Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • bt kafli 8 bls. 60-67
  • „Söfnuðurinn bjó nú við frið um tíma“

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • „Söfnuðurinn bjó nú við frið um tíma“
  • Vitnum ítarlega um ríki Guðs
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • „Hvers vegna ofsækirðu mig?“ (Post. 9:1–5)
  • „Sál, bróðir minn. Drottinn … sendi mig“ (Post. 9:6–17)
  • ‚Hann byrjaði að boða að Jesús væri sonur Guðs‘ (Post. 9:18–30)
  • „Margir tóku trú“ (Post. 9:31–43)
  • Á veginum til Damaskus
    Biblíusögubókin mín
  • Geta þeir sem eru vondir breytt sér?
    Lærum af kennaranum mikla
  • „Hlýðni er betri en fórn“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
  • Davíð og Sál
    Lærum af sögum Biblíunnar
Sjá meira
Vitnum ítarlega um ríki Guðs
bt kafli 8 bls. 60-67

8. KAFLI

„Söfnuðurinn bjó nú við frið um tíma“

Sál sem ofsótti söfnuðinn grimmilega verður ötull boðberi

Byggt á Postulasögunni 9:1–43

1, 2. Hvað ætlaði Sál að gera í Damaskus?

MENNIRNIR nálgast Damaskus. Þeir hafa illt í hyggju. Þeir hata lærisveina Jesú og ætla að draga þá út af heimilum þeirra, fjötra þá, auðmýkja og flytja til Jerúsalem. Þar á að leiða þá fyrir Æðstaráðið og refsa þeim.

2 Forsprakki flokksins heitir Sál og hann er nú þegar samsekur í morði.a Fyrir stuttu hafði hann fylgst með öðrum ofstækismönnum Gyðinga grýta Stefán til bana. (Post. 7:57–8:1) Sál lætur sér ekki nægja að ráðast gegn fylgjendum Jesú í Jerúsalem. Hann vill færa út kvíarnar. Hann vill útrýma þessum skaðræðisflokki sem var kallaður ‚Vegurinn‘. – Post. 9:1, 2; sjá rammann „Umboð Sáls í Damaskus“.

3, 4. (a) Hvað gerðist hjá Sál? (b) Hvað skoðum við nú?

3 Skyndilega leiftrar skært ljós á Sál. Ferðafélagar hans sjá ljósið en koma ekki upp orði. Sál missir sjónina og fellur til jarðar. Hann heyrir rödd af himni sem segir: „Sál, Sál, hvers vegna ofsækirðu mig?“ Sál er agndofa og spyr: „Hver ertu, Drottinn?“ Honum hlýtur að bregða við svarið: „Ég er Jesús sem þú ofsækir.“ – Post. 9:3–5; 22:9.

4 Hvað lærum við af því fyrsta sem Jesús segir við Sál? Hvaða gagn höfum við af því að skoða það sem gerðist um það leyti sem Sál tók trú? Hvernig notaði söfnuðurinn tímann sem hann bjó við frið eftir að Sál tók trú og hvað lærum við af því?

UMBOÐ SÁLS Í DAMASKUS

Hvernig fékk Sál umboð til að handtaka kristna menn í erlendri borg? Æðstaráðið og æðstipresturinn höfðu vald til að ákveða fyrir alla Gyðinga, hvar sem þeir bjuggu, hvað væri rétt og rangt. Æðstipresturinn virðist líka hafa getað krafist þess að fá afbrotamenn framselda. Öldungarnir í samkundunum í Damaskus hafa því verið samvinnuþýðir þegar þeim barst bréf frá æðstaprestinum. – Post. 9:1, 2.

Rómverjar höfðu líka veitt Gyðingum vald til að dæma í sínum eigin málum. Það skýrir hvers vegna Gyðingar gátu fimm sinnum veitt Páli postula „höggin 39“. (2. Kor. 11:24) Í 1. Makkabeabók er líka minnst á bréf frá rómverskum konsúl til Ptólemaíosar áttunda Egyptalandskonungs árið 138 f.Kr. Þar segir: „Hafi einhverjir afbrotamenn frá landi þeirra [Júdeu] leitað hælis í landi ykkar hvetjum við ykkur til að framselja þá Símoni æðsta presti svo að hann geti refsað þeim samkvæmt lögmáli Gyðinga.“ (1. Makk. 15:21) Árið 47 f.Kr. staðfesti Júlíus Sesar það umboð sem æðstipresturinn hafði áður fengið og rétt hans til að útkljá mál sem kæmu upp varðandi siði Gyðinga.

„Hvers vegna ofsækirðu mig?“ (Post. 9:1–5)

5, 6. Hvað lærum við af því sem Jesús sagði við Sál?

5 Þegar Jesús stöðvaði Sál á veginum til Damaskus spurði hann ekki: „Hvers vegna ofsækirðu lærisveina mína?“ Eins og fram hefur komið spurði hann: „Hvers vegna ofsækirðu mig?“ (Post. 9:4) Jesús finnur greinilega til með fylgjendum sínum í raunum þeirra. – Matt. 25:34–40, 45.

6 Ef þú sætir illri meðferð vegna trúar þinnar máttu treysta því að bæði Jehóva og Jesús vita hvað þú ert að ganga í gegnum. (Matt. 10:22, 28–31) Það er ekki víst að Jehóva taki erfiðleikana frá þér. Jesús horfði upp á Sál styðja morðið á Stefáni og sá hann líka draga trúfasta lærisveina sína út af heimilum þeirra í Jerúsalem. (Post. 8:3) Hann skarst þó ekki í leikinn á þeim tíma. En fyrir milligöngu Jesú gaf Jehóva Stefáni og öðrum lærisveinum þann styrk sem þeir þurftu til að vera trúfastir.

7. Hvað þarftu að gera til að halda út í ofsóknum?

7 Þú getur líka haldið út í ofsóknum ef þú gerir eftirfarandi: (1) Vertu ákveðinn í að vera trúr hvað sem á dynur. (2) Biddu Jehóva um hjálp. (Fil. 4:6, 7) (3) Láttu Jehóva sjá um að hefna. (Rómv. 12:17–21) (4) Treystu að Jehóva gefi þér styrk til að halda út þangað til hann ákveður að binda enda á prófraunina. – Fil. 4:12, 13.

„Sál, bróðir minn. Drottinn … sendi mig“ (Post. 9:6–17)

8, 9. Hvað ætli Ananíasi hafi fundist um verkefnið sem hann fékk?

8 Eftir að hafa svarað spurningu Sáls: „Hver ertu, Drottinn?“ segir Jesús við hann: „Stattu upp og farðu inn í borgina. Þar verður þér sagt hvað þú átt að gera.“ (Post. 9:6) Sál er leiddur blindur á gististað sinn í Damaskus. Þar fastar hann og biður í þrjá daga. Á meðan talar Jesús um Sál við lærisveininn Ananías sem býr þar í borginni. Hann „hafði gott orð á sér meðal allra Gyðinga“ í Damaskus. – Post. 22:12.

9 Við getum rétt ímyndað okkur að Ananías hafi haft blendnar tilfinningar. Höfuð safnaðarins, hinn upprisni Jesús Kristur, talaði til hans í eigin persónu og valdi hann til að sinna sérstöku verkefni. Hvílíkur heiður! En verkefnið var ógnvekjandi. Þegar Jesús sagði Ananíasi að tala við Sál svaraði hann: „Drottinn, ég hef heyrt marga tala um þennan mann og um allt það illa sem hann hefur gert þínum heilögu í Jerúsalem. Hann er kominn hingað með umboð frá yfirprestunum til að handtaka alla sem ákalla nafn þitt.“ – Post. 9:13, 14.

10. Hvað gerði Jesús fyrir Ananías og hvað segir það okkur um Jesú?

10 Jesús ávítaði ekki Ananías fyrir að láta áhyggjur sínar í ljós en hann gaf honum skýrar leiðbeiningar. Og hann sýndi Ananíasi þá tillitssemi að útskýra hvers vegna hann vildi að hann ynni þetta óvenjulega verk. Jesús sagði um Sál: „Ég hef valið þennan mann sem verkfæri til að bera nafn mitt til þjóðanna, til konunga og til Ísraelsmanna. Ég ætla að sýna honum hve mikið hann þarf að þjást vegna nafns míns.“ (Post. 9:15, 16) Ananías hlýddi Jesú tafarlaust. Hann leitaði Sál uppi og sagði við hann: „Sál, bróðir minn. Drottinn Jesús, sem birtist þér á veginum á leiðinni hingað, sendi mig til að þú fáir sjónina aftur og fyllist heilögum anda.“ – Post. 9:17.

11, 12. Hvað lærum við af frásögunni af Jesú, Ananíasi og Sál?

11 Við lærum ýmislegt af frásögunni af Jesú, Ananíasi og Sál. Við sjáum til dæmis að Jesús stjórnar boðuninni eins og hann lofaði. (Matt. 28:20) Hann talar að vísu ekki beint við einstaklinga nú á tímum en hann stjórnar boðuninni fyrir milligöngu trúa þjónsins sem hann hefur nú sett yfir vinnuhjú sín. (Matt. 24:45–47) Undir handleiðslu hins stjórnandi ráðs eru boðberar og brautryðjendur sendir til að leita uppi þá sem vilja vita meira um Jesú. Eins og fram kom í síðasta kafla hafa margir komist í samband við votta Jehóva eftir að hafa beðið til Guðs um leiðsögn. – Post. 9:11.

12 Ananías fylgdi leiðsögn Jesú og hlaut blessun fyrir. Fylgir þú fyrirmælunum um að vitna ítarlega þó að þér finnist verkefnið ekki auðvelt? Suma getur kviðið fyrir því að fara hús úr húsi og hitta ókunnugt fólk. Öðrum finnst erfitt að tala við fólk á vinnustað eða úti á götu eða fara í síma- eða bréfastarf. Ananías sigraðist á óttanum og hlaut þann heiður að mega hjálpa Sál að fá heilagan anda.b Honum gekk vel af því að hann treysti Jesú og leit á Sál sem bróður sinn. Líkt og Ananías getum við sigrast á óttanum ef við treystum að Jesús stjórni boðuninni, sýnum fólki samkennd og lítum jafnvel á ógnvekjandi einstaklinga sem tilvonandi trúsystkini okkar. – Matt. 9:36.

‚Hann byrjaði að boða að Jesús væri sonur Guðs‘ (Post. 9:18–30)

13, 14. Hvað geturðu lært af Sál ef þú ert að kynna þér Biblíuna en ert enn ekki búinn að skírast?

13 Sál beið ekki boðanna að fara eftir því sem hann hafði lært. Eftir að hafa fengið sjónina aftur lét hann skírast og fór að starfa náið með lærisveinunum í Damaskus. En hann lét ekki þar við sitja heldur „byrjaði strax að boða í samkunduhúsunum að Jesús væri sonur Guðs“. – Post. 9:20.

14 Ef þú ert að kynna þér Biblíuna en ert enn ekki skírður, ætlarðu þá að líkja eftir Sál og fara eftir því sem þú ert að læra? Sál varð auðvitað sjálfur vitni að kraftaverki sem Jesús vann og það var honum eflaust hvatning til að láta skírast. En aðrir höfðu líka séð Jesú vinna kraftaverk. Hópur farísea hafði til dæmis horft á þegar hann læknaði mann með visna hönd og fjöldi Gyðinga vissi að hann hafði reist Lasarus upp frá dauðum. En mörgum stóð á sama og voru jafnvel fjandsamlegir. (Mark. 3:1–6; Jóh. 12:9, 10) Sál var hins vegar breyttur maður. Hvers vegna tók hann trú fyrst aðrir gerðu það ekki? Vegna þess að hann óttaðist Guð meira en menn og var innilega þakklátur fyrir að Kristur skyldi sýna honum miskunn. (Fil. 3:8) Ef þú bregst þannig við læturðu ekkert hindra þig í að taka þátt í boðuninni og verða hæfur til að skírast.

15, 16. Um hvað ræddi Sál í samkunduhúsunum og hvernig brugðust Gyðingar í Damaskus við?

15 Ímyndaðu þér hversu hissa, hneykslaðir og reiðir margir hljóta að hafa verið þegar Sál fór að tala um Jesú í samkunduhúsunum! „Er þetta ekki maðurinn sem reyndi að útrýma þeim sem ákalla þetta nafn í Jerúsalem?“ spurðu þeir. (Post. 9:21) Þegar Sál útskýrði hvers vegna hann hefði breytt um afstöðu til Jesú sýndi hann fram á með skýrum rökum „að Jesús væri Kristur“. (Post. 9:22) En rök duga ekki alltaf til að sannfæra fólk. Ef hugurinn er bundinn af hefðum eða hjartað af stolti hafa rök lítið að segja. Sál gafst samt ekki upp.

16 Þremur árum síðar voru Gyðingar í Damaskus enn að reyna að þagga niður í Sál. Að lokum lögðu þeir á ráðin um að drepa hann. (Post. 9:23; 2. Kor. 11:32, 33; Gal. 1:13–18) Þegar fréttist af ráðagerðinni lét Sál lítið fyrir sér fara og yfirgaf borgina. Hann var látinn síga niður í körfu út um op í borgarmúrnum. Lúkas segir að það hafi verið „lærisveinar hans [Sáls]“ sem hjálpuðu honum að forða sér þá nótt. (Post. 9:25) Það virðist gefa til kynna að í það minnsta sumir sem hlustuðu á Sál boða trúna í Damaskus hafi brugðist vel við og orðið fylgjendur Krists.

17. (a) Hvernig bregst fólk við sannleika Biblíunnar? (b) Hvað ættum við að gera og hvers vegna?

17 Þegar þú byrjaðir að segja ættingjum, vinum og öðrum frá því sem þú varst að læra bjóstu kannski við að allir myndu átta sig á hve rökréttur sannleikur Biblíunnar er. Sumir gerðu það ef til vill en margir ekki. Kannski komu sumir í fjölskyldu þinni jafnvel fram við þig eins og óvin. (Matt. 10:32–38) En ef þú heldur áfram að bæta þig í að rökræða út frá Biblíunni og lifir eins og kristin manneskja má jafnvel vera að hugarfar þeirra sem eru þér andsnúnir breytist með tíð og tíma. – Post. 17:2; 1. Pét. 2:12; 3:1, 2, 7.

18, 19. (a) Hvaða áhrif hafði það að Barnabas staðfesti að Sál væri orðinn kristinn? (b) Hvernig getum við líkt eftir Barnarbasi og Sál?

18 Þegar Sál kom til Jerúsalem áttu lærisveinarnir eðlilega erfitt með að trúa því að hann væri orðinn lærisveinn. En þegar Barnabas staðfesti að Sál væri orðinn lærisveinn viðurkenndu postularnir það líka og hann var með þeim um tíma. (Post. 9:26–28) Sál var varfærinn en hann skammaðist sín ekki fyrir fagnaðarboðskapinn. (Rómv. 1:16) Hann boðaði hugrakkur trúna í Jerúsalem, borginni þar sem hann hafði byrjað að ofsækja lærisveina Jesú Krists grimmilega. Gyðingar í Jerúsalem uppgötvuðu sér til skelfingar að helsti baráttumaður þeirra hafði svikist undan merkjum og nú vildu þeir drepa hann. Frásagan segir: „Þegar bræðurnir komust að því fóru þeir með hann niður til Sesareu og sendu hann áfram til Tarsus.“ (Post. 9:30) Sál fylgdi leiðsögn Jesú sem komið var á framfæri fyrir milligöngu safnaðarins. Og það var til góðs, bæði fyrir Sál og söfnuðinn.

19 Tökum eftir að Barnabas átti frumkvæðið að því að aðstoða Sál. Það átti eflaust sinn þátt í því að þessir ötulu þjónar Jehóva urðu nánir vinir. Ert þú fús til að aðstoða nýja í söfnuðinum eins og Barnabas gerði, starfa með þeim við boðunina og hjálpa þeim að taka framförum? Það verður þér til blessunar á marga vegu. Ef þú ert nýlega orðinn boðberi, þiggurðu þá aðstoð frá öðrum eins og Sál? Ef þú starfar með reyndum boðberum verður þú færari í boðuninni, hefur meiri ánægju af starfi þínu og myndar vináttubönd sem geta varað ævilangt.

„Margir tóku trú“ (Post. 9:31–43)

20, 21. Hvernig hafa þjónar Guðs bæði fyrr og nú nýtt sér friðartímabil sem best?

20 Eftir að Sál tók kristna trú og komst óhultur frá Jerúsalem ‚bjó söfnuðurinn við frið um tíma um alla Júdeu, Galíleu og Samaríu‘. (Post. 9:31) Hvernig notuðu lærisveinarnir þennan hagstæða tíma? (2. Tím. 4:2) Frásagan segir að söfnuðurinn hafi ‚byggst upp‘. Postularnir og aðrir bræður í ábyrgðarstöðum styrktu trú lærisveinanna og fóru með forystu í söfnuðinum sem „lifði í lotningu fyrir Jehóva og sótti styrk til heilags anda“. Sem dæmi má nefna að Pétur styrkti trú lærisveinanna sem bjuggu í bænum Lýddu á Saronssléttu. Margir á svæðinu ‚sneru sér til Drottins‘ með hans hjálp. (Post. 9:32–35) Lærisveinarnir létu ekki önnur mál fanga athygli sína heldur lögðu sig fram um að hugsa hver um annan og boða fagnaðarboðskapinn. Árangurinn var sá að „lærisveinunum fjölgaði stöðugt“.

21 Undir lok 20. aldar rann upp svipaður friðartími hjá Vottum Jehóva í mörgum löndum. Ríkisstjórnir sem höfðu kúgað þjóna Guðs áratugum saman liðu skyndilega undir lok og dregið var úr hömlum á starfi okkar eða þeim jafnvel aflétt. Tugþúsundir votta gripu tækifærið og boðuðu trúna fyrir opnum tjöldum og árangurinn lét ekki á sér standa.

22. Hvernig geturðu notað sem best það frelsi sem þú býrð við?

22 Notarðu vel það frelsi sem þú hefur? Ef trúfrelsi ríkir í landinu þar sem þú býrð væri Satan hæstánægður ef honum tækist að lokka þig til að sækjast eftir efnislegum gæðum í stað þess að einbeita þér að þjónustunni við Jehóva. (Matt. 13:22) Leyfðu honum það ekki. Ef þú býrð við friðsamlegar aðstæður skaltu nota tímann eins vel og þú getur. Líttu á aðstæður þínar sem tækifæri til að vitna ítarlega og byggja upp söfnuðinn. Mundu að þær geta breyst skyndilega.

23, 24. (a) Hvað lærum við af frásögunni af Tabíþu? (b) Hvað ættum við að einsetja okkur?

23 Tabíþa, einnig nefnd Dorkas, var lærisveinn sem bjó í Joppa, bæ stutt frá Lýddu. Þessi trúfasta systir notaði tíma sinn og eigur skynsamlega. Hún var „góðgerðarsöm og örlát við fátæka“. En dag nokkurn veiktist hún óvænt og dó.c Lærisveinarnir í Joppa syrgðu hana mjög, sérstaklega ekkjurnar sem höfðu notið góðs af örlæti hennar. Þegar Pétur kom í húsið þar sem verið var að búa líkið undir greftrun vann hann kraftaverk sem enginn postula Jesú hafði unnið áður. Pétur fór með bæn og reisti síðan Tabíþu upp frá dauðum. Við getum rétt ímyndað okkur gleði ekknanna og annarra lærisveina þegar Pétur kallaði á þau og þau sáu að Tabíþa var lifandi. Þessi atburður hlýtur að hafa styrkt þau fyrir prófraunirnar sem voru fram undan. Eins og við var að búast fréttist af kraftaverkinu „út um alla Joppe og margir tóku trú á Drottin“. – Post. 9:36–42.

