Styrktu og efldu trú þína með Dómarabókinni
HVAÐA hóp myndir þú nefna ef þú værir beðinn að nefna hóp biblíupersóna sem sýndu einstaka trú? Postulana tólf? Hina tólf syni Jakobs? Ef til vill, en þú hefðir líka ærna ástæðu til að benda á annan tólf manna hóp sem er sérstaklega getið í Biblíunni vegna trúar sinnar.
Við erum að tala um mennina tólf sem greint er frá í Dómarabókinni vegna trúarverka þeirra. Sumir þeirra eru nafngreindir í Hebreabréfinu 11:32-34. „Mig mundi skorta tíma, ef ég færi að segja frá Gídeon, Barak, Samson og Jefta, . . . fyrir trú unnu þeir sigur á konungsríkjum, iðkuðu réttlæti, öðluðust fyrirheit. Þeir byrgðu gin ljóna, slökktu eldsbál, komust undan sverðseggjum. Þeir urðu styrkir, þótt áður væru þeir veikir, gjörðust öflugir í stríði og stökktu fylkingum óvina á flótta.“
Þarna eru nefndir fjórir af dómurunum. Hve mörgum öðrum trúföstum dómurum manst þú eftir? Prófaðu minnið áður en þú lítur á listann hér að neðan.a Þú manst líklega einnig eftir minnisverðum afrekum sumra dómaranna, svo sem er Samson drap höfðingja Filistanna og fjölmarga aðra — og fórnaði sjálfum sér í leiðinni — með því að brjóta niður musteri Dagons, eða því er Gídeon gersigraði her Midíaníta með aðeins 300 hermönnum. Margt manna í kristna heiminum þekkir slíkar sögur síðan þeir voru í sunnudagsskóla. En draga þeir af Dómarabókinni margan og mikilvægan lærdóm sem getur haft áhrif á trú þeirra, bætt hlutskipti þeirra í lífinu núna og hjálpað þeim að eignast ‚hið komandi líf‘? (1. Tímóteusarbréf 4:8) Ef þú álítur svarið neikvætt má spyrja hvort því sé öðruvísi farið með sjálfan þig. Hefur þú látið Dómarabókina efla trú þína og hjálpa þér í kristilegu líferni?
Gagn af grundvallaratriðum
Lestu bókina. Hvort sem þú ert að lesa hana í fyrsta skipti eða hefur lesið hana áður mun hin öra atburðarás vafalaust grípa athygli þína. Frásögur bókarinnar munu gefa þér margt til að tala um — við þín eigin börn eða önnur, svo og hugsandi fólk á öllum aldri. Þegar þú lest hana skalt þú hafa í huga nokkur aðalatriði sem koma fram í mörgum frásaganna. Hver eru þau?
Eitt er að það er mjög auðvelt að láta trú þína á Guð dofna eða gleyma því sem hann hefur gert fyrir þig. Sá sem lærir um hina kristnu von og öðlast fyrirgefningu fyrir milligöngu Krists gæti haft mikla kostgæfni í byrjun. Hann sækir trúlega samkomur fullur fagnaðar og tekur þátt í hinni kristnu þjónustu. Hann lætur þetta tvennt sitja í fyrirrúmi en gerir sér ekki áhyggjur af efnislegum hlutum, svo sem hvort hann eigi nýjan bíl, fint húsnæði eða nýjasta og dýrasta sjónvarps- eða vídeótækið. En getur hann farið að ‚afrækja sinn fyrri kærleika‘ eftir nokkur ár? (Opinberunarbókin 2:4) Saga Ísraels, skráð í Dómarabókinni, sýnir hversu auðveldlega það getur hent sérhvert okkar.
Fyrstu tveir kaflarnir draga upp mynd af sögusviðinu. Eftir að Ísraelsmenn höfðu lagt undir sig fyrirheitna landið, undir forystu Jósúa, létu þeir vanta að framfylgja því fyllilega, eins og þeim hafði verið boðið, með því að uppræta Kanverjana sem voru siðlausir skurðgoðadýrkendur. (Dómarabókin 1:28-33) Jehóva leyfði því þessum útlendingum og guðum þeirra að vera prófraun fyrir Ísrael. (Dómarabókin 2:19-23) Oft stóðst Ísrael ekki prófið. Þá komu dómararnir til skjalanna.
Það sem gerðist í tengslum við fyrsta dómarann, Otníel, er dæmigert um það sem átti sér stað aftur og aftur. Ísraelsmenn höfðu snúið sér að óhreinni Baalsdýrkun og Guð lét því Sýrlandskonung kúga þá í átta ár. Það kom þeim til að ‚hrópa til Jehóva, og Jehóva vakti Ísraelsmönnum upp hjálparmann, er hjálpaði þeim, Otnéil. Andi Jehóva kom yfir hann og hann varð dómari Ísraels. Þegar hann fór í hernað gaf Jehóva Sýrlandskonung í hendur honum. Var síðan friður í landinu í 40 ár.‘ — Dómarabókin 3:7-11.
Þessir Ísraelsmenn hljóta að hafa verið þakklátir fyrir frelsi sitt á sama hátt og við fylltumst þakklæti þegar við lærðum sannleika kristninnar og vorum frelsuð frá falstrúarbrögðum! En hvað báru árin á eftir í skauti sér? Næsta vers segir: „Ísraelsmenn gjörðu enn af nýju það, sem illt var í augum [Jehóva]. Þá efldi [Jehóva] Eglón, konung í Móab, móti Ísrael.“ (Dómarabókin 3:12) Þú gerir þér grein fyrir hversu hættulegt er að láta sannfæringu okkar dvína. En okkur til uppörvunar er frá því greint að þegar Ísraelsmenn létu skynsemina ráða á ný vakti Guð upp hinn örvhenta dómara Ehúð. Hann færði hinum digra Eglón konungi hnífskarpan boðskap sem varð til þess að frelsa Ísraelsmenn. Lestu frásöguna í síðara hluta 3. kaflans.
Sterk trú að verki!
Önnur frumsannindi, sem þú ættir að gefa gaum, eru að Guð getur notað þig til að vinna afreksverk ef þú hefur sterka trú. — Samanber Matteus 17:20; 21:21.
Nokkur stutt dæmi: Hugsaðu þér hvernig Gídeon gersigraði með aðeins 300, trúuðum mönnum, Midíaníta sem voru „sem engisprettur að fjölda til.“ (Dómarabókin 7:1-25) Fyrir hvatninguna Debóru stuðlaði Barak af frelsun þjóðarinnar í norðanverðu landinu undan oki Kanverja, en þeir réðu yfir hervögnum með ógnvekjandi járnsverðum sem stóðu út af hjólnöfunum. Taktu líka eftir því að það var kona sem greiddi sigurhöggið í þessum bardaga. (Dómarabókin 4:1-5:31) Samson er nafnkunnur fyrir krafta sína. Með sínu óvenjulega afli gat Samson slitið í sundur ljón; með asnakjálka að vopni lagði hann að velli þúsund óvini og hann sleit upp borgarhliðið í Gasa og bar það upp á fjall. — Dómarabókin 14:5-16:3.
Enginn vafi leikur á að þessir dómarar létu í ljós einstaka trú sem gerir þá hæfa til að vera taldir upp í Hebreabréfinu okkur til fyrirmyndar. Til fyrirmyndar á hvaða hátt? Varla býst þú við að geta slitið í sundur ljón með berum höndum, en trú þín mun vera prófreynd á marga vegu ef þú reynir dag hvern að lifa sem drottinhollur, kristinn þjónn Jehóva.
Ef þú ert unglingur og í skóla má vera að reynt verði mjög að þvinga þig til að prófa fíkniefni eða kynlíf, eða að sækjast eftir frama og vellaunuðu ævistarfi í heiminum. Þú einn eða þú og fjölskylda þín getið þurft að færa umtalsverðar, efnislegar fórnir til að vera fulltíma þjónn eða þjónar orðsins eða til að búa þar sem mikil þörf er fyrir slíka þjónustu, en síðan horfir þú upp á aðra kristna menn sem virðast láta það ganga fyrir að afla sér fjár og lifa með glæsibrag. Trú þín getur orðið fyrir prófraun á þann hátt að einhver veldur þér miklum vonbrigðum. Það gæti verið maður sem mikið bar á í kristna söfnuðinum en lét stolt og yfirlæti snúa sér gegn bræðrum sínum. Einnig gæti það verið náinn ættingi sem hefur látið kærleika sinn til Jehóva kólna og hætt að þjóna honum.
Myndir þú, undir slíkum kringumstæðum, láta trú dómaranna uppörva þig? Vegna trúar sinnar, sem var af Guði gefin, gátu þeir gert það sem virtist nánast ómögulegt. Þessi sami Guð getur gefið þér trú ef þú heldur áfram að leita hennar í bæn og vera þrautgóður á hinni kristnu lífsbraut. Trú er ávöxtur heilags anda Guðs. (Galatabréfið 5:22) Jesús sagði um þann sama anda sem gaf Samsoni afl sitt: „Faðirinn himneski [mun] gefa þeim heilagan anda, sem biðja hann.“ Í sama kafla Hebreabréfsins og taldir eru upp dómararnir sem dæmi um trú, erum við fullvissuð um að Guð ‚umbuni þeim er leita hans.‘ (Lúkas 11:13; Hebreabréfið 11:6) Hann getur líka umbunað þér fyrir trú þína.
Leitaðu þess sem hægt er að læra
Við höfum vakið athygli á sumu sem læra má af Dómarabókinni. Vafalaust munt þú finna margt fleira sem læra má af þessum hluta hinnar innblásnu Ritningar sem er „innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:16.
Til dæmis munt þú veita athylgi að í hógværð sinni vildi Gídeon ekki ráðast í ákveðið verk fyrr enn hann væri viss um hver væri vilji Guðs. Síðar hjálpaði þessi sama hógværð honum til að láta ekki velgengni og frægð stíga sér til höfuðs. Þú kannt að geta haft gagn af því. Mundu hvernig fámennur her Gídeons yfirbugaði fjölmennan her Midíaníta með hjálp Guðs. Þú getur ímyndað þér hvernig Gídon hlýtur að hafa verið hylltur fyrir. Á hliðstæðan hátt getur þú fengið lof fyrir einhvern sérstakan hæfileika, svo sem að vera mjög góður ræðumaður eða sérstaklega hæfur skipuleggjandi. Í fyrrnefnda tilvikinu „sögðu Ísraelsmenn við Gídeon: ‚Drottna þú yfir oss, bæði þú og sonur þinn og sonarsonur þinn, því að þú hefir frelsað oss af hendi Midíans.‘“ Hvernig er rétt að bregðast við slíku? Gídeon sagði: „Eigi mun ég drottna yfir yður, og eigi mun sonur minn heldur drottna yfir yður. [Jehóva] skal yfir yður drottna.“ (Dómarabókin 8:22, 23) Við skulum kappkosta að varðveita sams konar hógværð, viðurkenna að allir okkar hæfileikar — og þar með afrek — koma af því sem Guð hefur gefið manninum.
Saga Gídeons og annarra dómara sýnir okkur einnig að þeir voru ófullkomnir menn eins og við. Við getum lært ýmislegt af mistökum þeirra.
Þegar Gídeon leyfði Ísraelsmönnum að deila herfangi sínu með sér bjó hann til mjög dýran hökul, eins konar skikkju, ef til vill prýdda skartgripum. Þótt honum hljóti að hafa gengið gott eitt til með því litu sumir Ísraelsmenn á hökulinn sem skurðgoð, og það beindi athygli þeirra frá tilbeiðslunni á Jehóva í helgidóminum. — Dómarabókin 8:24-27.
Andi Jehóva starfaði af miklum krafti með Samson svo að hann gat unnið afrek sem virtust ofurmannleg. (Dómarabókin 14:5, 6, 19; 15:14, 15; 16:3, 28-30) Það var líka ‚frá Jehóva‘ að hann bað um ákveðna filistíska konu sér til handa, því að Samson „leitaði færis við Filistana.“ (Dómarabókin 14:4) Það leiddi til átaka sem varð mörgum Filistum, sem kúguðu Ísraelsmenn, að fjörtjóni. Vafalaust var það eftir handleiðslu Jehóva að Samson fór til Gasa og gisti á heimili vændiskonu, því að það leiddi til enn eins afreksverks sem auðmýkti hina spilltu Filista.b Tengsl Samsonar við þessar konur virðast þó hafa komið honum til að breyta óviturleg þegar hann varð ástfanginn af Dalílu. Hún mun hafa verið ísraelsk en Filistar gátu mútað henni. — Dómarabókin 16:1-21.
Slíkar frásagnir ættu að kenna okkur að við verðum alltaf að standa vörð gegn lævísum árásum óvinarins. Til dæmis gæti kristinn maður haft heiðvirt markmið með því að heimsækja samþjón sinn í trúnni af hinu kyninu, til dæmis að hughreysta og uppörva hann í erfiðleikum. Samt sem áður er að jafnaði óhyggilegt að gera það þegar þau tvö yrðu ein. Mannlegur ófullkomleiki gæti leitt þau út í ranga breytni, eða heimsóknin gefið nágrönnum tilefni til að segja að siðferði kristinna manna sé ekkert betra en gegnur og gerist í byggðarlaginu.
Svo vikið sé að öðru er gott að hugleiða trú og dyggð dóttur Jefta sem varðveitti meydóm sinn. Sumir einhleypir kristnir menn gætu hugsað sér að ganga í hjónaband ef aðstæður leyfðu þeim að finna ástríkan, trúfastan maka. En meðan þeir eru einhleypir geta þeir haft hugfast að þótt dóttir Jefta hafi stundum saknað þess að vera ekki í aðstöðu til að giftast og eignast börn, varðveitti hún líka hrósunarverða trú í því sérstaka hlutverki sem einhleypi hennar gaf henni tækifæri til að gegna. — Dómarabókin 11:30-40.
Þetta eru aðeins nokkur dæmi um það margvíslega gagn sem hafa má af hinni spennandi og trústyrkjandi Dómarabók. Lestur bókarinnar ætti að styrkja sannfæringu þína um að Jehóva sé hinn mikli frelsari þeirra sem dýrka hann. Ef þú ert einn dýrkenda hans, leitastu þá við að hafa sterka trú sem knýr þig til verka, trú sem kemur svo glöggt fram í Dómarabókinni.
[Neðanmáls]
a Otníel, Ehúð, Samgar, Tóla, Jaír, Íbsan, Elón og Abdón. Þótt Jósúa og Samúel hafi einnig dæmt Ísrael eru þeir almennt ekki taldir með dómarahópnum sem Dómarabókin greinir frá.
b Rökrétt virðist að álykta að sem gestkomandi maður hafi Samson einfaldlega leitað næturgistingar, en ekki gengið í hús vændiskonunnar í siðlausum tilgangi. Frásagan segir að hann hafi ‚sofið til miðrar nætur‘ en ekki að hann hafi ‚legið með henni til miðrar nætur.‘
[Skýringarmynd á blaðsíðu 28, 29]
(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)
TÍMINN FRÁ ÞVÍ AÐ RÁÐIST VAR INN Í KANAAN FRAM AÐ STJÓRNARTÍÐ SÁLS
Þessi tafla er dæmi um hvernig tímatal Dómarabókarinnar getur samræmst þeim tíma sem annars staðar er getið. Nánari upplýsingar er að finn í Aid to Bible Understanding bls. 335-8.
Rendurnar eru skyggðar á mismunandi vegu til að aðgreina hin ýmsu tímabil.
1473 f.o.t.
HERTAKA Kanaan (6)
Millibil (35 [?])
SÝRLAND undir Kúsan Rísjataím kúgar Ísrael (8)
OTNÍEL vinnur sigur á Sýrlendingu
„Var . . . friður í landi“ (40)
MÓAB undir Eglon kúgar Ísrael (18)
EHÚÐ sigrar Móabíta
„Var nú friður í landi“ (80)
KANAAN undir Jabín frá Hasór kúgar Ísrael (20)
SAMGAR frelsar ísrael ‚frá Filistum.‘ Ekki sagt hve lengi.
BARAK sigrar Kanverja
„Var nú friður í landi“ (40)
MIDÍAN kúgar Ísrael (7)
GÍDEON sigrar Midían
„Var nú friður í landi . . . meðan Gídeon var á lífi“ (40)
ABÍMELEK stjórnar (3)
TÓLA (af Isakar) dæmir Ísrael (23)
JAÍR (frá Gílead) dæmir Ísrael (22)
AMMON kúgar Ísrael (18)
300 ár frá því að landnám Ísraelsmann hefst (Dómarabókin 11:26-33)
JEFTA sigrar Ammon, dæmir (6)
ÍBSAN (frá Betlehem) dæmir (7)
FILISTÍA kúgar Ísrael (40)
ELÓN (af Sebúlon) dæmir (10)
ABDÓN (af Efraím) dæmir (8)
SAMSON (af Dan) dæmir (20)
Sáttmálsörkin í Kirjat-Jeraim í 20 ár
ELÍ æðsti prestur (20)
Filistía sigrar Ísrael
SAMÚEL spámaður, dómari
Samúel leiðir Ísrael til sigurs yfir Filistíu. (1. Samúelsbók 7:7-14)
1117 f.o.t.
SÁL konungur (40) Tekur völd 356 árum eftir upphaf landnáms í Kanaan. (1. Konungabók 6:1; 5. Mósebók 2:7; Postulasagan 13:21; 2. Samúelsbók 5:4)