Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • Hverjum eigum við að trúa?
    Vaknið! – 2006 | október
    • Hverjum eigum við að trúa?

      „Sérhvert hús er gjört af einhverjum, en Guð er sá, sem allt hefur gjört.“— HEBREABRÉFIÐ 3:4.

      ERTU sammála rökum biblíuritarans? Vísindunum hefur óneitanlega fleygt fram á þeim 2000 árum sem liðin eru síðan þetta var skrifað. Við sjáum vissulega mörg merki um hönnun í ríki náttúrunnar en er enn þá til fólk sem telur að þess vegna hljóti að vera til hönnuður og skapari — Guð?

      Margir, jafnvel í hinum iðnvæddu ríkjum heims, myndu svara þessari spurningu játandi. Svo dæmi sé tekið lét tímaritið Newsweek gera könnun í Bandaríkjum árið 2005 sem leiddi í ljós að 80 prósent manna „trúa að Guð hafi skapað alheiminn“. Stafar þessi trú af ónógri menntun? Til að leita svars við því skulum við spyrja annarrar spurningar: Eru til vísindamenn sem trúa á Guð? Árið 1997 birti tímaritið Nature niðurstöður könnunar sem leiddi í ljós að næstum 40 prósent líffræðinga, eðlisfræðinga og stærðfræðinga, sem spurðir voru, trúa að til sé Guð og að hann heyri bænir og svari þeim.

      En sumir vísindamenn eru á allt öðru máli. Nóbelsverðlaunahafinn Herbert A. Hauptman sagði á vísindaráðstefnu nýverið að það samrýmdist ekki góðum vísindum að trúa á hið yfirnáttúrlega, og þá sérstaklega á Guð. „Þess konar trú er skaðleg vísindunum og mannkyninu,“ sagði hann. Og þótt jurtir og dýr beri merki þess að vera hönnuð eru vísindamenn, sem trúa á tilvist Guðs, oft tregir til að kenna að það hljóti að vera til hönnuður. Af hverju? Douglas H. Erwin er fornlíffræðingur og starfar við Smithsonian rannsóknar- og fræðslustofnunina. Hann bendir á eina ástæðuna og segir: „Það er ein af reglum vísindanna að kraftaverk komi ekki til greina.“

      Við getum svo sem látið aðra segja okkur hvað við eigum að hugsa og hverju við eigum að trúa. En við getum líka kynnt okkur rökin sjálf og dregið okkar eigin ályktanir. Þegar þú lest á næstu blaðsíðum um nýjustu vísindauppgötvanir skaltu spyrja þig hvort það sé rökrétt ályktun að til sé skapari.

      [Rammi á blaðsíðu 3]

      Kynntu þér gögnin sjálfur.

      [Rammi á blaðsíðu 3]

      ERU VOTTAR JEHÓVA SKÖPUNARSINNAR?

      Vottar Jehóva trúa sköpunarsögu Biblíunnar sem er að finna í 1. Mósebók. Þeir eru hins vegar ekki sköpunarsinnar í þeim skilningi sem orðið er oftast notað. Af hverju segjum við það? Í fyrsta lagi trúa margir svonefndir sköpunarsinnar að alheimurinn, jörðin og allt líf á jörðinni hafi verið skapað á sex bókstaflegum sólarhringum fyrir um það bil 10.000 árum. En því er ekki haldið fram í Biblíunni.a Sköpunarsinnar hafa sömuleiðis tekið upp á arma sína margar kenningar sem eiga sér enga stoð í Biblíunni. Vottar Jehóva byggja trúarkenningar sínar hins vegar einvörðungu á Biblíunni.

      Í sumum löndum er hugtakið „sköpunarsinni“ einnig notað um bókstafstrúarhópa sem taka virkan þátt í stjórnmálum. Þessir hópar reyna að þrýsta á stjórnmálamenn, dómara og skólastjórnendur í von um fá lögum og námsefni breytt til samræmis við trúarkenningar sínar.

      Vottar Jehóva eru hlutlausir í stjórnmálum. Þeir virða rétt stjórnvalda til að setja lög og framfylgja þeim. (Rómverjabréfið 13:1-7) En þeir taka líka alvarlega orð Jesú um að vera „ekki af heiminum“. (Jóhannes 17:14-16) Þeir boða trú sína meðal almennings og gefa fólki tækifæri til að kynna sér kosti þess að lifa eftir þeim lífsreglum sem Guð setur. Þeir hvika hins vegar ekki frá hlutleysi sínu og styðja ekki bókstafstrúarhópa sem reyna að neyða fólk með lögum til að fylgja Biblíunni. — Jóhannes 18:36.

      [Neðanmáls]

      a Sjá greinina „Sjónarmið Biblíunnar: Stangast sköpunarsagan á við vísindin?“ á bls. 18 í þessu blaði.

  • Hvað má læra af náttúrunni?
    Vaknið! – 2006 | október
    • Hvað má læra af náttúrunni?

      „Spyr þú skepnurnar, og þær munu kenna þér, fugla loftsins, og þeir munu fræða þig, eða villidýrin, og þau munu kenna þér, og fiskar hafsins munu kunngjöra þér.“ — JOBSBÓK 12:7, 8.

      VÍSINDAMENN og verkfræðingar hafa á síðustu árum látið jurtir og dýr jarðar kenna sér í mjög bókstaflegum skilningi. Þeir rannsaka hönnunarlausnir lífríkisins og herma síðan eftir þeim til að þróa nýjar vörur og betrumbæta alls konar vélar og tæki. Þetta er fræðigrein sem kalla mætti lífhermifræði. Þegar þú skoðar dæmin hér á eftir skaltu spyrja þig hver eigi í raun og veru heiðurinn af þeim hönnunarlausnum sem er að finna í ríki náttúrunnar.

      Bægsli hvalanna

      Flugvélahönnuðir virðast geta lært sitthvað af hnúfubaknum. Fullorðinn hnúfubakur vegur um 30 tonn eða á við stóran, fullhlaðinn flutningabíl. Hvalurinn er um 12 metra langur, með fremur stífan bol og tvö stór bægsli sem eru ekki ósvipuð vængjum. En þrátt fyrir þyngdina og stærðina er dýrið ótrúlega lipurt í sjónum. Hnúfubakur í fæðuleit á það til að synda upp á við í gormlaga sveiflu undir torfu af krabbadýrum eða fiski. Í leiðinni blæs hann frá sér straumi af loftbólum sem mynda nokkurs konar „net“ í kringum bráðina. Loftbólunetið er oft ekki nema einn og hálfur metri í þvermál en með þessum hætti tekst hvalnum að reka bráðina upp að yfirborðinu þar sem hann getur svo gleypt hana í einum munnbita.

      Vísindamönnum lék sérstök forvitni á að vita hvernig hvalurinn getur synt í hringi sem virðast allt of litlir fyrir þetta stóra og stífa flikki. Þeir uppgötvuðu að leyndardómurinn var fólginn í lögun bægslanna. Fremri kantar bægslanna eru ekki sléttir eins og flugvélarvængir heldur ójafnir af því að þeir eru alsettir svonefndum hnúfum.

      Þegar hvalurinn smýgur gegnum sjóinn virðast hnúfurnar auka lyftikraftinn og draga úr viðnámi. Hvernig? Í tímaritinu Natural History kemur fram að hnúfurnar valdi því að sjórinn renni með mjúkum snúningi meðfram efra borði bægslanna, jafnvel þegar hvalurinn klifrar mjög hratt. Ef frambrún bægslanna væri slétt myndi sjórinn hvirflast og þyrlast aftan við bægslin og hvalurinn gæti þá ekki synt í eins þrönga hringi og hann gerir.

      Hvaða hagnýtt gildi hefur þessi uppgötvun? Ef flugvélarvængir væru hannaðir með hliðsjón af henni væri trúlega hægt að komast af með færri vængbörð og vélrænan búnað til að breyta loftflæðinu. Slíkir vængir ættu að vera öruggari og auðveldara að halda þeim við. John Long, sem er sérfróður um aflfræði lífs, telur að einn góðan veðurdag sé „meira en hugsanlegt að hver einasta þota verði með hnúfur eins og á bægslum hnúfubaksins“.

      Vængir máfsins

      Flugvélarvængir eru auðvitað eftirlíking fuglsvængja. En verkfræðingar hafa ekki alls fyrir löngu náð nýjum áfanga í því að líkja eftir vængjum fuglanna. Í tímaritinu New Scientist er greint frá því að „vísindamenn við Flórídaháskóla hafi smíðað frumgerð mannlausrar, fjarstýrðrar flugvélar sem geti svifið, tekið dýfur og klifrað hratt eins og máfur“.

      Máfar eiga einstaka flugfimi sína því að þakka að þeir geta beygt vængina um axlarlið og olnboga. Í fjarstýrðu flugvélinni, sem er 60 sentímetrar á lengd, er hermt eftir þessari hreyfigetu vængsins og „lítill hreyfill notaður til að stýra málmstöngum sem hreyfa vængina“, að sögn tímaritsins. Þessi snjalla hönnun vængjanna gerir að verkum að smágerð flugvélin getur svifið og steypt sér niður á milli hárra bygginga. Bandaríska flughernum er mikið í mun að smíða liprar flugvélar af þessu tagi til að auðvelda leit að efna- og sýklavopnum í stórborgum.

      Fætur gekkósins

      Við mennirnir höfum einnig margt að læra af landdýrum. Gekkóinn er smávaxin eðla sem getur klifrað upp veggi og gengið á hvolfi neðan í loftum húsa. Hún var jafnvel þekkt á biblíutímanum fyrir þennan einstaka hæfileika sinn. (Orðskviðirnir 30:28, NW) Hvernig fer gekkóinn að því að bjóða þyngdarlögmálinu byrginn?

      Fætur gekkósins eru þaktir afar fíngerðum burstum og það eru þeir sem gera honum kleift að loða jafnvel við spegilslétta fleti. Fæturnir gefa ekki frá sér neitt límkennt efni heldur byggist viðloðunin á veikum sameindakröftum. Ofurveikur aðdráttarkraftur, svonefndur van der Waals-kraftur, myndast milli sameindanna í burstunum á fótum gekkósins og í fletinum sem fætur hans snerta. Allajafna er þyngdaraflið miklu sterkara en þessi aðdráttarkraftur og það er ástæðan fyrir því að við getum ekki klifrað upp vegg með því einu að leggja flata lófana á hann. Hinir örsmáu burstar á fótum gekkósins stækka hins vegar snertiflötinn. Þegar van der waalskrafturinn í þúsundum bursta á fótum gekkósins leggst saman verður hann nógu sterkur til þess að hin smágerða eðla getur haldið sér í loft og veggi.

      Hvaða notagildi hefur þessi uppgötvun? Við getum hugsað okkur að það megi líkja eftir fótum gekkósins og búa til gerviefni sem hægt væri að nota í staðinn fyrir franska rennilásinn — og hugmyndin að baki honum er reyndar einnig tekin að láni frá náttúrunni.a Tímaritið The Economist hefur eftir vísindamanni að „gekkólímband“ gæti komið að sérstaklega góðum notum „á sviði lækninga þar sem efnafræðilegu lími verður ekki komið við“.

      Hver á skilið að fá heiðurinn?

      Bandaríska geimvísindastofnunin er að þróa vélmenni með átta fætur sem gengur eins og sporðdreki. Finnskir verkfræðingar eru búnir að hanna dráttarvél sem gengur á sex fótum og getur klifrað yfir hindranir rétt eins og risavaxið skordýr. Vísindamenn hafa fundið upp fataefni með smágerðum spjöldum sem herma eftir því hvernig furuköngull opnast og lokast. Bílaframleiðandi er að hanna faratæki sem líkir eftir töskufiskum en þeir hafa einstaklega lítið viðnám í vatni. Og þá er að nefna vísindamenn sem eru að rannsaka skel sæeyrans en hún býr yfir einstæðum höggdeyfandi eiginleikum. Markmiðið er að hanna skotheld vesti sem eru léttari og sterkari en fyrri gerðir.

      Náttúran hefur verið kveikja svo margra góðra hugmynda að vísindamenn hafa búið til gagnagrunn þar sem skráðar eru þúsundir ólíkra líffræðilegra kerfa. Vísindamenn geta leitað í gagnagrunninum að „lausnum náttúrunnar á hönnunarvandamálum sínum,“ að sögn tímaritsins The Economist. Hin náttúrlegu kerfi, sem skráð eru í gagnagrunninum, eru kölluð „einkaleyfi náttúrunnar“. Hver sá maður eða fyrirtæki, sem fær skráð einkaleyfi fyrir nýrri hugmynd eða vél, telst eiga leyfið. The Economist segir um áðurnefndan gagnagrunn: „Með því að kalla hinar líffræðilegu brellur ‚einkaleyfi náttúrunnar‘ eru vísindamenn einungis að leggja áherslu á að einkaleyfið tilheyri eiginlega náttúrunni.“

      Hvernig fékk náttúran allar þessar snjöllu hugmyndir? Margir vísindamenn myndu svara því til að hinar hugvitssamlegu hönnunarlausnir hafi orðið til á þann hátt að náttúran hafi „prófað sig áfram“ á margra milljóna ára þróunarferli. En ýmsir vísindamenn eru á annarri skoðun. Lífefnafræðingurinn Michael Behe grípur til skemmtilegs orðtaks enskrar tungu og segir í The New York Times 7. febrúar 2005: „Hin sterku einkenni hönnunar [í náttúrunni] gera okkur kleift að setja fram einfalda og afar sannfærandi röksemd: Ef það gengur eins og önd, kvakar eins og önd og lítur út eins og önd getum við dregið þá ályktun að það sé önd, nema við höfum sterk rök fyrir hinu gagnstæða.“ Og hvaða ályktun dregur hann? „Við ættum ekki að vísa hönnun á bug einfaldlega vegna þess að hún er svo augljós.“

      Verkfræðingur, sem hannar öruggari og betri flugvélarvængi, ætti auðvitað að fá heiðurinn af verki sínu. Sömuleiðis á uppfinningamaður, sem hannar fjölhæfari sáraumbúðir, þægilegra fataefni eða hagkvæmara ökutæki, skilið að fá viðurkenningu fyrir verk sitt. Það getur meira að segja varðað við lög að apa eftir hönnun annars manns án þess að viðurkenna höfundarrétt hans eða gefa honum heiðurinn.

      Finnst þér þá rökrétt hjá færum vísindamönnum að eigna tilviljunarkenndri þróun heiðurinn af þeim snilldarlausnum í ríki náttúrunnar sem þeir herma eftir á ófullkominn hátt til að leysa verkfræðileg viðfangsefni sín? Ef það þarf vitiborinn hönnuð til að búa til eftirlíkingu, hvað þá um frummyndina? Hvor á meiri heiður skilinn, meistarinn eða lærlingurinn sem líkir eftir aðferðum hans?

      Rökrétt ályktun

      Margt hugsandi fólk, sem virðir fyrir sér hönnunina í ríki náttúrunnar, tekur undir með sálmaskáldinu sem söng: „Hversu mörg eru verk þín, Drottinn, þú gjörðir þau öll með speki, jörðin er full af því, er þú hefir skapað.“ (Sálmur 104:24) Biblíuritarinn Páll komst að sömu niðurstöðu. Hann skrifaði: „Hið ósýnilega eðli [Guðs], bæði hans eilífi kraftur og guðdómleiki, er sýnilegt frá sköpun heimsins, með því að það verður skilið af verkum hans.“ — Rómverjabréfið 1:19, 20.

      Margt einlægt fólk, sem virðir Biblíuna og trúir á Guð, aðhyllist samt sem áður þá hugmynd að Guð kunni að hafa notað þróun til að skapa undur náttúrunnar. Hvað kennir Biblían þar að lútandi?

      [Neðanmáls]

      a Franski rennilásinn byggist á krókum og lykkjum og er hannaður með hliðsjón af krókaldinum jurtar sem nefnist lappa.

      [Innskot á blaðsíðu 5]

      Hvernig fékk náttúran svona margar snilldarhugmyndir?

      [Innskot á blaðsíðu 6]

      Hver á einkaleyfið á hönnunarlausnum náttúrunnar?

      [Rammi/myndir á blaðsíðu 7]

      Ef það þarf vitiborinn hönnuð til að búa til eftirlíkingu, hvað þá um frummyndina?

      Vængir þessarar lipru flugvélar líkja eftir vængjum máfsins.

      Fætur gekkósins verða aldrei óhreinir, skilja aldrei eftir sig spor, loða við allt nema Teflon og grípa og sleppa án mikillar áreynslu. Vísindamenn eru að reyna að líkja eftir þeim.

      Hugmyndabíll hefur verið smíðaður með hliðsjón af ótrúlega litlu viðnámi töskufisksins.

      [Credit line]

      Flugvél: Kristen Bartlett/ University of Florida. Fótur gekkós: Breck P. Kent. Töskufiskur og bifreið: Mercedes-Benz USA.

      [Rammi/mynd á blaðsíðu 8]

      RATVÍS AF EÐLISHVÖT

      Mörg dýr eru „vitrir spekingar“ að því leyti að þau rata sína leið um jörðina af eðlishvöt. (Orðskviðirnir 30:24, 25) Lítum á tvö dæmi.

      ◼ Umferðarstjórn maura Hvernig rata maurar heim í búið eftir að hafa farið út í fæðuleit? Breskir vísindamenn hafa uppgötvað að sumar maurategundir beita bæði lyktarmerkjum og flatarmálsfræði til að marka slóðir sem auðvelda þeim að rata heim á ný. Faraómaurar „troða slóðir út frá búinu sem mynda 50 til 60 gráðu horn þar sem þær kvíslast“. Þetta kemur fram í tímaritinu New Scientist. Hvað er merkilegt við það? Þegar maur er á heimleið og kemur að gatnamótum velur hann af eðlishvöt þá slóð sem víkur minnst frá beinni stefnu en hún liggur alltaf heim. „Þessar greinóttu slóðir liggja þannig að umferðarþunginn eftir slóðakerfinu verði sem hagkvæmastur, einkum þegar straumurinn liggur í báðar áttir, og hver maur sóar þá ekki orku með því að fara í ranga átt,“ segir í greininni.

      ◼ Áttavitar fugla Ratvísi margra fugla er með ólíkindum og eiga þeir þó oft um langan veg að fara í alls konar veðri. Hvernig rata þeir rétta leið? Vísindamenn hafa uppgötvað að fuglar geta skynjað segulsvið jarðar. En eins og fram kemur í tímaritinu Science er „segulstefnan oft breytileg frá einum stað til annars og vísar ekki alltaf í hánorður“. Hvað kemur þá í veg fyrir að fuglarnir villist af leið? Fuglar virðast fínstilla hinn innbyggða áttavita eftir sólsetri hvert kvöld. En nú er sólsetursáttin breytileg eftir breiddargráðum og árstíðum. Vísindamenn telja því að fuglarnir hljóti að hafa innbyggða „lífklukku sem segi þeim hver árstíminn er“ þannig að þeir geti vegið upp á móti breytingunum, að því er tímaritið segir.

      Hver kenndi maurunum flatarmálsfræði? Hver gaf fuglunum áttavita, lífklukku og heilabú sem er fært um að vinna úr þeim upplýsingum sem berast frá þessum skynfærum? Var það þróun sem stjórnaðist af tilviljun? Eða var það gáfaður skapari?

      [Credit line]

      © E.J.H. Robinson 2004

  • Notaði Guð þróun við sköpunina?
    Vaknið! – 2006 | október
    • Notaði Guð þróun við sköpunina?

      „Verður ert þú, Drottinn vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn, því að þú hefur skapað alla hluti, og fyrir þinn vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“ — OPINBERUNARBÓKIN 4:11.

      STUTTU eftir að þróunarkenning Charles Darwins varð vinsæl fóru margar kirkjudeildir kristna heimsins að reyna að samrýma trúna á Guð og þróunarkenninguna.

      Núna virðast flestar af stærstu kirkjudeildunum fúsar til að viðurkenna að Guð hljóti að hafa notað þróun með einhverjum hætti við sköpun lifandi vera. Sumir kenna að Guð hafi gert alheiminn þannig úr garði að lifandi verur myndu óhjákvæmilega þróast úr lífvana efni og með tímanum mynda mannkynið. Þeir sem aðhyllast þessa kenningu telja að Guð hafi ekki komið nálægt þróunarferlinu eftir að það fór af stað. Aðrir líta svo á að Guð hafi leyft þróuninni að mynda flestar ættir plantna og dýra en gripið inn í við og við til að stýra ferlinu.

      Geta kenningarnar farið saman?

      En er hægt að samrýma þróunarkenninguna og kenningar Biblíunnar? Ef þróunarkenningin er sönn væri frásagan af sköpun fyrsta mannsins, Adams, saga sem ætti í besta falli að flytja okkur siðrænan boðskap en ekki taka bókstaflega. (1. Mósebók 1:26, 27; 2:18-24) En hvernig leit Jesús á þessa frásögu Biblíunnar? „Hafið þér eigi lesið,“ sagði hann, „að skaparinn gjörði þau frá upphafi karl og konu og sagði: ‚Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og bindast konu sinni, og þau tvö skulu verða einn maður.‘ Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður. Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja.“ — Matteus 19:4-6.

      Hér vitnar Jesús í sköpunarsöguna í 2. kafla 1. Mósebókar. Hefði hann notað fyrsta hjónabandið til að leggja áherslu á heilagleika hjónabandsins ef hann hefði haldið að frásagan væri ekki sönn? Nei, Jesús vísaði í frásöguna í 1. Mósebók af því að hann vissi að hún var sannsöguleg. — Jóhannes 17:17.

      Lærisveinar Jesú trúðu líka sköpunarsögu Biblíunnar. Sem dæmi má nefna að í Lúkasarguðspjalli er ætt Jesú rakin alla leið aftur til Adams. (Lúkas 3:23-38) Ef Adam var skálduð persóna hvenær breyttist þá ættarskráin úr staðreynd í skáldskap? Ef rót ættartrésins er goðsagnapersóna hversu sannfærandi er þá fullyrðing Jesú um að hann hafi verið Messías, fæddur í ættlegg Davíðs? (Matteus 1:1) Guðspjallaritarinn Lúkas sagðist hafa „athugað kostgæfilega allt þetta frá upphafi“. Hann trúði greinilega sköpunarsögunni. — Lúkas 1:3.

      Trú Páls postula á Jesú byggðist á því að hann treysti frásögunni í 1. Mósebók. Hann skrifaði: „Þar eð dauðinn kom fyrir mann, kemur og upprisa dauðra fyrir mann. Því að eins og allir deyja fyrir samband sitt við Adam, svo munu allir lífgaðir verða fyrir samfélag sitt við Krist.“ (1. Korintubréf 15:21, 22) Ef Adam var ekki bókstaflegur forfaðir allra manna og sá sem „syndin kom inn í heiminn fyrir . . . og dauðinn fyrir syndina“ af hverju þurfti Jesús þá að gera að engu áhrif erfðasyndarinnar? — Rómverjabréfið 5:12; 6:23.

      Ef við gröfum undan trúnni á frásöguna í 1. Mósebók veikjum við undirstöður kristinnar trúar. Þróunarkenningin og kenningar Krists geta ekki farið saman. Allar tilraunir til að flétta þær saman eru ávísun á veika trú sem berst „fram og aftur af hverjum kenningarvindi“. — Efesusbréfið 4:14.

      Trú byggð á traustum grunni

      Biblían hefur verið gagnrýnd og orðið fyrir árásum í aldaraðir. En æ ofan í æ hefur sannast að hún fer með rétt mál. Allt sem Biblían segir um mannkynssögu, heilsufarsmál og vísindi hefur reynst áreiðanlegt. Og það er hægt að treysta sígildum leiðbeiningum hennar um mannleg samskipti. Kenningar og heimspeki manna eru að mörgu leyti eins og grænt gras sem sprettur og visnar svo með tímanum. En orð Guðs „stendur stöðugt eilíflega“. — Jesaja 40:8.

      Þróunarkenningin er ekki aðeins vísindakenning. Hún er heimspekikenning sem skaut upp kollinum og hefur blómstrað í aldaraðir. En á undanförnum árum hefur hin hefðbundna þróunarkenning Darwins þróast, og í raun stökkbreyst, þegar reynt hefur verið að útskýra auknar vísbendingar um hönnun í ríki náttúrunnar. Við hvetjum þig til að kynna þér málið nánar. Þú getur gert það með því að lesa greinarnar hér á eftir. Auk þess gætirðu lesið ritin sem sýnd eru á þessari síðu og blaðsíðu 32.

      Eftir að hafa rannsakað málið betur mun trú þín á það sem Biblían segir um fortíð mannsins að öllum líkindum styrkjast. Og það sem meira er, þú munt efla traust þitt á loforð Biblíunnar um framtíðina. (Hebreabréfið 11:1) Þú gætir líka fundið hjá þér löngun til að lofa Jehóva „sem skapað hefir himin og jörð“. — Sálmur 146:6.

      ÍTAREFNI

      Bók fyrir alla menn Í þessum bæklingi eru gefin dæmi um áreiðanleika Biblíunnar.

      Er til skapari sem er annt um okkur? Þú getur skoðað fleiri vísindaleg rök og fengið að vita hvers vegna umhyggjusamur Guð leyfir svona miklar þjáningar.

      Hvað kennir biblían? Spurningunni „Hvað ætlast Guð fyrir með jörðina?“ er svarað í 3. kafla þessarar bókar.

      [Innskot á blaðsíðu 10]

      Jesús trúði sköpunarsögu Biblíunnar. Hafði hann rangt fyrir sér?

      [Rammi á blaðsíðu 9]

      HVAÐ ER ÞRÓUN?

      „Þróun“ er meðal annars skilgreind sem „framför, ferli frá lægra stigi til æðra“ og með orðinu „þróast“ er átt við að „breytast stig af stigi með tímanum (oftast um framfarir eða þroska)“. Orðið „þróun“ er meðal annars notað til að lýsa stórsæjum breytingum á lífvana efni, það er að segja breytingum á alheiminum. Það er enn fremur notað til að lýsa smávægilegum breytingum á lifandi verum — aðlögun jurta og dýra að umhverfi sínu. Oftast er það þó notað um þá kenningu að lífið hafi kviknað af lífvana efnasamböndum, myndast hafi frumur sem gátu fjölgað sér og þær hafi smám saman myndað æ flóknari lífverur uns hinn vitiborni maður kom fram á sjónarsviðið. Það er í þeim skilningi sem orðið „þróun“ er notað í þessari grein.

      [Mynd credit line á blaðsíðu 10]

      Mynd af geimþoku: J. Hester og P. Scowen (AZ State Univ.), NASA

  • Viðtal við lífefnafræðing
    Vaknið! – 2006 | október
    • Viðtal við lífefnafræðing

      MICHAEL J. BEHE er prófessor í lífefnafræði við Lehigh-háskólann í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Árið 1996 gaf hann út bókina Darwin’s Black Box — The Biochemical Challenge to Evolution. Nokkuð var vitnað í þessa bók í Vaknið! október – desember 1997 undir titlinum: „Hvernig urðum við til? Við sköpun eða af tilviljun?“ Á þeim áratug, sem er liðinn síðan bókin kom út, hafa þróunarfræðingar reynt sitt ýtrasta til að hrekja þau rök sem sett eru fram í bókinni. Gagnrýnismenn hafa sakað Behe, sem er rómversk-kaþólskrar trúar, um að láta trúna rugla dómgreind sína sem vísindamanns. Sumir segja að rök hans séu ekki vísindaleg. Vaknið! ræddi við prófessor Behe til að kanna ástæðuna fyrir því að skoðanir hans hafa valdið slíkum deilum.

      VAKNIÐ!: AF HVERJU TELURÐU AÐ LÍFIÐ BERI VITNI UM AÐ ÞAÐ SÉ HANNAÐ AF HUGVITI?

      PRÓFESSOR BEHE: Þegar við sjáum flókna, starfhæfa heild af einhverju tagi ályktum við að hún sé hönnuð. Lítum til dæmis á vélar sem við notum dags daglega, svo sem garðsláttuvél, bíl eða jafnvel einfaldari hluti. Ég nota gjarnan músagildru sem dæmi. Við ályktum að hún sé hönnuð vegna þess að hún er gerð úr ólíkum pörtum sem er þannig fyrir komið að þeir þjóna því hlutverki að veiða mýs.

      Vísindin hafa nú náð að svipta hulunni af því hvernig lífið virkar á grunnstiginu. Og okkur til mikillar undrunar höfum við uppgötvað starfhæfar, flóknar sameindavélar. Inni í lifandi frumu eru til dæmis litlir „vörubílar“ eða sameindir sem flytja birgðir frá einum enda frumunnar til annars. Þar eru agnarsmá „umferðarmerki“ sem segja „vörubílunum“ að beygja til hægri eða vinstri. Sumar frumur eru með „utanborðsmótor“ sem knýr þær áfram í vökva. Þegar fólk rekst á svona flókna, starfhæfa smíði á öðrum sviðum ályktar það að hún sé hönnuð. Við höfum enga aðra skýringu á þessari flóknu gerð frumunnar, hvað svo sem þróunarkenning Darwins segir. Það er reynsla okkar á öllum öðrum sviðum að fyrirkomulag af þessu tagi sé hannað af einhverjum svo að það er réttlætanlegt að hugsa sem svo að þessi sameindakerfi séu líka hönnuð af hugviti.

      VAKNIÐ!: HVER HELDURÐU AÐ SÉ ÁSTÆÐAN FYRIR ÞVÍ AÐ FLESTIR STARFSBRÆÐUR ÞÍNIR ERU ÓSAMMÁLA ÁLYKTUNUM ÞÍNUM UM HUGVIT OG HÖNNUN?

      PRÓFESSOR BEHE: Margir vísindamenn eru mér ósammála vegna þess að þeir gera sér grein fyrir að hugmyndin um hugvit og hönnun hefur áhrif sem nær út fyrir svið vísindanna — það er að segja að hún virðist vísa sterkt til einhvers utan hins efnislega heims. Þessi ályktun gerir marga taugaóstyrka. En mér var alltaf kennt að vísindin eigi að fylgja sönnunargögnunum, hvert sem þau leiða mann. Að mínu mati ber það vott um ákveðið kjarkleysi að veigra sér við að horfast í augu við það sem öll gögn benda til, af þeirri ástæðu einni að maður heldur að niðurstaðan hafi óæskilegar heimspekilegar afleiðingar.

      VAKNIÐ!: HVERNIG SVARAR ÞÚ GAGNRÝNI ÞEIRRA SEM SEGJA AÐ ÞAÐ ÝTI UNDIR FÁFRÆÐI AÐ VIÐURKENNA HUGMYNDINA UM HUGVIT OG HÖNNUN?

      PRÓFESSOR BEHE: Það er ekki fáfræði sem fær okkur til að álykta að náttúran sé hönnuð af hugviti. Þessi niðurstaða er ekki til komin af því sem við vitum ekki heldur því sem við vitum. Lífið virtist ósköp einfalt þegar Darwin gaf út bókina Uppruni tegundanna fyrir hálfri annarri öld. Vísindamenn töldu að fruman væri svo einföld að hún gæti sprottið af sjálfu sér upp úr sjávarleðjunni. Síðan þá hafa vísindin uppgötvað að fruman er óhemjuflókin, margfalt flóknari en vélar 21. aldar. Þessi flókna, starfhæfa heild ber vitni um hönnun sem hefur ákveðinn tilgang.

      VAKNIÐ!: HAFA VÍSINDIN GETAÐ BENT Á EITTHVAÐ SEM SANNAR AÐ HINAR FLÓKNU SAMEINDAVÉLAR, SEM ÞÚ TALAR UM, HAFI GETAÐ ORÐIÐ TIL AF VÖLDUM ÞRÓUNAR OG NÁTTÚRUVALS?

      PRÓFESSOR BEHE: Ef við leitum í vísindaritum komumst við að raun um að enginn hefur gert alvarlega tilraun til að skýra hvernig slíkar sameindavélar hafi getað þróast, og þá á ég við að prófa það með tilraunum eða með því að búa til nákvæmt vísindalegt líkan. Á þeim tíu árum, sem eru liðin síðan bókin kom út, hafa þó mörg samtök vísindamanna hvatt félaga sína eindregið til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að hrekja þá hugmynd að lífið beri þess merki að vera hannað af hugviti. Má þar nefna Bandarísku vísindaakademíuna (National Academy of Sciences) og Bandaríska vísindafélagið (American Association for the Advancement of Science).

      VAKNIÐ!: HVERNIG SVARARÐU ÞEIM SEM BENDA Á VISS EINKENNI JURTA EÐA DÝRA SEM ÞEIR SEGJA VERA ILLA HÖNNUÐ?

      PRÓFESSOR BEHE: Þó að við vitum ekki af hverju lífvera hefur eitthvert ákveðið einkenni er ekki þar með sagt að það gegni ekki mikilvægu hlutverki. Einu sinni voru svokölluð úrelt líffæri talin sýna að mannslíkaminn og aðrar lífverur væru illa úr garði gerðar. Menn héldu til dæmis áður fyrr að botnlanginn og hálskirtlarnir væru úrelt líffæri og fjarlægðu þau eins og ekkert væri sjálfsagðara. En svo kom í ljós að þessi líffæri gegna þýðingarmiklu hlutverki í ónæmiskerfinu og þau eru ekki lengur talin úrelt.

      Annað sem vert er að hafa í huga er að sumt í lífríkinu gerist fyrir tilviljun. En þó að ég fái beyglu á bílinn eða það springi á honum þýðir það ekki að bíllinn eða hjólbarðinn hafi ekki verið hannaður. Þó að sumt gerist fyrir tilviljun í lífríkinu merkir það ekki að háþróaðar og flóknar sameindavélar lífsins hafi orðið til af tilviljun. Það er hreinlega ekki rökrétt.

      [Innskot á blaðsíðu 12]

      „Að mínu mati ber það vott um ákveðið kjarkleysi að veigra sér við að horfast í augu við það sem öll gögn benda til, af þeirri ástæðu einni að maður heldur að niðurstaðan hafi óæskilegar heimspekilegar afleiðingar.“

  • Er þróun staðreynd?
    Vaknið! – 2006 | október
    • Er þróun staðreynd?

      „ÞRÓUN er ekki síður staðreynd en ylur sólarinnar.“ Þetta fullyrðir Richard Dawkins prófessor en hann er þekktur þróunarfræðingur. Hægt er að sýna fram á með tilraunum og athugunum að sólin er heit. En hafa athuganir og tilraunir sýnt fram á það með jafn óyggjandi hætti að lífið hafi þróast?

      Áður en við svörum þessari spurningu þurfum við að fá eitt á hreint. Margir vísindamenn hafa bent á að lífverur breytist stundum örlítið í tímans rás. Charles Darwin orðaði það þannig að „kynslóðirnar hafi tekið breytingum“.a Menn hafa séð slíkar breytingar eiga sér stað. Þær hafa verið skrásettar í tilraunum og þeir sem stunda ræktun og kynbætur á jurtum og dýrum hafa nýtt sér þær af miklu hugviti.b Það má líta á það sem staðreynd að smáar breytingar af þessu tagi eigi sér stað. Vísindamenn hafa kallað þetta „smásæja þróun“ og nafnið ýjar einmitt að þeirri hugmynd margra að þessar smáu breytingar séu sönnun fyrir öðru gerólíku fyrirbæri sem enginn hefur nokkurn tíma orðið vitni að, fyrirbæri sem þeir kalla stórsæja þróun.

      Darwin gekk nefnilega mun lengra en þessar sjáanlegu breytingar gefa tilefni til. Hann sagði í hinni frægu bók sinni, Uppruni tegundanna: „Ég fyllist lotningu þegar ég lít svo á að tegundirnar séu beinir afkomendur forvera sem voru uppi löngu áður . . . en ekki ef ég trúi því að hver tegund hafi verið sköpuð sérstaklega.“ Darwin sagði að milljónir ólíkra lífsforma á jörðinni hafi þróast smám saman af þessum ‚forverum‘ eða svokölluðu einföldu lífsformum, með mörgum ‚smávægilegum breytingum‘ á löngum tíma. Þróunarfræðingar kenna að þessar smávægilegu breytingar hafi lagst saman og valdið þeim stórstígu breytingum sem þurfti til þess að fiskar gætu breyst í froskdýr og mannapar í menn. Þessar stórstígu breytingar, sem eiga að hafa átt sér stað, eru kallaðar stórsæ þróun. Mörgum þykir þessi lýsing hljóma trúverðug. Þeir hugsa sem svo að fyrst smávægilegar breytingar geti orðið innan tegundar, af hverju ætti þróunin þá ekki að geta valdið miklum breytingum á löngum tíma?c

      Kenningin um stórsæja þróun byggist á þrem meginforsendum sem menn gefa sér:

      1. Stökkbreytingar eru það „hráefni“ sem þarf til að skapa nýjar tegundir.d

      2. Náttúruval veldur því að til verða nýjar tegundir.

      3. Lesa má úr steingervingasögunni að orðið hafi miklar breytingar á jurtum og dýrum.

      Eru rökin fyrir stórsærri þróun nægilega sterk til þess að líta megi á hana sem staðreynd?

      Geta stökkbreytingar myndað nýjar tegundir?

      Margir þættir í gerð jurta og dýra ákvarðast af þeim fyrirmælum sem er að finna í erfðalyklinum, „vinnuteikningunum“ sem eru geymdar í kjarna hverrar frumu.e Vísindamenn hafa komist að raun um að stökkbreytingar, sem eru handahófskenndar breytingar á erfðalyklinum, geta valdið breytingum á afkomendum lífverunnar. Nóbelsverðlaunahafinn Hermann J. Muller var frumkvöðull rannsókna á stökkbreytingum. Hann fullyrti árið 1946: „Bæði er þessi samsöfnun margra sjaldgæfra og að mestu leyti örlítilla breytinga helsti drifkraftur þess að jurtir og dýr taka breytingum til batnaðar fyrir áhrif manna, og það er enn fremur þannig sem hin náttúrlega þróun hefur átt sér stað undir handleiðslu náttúruvals.“

      Kenningin um stórsæja þróun er byggð á þeirri staðhæfingu að stökkbreytingar geti bæði skapað nýjar tegundir og nýjar ættir jurta og dýra. Eru einhver tök á að sannprófa þessa djörfu fullyrðingu? Við skulum líta á hvað erfðafræðirannsóknir síðustu 100 ára hafa leitt í ljós.

      Síðla á fjórða áratug síðustu aldar tóku vísindamenn fagnandi þeirri hugmynd að fyrst stökkbreytingar og náttúruval gætu myndað nýjar tegundir jurta og dýra hlytu menn að geta gert enn betur með því að stýra því hvaða stökkbreytingar væru valdar úr. „Líffræðingar í heild voru í sæluvímu en þó sérstaklega erfðafræðingar og þeir sem unnu að kynbótum.“ Þetta sagði Wolf-Ekkehard Lönnig í viðtali við Vaknið! en hann er vísindamaður og starfar við þýsku Max Planck jurtarannsóknastofnunina. Og hvað kom til? Lönnig, sem hefur starfað í ein 28 ár við rannsóknir á stökkbreytingum jurta, segir: „Vísindamenn héldu að nú væri kominn tími til að umbylta hefðbundnum aðferðum við ræktun og kynbætur jurta og dýra. Þeir töldu að hægt væri að búa til nýjar og betri jurtir og dýr með því að framkalla stökkbreytingar og velja úr þær hagstæðu.“f

      Vísindamenn í Bandaríkjunum, Asíu og Evrópu hleyptu af stað ýmsum rannsóknaráætlunum. Þeir höfðu yfrið fjármagn og studdust við aðferðir sem gáfu fyrirheit um að hægt væri að hraða þróuninni. Hvaða árangri höfðu þessar öflugu rannsóknir skilað rösklega 40 árum síðar? „Þrátt fyrir gríðarlegan kostnað mistókst að mestu að búa til æ frjósamari afbrigði með geislun,“ svarar rannsóknarmaðurinn Peter von Sengbusch. Lönnig segir: „Á níunda áratug síðustu aldar voru vonirnar brostnar og sæluvíman horfin meðal vísindamanna um allan heim. Á Vesturlöndum var hætt frekari tilraunum í þá átt að beita stökkbreytingum til kynbóta. Nánast öll stökkbreyttu afbrigðin stóðu villtu afbrigðunum að baki. Þau voru annaðhvort veikbyggðari eða dóu.“g

      En hvað sem þessu líður hefur gögnum verið safnað síðastliðin 100 ár um stökkbreytingar almennt og síðastliðin 70 ár um stökkbreytingar til kynbóta. Af þessum gögnum geta vísindamenn dregið ályktanir um það hvort nýjar tegundir geti orðið til við stökkbreytingar. Lönnig dregur eftirfarandi ályktun af þeim gögnum sem fyrir liggja: „Stökkbreytingar geta ekki breytt upprunalegri tegund [jurtar eða dýrs] í algerlega nýja tegund. Þessi niðurstaða kemur heim og saman við allar tilraunir og niðurstöður stökkbreytingarrannsókna 20. aldar samanlagðar og hún kemur sömuleiðis heim og saman við líkindafræðina. Samkvæmt lögmálinu um endurtekin afbrigði má ætla að erfðafræðilega afmarkaðar tegundir eigi sér raunveruleg endimörk sem tilviljunarkenndar stökkbreytingar geta ekki afnumið eða farið út fyrir.“

      Lítum nánar á þýðingu þessa. Færustu vísindamenn geta ekki búið til nýjar tegundir með því að framkalla stökkbreytingar og velja síðan úr þær hagstæðustu. Er þá líklegt að tilviljunin ein standi sig betur? Rannsóknir sýna að stökkbreytingar geta ekki breytt upprunalegri tegund í algerlega nýja tegund. Hvernig á stórsæ þróun þá að hafa átt sér stað?

      Myndast nýjar tegundir við náttúruval?

      Darwin taldi að náttúrlegt val, sem hann kallaði svo, myndi hygla þeim lífsformum sem hæfðu umhverfinu best en lífsform, sem hentuðu síður, myndu deyja út að lokum. Þróunarfræðingar okkar daga halda því fram að þegar tegundir breiddust út og einangruðust hafi náttúran valið úr þær tegundir sem hentuðu nýja umhverfinu best. Þróunarfræðingar gefa sér að þessir einangruðu hópar hafi smám saman þróast yfir í algerlega nýjar tegundir.

      Eins og fram hefur komið benda rannsóknarniðurstöður eindregið til þess að nýjar tegundir jurta eða dýra geti ekki orðið til af völdum stökkbreytinga. Hvaða sannanir leggja þróunarfræðingar þá fram til að styðja þá staðhæfingu sína að nýjar tegundir verði til við það að náttúran velji úr jákvæðar stökkbreytingar? Í bæklingi, sem Bandaríska vísindaakademían gaf út árið 1999, segir: „Sérstaklega sannfærandi dæmi um myndun nýrra tegunda eru Darwinsfinkurnar sem við köllum svo, 13 finkutegundir sem Darwin rannsakaði á Galapagoseyjum.“

      Hópur vísindamanna undir forystu Peters og Rosemary Grant hóf rannsóknir á þessum finkum á áttunda áratug síðustu aldar. Eftir eins árs þurrkatímabil kom í ljós að finkur, sem höfðu eilítið stærra nef, komust betur af en finkur með smærra nef. Þetta var talin merk niðurstaða því að lögun og stærð nefsins er ein helsta leiðin til að greina sundur finkutegundirnar 13. „Peter og Rosemary Grant áætla að ef þurrkar yrðu á 10 ára fresti þyrfti ekki nema 200 ár til að ný finkutegund kæmi fram,“ segir í bæklingi Bandarísku vísindaakademíunnar.

      En bæklingurinn lætur ógetið um nokkrar mikilvægar en óþægilegar staðreyndir. Á árunum eftir þurrkinn urðu finkur með smærra nef yfirgnæfandi á nýjan leik. Árið 1987 birtist grein í vísindatímaritinu Nature eftir Peter Grant og framhaldsnema að nafni Lisle Gibbs. Þar kemur fram að þeir hafi séð „náttúruvalið taka öfuga stefnu“. Árið 1991 skrifaði Grant að stofninn „sveiflist fram og aftur samkvæmt náttúruvali“ í hvert sinn sem tíðarfar breytist. Vísindamennirnir veittu því einnig athygli að „tegundir“ finkustofnsins tímgast saman og eignast afkvæmi sem komast betur af en foreldrarnir. Peter og Rosemary Grant komust að þeirri niðurstöðu að tvær „tegundir“ gætu runnið saman í eina á aðeins 200 árum ef þær héldu áfram að tímgast saman.

      Þróunarlíffræðingurinn George Christopher Williams skrifaði árið 1966: „Ég tel það miður að kenningin um náttúruval skuli fyrst hafa komið fram sem skýring á þróunarbreytingum. Hún á miklu betur við sem skýring á viðhaldi og aðlögun.“ Jeffrey Schwartz, sem er hugmyndafræðingur á sviði þróunarfræða, skrifaði árið 1999 að sé ályktun Williams rétt sé hugsanlegt að náttúruval hjálpi tegundum að laga sig að breyttum lífsskilyrðum en „sé ekki að skapa neitt nýtt“.

      Darwinsfinkurnar eru ekki að breytast í „neitt nýtt“. Þær eru finkur enn þann dag í dag. Og sú staðreynd að þær skuli tímgast saman vekur efasemdir um þær aðferðir sem sumir vísindamenn beita til að skilgreina hugtakið tegund. Þetta dæmi sýnir sömuleiðis að virtustu vísindaakademíur geta átt það til að segja einhliða frá staðreyndum.

      Vitna steingervingarnir um að stórsæ þróun hafi átt sér stað?

      Áðurnefndur bæklingur Bandarísku vísindaakademíunnar vekur þá hugmynd hjá lesendum að þeir steingervingar, sem vísindamenn hafa fundið, sýni með óyggjandi hætti að stórsæ þróun hafi átt sér stað. Þar segir: „Fundist hafa svo mörg millistigsafbrigði milli fiska og froskdýra, milli froskdýra og skriðdýra, milli skriðdýra og spendýra og milli fremdardýra á þróunarferli þeirra að oft er erfitt að ákvarða fyrir víst hvenær ein sérstök tegund breytist í aðra.“

      Það sjálfsöryggi, sem þessi staðhæfing endurspeglar, vekur nokkra furðu. Hvers vegna? Vegna þess að steingervingasögunni var lýst þannig í tímaritinu National Geographic árið 2004 að hún væri eins og „kvikmynd af þróuninni þar sem 999 rammar af hverjum 1000 hefðu týnst á gólfi klippiherbergisins“. Skyldi þá þúsundasti hver „rammi“ sýna fram á að stórsæ þróun hafi átt sér stað? Hvað er raunverulega hægt að lesa út úr steingervingasögunni? Niles Eldredge, sem er dyggur þróunarsinni, viðurkennir að steingervingasagan sýni að langtímum saman verði „litlar sem engar þróunarbreytingar hjá flestum tegundum“.

      Þegar þetta er skrifað hafa vísindamenn heims grafið upp og skrásett um 200 milljónir stórra steingervinga og milljarða örsteingervinga. Margir vísindamenn eru á einu máli um að þetta mikla og ítarlega steingervingasafn sýni að allir helstu flokkar dýra hafi birst skyndilega og síðan haldist að mestu leyti óbreyttir. Jafnframt sýni það að margar tegundir hverfi jafn skyndilega og þær birtast. Líffræðingurinn Jonathan Wells dregur saman hvað lesa megi út úr steingervingasögunni og segir: „Þegar horft er á skiptinguna í ríki, fylkingar og flokka hefur augljóslega ekki verið sýnt fram á það með athugunum að lífverurnar séu komnar af sameiginlegum forföður með hægfara breytingum. Kenningin er ekki einu sinni vel rökstudd ef tekið er mið af þeim ummerkjum sem við sjáum í steingervingasögunni eða sameindalíffræðinni.“

      Þróun — staðreynd eða ímyndun?

      Hvers vegna ætli margir þekktir þróunarfræðingar haldi því stíft fram að stórsæ þróun sé staðreynd? Richard Lewontin, sem er áhrifamikill þróunarfræðingur, gagnrýnir sumar af rökfærslum Richards Dawkins og heldur því fram að margir vísindamenn séu reiðubúnir að viðurkenna fullyrðingar, sem eru settar fram í nafni vísinda, þó að þær stríði gegn heilbrigðri skynsemi. Ástæðuna kveður hann vera þá að „við erum skuldbundnir, skuldbundnir efnishyggjunni“.h Margir vísindamenn vilja ekki einu sinni íhuga þann möguleika að til sé vitiborinn hönnuður vegna þess að „við getum ekki hleypt Guði inn í gættina“.

      Tímaritið Scientific American hefur í þessu sambandi eftir félagsfræðingnum Rodney Stark: „Í 200 ár er búið að markaðssetja þá hugmynd að vilji maður vera vísindalega þenkjandi verði maður að vera laus við fjötra trúarinnar.“ Hann segir enn fremur að við rannsóknarháskóla sé staðan sú að „hinir trúhneigðu haldi sér saman“ og „hinir trúlausu mismuni þeim“. Að sögn hans er mönnum „umbunað í efri stigum [vísindasamfélagsins] fyrir að vera trúlausir “.

      Ef við ætlum að taka kenninguna um stórsæja þróun góða og gilda þurfum við að trúa því að efasemdamenn og trúlausir vísindamenn láti ekki persónulegar skoðanir sínar hafa áhrif á það hvernig þeir túlka vísindalegar uppgötvanir. Við þurfum að trúa því að stökkbreytingar og náttúruval hafi myndað öll hin flóknu lífsform, þrátt fyrir að rannsóknir á milljörðum stökkbreytinga í heila öld sýni að stökkbreytingar hafa ekki breytt einni einustu afmarkaðri tegund í algerlega nýja tegund. Við þurfum að trúa því að allar lífverur hafi þróast smám saman af sameiginlegum forföður, þó svo að steingervingasagan bendi sterklega til þess að allar helstu tegundir jurta og dýra hafi birst skyndilega og ekki þróast yfir í aðrar tegundir, jafnvel á óralöngum tíma. Finnst þér þess konar trú bera merki þess að hún byggist á staðreyndum? Eða er hún byggð á ímyndun?

      [Neðanmáls]

      a Uppruni tegundanna í íslenskri þýðingu Guðmundar Guðmundssonar.

      b Hundaræktendur geta parað saman dýr með þeim hætti að afkomendurnir verði með styttri fætur eða síðara hár en forfeðurnir. Þær breytingar, sem hundaræktendum tekst að ná fram, stafa hins vegar oft af því að það dregur úr virkni gena. Greifingjahundur er til dæmis lágfættur vegna vanmyndunar á brjóski sem veldur dvergvexti.

      c Orðið „tegund“ er notað oft í þessari grein en í 1. Mósebók Biblíunnar er það notað í víðari merkingu en hér. Það sem vísindamenn kjósa að kalla þróun nýrrar tegundar er oft ekki annað en breytileiki innan „tegundar“ eins og hugtakið er notað í sköpunarsögu Biblíunnar.

      d Sjá rammann „Flokkunarkerfi lífvera“.

      e Rannsóknir sýna að umfrymi frumna, himnur og önnur frumulíffæri hafa einnig áhrif á útlit og starfsemi lifandi vera.

      f Orð Lönnigs í þessari grein lýsa skoðunum hans sjálfs en ekki afstöðu Max Planck jurtarannsóknastofnunarinnar.

      g Tilraunir með stökkbreytingar leiddu hvað eftir annað í ljós að nýjum stökkbrigðum fækkaði jafnt og þétt en sömu stökkbrigðin komu fram aftur og aftur. Með hliðsjón af því setti Lönnig fram það sem kallað er „lögmál endurtekinna afbrigða“. Innan við 1 prósent stökkbreyttra jurta var valið úr til frekari rannsókna og innan við 1 prósent þeirra reyndist nothæft til ræktunar í atvinnuskyni. Kynbætur með stökkbreytingum á dýrum komu enn verr út en kynbætur á jurtum svo að þeim hefur verið hætt með öllu.

      h Hugtakið efnishyggja er notað hér um þá skoðun að hið áþreifanlega efni sé eini veruleikinn, að allt í alheiminum, þar á meðal lífið, hafi orðið til án íhlutunar yfirnáttúrlegra afla.

      [Innskot á blaðsíðu 15]

      „Stökkbreytingar geta ekki breytt upprunalegri tegund [jurtar eða dýrs] í algerlega nýja tegund.“

      [Innskot á blaðsíðu 16]

      Darwinsfinkurnar vitna einna helst um það að tegund geti lagað sig að breyttu loftslagi.

      [Innskot á blaðsíðu 17]

      Samkvæmt steingervingasögunni birtast allir helstu flokkar dýra skyndilega og hafa haldist næstum óbreyttir síðan.

      [Tafla á blaðsíðu 14]

      (Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

      FLOKKUNARKERFI LÍFVERA

      Lífverur eru flokkaðar þannig að grunneiningin kallast tegund en breiðasta einingin ríki.i Sjá til dæmis flokkun manns og ávaxtaflugu hér að neðan.

      MAÐUR ÁVAXTAFLUGA

      Tegund sapiens melanogaster

      Ættkvísl Homo Drosophila

      Ætt mannætt glerflugnaætt

      Ættbálkur fremdardýr tvívængjur

      Flokkur spendýr skordýr

      Fylking seildýr liðfætla

      Ríki dýr dýr

      [Neðanmáls]

      i Í 1. kafla 1. Mósebókar segir að jurtir og dýr myndu tímgast „eftir sinni tegund“. (1. Mósebók 1:12, 21, 24, 25) Hugtakið „tegund“, eins og það er notað í Biblíunni, er hins vegar ekki skilgreint vísindalega og því ætti ekki að rugla því saman við „tegund“ í skilningi vísindanna.

      [Credit line]

      Taflan er byggð á bókinni Evolution — Science or Myth? Why Much of What We Teach About Evolution Is Wrong, eftir Jonathan Wells.

      [Myndir á blaðsíðu 15]

      Stökkbreytt ávaxtafluga (efst) er eftir sem áður ávaxtafluga þótt hún sé vansköpuð.

      [Credit line]

      © Dr. Jeremy Burgess/Photo Researchers, Inc.

      [Myndir á blaðsíðu 15]

      Tilraunir með stökkbreytingar leiddu hvað eftir annað í ljós að nýjum stökkbrigðum fækkaði jafnt og þétt en sömu stökkbrigðin komu fram aftur og aftur. (Stökkbrigðið er með stærri blóm)

      [Mynd credit line á blaðsíðu 13]

      Eftir ljósmynd J. M. Cameron/U.S. National Archives photo.

      [Mynd credit line á blaðsíðu 16]

      Finkuhöfuð: © Dr. Jeremy Burgess/Photo Researchers, Inc.

      [Mynd credit line á blaðsíðu 17]

      Forneðla: © Pat Canova/Index Stock Imagery; steingervingar: GOH CHAI HIN/AFP/Getty Images.

  • Hvers vegna við trúum á skapara
    Vaknið! – 2006 | október
    • Hvers vegna við trúum á skapara

      Margir sérfræðingar í ýmsum vísindagreinum telja sig sjá merki um hugvitssama hönnun í ríki náttúrunnar. Þeim finnst órökrétt að margbreytileiki lífsins á jörðinni hafi orðið til af tilviljun. Margir rannsóknarmenn og vísindamenn trúa þess vegna að til sé skapari.

      Sumir þeirra hafa gerst vottar Jehóva. Þeir eru sannfærðir um að Guð Biblíunnar sé hönnuður og skapari hins efnislega alheims. Hvers vegna hafa þeir komist að þeirri niðurstöðu? Vaknið! átti viðtal við nokkra þeirra. Þér þykir trúlega athyglisvert að lesa svörin.a

      „Lifandi verur eru óendanlega flóknar“

      ◼ WOLF-EKKEHARD LÖNNIG:

      Síðastliðin 28 ár hef ég unnið við vísindarannsóknir á stökkbreytingum jurta. Þar af hef ég starfað í 21 ár við Max Planck jurtarannsóknastofnunina í Köln í Þýskalandi. Ég hef líka verið öldungur í söfnuði Votta Jehóva í næstum þrjátíu ár.

      Við rannsóknir mínar í erfðafræði, líffræði, lífeðlisfræði og formfræði blasir við mér hve lifandi verur eru óendanlega flóknar. Þessar rannsóknir hafa styrkt þá sannfæringu mína að það hljóti að standa vitiborinn hönnuður á bak við öll lífsform, jafnvel þau einföldustu.

      Vísindasamfélagið veit fullvel hve margbrotnar lifandi verur eru. En þessar heillandi staðreyndir eru yfirleitt settar fram með sterkri vísun í þróunarkenninguna. Mér finnst þau rök, sem eiga að mæla gegn sköpunarsögu Biblíunnar, missa vægi sitt þegar þau eru skoðuð af vísindalegri nákvæmni. Ég hef kynnt mér slík rök undanfarna áratugi. Eftir að hafa rannsakað lifandi verur mjög vandlega og hugleitt hve fínstillt þau lögmál virðast vera, sem stjórna alheiminum, get ég ekki annað en trúað á skapara.

      „Allt sem ég skoða á sér orsök“

      ◼ BYRON LEON MEADOWS:

      Ég starfa hjá Geimvísindastofnun Bandaríkjanna og fæst við eðlisfræði leysiljóss. Eins og er vinn ég að því að þróa tækni til að geta fylgst betur með loftslagi jarðar, veðri og öðrum fyrirbærum. Ég er öldungur í einum söfnuði Votta Jehóva nálægt Kilmarnock í Virginíu.

      Lögmál eðlisfræðinnar koma oft við sögu í rannsóknum mínum. Ég reyni að glöggva mig á því hvernig og hvers vegna ákveðnir hlutir gerast. Ég sé sterk rök fyrir því í rannsóknum mínum að allt eigi sér orsök. Ég tel að það sé skynsamlegt frá vísindalegum sjónarhóli að viðurkenna að Guð sé frumorsök alls í náttúrunni. Náttúrulögmálin eru svo stöðug að ég get ekki trúað öðru en að þau séu skipulögð og eigi sér skapara.

      Af hverju trúa margir vísindamenn á þróun fyrst þessi ályktun er svona augljós? Ætli ástæðan geti verið sú að þróunarsinnar séu búnir að gefa sér niðurstöðuna áður en þeir líta á gögnin? Það er ekki óþekkt meðal vísindamanna. Þó að maður sjái eitthvert fyrirbæri og það virðist sannfærandi er ekki þar með sagt að maður dragi rétta ályktun. Sá sem rannsakar eðlisfræði leysiljóss gæti til dæmis haldið því fram að ljós sé bylgjuhreyfing, svipuð hljóðbylgju, af því að ljós hegðar sér oft eins og bylgjuhreyfing. En það gæfi ekki skýra heildarmynd vegna þess að rannsóknir sýna að ljós hegðar sér einnig eins og eindir, svonefndar ljóseindir. Þeir sem halda því fram að þróun sé staðreynd byggja ályktanir sínar aðeins á hluta gagnanna, og þeir leyfa niðurstöðunni, sem þeir eru búnir að gefa sér, að hafa áhrif á það hvernig þeir túlka gögnin.

      Ég undrast það að nokkur maður skuli viðurkenna þróun sem staðreynd í ljósi þess að „sérfræðingar“ í þróunarfræðum deila um hvernig hún eigi að hafa átt sér stað. Myndum við til dæmis taka talnareikning góðan og gildan ef sumir sérfræðingar segðu að 2 plús 2 væru 4 en aðrir sérfræðingar héldu því fram að 2 plús 2 væru 3 eða jafnvel 6? Ef það er hlutverk vísindanna að viðurkenna aðeins það sem hægt er að sanna, prófa og endurtaka, þá er sú kenning að allt líf hafi þróast af sameiginlegum forföður ekki vísindaleg staðreynd.

      „Ekkert verður til af sjálfu sér“

      ◼ KENNETH LLOYD TANAKA:

      Ég er jarðfræðingur að mennt og starfa sem stendur hjá Jarðvísindastofnun Bandaríkjanna í Flagstaff í Arizona. Í tæplega þrjátíu ár hef ég tekið þátt í vísindarannsóknum á ýmsum sviðum jarðfræðinnar, þar á meðal jarðfræði reikistjarna. Ég hef skrifað tugi greina um þessar rannsóknir og gert jarðfræðikort af Mars sem hefur hvort tveggja verið birt í virtum vísindatímaritum. Ég er vottur Jehóva og nota um 70 klukkustundir í hverjum mánuði til að stuðla að biblíulestri.

      Mér var kennt að trúa á þróun en ég gat ekki fallist á að öll sú gríðarlega orka, sem hefur þurft til að mynda alheiminn, hafi getað komið fram án þess að eiga sér voldugan skapara. Ekkert verður til af sjálfu sér. Ég finn líka sterk rök fyrir því í Biblíunni að til sé skapari. Þar er að finna fjölda vísindalegra staðreynda sem koma inn á sérfræðisvið mitt, svo sem að jörðin sé hnöttótt og svífi „í tómum geimnum“. (Jobsbók 26:7; Jesaja 40:22) Þessar staðreyndir stóðu í Biblíunni löngu áður en mennirnir sýndu fram á þær með rannsóknum sínum.

      Lítum aðeins á hvernig við erum úr garði gerð. Við höfum skilningarvit, sjálfsvitund, rökhugsun og tilfinningar, og erum fær um að tjá okkur. Og það sem meira er, við getum elskað og sýnt kærleika og finnst gott að vera elskuð. Þróun getur ekki skýrt hvernig þessir frábæru eiginleikar mannsins urðu til.

      Hversu áreiðanlegar og trúverðugar eru þær heimildir sem eru notaðar til að rökstyðja þróunarkenninguna? Jarðsagan er gloppótt, flókin og ruglingsleg. Þróunarfræðingar hafa ekki getað sýnt fram á með vísindalegum aðferðum á tilraunastofu að þær breytingar, sem kenningin gerir ráð fyrir, hafi átt sér stað. Og þó að vísindamenn beiti yfirleitt góðum rannsóknaraðferðum þegar þeir safna gögnum láta þeir oft stjórnast af eigingjörnum hvötum þegar þeir túlka þau. Þess eru dæmi að vísindamenn hafi haldið fram sínum eigin skoðunum þegar gögnin eru ófullnægjandi eða mótsagnakennd. Starfsframi og sjálfsálit vegur oft þungt hjá þeim.

      Sem vísindamaður og biblíunemandi legg ég mig fram um að leita að öllum sannleikanum sem samræmist öllum þekktum staðreyndum og athugunum til að fá sem nákvæmastan skilning. Mér finnst rökréttast að trúa á skapara.

      „Fruman er augljóslega hönnuð“

      ◼ PAULA KINCHELOE:

      Ég hef starfað um árabil við rannsóknir á frumunni og rannsóknir í sameindalíffræði og örverufræði. Sem stendur er ég ráðin við Emoryháskóla í Atlanta í Georgíu í Bandaríkjunum. Ég vinn sömuleiðis sjálfboðastarf sem biblíukennari meðal rússneskumælandi fólks.

      Þegar ég stundaði nám í sameindalíffræði varði ég fjórum árum í að rannsaka frumuna og gerð hennar. Því meira sem ég lærði um DNA, RNA, prótín og efnaskiptaferli, þeim mun meira undraðist ég hve flókin fruman er og nákvæmlega skipulögð. Og þó að ég gæti ekki annað en dáðst að því hve mikið við mennirnir vitum um frumuna undraðist ég enn meir hve mikið við eigum ólært. Ein ástæðan fyrir því að ég trúi á Guð er sú að fruman er augljóslega hönnuð.

      Af biblíunámi mínu hef ég uppgötvað hver skaparinn er — það er að segja Jehóva Guð. Ég er sannfærð um að hann er ekki aðeins snjall hönnuður heldur einnig ástríkur faðir sem lætur sér annt um mig. Biblían skýrir tilgang lífsins og vekur von um hamingjuríka framtíð.

      Skólabörn eru oft í óvissu um hverju þau eigi að trúa þegar verið er að kenna þróun. Oft eru þau ráðvillt meðan á því stendur. Ef þau trúa á Guð getur þetta reynt á trú þeirra. En þau geta tekist á við það með því að kynna sér hin mörgu undur náttúrunnar umhverfis okkur og með því að halda áfram að byggja upp þekkingu á skaparanum og eiginleikum hans. Ég hef gert þetta sjálf og komist að þeirri niðurstöðu að sköpunarsaga Biblíunnar er nákvæm og stangast ekki á við sönn vísindi.

      „Fáguð og einföld lögmál“

      ◼ ENRIQUE HERNÁNDEZ-LEMUS:

      Ég er vottur Jehóva og nota verulegan hluta af tíma mínum til að boða trúna. Ég er menntaður í fræðilegri eðlisfræði og starfa við Þjóðarháskólann í Mexíkó. Um þessar mundir vinn ég að því að finna varmafræðilega skýringu á fyrirbæri sem kallast varmaháð þyngdarhrun (gravothermal catastrophe) en það tengist vexti stjarna. Ég hef einnig unnið við basaraðir DNA.

      Lífið er hreinlega flóknara en svo að það hafi getað kviknað af tilviljun. Tökum sem dæmi þær gríðarmiklu upplýsingar sem eru geymdar í DNA-sameindinni. Stærðfræðilegar líkur á að einn litningur hafi myndast af tilviljun er innan við 1 á móti 9 milljón milljónum sem er svo ósennilegt að það er talið óhugsandi. Mér finnst fásinna að trúa því að öfl án vitsmuna hafi getað skapað ekki aðeins einn litning heldur allar lifandi verur sem eru svo ótrúlega flóknar að gerð.

      Þegar ég rannsaka hina afar flóknu hegðun efnis, hvort heldur er á öreindastigi eða í risastórum geimþokum, er ég snortinn af því hve fáguð og einföld lögmál það eru sem stjórna hreyfingum þeirra. Í huga mér eru þessi lögmál ekki aðeins merki um mikinn stærðfræðing heldur eru þau eins og undirskrift mikils listamanns.

      Fólk er oft hissa þegar ég segist vera vottur Jehóva. Sumir spyrja hvernig ég geti trúað á Guð. Þetta eru skiljanleg viðbrögð af því að það er sjaldgæft að trúfélög hvetji áhangendur sína til að fara fram á sannanir fyrir því sem þeim er kennt eða rannsaka trúarskoðanir sínar. En Biblían hvetur okkur til að nota „skynsemina“. (Orðskviðirnir 2:3) Öll merkin um hugvit og hönnun, sem ég sé í náttúrunni, ásamt þeim vísbendingum, sem er að finna í Biblíunni, sannfæra mig um að Guð sé til og hafi áhuga á að heyra bænir okkar.

      [Neðanmáls]

      a Sjónarmið sérfræðinganna, sem lýsa afstöðu sinni hér, endurspegla ekki endilega sjónarmið vinnuveitenda þeirra.

      [Mynd credit line á blaðsíðu 22]

      Mars (bakgrunnur): Með góðfúslegu leyfi USGS Astrogeology Research Program, http://astrogeology.usgs.gov.

  • Heillandi vaxtarmynstur jurtanna
    Vaknið! – 2006 | október
    • Heillandi vaxtarmynstur jurtanna

      HEFURÐU einhvern tíma veitt því athygli að margar jurtir vaxa eftir skrúfulaga mynstri? Ananas getur til dæmis vaxið þannig að flögurnar á hýðinu mynda 8 rastir í aðra áttina en 5 eða 13 í hina. (Sjá mynd 1.) Ef maður virðir fyrir sér sólblóm má sjá hvernig fræin raðast þannig að 55 og 89 rastir ganga á víxl, eða jafnvel fleiri. Það er meira að segja hægt að sjá skrúfulaga mynstur í blómkáli. Því er ekki að neita að það getur orðið áhugaverðara að kaupa grænmeti og ávexti þegar maður tekur eftir þessu mynstri. Af hverju vaxa jurtirnar svona? Hefur það einhverja þýðingu hve rastirnar eru margar?

      Hvernig vaxa jurtir?

      Flestar jurtir vaxa þannig að ný líffæri eins og stöngull, laufblöð og blóm vaxa af örsmáum, miðlægum vaxtarvef. Hver nýr vaxtarvísir tekur nýja stefnu út frá miðjunni þannig að hann myndar visst horn við vísinn á undan.a (Sjá mynd 2.) Hjá flestum jurtum er vaxtarhornið þannig að fram kemur skrúfulaga mynstur. Hvaða horn er þetta?

      Hugsaðu þér að þú fengir það verkefni að hanna nýja jurt og þú ættir að láta nýja vísa raðast kringum vaxtarvefinn þannig að ekkert rými færi til spillis. Segjum að þú myndir ákveða að láta hvern nýjan vísi vaxa þannig að hornið frá vísinum á undan næmi tveim fimmtu úr hring. Þá sætirðu uppi með það að fimmti hver vísir myndi vaxa í nákvæmlega sömu átt. Og þá myndu koma fram raðir og á milli þeirra færi ákveðið rými til spillis. (Sjá mynd 3.) Raunin er sú að öll einföld brot af heilum hring skila geislamynduðum röðum í stað þess að þjappa vísunum á sem hagkvæmastan hátt. Eina leiðin til að ná fram bestu þjöppun er að nota „gullna hornið“ sem svo er nefnt en það er hér um bil 137,5 gráður. (Sjá mynd 5.) Hvað er svona sérstakt við þetta horn?

      Gullna hornið er kjörið vegna þess að það er ekki hægt að sýna það sem einfalt brot af heilum hring. Hlutfallið er nálægt 5/8, það er nær 8/13 og enn nær 13/21, en það er samt ekki hægt að sýna það sem einfalt brot. Þegar nýr vísir sprettur af vaxtarvefnum undir þessu fasta horni lenda tveir vísar aldrei í nákvæmlega sömu stefnu út frá miðjunni. (Sjá mynd 4.) Vísarnir mynda því skrúfulaga mynstur en ekki geisla út frá miðjunni.

      Þegar sett er upp reiknilíkan í tölvu þar sem hermt er eftir vísum sem vaxa út frá miðlægum punkti sýnir það sig að það kemur ekki fram skrúfulaga mynstur nema hornið milli nýju vísanna samsvari gullna horninu nákvæmlega. Skrúfumynstrið glatast ef vikið er frá því þó ekki sé nema um tíunda hluta úr gráðu. — Sjá mynd 5.

      Hve mörg krónublöð?

      Það er athyglisvert að fjöldi rastanna, sem kemur út úr gullna horninu, samsvarar yfirleitt tölu úr svokallaðri Fibonacci-runu. Hún er kennd við ítalska stærðfræðinginn Leonardo Fibonacci sem lýsti henni fyrstur manna á 13. öld. Í þessari talnarunu eru fyrstu tvær tölurnar 1 en hver tala þar á eftir er summan af tveimur tölum næst á undan — 1, 1, 2, 3, 5, 8, 13, 21, 34, 55 og svo framvegis.

      Fjöldi krónublaðanna í blómum margra jurta, sem vaxa eftir skrúfulaga mynstri, er oft einhver tala úr Fibonacci-rununni. Bent hefur verið á að sóleyjar séu gjarnan með 5 krónublöð, jarðlogi með 8, frækambur með 13, fitjastjarna með 21, freyjubrá með 34 og lækjastjarna með 55 eða 89. (Sjá mynd 6) Grænmeti og ávextir hafa oft einkenni sem eiga sér samsvörun í Fibonacci-rununni. Ef banani er skorinn í sundur sést til dæmis að hann er fimmstrendur.

      „Allt hefir hann gjört hagfellt“

      Listamenn hafa lengi vitað að hið gullna hlutfall gleður mannsaugað. Hvað veldur því að jurtir nota þetta athyglisverða hlutfall til að staðsetja nýja vaxtarsprota? Margir draga þá ályktun að hér sé á ferðinni enn eitt dæmi um hönnun og hugvit í lífríkinu.

      Margir eru sannfærðir um að gerð lifandi vera og sú staðreynd að við höfum yndi af þeim sé merki þess að til sé skapari sem vill að við njótum þess að vera til. Biblían segir um skaparann: „Allt hefir hann gjört hagfellt á sínum tíma.“ — Prédikarinn 3:11.

      [Neðanmáls]

      a Sólblómið er óvenjulegt að því leyti að smáblómin, sem verða svo að fræi, vaxa ekki út frá miðjunni heldur frá ytri brúninni.

      [Skýringarmyndir á blaðsíðu 24, 25]

      Mynd 1

      (Sjá blaðið)

      Mynd 2

      (Sjá blaðið)

      Mynd 3

      (Sjá blaðið)

      Mynd 4

      (Sjá blaðið)

      Mynd 5

      (Sjá blaðið)

      Mynd 6

      (Sjá blaðið)

      [Mynd á blaðsíðu 24]

      Nærmynd af vaxtarvef.

      [Credit line]

      R. Rutishauser, Zürich-háskóla, Sviss

      [Mynd credit line á blaðsíðu 25]

      Hvítt blóm: Thomas G. Barnes @ USDA-NRCS PLANTS Database

  • Skiptir máli hverju þú trúir?
    Vaknið! – 2006 | október
    • Skiptir máli hverju þú trúir?

      TELUR þú að lífið hafi tilgang? Ef þróunarkenningin væri sönn hlyti eftirfarandi fullyrðing úr tímaritinu Scientific American að teljast góð og gild: „Þróunarkenning nútímans gefur til kynna . . . að lífið hafi engan raunverulegan tilgang.“

      Hvað felst í þessum orðum? Ef lífið hefði engan raunverulegan tilgang hefðum við ekkert annað hlutverk en að reyna að láta gott af okkur leiða og kannski að skila erfðaeinkennum okkar til næstu kynslóðar. Við dauðann myndum við hætta að vera til að eilífu. Heili okkar og hæfni til að hugsa, rökræða og hugleiða tilgang lífsins hefði þá einfaldlega orðið til af hreinni tilviljun.

      En það er ekki allt og sumt. Margir sem trúa þróunarkenningunni halda því fram að Guð sé annaðhvort ekki til eða að hann skipti sér ekki af málefnum mannanna. Ef önnur hvor þessara fullyrðinga væri rétt væri framtíð okkar í höndum stjórnmálamanna, fræðimanna og trúarleiðtoga. Miðað við fyrri reynslu þýddi það að ringulreiðin, átökin og spillingin, sem hrjá mannlegt samfélag, héldi áfram. Ef þróun væri staðreynd hefðum við í rauninni fulla ástæðu til að lifa eftir lífsreglunni: „Etum . . . og drekkum, því að á morgun deyjum vér.“ — 1. Korintubréf 15:32.

      Þú getur verið viss um að vottar Jehóva eru ekki sammála fyrrnefndum fullyrðingum. Þeir viðurkenna ekki heldur forsenduna sem þessar fullyrðingar eru byggðar á — þróunarkenninguna. Vottarnir trúa því að Biblían sé sönn. (Jóhannes 17:17) Þess vegna trúa þeir því sem hún segir um uppruna okkar: „Hjá þér [Guði] er uppspretta lífsins.“ (Sálmur 36:10) Þessi orð hafa djúpstætt gildi.

      Lífið hefur tilgang. Skapari okkar hefur kærleiksríka fyrirætlun og hún nær til allra sem velja að lifa í samræmi við vilja hans. (Prédikarinn 12:13) Þessi fyrirætlun felur í sér loforð um líf í heimi sem er laus við ringulreið, átök og spillingu — jafnvel laus við dauða. (Jesaja 2:4; 25:6-8) Milljónir votta Jehóva um allan heim geta borið vitni um að ekkert gefur lífinu meira gildi en að kynnast Guði og gera vilja hans. — Jóhannes 17:3.

      Það skiptir greinilega miklu máli hverju þú trúir því að það getur haft áhrif á hamingju þína núna og einnig á líf þitt í framtíðinni. Þitt er valið. Ætlar þú að trúa kenningu sem hefur ekki getað útskýrt auknar vísbendingar um hönnun í ríki náttúrunnar? Eða viðurkennirðu það sem Biblían segir, að jörðin og lífið á henni sé handaverk Jehóva Guðs, stórkostlegs hönnuðar sem „hefur skapað alla hluti“. — Opinberunarbókin 4:11.

  • Stangast sköpunarsagan á við vísindin?
    Vaknið! – 2006 | október
    • Sjónarmið Biblíunnar

      Stangast sköpunarsagan á við vísindin?

      MARGIR halda því fram að vísindin afsanni sköpunarsöguna. En í raun eru það skoðanir svokallaðra kristinna bókstafstrúarmanna, en ekki Biblíunnar, sem ganga í berhögg við vísindin. Sumir þessara hópa halda því ranglega fram að samkvæmt Biblíunni hafi allur efnisheimurinn verið skapaður á sex sólarhringum fyrir um það bil 10.000 árum.

      Biblían styður ekki þessa ályktun. Ef svo væri myndu uppgötvanir vísindamanna síðustu hundrað árin vissulega draga úr trúverðugleika Biblíunnar. Ef texti Biblíunnar er skoðaður ofan í kjölinn er ljóst að hann stangast hvergi á við vísindalegar staðreyndir. Þar af leiðandi eru vottar Jehóva ósammála „kristnum“ bókstafstrúarmönnum og mörgum sköpunarsinnum. Eftirfarandi sýnir hvað Biblían kennir.

      Hvenær var „upphafið“?

      Frásaga 1. Mósebókar byrjar á einfaldri en öflugri staðhæfingu: „Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.“ (1. Mósebók 1:1) Biblíufræðingar eru sammála um að hér sé verið að lýsa því sem gerðist áður en sköpunardagarnir hófust en um þá má lesa frá versi þrjú. Þetta skiptir verulegu máli. Samkvæmt upphafsorðum Biblíunnar hafði alheimurinn, þar með talin jörðin, verið til um óákveðinn tíma áður en sköpunardagarnir hófust.

      Jarðfræðingar áætla að jörðin sé um 4 milljarða ára gömul og stjarnfræðingar hafa reiknað út að alheimurinn sé um 15 milljarða ára gamall. Eru þessar uppgötvanir, og ef til vill aukin þekking í framtíðinni, í mótsögn við 1. Mósebók 1:1? Nei, Biblían segir ekkert um aldur ‚himins og jarðar‘. Vísindin afsanna ekki þetta vers.

      Hve langir voru sköpunardagarnir?

      Hvað um lengd sköpunardaganna? Var hver dagur bókstaflega einn sólarhringur? Móse, sem skrifaði 1. Mósebók, notaði sköpunardaginn, sem kom í kjölfarið á fyrstu sex sköpunardögunum, sem fyrirmynd fyrir vikulegan hvíldardag. Þess vegna halda sumir því fram að hver sköpunardagur hljóti líka að hafa verið venjulegur sólarhringur. (2. Mósebók 20:11) Styður orðalagið í 1. Mósebók þessa ályktun?

      Nei, það gerir það ekki. Hebreska orðið, sem er þýtt „dagur“, er notað um mislöng tímabil en ekki bara um sólarhring. Þegar Móse lýsir sköpun Guðs í fáeinum orðum talar hann um sköpunardagana sex sem einn dag. (1. Mósebók 2:4, Biblíurit, ný þýðing 1994) Við það má bæta að á fyrsta sköpunardeginum „kallaði [Guð] ljósið dag, en myrkrið kallaði hann nótt“. (1. Mósebók 1:5) Hér er hluti sólarhringsins skilgreindur sem „dagur“. Það eru engin rök fyrir því í Ritningunni að halda því stíft fram að hver sköpunardagur hafi verið sólarhringur að lengd.

      Hvað voru þeir þá langir? Orðalagið í fyrstu tveimur köflunum í 1. Mósebók gefur til kynna að hér sé um löng tímabil að ræða.

      Sköpunin gerist stig af stigi

      Móse skrifaði frásöguna á hebresku og hann skrifaði hana út frá sjónarhóli manns sem er á jörðinni. Þessar tvær staðreyndir og vitneskjan um að alheimurinn var til áður en sköpunartímabilið eða „dagarnir“ byrjuðu hjálpar til við að leysa nokkur af þeim ágreiningsmálum sem tengjast sköpunarsögunni. Hvernig þá?

      Ef sköpunarsagan er lesin gaumgæfilega kemur í ljós að atburðir, sem hófust einn „daginn“, gátu haldið áfram næstu daga. Sem dæmi má nefna að áður en fyrsti „sköpunardagurinn“ hófst var eitthvað sem kom í veg fyrir að sólarljósið næði til jarðar, hugsanlega skýjaþykkni, en sólin var þá þegar til. (Jobsbók 38:9) Á fyrsta „deginum“ tók þessi hindrun að þynnast og dreifð birta gat því komist í gegnum andrúmsloftið.a

      Á öðrum „degi“ varð andrúmsloftið sífellt tærara og það myndaðist rými milli þykkra skýjanna og sjávarins. Á fjórða „degi“ var andrúmsloftið orðið það tært að hægt var að greina sólina og tunglið á „hvelfingu himins“. (1. Mósebók 1:14-16, Biblíurit, ný þýðing 1994) Með öðrum orðum urðu sólin og tunglið sýnileg frá jörðinni. Þetta gerðist stig af stigi.

      Frásögn 1. Mósebókar greinir líka frá að þegar komið var fram á fimmta „dag“ og andrúmsloftið var orðið tærara hafi Guð byrjað að skapa „fugla“. Þess má geta að á frummálinu, hebresku, getur orðið ‚fuglar‘ líka merkt fleyg skordýr og dýr með flughúð. Biblían gefur svo til kynna að á sjötta „deginum“ hafi Guð enn verið að mynda „dýr merkurinnar og alla fugla loftsins“. — 1. Mósebók 2:19.

      Það er greinilegt af orðalagi Biblíunnar að nokkrir stórir viðburðir gátu gerst á hverjum „degi“ eða sköpunartímabili og að þeir gerðust stig af stigi. Sumir viðburðir teygðust, að því er virðist, inn á næstu „sköpunardaga“.

      Eftir sinni tegund

      Þýðir þetta að jurtir og dýr hafi birst stig af stigi, að Guð hafi notað þróun til að mynda allan þann fjölbreytileika sem til er? Nei, frásagan segir skýrt og greinilega að Guð hafi skapað allar grunntegundir jurta og dýra. (1. Mósebók 1:11, 12, 20-25) Voru þessar „tegundir“ jurta og dýra þannig úr garði gerðar að þær gætu aðlagað sig breytilegu umhverfi? Hver eru mörkin fyrir hverja „tegund“? Biblían segir ekkert um það. En hún segir að lifandi skepnur hafi birst „eftir þeirra tegund“. (1. Mósebók 1:21) Þetta orðalag gefur í skyn að því séu takmörk sett hve mikill fjölbreytileiki geti verið innan hverrar „tegundar“. Bæði steingervingar og nútímarannsóknir styðja þá hugmynd að grunntegundirnar hafi breyst mjög lítið í tímans rás.

      Þvert á það sem sumir bókstafstrúarmenn staðhæfa kennir Biblían ekki að alheimurinn og jörðin og allar lifandi verur á henni hafi verið skapaðar á tiltölulega stuttum tíma fyrir ekki svo löngu. Hins vegar er lýsingin í 1. Mósebók á því hvernig alheimurinn var skapaður og hvernig lífið birtist á jörðinni alveg í samræmi við margar nýlegar uppgötvanir vísindamanna.

      Vegna heimspekilegra skoðana hafna margir vísindamenn yfirlýsingu Biblíunnar um að Guð hafi skapað allt. Það er athyglisvert að í jafn gamalli bók og Biblíunni skuli Móse hafa skráð að alheimurinn eigi sér upphaf og að lífið hafi birst stig af stigi á alllöngu tímabili eins og við lesum í 1. Mósebók. Hvernig gat Móse, sem var uppi fyrir 3500 árum, búið yfir þekkingu sem er svo vísindalega nákvæm? Það er ein rökrétt skýring á því. Sá sem hafði máttinn og viskuna til að skapa himin og jörð gat örugglega miðlað svona nákvæmum upplýsingum. Þetta gefur aukið vægi þeirri staðhæfingu Biblíunnar að hún sé „innblásin af Guði“. — 2. Tímóteusarbréf 3:16.

      [Neðanmáls]

      a Í lýsingunni á því sem gerðist á fyrsta „degi“ er notað hebreska orðið ʼohr sem merkir ljós í almennum skilningi. En í lýsingunni á fjórða „degi“ er notað orðið ma ʼohr sem merkir ljósgjafi.

      HEFURÐU VELT ÞESSU FYRIR ÞÉR?

      ◼ Hvað er langt síðan Guð skapaði alheiminn? — 1. Mósebók 1:1.

      ◼ Var jörðin sköpuð á sex sólarhringum? — 1. Mósebók 2:4.

      ◼ Hvernig gat það sem Móse skrifaði um uppruna jarðarinnar verið vísindalega nákvæmt? — 2. Tímóteusarbréf 3:16.

      [Innskot á blaðsíðu 19]

      Biblían kennir ekki að alheimurinn hafi verið skapaður á tiltölulega stuttum tíma fyrir ekki svo löngu.

      [Innskot á blaðsíðu 20]

      „Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.“ — 1. Mósebók 1:1.

      [Mynd credit line á blaðsíðu 18]

      Geimur: IAC/RGO/David Malin Images

      [Mynd credit line á blaðsíðu 20]

      Mynd frá NASA.

  • Hvernig get ég varið trú mína á sköpun?
    Vaknið! – 2006 | október
    • Ungt fólk spyr . . .

      Hvernig get ég varið trú mína á sköpun?

      „Þegar fjallað var um þróunarkenninguna í bekknum stangaðist það á við allt sem mér hafði verið kennt. Hún var sett fram sem staðreynd og það dró úr mér kjark.“ — Ryan, 18 ára.

      „Kennarinn, sem ég var með þegar ég var 12 ára, var harður þróunarsinni. Hann var meira að segja með Darwin-límmiða á bílnum sínum. Þess vegna fannst mér erfitt að segja frá því að ég tryði á sköpun.“ — Tyler, 19 ára.

      „Ég varð dauðhrædd þegar félagsfræðikennarinn sagði að í næsta tíma myndum við ræða um þróunarkenninguna. Ég vissi að ég þyrfti að útskýra fyrir bekknum hver afstaða mín væri til þessa umdeilda málefnis.“ — Raquel, 14 ára.

      KANNSKI líður þér eins og Ryan, Tyler og Raquel og finnst óþægilegt þegar þróunarkenningin er til umræðu í bekknum. Þú trúir því að Guð hafi „skapað alla hluti“. (Opinberunarbókin 4:11) Þú sérð merki um hugvit og hönnun allt í kringum þig. En í skólabókunum er því haldið fram að við höfum þróast og kennarinn segir það líka. Átt þú að fara að mótmæla „sérfræðingunum“? Og hvernig ætli bekkjarfélagarnir bregðist við ef þú ferð að tala um . . . Guð?

      En vertu óhræddur þó að spurningar sem þessar sæki á þig. Þú ert ekki sá eini sem trúir á sköpun. Staðreyndin er sú að fjöldi vísindamanna viðurkennir ekki þróunarkenninguna. Hið sama er að segja um marga kennara. Og í Bandaríkjunum trúa 4 af hverjum 5 námsmönnum á skapara hvað sem skólabækurnar segja.

      En þú veltir kannski fyrir þér hvað þú eigir að segja ef þú þarft að verja trú þína á sköpun. Þótt þú sért feiminn máttu treysta því að þú ert fær um að standa fyrir máli þínu. En það krefst undirbúnings.

      Sannaðu fyrir sjálfum þér að til sé skapari

      Ef þú ert alinn upp af kristnum foreldrum trúirðu kannski á sköpun einfaldlega vegna þess að það er það sem þér hefur verið kennt. En núna þegar þú ert orðinn eldri viltu beita rökhyggjunni svo að trú þín og tilbeiðsla byggist á traustum grunni. (Rómverjabréfið 12:1, NW) Páll hvatti kristna menn á fyrstu öld til að ‚prófa allt‘, það er að segja sannreyna það. (1. Þessaloníkubréf 5:21) En hvernig geturðu sannað fyrir sjálfum þér að til sé skapari?

      Í fyrsta lagi skaltu minnast þess sem Páll skrifaði um Guð: „Hið ósýnilega eðli hans . . . er sýnilegt frá sköpun heimsins, með því að það verður skilið af verkum hans.“ (Rómverjabréfið 1:20) Með þessi orð í huga geturðu skoðað mannslíkamann, jörðina, alheiminn eða hafdjúpin. Þú getur kannað heim skordýranna, jurtanna eða dýranna — hvaðeina sem vekur áhuga þinn. Beittu síðan rökhyggjunni og spyrðu þig: Hvað sannfærir mig um að til sé skapari?

      Sam, sem er 14 ára, las sér til um mannslíkamann til að svara þessari spurningu. „Hann er svo margslunginn og flókinn,“ segir hann, „og allir líkamshlutarnir vinna svo vel saman. Það er óhugsandi að mannslíkaminn hafi þróast.“ Holly, sem er 16 ára, tekur í sama streng: „Ég hef lært margt um starfsemi líkamans eftir að ég greindist með sykursýki,“ segir hún. „Það er til dæmis stórkostlegt að hugsa til þess hvað briskirtillinn, sem er lítið líffæri á bak við magann, gegnir stóru hlutverki í starfsemi blóðsins og annarra líffæra.“

      Sumir unglingar líta á málin frá öðrum sjónarhóli. Jared, sem er 19 ára, segir: „Mér finnst sterkasta sönnunin vera fólgin í því að við höfum trúarþörf, fegurðarskyn og erum fróðleiksfús. Þessir eiginleikar eru ekki lífsnauðsynlegir en samkvæmt þróunarkenningunni er allt sem við búum yfir sprottið af ákveðinni þörf. Mér finnst eina rökrétta skýringin vera sú að við séum handaverk einhvers sem vildi að við nytum lífsins.“ Tyler, sem áður var vitnað í, hefur komist að svipaðri niðurstöðu. „Þegar ég leiði hugann að hlutverki jurtanna í að viðhalda lífinu og hversu ótrúlega flóknar þær eru sannfærist ég um að til sé skapari.“

      Það er auðveldara að taka málstað sköpunarinnar ef maður hefur hugsað málið vandlega og látið sannfærast. Gefðu þér því tíma til að hugleiða handaverk Guðs eins og Sam, Holly, Jared og Tyler hafa gert. „Hlustaðu“ síðan á það sem sköpunarverkið „segir“ þér. Þú kemst örugglega að sömu niðurstöðu og Páll postuli sem sagði að bæði tilvist Guðs og eiginleikar væru augljósir „af verkum hans“.a

      Þú þarft að vita hvað Biblían kennir

      Auk þess að skoða vandlega handaverk Guðs þarftu líka að vita hvað Biblían kennir í raun og veru til að geta varið trú þína á sköpun. Það er óþarfi að gera eitthvað að deiluefni sem Biblían segir lítið eða ekkert um. Tökum nokkur dæmi.

      ◼ Í kennslubókinni minni segir að jörðin og sólkerfið hafi verið til um milljarða ára. Biblían segir ekkert um aldur jarðarinnar og sólkerfisins. Það sem hún segir samræmist hugmyndinni um að alheimurinn, þar á meðal jörðin, hafi verið til um milljarða ára áður en fyrsti „dagur“ sköpunarinnar hófst. — 1. Mósebók 1:1, 2.

      ◼ Kennarinn minn segir að það hefði ekki verið hægt að skapa jörðina á aðeins sex dögum. Biblían segir ekki að hver sköpunardagur hafi verið bókstaflega einn sólarhringur. Nánari upplýsingar er að finna á bls. 18-20 í þessu blaði.

      ◼ Í bekknum mínum var rætt um mörg dæmi um það hvernig menn og dýr hafa breyst með tímanum. Í Biblíunni segir að Guð hafi skapað lifandi verur „eftir þeirra tegund“. (1. Mósebók 1:20, 21) Hún styður ekki þá hugmynd að lífið hafi kviknað af lífvana efni eða að Guð hafi komið þróunarferlinu af stað með einni frumu. Hver „tegund“ býður samt upp á mikla fjölbreytni. Samkvæmt Biblíunni er því svigrúm fyrir vissar breytingar innan hverrar ‚tegundar‘.

      Vertu öruggur með trú þína

      Það er engin ástæða til að fara hjá sér eða skammast sín þótt maður trúi á sköpun. Að vel athuguðu máli sjáum við að það er mjög rökrétt, meira að segja vísindalegt, að trúa því að við séum hönnuð af vitibornum skapara. Það er því í rauninni þróunarkenningin — ekki sköpunin — sem krefst mikillar trúar. Til að lífið hafi þróast þurfa að hafa átt sér stað ótal kraftaverk án þess að nokkur kæmi þar nærri. Þegar þú hefur lesið hinar greinarnar í þessu blaði muntu eflaust sannfærast um að öll rök styðji það að lífið sé skapað. Og þegar þú hefur hugleitt málið vandlega treystirðu þér örugglega betur til þess að verja trú þína í skólanum.

      Raquel, sem nefnd var hér á undan, komst að þessari niðurstöðu. „Það tók mig nokkra daga að átta mig á því að ég ætti ekki að þegja yfir trú minni,“ segir hún. „Ég gaf kennaranum bókina Lífið — varð það til við þróun eða sköpun? og var búin að merkja við nokkur atriði sem ég vildi vekja athygli hennar á. Seinna sagði hún mér að bókin hefði gefið sér nýja sýn á þróunarkenninguna og að í framtíðinni myndi hún taka mið af þessum upplýsingum þegar hún kenndi þetta efni.“

      Finna má fleiri greinar á ensku úr greinaflokknum „Ungt fólk spyr . . .“ á vefsíðunni www.watchtower.org/ype.

      [Neðanmáls]

      a Margir unglingar hafa notið góðs af bókum eins og Lífið — varð það til við þróun eða sköpun? og Er til skapari sem er annt um okkur? Báðar bækurnar eru gefnar út af Vottum Jehóva.

      TIL UMHUGSUNAR

      ◼ Hvaða leiðir sérðu til að segja frá því í skólanum að þú trúir á sköpun?

      ◼ Hvernig geturðu sýnt að þú sér þakklátur skapara allra hluta? — Postulasagan 17:26, 27.

      [Rammi á blaðsíðu 27]

      „SANNANIRNAR ERU NÆGAR“

      „Hvað myndirðu segja við ungling sem er alinn upp í þeirri trú að til sé skapari en er að læra um þróunarkenninguna í skólanum?“ Þessi spurning var lögð fyrir örverufræðing sem er vottur Jehóva. Hverju svaraði hún? „Þú ættir að líta á það sem tækifæri til að sanna fyrir sjálfum þér að Guð sé til — ekki aðeins af því að foreldrarnir kenndu þér það heldur af því að þú hefur athugað málið og komist að þessari niðurstöðu. Stundum eru kennarar beðnir um að ‚sanna‘ þróunarkenninguna en uppgötva að þeir geta það ekki. Þeir gera sér þá grein fyrir því að þeir taka hana góða og gilda einfaldlega vegna þess að þetta var það sem þeim var kennt. Þeir sem trúa á skapara gætu fallið í sömu gildru. Þess vegna er það þess virði að sanna fyrir sjálfum sér að Guð sé til í raun og veru. Sannanirnar eru nægar og það er ekki erfitt að finna þær.“

      [Rammi/mynd á blaðsíðu 28]

      HVAÐ SANNFÆRIR ÞIG?

      Skrifaðu niður þrennt sem sannfærir þig um að til sé skapari:

      1. ․․․․․

      2. ․․․․․

      3. ․․․․․

Íslensk rit (1985-2025)
Útskrá
Innskrá
  • Íslenska
  • Deila
  • Stillingar
  • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
  • Notkunarskilmálar
  • Persónuverndarstefna
  • Persónuverndarstillingar
  • JW.ORG
  • Innskrá
Deila