Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w22 ágúst bls. 26-31
  • Fólk Jehóva elskar réttlæti

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Fólk Jehóva elskar réttlæti
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2022
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • HVAÐ ER RÉTTLÆTI?
  • LÆRUM AÐ META MÆLIKVARÐA JEHÓVA ENN BETUR
  • Elskaðu réttlæti af öllu hjarta
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
  • Leitið fyrst réttlætis hans
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2010
  • Hafðu yndi af réttlæti Jehóva
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2002
  • Það er okkur til verndar að leita réttlætis
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2006
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2022
w22 ágúst bls. 26-31

NÁMSGREIN 36

Fólk Jehóva elskar réttlæti

„Þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlæti eru hamingjusamir.“ – MATT. 5:6.

SÖNGUR 9 Jehóva er konungur

YFIRLITa

1. Hvaða prófraun varð Jósef fyrir og hvernig brást hann við?

JÓSEF sonur Jakobs lenti í erfiðri prófraun. „Leggstu með mér,“ sagði kona við hann. Hún var eiginkona Pótífars húsbónda Jósefs. Hann hafnaði boði hennar. Sumir gætu velt því fyrir sér hvers vegna hann stóð á móti þessari freistingu. Pótífar var að heiman. Og Jósef var þræll á heimilinu þannig að konan hefði hæglega getað gert honum lífið erfitt ef hann hafnaði henni. En hann lét ekki undan þótt hún reyndi aftur og aftur. Hvers vegna? Hann sagði: „Hvernig gæti ég þá brotið svo gróflega af mér og syndgað gegn Guði?“ – 1. Mós. 39:7–12.

2. Hvernig vissi Jósef að framhjáhald væri synd gegn Guði?

2 Hvernig vissi Jósef að Guð hans áliti framhjáhald gróft brot? Móselögin, sem sögðu skýrt „þú skalt ekki fremja hjúskaparbrot“, voru ekki færð í letur fyrr en tvö hundruð árum seinna. (2. Mós. 20:14) En Jósef þekkti Jehóva nógu vel til að átta sig á hvað honum fyndist um siðlausa hegðun. Hann vissi til dæmis örugglega að Jehóva hafði ákveðið að í hjónabandi ætti aðeins að vera einn maður og ein kona. Og hann hlýtur að hafa heyrt um hvernig Jehóva skarst tvisvar í leikinn til að vernda Söru ömmu hans svo að hjónaband hennar og Abrahams yrði ekki fyrir skaða. Jehóva verndaði líka Rebekku eiginkonu Ísaks á svipaðan hátt. (1. Mós. 2:24; 12:14–20; 20:2–7; 26:6–11) Þegar Jósef hugleiddi þetta gat hann skilið hvað væri rétt og rangt í augum Guðs. Jósef elskaði Guð sinn. Hann mat þess vegna mikils réttlátan mælikvarða hans og var staðráðinn í að fara eftir honum.

3. Hvað ræðum við í þessari námsgrein?

3 Elskar þú réttlæti? Þú gerir það eflaust. En við erum öll ófullkomin þannig að ef við erum ekki á varðbergi gæti viðhorf heimsins til réttlætis hæglega smitað okkur. (Jes. 5:20; Rómv. 12:2) Skoðum þess vegna hvað réttlæti er og hvaða gagn við höfum af því að elska réttlátan mælikvarða Jehóva. Við ræðum síðan þrennt sem við getum gert til að meta þennan mælikvarða enn betur.

HVAÐ ER RÉTTLÆTI?

4. Hvaða röngu hugmynd hafa margir varðandi réttlæti?

4 Þegar fólk hugsar um réttlátan mann sér það kannski fyrir sér einhvern sem er sjálfumglaður og gagnrýninn. En það eru ekki eiginleikar Guði að skapi. Þegar Jesús var á jörðinni ávítaði hann harðlega trúarleiðtogana fyrir að búa til sinn eigin mælikvarða á réttlæti. (Préd. 7:16; Lúk. 16:15) Ósvikið réttlæti á ekkert skylt við sjálfsánægju.