Systir gefur aldraðri systur blóm.

Hvernig geturðu líkt eftir Tabíþu?

24 Það er tvennt sem við lærum af þessari hjartnæmu frásögu af Tabíþu. (1) Lífið er hverfult. Það er því mikilvægt að við leggjum okkur fram um að þóknast Guði meðan við getum. (Préd. 7:1) (2) Upprisuvonin er örugg. Jehóva tók eftir öllum góðverkum Tabíþu og hann launaði henni. Hann mun ekki heldur gleyma því sem við höfum lagt á okkur og hann reisir okkur upp ef við skyldum deyja fyrir Harmagedón. (Hebr. 6:10) Hvort sem við því upplifum ‚erfiða tíma‘ eða ‚friðartíma‘ skulum við halda áfram að vitna ítarlega um Krist. – 2. Tím. 4:2.

FARÍSEINN SÁL

‚Ungi maðurinn sem hét Sál‘ og kemur við sögu þegar verið er að grýta Stefán var frá Tarsus. Þetta var höfuðborg rómverska skattlandsins Kilikíu sem nú tilheyrir suðurhluta Tyrklands. (Post. 7:58) Töluverður fjöldi Gyðinga bjó þar í borg. Sál segir um sjálfan sig: „Ég var umskorinn á áttunda degi, er Ísraelsmaður, er af ættkvísl Benjamíns, Hebrei fæddur af Hebreum og hef haldið lögin eins og farísei.“ Hann var því mikils virtur í samfélagi Gyðinga. – Fil. 3:5.

Faríseinn Sál.

Heimaborg Sáls var mikil og auðug verslunarborg og miðstöð grískrar menningar. Þar sem hann ólst upp í Tarsus kunni hann grísku. Líklega hefur hann fengið grunnmenntun í skóla á vegum Gyðinga. Sál lærði líka tjaldgerð en það var algengt starf á þessu svæði. Hann hefur vafalaust lært þessa iðn af föður sínum á unga aldri. – Post. 18:2, 3.

Í Postulasögunni kemur einnig fram að Sál hafi verið rómverskur ríkisborgari frá fæðingu. (Post. 22:25–28) Það þýðir að einhver forfeðra hans hafi eignast þennan ríkisborgararétt þótt ekki sé vitað hvernig. Hvað sem því líður hafði það í för með sér að fjölskyldan tilheyrði yfirstéttinni í skattlandinu. Uppruni Sáls og menntun gaf honum því góða innsýn í þrjá menningarheima – Gyðinga, Grikkja og Rómverja.

Sál var líklega ekki nema 13 ára þegar hann flutti um 840 kílómetra leið til Jerúsalem til að fara í nám. Þar í borg lærði hann við fætur Gamalíels sem var hátt skrifaður kennari í erfðavenjum farísea. – Post. 22:3.

Þetta nám var sambærilegt við háskólanám nú á dögum. Nemendurnir fræddust bæði um Ritningarnar og munnleg lög Gyðinga og lærðu margt utan að. Góður nemandi hjá Gamalíel átti framtíðina fyrir sér og Sál var greinilega slíkur nemandi. Hann skrifaði síðar: „Ég var kominn lengra í gyðingdóminum en margir jafnaldrar mínir af þjóð minni þar sem ég var miklu kappsamari en þeir um að halda erfðavenjur feðra minna.“ (Gal. 1:14) Það var auðvitað brennandi áhugi Sáls á erfðavenjum Gyðinga sem olli því að hann ofsótti hinn unga kristna söfnuð af mikilli hörku.

TABÍÞA – GÓÐGERÐARSÖM TRÚSYSTIR

Tabíþa gefur þurfandi manneskju gjöf.

Tabíþa tilheyrði söfnuðinum í hafnarbænum Joppe. Trúsystkini hennar elskuðu hana því að hún var „góðgerðarsöm og örlát við fátæka“. (Post. 9:36) Tabíþa bar tvö nöfn – annað hebreskt eða arameískt og hitt grískt eða latneskt – en það var algengt meðal Gyðinga á svæðum þar sem þeir og fólk af öðrum þjóðum bjuggu saman. Grískt nafn hennar, Dorkas, samsvaraði arameíska nafninu Tabíþa. Bæði nöfnin merkja ‚gasella‘.

Tabíþa virðist hafa veikst og dáið skyndilega. Lík hennar var þvegið og búið undir greftrun eins og venja var. Það var lagt í herbergi á efri hæð, hugsanlega á heimili hennar. Í heitu loftslagi Mið-Austurlanda þurfti að jarða látna samdægurs eða daginn eftir andlát. Söfnuðurinn í Joppe hafði frétt að Pétur postuli væri staddur í nágrannabænum Lýddu. Pétur myndi ná að koma til Joppe áður en jarða þyrfti Tabíþu því að ekki voru nema 18 kílómetrar milli bæjanna eða um fjögurra klukkustunda ganga. Söfnuðurinn sendi því tvo menn til að biðja Pétur um að koma strax. (Post. 9:37, 38) Biblíufræðingur segir: „Snemma á tímum gyðingdómsins var venja að gera út sendiboða tvo og tvo saman, að hluta til svo að annar gæti staðfest vitnisburð hins.“

Hvað gerðist þegar Pétur kom á staðinn? Frásagan segir að farið hafi verið með hann „inn í herbergið á efri hæðinni. Allar ekkjurnar komu grátandi til hans og sýndu honum fjölda kyrtla og yfirhafna sem Dorkas hafði gert meðan hún var hjá þeim“. (Post. 9:39) Ein ástæðan fyrir því að söfnuðinum þótti svo vænt um Tabíþu var að hún saumaði oft föt fyrir fólk, bæði kyrtla og yfirhafnir. Ekki er tekið fram hvort Tabíþa greiddi efniskostnaðinn sjálf eða gaf bara vinnuna. Hvað sem því líður var hún elskuð fyrir góðmennsku sína og ‚örlæti við fátæka‘.

Pétur hefur eflaust verið snortinn af því sem hann sá þarna í herberginu. „Hér syrgði fólk á allt annan hátt en gert var í húsi Jaírusar, en þar höfðu verið ráðnar háværar grátkonur og flautuleikarar,“ segir biblíufræðingurinn Richard Lenski. „Hér var ekki um slíka gervisorg að ræða.“ (Matt. 9:23) Sorgin var innileg og ósvikin. Hvergi er minnst á eiginmann og margir álykta því að Tabíþa hafi verið einhleyp.

Þegar Jesús sendi postulana út til að boða trúna gaf hann þeim mátt til að ‚reisa upp dána‘. (Matt. 10:8) Pétur hafði séð Jesú vinna slík kraftaverk, meðal annars þegar hann reisti upp dóttur Jaírusar, en hvergi kemur fram að postuli hafi reist upp látna manneskju fram að þessu. (Mark. 5:21–24, 35–43) En nú lætur Pétur alla fara út úr herberginu. Hann fer síðan með einlæga bæn og þá opnar Tabíþa augun og sest upp. Það hefur eflaust verið mikill fögnuður í söfnuðinum í Joppe þegar hinir heilögu og ekkjurnar sáu að elskuð trúsystir þeirra var risin upp frá dauðum. – Post. 9:40–42.

a Sjá rammann „Faríseinn Sál“.

b Yfirleitt voru það postularnir sem miðluðu heilögum anda til fólks. En við þessar óvenjulegu aðstæður virðist Jesús hafa falið Ananíasi að miðla Sál gjöfum andans. Eftir að Sál tók kristna trú leið þónokkur tími þangað til hann hitti nokkurn af postulunum 12. Það er þó líklegt að hann hafi boðað trúna á þeim tíma. Jesús sá greinilega til þess að Sál fengi þann kraft sem hann þurfti til að sinna verkefninu sem honum hafði verið trúað fyrir.

c Sjá rammann „Tabíþa – góðgerðarsöm trúsystir“.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila