinn. Hann gat því sagt Gyðingunum:

„‚Ef þér væruð börn Abrahams, munduð þér vinna verk Abrahams. En nú leitist þér við að lífláta mig, mann sem hefur sagt yður sannleikann, sem ég heyrði hjá Guði. Slíkt gjörði Abraham aldrei. Abraham faðir yðar vænti þess með fögnuði að sjá dag minn, og hann sá hann og gladdist.‘ Nú sögðu Gyðingar við hann: ‚Þú ert ekki enn orðinn fimmtugur, og hefur séð Abraham!‘ Jesús sagði við þá: ‚Sannlega, sannlega segi ég yður: Áður en Abraham fæddist, er ég.‘“ — Jóhannes 8:39, 40, 56-58.

Með þennan vitnisburð og hvatningu tveggja mestu persóna alheimsins að bakhjarli höfum við bestu ástæður í heimi til að viðurkenna allt sem Biblían segir um Abraham. (Jóhannes 17:5, 17) Enda þótt Biblían bendi á Abraham sem fordæmi upphefur hún hann ekki með óviðeigandi hætti sem þjóðhetju. Það má sjá af frásögunni af sigri hans yfir konungunum fjórum. Þegar Abraham sneri aftur úr herförinni kom Melkísedek, konungur í Salem, til móts við hann og sagði: „Lofaður sé Hinn Hæsti Guð, sem gaf óvini þína þér í hendur!“ Það var Jehóva sem fékk heiðurinn af frelsuninni. — 1. Mósebók 14:18-20.

En langtum mikilfenglegri sigur er í vændum! Innan skamms mun þessi sami, dýrlegi Guð sigra „konunga allrar heimsbyggðarinnar“ í heimsstríði sem kallað er Harmagedón. (Opinberunarbókin 16:14, 16) Þá mun rætast fullkomlega fyrirheit Guðs við Abraham, spámann hans og vin: „Af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta.“ Milljónir manna hafa nú þegar fengið forsmekkinn af slíkri blessun. Þú getur verið einn þeirra eins og greinarnar á bls. 8-18 í þessu tímariti sýna. — 1. Mósebók 22:18.

[Kort/Myndir á blaðsíðu 7]

(Sjá uppraðaðan texta í blaðinu)

Hafið mikla

NEGEB

Damaskus

Harran

Efrat

Tígris

Úr

ELAM

Persaflói

[Kort]

Damaskus

Dan

REFAÍM

SÚSÍM

Síkem

Betel

Jórdansléttlendið

Saltisjór

Hebron

NEGEB

Konungavegurinn

EMÍM

Gomórra

Sódóma

HÓRÍTAR

[Myndir]

Abraham hlýddi boði Guðs og fluttist frá Úr sem var auðug borg.

Dæmi um listmuni frá Úr:

1. Gullrýtingur og slíður.

2. ‚Borgarmerki‘ Úr.

3. Nautshöfuð úr gulli af hljómkassa hörpu.

4. Skartgripur.

5. Höfuðbúnaður með skartgripum.

[Rétthafi]

Myndir birtar með leyfi Breska þjóðminjasafnsins.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila