Hvers vegna þú ættir að vita sannleikann um Abraham
ABRAHAM — er hann goðsagnarvera eða var hann sannur spámaður? Hve mikils virði er svarið við þeirri spurningu? Samkvæmt tímatali Biblíunnar var Abraham uppi fyrir um það bil 4000 árum. Sumir hugsa því kannski með sér að það geti varla skipt miklu máli hvort hann hafi verið til eða ekki.
Þá er vert að íhuga að helmingur jarðarbúa aðhyllist trúarbrögð sem játa trú á tilvist Abrahams. Bókin 1988 Britannica Book of the Year segir að 32,9 af hundraði jarðarbúa séu kristnir, 17,2 af hundraði múslímar og 0,4 af hundraði Gyðingar, og Abraham gegnir stóru hlutverki í öllum þessum trúarbrögðum. Að sjálfsögðu ættu þeir sem aðhyllast þessi trúarbrögð í einlægni að vilja fullvissa sig um að það sem þeim hefur verið kennt um Abraham sé sannleikur. Jafnvel þeir sem aðhyllast önnur trúarbrögð eða segjast engu trúa ættu að sýna því áhuga. Hvers vegna?
Vegna þess að Biblían segir að Abraham hafi verið spámaður. (1. Mósebók 20:7) Biblían notar það orð um talsmann Guðs sem flytur öðrum mönnum boðskap hans. Hafi Abraham verið sannur spámaður ætti boðskapur hans að vera öllum til gagns, vegna þess að boðskapurinn, sem hann flutti, fól í sér gleðitíðindi fyrir allt mannkynið. (Galatabréfið 3:8) Að sögn Biblíunnar hét Guð Abraham: „Af þér skulu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta.“ — 1. Mósebók 12:3.
Þetta er óvenjulegt loforð sem Abraham heyrði endurtekið að minnsta kosti tvívegis. (1. Mósebók 18:18; 22:18) Til að efna það mun Guð jafnvel þurfa að reisa upp frá dauðum fulltrúa sumra ættkvísla sem dánar eru út. Líf þessara upprisnu manna verður mjög blessunarríkt því að flestir munu þeir rísa upp á jörð sem líkjast mun paradísinni sem maðurinn glataði í upphafi. Eftir það þurfa þeir að læra hvernig þeir geta hlotið þá blessun sem eilíft líf er. — 1. Mósebók 2:8, 9, 15-17; 3:17-23.
Ef Abraham er hins vegar aðeins goðsagnarvera er tilgangslaust að trúa þeim stórfenglegu fyrirheitum sem hann fékk. Og ef ekki er hægt að treysta fyrirheitum Biblíunnar gætu sumir talið góð rök fyrir því að helga sig nautnum hins núverandi lífs. Eins og einn frumkristinna manna skrifaði: „Ef dauðir rísa ekki upp, etum þá og drekkum, því að á morgun deyjum vér!“ — 1. Korintubréf 15:32.
Það eru því ærin rök fyrir því að hugleiða hvort Abraham sé aðeins goðsagnarvera eða hvort hann hafi verið sannur spámaður. Það kemur þér kannski á óvart hvað kunnir klerkar 19. aldar sögðu um málið. En síðan þá hafa fornleifafræðingar gert stórkostlegar uppgötvanir sem sýna og sanna að þessir klerkar höfðu rangt fyrir sér.