-
„Þetta á að verða“Varðturninn – 1999 | 1. júní
-
-
„Þetta á að verða“
„Jesús svaraði þeim: . . . ‚Þetta á að verða, en endirinn er ekki þar með kominn.‘“ — MATTEUS 24:4-6.
1. Hvaða máli ættum við að hafa áhuga á?
ÞÚ HEFUR áreiðanlega áhuga á lífi þínu og framtíð. Þá ættirðu líka að hafa áhuga á máli sem vakti athygli C. T. Russels árið 1877. Russell, sem stofnaði síðar Varðturnsfélagið, skrifaði bæklinginn The Object and Manner of Our Lord’s Return (Markmið og eðli endurkomu Drottins). Bæklingurinn var 64 blaðsíður og fjallaði um endurkomu Jesú. (Jóhannes 14:3) Jesús var staddur á Olíufjallinu með postulum sínum þegar þeir spurðu hann um endurkomu sína: „Seg þú oss, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn komu þinnar [„nærveru,“ NW] og endaloka veraldar?“ — Matteus 24:3.
2. Af hverju eru margar ólíkar skoðanir á því hvað Jesús hafi sagt fyrir?
2 Þekkirðu og skilurðu svar Jesú sem er að finna í þrem af guðspjöllunum? Prófessor D. A. Carson segir: „Fáir kaflar Biblíunnar hafa vakið jafnmikinn ágreining meðal biblíuskýrenda og Matteus 24. kafli og hliðstæðar frásögur í Markúsi 13. kafla og Lúkasi 21. kafla.“ Síðan lætur hann í ljós sína eigin skoðun — sem er enn eitt dæmi um sundurleitar skoðanir manna. Margar slíkar skoðanir, sem komu fram á síðustu öld, báru vitni um trúleysi. Talsmenn þeirra héldu því fram að Jesús hefði aldrei sagt það sem við lesum í guðspjöllunum, heldur hafi orð hans verið færð í stílinn eða spár hans brugðist. Þessi sjónarmið áttu rætur sínar að rekja til æðri biblíugagnrýni. Einn biblíuskýrandi skoðaði jafnvel Markúsarguðspjall ‚út frá sjónarhóli mahayana-búddhatrúarheimspeki‘!
3. Hvaða augum líta vottar Jehóva spádóm Jesú?
3 Vottar Jehóva viðurkenna hins vegar Biblíuna sem áreiðanlega og ósvikna, þar á meðal það sem Jesús sagði postulunum fjórum sem með honum voru á Olíufjallinu þrem dögum fyrir dauða hans. Frá því að C. T. Russell var uppi hefur fólk Guðs jafnt og þétt fengið gleggri skilning á spádóminum sem Jesús bar fram þar. Á allra síðustu árum hefur Varðturninn aukið enn við skilning þeirra á þessum spádómi. Hefur þú drukkið í þig þessar upplýsingar og séð áhrif þeirra á líf þitt?a Rifjum þær upp.
Átakanleg uppfylling í nánd
4. Hver kann að vera ástæðan fyrir því að postularnir spurðu Jesú um framtíðina?
4 Postularnir vissu að Jesús var Messías. Þegar þeir heyrðu hann nefna dauða sinn, upprisu og endurkomu hlýtur þeim að hafa verið spurn hvernig hann gæti áorkað öllum þeim dásemdum, sem Messías átti að gera, ef hann dæi og hyrfi á brott. Og Jesús talaði um endalok Jesúsalem og musterisins. Postularnir hafa kannski velt fyrir sér hvenær þau yrðu og með hvaða hætti. Þeir voru að reyna að glöggva sig á þessu þegar þeir spurðu: „Hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn þess, að allt þetta sé að koma fram?“ — Markús 13:4; Matteus 16:21, 27, 28; 23:37–24:2.
5. Hvernig uppfylltust orð Jesú á fyrstu öld?
5 Jesús boðaði styrjaldir, hallæri, drepsóttir, jarðskjálfta, hatur og ofsóknir á hendur kristnum mönnum, falsmessíasa og víðtæka prédikun fagnaðarerindisins um ríkið. Þá átti endirinn að koma. (Matteus 24:4-14; Markús 13:5-13; Lúkas 21:8-19) Jesús sagði þetta snemma árs 33. Á áratugunum á eftir gátu vökulir lærisveinar hans séð hvernig það sem hann spáði rættist með markverðum hætti. Sagan sannar að táknið uppfylltist á þeim tíma og var undanfari þess að Rómverjar eyddu gyðingakerfinu á árunum 66-70. Hvernig gerðist það?
6. Hvernig var framvindan í samskiptum Rómverja og Gyðinga árið 66?
6 Sumarið 66 réðust sílótar Gyðinga á rómverska verði í virki nálægt musterinu í Jerúsalem. Þetta var kveikjan að ofbeldisverkum annars staðar í landinu. Prófessor Heinrich Graetz segir í bókinni History of the Jews: „Cestíus Gallus hafði það verkefni sem landstjóri Sýrlands að halda uppi heiðri herdeilda Rómar, . . . og gat ekki horft lengur upp á uppreisnina breiðast út án þess að aðhafast nokkuð til að stemma stigu við henni. Hann kallaði hersveitir sínar saman og grannhöfðingjar sendu herlið sitt sjálfviljuglega.“ Þessi 30.000 manna her umkringdi Jerúsalem. Eftir að hafa barist um hríð hörfuðu Gyðingar inn fyrir múrana umhverfis musterið. „Í fimm daga samfleytt gerðu Rómverjar áhlaup að múrunum en urðu alltaf að hörfa undan skeytum Júdeumanna. Það var ekki fyrr en á sjötta degi sem þeim tókst að grafa undan hluta af norðurmúrnum framan við musterið.“
7. Hvers vegna gátu lærisveinar Jesú haft annað sjónarmið en þorri Gyðinga?
7 Þú getur ímyndað þér hve ráðvilltir Gyðingar hljóta að hafa verið því að þeir höfðu löngum talið að Guð myndi vernda þá og hina helgu borg þeirra. En lærisveinar Jesú höfðu verið varaðir við að ógæfa biði Jerúsalem. Jesús hafði boðað: „Þeir dagar munu koma yfir þig, að óvinir þínir munu gjöra virki um þig, setjast um þig og þröngva þér á alla vegu. Þeir munu leggja þig að velli og börn þín, sem í þér eru, og ekki láta standa stein yfir steini í þér.“ (Lúkas 19:43, 44) En var þetta dauðadómur yfir kristnum mönnum sem voru í Jerúsalem árið 66?
8. Hvaða ógæfu boðaði Jesús og hverjir voru ‚hinir útvöldu‘ sem dagarnir yrðu styttir vegna?
8 Jesús spáði í svari sínu til postulanna á Olíufjallinu: „Á þeim dögum verður sú þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi sköpunar, er Guð skapaði, allt til þessa, og mun aldrei verða. Ef [Jehóva] hefði ekki stytt þessa daga, kæmist enginn maður af. En hann hefur stytt þá vegna þeirra, sem hann hefur útvalið.“ (Markús 13:19, 20; Matteus 24:21, 22) Dagarnir yrðu því styttir og ‚hinir útvöldu‘ myndu bjargast. Hverjir voru það? Ekki voru það hinir uppreisnarfullu Gyðingar sem sögðust tilbiðja Jehóva en höfðu hafnað syni hans. (Jóhannes 19:1-7; Postulasagan 2:22, 23, 36) Hinir útvöldu á þeim tíma voru Gyðingar og annarra þjóða menn sem iðkuðu trú á Jesú sem Messías og frelsara. Guð hafði útvalið þá og á hvítasunnunni árið 33 hafði hann gert þá að nýrri, andlegri þjóð, „Ísrael Guðs.“ — Galatabréfið 6:16; Lúkas 18:7; Postulasagan 10:34-45; 1. Pétursbréf 2:9.
9, 10. Hvernig voru árásardagar Rómverja ‚styttir‘ og með hvaða afleiðingum?
9 Voru dagarnir ‚styttir‘ og komust hinir smurðu og útvöldu í Jerúsalem af? Prófessor Graetz segir: „[Cestíus Gallus] taldi ekki ráðlegt að halda áfram bardögum gegn hetjulegum ofstækismönnum og eiga fyrir höndum langstæðan hernað á þessum árstíma þegar skammt var í haustrigningarnar . . . er gætu hindrað vistaflutninga til hersins. Það er sennilega ástæðan fyrir því að hann taldi hyggilegast að hörfa.“ Hvað svo sem Cestíus Gallus var að hugsa hvarf rómverski herinn frá borginni og Gyðingarnir, sem veittu honum eftirför, ollu miklum usla í liði hans.
10 Þetta óvænta undanhald Rómverja varð þess valdandi að ‚menn‘ komust af, það er að segja lærisveinar Jesú sem voru í lífshættu í Jerúsalem. Sagan greinir frá því að kristnir menn hafi flúið svæðið þegar þessi flóttaleið opnaðist. Þetta er glöggt dæmi um getu Guðs til að sjá framtíðina fyrir og tryggja að tilbiðjendur sínir bjargist. En hvað um vantrúa Gyðinga sem héldu kyrru fyrir í Jerúsalem og Júdeu?
Samtíðarmenn áttu að sjá þrenginguna
11. Hvað sagði Jesús um ‚þessa kynslóð‘?
11 Margir Gyðingar voru þeirrar skoðunar að tilbeiðslukerfi þeirra með miðstöð í musterinu ætti sér langa framtíð. En Jesús sagði: „Nemið líkingu af fíkjutrénu. Þegar greinar þess fara að mýkjast og laufið að springa út, þá vitið þér, að sumar er í nánd. Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið allt þetta, að hann er í nánd, fyrir dyrum. Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt þetta er komið fram. Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða.“ — Matteus 24:32-35.
12, 13. Hvernig hafa lærisveinarnir skilið orð Jesú um ‚þessa kynslóð‘?
12 Á árunum fram til 66 hafa kristnir menn séð marga þætti þessa samsetta tákns uppfyllast — styrjaldir, hallæri og jafnvel umfangsmikla boðun fagnaðarerindisins um ríkið. (Postulasagan 11:28; Kólossubréfið 1:23) En hvenær myndi endirinn koma? Hvað átti Jesús við þegar hann sagði: „Þessi kynslóð [geneaʹ á grísku] mun ekki líða undir lok“? Jesús hafði oft kallað hinn andsnúna fjölda Gyðinga, sem voru samtíða honum, ‚vonda og ótrúa kynslóð,‘ þeirra á meðal trúarleiðtogana. (Matteus 11:16; 12:39, 45; 16:4; 17:17; 23:36) Þegar hann talaði enn á ný um ‚þessa kynslóð‘ á Olíufjallinu átti hann augljóslega ekki við allan hinn gyðinglega kynstofn mannkynssögunnar, og ekki átti hann heldur við fylgjendur sína þótt þeir væru kallaðir „útvalin kynslóð.“ (1. Pétursbréf 2:9) Jesús var ekki heldur að segja að „þessi kynslóð“ væri tímabil.
13 Jesús átti við andsnúna Gyðinga á þeim tíma sem myndu lifa uppfyllingu táknsins sem hann gaf. Prófessor Joel B. Green segir um ‚þessa kynslóð‘ í Lúkasi 21:32: „Í þriðja guðspjallinu er ‚þessi kynslóð‘ (og skylt orðalag) stöðugt notað um flokk manna sem veitir tilgangi Guðs mótstöðu . . . um fólk sem snýr þrjóskulega baki við tilgangi Guðs.“b
14. Hvað kom yfir ‚kynslóðina‘ en hvernig fór fyrir kristnum mönnum?
14 Hin vonda kynslóð andsnúinna Gyðinga, sem gat séð táknið uppfyllast, myndi einnig sjá endinn. (Matteus 24:6, 13, 14) Og það gerði hún svo sannarlega. Rómverski herinn sneri aftur árið 70 undir forystu Títusar, sonar Vespasíanusar keisara. Þjáningar Gyðinga, sem voru innikróaðir í borginni, eru nánast ólýsanlegar.c Flavíus Jósefus var sjónarvottur að atburðunum og hann segir að um 1.100.000 Gyðingar hafi látið lífið þegar Rómverjar eyðilögðu borgina, og að um 100.000 hafi verið teknir til fanga, en flestir þeirra hafi hlotið hryllilegan dauðdaga skömmu síðar, annaðhvort af völdum hungurs eða í rómverskum hringleikahúsum. Þrenging áranna 66-70 var svo sannarlega sú mesta sem Jerúsalem og gyðingakerfið hafði nokkurn tíma orðið fyrir og myndi verða fyrir. En kristnir menn höfðu hlýtt spádómlegri viðvörun Jesú og yfirgefið Jerúsalem eftir brotthvarf rómversku hersveitanna árið 66, og örlög þeirra urðu allt önnur. Smurðir kristnir menn, ‚hinir útvöldu,‘ ‚komust af‘ óhultir árið 70. — Matteus 24:16, 22.
Önnur uppfylling væntanleg
15. Hvernig getum við verið viss um að spádómur Jesú eigi að hljóta meiri uppfyllingu en varð árið 70?
15 En þetta var ekki lokauppfyllingin. Jesús hafði áður gefið til kynna að hann myndi koma í nafni Jehóva eftir að borginni væri eytt. (Matteus 23:38, 39; 24:2) Hann tók það síðan enn skýrar fram í spádómi sínum á Olíufjallinu. Eftir að hafa nefnt hina komandi ‚miklu þrengingu‘ sagði hann að falskristar myndu koma fram og að Jerúsalem yrði fótum troðin af heiðingjum um langt skeið. (Matteus 24:21, 23-28; Lúkas 21:24) Gat hugsast að spádómurinn ætti sér aðra og meiri uppfyllingu? Staðreyndirnar svara því játandi. Þegar við berum Opinberunarbókina 6:2-8 (sem var skrifuð eftir þrengingu Jerúsalemborgar árið 70) saman við Matteus 24:6-8 og Lúkas 21:10, 11 sjáum við að hernaður, matvælaskortur og drepsóttir voru framundan í meiri mæli en áður. Þessi meiri uppfylling orða Jesú hefur átt sér stað síðan fyrri heimsstyrjöldin braust út árið 1914.
16-18. Hvað væntum við að eigi eftir að gerast?
16 Vottar Jehóva hafa um áratuga skeið kennt að núverandi uppfylling táknsins sanni að ‚mikil þrenging‘ sé framundan. Hin núverandi illa „kynslóð“ mun sjá þrenginguna. Svo virðist sem aftur verði upphafskafli (árás á öll fölsk trúarbrögð) alveg eins og árás Gallusar árið 66 markaði upphaf þrengingarinnar í Jerúsalem.d Eftir hlé af ótiltekinni lengd kemur svo endirinn — eyðing á heimsmælikvarða sem samsvarar eyðingunni árið 70.
17 Jesús sagði um þrenginguna sem er rétt framundan: „Þegar eftir þrenging þessara daga [tortímingu falskra trúarbragða] mun sólin sortna og tunglið hætta að skína. Stjörnurnar munu hrapa af himni og kraftar himnanna bifast. Þá mun tákn Mannssonarins birtast á himni, og allar kynkvíslir jarðarinnar hefja kveinstafi. Og menn munu sjá Mannssoninn koma á skýjum himins með mætti og mikilli dýrð.“ — Matteus 24:29, 30.
18 Jesús segir því sjálfur að einhvers konar fyrirbæri verði á himni „eftir þrenging þessara daga.“ (Samanber Jóel 3:1-5, 20.) Óhlýðnum mönnum verður svo bilt við að þeir „hefja kveinstafi.“ Margir „munu gefa upp öndina af ótta og kvíða fyrir því, er koma mun yfir heimsbyggðina.“ En sannkristnir menn verða ekki í þeim hópi heldur munu þeir ‚lyfta upp höfðum sínum því að lausn þeirra er í nánd.‘ — Lúkas 21:25, 26, 28.
Dómur framundan
19. Hvernig getum við fundið út hvenær dæmisagan um sauðina og hafrana uppfyllist?
19 Þú tekur eftir að Matteus 24:29-31 boðar (1) að Mannssonurinn komi, (2) koma hans verður með mikilli dýrð, (3) englarnir verða í för með honum og (4) allar kynkvíslir jarðar munu sjá hann. Jesús endurtekur þessa þætti í dæmisögunni um sauðina og hafrana. (Matteus 25:31-46) Við getum því ályktað að dæmisagan fjalli um þann tíma, eftir að fyrri hluti þrengingarinnar brestur á, þegar Jesús kemur með englum sínum og sest í hásæti sitt til að dæma. (Jóhannes 5:22; Postulasagan 17:31; samanber 1. Konungabók 7:7; Daníel 7:10, 13, 14, 22, 26; Matteus 19:28.) Hverjir verða dæmdir og með hvaða afleiðingum? Dæmisagan sýnir að Jesús beinir athygli sinni að öllum þjóðum eins og þær væru samankomnar beint fyrir framan hásæti hans á himnum.
20, 21. (a) Hvað verður um sauðina í dæmisögu Jesú? (b) Hvað verður um hafrana í náinni framtíð?
20 Sauðumlíkir karlar og konur verða skilin frá og skipað við hægri hönd Jesú til tákns um hylli hans. Af hverju? Af því að þau notuðu tækifærin, sem þau höfðu, til að gera bræðrum Krists gott, það er að segja smurðum kristnum mönnum sem munu stjórna með honum á himnum. (Daníel 7:27; Hebreabréfið 2:9–3:1) Í samræmi við dæmisöguna hafa milljónir sauðumlíkra kristinna manna borið kennsl á andlega bræður Jesú og stutt þá í verki. Fyrir vikið hefur ‚múgurinn mikli‘ biblíulega von um að komast lifandi gegnum ‚þrenginguna miklu‘ og lifa síðan að eilífu í paradís, jarðneskum vettvangi Guðsríkis. — Opinberunarbókin 7:9, 14; 21:3, 4; Jóhannes 10:16.
21 En hlutskipti hafranna verður ólíkt. Þeim er svo lýst í Matteusi 24:30 að þeir ‚hefji kveinstafi‘ þegar Jesús kemur. Og þeir hafa ástæðu til því að þeir eru þekktir fyrir að hafna fagnaðarerindinu um ríkið, vera andsnúnir lærisveinum Jesú og kjósa heiminn sem fyrirferst. (Matteus 10:16-18; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17) Það er Jesús en enginn af lærisveinum hans á jörðinni sem ákveður hverjir hafrarnir eru. Hann segir um þá: „Þeir munu fara til eilífs afnáms.“ — Matteus 25:46, NW.
22. Hvaða hluti spádóms Jesú verðskuldar nánari athugun?
22 Stigvaxandi skilningur okkar á spádóminum í Matteusi 24. og 25. kafla er hrífandi. En einn þáttur í spádómi Jesú verðskuldar nánari athugun. Það er ‚viðurstyggð eyðingarinnar standandi á helgum stað.‘ Jesús hvatti fylgjendur sína til að athuga þetta mál og vera í viðbragðsstöðu. (Matteus 24:15, 16) Hver er þessi „viðurstyggð“? Hvenær stendur hún á helgum stað? Og hvernig tengist það lífshorfum okkar núna og í framtíðinni? Næsta grein fjallar um það.
[Neðanmáls]
a Sjá námsgreinar í Varðturninum 1. júlí 1994, 1. febrúar 1996 og 1. október 1996.
b Breski fræðimaðurinn G. R. Beasley-Murray segir: „Orðin ‚þessi kynslóð‘ ættu ekki að vefjast fyrir biblíuskýrendum. Þótt genea hafi í grísku fyrr á tímum merkt fæðing, afkvæmi og þar af leiðandi kynstofn . . . er það oftast [í grísku Sjötíumannaþýðingunni] þýðing hebreska orðsins dôr sem merkir aldur, aldur mannkyns eða kynslóð í merkingunni samtíðarmenn. . . . Í orðum, sem eignuð eru Jesú, virðist hugtakið hafa tvíþætta merkingu: Annars vegar merkir það alltaf samtíðarmenn hans, og hins vegar gefur það alltaf til kynna gagnrýni.“
c Prófessor Graetz segir í bókinni History of the Jews að Rómverjar hafi stundum staurfest 500 fanga á dag. Stundum voru hendurnar höggnar af Gyðingum, sem þeir náðu, og þeir síðan sendir aftur inn í borgina. Hvernig var ástandið þar? „Peningar voru verðlausir því að brauð var ófáanlegt. Menn börðust örvæntingarfullir á götunum um viðbjóðslegustu og ógeðslegustu matarögn, hálmknippi, leðurpjötlu eða úrgang sem hent var fyrir hundana. . . . Lík hlóðust upp, sem ekki voru greftruð, svo að mollulegt sumarloftið varð heilsuspillandi og almenningur varð sjúkdómum, hungri og sverði að bráð.“
d Næsta grein fjallar um þennan þátt hinnar væntanlegu þrengingar.
Manstu?
◻ Hvernig uppfylltist Matteus 24:4-14 á fyrstu öld?
◻ Hvernig voru dagarnir styttir á tímum postulanna svo að menn kæmust af eins og spáð var í Matteusi 24:21, 22?
◻ Hvað einkenndi ‚kynslóðina‘ sem nefnd er í Matteusi 24:34?
◻ Hvernig vitum við að spádómurinn á Olíufjallinu átti að hljóta aðra og meiri uppfyllingu?
◻ Hvenær og hvernig uppfyllist dæmisagan um sauðina og hafrana?
[Mynd á blaðsíðu 19]
Lágmynd á Títusarboganum í Róm sem sýnir herfang frá Jerúsalem.
[Rétthafi]
Soprintendenza Archeologica di Roma
-
-
„Lesandinn athugi það“Varðturninn – 1999 | 1. júní
-
-
„Lesandinn athugi það“
„Þegar þér sjáið viðurstyggð eyðingarinnar . . . standa á helgum stað, . . . þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla.“ — MATTEUS 24:15, 16.
1. Hvað hafði viðvörun Jesú í Lúkasi 19:43, 44 í för með sér?
MEÐ því að fá viðvörun um yfirvofandi hættu getum við forðast hana. (Orðskviðirnir 22:3) Hugsaðu þér aðstöðu kristinna manna í Jerúsalem eftir árás Rómverja árið 66. Jesús hafði varað við að borgin yrði umkringd og lögð í rúst. (Lúkas 19:43, 44) Gyðingar gáfu fæstir gaum að viðvörun hans en lærisveinar hans tóku mark á henni. Fyrir vikið komust þeir undan ógæfunni árið 70.
2, 3. Af hverju ættum við að hafa áhuga á spádómi Jesú í Matteusi 24:15-21?
2 Í spádómi, sem varðar okkur nútímamenn, lýsti Jesús samsettu tákni fólgnu í styrjöldum, hallærum, jarðskjálftum, drepsóttum og ofsóknum á hendur kristnum mönnum sem prédikuðu ríki Guðs. (Matteus 24:4-14; Lúkas 21:10-19) Hann gaf lærisveinunum jafnframt vísbendingu um það hvenær endirinn væri nálægur — þegar ‚viðurstyggð eyðingarinnar stæði á helgum stað.‘ (Matteus 24:15) Við skulum skoða þessi þýðingarmiklu orð á ný og kanna hvernig þau geta haft áhrif á líf okkar núna og í framtíðinni.
3 Eftir að hafa lýst tákninu sagði Jesús: „‚Þegar þér sjáið viðurstyggð eyðingarinnar, sem Daníel spámaður talar um, standa á helgum stað,‘ — lesandinn athugi það — ‚þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla. Sá sem er uppi á þaki, fari ekki ofan að sækja neitt í hús sitt. Og sá sem er á akri, skal ekki hverfa aftur að taka yfirhöfn sína. Vei þeim sem þungaðar eru eða börn hafa á brjósti á þeim dögum. Biðjið, að flótti yðar verði ekki um vetur eða á hvíldardegi. Þá verður sú mikla þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða.‘“ — Matteus 24:15-21.
4. Hvað sýnir að Matteus 24:15 uppfylltist á fyrstu öld?
4 Frásögur Markúsar og Lúkasar bæta við smáatriðum. Þar sem Matteus segir „standa á helgum stað“ segir Markús 13:14 „standa þar, er ekki skyldi.“ Lúkas 21:20 bætir við orðum Jesú: „Þegar þér sjáið herfylkingar umkringja Jerúsalem, þá vitið, að eyðing hennar er í nánd.“ Þessi orð sýna að fyrri uppfyllingin var tengd árás Rómverja á Jerúsalem og musterið — sem var heilagt í augum Gyðinga en var það ekki lengur í augum Jehóva. Fyrri árás þeirra var gerð árið 66 en árið 70 lögðu þeir bæði borgina og musterið í rúst. Hver var ‚viðurstyggðin‘ þá og hvernig ‚stóð hún á helgum stað‘? Svörin við þessum spurningum varpa ljósi á nútímauppfyllinguna.
5, 6. (a) Af hverju áttu þeir sem lásu 9. kafla Daníelsbókar að vera athugulir? (b) Hvernig uppfylltist spádómur Jesú um ‚viðurstyggðina‘?
5 Jesús hvatti lesandann til að vera athugull og glöggskyggn. Hvaða lesefni átti hann að athuga? Líklega 9. kafla Daníelsbókar. Þar finnum við spádóm um komutíma Messíasar og þar er boðað að hann yrði „afmáður“ eftir þrjú og hálft ár. Spádómurinn segir: „Á vængjum viðurstyggðarinnar mun eyðandinn koma, en eftir það mun gjöreyðing, og hún fastráðin, steypast yfir eyðandann.“ — Daníel 9:26, 27; sjá einnig Daníel 11:31; 12:11.
6 Gyðingar töldu þetta eiga við vanhelgun Antíokosar 4. á musterinu um 200 árum áður. En Jesús benti á að svo væri ekki, og hvatti til glöggskyggni af því að ‚viðurstyggðin‘ ætti eftir að koma fram og standa á „helgum stað.“ Ljóst er að hann var að tala um rómverska herinn sem koma myndi árið 66 með einkennandi gunnfána sína. Slíkir gunnfánar höfðu verið notaðir lengi og Gyðingar litu á þá sem skurðgoð og þóttu þeir viðurstyggilegir.a En hvenær myndu rómverskir hermenn „standa á helgum stað“? Það gerðist þegar rómverski herinn réðst með gunnfána sína á lofti á Jerúsalem og musterið sem var heilagt í augum Gyðinga. Rómverjar byrjuðu jafnvel að grafa undan múrnum umhverfis musterissvæðið. Það sem löngum hafði verið álitið viðurstyggilegt stóð nú á helgum stað. — Jesaja 52:1; Matteus 4:5; 27:53; Postulasagan 6:13.
„Viðurstyggð“ nútímans
7. Hvaða spádómur Jesú er að uppfyllast á okkar tímum?
7 Frá dögum fyrri heimsstyrjaldarinnar höfum við séð tákn Jesú í Matteusi 24. kafla hljóta meiri uppfyllingu sína. En minnumst orða hans: „Þegar þér sjáið viðurstyggð eyðingarinnar . . . standa á helgum stað, . . . þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla.“ (Matteus 24:15, 16) Þessi þáttur spádómsins hlýtur einnig að uppfyllast á okkar tímum.
8. Hvað hafa vottar Jehóva bent á um áratuga skeið í sambandi við „viðurstyggð“ nútímans?
8 Varðturninn 1. janúar 1921 fjallaði um tengsl þessa spádóms við þróunina í Miðausturlöndum og sýndi þar með að þjónar Jehóva treystu því að hann rættist. Síðar, hinn 15. desember 1929, sagði Varðturninn mjög ákveðið á bls. 374: „Þjóðabandalagið miðar á allan hátt að því að snúa fólki frá Guði og Kristi og er þess vegna eyðingartæki, verk Satans, viðurstyggð í augum Guðs.“ ‚Viðurstyggðin‘ kom því fram árið 1919. Síðar tóku Sameinuðu þjóðirnar við af Þjóðabandalaginu. Vottar Jehóva hafa lengi afhjúpað þessi friðarsamtök manna og bent á að þau eru viðurstyggð í augum Guðs.
9, 10. Hvað var álitið einu sinni um þrenginguna miklu og hvernig mótaði það skilning okkar á því hvenær ‚viðurstyggðin‘ myndi standa á helgum stað?
9 Greinin á undan tók saman greinagott yfirlit yfir skilning okkar á stórum hluta 24. og 25. kafla Matteusarguðspjalls. Er þörf á nánari skýringum á ‚viðurstyggð eyðingarinnar standandi á helgum stað‘? Svo er að sjá. Spádómur Jesú tengir það að „standa á helgum stað“ við upphaf hinnar boðuðu ‚þrengingar.‘ Þó svo að ‚viðurstyggðin‘ hafi verið til um langt skeið ætti sambandið milli þess að hún ‚standi á helgum stað‘ og þrengingarinnar miklu að móta skilning okkar á henni. Hvernig þá?
10 Fólk Guðs áleit einu sinni að fyrra stig þrengingarinnar miklu hafi hafist árið 1914 og að lokastigið kæmi í stríðinu við Harmagedón. (Opinberunarbókin 16:14, 16; samanber Varðturninn (enska útgáfu) 1. apríl 1939, bls. 110.) Við skiljum því hvers vegna einu sinni var álitið að „viðurstyggð“ síðari tíma hlyti að hafa staðið á helgum stað skömmu eftir síðari heimsstyrjöldina.
11, 12. Hvaða breytt skýring var gefin árið 1969 á þrengingunni miklu?
11 En á síðari árum höfum við séð þetta í öðru ljósi. F. W. Franz, þáverandi varaforseti Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn, flutti hrífandi ræðu fimmtudaginn 10. júlí 1969 á alþjóðamótinu „Friður á jörð“ í New York borg. Bróðir Franz rifjaði upp fyrri skilning á spádómi Jesú og sagði: „Sú skýring var gefin að hin ‚mikla þrenging‘ hefði byrjað árið 1914 og að hún hefði þá ekki fengið að renna skeið sitt á enda heldur hefði Guð stöðvað fyrri heimsstyrjöldina í nóvembermánuði árið 1918. Þaðan í frá hefði hann gert hlé til að smurðar leifar útvalinna kristinna manna gætu starfað áður en hann léti lokaþátt hinnar ‚miklu þrengingar‘ hefjast í orustunni við Harmagedón.“Hliðsjón af w 1.2.71 29:9
12 Síðan kom fram verulega breytt skýring: „Ef atburðarásin á að samsvara því sem gerðist á fyrstu öld . . . hófst hin fyrirmyndaða ‚mikla þrenging‘ ekki árið 1914. Það sem kom yfir hina fyrirmynduðu Jerúsalem á árunum 1914-1918 var aðeins ‚upphaf fæðingarhríðanna‘ . . . ‚Þrengingin mikla,‘ sem mun aldrei eiga sinn líka, er enn þá framundan því að hún þýðir eyðingu heimsveldis falstrúarbragðanna (þeirra á meðal kristna heimsins) en því næst kemur ‚stríðið á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘ við Harmagedón.“ Þetta þýddi að þrengingin mikla var öll framundan.
13. Af hverju er rökrétt að ‚viðurstyggðin‘ eigi eftir að „standa á helgum stað“ í framtíðinni?
13 Þetta hefur bein áhrif á skilning okkar á því hvenær ‚viðurstyggðin‘ stendur á helgum stað. Rifjaðu upp fyrir þér það sem gerðist á fyrstu öld. Rómverjar réðust á Jerúsalem árið 66 en hörfuðu svo skyndilega þannig að kristnir ‚menn‘ komust af. (Matteus 24:22) Samkvæmt því megum við búast við að þrengingin mikla hefjist fljótlega en verði stytt vegna útvalinna þjóna Guðs. Taktu eftir þessu lykilatriði: Í fyrirmynd fortíðarinnar var ‚viðurstyggðin sem stóð á helgum stað‘ tengd árás Rómverja undir forystu Gallusar hershöfðingja árið 66. Upphaf þrengingarinnar miklu er nútímahliðstæða þessarar árásar og það er enn framundan. „Viðurstyggð eyðingarinnar,“ sem hefur verið til frá 1919, á því eftir að standa á helgum stað að því er best verður séð.b Hvernig atvikast það og hvaða áhrif getur það haft á okkur?
Væntanleg árás
14, 15. Hvernig hjálpar 17. kafli Opinberunarbókarinnar okkur að skilja aðdraganda Harmagedón?
14 Opinberunarbókin segir frá væntanlegri eyðingarárás á falstrúarbrögðin. Sautjándi kaflinn lýsir dómi Guðs yfir ‚Babýlon hinni miklu, móður hórkvenna,‘ sem er heimsveldi falskra trúarbragða. Kristni heimurinn gegnir þar stóru hlutverki, enda segist hann standa í sáttmálasambandi við Guð. (Samanber Jeremía 7:4.) Falstrúarbrögðin, þeirra á meðal kristni heimurinn, hafa lengi átt í óleyfilegu sambandi við ‚konunga jarðarinnar‘ en það tekur enda með eyðingu falstrúarbragðanna. (Opinberunarbókin 17:2, 5) Og hver er eyðandinn?
15 Opinberunarbókin segir frá „skarlatsrauðu dýri“ sem er til um tíma, hverfur og kemur svo aftur. (Opinberunarbókin 17:3, 8) Þetta dýr nýtur stuðnings stjórnenda heims. Ýmis smáatriði í spádóminum sýna að þetta dýr táknar friðarsamtökin er komu fram á sjónarsviðið árið 1919 sem Þjóðabandalagið („viðurstyggð“) og eru nú uppi sem Sameinuðu þjóðirnar. Opinberunarbókin 17:16, 17 segir að Guð eigi eftir að leggja vissum mennskum stjórnendum, sem eru forystumenn þessa ‚dýrs,‘ í brjóst að eyða heimsveldi falskra trúarbragða. Með þessari árás brestur þrengingin mikla á.
16. Hvað er að gerast í sambandi við trúarbrögðin?
16 Fyrst þrengingin mikla er ekki hafin, gildir þá hið sama um það að ‚viðurstyggðin standi á helgum stað‘? Svo er að sjá. Enda þótt ‚viðurstyggðin‘ hafi birst snemma á þessari öld og hafi því verið til um áratuga skeið á hún eftir að stilla sér sérstaklega upp „á helgum stað“ í náinni framtíð. Fylgjendur Krists á fyrstu öld hljóta að hafa haft vakandi augu með framvindu mála til að sjá í hverju þessi ‚staða á helgum stað‘ yrði fólgin, og það gera kristnir menn nú á tímum einnig. Að vísu þurfum við að bíða sjálfrar uppfyllingarinnar til að skilja öll smáatriðin. Það er þó eftirtektarvert að í sumum löndum gætir nú þegar vaxandi andúðar á trúarbrögðum. Einstaka stjórnmálaöfl hafa tekið höndum saman við fyrrverandi kristna menn, sem hafa snúið baki við sannri trú, og eru farin að ýta undir fjandskap gegn trúarbrögðum almennt og sérstaklega gegn sannkristnum mönnum. (Sálmur 94:20, 21; 1. Tímóteusarbréf 6:20, 21) Þar af leiðandi eru stjórnmálaöfl nú þegar farin að „heyja stríð við lambið,“ og eins og Opinberunarbókin 17:14 gefur til kynna mun þessi barátta harðna. Þau geta ekki náð beint til lambs Guðs — hins upphafna og dýrlega gerða Jesú Krists — heldur fá útrás fyrir andstöðu sína gegn sönnum guðsdýrkendum, einkum „hinum heilögu.“ (Daníel 7:25; samanber Rómverjabréfið 8:27; Kólossubréfið 1:2; Opinberunarbókin 12:17.) Við höfum tryggingu Guðs fyrir því að lambið og þeir sem með því eru beri sigur úr býtum. — Opinberunarbókin 19:11-21.
17. Hvað getum við sagt um það hvernig ‚viðurstyggðin‘ standi á helgum stað, án þess að vera með skoðanahroka?
17 Við vitum að falstrúarbrögðin eiga eyðingu í vændum. Babýlon hin mikla er „drukkin af blóði hinna heilögu“ og hefur látið eins og hún sé drottning. En eyðing hennar er örugg. Hið spillta áhrifavald hennar yfir konungum jarðar gerbreytist þegar samband þeirra snýst upp í ofbeldiskennt hatur ‚hornanna tíu og dýrsins‘ á henni. (Opinberunarbókin 17:6, 16; 18:7, 8) Þegar ‚skarlatsrauða dýrið‘ ræðst á trúarskækjuna stendur ‚viðurstyggðin‘ ógnandi á svokölluðum helgum stað kristna heimsins.c Eyðingin hefst því á hinum trúlausa kristna heimi sem þykist vera heilagur.
Hvernig á að ‚flýja‘?
18, 19. Hvernig sjáum við að ‚flótti til fjalla‘ felst ekki í því að skipta um trú?
18 Eftir að Jesús hafði talað um að ‚viðurstyggðin stæði á helgum stað‘ hvatti hann athugula menn til viðeigandi aðgerða. Átti hann við það að margir myndu flýja falstrúarbrögðin og snúa sér að sannri tilbeiðslu þegar þar væri komið sögu — þegar ‚viðurstyggðin stæði á helgum stað‘? Það getur varla verið. Lítum á fyrri uppfyllinguna. Jesús sagði: „Þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla. Sá sem er uppi á þaki, fari ekki ofan og inn í húsið að sækja neitt. Og sá sem er á akri, skal ekki hverfa aftur að taka yfirhöfn sína. Vei þeim sem þungaðar eru eða börn hafa á brjósti á þeim dögum. Biðjið, að það verði ekki um vetur.“ — Markús 13:14-18.
19 Jesús sagði ekki að menn þyrftu einungis að forða sér frá Jerúsalem, rétt eins og hann væri að leggja áherslu á að þeir þyrftu að forða sér frá tilbeiðslumiðstöð Gyðinga. Og hann minntist ekkert á það að skipta um trú — að flýja falska trú og taka upp hina sönnu. Það þurfti ekki að hvetja lærisveina Jesú til að flýja frá einni trú til annarrar; þeir voru þegar orðnir sannkristnir. Og árásin árið 66 varð ekki hvati fyrir áhangendur gyðingdómsins í Jerúsalem og allri Júdeu til að snúa baki við honum og gerast kristnir. Prófessor Heinrich Graetz segir að þeir sem veitt hafi Rómverjum eftirför á flóttanum hafi snúið aftur til borgarinnar: „Sílótar sneru aftur til Jerúsalem (8. október) syngjandi her- og fagnaðarsöngva og með frelsis- og sjálfstæðisvon í hjarta. . . . Hafði Guð ekki hjálpað þeim jafnnáðarsamlega og hann hjálpaði forfeðrum þeirra? Sílótar voru óhræddir við framtíðina.“
20. Hvernig brugðust lærisveinarnir á fyrstu öld við viðvörun Jesú um að flýja til fjalla?
20 Hvernig brást hinn tiltölulega fámenni hópur útvalinna á þeim tíma við ráði Jesú? Með því að yfirgefa Júdeu og flýja til fjallanna handan Jórdanar sýndu þeir að þeir tilheyrðu ekki gyðingakerfinu, hvorki pólitískt né trúarlega. Þeir yfirgáfu akra og heimili og tíndu ekki einu sinni saman eigur sínar heima fyrir. Þeir treystu á vernd og stuðning Jehóva og tóku tilbeiðsluna á honum fram yfir allt annað sem virst gat mikilvægt. — Markús 10:29, 30; Lúkas 9:57-62.
21. Hvað er ekki viðbúið að gerist þegar ‚viðurstyggðin‘ gerir árás?
21 Lítum nú á meiri uppfyllinguna. Við höfum um áratuga skeið hvatt fólk til að yfirgefa falstrúarbrögðin og snúa sér að sannri tilbeiðslu. (Opinberunarbókin 18:4, 5) Milljónir manna hafa gert það. Spádómur Jesú gefur ekki til kynna að menn hópist til sannrar tilbeiðslu eftir að þrengingin mikla brestur á, enda varð ekkert fjöldatrúhvarf meðal Gyðinga árið 66. Sannkristnir menn fá hins vegar sterka hvatningu til að fara eftir viðvörun Jesú og flýja.
22. Hvað getur það falið í sér að fara eftir orðum Jesú um að flýja til fjalla?
22 Við þekkjum ekki á þessari stundu öll smáatriði í sambandi við þrenginguna miklu, en það er rökrétt að ætla að flóttinn, sem Jesús talaði um, sé ekki flótti frá einum stað til annars. Fólk Guðs er að finna í öllum heimshornum, nánast á hverju byggðu bóli. Við getum hins vegar verið viss um að þegar nauðsynlegt reynist að flýja verða kristnir menn að viðhalda hinum skýra mun á sér og falstrúarsamtökum. Það er líka eftirtektarvert að Jesús varaði fylgjendur sína við að fara heim til að sækja yfirhöfn sína eða aðra muni. (Matteus 24:17, 18) Það gæti því reynt á viðhorf okkar til efnislegra hluta í framtíðinni. Eru þeir okkur mikilvægari en allt annað eða er það hjálpræði allra, sem standa Guðs megin, sem skiptir mestu máli? Flóttinn getur haft í för með sér einhverjar þrengingar og skort. Við verðum að vera tilbúin að gera hvaðeina sem til þarf eins og trúbræður okkar á fyrstu öld sem flúðu frá Júdeu til Pereu handan Jórdanar.
23, 24. (a) Hvar er einu verndina að fá? (b) Hvaða áhrif ætti viðvörun Jesú um ‚viðurstyggð eyðingarinnar standandi á helgum stað‘ að hafa á okkur?
23 Við verðum að vera örugg um að við höldum áfram að leita hælis hjá Jehóva og skipulagi hans sem líkja má við fjall. (2. Samúelsbók 22:2, 3; Sálmur 18:3; Daníel 2:35, 44) Það er þar sem við hljótum vernd. Við líkjum ekki eftir fjöldanum sem felur sig „í hellum og í hömrum fjalla“ — leitar verndar hjá samtökum og stofnunum manna sem kunna að standa um skamma hríð eftir eyðingu Babýlonar hinnar miklu. (Opinberunarbókin 6:15; 18:9-11) Vissulega geta erfiðleikarnir vaxið eins og hlýtur að hafa verið árið 66 hjá þunguðum konum sem flúðu Júdeu og hjá hverjum þeim sem þurfti að leggja land undir fót í kulda og regni. En við getum verið viss um að Guð gerir okkur kleift að bjargast. Við skulum því styrkja traust okkar á Jehóva og son hans er ríkir nú sem konungur Guðsríkis.
24 Við höfum enga ástæðu til að hafa beyg af því sem framundan er. Jesús vildi ekki að lærisveinar sínir á þeim tíma væru óttaslegnir, og hann vill ekki að við séum óttaslegin núna eða í framtíðinni. Hann hefur gert okkur viðvart til að við getum verið undirbúin í huga og hjarta. Þegar allt kemur til alls er ekki verið að refsa hlýðnum kristnum mönnum þegar eyðingin kemur yfir falstrúarbrögðin og hið illa heimskerfi í heild sinni. Þeir halda vöku sinni og hlýða viðvöruninni um ‚viðurstyggð eyðingarinnar standandi á helgum stað.‘ Og þeir verða einbeittir í óhagganlegri trú sinni. Gleymum aldrei hverju Jesús lofaði: „Sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.“ — Markús 13:13.
[Neðanmáls]
a „Gunnfána Rómverja var gætt með trúarlegri lotningu í hofum Rómar, og lotning þeirra fyrir gunnfánum sínum var í beinu hlutfalli við yfirburði þeirra yfir aðrar þjóðir . . . [Í augum hermanna var hann] ef til vill helgasti hlutur jarðar. Rómverskur hermaður sór við gunnfána sinn.“ — The Encyclopædia Britannica, 11. útgáfa.
b Rétt er að minna á að enda þótt uppfylling orða Jesú á árunum 66-70 geti varpað ljósi á uppfyllingu þeirra í þrengingunni miklu geta þessar tvær uppfyllingar ekki verið að öllu leyti hliðstæðar af því að umgjörðin er önnur.
c Sjá Varðturninn (enska útgáfu) 15. desember 1975, bls. 741-4.
Manstu?
◻ Hvernig birtist „viðurstyggð eyðingarinnar“ á fyrstu öld?
◻ Af hverju er rökrétt að „viðurstyggð“ nútímans standi ekki enn þá á helgum stað?
◻ Hvaða árás ‚viðurstyggðarinnar‘ er spáð í Opinberunarbókinni?
◻ Hvers konar ‚flótti‘ kann að vera nauðsynlegur hjá okkur í framtíðinni?
[Mynd á blaðsíðu 24]
Babýlon hin mikla er kölluð „móðir hórkvenna.“
[Mynd á blaðsíðu 25]
Skarlatsrauða dýrið í 17. kafla Opinberunarbókarinnar er ‚viðurstyggðin‘ sem Jesús talaði um.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Skarlatsrauða dýrið mun ráðast á trúarbrögðin og eyða þeim.
-
-
Vertu árvakur og iðjusamurVarðturninn – 1999 | 1. júní
-
-
Vertu árvakur og iðjusamur
„Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.“ — MATTEUS 25:13.
1. Til hvers hlakkaði Jóhannes postuli?
Í SÍÐASTA samtali sínu í Biblíunni lofaði Jesús: „Ég kem skjótt.“ Jóhannes, postuli hans, svaraði: „Amen. Kom þú, Drottinn Jesús!“ Postulinn efaðist ekki um að Jesús kæmi. Jóhannes var einn af postulunum sem spurðu Jesú: „Hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn komu [á grísku parósía eða nærveru] þinnar og endaloka veraldar?“ Já, Jóhannes hlakkaði til framtíðarnærveru Jesú og treysti á hana. — Opinberunarbókin 22:20; Matteus 24:3.
2. Hvernig hugsa kirkjurnar um nærveru Jesú?
2 Slíkt trúartraust er sjaldgæft nú á tímum. Mörg kirkjufélög hafa opinbera kenningu um „komu“ Jesú en fáir búast raunverulega við henni. Og þeir hegða sér samkvæmt því. Bókin The Parousia in the New Testament segir: „Parósíuvonin hefur varla marktæk áhrif á líf, hugsunarhátt eða starf kirkjunnar. . . . Hin brennandi ákefð, sem kirkjan ætti að sýna í iðrunarstarfi sínu og boðun fagnaðarerindisins, er máttlaus eða jafnvel algerlega glötuð.“ En ekki hjá öllum.
3. (a) Hvernig hugsa sannkristnir menn um parósíuna? (b) Hvað ætlum við sérstaklega að fjalla um núna?
3 Sannir lærisveinar Jesú bíða óþreyjufullir eftir endalokum hins núverandi illa heimskerfis. En jafnhliða því þurfa þeir að hafa rétt viðhorf til alls sem fólgið er í nærveru Jesú og hegða sér samkvæmt því. Þá geta þeir verið ‚staðfastir allt til enda og orðið hólpnir.‘ (Matteus 24:13) Samhliða spádómi sínum í Matteusi 24. og 25. kafla gaf Jesús viturleg ráð sem við getum farið eftir okkur til varanlegs gagns. Í 25. kaflanum eru dæmisögur sem þú þekkir sennilega, þeirra á meðal dæmisagan um meyjarnar tíu (hinar vitru og fávísu) og dæmisagan um talenturnar. (Matteus 25:1-30) Hvaða gagn getum við haft af þessum dæmisögum?
Verum árvökur eins og meyjarnar fimm
4. Endursegðu dæmisöguna um meyjarnar í stuttu máli.
4 Það gæti verið gott fyrir þig að lesa aftur dæmisöguna um meyjarnar í Matteusi 25:1-13. Sögusviðið er brúðkaup mikið að gyðinglegum hætti þar sem brúðguminn sækir brúðina heim til föður hennar og fylgir henni á heimili sitt (eða föður síns). Í slíkri hópgöngu gátu verið söngvarar og hljóðfæraleikarar, og komutíminn var óviss. Dæmisagan segir frá tíu meyjum sem biðu fram á nótt eftir að brúðguminn kæmi. Fimm höfðu verið svo fávísar að hafa ekki meðferðis næga ljósaolíu svo að þær urðu að fara til að kaupa meira. Hinar fimm sýndu þá fyrirhyggju að hafa með sér aukaolíu á könnum til að geta fyllt á lampa sína ef með þyrfti meðan þær biðu. Þessar fimm voru reiðubúnar þegar brúðguminn kom og þær einar fengu inngöngu í veisluna. Fávísu meyjarnar fimm komu of seint til brúðkaupsins og var ekki hleypt inn.
5. Hvaða ritningarstaðir varpa ljósi á táknræna merkingu dæmisögunnar um meyjarnar?
5 Margt í þessari dæmisögu hefur táknræna merkingu. Til dæmis talar Ritningin um Jesú sem brúðguma. (Jóhannes 3:28-30) Hann líkti sjálfum sér við konungsson sem búin var brúðkaupsveisla. (Matteus 22:1-14) Og Biblían líkir Kristi við eiginmann. (Efesusbréfið 5:23) Athygli vekur að engin brúður er nefnd í dæmisögunni þótt smurðir kristnir menn séu annars staðar kallaðir „brúður“ Krists. (Jóhannes 3:29; Opinberunarbókin 19:7; 21:2, 9) Dæmisagan talar hins vegar um tíu meyjar, og hinum smurðu er annars staðar líkt við mey sem er heitbundin Kristi. — 2. Korintubréf 11:2.a
6. Hvaða hvatningu kom Jesús með í lok dæmisögunnar um meyjarnar?
6 Auk þessa og spádómlegrar þýðingar þess má draga marga góða lærdóma af dæmisögunni. Við tökum til dæmis eftir að Jesús lauk henni með orðunum: „Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.“ Boðskapur dæmisögunnar er því sá að allir þurfi að vera vökulir gagnvart yfirvofandi endi þessa illa heimskerfis. Þessi endir nálgast óumdeilanlega þótt við getum ekki sagt til um daginn. Við skulum taka eftir afstöðu meyjahópanna tveggja í þessu sambandi.
7. Í hvaða skilningi reyndust fimm af meyjunum í dæmisögunni fávísar?
7 Jesús sagði: „Fimm þeirra voru fávísar.“ Trúðu þær ekki að brúðguminn væri að koma? Voru þær að skemmta sér annars staðar? Eða létu þær blekkjast? Nei, Jesús sagði að þessar fimm meyjar hafi ‚farið til móts við brúðgumann.‘ Þær vissu að hann var væntanlegur og vildu taka á móti honum, jafnvel vera með í ‚brúðkaupinu.‘ En voru þær nógu vel undirbúnar? Þær biðu hans um stund, fram til ‚miðnættis,‘ en þær voru ekki viðbúnar komu hans hvenær sem hún yrði — hvort sem hann kæmi fyrr en þær höfðu upphaflega búist við eða síðar.
8. Hvernig reyndust fimm af meyjunum í dæmisögunni hyggnar?
8 Hinar fimm — þær sem Jesús kallaði hyggnar — fóru líka út með logandi lampa til að bíða brúðgumans. Þær þurftu líka að bíða en voru „hyggnar.“ Gríska orðið, sem þýtt er „hyggnar,“ getur merkt „forsjáll, skynsamur, fyrirhyggjusamur.“ Þessar fimm meyjar sýndu hyggindi sín með því að taka með sér aukaolíu á könnum til að fylla á lampa sína ef nauðsyn krefði. Þeim var svo mikið í mun að vera tilbúnar þegar brúðguminn kæmi að þær vildu alls ekki gefa öðrum olíuna. Þessi forsjálni kom sér vel því að þær voru á staðnum og reiðubúnar að taka á móti brúðgumanum þegar hann kom. „Þær sem viðbúnar voru, gengu með honum inn til brúðkaupsins, og dyrum var lokað.“
9, 10. Hvað var Jesús að kenna með dæmisögunni um meyjarnar og hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur?
9 Jesús var hvorki að kenna hvað væri viðeigandi velsæmi í brúðkaupi né leiðbeina um sameiginleg afnot. Lexían var þessi: „Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.“ Spyrðu þig hvort þú sért í raun og veru vakandi gagnvart nærveru Jesú. Við trúum að hann ríki á himnum núna, en hversu skýrt höfum við í sjónmáli þann veruleika að ‚Mannssonurinn komi bráðlega á skýjum himins með mætti og mikilli dýrð‘? (Matteus 24:30) Á „miðnætti“ var vissulega skemmra í komu brúðgumans en þá er meyjarnar lögðu af stað til móts við hann. Koma Mannssonarins til að eyða núverandi illu heimskerfi er líka nær núna en hún var þegar við byrjuðum að hlakka til komu hans. (Rómverjabréfið 13:11-14) Höfum við haldið árvekni okkar og erum við sífellt betur vakandi eftir því sem tíminn nálgast?
10 Það kostar stöðuga árvekni að halda vöku sinni. Fimm af meyjunum létu olíuna ganga til þurrðar og fóru til að kaupa meira. Kristinn maður nú á tímum gæti líka orðið svo annars hugar að hann væri ekki fyllilega búinn undir yfirvofandi komu Jesú. Þannig fór fyrir sumum kristnum mönnum á fyrstu öld og þannig getur farið fyrir sumum núna. Hver og einn ætti því að spyrja sig hvort það sé að gerast hjá sér. — 1. Þessaloníkubréf 5:6-8; Hebreabréfið 2:1; 3:12; 12:3; Opinberunarbókin 16:15.
Vertu iðjusamur er endirinn nálgast
11. Hvaða dæmisögu sagði Jesús næst og hvaða annarri dæmisögu líkist hún?
11 Í næstu dæmisögu gekk Jesús lengra en að hvetja fylgjendur sína til árvekni. Eftir að hafa sagt dæmisöguna um hyggnu meyjarnar og hinar fávísu sagði hann dæmisöguna um talenturnar. (Lestu Matteus 25:14-30.) Að mörgu leyti er hún áþekk dæmisögunni um pundin sem Jesús sagði af því að margir „ætluðu, að Guðs ríki mundi þegar birtast.“ — Lúkas 19:11-27.
12. Endursegðu dæmisöguna um talenturnar í stuttu máli.
12 Í dæmisögunni um talenturnar segir Jesús frá manni sem kallar á þrjá þjóna sína áður en hann ferðast úr landi. Einum felur hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja aðeins eina — „hverjum eftir hæfni.“ Trúlega er hér átt við silfurtalentu sem var stöðluð upphæð og samsvaraði á þeim tíma 14 árslaunum verkamanns. Þetta voru verulegir fjármunir. „Löngu síðar“ snýr maðurinn heim aftur og lætur þjónana gera grein fyrir störfum sínum meðan hann var fjarverandi. Fyrstu tveir þjónarnir höfðu tvöfaldað þau verðmæti sem þeim var trúað fyrir. „Gott,“ sagði húsbóndinn, hét þeim báðum meiri ábyrgð og bauð þeim að ‚ganga inn í fögnuð herra síns.‘ Sá sem fengið hafði eina talentu staðhæfði að húsbóndinn væri með afbrigðum kröfuharður. Hann hafði ekki notað talentuna á arðbæran hátt heldur falið hana. Hann lagði féð ekki einu sinni í banka þar sem það hefði borið vexti. Húsbóndinn kallaði hann ‚illan og latan‘ af því að hann hafði unnið gegn hagsmunum hans. Talentan var því tekin af honum og hann var rekinn út þar sem var „grátur og gnístran tanna.“
13. Hvernig reyndist Jesús vera eins og húsbóndinn í dæmisögunni?
13 Hinir ýmsu þættir þessarar dæmisögu hafa líka táknræna merkingu. Maðurinn, sem fór úr landi, táknar Jesú sem yfirgaf lærisveinana, fór til himna og beið þar lengi uns hann tók við konungdómi.b (Sálmur 110:1-4; Postulasagan 2:34-36; Rómverjabréfið 8:34; Hebreabréfið 10:12, 13) En við getum líka dregið almennan lærdóm af dæmisögunni sem við ættum öll að taka til okkar. Hver er hann?
14. Á hvaða nauðsyn leggur dæmisagan um talenturnar áherslu?
14 Hvort sem við berum í brjósti von um ódauðleika á himnum eða eilíft líf í paradís á jörð er ljóst af dæmisögu Jesú að við ættum að leggja okkur vel fram í kristnu starfi. Reyndar má draga boðskap þessarar dæmisögu saman í eitt orð: iðjusemi. Postularnir gáfu réttu fyrirmyndina frá og með hvítasunnunni árið 33. Við lesum: „Með öðrum fleiri orðum vitnaði [Pétur], áminnti þá og sagði: ‚Látið frelsast frá þessari rangsnúnu kynslóð.‘“ (Postulasagan 2:40-42) Og hann sá stórkostlegan árangur af erfiði sínu. Þeir sem gengu í lið með postulunum í prédikun kristninnar voru líka iðjusamir svo að fagnaðarerindið ‚óx í öllum heiminum.‘ — Kólossubréfið 1:3-6, 23; 1. Korintubréf 3:5-9.
15. Hvernig ættum við sérstaklega að taka til okkar kjarna dæmisögunnar um talenturnar?
15 Höfum samhengi dæmisögunnar í huga en það var spádómur um nærveru Jesú. Við höfum meira en næga staðfestingu á því að parósía Jesú stendur yfir og nær bráðlega hámarki. Munum hvernig hann tengdi ‚endinn‘ því verki sem kristnir menn þurfa að vinna: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:14) Með þetta í huga geturðu spurt þig: Hvers konar þjóni líkist ég? Er ástæða til að ætla að þú líkist þjóninum sem faldi það sem honum var treyst fyrir, kannski til að sinna eigin hagsmunum. Er ljóst að þú líkist góðu og trúu þjónunum? Ertu staðráðinn í að nota hvert tækifæri til að auka eigur húsbóndans?
Árvakrir og iðjusamir á nærverutíma hans
16. Hvaða boðskapur er fólginn í dæmisögunum tveim sem við höfum fjallað um?
16 Já, auk þess að hafa táknræna og spádómlega merkingu innihalda dæmisögurnar tvær skýra hvatningu beint af munni Jesú. Boðskapur hans er þessi: Vertu árvakur og vertu iðjusamur, einkum þegar tákn parósíu Krists blasir við. Það er núna. Erum við árvökur og iðjusöm í raun og veru?
17, 18. Hvað ráðlagði lærisveinninn Jakob í sambandi við nærveru Jesú?
17 Jakob, hálfbróðir Jesú, var ekki á Olíufjallinu til að heyra spádóm hans, en hann kynntist spádóminum síðar og skildi greinilega þýðingu hans. Hann skrifaði: „Þreyið því, bræður, þangað til Drottinn kemur. Sjáið akuryrkjumanninn, hann bíður eftir hinum dýrmæta ávexti jarðarinnar og þreyir eftir honum, þangað til hann hefur fengið haustregn og vorregn. Þreyið og þér, styrkið hjörtu yðar, því að koma [nærvera] Drottins er í nánd.“ — Jakobsbréfið 5:7, 8.
18 Jakob fullvissaði kristna menn um að Guð dæmir harðlega þá sem misnota auð sinn og hvatti þá til að vera ekki óþolinmóðir er þeir biðu þess að Guð léti til sín taka. Kristinn maður, sem er óþolinmóður, getur orðið hefnigjarn, rétt eins og hann eigi sjálfur rétt á að leiðrétta það sem rangt er gert. En það ætti hann ekki að gera af því að dómstíminn rennur örugglega upp. Jakob nefnir akuryrkjumanninn sem dæmi til að sýna fram á það.
19. Hvers konar þolinmæði gat ísraelskur bóndi sýnt?
19 Ísraelskur bóndi, sem sáði í akur sinn, þurfti fyrst að bíða eftir að jurtin kæmi upp, síðan eftir því að hún þroskaðist og loks eftir uppskerunni. (Lúkas 8:5-8; Jóhannes 4:35) Þetta tók nokkra mánuði sem buðu upp á tíma og jafnvel tilefni til að hafa einhverjar áhyggjur. Yrðu vorrigningarnar tímanlegar og nægar? Hvað um haustrigningarnar? Gætu skordýr eða stormur drepið plönturnar? (Samanber Jóel 1:4; 2:23-25.) Að jafnaði gat bóndinn í Ísrael þó treyst Jehóva og hringrásum náttúrunnar sem hann hafði komið af stað. (5. Mósebók 11:14; Jeremía 5:24) Þolinmæði bóndans jafngilti eiginlega trausti og öruggri von. Hann trúði og vissi að það sem hann beið eftir myndi örugglega koma.
20. Hvernig getum við sýnt þolinmæði í samræmi við ráðleggingar Jakobs?
20 Bóndinn hafði einhverja vitneskju um það hvenær hann mætti vænta uppskerunnar, en kristnir menn á fyrstu öld gátu ekki reiknað út hvenær nærvera Jesú yrði. En hún myndi örugglega eiga sér stað. Jakob skrifaði: „Koma [á grísku parósía eða nærvera] Drottins er í nánd.“ Þegar hann skrifaði þetta var hið víðtæka nærverutákn Krists um heim allan enn ekki sýnilegt. En það blasir við núna! Hvernig ætti okkur þá að vera innanbrjósts? Táknið er raunverulega sýnilegt. Við sjáum það. Við getum sagt með öryggi: ‚Ég sé að táknið er að koma fram.‘ Við getum sagt með trúartrausti: ‚Nærvera Drottins stendur yfir og hámark hennar er í nánd.‘
21. Hvað erum við algerlega staðráðin í að gera?
21 Af þessum sökum er sérstaklega mikilvægt að taka til sín þau grundvallaratriði sem við höfum lært af þeim tveim dæmisögum Jesú sem við höfum fjallað um. Hann sagði: „Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.“ (Matteus 25:13) Núna er tvímælalaust rétti tíminn til að vera kostgæfinn í kristinni þjónustu okkar. Við skulum því sýna daglega með líferni okkar að við skiljum það sem Jesús var að koma á framfæri. Verum árvökur og verum iðjusöm!
[Neðanmáls]
a Nánar er fjallað um táknræna þætti dæmisögunnar í bókinni God’s Kingdom of a Thousand Years Has Approached (Þúsundáraríki Guðs er í nánd), bls. 169-211, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
b Sjá bókina God’s Kingdom of a Thousand Years Has Approached, bls. 212-56.
Manstu?
◻ Hvaða meginlærdóm hefurðu dregið af dæmisögunni um hyggnu og fávísu meyjarnar?
◻ Hvað er Jesús að ráðleggja þér í dæmisögunni um talenturnar?
◻ Í hvaða skilningi er þolinmæði þín gagnvart parósíunni lík þolinmæði bóndans?
◻ Af hverju er sérstaklega spennandi og krefjandi að lifa nú á tímum?
[Mynd á blaðsíðu 31]
Hvaða lærdóm dregur þú af dæmisögunni um meyjarnar og dæmisögunni um talenturnar?
-