Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w10 15.8. bls. 25-28
  • Hvers vegna að vera stundvís?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hvers vegna að vera stundvís?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2010
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Jehóva er stundvís Guð
  • Stundvísi er mikilvæg í tilbeiðslunni
  • Hvernig hægt er að vera stundvís
  • Það er til góðs að koma stundvíslega á safnaðarsamkomur
  • Temjum okkur stundvísi
    Ríkisþjónusta okkar – 2014
  • Stundvísi
    Vaknið! – 2016
  • Metum hús Guðs að verðleikum
    Ríkisþjónusta okkar – 1994
  • Hegðum okkur eins og samboðið er fagnaðarerindinu
    Ríkisþjónusta okkar – 1995
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2010
w10 15.8. bls. 25-28

Hvers vegna að vera stundvís?

ÞAÐ getur verið þrautin þyngri að vera stundvís. Langar vegalengdir, mikil umferð og stíf tímaáætlun getur gert það erfitt. Það er samt mikilvægt að koma á réttum tíma. Á vinnustað er venjulega talið að stundvíst starfsfólk sé áreiðanlegt og duglegt. Hins vegar getur sá sem kemur seint haft áhrif á vinnu annarra og á gæði vöru og þjónustu. Óstundvísi getur valdið því að nemandi missi úr ákveðnar kennslustundir en það getur hægt á framförum í námi. Sé komið of seint í pantaða tíma hjá lækni eða tannlækni getur það haft áhrif á meðferðina sem veitt er.

Sums staðar er þó stundvísi ekki álitin svo mikilvæg. Í slíku umhverfi getur það auðveldlega orðið að vana að koma of seint. Ef því er þannig farið er nauðsynlegt að finna hjá sér löngun til að koma á réttum tíma. Það er vissulega auðveldara að vera stundvís þegar maður gerir sér grein fyrir hve mikið er í húfi. Hvaða ástæður höfum við til að vera stundvís, hvernig er hægt að vera það og hvaða gagn höfum við af því?

Jehóva er stundvís Guð

Meginástæðan fyrir því að við viljum vera stundvís er að okkur langar til að líkja eftir Guði okkar. (Ef. 5:1) Jehóva gefur okkur frábæra fyrirmynd í stundvísi. Hann er aldrei seinn. Hann fer nákvæmlega eftir áætlun þegar hann uppfyllir fyrirheit sín. Þegar hann ákvað til dæmis að eyða hinum illa heimi í vatnsflóði sagði hann við Nóa: „Þú skalt gera þér örk af góferviði.“ Þegar styttist í að flóðið kæmi sagði Jehóva Nóa að ganga inn í örkina og mælti: „Að sjö dögum liðnum mun ég láta rigna á jörðina í fjörutíu daga og fjörutíu nætur og afmá af jörðinni sérhverja lifandi veru sem ég hef skapað.“ Og það stóðst nákvæmlega. „Að liðnum sjö dögum steyptist vatnsflóðið yfir jörðina.“ (1. Mós. 6:14; 7:4, 10) Við getum rétt ímyndað okkur hvað hefði orðið um Nóa og fjölskyldu hefðu þau ekki verið komin inn í örkina á tilsettum tíma. Þau urðu að vera stundvís eins og Guð sem þau tilbáðu.

Um 450 árum eftir flóðið sagði Jehóva ættföðurnum Abraham að hann myndi eignast son og að af honum kæmi hinn fyrirheitni niðji. (1. Mós. 17:15-17) Guð sagði að Ísak ætti að fæðast „um þessar mundir að ári“. Gerðist það? Í Biblíunni stendur: „Sara varð þunguð og fæddi Abraham son í elli hans um þær mundir sem Guð hafði heitið honum.“ — 1. Mós. 17:21; 21:2.

Í Biblíunni eru fjölmörg dæmi sem sýna fram á stundvísi Guðs. (Jer. 25:11-13; Dan. 4:20-25; 9:25) Þar er okkur sagt að vænta þess að dómsdagur Jehóva komi. Þótt svo virðist, frá mannlegu sjónarmiði, að „töf verði á“ erum við fullvissuð um að það „rætist vissulega og án tafar“. — Hab. 2:3.

Stundvísi er mikilvæg í tilbeiðslunni

Allir Ísraelsmenn urðu að vera viðstaddir á ákveðnum tíma á þeim stað sem „hátíðir Drottins“ voru haldnar. (3. Mós. 23:2, 4) Guð ákvað líka á hvaða tímum vissar fórnir skyldu bornar fram. (2. Mós. 29:38, 39; 3. Mós. 23:37, 38) Bendir þetta ekki til þess að Guð vilji að þjónar hans séu stundvísir þegar tilbeiðslan á í hlut?

Þegar Páll kenndi Korintumönnum á fyrstu öld hvernig safnaðarsamkomur ættu að fara fram hvatti hann þá á þessa leið: „Allt fari sómasamlega fram og með reglu.“ (1. Kor. 14:40) Samkvæmt þessu áttu samkomurnar að hefjast á tilsettum tíma. Jehóva hefur ekki breytt skoðun sinni á stundvísi. (Mal. 3:6) Hvað getum við þá gert til að koma á réttum tíma á samkomurnar?