5. Hvað er réttlæti samkvæmt Biblíunni? Nefndu dæmi.

5 Réttlæti er fallegt. Það þýðir einfaldlega að gera það sem er rétt í augum Jehóva Guðs. Orðin sem eru notuð í Biblíunni um réttlæti fela í sér að lifa eftir æðstu stöðlum, það er að segja mælikvarða Jehóva. Jehóva ákvað til dæmis að kaupmenn skyldu nota „réttan vogarstein“. (5. Mós. 25:15) Hebreska orðið sem er þýtt „réttan“ má líka þýða „réttlátan“. Þjónar Guðs verða því að vera algerlega heiðarlegir í öllum viðskiptum til að vera réttlátir í augum Guðs. Réttlátum manni er líka annt um réttvísi og finnst andstyggilegt þegar ekki er komið fram við fólk af sanngirni. Og til að „þóknast [Jehóva] í einu og öllu“ hugleiðir maður sem er virkilega réttlátur hvað Jehóva finnst um ákvarðanir hans. – Kól. 1:10.

6. Hvers vegna getum við treyst mælikvarða Jehóva á rétt og rangt? (Jesaja 55:8, 9)

6 Biblían sýnir að réttlætið á sér upphaf hjá Jehóva. Þess vegna er hann kallaður „haglendi réttlætisins“. (Jer. 50:7, Biblían 1981) Þar sem Jehóva er skapari okkar hefur aðeins hann rétt til að ákveða hvað er rétt og hvað er rangt. Hann er fullkominn og mat hans á réttu og röngu því langtum æðra en mat okkar sem er undir áhrifum ófullkomleika og syndar. (Orðskv. 14:12; lestu Jesaja 55:8, 9.) En við getum gert það sem er rétt í augum hans vegna þess að við erum sköpuð eftir hans mynd. (1. Mós. 1:27) Og við höfum yndi af því að gera það. Kærleikur okkar til föður okkar fær okkur til að líkja eftir honum eins vel og við getum. – Ef. 5:1.

7. Hvers vegna þurfum við á áreiðanlegum stöðlum að halda? Nefndu dæmi.

7 Það er gagnlegt fyrir okkur að fara eftir mælikvarða Jehóva á rétt og rangt. Hvers vegna? Ímyndum okkur hvað myndi gerast ef allir bankar settu sína eigin staðla um gengi gjaldmiðils eða ef öll byggingarfyrirtæki notuðu sínar eigin mælieiningar. Það yrði alger ringulreið. Og ef læknar og hjúkrunarfræðingar færu ekki eftir viðurkenndum stöðlum í umönnun sjúklinga gæti það stofnað lífi sjúklinga í hættu. Áreiðanlegir staðlar veita vernd. Það á líka við um mælikvarða Guðs.

8. Hvaða blessun bíður þeirra sem hafa unun af því að gera það sem er rétt?

8 Jehóva blessar þá sem leitast við að fylgja mælikvarða hans. Hann lofar: „Hinir réttlátu munu erfa jörðina og búa á henni að eilífu.“ (Sálm. 37:29) Geturðu ímyndað þér eininguna, friðinn og hamingjuna sem mun ríkja þegar allir lifa í samræmi við mælikvarða hans? Jehóva vill að þú eignist þannig líf. Við höfum sannarlega ástæðu til að elska réttlæti. Hvernig getum við fengið enn meiri mætur á því? Skoðum þrennt sem við getum gert.

LÆRUM AÐ META MÆLIKVARÐA JEHÓVA ENN BETUR

9. Hvað getur hjálpað okkur að elska réttlæti?

9 Skref 1: Elskum þann sem setur mælikvarðann. Til að elska réttlæti þurfum við að styrkja kærleikann til hans sem ákveður hvað er rétt og rangt. Því heitar sem við elskum Jehóva þeim mun sterkari verður löngun okkar til að lifa í samræmi við réttlátan mælikvarða hans. Það er umhugsunarvert að ef Adam og Eva hefðu elskað Jehóva hefðu þau ekki óhlýðnast honum. – 1. Mós. 3:1–6, 16–19.

10. Hvað gerði Abraham til að kynnast Jehóva betur?

10 Við viljum alls ekki gera sömu mistök og Adam og Eva. Við getum komist hjá því með því að halda áfram að kynnast Jehóva, meta eiginleika hans og leggja okkur fram um að skilja hvernig hann hugsar. Þá vex kærleikur okkar til hans. Tökum Abraham sem dæmi. Hann elskaði Jehóva. Hann fór ekki gegn vilja hans, jafnvel þegar honum fannst erfitt að skilja ákvarðanir hans. Þess í stað reyndi hann að kynnast Jehóva betur. Þegar hann fékk til dæmis að vita að Jehóva hefði ákveðið að eyða Sódómu og Gómorru óttaðist hann fyrst í stað að „dómari allrar jarðarinnar“ myndi eyða bæði réttlátum og ranglátum. Abraham fannst það óhugsandi svo að hann spurði Jehóva auðmjúkur nokkurra spurninga. Jehóva svaraði honum þolinmóður. Abraham skildi að lokum að Jehóva grandskoðar hjörtu allra og refsar aldrei saklausu fólki þegar hann dæmir hina illu. – 1. Mós. 18:20–32.

11. Hvernig sýndi Abraham að hann elskaði Jehóva og treysti honum?

11 Samtal Abrahams við Jehóva um Sódómu og Gómorru hafði djúpstæð áhrif á hann. Það styrkti eflaust kærleika hans til föður síns og virðingu fyrir honum. Mörgum árum seinna reyndi verulega á traust Abrahams til Jehóva. Jehóva bað Abraham að fórna Ísak syni sínum sem hann elskaði svo heitt. En Abraham hafði kynnst Jehóva betur og hafði engar spurningar í þetta skiptið. Hann hófst einfaldlega handa við að gera það sem Jehóva bað hann um. Við getum samt rétt ímyndað okkur hversu sárt það hefur verið fyrir hann að búa sig undir það. Abraham hlýtur að hafa hugleitt vandlega það sem hann hafði lært um Jehóva. Hann vissi að Jehóva myndi aldrei gera neitt sem væri óréttlátt eða kærleikslaust. Páll postuli skrifaði að Abraham hefði hugsað sem svo að Jehóva væri fær um að reisa ástkæran son hans til lífs á ný. (Hebr. 11:17–19) Jehóva hafði reyndar lofað að Ísak yrði ættfaðir þjóðar en á þessum tíma átti hann engin börn. Abraham elskaði Jehóva og treysti að himneskur faðir hans myndi alltaf gera það sem er rétt. Hann sýndi trú og hlýddi Jehóva þótt það væri erfitt. – 1. Mós. 22:1–12.

12. Hvernig getum við líkt eftir Abraham? (Sálmur 73:28)

12 Hvernig getum við líkt eftir Abraham? Við þurfum að halda áfram að kynnast Jehóva rétt eins og hann. Þá verður samband okkar við hann nánara og við elskum hann heitar. (Lestu Sálm 73:28.) Samviska okkar þjálfast í að endurspegla huga Jehóva. (Hebr. 5:14) Fyrir vikið neitum við að láta undan þegar einhver reynir að fá okkur til að gera rangt. Það verður óhugsandi fyrir okkur að gera nokkuð sem myndi valda föður okkar sársauka og skemma samband okkar við hann. En hvernig getum við sýnt á fleiri vegu að við séum réttlát?

13. Hvernig getum við lagt rækt við réttlæti? (Orðskviðirnir 15:9)

13 Skref 2: Lærum að meta réttlæti enn betur frá degi til dags. Ef við viljum fá sterkari vöðva verðum við að æfa reglulega og taka vel á því. Á svipaðan hátt getum við styrkt ást okkar á réttlátum mælikvarða Jehóva með því að leggja okkur fram á hverjum degi. Þú getur það. Jehóva er sanngjarn og ætlast ekki til meira af okkur en við getum. (Sálm. 103:14) Hann fullvissar okkur um að hann „elskar þann sem leggur rækt við réttlæti“. (Lestu Orðskviðina 15:9.) Þegar við reynum að ná markmiði í þjónustu Jehóva þurfum við að leggja eitthvað á okkur til að ná því. Það sama á við um að leggja rækt við réttlæti. Jehóva hjálpar okkur að taka framförum smám saman. – Sálm. 84:5, 7.

14. Hvað er „brynja réttlætisins“ og hvers vegna þurfum við á henni á halda?

14 Í kærleika sínum bendir Jehóva okkur á að það er engin byrði að gera það sem er rétt í augum hans. (1. Jóh. 5:3) Það er öllu heldur vernd sem við þurfum á að halda á hverjum degi. Við þekkjum andlega alvæpnið sem Páll postuli lýsti. (Ef. 6:14–18) Hvaða hluti þess verndaði hjarta hermannsins? Það var ,brynja réttlætisins‘, en hún stendur fyrir réttlátan mælikvarða Jehóva. Þessi mælikvarði verndar táknrænt hjarta okkar, okkar innri mann, rétt eins og brynja verndar bókstaflegt hjarta. Við skulum fyrir alla muni ganga úr skugga um að brynja réttlætisins sé hluti af herbúnaði okkar. – Orðskv. 4:23.

15. Hvernig geturðu klæðst brynju réttlætisins?

15 Hvernig getum við klæðst brynju réttlætisins? Við gerum það með því að taka allar ákvarðanir með hliðsjón af mælikvarða Guðs. Þegar við ákveðum hvað við tölum um, hvaða tónlist við hlustum á, hvaða skemmtiefni við horfum á eða hvaða bækur við lesum skulum við fyrst spyrja okkur: Hverju væri ég að hleypa inn í hjarta mitt? Myndi Jehóva þóknast það? Eða ýtir það undir siðleysi, ofbeldi, græðgi eða eigingirni, sem allt er andstætt réttlátum mælikvarða Jehóva? (Fil. 4:8) Ef ákvarðanir þínar eru í samræmi við vilja Jehóva verndar réttlátur mælikvarði hans hjarta þitt.

Systir gengur eftir ströndinni og horfir á öldurnar brotna meðan sólin sest.

Réttlæti þitt getur orðið „eins og öldur hafsins“. (Sjá 16. og 17. grein.)

16, 17. Hvernig fullvissar Jesaja 48:18 okkur um að við getum fylgt réttlátum mælikvarða Jehóva um alla eilífð?

16 Hefurðu stundum áhyggjur af því hvort þú getir haldið áfram að lifa í samræmi við réttlátan mælikvarða Jehóva dag eftir dag, ár eftir ár? Hugleiðum myndmál sem Jehóva notaði og er að finna í Jesaja 48:18. (Lestu.) Jehóva lofar að réttlæti okkar geti orðið „eins og öldur hafsins“. Ímyndaðu þér að þú standir á ströndinni og njótir þess að horfa út á vítt hafið og öldurnar sem koma, hver á eftir annarri. Myndirðu allt í einu fara að hafa áhyggjur að því að þær hættu að koma? Varla. Þú veist að öldurnar hafa brotnað við þessa strönd um þúsundir ára og munu gera það áfram.

17 Réttlæti þitt getur verið eins og þessar öldur. Hvernig? Þegar þú ætlar að taka ákvörðun skaltu fyrst hugleiða hvað Jehóva vill að þú gerir. Síðan skaltu gera það. Óháð því hversu erfitt er að fylgja ákvörðuninni eftir þá stendur ástríkur faðir þinn á himni þér við hlið til að hjálpa þér að standa stöðugur og lifa dag hvern í samræmi við réttlátan mælikvarða sinn. – Jesaja 40:29–31.

18. Hvers vegna verðum við að forðast að dæma aðra eftir okkar eigin mælikvarða?

18 Skref 3: Látum Jehóva um að dæma. Við viljum leggja okkur fram um að fara eftir réttlátum mælikvarða Jehóva en verðum um leið að forðast að dæma aðra og verða réttlát í eigin augum. Við ættum ekki að líta niður á aðra eins við hefðum rétt til að dæma þá eftir okkar eigin mælikvarða heldur muna að Jehóva er „dómari allrar jarðarinnar“. (1. Mós. 18:25) Jehóva hefur ekki falið okkur að dæma. Jesús sagði reyndar: „Hættið að dæma til að þið verðið ekki dæmd.“ – Matt. 7:1.b

19. Hvernig sýndi Jósef að hann treysti Jehóva sem dómara?

19 Snúum okkur aftur að Jósef, sem var réttlátur maður. Hann forðaðist að dæma aðra, jafnvel þá sem komu illa fram við hann. Bræður hans réðust á hann, seldu hann í þrældóm og sannfærðu föður sinn um að hann væri dáinn. Mörgum árum seinna sameinaðist Jósef fjölskyldu sinni aftur. Nú var hann orðinn valdamikill þjóðarleiðtogi og hefði getað dæmt bræður sína hart og hefnt sín á þeim. Bræður hans óttuðust að hann myndi gera það þótt þeir iðruðust þess sem þeir höfðu gert. En Jósef hughreysti þá og sagði: „Verið ekki hræddir … Kem ég í Guðs stað?“ (1. Mós. 37:18–20, 27, 28, 31–35; 50:15–21) Jósef var auðmjúkur og lét Jehóva um að dæma.

20, 21. Hvernig getum við forðast sjálfsánægju?

20 Við látum Jehóva um að dæma rétt eins og Jósef. Við þykjumst til dæmis ekki vita hvaða hvatir búi að baki því sem bræður okkar og systur gera. Við getum ekki lesið hjörtu, aðeins „Jehóva kannar ásetning“ fólks. (Orðskv. 16:2) Hann elskar alls konar fólk, með ólíkan bakgrunn og af mismunandi menningu. Og hann hvetur okkur til að ,gera rúmgott í hjörtum okkar‘. (2. Kor. 6:13) Við viljum sýna öllum í andlegri fjölskyldu okkar kærleika en ekki dæma þá.

21 Við ættum ekki heldur að dæma þá sem eru ekki í söfnuðinum. (1. Tím. 2:3, 4) Myndirðu nokkurn tíma dæma ættingja sem hefur aðra trú en þú og segja að hann taki aldrei við sannleikanum? Nei, það bæri vott um ósvífni og sjálfsánægju. Jehóva er enn að gefa „mönnum alls staðar“ tækifæri til að iðrast. (Post. 17:30) Gleymum ekki að sjálfsánægja eða það að vera réttlátur í eigin augum er ein birtingarmynd óréttlætis.

22. Hvers vegna ertu staðráðinn í að elska réttlæti?

22 Kærleikur okkar til mælikvarða Jehóva á réttlæti eykur gleði okkar. Og fordæmi okkar getur styrkt samband annarra bæði við okkur og Guð. Hættum aldrei að „hungra og þyrsta eftir réttlæti“. (Matt. 5:6) Við megum vera viss um að Jehóva tekur eftir viðleitni okkar og metur mikils allt sem við leggjum á okkur til að gera það sem er rétt. Heimurinn sekkur æ dýpra í óréttlæti en við getum verið hughraust. Gleymum aldrei að „Jehóva elskar hina réttlátu“. – Sálm. 146:8.

HVERJU SVARAR ÞÚ?

  • Hvað er réttlæti?

  • Hvaða gagn höfum við af því að fara eftir réttlátum mælikvarða Jehóva?

  • Hvernig getum við lært að meta betur réttlátan mælikvarða Jehóva?

SÖNGUR 139 Sjáðu sjálfan þig í nýja heiminum

a Það er leitun að fólki í þessum illa heimi sem vill gera það sem er rétt í augum Jehóva. En milljónir manna fylgja þó réttlátum mælikvarða hans. Þú ert eflaust meðal þeirra. Þú ert það vegna þess að þú elskar Jehóva, og Jehóva elskar réttlæti. Hvernig getum við fengið enn meiri mætur á réttlæti? Við fáum svar við því í þessari námsgrein en skoðum líka hvað réttlæti er og hvað við getum gert til að meta það betur.

b Safnaðaröldungar þurfa stundum að dæma í málum sem varða alvarlegar syndir og iðrun. (1. Kor. 5:11; 6:5; Jak. 5:14, 15) En þeir sýna þá auðmýkt að muna að þeir geta ekki lesið hjörtu og að þeir dæma í umboði Jehóva. (Samanber 2. Kroníkubók 19:6.) Þeir vanda sig við að fara eftir réttlátum, sanngjörnum og miskunnsömum mælikvarða Jehóva.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila