1. KAFLI
Býr leyndardómur að baki farsælu fjölskyldulífi?
1. Af hverju eru traustar fjölskyldur mikilvægar?
FJÖLSKYLDAN hefur gegnt mikilvægu hlutverki í samfélagi manna frá öndverðu og traustar fjölskyldur hafa alla tíð verið grundvöllur traustra þjóðfélaga. Fjölskyldan er besti vettvangurinn til að ala börnin þannig upp að þau verði þroskaðir einstaklingar.
2-5. (a) Hvernig líður barni í hamingjusamri fjölskyldu? (b) Hvaða vandamál eiga sumar fjölskyldur við að glíma?
2 Hamingjusöm fjölskylda er eins og athvarf þar sem fólk getur búið við frið og öryggi. Sjáðu fyrir þér fjölskyldu þar sem ástríkir foreldrar sitja með börnunum við kvöldverðarborðið og ræða um atburði dagsins. Börnin eru glöð og keppast við að segja foreldrunum hvað gerðist í skólanum. Andrúmsloftið er hlýlegt og býr alla undir nýjan dag utan heimilisins.
3 Börn í hamingjusamri fjölskyldu vita að foreldrarnir annast þau ef þau veikjast og skiptast jafnvel á að vaka yfir þeim næturlangt. Börnin vita að þau geta leitað til foreldra sinna og fengið hjá þeim ráð og stuðning þegar þau glíma við vandamál æskunnar. Já, þau finna til öryggiskenndar innan veggja heimilisins sama hve erfiður umheimurinn er.
4 Börnin vaxa úr grasi og flest giftast þau og stofna eigin fjölskyldu þegar fram líða stundir. „Þegar við eignumst börn skiljum við hve mikið við eigum foreldrunum að þakka,“ segir austurlenskur málsháttur. Uppkomin börn, sem kunna að meta ást og umhyggju foreldranna, reyna eftir bestu getu að stuðla að hamingju sinnar eigin fjölskyldu. Og þau annast aldraða foreldra sína sem hafa yndi af því að vera með barnabörnunum.
5 Þegar hér er komið sögu ertu kannski farinn að hugsa: „Auðvitað þykir mér vænt um fjölskylduna en hún er ekki eins og hér er lýst. Við hjónin vinnum á mismunandi tímum, sjáumst næstum aldrei og tölum aðallega um peningavandamál.“ Eða: „Börnin og barnabörnin búa langt í burtu og ég sé þau lítið sem ekkert.“ Já, óviðráðanlegar aðstæður gera oft að verkum að fjölskyldulífið er ekki eins og best væri á kosið. Þrátt fyrir það eru margar fjölskyldur hamingjusamar. Hvernig fara þær að því? Býr einhver leyndardómur að baki farsælu fjölskyldulífi? Svarið er já. En áður en við ræðum um það skulum við leita svars við mikilvægri spurningu.
HVAÐ ER FJÖLSKYLDA?
6. Um hvers konar fjölskyldur verður rætt í þessari bók?
6 Kjarnafjölskyldan, það er að segja faðir, móðir og börn, er algengust á Vesturlöndum. Afinn og amman búa oftast út af fyrir sig eins lengi og þau geta. Fólk heldur sambandi við fjarskylda ættingja en hefur takmarkaðar skyldur gagnvart þeim. Í þessari bók verður aðallega fjallað um kjarnafjölskylduna. Hins vegar er annars konar fjölskylduform orðið mjög algengt núorðið — fjölskyldur einstæðra foreldra, stjúpfjölskyldur og svo fjölskyldur þar sem hjónin búa ekki saman einhverra hluta vegna.
7. Hvernig eru samskipti stórfjölskyldunnar í sumum menningarsamfélögum?
7 Í sumum menningarsamfélögum er stórfjölskyldan mjög nátengd. Þá annast börnin aldraða foreldra ef þau geta og hafa ýmsar skyldur gagnvart fjarskyldari ættingjum. Fólk hjálpar til við að ala upp og sjá fyrir systkinabörnum sínum eða öðrum fjarskyldari ættingjum og kostar jafnvel menntun þeirra. Meginreglurnar í þessari bók ná einnig til þess konar fjölskyldna.
FJÖLSKYLDAN Í KREPPU
8, 9. Hvaða vandamál í sumum löndum benda til þess að fjölskyldan sé að breytast?
8 Fjölskyldan er að breytast og breytingarnar eru því miður ekki til batnaðar. Við sjáum dæmi um það á Indlandi þar sem algengt er að hjón búi hjá fjölskyldu eiginmannsins og eiginkonan vinni á heimilinu undir leiðsögn tengdaforeldranna. Nú eru hins vegar margar þeirra farnar að vinna utan heimilisins. Þrátt fyrir það er enn þá ætlast til þess að þær sinni hefðbundnum skyldum sínum á heimilinu. Víða um lönd er sú spurning ofarlega á baugi hvernig heimilisstörfin eigi að skiptast milli útivinnandi húsmóður og annarra í fjölskyldunni.
9 Í austurlenskum samfélögum er hefð fyrir því að halda nánu sambandi við stórfjölskylduna. En áhrif vestrænnar einstaklingshyggju og álagið, sem fylgir fjárhagserfiðleikum, hefur veikt fjölskylduböndin. Margir líta nú á umönnun aldraðra ættingja sem byrði en ekki skyldu eða heiður, og þess eru jafnvel dæmi að öldruðum foreldrum sé misþyrmt. Víða um lönd er það þekkt vandamál að farið sé illa með aldraða og þeir vanræktir.
10, 11. Hvað sýnir að fjölskyldan er að breytast í mörgum Evrópulöndum?
10 Hjónaskilnuðum er einnig að fjölga. Á tíunda áratug síðustu aldar endaði áttunda hvert hjónaband á Spáni með skilnaði. Það er gríðarleg aukning því að 25 árum áður var skilnaðartíðnin þar í landi aðeins eitt prósent. Í Bretlandi er einhver hæsta tíðni hjónaskilnaða í Evrópu en þar má búast við að fern hjón af hverjum tíu skilji. Einstæðum foreldrum hefur einnig fjölgað mjög mikið í Bretlandi.
11 Í Þýskalandi virðast margir ætla að hverfa algerlega frá hefðbundnu fjölskyldulífi. Á tíunda áratug síðustu aldar var svo komið að á 35 prósent heimila bjó fólk eitt. Á 31 prósenti heimila bjuggu tveir. Í Frakklandi ganga einnig færri í hjónaband en áður og þeir sem giftast skilja oftar og fyrr. Sífellt fleiri kjósa að búa saman án þess að axla þá ábyrgð sem fylgir hjónabandi. Þróunin er svipuð annars staðar í heiminum.
12. Hvernig líða börn fyrir þær breytingar sem hafa orðið á fjölskyldulífinu?
12 En hvað um börnin? Í Bandaríkjunum og víða annars staðar fæðast fleiri og fleiri börn utan hjónabands og margar mæður eru aðeins á táningsaldri. Sumar unglingsstúlkur eiga nokkur börn en engin þeirra samfeðra. Skýrslur alls staðar að úr heiminum gefa til kynna að milljónir barna séu heimilislausar og búi á götunni. Mörg þeirra eru að flýja heimilisofbeldi eða eru send á götuna því að fjölskyldan getur ekki séð fyrir þeim lengur.
13. Hvaða algengu vandamál ræna margar fjölskyldur hamingjunni?
13 Já, fjölskyldan er sannarlega í kreppu. Auk þess sem talið hefur verið upp má nefna uppreisn unglinga, kynferðisofbeldi gegn börnum, ofbeldi gegn maka, alkóhólisma og önnur skelfileg vandamál sem ræna margar fjölskyldur hamingjunni. Í augum fjölda barna og fullorðinna er heimilið langt frá því að vera friðsælt athvarf.
14. (a) Hvers vegna er fjölskyldan í kreppu að mati sumra? (b) Hvernig lýsti löglærður maður á fyrstu öld ástandinu nú á dögum og hvaða áhrif hefur þetta á fjölskyldulífið?
14 Af hverju er fjölskyldan í kreppu? Sumir segja að það sé vegna þess að konur fóru út á vinnumarkaðinn. Aðrir segja orsökina vera almennt siðferðishrun í þjóðfélaginu. Margar aðrar ástæður hafa einnig verið nefndar. Fyrir næstum tvö þúsund árum sagði þekktur, löglærður maður að fjölskyldan myndi verða fyrir miklum erfiðleikum. Hann skrifaði: „Á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir. Mennirnir verða sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, lastmælendur, foreldrum óhlýðnir, vanþakklátir, vanheilagir, kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er, sviksamir, framhleypnir, ofmetnaðarfullir, elskandi munaðarlífið meira en Guð.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1-4) Efast nokkur um að þessi orð séu að uppfyllast núna? Það er ekki að furða að margar fjölskyldur eigi í erfiðleikum þegar ástandið er eins og raun ber vitni.
LEYNDARDÓMURINN AÐ BAKI FARSÆLU FJÖLSKYLDULÍFI
15-17. Hvar er að finna leyndardóminn að baki farsælu fjölskyldulífi?
15 Enginn skortur er á leiðbeiningum um það hvernig fjölskyldur geti verið hamingjusamar. Á Vesturlöndum er endalaust framboð af sjálfshjálparbókum og blöðum sem veita ýmis ráð. Vandinn er hins vegar sá að ráðgjöfum ber ekki alltaf saman og það sem er vinsælt í dag getur talist úrelt á morgun.
16 Hvar geta fjölskyldur fundið áreiðanlega leiðsögn? Myndirðu leita ráða í 1900 ára gamalli bók? Eða myndirðu telja að hún hlyti að vera úrelt? Sannleikurinn er sá að leyndardóminn að baki farsælu fjölskyldulífi er einmitt að finna í slíkri bók.
17 Þessi bók er Biblían. Öll rök hníga að því að hún sé innblásin af Guði. Í Biblíunni er fullyrt: „Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti.“ (2. Tímóteusarbréf 3:16) Við hvetjum þig til að hugleiða hvernig Biblían getur hjálpað þér að ‚leiðrétta‘ það sem þarf þegar þú tekst á við álag og erfiðleika nútímafjölskyldu.
18. Af hverju er rökrétt að Biblían geti gefið leiðbeiningar um hjónabandið?
18 Ef þú ert efins um að Biblían geti stuðlað að hamingjuríku fjölskyldulífi skaltu hugleiða eftirfarandi: Biblían er innblásin af höfundi hjónabandsins. (1. Mósebók 2:18-25) Þar kemur fram að hann heiti Jahve eða Jehóva. (2. Mósebók 6:3, neðanmáls) Hann er skapari okkar og faðirinn „sem hvert faðerni fær nafn af á himni og jörðu“. (Efesusbréfið 3:14, 15) Jehóva hefur fylgst með fjölskyldulífinu frá upphafi mannkyns. Hann veit hvaða vandamál geta komið upp og hefur gefið leiðbeiningar til að leysa þau. Meginreglur Biblíunnar um fjölskyldlífið hafa í aldanna rás hjálpað fólki að höndla hamingjuna.
19-21. Hvaða dæmi sýna að Biblían getur leyst erfiðleika í hjónabandinu?
19 Þriggja barna móðir í Indónesíu er dæmi um það. Hún var spilafíkill, vanrækti börnin sín árum saman og reifst oft við eiginmanninn. Síðan ákvað hún að kynna sér Biblíuna og fór smám saman að trúa því sem Biblían segir. Þegar hún fylgdi meginreglum hennar varð hún betri eiginkona og það varð allri fjölskyldunni til góðs.
20 Húsmóðir á Spáni segir: „Við höfðum aðeins verið gift í ár þegar alvarleg vandamál gerðu vart við sig.“ Þau hjónin áttu lítið sameiginlegt og töluðu sjaldan saman án þess að rífast. Þau ákváðu að skilja að borði og sæng þótt þau ættu unga dóttur. Áður en þau létu verða af því voru þau hvött til að leita ráða í Biblíunni. Þau kynntu sér leiðbeiningar hennar um hjónabandið og tóku þær til sín. Áður en langt um leið breyttust samskiptin til hins betra og fjölskyldan varð sameinuð og hamingjusöm.
21 Ráðleggingar Biblíunnar hjálpa einnig þeim sem eldri eru. Japönsk hjón eru dæmi um það. Eiginmaðurinn var skapstyggur og beitti stundum ofbeldi. Dætur hjónanna fóru að kynna sér Biblíuna gegn vilja foreldra sinna. Síðan fylgdi eiginmaðurinn í fótspor dætranna en eiginkonan var enn mótfallin. Með árunum tók hún þó eftir því að meginreglur Biblíunnar höfðu góð áhrif á fjölskylduna. Dæturnar hugsuðu vel um hana og eiginmaðurinn varð miklu mildari. Þetta varð til þess að hún fór einnig að lesa Biblíuna og það hafði jákvæð áhrif á hana. Þessi aldraða kona sagði oft: „Við urðum alvöruhjón.“
22, 23. Hvernig hjálpar Biblían fjölskyldum af öllum þjóðum að vera hamingjusamar?
22 Þetta eru aðeins nokkur dæmi af mörgum um fólk sem hefur uppgötvað leyndardóminn að baki farsælu fjölskyldulífi. Það hefur hlustað á leiðbeiningar Biblíunnar og tekið þær til sín. Vissulega er þetta fólk ófullkomið eins og allir aðrir og býr í heimi þar sem ofbeldi, siðleysi og fjárhagserfiðleikar eru daglegt brauð. En þeir sem leggja sig fram við að gera vilja Jehóva Guðs, höfundar fjölskyldunnar, finna hamingjuna. Eins og Biblían segir er Jehóva sá sem kennir okkur að gera það sem okkur er gagnlegt og vísar okkur veginn sem við eigum að ganga. — Jesaja 48:17.
23 Þótt ritun Biblíunnar hafi lokið fyrir næstum tvö þúsund árum eiga leiðbeiningar hennar fyllilega við nú á dögum. Auk þess var hún skrifuð fyrir alla menn því að Jehóva ‚skapaði af einum allar þjóðir manna‘ og þekkir eðli þeirra. (Postulasagan 17:26) Allir geta notið góðs af meginreglum Biblíunnar. Ef þú ferð eftir þeim geturðu kynnst leyndardóminum að baki farsælu fjölskyldulífi.