Hvernig hægt er að vera stundvís

Sumum hefur fundist mjög gott að gera áætlun fyrir fram. (Orðskv. 21:5) Ef við þurfum til dæmis að ferðast ákveðna vegalengd og vera mætt á tilteknum tíma væri þá skynsamlegt að fara af stað á þeim tíma sem rétt nægði til að komast þangað? Væri ekki hyggilegra að ætla nokkrar mínútur til viðbótar svo að við yrðum ekki of sein ef ófyrirsjáanlegar tafir yrði á leiðinni? (Préd. 9:11) José er stundvís, ungur maður. Hann segir: „Eitt sem allir geta gert til að koma á réttum tíma er að vita hve langan tíma ferðin tekur.“a

Sumir þurfa að gera ráðstafanir til að fara úr vinnu nógu snemma til að mæta tímanlega á safnaðarsamkomurnar. Vottur í Eþíópíu gerði það þegar hann áttaði sig á því að hann yrði þrem stundarfjórðungum of seinn á samkomur vegna breytinga á vöktum. Hann samdi við vinnufélaga sinn um að koma fyrr á vaktina til að leysa hann af á samkomukvöldum. Á móti féllst votturinn á að vinna aukalega sjö klukkustunda vakt fyrir vinnufélagann.

Það getur verið sérstaklega erfitt að mæta á réttum tíma fyrir þá sem eiga ung börn. Það kemur venjulega í hlut móðurinnar að hafa börnin til en aðrir í fjölskyldunni geta og ættu að hjálpa til. Esperanza er einstæð átta barna móðir í Mexíkó. Börnin eru núna á aldrinum 5 til 23 ára. Esperanza segir frá því hvernig fjölskyldunni tekst að koma á réttum tíma: „Eldri dæturnar hjálpa yngri börnunum að hafa sig til. Þá get ég lokið við heimilisstörfin og verið tilbúin að leggja af stað á samkomurnar á tilsettum tíma.“ Fjölskyldan fer að heiman á tilsettum tíma og allir vinna saman til þess að svo geti orðið.

Það er til góðs að koma stundvíslega á safnaðarsamkomur

Þegar við hugsum út í þá blessun sem við fáum með því að koma stundvíslega á safnaðarsamkomur styrkir það löngun okkar og ásetning að gera allt sem við getum til að vera stundvís. Sara er ung kona og hefur vanið sig á að koma á réttum tíma á samkomur. Hún segir: „Mér finnst svo gott að koma snemma því að þá gefst mér tækifæri til að heilsa bræðrum og systrum, tala við þau og kynnast þeim betur.“ Þegar við komum tímanlega í ríkissalinn getum við notið þess að heyra um þolgæði og trúfesti annarra í þjónustunni. Við getum líka haft góð áhrif á aðra með návist okkar og uppbyggilegum samræðum og hvatt þau „til kærleika og góðra verka“. — Hebr. 10:24, 25.

Söngurinn og bænin í upphafi hverrar safnaðarsamkomu er ómissandi þáttur í tilbeiðslu okkar. (Sálm. 149:1) Söngvarnir lofa Jehóva, minna okkur á eiginleika sem við ættum að tileinka okkur og þeir hvetja okkur til að taka þátt í þjónustunni með gleði. Og hvað er að segja um inngangsbænina? Jehóva kallaði musteri sitt til forna „bænahús“. (Jes. 56:7) Á samkomunum söfnumst við saman til að bera fram bænir okkar til Guðs. Í inngangsbæninni er ekki aðeins verið að biðja Jehóva um leiðsögn og heilagan anda heldur einnig að undirbúa hugi okkar og hjörtu til að meðtaka efnið sem fjallið verður um. Við ættum að vera ákveðin í að koma stundvíslega á samkomurnar til að vera viðstödd upphafssönginn og inngangsbænina.

Þegar Helen, sem er 23 ára, talar um ástæðuna fyrir því að hún mætir snemma á samkomurnar segir hún: „Mér finnst að þannig sýni ég Jehóva kærleika minn þar sem hann lætur í té alla fræðsluna, þar á meðal söngvana og inngangsbænina.“ Ættum við ekki að líta málið sömu augum? Jú, það ættum við að gera. Þess vegna skulum við leggja okkur fram um að temja okkur stundvísi í öllu sem við tökum okkur fyrir hendur, sérstaklega þegar um er að ræða tilbeiðslu okkar á hinum sanna Guði.

[Neðanmáls]

a Nöfnum hefur verið breytt.

[Mynd á bls. 26]

Undirbúum okkur með góðum fyrirvara.

[Mynd á bls. 26]

Gerum ráð fyrir ófyrirsjáanlegum töfum.

[Myndir á bls. 26]

Njótum góðs af því að mæta tímanlega á samkomur.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila