Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • yp2 kafli 19 bls. 156-163
  • Hvernig get ég farið vel með peninga?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hvernig get ég farið vel með peninga?
  • Spurningar unga fólksins — svör sem duga, 2. bindi
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Lærðu grundvallaratriðin
  • Komdu auga á gildrurnar
  • Stjórnaðu eyðslunni
  • Hvernig get ég lært að fara vel með peninga?
    Vaknið! – 2006
  • Hvernig get ég lært að fara vel með peninga?
    Ungt fólk spyr
  • Hvernig annast á fjármálin
    Hamingjuríkt fjölskyldulíf
  • Hugleiðingar — Peningar
    Spurningar unga fólksins — svör sem duga, 2. bindi
Sjá meira
Spurningar unga fólksins — svör sem duga, 2. bindi
yp2 kafli 19 bls. 156-163

KAFLI 19

Hvernig get ég farið vel með peninga?

Hversu oft finnst þér að þig vanti peninga?

□ Aldrei

□ Stundum

□ Oft

Hversu oft kaupirðu eitthvað sem þú hefur í raun ekki efni á?

□ Aldrei

□ Stundum

□ Oft

Hversu oft kaupirðu eitthvað á útsölu jafnvel þótt þig vanti það ekki?

□ Aldrei

□ Stundum

□ Oft

FINNST þér þú aldrei eiga næga peninga? Ef þú ættir aðeins meiri peninga gætirðu keypt leikinn sem þig langar í. Ef launin þín væru aðeins hærri gætirðu keypt skóna sem þú „þarft“ að eignast. Eða kannski ertu í svipuðum aðstæðum og Joan sem segir: „Stundum vilja vinir mínir gera eitthvað, en það kostar peninga. Mig langar til að vera með þeim og skemmta mér. Enginn vill segja: ,Því miður, ég hef ekki efni á að koma með.‘“

En hvers vegna að ergja þig yfir því sem þú átt ekki? Væri ekki betra að læra að fara vel með það sem þú hefur milli handanna? Þú gætir auðvitað beðið með það þangað til þú flytur að heiman. En hugsaðu um eitt: Myndirðu stökkva út úr flugvél án þess að læra fyrst hvernig á að nota fallhlíf? Að vísu gætirðu fundið út úr því á meðan þú hrapar í átt til jarðar. Væri samt ekki betra að læra aðeins á búnaðinn áður en þú stekkur?

Að sama skapi er best fyrir þig að læra að fara vel með peninga á meðan þú býrð heima, áður en þú neyðist til að læra það í hörðum skóla reynslunnar. „Silfrið veitir forsælu,“ skrifaði Salómon konungur. (Prédikarinn 7:12) En peningar veita bara forsælu eða vernd ef þú kannt að fara vel með þá. Þegar þú lærir það færðu aukið sjálfstraust og foreldrarnir bera meira traust til þín.

Lærðu grundvallaratriðin

Hefurðu nokkurn tíma spurt foreldra þína hvað felist í því að reka heimili? Veistu til dæmis hvað hiti og rafmagn kosta í hverjum mánuði og hvað það kostar að reka bíl? Veistu hvað fer mikið í matarinnkaup, húsaleigu eða afborganir af lánum? Mundu að þú átt þátt í að stofna til þessara útgjalda og ef þú flytur að heiman þarft þú að standa undir svipuðum útgjöldum. Það er því alveg eins gott að vita hvað þú þarft á miklum peningum að halda til að sjá fyrir þér. Spyrðu foreldra þína hvort þú megir sjá nokkra reikninga og taktu vel eftir þegar þeir útskýra hvernig þeir hafa gert ráðstafanir til að greiða þá.

„Hinn vitri hlýðir á og eykur lærdóm sinn, og hinn hyggni þiggur hollráð,“ segir í Biblíunni. (Orðskviðirnir 1:5) Anna bað foreldra sína um að gefa sér góð ráð í þessum efnum. Hún segir: „Pabbi kenndi mér að gera fjárhagsáætlun og hann sýndi mér hversu nauðsynlegt er að hafa gott skipulag á fjármálum fjölskyldunnar.“

Mamma Önnu kenndi henni líka ýmislegt sem kom henni að gagni. „Hún sýndi mér hvað það er mikilvægt að bera saman verð áður en maður kaupir hluti,“ segir Anna. „Það var ótrúlegt hvað hún gat gert mikið fyrir lítið.“ Hefur þetta komið Önnu að gagni? Hún segir: „Núna get ég séð um mín eigin fjármál. Ég fylgist vandlega með því í hvað peningarnir fara og það veitir mér hugarró og ákveðið frelsi að skulda ekki að óþörfu.“

Komdu auga á gildrurnar

Það getur að vísu verið hægara sagt en gert að hafa hemil á eyðslunni, sérstaklega ef þú býrð heima og færð vasapeninga eða ert í launaðri vinnu. Hvers vegna? Vegna þess að foreldrar þínir borga líklega flesta reikninga. Þú getur því sennilega eytt stærstum hluta peninganna að eigin geðþótta. Og það getur verið skemmtilegt að eyða peningum.

Það gæti samt komið upp vandamál ef kunningjarnir reyna að fá þig til að eyða meiru en góðu hófi gegnir. Ellen, sem er 21 árs, segir: „Ein helsta afþreyingin meðal jafnaldra minna er að fara í búðir. Þegar við erum saman virðist það vera óskrifuð regla að maður verði að eyða peningum ef maður ætlar að skemmta sér.“

Það er ósköp eðlilegt að vilja passa inn í hópinn. En spyrðu þig: Eyði ég peningum með kunningjunum af því að ég hef efni á því eða vegna þess að mér finnst ég verða að gera það? Margir eyða peningum til að reyna að ávinna sér hylli vina og kunningja. Þeir reyna að vekja hrifningu annarra með eigum sínum en ekki eigin verðleikum. Þessi tilhneiging gæti komið þér í alvarleg fjárhagsvandræði, sérstaklega ef þú átt kreditkort eða ert með yfirdráttarheimild. Hvernig geturðu komið í veg fyrir það?

Stjórnaðu eyðslunni

Hvers vegna ekki að nota tillögu Ellenar frekar en að misnota kreditkortið eða sóa öllum laununum þínum á einu bretti? Hún segir: „Þegar ég fer út með vinum mínum reikna ég út fyrir fram hvað ég get eytt miklu. Launin mín eru lögð beint inn á bankareikning og ég tek bara út þá upphæð sem ég þarf í hvert skipti. Mér finnst líka skynsamlegt að fara í búðir með vinum sem kunna að fara með peninga og hvetja mig frekar til að skoða mig um og bera saman verð í stað þess að kaupa það fyrsta sem ég sé.“

Hér eru nokkrar tillögur sem þú getur nýtt þér ef þú ert með kreditkort.

● Skráðu hjá þér það sem þú kaupir og berðu það vandlega saman við yfirlitið sem þú færð mánaðarlega til að ganga úr skugga um að þú borgir aðeins fyrir það sem þú keyptir.

● Borgaðu kreditkortareikninginn á réttum tíma. Greiddu hann að fullu ef mögulegt er.

● Hafðu varann á þegar þú gefur upp kreditkortanúmerið og gildistímann í gegnum símann eða Netið.

● Notaðu helst ekki kortið til að taka út reiðufé. Oft þarf maður að borga gjöld eða háa vexti fyrir slíkar úttektir.

● Lánaðu aldrei öðrum kreditkortið þitt, ekki einu sinni vini þínum.

En myndi það ekki bara leysa allan vanda að eignast meiri peninga? Það er ólíklegt! Segjum sem svo að þú ækir bíl en hefðir ekki stjórn á honum eða legðir það í vana þinn að keyra með lokuð augun. Myndi það auka öryggi þitt að setja meira bensín á bílinn? Væri líklegra að þú kæmist heilu og höldnu á leiðarenda? Að sama skapi leysir það ekki málin að eignast meiri peninga ef þú lærir ekki að hafa stjórn á peningaeyðslunni.

En kannski finnst þér að þú hafir nú þegar góða stjórn á peningunum þínum. Spyrðu þig samt: Hve miklu eyddi ég í síðasta mánuði? Í hvað fóru peningarnir? Ertu ekki viss? Hér koma tillögur um hvernig þú getur haft stjórn á eyðslunni áður en hún fer að stjórna þér.

1. Haltu bókhald. Skráðu hjá þér í að minnsta kosti einn mánuð þær tekjur sem þú hefur og hvenær þú færð þær. Skrifaðu niður allt sem þú kaupir og hvað það kostaði. Við lok mánaðarins skaltu leggja saman allar tekjur og öll útgjöld.

2. Gerðu fjárhagsáætlun. Skoðaðu töfluna á bls. 163. Skráðu í fyrsta dálkinn allar tekjur sem þú gerir ráð fyrir að hafa í mánuðinum. Skráðu í næsta dálk hvað þú hefur hugsað þér að nota peningana í. Notaðu bókhaldið frá síðasta mánuði (sjá 1. lið) til viðmiðunar. Skráðu jafnt og þétt í þriðja dálkinn hve miklu þú eyðir í raun og veru og berðu það saman við það sem var áætlað. Skráðu líka öll óvænt útgjöld.

3. Breyttu venjum þínum. Ef þú hefur eytt meiru en þú ætlaðir þér og ert kominn í skuld skaltu breyta eyðsluvenjum þínum. Greiddu skuldina. Stjórnaðu eyðslunni.

Peningar geta verið þarfur þjónn ef þeir eru notaðir skynsamlega. Í flestum þjóðfélögum snýst stór hluti af lífi fólks um að afla peninga og ráðstafa þeim. En reyndu að temja þér rétt viðhorf. „Peningar eru nauðsynlegir en þeir eru ekki allt,“ segir Matthew. „Við ættum aldrei að taka þá fram yfir fjölskylduna eða Jehóva.“

Í NÆSTA KAFLA

Er fjölskyldan þín fátæk? Ef svo er, hvernig geturðu gert það besta úr aðstæðum þínum?

LYKILRITNINGARSTAÐUR

„Silfrið veitir forsælu en yfirburðir þekkingarinnar eru þeir að spekin heldur lífinu í þeim sem hana á.“ — Prédikarinn 7:12.

RÁÐ

Gerðu innkaupalista áður en þú ferð að versla. Taktu bara með þér þá peninga sem þú þarft og kauptu aðeins það sem stendur á listanum.

VISSIR ÞÚ . . .?

Segjum að þú takir 200.000 kr. kortalán til tveggja ára með 18,5% vöxtum. Þá greiðir þú að meðaltali um 10.500 kr. á mánuði og rúmlega 51.000 kr. í vexti og kostnað til viðbótar við höfuðstólinn.

HVAÐ ÆTLA ÉG AÐ GERA?

Ég get haft stjórn á eyðslunni með því að ․․․․․

Áður en ég kaupi eitthvað með kreditkorti ætla ég að ․․․․․

Það sem mig langar til að spyrja foreldra mína um ․․․․․

HVAÐ FINNST ÞÉR?

● Af hverju ættirðu að læra að fara vel með peninga á meðan þú býrð enn heima?

● Af hverju gæti þér fundist erfitt að hafa stjórn á peningaeyðslunni?

● Hvernig geturðu notað peningana þína til að hjálpa öðrum?

[Innskot á bls. 162]

„Mér gengur betur að spara ef ég geri fjárhagsáætlun. Þá kaupi ég ekki hluti sem mig vantar ekki.“— Lea

[Rammi á bls. 158]

peningarnir segja sína sögu

Í hvað notarðu peningana þína? Ef þú hefur fyrir venju að nota peninga til að hjálpa öðrum segirðu — ekki bara með orðum heldur líka með verkum — að þér sé einlæglega annt um aðra. (Jakobsbréfið 2:14-17) Með því að gefa peninga að staðaldri til að styðja sanna tilbeiðslu heiðrar þú Jehóva „með eigum þínum“. (Orðskviðirnir 3:9) En hvað segir það um þig ef þú eyðir peningum þínum bara í sjálfa(n) þig?

[Tafla/myndir á bls. 163]

Vinnublað

Fjárhagsáætlun mánaðarins

Taktu afrit af þessari síðu!

Tekjur

VASAPENINGAR

HLUTASTARF

ANNAÐ

Alls

kr. ․․․․․

Áætluð útgjöld

MATUR

․․․․․

FÖT

․․․․․

SÍMI

․․․․․

AFÞREYING

․․․․․

FRAMLÖG

․․․․․

SPARNAÐUR

․․․․․

ANNAÐ

․․․․․

Alls

kr. ․․․․․

Raunútgjöld

MATUR

․․․․․

FÖT

․․․․․

SÍMI

․․․․․

AFÞREYING

․․․․․

FRAMLÖG

․․․․․

SPARNAÐUR

․․․․․

ANNAÐ

․․․․․

Alls

kr. ․․․․․

[Mynd á bls. 160]

Að eyða peningum stjórnlaust er eins og keyra með bundið fyrir augun.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila