Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • nwt 2. Mósebók 1:1-40:38
  • 2. Mósebók

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • 2. Mósebók
  • Biblían – Nýheimsþýðingin
Biblían – Nýheimsþýðingin
2. Mósebók

ÖNNUR MÓSEBÓK

1 Þetta eru nöfn sona Jakobs, það er Ísraels, sem komu með honum til Egyptalands, hver með sína fjölskyldu:+ 2 Rúben, Símeon, Leví og Júda,+ 3 Íssakar, Sebúlon og Benjamín, 4 Dan og Naftalí, Gað og Asser.+ 5 Afkomendur Jakobs* voru alls 70 manns en Jósef var þegar í Egyptalandi.+ 6 Að lokum dó Jósef,+ allir bræður hans og öll sú kynslóð. 7 Ísraelsmenn voru frjósamir og þeim fjölgaði mjög. Þeir margfölduðust og efldust óvenjuhratt svo að landið varð fullt af þeim.+

8 Síðar meir komst nýr konungur til valda í Egyptalandi, konungur sem þekkti ekki til Jósefs. 9 Hann sagði við þjóð sína: „Ísraelsmenn eru fjölmennari og öflugri en við.+ 10 Við skulum beita þá kænsku. Annars heldur þeim áfram að fjölga og ef stríð brýst út ganga þeir í lið með óvinum okkar, berjast gegn okkur og yfirgefa svo landið.“

11 Þeir skipuðu því þrælastjóra til að kúga Ísraelsmenn með erfiðisvinnu,+ og þeir reistu birgðaborgirnar Pítóm og Ramses+ handa faraó. 12 En því meir sem þeir kúguðu Ísraelsmenn því meir fjölgaði þeim og þeir breiddust út. Egyptar voru dauðhræddir við þá.+ 13 Þeir neyddu því Ísraelsmenn til að vinna þrælkunarvinnu og beittu þá hörku.+ 14 Þeir gerðu þeim lífið leitt með erfiðisvinnu og neyddu þá til að vinna leir og búa til múrsteina og vinna alls kyns þrælavinnu á ökrunum. Þeir létu þá strita miskunnarlaust við alls konar störf.+

15 Síðar talaði konungur Egyptalands við hebresku ljósmæðurnar Sifru og Púu 16 og sagði við þær: „Þegar þið hjálpið hebreskum konum við fæðingu+ og sjáið að þær eignast dreng skuluð þið drepa barnið en ef þær eignast stúlku skal hún lifa.“ 17 En ljósmæðurnar óttuðust hinn sanna Guð og gerðu ekki eins og konungur Egyptalands sagði þeim heldur létu drengina lifa.+ 18 Að nokkrum tíma liðnum kallaði konungurinn til sín ljósmæðurnar og spurði: „Af hverju hafið þið látið drengina lifa?“ 19 Ljósmæðurnar svöruðu þá faraó: „Hebresku konurnar eru ekki eins og þær egypsku. Þær eru hraustar og eru búnar að fæða áður en ljósmóðirin er komin til þeirra.“

20 Guð veitti ljósmæðrunum velgengni og Ísraelsmönnum fjölgaði og þeir urðu mjög öflugir. 21 Og þar sem ljósmæðurnar óttuðust hinn sanna Guð sá hann til þess síðar að þær eignuðust sjálfar börn. 22 Að lokum skipaði faraó allri þjóð sinni: „Þið skuluð kasta öllum nýfæddum drengjum Hebrea í Nílarfljót en látið stúlkurnar lifa.“+

2 Um þessar mundir giftist maður nokkur af ætt Leví konu sem var líka af ætt Leví.+ 2 Konan varð barnshafandi og fæddi son. Þegar hún sá hve fallegur hann var faldi hún hann í þrjá mánuði.+ 3 En að lokum gat hún ekki falið hann lengur.+ Hún náði þá í körfu* úr papýrussefi, þétti hana með biki og tjöru og lagði drenginn í hana. Síðan setti hún körfuna út í sefið við bakka Nílar. 4 En systir hans+ stóð í nokkurri fjarlægð til að sjá hvað yrði um hann.

5 Nú kom dóttir faraós niður að Níl til að baða sig og þjónustustúlkur hennar gengu eftir fljótsbakkanum. Hún kom þá auga á körfuna í sefinu og sendi ambátt sína tafarlaust til að sækja hana.+ 6 Þegar dóttir faraós opnaði körfuna sá hún drenginn þar sem hann lá og grét. Hún vorkenndi honum og sagði: „Þetta er eitt af börnum Hebreanna.“ 7 Systir hans spurði þá dóttur faraós: „Á ég að fara og kalla á hebreska konu til að hafa barnið á brjósti fyrir þig?“ 8 „Gerðu það,“ svaraði hún. Stúlkan fór um leið og kallaði á móður barnsins.+ 9 Dóttir faraós sagði við hana: „Taktu barnið og hafðu það á brjósti fyrir mig. Ég skal borga þér fyrir.“ Konan fór þá með barnið og hafði það á brjósti. 10 Þegar drengurinn stækkaði fór hún með hann til dóttur faraós og hún ættleiddi hann.+ Hún gaf honum nafnið Móse* og sagði: „Það er vegna þess að ég hef dregið hann upp úr vatninu.“+

11 Þegar Móse var orðinn fullorðinn* gekk hann út til hebreskra bræðra sinna og sá hvernig þeir voru neyddir til að strita.+ Hann tók eftir Egypta sem var að berja hebreskan mann, einn af bræðrum sínum. 12 Móse leit í kringum sig og þegar hann sá að enginn var nærri drap hann Egyptann og faldi hann í sandinum.+

13 Daginn eftir gekk hann aftur út og sá þá tvo hebreska menn slást. Hann spurði þann sem átti sökina: „Af hverju slærðu félaga þinn?“+ 14 Hann svaraði: „Hver skipaði þig höfðingja og dómara yfir okkur? Ertu að hugsa um að drepa mig eins og þú drapst Egyptann?“+ Þá varð Móse hræddur og hugsaði með sér: „Þetta hefur þá komist upp.“

15 Faraó frétti þetta og vildi nú láta drepa Móse en Móse flúði undan honum til Midíanslands+ og þar settist hann niður við brunn. 16 Presturinn í Midían+ átti sjö dætur. Þær komu þangað til að sækja vatn og fylla þrærnar svo að þær gætu brynnt hjörð föður síns. 17 En eins og venjulega komu fjárhirðar og ráku þær burt. Móse stóð þá upp, hjálpaði* konunum og brynnti hjörð þeirra. 18 Þegar þær komu heim til Regúels*+ föður síns spurði hann undrandi: „Hvers vegna komið þið svona snemma heim í dag?“ 19 „Egypskur maður+ varði okkur fyrir fjárhirðunum,“ svöruðu þær. „Hann jós meira að segja vatni fyrir okkur og brynnti hjörðinni.“ 20 Hann spurði þá dætur sínar: „En hvar er hann? Hvers vegna skilduð þið manninn eftir? Sækið hann svo að hann geti borðað með okkur.“ 21 Móse féllst síðan á að búa hjá manninum og hann gaf Móse Sippóru+ dóttur sína fyrir eiginkonu. 22 Hún fæddi son og Móse sagði: „Ég nefni hann Gersóm*+ því að ég er útlendingur í framandi landi.“+

23 Árin* liðu og konungur Egyptalands dó+ en Ísraelsmenn voru áfram í þrælkun. Þeir stundu undan þrældóminum og hrópuðu á hjálp, og hróp þeirra náðu eyrum hins sanna Guðs.+ 24 Guð heyrði andvörp þeirra+ og minntist sáttmála síns við Abraham, Ísak og Jakob.+ 25 Guð beindi nú athygli sinni að Ísraelsmönnum og sá hvernig þeir þjáðust.

3 Móse gerðist fjárhirðir hjá Jetró+ tengdaföður sínum, prestinum í Midían. Eitt sinn fór hann með hjörðina í vesturhluta óbyggðanna og kom að lokum að Hóreb,+ fjalli hins sanna Guðs. 2 Þá birtist engill Jehóva honum í eldi sem logaði í miðjum þyrnirunna.+ Móse horfði á og sá þá að runninn brann ekki þótt hann stæði í ljósum logum. 3 Hann hugsaði með sér: „Þetta er undarlegt. Ég ætla að færa mig nær og kanna af hverju þyrnirunninn brennur ekki.“ 4 Þegar Jehóva sá að Móse gekk nær til að skoða þetta kallaði hann til hans úr þyrnirunnanum: „Móse! Móse!“ Hann svaraði: „Hér er ég.“ 5 Þá sagði Guð: „Komdu ekki nær. Farðu úr sandölunum því að staðurinn sem þú stendur á er heilög jörð.“

6 Hann hélt áfram: „Ég er Guð föður þíns, Guð Abrahams,+ Guð Ísaks+ og Guð Jakobs.“+ Þá huldi Móse andlitið því að hann þorði ekki að líta á hinn sanna Guð. 7 Jehóva bætti við: „Ég hef séð hve illa er farið með fólk mitt í Egyptalandi og heyrt hvernig það hrópar á hjálp vegna þeirra sem þrælka það. Ég veit hvernig það þjáist.+ 8 Ég ætla að stíga niður, bjarga því úr höndum Egypta+ og leiða það út úr landinu og inn í gott og víðáttumikið land sem flýtur í mjólk og hunangi,+ á svæði Kanverja, Hetíta, Amoríta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta.+ 9 Já, hróp Ísraelsmanna hafa náð til mín og ég hef líka séð hve grimmilega Egyptar kúga þá.+ 10 Ég ætla nú að senda þig til faraós og þú átt að leiða þjóð mína, Ísraelsmenn, út úr Egyptalandi.“+

11 En Móse sagði við hinn sanna Guð: „Hvernig á maður eins og ég að fara til faraós og leiða Ísraelsmenn út úr Egyptalandi?“ 12 Hann svaraði: „Ég verð með þér+ og þetta verður tákn þess að ég hafi sent þig: Eftir að þú hefur leitt fólkið út úr Egyptalandi munuð þið þjóna* hinum sanna Guði á þessu fjalli.“+

13 Þá sagði Móse við hinn sanna Guð: „Segjum að ég fari til Ísraelsmanna og segi við þá: ‚Guð forfeðra ykkar sendi mig til ykkar.‘ Hverju á ég að svara þeim ef þeir spyrja: ‚Hvað heitir hann?‘“+ 14 Guð svaraði Móse: „Ég verð það sem ég kýs að* verða.“*+ Hann bætti við: „Þú skalt segja Ísraelsmönnum: ‚Ég verð sendi mig til ykkar.‘“+ 15 Guð sagði þá aftur við Móse:

„Þú skalt segja Ísraelsmönnum: ‚Jehóva, Guð forfeðra ykkar, Guð Abrahams,+ Guð Ísaks+ og Guð Jakobs,+ sendi mig til ykkar.‘ Það er nafn mitt að eilífu+ og undir því nafni verð ég þekktur frá kynslóð til kynslóðar. 16 Farðu nú og safnaðu saman öldungum Ísraels og segðu við þá: ‚Jehóva, Guð forfeðra ykkar, birtist mér, Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs, og sagði: „Ég hef fylgst með ykkur+ og séð hvernig farið er með ykkur í Egyptalandi. 17 Þess vegna hef ég ákveðið að frelsa ykkur undan kúgun+ Egypta og leiða ykkur inn í land Kanverja, Hetíta, Amoríta,+ Peresíta, Hevíta og Jebúsíta,+ land sem flýtur í mjólk og hunangi.“‘+

18 Þeir munu hlusta á þig+ og þú munt ganga fyrir konung Egyptalands ásamt öldungum Ísraels og þið skuluð segja við hann: ‚Jehóva Guð Hebrea+ hefur birst okkur. Leyfðu okkur því að fara í þriggja daga ferð* út í óbyggðirnar til að færa Jehóva Guði okkar fórnir.‘+ 19 Ég veit þó vel að konungur Egyptalands mun ekki leyfa ykkur að fara nema hann sé þvingaður til þess.+ 20 Þess vegna mun ég rétta út höndina og refsa Egyptalandi með öllum þeim máttarverkum sem ég mun vinna þar, og eftir það lætur hann ykkur fara.+ 21 Og ég mun láta ykkur njóta velvildar Egypta svo að þið farið ekki tómhentir þaðan.+ 22 Hver kona skal biðja grannkonu sína og konuna sem dvelur í húsi hennar um gripi úr silfri og gulli og um fatnað, og þið skuluð láta syni ykkar og dætur bera það. Þið skuluð ræna Egypta.“+

4 Móse svaraði: „En segjum að þeir trúi mér ekki og hlusti ekki á mig+ heldur segi: ‚Jehóva hefur ekki birst þér.‘“ 2 Þá sagði Jehóva við hann: „Hvað ertu með í hendinni?“ „Staf,“ svaraði hann. 3 Hann sagði þá: „Kastaðu honum á jörðina.“ Hann kastaði stafnum á jörðina og stafurinn varð að höggormi.+ Móse hrökklaðist undan. 4 Jehóva sagði nú við hann: „Réttu út höndina og gríptu í halann á honum.“ Hann rétti út höndina, greip um hann og hann varð að staf í hendi hans. 5 Síðan sagði Guð: „Þegar þú gerir þetta munu þeir trúa að Jehóva, Guð forfeðra þeirra, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs,+ hafi birst þér.“+

6 Jehóva sagði einnig við hann: „Viltu stinga hendinni í skikkjubarm þinn?“ Hann stakk hendinni í skikkjubarminn. Þegar hann dró hana aftur út var hún orðin snjóhvít af holdsveiki!+ 7 Síðan sagði Guð: „Stingdu hendinni aftur í skikkjubarm þinn.“ Hann stakk þá hendinni aftur í skikkjubarminn og þegar hann dró hana út var hún orðin heilbrigð aftur. 8 Nú sagði hann: „Ef þeir trúa þér ekki og gefa fyrra tákninu engan gaum taka þeir að minnsta kosti mark á því síðara.+ 9 En ef þeir trúa hvorugu þessara tákna og hlusta ekki á þig skaltu sækja vatn í Nílarfljót og hella því á jörðina. Vatnið sem þú tókst úr Níl verður þá að blóði á jörðinni.“+

10 Móse sagði nú við Jehóva: „Afsakaðu mig, Jehóva, en ég hef aldrei verið málsnjall maður, hvorki áður né eftir að þú fórst að tala við þjón þinn. Ég er stirðmæltur og á erfitt með að tjá mig.“*+ 11 Jehóva svaraði honum: „Hver gaf mönnunum munn eða hver gerir þá mállausa, heyrnarlausa, sjáandi eða blinda? Er það ekki ég, Jehóva? 12 Farðu nú. Ég verð með þér þegar þú talar* og segi* þér hvað þú átt að segja.“+ 13 En hann sagði: „Afsakaðu mig, Jehóva, en viltu senda einhvern annan, hvern sem þú vilt?“ 14 Þá reiddist Jehóva Móse og sagði: „Hvað um Aron+ bróður þinn, Levítann? Ég veit að hann er vel máli farinn. Hann er lagður af stað á móti þér og hann mun gleðjast þegar hann hittir þig.+ 15 Þú skalt tala til hans og leggja honum orð í munn.+ Ég verð bæði með þér og honum þegar þið talið+ og ég segi ykkur hvað þið eigið að gera. 16 Hann mun tala til fólksins fyrir þig og vera talsmaður þinn en þú verður honum eins og Guð.*+ 17 Þú skalt taka þennan staf í hönd þér og gera táknin með honum.“+

18 Móse fór nú aftur til Jetrós tengdaföður síns+ og sagði við hann: „Leyfðu mér að snúa aftur til bræðra minna í Egyptalandi og sjá hvort þeir eru enn á lífi.“ „Farðu í friði,“ svaraði Jetró. 19 Jehóva sagði síðan við Móse í Midían: „Farðu aftur til Egyptalands því að allir þeir sem vildu drepa þig* eru dánir.“+

20 Þá tók Móse konu sína og syni, setti þau á bak asna og lagði af stað til Egyptalands. Móse tók líka staf hins sanna Guðs í hönd sér. 21 Síðan sagði Jehóva við Móse: „Þegar þú ert kominn aftur til Egyptalands skaltu vinna öll kraftaverkin sem ég hef gefið þér mátt til frammi fyrir faraó.+ En ég leyfi honum að verða þrjóskur í hjarta+ og hann á ekki eftir að láta fólkið fara.+ 22 Þú skalt segja við faraó: ‚Þetta segir Jehóva: „Ísrael er sonur minn, frumburður minn.+ 23 Ég segi þér: Láttu son minn fara svo að hann geti þjónað mér. Ef þú leyfir honum ekki að fara mun ég drepa son þinn, frumburðinn.“‘“+

24 Á gististað á leiðinni mætti Jehóva+ honum og ætlaði að drepa hann.*+ 25 Sippóra+ tók þá tinnustein,* umskar son sinn, lét forhúðina snerta fætur hans og sagði: „Þú ert blóðbrúðgumi minn.“ 26 Guð lét hann þá fara. Það var vegna umskurðarins sem hún sagði „blóðbrúðgumi“.

27 Jehóva sagði nú við Aron: „Farðu út í óbyggðirnar til móts við Móse.“+ Hann fór og mætti honum við fjall hins sanna Guðs+ og heilsaði honum með kossi. 28 Móse sagði Aroni frá öllu sem Jehóva hafði sagt honum+ og frá öllum táknunum sem hann hafði falið honum að gera.+ 29 Síðan fóru Móse og Aron og kölluðu saman alla öldunga Ísraelsmanna.+ 30 Aron sagði þeim frá öllu sem Jehóva hafði sagt við Móse og hann gerði táknin+ í augsýn fólksins. 31 Þá trúði fólkið.+ Þegar það heyrði að Jehóva hefði beint athygli sinni að Ísraelsmönnum+ og séð hvernig þeir þjáðust+ kraup það á kné og féll fram.

5 Eftir þetta gengu Móse og Aron inn til faraós og sögðu: „Þetta segir Jehóva Guð Ísraels: ‚Leyfðu fólki mínu að fara svo að það geti haldið mér hátíð í óbyggðunum.‘“ 2 Faraó svaraði: „Hver er Jehóva?+ Á ég að hlýða honum og leyfa Ísrael að fara?+ Ég þekki engan Jehóva og ég læt Ísrael alls ekki fara.“+ 3 En þeir sögðu: „Guð Hebrea hefur talað við okkur. Leyfðu okkur að fara í þriggja daga ferð* út í óbyggðirnar og færa Jehóva Guði okkar fórnir.+ Annars refsar hann okkur með sjúkdómum eða sverði.“ 4 Konungur Egyptalands svaraði þeim: „Móse og Aron, hvers vegna ætlið þið að taka fólkið úr vinnu? Farið aftur að vinna!“+ 5 Og faraó hélt áfram: „Þið sjáið hve margir verkamenn eru í landinu, og þið viljið láta þá taka sér frí frá vinnunni.“

6 Sama dag skipaði faraó þrælastjórunum og verkstjórum fólksins: 7 „Þið skuluð ekki lengur sjá fólkinu fyrir hálmi í múrsteinana.+ Látið það sjálft fara og safna hálmi. 8 Þið eigið samt að krefjast þess að það framleiði jafn marga múrsteina og áður. Dragið ekki úr framleiðslunni. Fólkið er latt. Þess vegna hrópar það: ‚Við viljum fara, við viljum færa Guði okkar fórnir!‘ 9 Heimtið meiri vinnu af fólkinu og haldið því uppteknu svo að það hlusti ekki á lygar.“

10 Þrælastjórarnir+ og verkstjórarnir gengu þá út og sögðu við fólkið: „Faraó segir: ‚Ég gef ykkur ekki meiri hálm. 11 Farið sjálf og sækið ykkur hálm hvar sem þið getið fundið hann en framleiðið samt jafn mikið og áður.‘“ 12 Þá dreifði fólkið sér um allt Egyptaland og safnaði stönglum til að nota í hálm. 13 Þrælastjórarnir ráku á eftir því og sögðu: „Þið þurfið að framleiða jafn mikið á dag og þið gerðuð áður, á meðan þið fenguð hálm.“ 14 Verkstjórar Ísraelsmanna, sem þrælastjórar faraós höfðu sett yfir þá, voru barðir.+ Þrælastjórarnir spurðu þá: „Af hverju gerið þið ekki jafn marga múrsteina og áður? Ykkur tókst það hvorki í gær né í dag.“

15 Verkstjórar Ísraelsmanna gengu nú inn til faraós og kvörtuðu: „Hvers vegna ferðu svona með þjóna þína? 16 Þjónar þínir fá engan hálm en samt er sagt við okkur: ‚Búið til múrsteina!‘ Þjónar þínir eru barðir þó að þetta sé þínu eigin fólki að kenna.“ 17 En hann svaraði: „Þið eruð letingjar og nennið engu!+ Þess vegna segið þið: ‚Við viljum fara, við viljum færa Jehóva fórnir.‘+ 18 Farið nú. Haldið áfram að vinna! Þið fáið engan hálm en eigið samt að framleiða jafn marga múrsteina og áður.“

19 Þá sáu verkstjórar Ísraelsmanna að þeir voru í miklum vanda vegna skipunarinnar: „Þið megið ekki draga neitt úr daglegri framleiðslu múrsteina.“ 20 Þegar þeir komu út frá faraó hittu þeir Móse og Aron sem stóðu þar og biðu eftir þeim. 21 Verkstjórarnir sögðu strax: „Megi Jehóva sjá hvað þið hafið gert og dæma ykkur. Það er ykkur að kenna að faraó og þjónar hans fyrirlíta okkur* og þið hafið lagt sverð í hendur þeirra til að drepa okkur.“+ 22 Þá sneri Móse sér til Jehóva og sagði: „Jehóva, hvers vegna ferðu svona illa með þetta fólk? Hvers vegna hefurðu sent mig? 23 Frá því að ég gekk fyrir faraó og talaði í þínu nafni+ hefur hann farið verr með þetta fólk en áður+ og þú hefur alls ekki frelsað fólk þitt.“+

6 Jehóva sagði þá við Móse: „Nú færðu að sjá hvað ég ætla að gera faraó.+ Með máttugri hendi þvinga ég hann til að láta fólk mitt fara, með máttugri hendi þvinga ég hann til að reka það út úr landinu.“+

2 Guð sagði síðan við Móse: „Ég er Jehóva. 3 Ég birtist Abraham, Ísak og Jakobi sem almáttugur Guð+ en undir nafni mínu, Jehóva,+ opinberaði ég mig ekki að fullu.+ 4 Ég gerði sáttmála við þá um að gefa þeim Kanaansland, landið þar sem þeir bjuggu sem útlendingar.+ 5 Nú hef ég heyrt hvernig Ísraelsmenn stynja, þeir sem Egyptar hafa hneppt í þrælkun, og ég man eftir sáttmála mínum.+

6 Þess vegna skaltu segja Ísraelsmönnum: ‚Ég er Jehóva og ég ætla að leysa ykkur undan byrðunum sem Egyptar lögðu á ykkur, frelsa ykkur úr þrælkuninni+ og endurheimta ykkur með útréttum* handlegg og miklum dómum.+ 7 Ég mun taka ykkur að mér. Þið verðið fólk mitt og ég verð Guð ykkar.+ Þið munuð skilja að ég er Jehóva Guð ykkar sem leysi ykkur undan byrðum Egypta. 8 Og ég ætla að leiða ykkur inn í landið sem ég sór þess eið* að gefa Abraham, Ísak og Jakobi, og ég gef ykkur það til eignar.+ Ég er Jehóva.‘“+

9 Móse flutti síðan Ísraelsmönnum þessi boð en þeir hlustuðu ekki á hann því að þeir voru kjarklausir og bugaðir af þrældóminum.+

10 Þá talaði Jehóva við Móse og sagði: 11 „Farðu inn til faraós Egyptalandskonungs og segðu honum að hann eigi að láta Ísraelsmenn fara úr landi sínu.“ 12 En Móse svaraði Jehóva: „Ísraelsmenn hlustuðu ekki á mig.+ Hvers vegna ætti þá faraó að hlusta á mig, þennan stirðmælta mann?“*+ 13 Jehóva endurtók þá við Móse og Aron þau fyrirmæli sem þeir áttu að gefa Ísraelsmönnum og faraó konungi Egyptalands svo að Ísraelsmenn yrðu leiddir út úr Egyptalandi.

14 Þetta eru ættarhöfðingjar Ísraelsmanna: Synir Rúbens frumburðar Ísraels+ voru Hanok, Pallú, Hesrón og Karmí.+ Þetta eru ættirnar sem eru komnar af Rúben.

15 Synir Símeons voru Jemúel, Jamín, Óhad, Jakín, Sóhar og Sál, sonur kanverskrar konu.+ Þetta eru ættirnar sem eru komnar af Símeon.

16 Þetta eru nöfn sona Leví+ sem ættir Levítanna eru komnar af: Gerson, Kahat og Merarí.+ Leví varð 137 ára gamall.

17 Synir Gersons, sem urðu ættarhöfðingjar, voru Libní og Símeí.+

18 Synir Kahats voru Amram, Jísehar, Hebron og Ússíel.+ Kahat varð 133 ára gamall.

19 Synir Merarí voru Mahelí og Músí.

Þetta eru ættir Levítanna eftir ættartölum þeirra.+

20 Amram tók sér Jókebed föðursystur sína fyrir eiginkonu.+ Þau eignuðust Aron og Móse.+ Amram varð 137 ára gamall.

21 Synir Jísehars voru Kóra,+ Nefeg og Síkrí.

22 Synir Ússíels voru Mísael, Elsafan+ og Sítrí.

23 Aron tók sér Elísebu dóttur Ammínadabs, systur Naksons,+ fyrir eiginkonu. Þau eignuðust Nadab, Abíhú, Eleasar og Ítamar.+

24 Synir Kóra voru Assír, Elkana og Abíasaf.+ Þetta eru ættir Kóraíta.+

25 Eleasar+ sonur Arons tók sér eina af dætrum Pútíels fyrir eiginkonu. Þau eignuðust Pínehas.+

Þetta eru ættarhöfðingjar Levítanna, ætt fyrir ætt.+

26 Þetta eru ættir þeirra Arons og Móse sem Jehóva sagði við: „Leiðið Ísraelsmenn út úr Egyptalandi, hverja fylkinguna af annarri.“*+ 27 Það voru þeir, Móse og Aron, sem töluðu við faraó Egyptalandskonung um að leiða Ísraelsmenn út úr Egyptalandi.+

28 Daginn sem Jehóva talaði við Móse í Egyptalandi 29 sagði Jehóva við hann: „Ég er Jehóva. Segðu faraó konungi Egyptalands allt sem ég segi við þig.“ 30 Þá sagði Móse frammi fyrir Jehóva: „Ég er stirðmæltur maður.* Hvers vegna ætti faraó að hlusta á mig?“+

7 Jehóva sagði þá við Móse: „Ég hef gert þig að Guði gagnvart faraó og Aron bróðir þinn verður spámaður þinn.+ 2 Þú skalt endurtaka allt sem ég segi þér og Aron bróðir þinn á að tala við faraó svo að hann láti Ísraelsmenn fara úr landi sínu. 3 Ég leyfi faraó að verða þrjóskur í hjarta+ og ég mun gera mörg tákn og kraftaverk í Egyptalandi.+ 4 Faraó á ekki eftir að hlusta á ykkur en ég mun leggja hönd mína á Egyptaland og leiða fjölmenna þjóð mína,* Ísraelsmenn, út úr Egyptalandi með þungum dómum.+ 5 Og Egyptar munu skilja að ég er Jehóva+ þegar ég rétti út hönd mína gegn Egyptalandi og leiði Ísraelsmenn burt þaðan.“ 6 Móse og Aron fylgdu fyrirmælum Jehóva. Þeir gerðu það í einu og öllu. 7 Móse var 80 ára og Aron 83 þegar þeir töluðu við faraó.+

8 Jehóva sagði nú við Móse og Aron: 9 „Ef faraó segir við ykkur: ‚Vinnið kraftaverk,‘ segðu þá Aroni að taka staf sinn og kasta honum niður frammi fyrir faraó. Hann verður þá að stórri slöngu.“+ 10 Móse og Aron gengu inn til faraós og gerðu alveg eins og Jehóva hafði sagt þeim. Aron kastaði staf sínum frammi fyrir faraó og þjónum hans og hann varð að stórri slöngu. 11 En faraó lét kalla á vitringana og galdramennina, og galdraprestar Egyptalands+ gerðu hið sama með göldrum sínum.+ 12 Þeir köstuðu allir stöfum sínum og þeir urðu að stórum slöngum en stafur Arons gleypti stafi þeirra. 13 Faraó var þó eftir sem áður þrjóskur í hjarta+ og hlustaði ekki á þá, rétt eins og Jehóva hafði sagt.

14 Þá sagði Jehóva við Móse: „Hjarta faraós er ósveigjanlegt.+ Hann neitar fólkinu um að fara. 15 Farðu til faraós í fyrramálið þegar hann gengur út að Níl. Farðu niður að fljótsbakkanum og bíddu eftir honum þar, og taktu með þér stafinn sem breyttist í slöngu.+ 16 Þú skalt segja við hann: ‚Jehóva Guð Hebrea hefur sent mig til þín+ og hann segir: „Leyfðu fólki mínu að fara svo að það geti þjónað mér í óbyggðunum,“ en þú hefur ekki hlýtt hingað til. 17 Þetta segir Jehóva: „Af þessu skaltu sjá að ég er Jehóva.+ Ég ætla að slá á vatnið í Nílarfljóti með stafnum í hendi minni og þá breytist það í blóð. 18 Fiskurinn í Níl mun drepast, ólykt verður af fljótinu og Egyptar geta með engu móti drukkið vatn úr því.“‘“

19 Síðan sagði Jehóva við Móse: „Segðu við Aron: ‚Taktu staf þinn og réttu út höndina yfir vatn Egyptalands,+ yfir fljót þess, skurði,* mýrar+ og yfir allar vatnsþrær svo að það verði að blóði.‘ Það verður blóð um allt Egyptaland, jafnvel í tré- og steinkerum.“ 20 Móse og Aron gerðu samstundis það sem Jehóva hafði sagt þeim. Aron lyfti stafnum og sló á vatnið í Níl fyrir augunum á faraó og þjónum hans, og allt vatnið í fljótinu breyttist í blóð.+ 21 Fiskurinn í Níl drapst,+ megna ólykt lagði af fljótinu og Egyptar gátu ekki drukkið vatn úr því.+ Það var blóð um allt Egyptaland.

22 En galdraprestar Egyptalands gerðu hið sama með göldrum sínum+ þannig að faraó var áfram þrjóskur í hjarta. Hann hlustaði ekki á Móse og Aron, rétt eins og Jehóva hafði sagt.+ 23 Faraó fór aftur heim til sín og gaf ekki heldur gaum að þessu. 24 Allir Egyptar grófu eftir drykkjarvatni meðfram Níl því að þeir gátu ekki drukkið vatn úr fljótinu. 25 Eftir að Jehóva breytti vatni Nílar í blóð liðu sjö heilir dagar.

8 Þá sagði Jehóva við Móse: „Farðu til faraós og segðu honum: ‚Þetta segir Jehóva: „Leyfðu fólki mínu að fara svo að það geti þjónað mér.+ 2 Ef þú neitar því um að fara sendi ég froskaplágu+ yfir allt yfirráðasvæði þitt. 3 Nílarfljót verður morandi af froskum og þeir koma upp úr vatninu og inn í hús þitt og svefnherbergi, upp í rúm þitt, inn í hús þjóna þinna og á fólk þitt, inn í ofna þína og ofan í deigtrog þín.*+ 4 Froskarnir munu skríða á þér, fólki þínu og öllum þjónum þínum.“‘“

5 Eftir það sagði Jehóva við Móse: „Segðu við Aron: ‚Réttu staf þinn út yfir fljótin, áveituskurði Nílar og mýrarnar, og láttu froskana koma yfir Egyptaland.‘“ 6 Aron rétti þá höndina út yfir vatn Egyptalands og froskarnir komu upp úr vatninu og þöktu landið. 7 En galdraprestarnir beittu dulrænum hæfileikum sínum til að gera hið sama og létu einnig koma froska yfir Egyptaland.+ 8 Faraó lét þá kalla á Móse og Aron og sagði: „Biðjið Jehóva að losa mig og þjóð mína við froskana+ því að ég ætla að láta fólkið fara svo að það geti fært Jehóva fórnir.“ 9 Þá sagði Móse við faraó: „Ég eftirlæt þér að ákveða hvenær ég á að biðja þess að froskarnir hverfi frá þér, þjónum þínum og fólki þínu og úr húsum þínum. Þeir verða þá hvergi eftir nema í Níl.“ 10 „Á morgun,“ svaraði faraó. Þá sagði Móse: „Það verður eins og þú segir til að þú vitir að enginn er eins og Jehóva Guð okkar.+ 11 Froskarnir munu hverfa frá þér, húsum þínum, þjónum þínum og fólki þínu. Þeir verða hvergi eftir nema í Níl.“+

12 Móse og Aron gengu þá út frá faraó, og Móse bað til Jehóva vegna froskanna sem hann hafði látið koma yfir faraó.+ 13 Jehóva gerði eins og Móse bað hann um og froskarnir drápust í húsunum, görðunum og um víðan völl. 14 Menn hrúguðu þeim saman í ótal hauga og megn ólykt lagðist yfir landið. 15 Þegar faraó sá að plágunni linnti herti hann hjarta sitt+ og hlustaði ekki á Móse og Aron, rétt eins og Jehóva hafði sagt.

16 Jehóva sagði nú við Móse: „Segðu við Aron: ‚Réttu út staf þinn og sláðu á jörðina og rykið skal verða að mýflugum um allt Egyptaland.‘“ 17 Þeir gerðu þetta. Aron rétti út staf sinn, sló á jörðina og rykið varð að mýflugum sem lögðust á menn og skepnur. Allt ryk á jörðinni breyttist í mýflugur um allt Egyptaland.+ 18 Galdraprestarnir reyndu að leika þetta eftir og beita dulrænum hæfileikum sínum+ til að kalla fram mýflugur en tókst það ekki. Mýflugurnar lögðust bæði á menn og skepnur. 19 Þá sögðu galdraprestarnir við faraó: „Þetta er fingur Guðs!“+ En faraó var áfram þrjóskur í hjarta. Hann hlustaði ekki á Móse og Aron, rétt eins og Jehóva hafði sagt.

20 Jehóva sagði nú við Móse: „Farðu á fætur snemma í fyrramálið og gakktu fyrir faraó þegar hann kemur niður að fljótinu. Segðu við hann: ‚Þetta segir Jehóva: „Leyfðu fólki mínu að fara svo að það geti þjónað mér. 21 Ef þú leyfir ekki fólki mínu að fara sendi ég broddflugur* yfir þig og þjóna þína, yfir fólk þitt og í hús þín. Hús Egypta skulu fyllast af broddflugum og þær munu jafnvel þekja jörðina sem þeir standa á. 22 Þann dag mun ég undanskilja Gósenland þar sem fólk mitt býr. Þar verða engar broddflugur+ og þannig skaltu vita að ég, Jehóva, er hér í landinu.+ 23 Ég geri greinarmun á mínu fólki og þínu. Þetta tákn kemur fram á morgun.“‘“

24 Og Jehóva gerði þetta. Hús faraós og þjóna hans fylltust af broddflugum og allt Egyptaland varð morandi af þeim.+ Broddflugurnar ollu miklu tjóni í landinu.+ 25 Að lokum lét faraó kalla á Móse og Aron og sagði: „Farið og færið Guði ykkar fórnir hér í landinu.“ 26 En Móse svaraði: „Það er ekki við hæfi vegna þess að það sem við ætlum að færa Jehóva Guði okkar að fórn er viðbjóðslegt í augum Egypta.+ Myndu Egyptar ekki grýta okkur ef þeir horfðu á okkur færa fórn sem þeir hafa viðbjóð á? 27 Við ætlum að fara í þriggja daga ferð* út í óbyggðirnar og þar ætlum við að færa Jehóva Guði okkar fórnir eins og hann hefur sagt okkur að gera.“+

28 Þá sagði faraó: „Ég ætla að leyfa ykkur að fara og færa Jehóva Guði ykkar fórnir í óbyggðunum. En þið megið ekki fara svona langt. Biðjið nú fyrir mér.“+ 29 Móse svaraði: „Nú geng ég burt frá þér. Ég skal biðja til Jehóva og á morgun munu broddflugurnar hverfa frá faraó, þjónum hans og fólki. En faraó verður að hætta að gabba* okkur með því að neita fólkinu um leyfi til að fara og færa Jehóva fórnir.“+ 30 Móse gekk síðan út frá faraó og bað til Jehóva.+ 31 Jehóva gerði eins og Móse bað um og broddflugurnar hurfu frá faraó, þjónum hans og fólki. Ekki ein einasta varð eftir. 32 En faraó herti hjarta sitt á ný og leyfði fólkinu ekki að fara.

9 Jehóva sagði nú við Móse: „Farðu til faraós og segðu honum: ‚Þetta segir Jehóva Guð Hebrea: „Leyfðu fólki mínu að fara svo að það geti þjónað mér.+ 2 En ef þú heldur því föstu og neitar því um að fara 3 lætur Jehóva+ plágu koma yfir búfé þitt í haganum. Ógurleg plága+ mun leggjast á hesta, asna, úlfalda, nautgripi og sauðfé. 4 Jehóva gerir þá greinarmun á búfé Ísraelsmanna og búfé Egypta, og ekkert sem tilheyrir Ísraelsmönnum mun deyja.“‘“+ 5 Jehóva tiltók líka ákveðinn tíma og sagði: „Á morgun mun ég, Jehóva, gera þetta í landinu.“

6 Daginn eftir gerði Jehóva eins og hann hafði sagt og alls konar búfé hjá Egyptum drapst,+ en engin skepna drapst hjá Ísraelsmönnum. 7 Þegar faraó spurðist fyrir komst hann að því að ekki ein einasta skepna hjá Ísraelsmönnum hafði drepist. En hjarta faraós var ósveigjanlegt eins og áður og hann leyfði fólkinu ekki að fara.+

8 Jehóva sagði þá við Móse og Aron: „Takið handfylli af ösku úr brennsluofni. Móse á að kasta henni upp í loftið fyrir framan faraó. 9 Hún verður að fínu ryki um allt Egyptaland sem verður síðan að graftarkýlum á mönnum og skepnum um allt landið.“

10 Þeir tóku þá ösku úr brennsluofni og gengu fyrir faraó. Móse kastaði henni upp í loftið og hún varð að graftarkýlum á mönnum og skepnum. 11 Galdraprestarnir gátu ekki gengið fyrir Móse vegna kýlanna því að þeir voru útsteyptir í kýlum eins og allir aðrir Egyptar.+ 12 En Jehóva leyfði faraó að vera þrjóskur í hjarta og hann hlustaði ekki á þá, rétt eins og Jehóva hafði sagt Móse.+

13 Jehóva sagði nú við Móse: „Farðu á fætur snemma í fyrramálið, gakktu fyrir faraó og segðu við hann: ‚Þetta segir Jehóva Guð Hebrea: „Leyfðu fólki mínu að fara svo að það geti þjónað mér. 14 Nú sendi ég allar plágur mínar yfir þig, þjóna þína og fólk þitt til að þú vitir að enginn er eins og ég á allri jörðinni.+ 15 Ég hefði nú þegar getað rétt út hönd mína og slegið þig og fólk þitt með ógurlegri plágu og afmáð þig af jörðinni. 16 En ég hef látið þig halda lífi af þessari ástæðu: Ég vildi sýna þér mátt minn og láta boða nafn mitt um alla jörðina.+ 17 Ertu enn þá hrokafullur og neitar fólki mínu um að fara? 18 Um þetta leyti á morgun læt ég þvílíka haglhríð dynja yfir að annað eins hefur ekki gerst í Egyptalandi frá því að landið varð til. 19 Sendu því út boð um að koma öllu búfé þínu og öllu sem þú átt undir berum himni í skjól. Allir menn og allar skepnur sem verða eftir úti og ekki er komið í hús munu deyja þegar haglið dynur á þeim.“‘“

20 Allir þjónar faraós sem virtu orð Jehóva flýttu sér að koma þjónum sínum og búfé í hús 21 en þeir sem tóku ekki mark á orðum Jehóva létu þjóna sína og búfé vera eftir úti.

22 Jehóva sagði við Móse: „Lyftu hendi þinni til himins svo að hagl dynji á öllu Egyptalandi,+ á mönnum og skepnum og öllum gróðri jarðar.“+ 23 Móse lyfti þá staf sínum til himins og Jehóva lét koma þrumur og hagl og eldur* féll niður á jörðina. Jehóva lét haglið bylja á Egyptalandi. 24 Haglið dundi og eldur blossaði innan um haglið. Hríðin var mjög öflug svo að annað eins hafði aldrei sést í sögu Egyptalands.+ 25 Haglið drap allt sem var undir berum himni í Egyptalandi, bæði menn og skepnur, og það lamdi niður allan gróður og braut öll tré.+ 26 Það var aðeins í Gósenlandi, þar sem Ísraelsmenn bjuggu, sem ekki kom hagl.+

27 Faraó lét nú kalla á Móse og Aron og sagði við þá: „Í þetta sinn hef ég syndgað. Jehóva er réttlátur en það sem ég og fólk mitt höfum gert er rangt. 28 Biðjið Jehóva um að láta þrumuveðrinu og haglinu linna. Þá skal ég leyfa ykkur að fara og þið þurfið ekki að vera hér lengur.“ 29 Móse svaraði: „Um leið og ég fer út úr borginni skal ég lyfta höndum í bæn til Jehóva. Þá slotar þrumuveðrinu og haglinu linnir til að þú vitir að jörðin tilheyrir Jehóva.+ 30 En ég veit að þú og þjónar þínir munuð ekki einu sinni þá óttast Jehóva Guð.“

31 Hör og bygg hafði lamist niður því að öx voru komin á byggið og knappar á hörinn. 32 En hveiti og spelt hafði ekki lamist niður því að það þroskast seinna.* 33 Móse gekk nú burt frá faraó og út úr borginni. Hann lyfti höndum í bæn til Jehóva, þrumuveðrinu og haglinu slotaði og steypiregninu linnti.+ 34 Þegar faraó sá að regninu, haglinu og þrumuveðrinu linnti syndgaði hann aftur og herti hjarta sitt,+ bæði hann og þjónar hans. 35 Faraó var áfram þrjóskur í hjarta og leyfði Ísraelsmönnum ekki að fara, rétt eins og Jehóva hafði látið Móse segja.+

10 Þá sagði Jehóva við Móse: „Farðu til faraós því að ég hef leyft að hjarta hans og hjörtu þjóna hans verði ósveigjanleg+ til að ég geti gert þessi tákn mín frammi fyrir honum,+ 2 og til að þú getir sagt börnum þínum og barnabörnum hve harðlega ég hef refsað Egyptum og hvaða tákn ég hef gert meðal þeirra.+ Þið munuð skilja að ég er Jehóva.“

3 Móse og Aron gengu þá inn til faraós og sögðu við hann: „Þetta segir Jehóva Guð Hebrea: ‚Hve lengi ætlarðu að neita að lúta vilja mínum?+ Leyfðu fólki mínu að fara svo að það geti þjónað mér. 4 Ef þú neitar fólki mínu um að fara sendi ég engisprettur inn í land þitt á morgun. 5 Þær munu þekja landið svo að ekki sést til jarðar. Þær munu éta það sem eftir er og eyðilagðist ekki í haglinu og þær munu éta öll tré sem vaxa á víðavangi.+ 6 Hús þín, hús allra þjóna þinna og öll hús Egyptalands munu fyllast af þeim. Hvorki feður þínir né forfeður hafa nokkurn tíma séð annað eins.‘“+ Síðan sneri hann sér við og gekk út frá faraó.

7 Þá sögðu þjónar faraós við hann: „Hve lengi á þessi maður að hafa í hótunum við* okkur? Láttu mennina fara svo að þeir geti þjónað Jehóva Guði sínum. Ertu ekki búinn að átta þig á að Egyptaland er í rúst?“ 8 Móse og Aron voru nú sóttir og leiddir fyrir faraó. Hann sagði: „Farið og þjónið Jehóva Guði ykkar. En hverjir ætla annars að fara?“ 9 „Bæði ungir og gamlir,“ svaraði Móse. „Við tökum með okkur syni okkar og dætur og sauðfé og nautgripi+ því að við ætlum að halda Jehóva hátíð.“+ 10 En faraó sagði: „Ef ég leyfði ykkur og börnum ykkar að fara mætti með sanni segja að Jehóva standi með ykkur!+ Það er augljóst að þið hafið eitthvað illt í hyggju. 11 Ég held nú síður! Aðeins karlmennirnir mega fara og þjóna Jehóva því að það er það sem þið báðuð um.“ Síðan voru þeir reknir út frá faraó.

12 Jehóva sagði nú við Móse: „Réttu út hönd þína yfir Egyptaland svo að engispretturnar komi yfir landið og éti allan gróður, allt sem haglið skildi eftir.“ 13 Móse rétti strax staf sinn út yfir Egyptaland og Jehóva lét austanvind blása yfir landið allan þann dag og alla nóttina. Með morgninum bar austanvindurinn með sér engispretturnar. 14 Þær dreifðust um allt Egyptaland og lögðust yfir allt landið.+ Þetta var skelfileg plága.+ Aldrei áður hafði komið þvílíkur aragrúi af engisprettum og það átti aldrei eftir að gerast aftur. 15 Þær þöktu allt landið og það varð dimmt vegna þeirra.* Þær átu allan gróður í landinu og allan ávöxt sem var eftir á trjánum eftir haglið. Ekkert grænt varð eftir á trjám eða plöntum neins staðar í Egyptalandi.

16 Faraó kallaði í skyndi á Móse og Aron og sagði: „Ég hef syndgað gegn Jehóva Guði ykkar og gegn ykkur. 17 Fyrirgefið mér synd mína í þetta eina skipti og biðjið Jehóva Guð ykkar að létta þessari banvænu plágu af mér.“ 18 Hann* gekk þá út frá faraó og bað til Jehóva.+ 19 Jehóva lét nú vindinn snúast í hvassa vestanátt sem bar engispretturnar burt og feykti þeim í Rauðahafið. Ekki ein einasta engispretta varð eftir nokkurs staðar í Egyptalandi. 20 En Jehóva leyfði faraó að verða þrjóskur í hjarta+ og hann lét Ísraelsmenn ekki fara.

21 Því næst sagði Jehóva við Móse: „Réttu út höndina til himins svo að myrkur verði í Egyptalandi, svo þétt að þreifa megi á því.“ 22 Móse rétti höndina samstundis til himins og þá varð niðamyrkur um allt Egyptaland í þrjá daga.+ 23 Menn sáu ekki hver annan og enginn fór neitt í þrjá daga, en þar sem Ísraelsmenn bjuggu var bjart.+ 24 Faraó lét þá kalla á Móse og sagði: „Farið og þjónið Jehóva.+ Þið megið meira að segja taka börnin með ykkur. Skiljið bara eftir sauðfé ykkar og nautgripi.“ 25 En Móse svaraði: „Þú verður líka að sjá okkur fyrir dýrum* til að við getum fært Jehóva Guði okkar sláturfórnir og brennifórnir.+ 26 Við tökum búfé okkar með okkur. Við skiljum ekki eftir eina einustu skepnu* því að við ætlum að fórna sumum þeirra þegar við tilbiðjum Jehóva Guð okkar en við vitum ekki hvað við eigum að færa Jehóva að fórn fyrr en við komum þangað.“ 27 Jehóva leyfði faraó aftur að verða þrjóskur í hjarta og hann féllst ekki á að leyfa þeim að fara.+ 28 Faraó sagði við hann: „Komdu þér burt! Þú skalt ekki voga þér að ganga aftur á minn fund. Ef þú gerir það skaltu deyja.“ 29 „Eins og þú vilt,“ svaraði Móse. „Ég skal ekki reyna að ganga aftur á þinn fund.“

11 Jehóva sagði við Móse: „Ég læt enn eina plágu ganga yfir faraó og Egyptaland. Eftir það leyfir hann ykkur að fara héðan.+ Þegar hann leyfir ykkur að fara mun hann bókstaflega reka ykkur út héðan.+ 2 Segðu nú fólkinu að karlar jafnt sem konur skuli biðja nágranna sína um gripi úr silfri og gulli.“+ 3 Jehóva lét Ísraelsmenn njóta velvildar Egypta. Móse naut líka mikillar virðingar í Egyptalandi, bæði meðal þjóna faraós og meðal fólksins.

4 Móse sagði síðan við faraó: „Þetta segir Jehóva: ‚Um miðnætti fer ég um Egyptaland.+ 5 Allir frumburðir í Egyptalandi munu þá deyja,+ frá frumburði faraós sem situr í hásæti sínu til frumburðar ambáttarinnar sem vinnur við kvörnina, og eins allir frumburðir búfénaðarins.+ 6 Um allt Egyptaland verður svo mikið harmakvein að annað eins hefur aldrei heyrst og mun aldrei heyrast aftur.+ 7 En ekki svo mikið sem hundur mun gelta* að Ísraelsmönnum, hvorki að mönnum né skepnum þeirra, til að þið vitið að Jehóva getur gert greinarmun á Egyptum og Ísraelsmönnum.‘+ 8 Allir þjónar þínir munu koma til mín, falla fram fyrir mér og segja: ‚Farið, þú og allir sem fylgja þér.‘+ Eftir það fer ég burt.“ Síðan gekk hann bálreiður út frá faraó.

9 Jehóva sagði nú við Móse: „Faraó mun ekki hlusta á þig+ en það verður til þess að enn fleiri kraftaverk mín sjást í Egyptalandi.“+ 10 Móse og Aron unnu öll þessi kraftaverk frammi fyrir faraó+ en Jehóva leyfði honum að vera þrjóskur í hjarta þannig að hann lét Ísraelsmenn ekki fara burt úr landinu.+

12 Jehóva sagði nú við Móse og Aron í Egyptalandi: 2 „Þessi mánuður verður upphafsmánuður hjá ykkur. Hann verður fyrsti mánuður ársins hjá ykkur.+ 3 Segðu öllum söfnuði Ísraelsmanna: ‚Á tíunda degi þessa mánaðar á hver og einn að taka frá lamb+ handa fjölskyldu sinni, eitt lamb fyrir hvert heimili. 4 En ef fjölskyldan er of lítil fyrir heilt lamb skal hún* og næsta nágrannafjölskylda skipta með sér lambi eftir fjölda og borða það saman. Takið mið af því hve mikið af lambinu hvor fjölskylda borðar. 5 Lambið skal vera heilbrigður+ veturgamall hrútur. Í staðinn fyrir lamb má einnig velja kiðling. 6 Þið skuluð annast skepnuna fram að 14. degi þessa mánaðar+ og hver fjölskylda meðal Ísraelsmanna skal slátra henni í ljósaskiptunum.*+ 7 Ísraelsmenn skulu taka dálítið af blóðinu og sletta því á báða dyrastafina og þverbitann yfir dyrum hússins þar sem þeir borða hana.+

8 Þeir eiga að borða kjötið þessa sömu nótt.+ Þeir skulu steikja það yfir eldi og borða það með ósýrðu brauði+ og beiskum jurtum.+ 9 Borðið ekkert af því hrátt eða soðið í vatni heldur steikið skepnuna yfir eldi með haus, skönkum og innyflum. 10 Þið megið ekki geyma neitt af kjötinu til morguns en ef eitthvað er afgangs næsta morgun skuluð þið brenna það í eldi.+ 11 Þið skuluð vera með belti* um lendar, sandala á fótum og staf í hendi þegar þið borðið það. Og borðið það í flýti. Þetta eru páskar Jehóva. 12 Ég fer um Egyptaland þessa nótt og bana öllum frumburðum í landinu, bæði mönnum og skepnum,+ og ég fullnægi dómi yfir öllum guðum Egyptalands.+ Ég er Jehóva. 13 Blóðið verður merki á húsunum þar sem þið eruð. Ég mun sjá blóðið og fara fram hjá ykkur, og plágan nær ekki til ykkar til að tortíma ykkur þegar ég slæ Egyptaland.+

14 Þessi dagur verður minningardagur hjá ykkur og þið skuluð halda hann hátíðlegan til heiðurs Jehóva kynslóð eftir kynslóð. Þetta er varanlegt ákvæði sem ykkur ber að halda. 15 Þið skuluð borða ósýrt brauð í sjö daga.+ Fyrsta daginn eigið þið að fjarlægja súrdeig úr húsum ykkar því að ef einhver borðar eitthvað sýrt frá fyrsta degi til hins sjöunda skal útrýma honum úr Ísrael. 16 Fyrsta daginn skuluð þið halda heilaga samkomu og sjöunda daginn sömuleiðis. Þessa daga má ekki vinna nein verk.+ Aðeins má elda það sem hver og einn þarf til að borða.

17 Þið skuluð halda hátíð ósýrðu brauðanna+ því að einmitt á þessum degi leiði ég ykkur öll* út úr Egyptalandi. Það er varanlegt ákvæði að þið haldið þennan dag hátíðlegan kynslóð eftir kynslóð. 18 Þið skuluð borða ósýrt brauð frá kvöldi 14. dags fyrsta mánaðarins til 21. dags mánaðarins að kvöldi.+ 19 Ekkert súrdeig má fyrirfinnast í húsum ykkar í sjö daga því að ef einhver borðar eitthvað sýrt, hvort heldur útlendingur eða heimamaður í landinu,+ skal útrýma honum úr söfnuði Ísraels.+ 20 Þið megið ekki borða neitt sem er sýrt. Þið eigið að borða ósýrt brauð á öllum heimilum ykkar.‘“

21 Móse kallaði tafarlaust saman alla öldunga Ísraels+ og sagði við þá: „Farið hver og einn og veljið unga skepnu* handa fjölskyldu ykkar og slátrið páskafórninni. 22 Dýfið síðan ísópsvendi í blóðið sem þið hafið safnað í skál og slettið því á þverbitann yfir dyrunum og á báða dyrastafina. Enginn ykkar má fara út um dyrnar á húsi sínu fyrr en að morgni. 23 Þegar Jehóva síðan fer um og slær Egypta með plágu og sér blóðið á þverbitanum og báðum dyrastöfunum fer Jehóva fram hjá dyrunum og lætur ekki hina banvænu plágu* koma inn í hús ykkar.+

24 Þið eigið að halda upp á þennan atburð. Þetta er regla sem ykkur og börnum ykkar ber að fylgja til frambúðar.+ 25 Þið skuluð halda þessa hátíð þegar þið komið inn í landið sem Jehóva gefur ykkur eins og hann hefur lofað.+ 26 Og þegar börn ykkar spyrja: ‚Hvað merkir þessi hátíð?‘+ 27 skuluð þið svara: ‚Þetta er páskafórn handa Jehóva sem fór fram hjá húsum Ísraelsmanna í Egyptalandi þegar hann sló Egypta með plágu en hlífði heimilum okkar.‘“

Þá kraup fólkið og féll á grúfu. 28 Ísraelsmenn fóru og fylgdu fyrirmælum Jehóva sem hann hafði gefið Móse og Aroni.+ Þeir gerðu það í einu og öllu.

29 Um miðnætti banaði Jehóva öllum frumburðum í Egyptalandi,+ frá frumburði faraós sem sat í hásæti sínu til frumburðar fangans í fangelsinu,* og eins öllum frumburðum skepnanna.+ 30 Faraó fór á fætur um nóttina ásamt öllum þjónum sínum og öllum öðrum Egyptum. Mikið harmakvein varð meðal Egypta því að hvergi var hús þar sem enginn var dáinn.+ 31 Hann lét kalla á Móse og Aron+ strax um nóttina og sagði: „Farið! Farið burt frá þjóð minni, bæði þið og aðrir Ísraelsmenn. Farið og þjónið Jehóva eins og þið hafið talað um.+ 32 Takið með ykkur sauðfé ykkar, geitur og nautgripi eins og þið hafið talað um.+ En þið verðið líka að blessa mig.“

33 Egyptar fóru nú að reka á eftir fólkinu til að koma því fljótt+ út úr landinu. „Ef þið farið ekki deyjum við öll!“+ sögðu þeir. 34 Fólkið tók með sér brauðdeig sitt áður en það sýrðist. Það vafði deigtrogin* í skikkjur sínar og bar þau á öxlinni. 35 Ísraelsmenn gerðu eins og Móse hafði sagt þeim og báðu Egypta um gripi úr silfri og gulli og um fatnað.+ 36 Jehóva lét þá njóta velvildar Egypta svo að þeir gáfu þeim það sem þeir báðu um. Þannig rændu þeir Egypta.+

37 Ísraelsmenn héldu nú frá Ramses+ áleiðis til Súkkót.+ Þeir voru um 600.000 fótgangandi karlmenn* auk barna.*+ 38 Fjölmennur blandaður hópur*+ fór einnig með þeim ásamt miklum hjörðum sauðfjár, geita og nautgripa. 39 Þeir bökuðu kringlóttar ósýrðar flatkökur úr deiginu sem þeir höfðu tekið með sér frá Egyptalandi. Deigið var ósýrt af því að þeir höfðu verið reknir út úr Egyptalandi í slíkum flýti að þeir höfðu ekki náð að taka til vistir.+

40 Þegar Ísraelsmenn yfirgáfu Egyptaland höfðu þeir búið á erlendri grund+ í 430 ár.+ 41 Einmitt á þeim degi þegar 430 árunum lauk yfirgaf fjölmenn þjóð* Jehóva Egyptaland. 42 Þeir munu halda upp á að Jehóva skyldi leiða þá út úr Egyptalandi þessa nótt. Kynslóð eftir kynslóð eiga allir Ísraelsmenn að halda hátíð þessa nótt, Jehóva til heiðurs.+

43 Jehóva sagði nú við Móse og Aron: „Þetta er ákvæðið um páskana: Enginn útlendingur má borða af páskafórninni.+ 44 Ef einhver á þræl sem hann keypti fyrir fé á að umskera hann.+ Þá fyrst má þrællinn borða af henni. 45 Innflytjandi eða lausráðinn maður má ekki borða af henni. 46 Menn eiga að borða hana alla í sama húsi. Ekki má fara með neitt af kjötinu út úr húsinu og ekki má brjóta neitt bein skepnunnar.+ 47 Allur söfnuður Ísraels á að halda páska. 48 Ef útlendingur býr meðal ykkar og vill halda páska, Jehóva til heiðurs, skal umskera alla karla á heimili hans. Þá má hann halda páska og hann verður eins og innfæddur maður. En enginn óumskorinn maður má borða af páskafórninni.+ 49 Sömu lög gilda fyrir innfædda menn og útlendinga sem búa meðal ykkar.“+

50 Allir Ísraelsmenn fylgdu fyrirmælum Jehóva sem hann hafði gefið Móse og Aroni. Þeir gerðu það í einu og öllu. 51 Á þessum degi leiddi Jehóva alla Ísraelsmenn* út úr Egyptalandi.

13 Jehóva hélt áfram að tala til Móse og sagði: 2 „Helgaðu* mér alla karlkyns frumburði* meðal Ísraelsmanna. Það fyrsta sem fæðist, bæði af mönnum og skepnum, tilheyrir mér.“+

3 Móse sagði þá við fólkið: „Munið eftir þessum degi þegar þið fóruð frá Egyptalandi,+ úr þrælahúsinu, því að Jehóva leiddi ykkur út héðan með máttugri hendi.+ Þess vegna megið þið ekki borða neitt sem er sýrt. 4 Á þessum degi í abíbmánuði*+ farið þið út úr Egyptalandi. 5 Guð sór forfeðrum þínum að gefa þér+ land Kanverja, Hetíta, Amoríta, Hevíta og Jebúsíta,+ land sem flýtur í mjólk og hunangi.+ Þegar Jehóva hefur leitt ykkur inn í þetta land skuluð þið halda þessa hátíð í þessum mánuði. 6 Þú átt að borða ósýrt brauð+ í sjö daga og á sjöunda deginum skaltu halda hátíð, Jehóva til heiðurs. 7 Það á að borða ósýrt brauð þessa sjö daga.+ Ekkert sýrt má fyrirfinnast hjá þér+ og ekkert súrdeig vera til innan landamæra þinna. 8 Á þeim degi skaltu segja börnum þínum: ‚Ég geri þetta vegna þess sem Jehóva gerði fyrir mig þegar ég fór frá Egyptalandi.‘+ 9 Og þetta verður þér tákn á hendi þinni og merki til minningar á enni þínu*+ svo að lög Jehóva verði á vörum* þínum því að Jehóva leiddi þig út úr Egyptalandi með máttugri hendi. 10 Þú skalt halda þetta ákvæði á tilsettum tíma ár eftir ár.+

11 Þegar Jehóva leiðir þig inn í land Kanverja sem hann sór þér og forfeðrum þínum að gefa þér+ 12 skaltu gefa Jehóva alla frumgetna drengi* og alla karlkyns frumburði af búfé þínu sem þú eignast. Þeir tilheyra Jehóva.+ 13 Alla frumburði asna áttu að kaupa lausa með sauðkind en ef þú leysir þá ekki skaltu hálsbrjóta þá. Og alla frumgetna syni skaltu kaupa lausa.+

14 Ef börnin þín spyrja þig síðar: ‚Hvað merkir þetta?‘ skaltu svara þeim: ‚Jehóva leiddi okkur með máttugri hendi út úr Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.+ 15 Þegar faraó neitaði okkur með þrjósku um að fara+ banaði Jehóva öllum frumburðum í Egyptalandi, bæði frumburðum manna og skepna.+ Þess vegna færum við Jehóva alla karlkyns frumburði* að fórn og leysum alla frumgetna syni okkar.‘ 16 Þetta á að vera tákn á hendi þinni og enni*+ því að Jehóva leiddi okkur með máttugri hendi út úr Egyptalandi.“

17 Þegar faraó leyfði fólkinu að fara lét Guð það ekki fara leiðina um land Filistea þó að hún væri styst því að hann sagði: „Fólkið gæti skipt um skoðun og snúið aftur til Egyptalands þegar hætta er á átökum.“ 18 Guð lét því fólkið leggja lykkju á leið sína og fara um óbyggðirnar við Rauðahaf.+ Ísraelsmenn fóru fylktu liði út úr Egyptalandi. 19 Móse tók bein Jósefs með sér því að Jósef hafði látið afkomendur Ísraels sverja hátíðlegan eið og sagt: „Guð mun gefa ykkur gaum. Lofið mér að þið takið bein mín með ykkur héðan.“+ 20 Þeir fóru frá Súkkót og slógu upp tjöldum í Etam við útjaðar óbyggðanna.

21 Jehóva fór á undan þeim á daginn í skýstólpa til að vísa þeim veginn+ og um nætur í eldstólpa til að lýsa þeim svo að þeir gætu ferðast bæði að degi til og nóttu.+ 22 Skýstólpinn vék ekki frá fólkinu á daginn né eldstólpinn á nóttinni.+

14 Jehóva sagði nú við Móse: 2 „Segðu Ísraelsmönnum að snúa við og slá upp tjöldum gegnt Pí Hakírót, milli Migdól og sjávar, í sjónmáli við Baal Sefón.+ Þið eigið að tjalda við hafið. 3 Þá mun faraó segja um Ísraelsmenn: ‚Þeir ráfa um villtir í landinu. Þeir eru í sjálfheldu í óbyggðunum.‘ 4 Ég leyfi faraó að verða þrjóskur í hjarta.+ Hann mun elta þá og ég sýni hve mikilfenglegur ég er með því að sigra hann og allt herlið hans,+ og Egyptar munu skilja að ég er Jehóva.“+ Þá gerðu Ísraelsmenn þetta.

5 Skömmu síðar var konungi Egyptalands sagt að fólkið hefði flúið. Þá sáu faraó og þjónar hans eftir því að hafa leyft fólkinu að fara+ og sögðu: „Af hverju gerðum við þetta? Af hverju slepptum við Ísraelsmönnum, þrælum okkar?“ 6 Hann lét þá spenna fyrir stríðsvagna sína og lagði af stað með herlið sitt.+ 7 Hann hafði með sér 600 úrvalsvagna og alla aðra hervagna Egyptalands og setti hermenn á hvern þeirra. 8 Þannig leyfði Jehóva að faraó konungur Egyptalands yrði þrjóskur í hjarta svo að hann elti Ísraelsmenn, en þeir voru óhræddir á leið* burt úr landinu.+ 9 Egyptar eltu þá,+ og allir stríðsvagnar faraós, riddarar og hermenn náðu þeim þar sem þeir höfðu sett upp búðir sínar við hafið við Pí Hakírót á móts við Baal Sefón.

10 Þegar faraó nálgaðist komu Ísraelsmenn auga á Egyptana og sáu að þeir eltu þá. Þeir urðu skelfingu lostnir og hrópuðu til Jehóva.+ 11 Þeir sögðu við Móse: „Eru engir grafreitir til í Egyptalandi fyrst þú leiddir okkur hingað til að deyja í óbyggðunum?+ Hvað hefurðu gert okkur? Hvers vegna leiddirðu okkur út úr Egyptalandi? 12 Var það ekki einmitt þetta sem við sögðum þér í Egyptalandi: ‚Láttu okkur vera svo að við getum þjónað Egyptum‘? Það er betra að þjóna Egyptum en að deyja í óbyggðunum.“+ 13 Móse svaraði fólkinu: „Verið óhrædd.+ Standið kyrr og sjáið hvernig Jehóva bjargar ykkur í dag.+ Þessa Egypta sem þið sjáið í dag munuð þið aldrei sjá framar.+ 14 Jehóva mun sjálfur berjast fyrir ykkur+ en þið skuluð horfa á í hljóði.“

15 Jehóva sagði við Móse: „Hvers vegna hróparðu til mín? Segðu Ísraelsmönnum að halda af stað. 16 En þú skalt lyfta upp staf þínum, rétta höndina út yfir hafið og kljúfa það þannig að Ísraelsmenn geti gengið á þurru beint í gegnum hafið. 17 Ég leyfi Egyptum að verða þrjóskir í hjarta svo að þeir elti þá, og ég mun sýna hve mikilfenglegur ég er með því að sigra faraó, allt herlið hans og riddara og eyða stríðsvögnunum.+ 18 Egyptar munu skilja að ég er Jehóva þegar ég sýni hve mikilfenglegur ég er með því að sigra faraó og riddara hans og eyða stríðsvögnunum.“+

19 Engill hins sanna Guðs,+ sem fór á undan Ísraelsmönnum, færði sig nú aftur fyrir þá og skýstólpinn sem var fyrir framan þá sömuleiðis.+ 20 Hann var því á milli Egypta og Ísraelsmanna.+ Hann var dimmur öðrum megin en hinum megin lýsti hann upp nóttina.+ Egyptar nálguðust því ekki Ísraelsmenn alla nóttina.

21 Móse rétti nú höndina út yfir hafið+ og Jehóva lét hvassan austanvind blása alla nóttina og bægja sjónum burt. Hafið klofnaði+ og sjávarbotninn varð að þurrlendi.+ 22 Ísraelsmenn gengu á þurru beint í gegnum hafið+ en sjórinn stóð eins og veggur þeim til hægri handar og vinstri.+ 23 Egyptar eltu þá og allir hestar faraós, stríðsvagnar og riddarar fóru á eftir þeim út í hafið.+ 24 Á morgunvökunni* leit Jehóva yfir her Egypta úr eld- og skýstólpanum+ og hann olli ringulreið í herliðinu. 25 Hann lét hjólin losna af vögnum þeirra þannig að erfitt var að aka þeim. Egyptar sögðu þá: „Flýjum undan Ísraelsmönnum því að Jehóva berst fyrir þá gegn Egyptum.“+

26 Jehóva sagði nú við Móse: „Réttu höndina út yfir hafið þannig að sjórinn steypist yfir Egyptana, stríðsvagna þeirra og riddara.“ 27 Móse rétti samstundis höndina út yfir hafið og í dögun féll sjórinn aftur í eðlilegt horf. Þegar Egyptarnir lögðu á flótta steypti Jehóva þeim í hafið.+ 28 Sjórinn féll yfir stríðsvagnana, riddarana og allan her faraós sem hafði elt Ísraelsmenn út í hafið.+ Ekki einn einasti þeirra fékk að komast af.+

29 En Ísraelsmenn gengu á þurru eftir miðjum sjávarbotninum+ og sjórinn stóð eins og veggur þeim til hægri handar og vinstri.+ 30 Þannig bjargaði Jehóva Ísrael á þessum degi úr greipum Egypta+ og Ísraelsmenn sáu þá liggja dauða á ströndinni. 31 Þeir sáu þann mikla mátt* sem Jehóva beitti gegn Egyptum og fóru að óttast Jehóva og trúa á Jehóva og Móse þjón hans.+

15 Þá sungu Móse og Ísraelsmenn þennan lofsöng til Jehóva:+

„Ég vil lofsyngja Jehóva því að hann er hátt upp hafinn.+

Hestum og riddurum kastaði hann í hafið.+

 2 Jah* er styrkur minn og máttur því að hann hefur bjargað mér.+

Hann er Guð minn og ég lofa hann,+ Guð föður míns+ og ég upphef hann.+

 3 Jehóva er voldug stríðshetja.+ Jehóva er nafn hans.+

 4 Vögnum faraós og her hans varpaði hann í hafið+

og mestu stríðskappar hans sukku í Rauðahaf.+

 5 Ólgandi hafið huldi þá, þeir sukku eins og steinn í hafdjúpið.+

 6 Hægri hönd þín, Jehóva, er máttug,+

hægri hönd þín, Jehóva, getur kramið óvin.

 7 Í hátign þinni fellirðu þá sem rísa gegn þér.+

Þú úthellir brennandi reiði þinni, hún gleypir þá eins og hálm.

 8 Fyrir blæstri nasa þinna hlóðst sjórinn upp,

hann stóð kyrr eins og stífla,

ólgusjórinn stirðnaði í hjarta hafsins.

 9 Óvinurinn sagði: ‚Ég elti þá! Ég næ þeim!

Ég ætla að skipta herfangi þar til ég fæ nóg!

Ég dreg sverð úr slíðrum! Hönd mín mun yfirbuga þá!‘+

10 Þú blést á þá og hafið huldi þá,+

þeir sukku eins og blý í hafið mikla.

11 Hver á meðal guðanna er eins og þú, Jehóva?+

Hver er eins og þú sem ert heilagastur allra?+

Þú ert sá sem ber að óttast og lofa í söng, þú sem vinnur kraftaverk.+

12 Þú réttir út hægri hönd þína og jörðin gleypti þá.+

13 Í tryggum kærleika þínum leiddirðu fólkið sem þú leystir,+

með mætti þínum fylgirðu því til heilags bústaðar þíns.

14 Þjóðirnar skulu heyra,+ þær munu skjálfa,

angist* grípur íbúa Filisteu.

15 Þá skelfast furstar* Edóms

og ótti grípur máttuga valdhafa* Móabs.+

Íbúar Kanaans missa allir kjarkinn.+

16 Ótti og skelfing grípur þá.+

Vegna mikilleika þíns hreyfast þeir ekki frekar en steinn

þar til fólk þitt, Jehóva, er farið hjá,

þar til fólkið sem þú skapaðir+ er farið hjá.+

17 Þú leiðir þá inn og gróðursetur á fjallinu sem þú átt,+

á staðnum þar sem þú, Jehóva, hefur gert þér bústað,

helgidóm sem hendur þínar, Jehóva, hafa reist.

18 Jehóva ríkir sem konungur um alla eilífð.+

19 Þegar hestar faraós ásamt hervögnum hans og riddurum héldu út í hafið+

lét Jehóva sjóinn steypast yfir þá+

en Ísraelsmenn gengu á þurru beint í gegnum hafið.“+

20 Mirjam spákona, systir Arons, tók sér nú tambúrínu í hönd og allar konurnar fylgdu henni dansandi með tambúrínu í hendi. 21 Mirjam söng víxlsöng á móti mönnunum:

„Lofsyngjum Jehóva því að hann er hátt upp hafinn.+

Hestum og riddurum kastaði hann í hafið.“+

22 Eftir þetta leiddi Móse Ísraelsmenn burt frá Rauðahafinu og þeir héldu út í óbyggðir Súr. Þeir gengu í þrjá daga um óbyggðirnar en fundu ekkert vatn. 23 Þeir komu til Möru*+ en gátu ekki drukkið vatnið þar af því að það var beiskt. Þess vegna kallaði hann staðinn Möru. 24 Fólkið fór að kvarta við Móse+ og sagði: „Hvað eigum við að drekka?“ 25 Móse hrópaði til Jehóva+ og Jehóva vísaði honum á tré. Hann kastaði trénu í vatnið og þá varð það ferskt.

Þar setti Guð þeim ákvæði og fordæmi til að dæma eftir og þar reyndi hann þá.+ 26 Hann sagði: „Ef þú hlustar vel á Jehóva Guð þinn og gerir það sem er rétt í augum hans, heldur boðorð hans og fylgir öllum lögum hans+ þá legg ég ekki á þig neina af þeim sjúkdómum sem ég lagði á Egypta+ því að ég, Jehóva, lækna þig.“+

27 Síðan komu þeir til Elím en þar voru 12 uppsprettur og 70 pálmatré. Þeir tjölduðu þar við vatnið.

16 Allur söfnuður Ísraelsmanna fór frá Elím og kom að lokum til óbyggða Sín+ sem liggja milli Elím og Sínaí. Þetta var á 15. degi annars mánaðarins eftir að þeir yfirgáfu Egyptaland.

2 Allur söfnuður Ísraelsmanna fór nú að kvarta við Móse og Aron í óbyggðunum.+ 3 Ísraelsmenn sögðu við þá: „Bara að við hefðum dáið fyrir hendi Jehóva í Egyptalandi þar sem við sátum við kjötpottana+ og átum okkur södd af brauði. Nú hafið þið leitt okkur út í þessar óbyggðir til að láta alla þjóðina deyja úr hungri.“+

4 Þá sagði Jehóva við Móse: „Nú læt ég brauði rigna af himni handa ykkur+ og hver og einn á að fara á hverjum degi og safna eins miklu og hann þarf.+ Þannig ætla ég að reyna fólkið og sjá hvort það fylgir lögum mínum eða ekki.+ 5 En sjötta daginn+ á það að safna og elda helmingi meira en hina dagana.“+

6 Móse og Aron sögðu nú við alla Ísraelsmenn: „Í kvöld munuð þið skilja að það var Jehóva sem leiddi ykkur út úr Egyptalandi.+ 7 Í fyrramálið fáið þið að sjá dýrð Jehóva því að Jehóva hefur heyrt kvartanir ykkar gegn sér. Af hverju kvartið þið við okkur? Við erum ekki neitt.“ 8 Móse hélt áfram: „Í kvöld gefur Jehóva ykkur kjöt að borða og í fyrramálið brauð svo að þið getið borðað ykkur södd. Þá sjáið þið að Jehóva hefur heyrt ykkur kvarta, að þið kvartið yfir honum. En hverjir erum við? Kvartanir ykkar beinast ekki gegn okkur heldur gegn Jehóva.“+

9 Síðan sagði Móse við Aron: „Segðu við allan söfnuð Ísraelsmanna: ‚Gangið fram fyrir Jehóva því að hann hefur heyrt ykkur kvarta.‘“+ 10 Um leið og Aron sleppti orðinu sneri allur söfnuður Ísraelsmanna sér í átt að óbyggðunum og dýrð Jehóva birtist í skýinu.+

11 Jehóva sagði síðan við Móse: 12 „Ég hef heyrt Ísraelsmenn kvarta.+ Segðu þeim: ‚Í ljósaskiptunum* fáið þið kjöt að borða og í fyrramálið borðið þið ykkur södd af brauði.+ Þá skiljið þið að ég er Jehóva Guð ykkar.‘“+

13 Um kvöldið komu kornhænsn og þöktu búðirnar+ og um morguninn lá dögg yfir öllu umhverfis búðirnar. 14 Þegar döggin gufaði upp lá lag af fíngerðum flögum á jörðinni í óbyggðunum,+ eins og hrím á að líta. 15 Þegar Ísraelsmenn sáu þetta sögðu þeir hver við annan: „Hvað er þetta?“ því að þeir vissu ekki hvað það var. „Þetta er brauðið sem Jehóva hefur gefið ykkur til matar,“+ svaraði Móse. 16 „Þetta eru fyrirmæli Jehóva: ‚Hver og einn á að safna eins miklu og hann getur borðað. Safnið einum gómer*+ á mann handa þeim sem búa í tjaldi ykkar.‘“ 17 Ísraelsmenn gerðu það. Sumir söfnuðu miklu en aðrir litlu. 18 Þegar þeir mældu það með gómermáli var ekkert afgangs hjá þeim sem hafði safnað miklu og þann sem safnaði litlu skorti ekkert.+ Allir söfnuðu eins miklu og þeir þurftu.

19 Þá sagði Móse: „Enginn á að skilja neitt eftir af því til morguns.“+ 20 En þeir hlustuðu ekki á Móse. Sumir skildu dálítið eftir til næsta morguns en þá maðkaði það og lyktaði illa. Og Móse reiddist þeim. 21 Þeir söfnuðu því á hverjum morgni, eins miklu og hver þurfti til matar. Þegar sólin hækkaði á lofti bráðnaði það sem eftir var.

22 Sjötta daginn söfnuðu þeir helmingi meiru,+ tveim gómerum á mann. Allir höfðingjar safnaðarins komu þá til Móse og sögðu honum frá því. 23 Hann svaraði þeim: „Þetta er það sem Jehóva sagði. Á morgun eiga allir að hvílast* því að þá er heilagur hvíldardagur fyrir Jehóva.+ Bakið það sem þið þurfið að baka og sjóðið það sem þarf að sjóða.+ Geymið síðan það sem er afgangs til morguns.“ 24 Þeir geymdu það til morguns eins og Móse hafði sagt þeim og það lyktaði hvorki illa né komu maðkar í það. 25 Þá sagði Móse: „Borðið það í dag því að í dag er hvíldardagur fyrir Jehóva. Í dag finnið þið það ekki á jörðinni. 26 Þið skuluð safna því í sex daga en sjöunda daginn, hvíldardaginn,+ verður ekkert til að safna.“ 27 Sumir fóru samt út á sjöunda deginum til að safna því en fundu ekkert.

28 Jehóva sagði þá við Móse: „Hve lengi ætlið þið að neita að halda boðorð mín og lög?+ 29 Munið að Jehóva hefur gefið ykkur hvíldardaginn.+ Þess vegna gefur hann ykkur brauð til tveggja daga á sjötta deginum. Á sjöunda deginum eiga allir að halda kyrru fyrir. Enginn má fara neitt á þessum degi.“ 30 Fólkið hélt því hvíldardag* á sjöunda deginum.+

31 Ísraelsmenn kölluðu brauðið „manna“.* Það var hvítt eins og kóríanderfræ og bragðaðist eins og þunnar hunangskökur.+ 32 Móse sagði nú: „Þetta eru fyrirmæli Jehóva: ‚Fyllið gómermál af þessu til að geyma um komandi kynslóðir+ svo að þær sjái brauðið sem ég gaf ykkur að borða í óbyggðunum þegar ég leiddi ykkur út úr Egyptalandi.‘“ 33 Móse sagði síðan við Aron: „Taktu krukku, láttu gómer af manna í hana og settu hana fyrir auglit Jehóva. Það á að geyma hana um komandi kynslóðir.“+ 34 Aron setti krukkuna fyrir framan Vitnisburðinn*+ til að varðveita hana eins og Jehóva hafði fyrirskipað Móse. 35 Ísraelsmenn borðuðu manna í 40 ár+ þar til þeir komu í byggt land.+ Þeir borðuðu manna þangað til þeir komu að landamærum Kanaanslands.+ 36 Einn gómer er tíundi hluti úr efu.*

17 Allur söfnuður Ísraelsmanna fór frá óbyggðum Sín+ og hélt áfram í áföngum eftir fyrirskipun Jehóva.+ Þeir tjölduðu í Refídím+ en þar var ekkert vatn handa fólkinu að drekka.

2 Fólkið fór því að kvarta við Móse+ og sagði: „Gefðu okkur vatn að drekka.“ Móse sagði þá: „Af hverju kvartið þið við mig? Af hverju reynið þið Jehóva?“+ 3 En fólkið var mjög þyrst og hélt áfram að kvarta við Móse+ og sagði: „Hvers vegna hefurðu leitt okkur út úr Egyptalandi til að láta okkur, syni okkar og búfé deyja úr þorsta?“ 4 Að lokum hrópaði Móse til Jehóva: „Hvað á ég að gera við þetta fólk? Það á bráðum eftir að grýta mig!“

5 Þá sagði Jehóva við Móse: „Taktu stafinn sem þú notaðir til að slá á Nílarfljótið+ og veldu nokkra af öldungum Ísraels. Farið fram fyrir fólkið og haldið af stað. 6 Ég mun standa frammi fyrir þér á klettinum við Hóreb. Þú átt að slá á klettinn og þá sprettur vatn úr honum þannig að fólkið geti fengið að drekka.“+ Móse gerði þetta fyrir augum öldunga Ísraels. 7 Hann kallaði staðinn Massa*+ og Meríba*+ vegna þess að Ísraelsmenn kvörtuðu og reyndu Jehóva+ með því að spyrja: „Er Jehóva á meðal okkar eða ekki?“

8 Nú komu Amalekítar+ og réðust á Ísraelsmenn í Refídím.+ 9 Móse sagði við Jósúa:+ „Veldu menn og farðu með þeim til að berjast við Amalekíta. Á morgun ætla ég að standa efst uppi á hæðinni með staf hins sanna Guðs í hendinni.“ 10 Jósúa gerði eins og Móse hafði sagt honum+ og barðist við Amalekíta. En Móse, Aron og Húr+ fóru efst upp á hæðina.

11 Á meðan Móse hélt höndunum á lofti gekk Ísraelsmönnum betur, en um leið og hann lét hendurnar síga gekk Amalekítum betur. 12 Þegar Móse varð þreyttur í höndunum komu Aron og Húr með stein og Móse settist á hann. Síðan studdu þeir hendur hans, hvor sínum megin, svo að hann gat haldið þeim uppi allt þar til sólin settist. 13 Þannig sigraði Jósúa Amalekíta með sverði.+

14 Jehóva sagði nú við Móse: „Skrifaðu þetta í bókina svo að munað verði eftir því: ‚Ég ætla að eyða Amalekítum af yfirborði jarðar og þeirra verður ekki minnst framar.‘+ Lestu þetta síðan fyrir Jósúa.“ 15 Móse reisti nú altari og nefndi það Jehóva Nissí.* 16 Hann sagði: „Þar sem Amalekítar rétta hönd sína gegn hásæti Jah+ mun Jehóva heyja stríð við þá kynslóð eftir kynslóð.“+

18 Nú frétti Jetró, presturinn í Midían, tengdafaðir Móse,+ af öllu sem Guð hafði gert fyrir Móse og fólk sitt Ísrael og hvernig Jehóva hafði leitt Ísrael út úr Egyptalandi.+ 2 Jetró hafði tekið Sippóru konu Móse að sér þegar Móse sendi hana aftur heim 3 ásamt sonum þeirra tveim.+ Annar sonurinn hét Gersóm*+ því að Móse sagði: „Ég er orðinn útlendingur í framandi landi,“ 4 og hinn hét Elíeser* því að Móse sagði: „Guð föður míns er hjálpari minn sem bjargaði mér undan sverði faraós.“+

5 Jetró tengdafaðir Móse kom því ásamt sonum hans og eiginkonu til hans út í óbyggðirnar þar sem hann hafði slegið upp tjöldum við fjall hins sanna Guðs.+ 6 Hann lét flytja Móse þessi boð: „Ég, Jetró tengdafaðir þinn,+ er á leiðinni til þín ásamt konu þinni og báðum sonum ykkar.“ 7 Móse gekk strax út á móti tengdaföður sínum, hneigði sig fyrir honum og kyssti hann. Þeir spurðu frétta hvor af öðrum og gengu síðan inn í tjaldið.

8 Móse sagði tengdaföður sínum frá öllu sem Jehóva hafði gert faraó og Egyptum vegna Ísraelsmanna,+ frá öllum erfiðleikunum sem þeir höfðu orðið fyrir á leiðinni+ og hvernig Jehóva hafði frelsað þá. 9 Jetró gladdist yfir öllu því góða sem Jehóva hafði gert fyrir Ísraelsmenn þegar hann bjargaði þeim úr höndum Egypta. 10 Jetró sagði: „Lofaður sé Jehóva sem bjargaði ykkur frá Egyptalandi og faraó og frelsaði fólkið undan kúgun Egypta. 11 Nú veit ég að Jehóva er öllum öðrum guðum meiri+ vegna þess hvernig hann fór með þá sem sýndu fólki hans hroka.“ 12 Jetró tengdafaðir Móse færði Guði síðan brennifórn og aðrar fórnir, og Aron og allir öldungar Ísraels komu til að borða með honum frammi fyrir hinum sanna Guði.

13 Daginn eftir settist Móse eins og venjulega til að dæma í málum fólksins og fólkið stóð frammi fyrir honum frá morgni til kvölds. 14 Þegar tengdafaðir Móse sá allt sem hann gerði fyrir fólkið spurði hann: „Af hverju ferðu svona að? Af hverju siturðu hérna einn og lætur allt fólkið standa frammi fyrir þér frá morgni til kvölds?“ 15 Móse svaraði: „Af því að fólkið kemur til mín til að leita leiðsagnar Guðs. 16 Þegar mál kemur upp er það lagt fyrir mig. Ég þarf að dæma milli manna og ég upplýsi þá um úrskurði og lög hins sanna Guðs.“+

17 Tengdafaðir Móse sagði við hann: „Þetta er ekki góð aðferð hjá þér. 18 Þetta er lýjandi bæði fyrir þig og fólkið sem er hjá þér. Þetta er allt of mikið fyrir þig. Þú ræður ekki við þetta einn. 19 Hlustaðu nú á mig. Ég ætla að gefa þér ráð og Guð verður með þér.+ Þú ert fulltrúi fólksins gagnvart hinum sanna Guði+ og þarft að leggja málin fyrir hann.+ 20 Þú skalt kenna fólkinu ákvæðin og lögin,+ vísa því veginn sem það á að ganga og segja því hvað það á að gera. 21 En veldu meðal fólksins hæfa menn+ sem óttast Guð, trausta menn sem hafa óbeit á illa fengnum gróða,+ og settu þá foringja yfir þúsund manna flokkum, yfir hundrað manna, fimmtíu manna og tíu manna flokkum.+ 22 Láttu þá dæma þegar mál koma upp* meðal fólksins. Öll erfið mál skulu þeir leggja fyrir þig+ en dæma sjálfir í öllum minni háttar málum. Gerðu þér auðveldara fyrir með því að láta þá bera byrðina með þér.+ 23 Ef þú gerir þetta og það samræmist fyrirmælum Guðs tekst þér að rísa undir álaginu og allir fara ánægðir heim.“

24 Móse hlustaði á tengdaföður sinn og gerði þegar í stað eins og hann hafði sagt. 25 Hann valdi hæfa menn meðal allra Ísraelsmanna og skipaði þá foringja yfir fólkinu, yfir þúsund manna flokkum, yfir hundrað manna, fimmtíu manna og tíu manna flokkum. 26 Þeir dæmdu þegar mál komu upp meðal fólksins. Þeir lögðu erfið mál fyrir Móse+ en dæmdu sjálfir í öllum minni háttar málum. 27 Síðan kvaddi Móse tengdaföður sinn+ og hann hélt heim til lands síns.

19 Í þriðja mánuðinum eftir að Ísraelsmenn fóru frá Egyptalandi komu þeir í óbyggðir Sínaí. 2 Þeir komu þangað sama dag og þeir lögðu upp frá Refídím+ og settu upp búðir sínar í óbyggðunum nálægt fjallinu.+

3 Móse gekk upp á fjallið til hins sanna Guðs og Jehóva kallaði til hans af fjallinu:+ „Þetta skaltu segja Ísraelsmönnum, afkomendum Jakobs: 4 ‚Þið hafið sjálf séð hvað ég gerði Egyptum,+ hvernig ég hef borið ykkur á arnarvængjum og flutt ykkur til mín.+ 5 Öll jörðin tilheyrir mér+ og ef þið hlýðið mér í einu og öllu og haldið sáttmála minn verðið þið sérstök* eign mín meðal allra þjóða.+ 6 Þið verðið mér konungsríki presta og heilög þjóð.‘+ Þetta er það sem þú átt að segja Ísraelsmönnum.“

7 Móse kallaði nú saman öldunga fólksins og flutti þeim öll þessi fyrirmæli Jehóva.+ 8 Þá svaraði allt fólkið einum rómi: „Við viljum gera allt sem Jehóva hefur sagt.“+ Móse fór strax og flutti Jehóva svar fólksins. 9 Jehóva sagði við Móse: „Ég kem til þín í dimmu skýi og tala við þig þannig að fólkið heyri. Þá mun það alltaf treysta þér líka.“ Móse greindi síðan Jehóva frá því sem fólkið hafði sagt.

10 Þá sagði Jehóva við Móse: „Farðu til fólksins. Helgaðu það í dag og á morgun og segðu því að þvo fötin sín. 11 Það á að vera tilbúið á þriðja degi því að á þriðja degi stígur Jehóva niður á Sínaífjall í augsýn allra. 12 Þú skalt setja fólkinu mörk allt í kringum fjallið og segja: ‚Varist að fara upp að fjallinu eða snerta fjallsræturnar. Ef einhver snertir fjallið skal hann deyja. 13 Enginn má snerta hinn brotlega heldur á annaðhvort að grýta hann eða skjóta.* Hvort heldur það er maður eða skepna liggur dauðarefsing við.‘+ En þegar fólkið heyrir blásið í hrútshorn+ má það koma upp að fjallinu.“

14 Móse gekk niður af fjallinu til fólksins. Hann helgaði fólkið og það þvoði fötin sín.+ 15 Hann sagði: „Verið tilbúin á þriðja degi. Haldið ykkur frá kynlífi.“*

16 Að morgni þriðja dags komu þrumur og eldingar, þykkt ský+ lá yfir fjallinu og mjög sterkur hornablástur heyrðist. Allir í búðunum skulfu af hræðslu.+ 17 Móse leiddi nú fólkið út úr búðunum til móts við hinn sanna Guð og það tók sér stöðu við fjallsræturnar. 18 Allt Sínaífjall var hulið reyk því að Jehóva steig niður á það í eldi.+ Reykurinn steig upp eins og reykur úr brennsluofni og allt fjallið lék á reiðiskjálfi.+ 19 Hornablásturinn varð sífellt sterkari, Móse talaði og hinn sanni Guð svaraði honum hárri röddu.

20 Jehóva steig nú niður á Sínaífjall, á fjallstindinn. Síðan kallaði Jehóva Móse til sín upp á tindinn og hann fór upp þangað.+ 21 Jehóva sagði við hann: „Farðu niður og varaðu fólkið við því að reyna að ryðjast í gegn til að sjá Jehóva. Annars eiga margir eftir að deyja. 22 Og prestarnir, sem ganga reglulega fram fyrir Jehóva, skulu helga sig til að Jehóva refsi þeim ekki.“*+ 23 Móse sagði þá við Jehóva: „Fólkið getur ekki komið upp að Sínaífjalli vegna þess að þú varst búinn að vara við því og segja: ‚Settu mörk kringum fjallið og helgaðu það.‘“+ 24 En Jehóva sagði við hann: „Farðu niður og komdu svo aftur hingað upp, þú og Aron með þér, en láttu ekki prestana og fólkið ryðjast í gegn og koma upp til Jehóva svo að hann refsi þeim ekki.“+ 25 Móse gekk þá niður af fjallinu og sagði fólkinu þetta.

20 Síðan gaf Guð öll þessi fyrirmæli:+

2 „Ég er Jehóva Guð þinn sem leiddi þig út úr Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.+ 3 Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.*+

4 Þú skalt ekki gera þér úthöggvið líkneski eða eftirmynd* af nokkru sem er uppi á himnum, niðri á jörðinni eða í vötnunum.+ 5 Þú skalt ekki falla fram fyrir þeim né láta tælast til að þjóna þeim+ því að ég, Jehóva Guð þinn, er Guð sem krefst óskiptrar hollustu.+ Ég læt refsinguna fyrir syndir feðra koma niður á börnunum í þriðja og fjórða ættlið þeirra sem hata mig 6 en sýni afkomendum þeirra sem elska mig og halda boðorð mín+ tryggan kærleika í þúsund kynslóðir.

7 Þú skalt ekki nota nafn Jehóva Guðs þíns á óviðeigandi hátt+ því að Jehóva lætur þeim ekki órefsað sem notar nafn hans á óviðeigandi hátt.+

8 Mundu eftir hvíldardeginum og haltu hann heilagan.+ 9 Þú átt að vinna sex daga og sinna öllum verkum þínum+ 10 en sjöundi dagurinn er hvíldardagur helgaður Jehóva Guði þínum. Þá máttu ekkert vinna, hvorki þú né sonur þinn eða dóttir, þræll þinn né ambátt eða skepnur þínar eða útlendingurinn sem býr í borgum þínum*+ 11 því að Jehóva gerði himin og jörð, hafið og allt sem þar er á sex dögum en sjöunda daginn hvíldist hann.+ Þess vegna blessaði Jehóva hvíldardaginn og helgaði hann.

12 Sýndu föður þínum og móður virðingu+ svo að þú lifir lengi í landinu sem Jehóva Guð þinn gefur þér.+

13 Þú skalt ekki myrða.+

14 Þú skalt ekki fremja hjúskaparbrot.+

15 Þú skalt ekki stela.+

16 Þú skalt ekki bera ljúgvitni þegar þú vitnar gegn náunga þínum.+

17 Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns,+ þræl hans eða ambátt, naut hans eða asna né nokkuð sem náungi þinn á.“+

18 Allt fólkið varð vitni að þrumunum og eldingunum, hornablæstrinum og reyknum á fjallinu. Það skalf af ótta og hélt sig langt frá.+ 19 Fólkið sagði við Móse: „Þú skalt tala við okkur og við skulum hlusta en láttu ekki Guð tala við okkur því að þá deyjum við.“+ 20 Móse sagði þá við fólkið: „Verið ekki hrædd því að hinn sanni Guð er kominn til að reyna ykkur+ svo að þið haldið áfram að óttast hann og syndgið ekki.“+ 21 Fólkið stóð kyrrt langt frá en Móse gekk að dimmu skýinu þar sem hinn sanni Guð var.+

22 Jehóva sagði við Móse: „Segðu Ísraelsmönnum: ‚Þið hafið sjálf séð að ég talaði við ykkur af himni.+ 23 Þið skuluð ekki gera ykkur guði úr silfri eða gulli því að þið megið ekki hafa aðra guði en mig.+ 24 Þú átt að gera mér altari úr mold og færa þar brennifórnir þínar, samneytisfórnir,* sauðfé og nautgripi. Ég kem til þín og blessa þig alls staðar þar sem ég læt nefna nafn mitt.+ 25 Ef þú gerir mér altari úr steini skaltu ekki nota tilhöggna steina+ því að ef þú vinnur þá með meitli vanhelgarðu það. 26 Gerðu ekki tröppur upp að altari mínu til að þú berir ekki nekt þína* yfir því.‘

21 Þetta eru lögin sem þú átt að leggja fyrir þá:+

2 Ef þú kaupir hebreskan þræl+ á hann að vinna sem þræll í sex ár en sjöunda árið á hann að hljóta frelsi án þess að greiða nokkuð fyrir.+ 3 Ef hann kom einn á hann að fara einn. Ef hann var giftur þegar hann kom á konan hans að fara með honum. 4 Ef húsbóndi hans gefur honum konu og hún eignast með honum syni eða dætur skulu konan og börnin tilheyra húsbónda hennar og maðurinn fer einn burt.+ 5 En ef þrællinn segir ákveðinn í bragði: ‚Ég vil ekki verða frjáls+ því að mér þykir vænt um húsbónda minn og ég elska konu mína og börn,‘ 6 þá á húsbóndi hans að leiða hann fyrir hinn sanna Guð. Síðan á hann að fara með hann að hurðinni eða dyrastafnum og stinga al í gegnum eyra hans og hann verður þræll hans til æviloka.

7 Ef maður selur dóttur sína sem ambátt fær hún ekki frelsi með sama hætti og þræll. 8 Ef húsbóndi hennar er ekki ánægður með hana og tekur hana ekki fyrir hjákonu heldur selur hana öðrum* má hann ekki selja hana útlendingum því að hann hefur svikið hana. 9 Ef hann gefur hana syni sínum fyrir eiginkonu á hann að veita henni sömu réttindi og væri hún dóttir hans. 10 Ef hann tekur sér aðra konu má hann ekki minnka mat eða fatnað við fyrri konuna og hann á að fullnægja hjúskaparskyldunni+ áfram. 11 Ef hann veitir henni ekki þetta þrennt á hún að hljóta frelsi án endurgjalds.

12 Sá sem slær mann og verður honum að bana skal tekinn af lífi.+ 13 En ef hann gerir það óviljandi og hinn sanni Guð lætur það gerast getur hann flúið á stað sem ég vel handa þér.+ 14 Ef maður reiðist náunga sínum heiftarlega og drepur hann af ásettu ráði+ skal hann deyja, jafnvel þótt þú þurfir að sækja hann að altari mínu.+ 15 Sá sem slær föður sinn eða móður skal tekinn af lífi.+

16 Ef einhver rænir manni+ og selur hann eða er staðinn að því að halda honum föngnum+ skal hann tekinn af lífi.+

17 Sá sem bölvar* föður sínum eða móður skal tekinn af lífi.+

18 Ef menn rífast og annar slær hinn með steini eða hnefanum* og hann deyr ekki heldur verður rúmfastur 19 sleppur sá sem sló hann við refsingu ef hinn kemst á fætur og getur gengið um utandyra við staf. Hann á aðeins að bæta hinum meidda vinnutapið þar til hann hefur náð sér að fullu.

20 Ef maður slær þræl sinn eða ambátt með staf og hann eða hún deyr skal hefna þess.+ 21 En ef þrællinn lifir einn eða tvo daga skal þess ekki hefnt því að maðurinn á hann.

22 Ef menn slást og barnshafandi kona verður fyrir höggi þannig að barnið fæðist fyrir tímann+ en ekki hlýst bani* af skal hinn seki greiða þær bætur sem eiginmaður hennar krefst og dómararnir samþykkja.+ 23 En ef bani hlýst af skaltu gjalda líf fyrir líf,*+ 24 auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, hönd fyrir hönd, fót fyrir fót,+ 25 brunasár fyrir brunasár, sár fyrir sár og högg fyrir högg.

26 Ef maður slær þræl sinn eða ambátt í augað og skemmir það á hann að gefa þrælnum frelsi sem bætur fyrir augað.+ 27 Og ef hann slær tönn úr þræli sínum eða ambátt á hann að gefa þrælnum frelsi sem bætur fyrir tönnina.

28 Ef naut stangar mann eða konu til bana skal grýta nautið+ og ekki má borða kjötið en eigandi nautsins sleppur við refsingu. 29 En ef nautið átti það til að stanga og eigandinn hafði verið varaður við því en hafði samt ekki haft nautið í gæslu og það verður manni eða konu að bana skal grýta nautið og eigandinn skal einnig tekinn af lífi. 30 Ef honum er gert að greiða lausnargjald fyrir líf sitt skal hann greiða alla upphæðina sem lögð er á hann. 31 Sama lagaákvæði gildir um eiganda nautsins ef það stangar dreng eða stúlku. 32 Ef nautið stangar þræl eða ambátt skal eigandinn greiða húsbónda þrælsins 30 sikla* og nautið skal grýtt til bana.

33 Ef maður grefur gryfju og byrgir hana ekki eða skilur gryfju eftir opna og naut eða asni fellur í hana 34 á eigandi hennar að bæta skaðann.+ Hann á að greiða eigandanum andvirðið en halda sjálfur dauðu skepnunni. 35 Ef naut stangar naut annars manns til bana skal selja nautið sem lifir og skipta andvirðinu milli eigendanna. Þeir eiga líka að skipta með sér dauðu skepnunni. 36 En ef vitað var að nautið átti það til að stanga og eigandinn hafði það samt ekki í gæslu skal hann bæta naut með nauti en halda sjálfur dauðu skepnunni.

22 Ef maður stelur nauti eða sauð og slátrar skepnunni eða selur hana á hann að bæta naut með fimm nautum og sauð með fjórum sauðum.+

2 (Ef þjófur+ er staðinn að verki við innbrot og honum er veitt banahögg telst það ekki blóðsekt. 3 En ef það gerist eftir sólarupprás telst það blóðsekt.)

Þjófur skal greiða bætur. Ef hann á ekkert skal selja hann sem þræl í bætur fyrir það sem hann stal. 4 Ef hið stolna finnst lifandi hjá honum, hvort heldur naut, asni eða sauður, á hann að greiða tvöfalt í bætur.

5 Ef einhver beitir skepnum sínum á akur eða víngarð og lætur þær bíta á akri annars manns á hann að bæta það með því besta af sínum eigin akri eða víngarði.

6 Ef eldur kviknar og kemst í þyrnirunna og eyðir kornknippum, óslegnu korni eða akri á sá sem kveikti eldinn að bæta það sem brann.

7 Ef maður felur öðrum manni að geyma fyrir sig peninga eða hluti og því er stolið úr húsi hans skal þjófurinn bæta það tvöfalt ef hann næst.+ 8 Ef þjófurinn finnst ekki á að leiða húseigandann fram fyrir hinn sanna Guð+ til að skera úr um hvort hann hafi stolið eigum hins. 9 Þegar maður sakar annan mann um að hafa undir höndum eitthvað sem hann á ekki, hvort sem það er naut, asni, sauður, fatnaður eða annað sem hefur tapast, eiga þeir báðir að ganga fram fyrir hinn sanna Guð til að ákvarða hvor sé réttmætur eigandi þess.+ Sá sem Guð úrskurðar sekan skal bæta hinum það tvöfalt.+

10 Ef maður felur öðrum manni að sjá um asna, naut, sauð eða aðra skepnu og hún deyr, skaðast illa eða er tekin þegar enginn sér til 11 eiga báðir að ganga fram fyrir Jehóva. Sá sem gætti skepnunnar á að sverja þess eið að hann hafi ekki stolið eigum náunga síns og eigandinn skal samþykkja það. Hinn á þá ekki að greiða bætur.+ 12 En hafi skepnunni verið stolið frá honum á hann að bæta eigandanum hana. 13 Hafi villidýr rifið skepnuna á hann að koma með hana til sönnunar. Hann þarf ekki að greiða bætur fyrir það sem villidýr hefur drepið.

14 En ef maður fær skepnu að láni og hún skaðast illa eða deyr en eigandinn er ekki á staðnum skal sá sem fékk skepnuna að láni bæta hana. 15 Ef eigandinn er viðstaddur skal hinn ekki greiða bætur. Ef skepnan var tekin á leigu eru bæturnar fólgnar í leigunni.

16 Ef maður tælir mey sem er ekki trúlofuð og hefur samfarir við hana skal hann taka sér hana fyrir konu og greiða brúðarverðið fyrir hana.+ 17 Ef faðir hennar vill alls ekki gefa honum hana á maðurinn að greiða upphæð sem samsvarar brúðarverðinu.

18 Þú skalt ekki láta galdrakonu halda lífi.+

19 Sá sem hefur samfarir við dýr skal tekinn af lífi.+

20 Sá sem færir nokkrum öðrum guðum en Jehóva fórnir skal deyja.+

21 Þú skalt ekki fara illa með útlending eða kúga hann+ því að þið voruð útlendingar í Egyptalandi.+

22 Þú skalt ekki níðast á nokkurri ekkju né föðurlausu barni.*+ 23 Ef þú níðist á þeim svo að þau hrópa til mín heyri ég hróp þeirra+ 24 og reiði mín blossar upp. Ég mun drepa ykkur með sverði þannig að konur ykkar verða ekkjur og börn ykkar föðurlaus.

25 Ef þú lánar einhverjum fátækum* af þjóð minni peninga máttu ekki koma fram við hann eins og lánveitandi.* Þú mátt ekki krefjast vaxta af honum.+

26 Ef þú tekur yfirhöfn náunga þíns að veði*+ áttu að skila henni fyrir sólsetur. 27 Hún er eina ábreiðan sem hann hefur, fötin sem skýla honum. Hverju á hann annars að vefja um sig þegar hann leggst til svefns?+ Ég heyri þegar hann hrópar til mín því að ég finn til með honum.+

28 Þú skalt ekki bölva* Guði+ né bölva höfðingja* fólks þíns.+

29 Þú skalt ekki hika við að færa fórnir af ríkulegri uppskeru þinni og því sem flæðir úr vín- og olíupressu þinni.+ Þú átt að gefa mér frumgetinn son þinn.+ 30 Þú skalt gera eftirfarandi við frumburði nauta þinna og sauða:+ Þeir skulu vera sjö daga hjá móður sinni en á áttunda degi skaltu færa mér þá.+

31 Þið skuluð vera mér heilagt fólk.+ Þið megið ekki borða kjöt af neinu sem villidýr hefur rifið á víðavangi.+ Þið skuluð henda því fyrir hundana.

23 Þú skalt ekki breiða út ósannar sögur.+ Leggðu ekki illmennum lið með því að bera viljandi ljúgvitni.+ 2 Þú skalt ekki fylgja fjöldanum til vondra verka og þú skalt ekki hagræða sannleikanum til að þóknast fjöldanum þegar þú vitnar fyrir dómi. 3 Þú skalt ekki vera hlutdrægur í máli fátæks manns.+

4 Ef þú rekst á naut óvinar þíns eða asna sem hefur villst skaltu færa honum skepnuna.+ 5 Ef þú sérð að asni manns sem hatar þig hefur kiknað undan byrðinni skaltu ekki láta hann afskiptalausan og ganga burt heldur hjálpa manninum að losa byrðina af skepnunni.+

6 Þú mátt ekki fella ranglátan dóm í máli fátæks manns.+

7 Komdu ekki nálægt falskri ákæru* og stuðlaðu ekki að dauða hins saklausa og réttláta því að ég lýsi ekki illan mann réttlátan.*+

8 Þú skalt ekki þiggja mútur því að mútur blinda skarpskyggna menn og geta komið réttlátum manni til að breyta ákvörðun sinni.+

9 Þú skalt ekki kúga útlending. Þið vitið hvernig það er að vera útlendingur* því að þið bjugguð sem útlendingar í Egyptalandi.+

10 Þú átt að sá í land þitt og safna uppskerunni í sex ár.+ 11 En sjöunda árið áttu að láta það óræktað og hvíla það. Hinir fátæku meðal þjóðar þinnar mega borða það sem vex og villtu dýrin mega éta það sem eftir er. Eins skaltu fara með víngarð þinn og ólívulund.

12 Sex daga áttu að sinna verkum þínum en sjöunda daginn áttu ekki að vinna. Þá geta naut þitt og asni hvílst og sonur ambáttar þinnar og útlendingurinn endurnærst.+

13 Gætið þess að gera allt sem ég hef sagt ykkur.+ Þið skuluð ekki ákalla aðra guði, nöfn þeirra eiga ekki að heyrast af munni þínum.+

14 Þú átt að halda mér hátíð þrisvar á ári.+ 15 Þú skalt halda hátíð ósýrðu brauðanna.+ Þú skalt borða ósýrt brauð í sjö daga á tilteknum tíma í abíbmánuði*+ eins og ég hef sagt þér því að þá fórstu frá Egyptalandi. Enginn á að koma tómhentur fram fyrir mig.+ 16 Þú átt líka að halda frumgróðahátíð* þegar þú skerð upp fyrstu afurðir þess sem þú sáðir í akur þinn+ og halda uppskeruhátíð* í lok ársins þegar þú hirðir síðasta ávöxt erfiðis þíns af akrinum.+ 17 Þrisvar á ári eiga allir karlmenn á meðal þín að ganga fram fyrir hinn sanna Drottin, Jehóva.+

18 Þú mátt ekki bera fram blóð fórnar minnar með nokkru sem er sýrt. Og fitan sem er færð að fórn við hátíðir mínar má ekki liggja yfir nótt til morguns.

19 Þú átt að koma með það besta af frumgróða lands þíns í hús Jehóva Guðs þíns.+

Þú mátt ekki sjóða kiðling í mjólk móður sinnar.+

20 Ég sendi engil á undan þér+ til að vernda þig á leiðinni og leiða þig til þess staðar sem ég hef búið þér.+ 21 Hlustaðu á hann og hlýddu honum. Gerðu ekki uppreisn gegn honum. Hann mun ekki fyrirgefa brot ykkar+ því að hann ber nafn mitt.* 22 Ef þið hlýðið honum í einu og öllu og gerið allt sem ég segi verð ég óvinur óvina þinna og stend á móti andstæðingum þínum. 23 Engill minn fer á undan þér og leiðir þig til Amoríta, Hetíta, Peresíta, Kanverja, Hevíta og Jebúsíta og ég útrými þeim.+ 24 Þú mátt ekki falla fram fyrir guðum þeirra eða láta tælast til að þjóna þeim, og þú mátt ekki líkja eftir siðum þeirra.+ Þú skalt eyðileggja skurðgoð þeirra og mölva helgisúlur þeirra.+ 25 Þið skuluð þjóna Jehóva Guði ykkar+ og hann mun blessa brauð ykkar og vatn.+ Ég mun bægja sjúkdómum frá ykkur.+ 26 Konurnar í landi þínu munu ekki missa fóstur né vera barnlausar+ og ég læt ykkur lifa langa ævi.*

27 Þjóðir munu heyra talað um mig og skelfast jafnvel áður en þær sjá ykkur.+ Ég veld ringulreið meðal þeirra og læt alla óvini ykkar flýja undan ykkur.*+ 28 Ég sendi vanmáttarkennd* á undan þér+ og hún rekur Hevíta, Kanverja og Hetíta á flótta.+ 29 Ég rek þá ekki burt undan þér á einu ári til að landið leggist ekki í eyði og villidýrunum fjölgi og þau verði þér til tjóns.+ 30 Ég rek þá burt smám saman þar til ykkur hefur fjölgað og þið hafið lagt undir ykkur landið.+

31 Ég læt landamæri ykkar liggja frá Rauðahafi til Filisteahafs og frá óbyggðunum að Fljótinu*+ því að ég gef íbúa landsins ykkur á vald og þið munuð reka þá burt.+ 32 Þú skalt ekki gera sáttmála við þá eða guði þeirra.+ 33 Þeir mega ekki búa í landi þínu svo að þeir fái þig ekki til að syndga gegn mér. Ef þú þjónaðir guðum þeirra gengirðu í gildru.“+

24 Síðan sagði hann við Móse: „Gangið upp á fjallið til Jehóva, þið Aron, Nadab og Abíhú+ og 70 af öldungum Ísraels, og fallið fram í nokkurri fjarlægð. 2 Móse á að nálgast Jehóva einn. Hinir mega ekki koma nær og fólkið má ekki fara upp á fjallið með honum.“+

3 Móse kom síðan og sagði fólkinu frá öllu sem Jehóva hafði sagt og öllum lögunum.+ Allt fólkið svaraði einum rómi: „Við viljum gera allt sem Jehóva hefur sagt.“+ 4 Móse skrifaði þá niður allt sem Jehóva hafði sagt.+ Hann fór snemma á fætur morguninn eftir og reisti altari við fjallsræturnar og 12 minningarsteina, einn fyrir hverja ættkvísl Ísraelsmanna. 5 Hann valdi síðan unga karla af Ísraelsmönnum og þeir færðu brennifórnir og fórnuðu nautum í samneytisfórn+ handa Jehóva. 6 Móse tók helminginn af blóðinu og hellti því í skálar og hinum helmingnum sletti hann á altarið. 7 Síðan tók hann sáttmálsbókina og las hana upp fyrir fólkið+ og það sagði: „Við viljum gera allt sem Jehóva hefur sagt og við ætlum að hlýða honum.“+ 8 Móse tók þá blóðið, sletti því á fólkið+ og sagði: „Þetta er blóð sáttmálans sem Jehóva hefur gert við ykkur og er byggður á öllum þessum orðum.“+

9 Móse og Aron, Nadab og Abíhú og 70 af öldungum Ísraels gengu á fjallið 10 og þeir sáu Guð Ísraels.+ Undir fótum hans var eitthvað sem líktist gólfi úr safír, eins tærum og sjálfur himinninn.+ 11 Hann gerði þessum höfðingjum Ísraels ekki mein+ og þeir sáu hinn sanna Guð í sýn og átu og drukku.

12 Jehóva sagði nú við Móse: „Komdu til mín upp á fjallið og vertu þar kyrr. Ég ætla að láta þig fá steintöflur með lögunum og boðorðunum sem ég ætla að skrifa til að leiðbeina fólkinu.“+ 13 Móse og Jósúa þjónn hans+ lögðu þá af stað og Móse gekk upp fjall hins sanna Guðs.+ 14 En við öldungana hafði hann sagt: „Bíðið hér eftir okkur þangað til við komum aftur.+ Aron og Húr+ verða hjá ykkur. Sá sem þarf að fá dæmt í máli getur leitað til þeirra.“+ 15 Móse gekk síðan á fjallið en skýið huldi það.+

16 Dýrð Jehóva+ hvíldi yfir Sínaífjalli+ og skýið huldi það í sex daga. Á sjöunda degi kallaði hann á Móse úr skýinu. 17 Í augum Ísraelsmanna var dýrð Jehóva á að líta eins og eyðandi eldur á fjallstindinum. 18 Móse gekk inn í skýið og upp á fjallið.+ Hann var á fjallinu í 40 daga og 40 nætur.+

25 Jehóva sagði við Móse: 2 „Segðu Ísraelsmönnum að færa mér framlög. Safnaðu framlögum frá öllum sem langar til að leggja eitthvað fram.*+ 3 Þú átt að þiggja af þeim eftirfarandi framlög: gull,+ silfur,+ kopar,+ 4 blátt garn, purpuralita* ull, skarlatsrautt garn, fínt lín, geitarhár, 5 rauðlituð hrútskinn, selskinn, akasíuvið,+ 6 lampaolíu,+ balsam í smurningarolíu+ og í ilmreykelsi,+ 7 auk ónyxsteina og annarra steina til að festa á hökulinn+ og brjóstskjöldinn.+ 8 Þeir eiga að gera helgidóm handa mér og ég mun búa* meðal þeirra.+ 9 Þið skuluð gera tjaldbúðina og allan búnað hennar nákvæmlega eftir þeirri fyrirmynd sem ég sýni þér.+

10 Þeir eiga að gera örk* úr akasíuviði. Hún á að vera tvær og hálf alin* á lengd, ein og hálf alin á breidd og ein og hálf alin á hæð.+ 11 Leggðu hana síðan hreinu gulli+ bæði að utan og innan og gerðu kant* úr gulli hringinn í kring.+ 12 Steyptu fjóra hringi úr gulli og festu þá fyrir ofan fætur hennar fjóra, tvo á aðra hliðina og tvo á hina. 13 Og gerðu stangir úr akasíuviði og leggðu þær gulli.+ 14 Renndu stöngunum gegnum hringina báðum megin á örkinni svo að hægt sé að bera hana. 15 Stangirnar eiga að vera í hringjunum á örkinni. Það má ekki fjarlægja þær.+ 16 Þú skalt láta steintöflurnar með vitnisburðinum sem ég gef þér í örkina.+

17 Gerðu lok úr hreinu gulli, tvær og hálfa alin á lengd og eina og hálfa alin á breidd.+ 18 Gerðu tvo kerúba úr gulli. Mótaðu þá með hamri og settu þá á enda loksins.+ 19 Festu kerúbana á báða endana, hvorn á sinn enda. 20 Kerúbarnir eiga að breiða út vængina upp á við svo að þeir skyggi á lokið með vængjunum+ og þeir eiga að snúa hvor að öðrum. Andlit kerúbanna eiga að snúa að lokinu. 21 Leggðu lokið+ ofan á örkina og settu steintöflurnar með vitnisburðinum sem ég gef þér í örkina. 22 Ég mun birtast þér fyrir ofan lokið,+ milli kerúbanna tveggja sem eru á örk vitnisburðarins, og tala við þig þaðan. Þar greini ég þér frá öllum þeim fyrirmælum sem þú átt að flytja Ísraelsmönnum.

23 Þú skalt einnig gera borð+ úr akasíuviði, tvær álnir á lengd, eina alin á breidd og eina og hálfa alin á hæð.+ 24 Leggðu það hreinu gulli og gerðu kant* úr gulli hringinn í kring. 25 Settu þverhandarbreiðan* lista hringinn í kring og gullkant* á listann. 26 Gerðu fjóra hringi úr gulli og festu þá á fjögur horn borðsins þar sem fæturnir eru. 27 Hringirnir eiga að vera þétt við listann og halda stöngunum sem á að bera borðið með. 28 Gerðu stangirnar úr akasíuviði og leggðu þær gulli. Með þeim á að bera borðið.

29 Gerðu einnig föt, bikara og könnur sem tilheyra borðinu og skálar fyrir drykkjarfórnirnar. Gerðu þetta úr hreinu gulli.+ 30 Og sjáðu til þess að alltaf séu skoðunarbrauð á borðinu frammi fyrir mér.+

31 Þú skalt gera ljósastiku+ úr hreinu gulli. Mótaðu hana með hamri. Gerðu stallinn, fótinn, armana, blómbikarana, blómhnappana og blómin úr heilu stykki.+ 32 Sex armar eiga að ganga út frá hliðum ljósastikunnar, þrír öðrum megin og þrír hinum megin. 33 Á hverjum armi eiga að vera þrír bikarar í lögun eins og möndlublóm, og milli þeirra hnappar og blóm. Armarnir eiga að vera eins báðum megin. Þannig eiga allir sex armarnir sem ganga út frá fæti ljósastikunnar að vera. 34 Á fæti ljósastikunnar eiga að vera fjórir bikarar í lögun eins og möndlublóm, og milli þeirra hnappar og blóm. 35 Undir fyrstu tveim örmunum sem ganga út frá fætinum skal vera blómhnappur, undir næstu tveim örmum á að vera blómhnappur og sömuleiðis blómhnappur undir síðustu tveim örmunum. Undir öllum sex örmunum sem ganga út frá fætinum á að vera blómhnappur. 36 Mótaðu hnappana, armana og alla ljósastikuna með hamri úr heilu stykki af hreinu gulli.+ 37 Gerðu sjö lampa fyrir ljósastikuna og þegar kveikt er á lömpunum eiga þeir að lýsa upp svæðið fyrir framan hana.+ 38 Ljósaskærin* og eldpönnurnar sem fylgja henni eiga að vera úr hreinu gulli.+ 39 Ljósastikuna og þessi áhöld skal gera úr talentu* af hreinu gulli. 40 Gættu þess að gera þetta eftir þeirri fyrirmynd sem þér var sýnd á fjallinu.+

26 Þú skalt gera tjaldbúðina+ úr tíu tjalddúkum úr fínu tvinnuðu líni, bláu garni, purpuralitri ull og skarlatsrauðu garni. Gerðu dúkana með útsaumuðum myndum af kerúbum.+ 2 Hver tjalddúkur á að vera 28 álnir* á lengd og 4 álnir á breidd. Allir tjalddúkarnir eiga að vera jafn stórir.+ 3 Fimm tjalddúkar skulu festir saman í eina heild og hinir fimm festir saman í eina heild. 4 Gerðu lykkjur úr bláu garni á jaðri annarrar einingarinnar og eins á jaðri hinnar einingarinnar þar sem á að tengja þær saman. 5 Gerðu 50 lykkjur á jaðri annarrar einingarinnar og 50 lykkjur á jaðri hinnar svo að lykkjurnar standist á þar sem á að tengja þær saman. 6 Gerðu 50 gullkróka og tengdu tjalddúkana saman með þeim þannig að tjaldbúðin verði ein samfelld heild.+

7 Gerðu líka dúka úr geitarhári+ til að leggja yfir tjaldbúðina. Dúkarnir eiga að vera 11.+ 8 Hver tjalddúkur á að vera 30 álnir á lengd og 4 álnir á breidd. Allir 11 dúkarnir eiga að vera jafn stórir. 9 Festu saman fimm af tjalddúkunum og festu líka saman hina sex. Sjötta tjalddúkinn á að leggja tvöfaldan á framhlið tjaldsins. 10 Gerðu 50 lykkjur á jaðri annarrar einingarinnar, á ysta tjalddúknum, og 50 lykkjur á jaðri hinnar einingarinnar þar sem á að tengja þær saman. 11 Gerðu 50 króka úr kopar, kræktu þeim í lykkjurnar og tengdu tjaldið saman svo að það verði ein heild. 12 Sá hluti einingarinnar sem stendur út af, hálfur tjalddúkur, á að hanga niður af bakhlið tjaldbúðarinnar. 13 Sú alin sem nær niður fyrir hvorum megin á tjalddúkunum endilöngum á að hanga niður á báðar hliðar tjaldbúðarinnar og hylja þær.

14 Gerðu einnig yfirtjald úr rauðlituðum hrútskinnum og yfirtjald úr selskinnum til að leggja yfir það.+

15 Þú skalt gera veggramma+ fyrir tjaldbúðina úr akasíuviði og þeir eiga að standa upp á endann.+ 16 Hver rammi á að vera tíu álnir á hæð og ein og hálf alin á breidd. 17 Á hverjum ramma eiga að vera tveir tappar* hlið við hlið. Þannig áttu að gera alla veggramma tjaldbúðarinnar. 18 Gerðu 20 veggramma fyrir suðurhlið tjaldbúðarinnar.

19 Gerðu 40 undirstöðuplötur+ úr silfri undir veggrammana 20: tvær plötur undir hvern ramma, hvora fyrir sinn tappann.+ 20 Gerðu einnig 20 veggramma fyrir norðurhlið tjaldbúðarinnar 21 og 40 undirstöðuplötur fyrir þá úr silfri, tvær plötur undir hvern ramma. 22 Fyrir bakhlið tjaldbúðarinnar, sem snýr í vestur, skaltu gera sex veggramma.+ 23 Gerðu tvo ramma sem eiga að standa á báðum hornum bakhliðarinnar. 24 Þeir eiga að vera tvöfaldir neðan frá og upp úr, að efsta hringnum. Báðir eiga að vera eins, og þeir eiga að standa á báðum hornunum. 25 Veggrammarnir eiga að vera átta með 16 undirstöðuplötum úr silfri, tveim plötum undir hverjum ramma.

26 Gerðu þverslár úr akasíuviði, fimm fyrir aðra hlið veggrammanna í tjaldbúðinni,+ 27 fimm fyrir hina hlið rammanna í tjaldbúðinni og fimm þverslár fyrir rammana í bakhlið tjaldbúðarinnar sem snýr í vestur. 28 Miðsláin sem er á miðjum veggrömmunum á að ná endanna á milli.

29 Leggðu veggrammana gulli,+ gerðu hringi úr gulli sem halda þverslánum og leggðu slárnar gulli. 30 Þú skalt reisa tjaldbúðina í samræmi við leiðbeiningarnar sem þú hefur fengið á þessu fjalli.+

31 Gerðu fortjald+ úr bláu garni, purpuralitri ull, skarlatsrauðu garni og fínu tvinnuðu líni. Láttu sauma út kerúba á tjaldið. 32 Hengdu það á fjórar súlur úr akasíuviði sem eru lagðar gulli. Krókarnir eiga að vera úr gulli. Súlurnar eiga að standa á fjórum undirstöðuplötum úr silfri. 33 Hengdu fortjaldið undir krókana* og flyttu örk vitnisburðarins+ inn fyrir fortjaldið. Fortjaldið á að skilja á milli hins heilaga+ og hins allra helgasta.+ 34 Settu lokið á örk vitnisburðarins í hinu allra helgasta.

35 Settu borðið fyrir utan fortjaldið norðan megin í tjaldbúðinni og ljósastikuna+ sunnan megin, beint á móti borðinu. 36 Gerðu forhengi fyrir inngang tjaldsins ofið úr bláu garni, purpuralitri ull, skarlatsrauðu garni og fínu tvinnuðu líni.+ 37 Gerðu fimm súlur úr akasíuviði fyrir forhengið og leggðu þær gulli. Krókarnir eiga að vera úr gulli. Steyptu fimm undirstöðuplötur úr kopar fyrir súlurnar.

27 Þú skalt gera altari úr akasíuviði.+ Það á að vera fimm álnir* á lengd og fimm álnir á breidd. Altarið á að vera ferningslaga og þrjár álnir á hæð.+ 2 Gerðu horn+ sem standa upp af fjórum hornum altarisins og eru hluti af því. Leggðu altarið kopar.+ 3 Gerðu fötur til að fjarlægja öskuna,* ásamt skóflum, skálum, göfflum og eldpönnum. Öll áhöld altarisins eiga að vera úr kopar.+ 4 Gerðu grind úr kopar fyrir altarið. Hún á að vera eins og net, og festu fjóra koparhringi við fjögur horn netsins. 5 Láttu netið sitja fyrir neðan brún altarisins og ná niður í mitt altarið. 6 Gerðu stangir úr akasíuviði fyrir altarið og leggðu þær kopar. 7 Stöngunum er rennt í hringina þannig að þær séu báðum megin á altarinu þegar það er borið.+ 8 Altarið á að vera eins og kassi úr borðum, holt að innan. Láttu gera það alveg eins og þér hefur verið sýnt á þessu fjalli.+

9 Gerðu forgarð+ kringum tjaldbúðina. Á suðurhlið hans eiga að vera tjöld úr fínu tvinnuðu líni, 100 álnir á lengd.+ 10 Þar eiga að vera 20 súlur með 20 undirstöðuplötum úr kopar. Krókarnir á súlunum og festingar* þeirra eru úr silfri. 11 Tjöldin á norðurhliðinni eiga einnig að vera 100 álnir á lengd með 20 súlum og 20 undirstöðuplötum úr kopar, ásamt silfurkrókum og festingum* fyrir súlurnar. 12 Vestan megin eiga að vera 50 álna löng tjöld með tíu súlum og tíu undirstöðuplötum. 13 Forgarðurinn á að vera 50 álnir á breidd að austanverðu, móti sólarupprásinni. 14 Tjöldin eiga að vera 15 álnir á lengd öðrum megin með þrem súlum og þrem undirstöðuplötum.+ 15 Og hinum megin eiga tjöldin líka að vera 15 álnir á lengd með þrem súlum og þrem undirstöðuplötum.

16 Fyrir inngangi forgarðsins á að vera 20 álna breitt forhengi ofið úr bláu garni, purpuralitri ull, skarlatsrauðu garni og fínu tvinnuðu líni,+ með fjórum súlum og fjórum undirstöðuplötum fyrir þær.+ 17 Allar súlurnar kringum forgarðinn eiga að vera með festingum og krókum úr silfri en undirstöðuplöturnar eiga að vera úr kopar.+ 18 Forgarðurinn á að vera 100 álnir á lengd+ og 50 álnir á breidd og tjöldin kringum hann 5 álnir á hæð, gerð úr fínu tvinnuðu líni. Undirstöðuplöturnar eiga að vera úr kopar. 19 Öll áhöld og allur búnaður sem er notaður í þjónustunni við tjaldbúðina á að vera úr kopar, svo og tjaldhælar hennar og allir tjaldhælar forgarðsins.+

20 Segðu Ísraelsmönnum að færa þér hreina olíu úr steyttum ólívum til lýsingar svo að það logi stöðugt á lömpunum.+ 21 Aron og synir hans eiga að sjá til þess að það logi frá kvöldi til morguns frammi fyrir Jehóva á lömpunum+ sem eru í samfundatjaldinu fyrir utan fortjaldið við örk vitnisburðarins.+ Þetta er varanlegt ákvæði sem Ísraelsmenn eiga að halda kynslóð eftir kynslóð.+

28 Kallaðu til þín af Ísraelsmönnum Aron+ bróður þinn og syni hans,+ þá Nadab, Abíhú,+ Eleasar og Ítamar,+ til að þjóna mér sem prestar.+ 2 Gerðu heilagan fatnað handa Aroni bróður þínum, honum til heiðurs og prýði.+ 3 Talaðu við alla hæfileikamenn* sem ég hef fyllt visku.+ Biddu þá að gera fatnað handa Aroni sem sýnir að hann er helgaður til að þjóna mér sem prestur.

4 Þetta er fatnaðurinn sem þeir eiga að gera: brjóstskjöldur,+ hökull,+ ermalaus yfirhöfn,+ kyrtill úr köflóttu efni, vefjarhöttur+ og belti.+ Þeir eiga að gera þennan heilaga fatnað handa Aroni bróður þínum og sonum hans svo að þeir geti þjónað mér sem prestar. 5 Handverksmennirnir eiga að nota gullið, bláa garnið, purpuralitu ullina, skarlatsrauða garnið og fína línið.

6 Þeir eiga að gera hökulinn úr gulli, bláu garni, purpuralitri ull, skarlatsrauðu garni og fínu tvinnuðu líni, og hann á að vera útsaumaður.+ 7 Hann á að vera með tveim hlýrum sem eru festir saman að ofan. 8 Beltið*+ á höklinum til að gyrða hann að sér á að vefa úr sömu efnum: gulli, bláu garni, purpuralitri ull, skarlatsrauðu garni og fínu tvinnuðu líni.

9 Taktu tvo ónyxsteina+ og grafðu á þá nöfn sona Ísraels,+ 10 sex nöfn á annan steininn og hin sex nöfnin á hinn steininn í sömu röð og þeir fæddust. 11 Leturgrafari á að grafa nöfn sona Ísraels á steinana tvo eins og innsigli eru grafin.+ Láttu síðan greypa þá í umgjarðir úr gulli. 12 Festu steinana tvo á hlýra hökulsins sem minnissteina fyrir syni Ísraels,+ og Aron á að bera nöfn þeirra á báðum hlýrunum frammi fyrir Jehóva til að minna á Ísraelsmenn. 13 Gerðu umgjarðir úr gulli 14 og tvær keðjur úr hreinu gulli snúnar saman eins og reipi.+ Festu keðjurnar við umgjarðirnar.+

15 Láttu útsaumara gera dómskjöldinn.+ Það á að gera hann, eins og hökulinn, úr gulli, bláu garni, purpuralitri ull, skarlatsrauðu garni og fínu tvinnuðu líni.+ 16 Hann á að vera ferningslaga þegar efnið er brotið saman, spönn* á lengd og spönn á breidd. 17 Festu á hann fjórar raðir af steinum. Í fyrstu röðinni er rúbín, tópas og smaragður. 18 Í annarri röðinni er túrkis, safír og jaspis. 19 Í þriðju röðinni er lesemsteinn,* agat og ametýst. 20 Í fjórðu röðinni er krýsólít, ónyx og jaði. Steinana skal greypa í umgjarðir úr gulli, 21 einn stein fyrir hvern af 12 sonum Ísraels. Á hverjum steini á að standa nafn, grafið eins og á innsigli, en nöfnin standa fyrir ættkvíslirnar 12.

22 Gerðu keðjur úr hreinu gulli fyrir brjóstskjöldinn, snúnar saman eins og reipi.+ 23 Gerðu tvo gullhringi fyrir brjóstskjöldinn og festu þá á efri horn hans. 24 Þræddu gullkeðjurnar tvær í gegnum hringina á báðum hornum brjóstskjaldarins. 25 Þræddu endana á keðjunum í gegnum umgjarðirnar tvær og festu þær á hlýra hökulsins að framanverðu. 26 Gerðu tvo gullhringi og festu þá í neðri horn brjóstskjaldarins að innanverðu sem snýr að höklinum.+ 27 Gerðu tvo gullhringi til viðbótar og festu þá framan á hökulinn fyrir neðan hlýrana og fyrir ofan beltið* þar sem hann er festur saman.+ 28 Brjóstskjöldinn á að binda með bláu bandi sem á að liggja úr hringjum hans í hringi hökulsins. Það heldur brjóstskildinum á sínum stað á höklinum fyrir ofan beltið.*

29 Aron skal bera nöfn sona Ísraels á dómskildinum nærri hjarta sér þegar hann gengur inn í hið heilaga til að minna stöðugt á þá frammi fyrir Jehóva. 30 Settu úrím og túmmím*+ inn í dómskjöldinn þannig að þau séu nærri hjarta Arons þegar hann gengur fram fyrir Jehóva. Hann skal alltaf bera þau nærri hjarta sér frammi fyrir Jehóva og nota þau þegar úrskurðað er í málum sem varða Ísraelsmenn.

31 Ermalausu yfirhöfnina sem er undir höklinum á að vefa eingöngu úr bláu garni.+ 32 Hálsmálið á yfirhöfninni á að vera með ofnum borða eins og á brynju svo að ekki rifni út úr því. 33 Gerðu granatepli úr bláu garni, purpuralitri ull og skarlatsrauðu garni. Festu þau á faldinn hringinn í kring og gullbjöllur á milli þeirra. 34 Settu gullbjöllur og granatepli á víxl hringinn í kring á fald yfirhafnarinnar. 35 Aron á að vera í henni þegar hann gegnir þjónustu svo að það heyrist í bjöllunum þegar hann gengur inn í helgidóminn fram fyrir Jehóva og þegar hann gengur út. Annars deyr hann.+

36 Þú skalt gera gljáandi plötu úr hreinu gulli og grafa á hana eins og á innsigli: ‚Jehóva er heilagur.‘*+ 37 Festu hana á vefjarhöttinn+ með bláu bandi. Hún á að vera framan á vefjarhettinum, 38 á enni Arons. Hann er ábyrgur þegar einhver fer ekki rétt með heilagar fórnir+ sem Ísraelsmenn eiga að færa Guði að helgigjöf. Gullplatan á alltaf að vera á enni hans svo að þeir hljóti velþóknun Jehóva.

39 Þú skalt vefa köflóttan kyrtil úr fínu líni, gera vefjarhött úr fínu líni og vefa belti.+

40 Gerðu einnig kyrtla, belti og höfuðbúnað handa sonum Arons,+ þeim til heiðurs og prýði.+ 41 Klæddu Aron bróður þinn og syni hans í þennan fatnað. Þú skalt smyrja þá,+ vígja þá*+ og helga þá, og þeir skulu þjóna mér sem prestar. 42 Gerðu líka stuttar línbuxur* handa þeim til að hylja nekt þeirra.+ Þær eiga að ná frá mjöðmum niður á læri. 43 Aron og synir hans eiga að vera í þeim þegar þeir ganga inn í samfundatjaldið eða ganga að altarinu til að þjóna við helgidóminn. Annars baka þeir sér sekt og deyja. Þetta er varanlegt ákvæði fyrir hann og afkomendur hans.

29 Svona skaltu fara að þegar þú helgar þá til að þjóna mér sem prestar: Taktu ungnaut, tvo lýtalausa hrúta,+ 2 ósýrt brauð, ósýrt kringlótt brauð blandað olíu og ósýrðar flatkökur smurðar olíu.+ Þú átt að baka þetta úr fínu hveiti, 3 leggja í körfu og bera fram fyrir mig í körfunni+ ásamt nautinu og hrútunum tveim.

4 Þú skalt leiða Aron og syni hans að inngangi samfundatjaldsins+ og segja þeim að þvo sér með vatni.+ 5 Klæddu síðan Aron í kyrtilinn, ermalausu yfirhöfnina,* hökulinn og brjóstskjöldinn og hnýttu hökulbeltið* fast um mitti hans.+ 6 Settu vefjarhöttinn á höfuð hans og festu hið heilaga vígslutákn* á vefjarhöttinn.+ 7 Taktu svo smurningarolíuna,+ helltu henni á höfuð hans og smyrðu hann.+

8 Leiddu síðan syni hans fram, klæddu þá í kyrtlana,+ 9 gyrtu þá belti, bæði Aron og syni hans, og settu á þá höfuðbúnaðinn. Prestdómurinn skal tilheyra þeim samkvæmt varanlegu ákvæði.+ Þannig áttu að vígja Aron og syni hans til að þjóna sem prestar.*+

10 Leiddu nú nautið að samfundatjaldinu. Aron og synir hans skulu leggja hendur sínar á höfuð nautsins.+ 11 Slátraðu nautinu frammi fyrir Jehóva við inngang samfundatjaldsins.+ 12 Dýfðu fingri þínum í blóð nautsins og berðu það á horn altarisins.+ Helltu svo öllu sem eftir er af blóðinu niður við altarið.+ 13 Taktu allan mörinn+ sem þekur garnirnar, fituna á lifrinni, bæði nýrun og nýrnamörinn og brenndu það svo að reykurinn stígi upp af altarinu.+ 14 En kjötið af nautinu, húðina og gorið áttu að brenna fyrir utan búðirnar. Þetta er syndafórn.

15 Taktu nú annan hrútinn, og Aron og synir hans skulu leggja hendur sínar á höfuð hans.+ 16 Slátraðu hrútnum og taktu blóðið og slettu því á allar hliðar altarisins.+ 17 Hlutaðu hrútinn sundur, þvoðu garnirnar+ og skankana og raðaðu stykkjunum á altarið ásamt höfðinu. 18 Brenndu allan hrútinn þannig að reykurinn stígi upp af altarinu. Þetta er brennifórn handa Jehóva og honum ljúfur* ilmur.+ Þetta er eldfórn handa Jehóva.

19 Taktu síðan hinn hrútinn, og Aron og synir hans skulu leggja hendur sínar á höfuð hans.+ 20 Slátraðu hrútnum, taktu nokkuð af blóði hans og berðu á hægri eyrnasnepil Arons og hægri eyrnasnepil sona hans, á þumalfingur hægri handar þeirra og stórutá hægri fótar þeirra og slettu blóðinu á allar hliðar altarisins. 21 Taktu svo nokkuð af blóðinu sem er á altarinu og nokkuð af smurningarolíunni+ og slettu á Aron og föt hans og á syni hans og föt þeirra. Þá verða hann og föt hans heilög og synir hans og föt þeirra sömuleiðis.+

22 Taktu síðan fituna úr hrútnum, feitan dindilinn, mörinn sem þekur garnirnar, fituna á lifrinni, bæði nýrun og nýrnamörinn+ og hægra lærið því að þetta er vígsluhrútur.+ 23 Taktu líka kringlóttan brauðhleif, kringlótt brauð með olíu og flatköku úr körfunni með ósýrða brauðinu sem er frammi fyrir Jehóva. 24 Leggðu þetta allt í hendur Arons og sona hans og láttu þá veifa því fram og aftur sem veififórn frammi fyrir Jehóva. 25 Taktu það svo aftur úr höndum þeirra og brenndu það á altarinu ofan á brennifórninni svo að það verði ljúfur* ilmur frammi fyrir Jehóva. Þetta er eldfórn handa Jehóva.

26 Taktu nú bringuna af vígsluhrútnum+ sem er fórnað í þágu Arons og veifaðu henni fram og aftur sem veififórn frammi fyrir Jehóva. Hún á að koma í þinn hlut. 27 Þú skalt helga bringuna úr veififórninni og lærið úr hinni heilögu fórn sem var veifað, lærið af vígsluhrútnum+ sem var fórnað í þágu Arons og sona hans. 28 Þetta er heilög fórn sem á að tilheyra Aroni og sonum hans samkvæmt varanlegu ákvæði sem Ísraelsmenn eiga að fylgja. Þetta er heilög fórn sem Ísraelsmenn eiga að gefa+ Jehóva af samneytisfórnum sínum.+

29 Afkomendur Arons+ eiga að nota hinn heilaga fatnað+ hans eftir að þeir taka við af honum og eru smurðir og vígðir sem prestar. 30 Sá prestur af afkomendum hans sem tekur við af honum og gengur inn í samfundatjaldið til að þjóna í helgidóminum á að klæðast fötunum í sjö daga.+

31 Þú skalt taka vígsluhrútinn og sjóða kjötið af honum á heilögum stað.+ 32 Aron og synir hans eiga að borða+ kjötið af hrútnum og brauðið sem er í körfunni við inngang samfundatjaldsins. 33 Þeir eiga að borða það sem fórnað var í friðþægingarfórn þegar þeir voru vígðir sem prestar* og voru helgaðir. En enginn óviðkomandi* má borða það því að það er heilagt.+ 34 Ef eitthvað af kjöti vígslufórnarinnar og brauðinu er eftir næsta morgun áttu að brenna það í eldi.+ Það má ekki borða það því að það er heilagt.

35 Þannig skaltu fara að við Aron og syni hans. Farðu eftir öllu sem ég hef sagt þér. Verðu sjö dögum í að vígja þá sem presta.*+ 36 Færðu naut að syndafórn daglega sem friðþægingu. Þú átt að hreinsa altarið af synd með því að friðþægja fyrir það og þú skalt smyrja það til að helga það.+ 37 Verðu sjö dögum í að friðþægja fyrir altarið og helgaðu það svo að það verði háheilagt.+ Allir sem snerta altarið verða að vera heilagir.

38 Þessu á að fórna á altarinu héðan í frá: tveim veturgömlum hrútum á hverjum degi.+ 39 Fórnaðu öðru hrútlambinu að morgni og hinu í ljósaskiptunum.*+ 40 Með fyrri hrútnum á að fórna tíunda hluta úr efu* af fínu mjöli blönduðu fjórðungi úr hín* af olíu úr steyttum ólívum, og í drykkjarfórn fjórðungi úr hín af víni. 41 Síðari hrútnum skaltu fórna í ljósaskiptunum* með sömu korn- og drykkjarfórn og um morguninn. Þetta er eldfórn handa Jehóva, ljúfur* ilmur sem honum geðjast. 42 Þetta á að vera dagleg brennifórn kynslóð eftir kynslóð við inngang samfundatjaldsins frammi fyrir Jehóva. Þar birtist ég ykkur og þar tala ég við þig.+

43 Ég birtist Ísraelsmönnum þar og staðurinn mun helgast af dýrð minni.+ 44 Ég helga samfundatjaldið og altarið, og ég helga Aron og syni hans+ til að þeir geti þjónað mér sem prestar. 45 Ég mun búa* meðal Ísraelsmanna og ég verð Guð þeirra.+ 46 Og þeir munu skilja að ég er Jehóva Guð þeirra sem leiddi þá út úr Egyptalandi til að ég gæti búið meðal þeirra.+ Ég er Jehóva Guð þeirra.

30 Þú skalt gera altari til að brenna reykelsi á.+ Gerðu það úr akasíuviði.+ 2 Það á að vera ferningslaga, alin* á lengd, alin á breidd og tvær álnir á hæð. Hornin eiga að vera úr sama planka og altarið.+ 3 Leggðu það hreinu gulli: plötuna, allar hliðarnar og hornin, og gerðu gullkant* í kringum það. 4 Gerðu líka tvo gullhringi fyrir neðan kantinn* báðum megin. Þeir eiga að halda burðarstöngunum. 5 Gerðu stangirnar úr akasíuviði og leggðu þær gulli. 6 Settu altarið fyrir framan fortjaldið sem er við örk vitnisburðarins,+ fyrir framan lok hennar þar sem ég mun birtast þér.+

7 Aron+ á að brenna ilmreykelsi+ þar+ þannig að reykurinn stígi upp af altarinu á hverjum morgni á meðan hann sinnir lömpunum.+ 8 Hann á líka að brenna reykelsi þegar hann kveikir á lömpunum í ljósaskiptunum.* Þetta er regluleg reykelsisfórn frammi fyrir Jehóva um ókomnar kynslóðir. 9 Þið megið ekki fórna á því óleyfilegu reykelsi,+ ekki brennifórn né kornfórn og þið megið ekki hella drykkjarfórn á það. 10 Einu sinni á ári skal Aron bera nokkuð af blóði syndafórnarinnar á horn altarisins til að hreinsa það.+ Hann á að friðþægja+ fyrir altarið einu sinni á ári um ókomnar kynslóðir. Það er háheilagt í augum Jehóva.“

11 Síðan sagði Jehóva við Móse: 12 „Þegar þú tekur manntal meðal Ísraelsmanna+ á hver og einn að greiða Jehóva lausnargjald fyrir líf sitt til að engin plága komi yfir þá þegar þeir eru skrásettir. 13 Allir sem eru skráðir eiga að greiða hálfan sikil* eftir stöðluðum sikli helgidómsins.*+ Tuttugu gerur* jafngilda einum sikli. Framlagið til Jehóva á að vera hálfur sikill.+ 14 Allir sem eru skráðir og eru tvítugir og eldri eiga að gefa Jehóva þetta framlag.+ 15 Ríkur maður á ekki að gefa meira en hálfan sikil* og fátækur maður ekki minna í framlag til Jehóva til að friðþægja fyrir líf sitt. 16 Taktu við silfurpeningunum sem Ísraelsmenn greiða í lausnargjald og gefðu til þjónustunnar við samfundatjaldið. Féð á að minna Jehóva á að Ísraelsmenn hafi friðþægt fyrir líf sitt.“

17 Jehóva sagði einnig við Móse: 18 „Gerðu koparker til þvottar ásamt undirstöðugrind.+ Settu það síðan milli samfundatjaldsins og altarisins og fylltu það vatni.+ 19 Aron og synir hans skulu þvo sér þar um hendur og fætur.+ 20 Þegar þeir ganga inn í samfundatjaldið eða að altarinu til að þjóna og færa Jehóva eldfórn eiga þeir að þvo sér með vatni svo að þeir deyi ekki. 21 Þeir eiga að þvo sér um hendur og fætur svo að þeir deyi ekki. Það er varanlegt ákvæði fyrir þá, fyrir Aron og afkomendur hans, um ókomnar kynslóðir.“+

22 Jehóva hélt áfram og sagði við Móse: 23 „Taktu ilmefni af bestu gerð: 500 einingar af storkinni myrru og helmingi minna, 250 einingar, af sætum kanil, 250 einingar af sætri kalmusrót 24 og 500 einingar af kassíu, mældar eftir stöðluðum sikli helgidómsins,*+ ásamt hín* af ólívuolíu. 25 Gerðu úr þessu heilaga smurningarolíu og blandaðu hana fagmannlega.*+ Þetta á að vera heilög smurningarolía.

26 Með henni skaltu smyrja samfundatjaldið+ og örk vitnisburðarins, 27 svo og borðið og öll áhöld þess, ljósastikuna og áhöld hennar, reykelsisaltarið, 28 brennifórnaraltarið ásamt öllum áhöldum þess og kerið ásamt undirstöðugrindinni. 29 Helgaðu þetta svo að það verði háheilagt.+ Allir sem snerta það verða að vera heilagir.+ 30 Smyrðu Aron+ og syni hans+ og helgaðu þá til að þjóna mér sem prestar.+

31 Talaðu til Ísraelsmanna og segðu: ‚Þetta á að vera mér heilög smurningarolía um ókomnar kynslóðir.+ 32 Það má ekki bera hana á nokkra aðra og ekki gera sams konar blöndu til nokkurra annarra nota. Hún er heilög og á að vera ykkur heilög áfram. 33 Ef einhver býr til sams konar smyrsl og ber þau á einhvern óviðkomandi* á að taka hann af lífi.‘“+

34 Jehóva sagði síðan við Móse: „Taktu af þessum ilmefnum:+ ilmkvoðu, reykelsisónyku, ilmandi galbankvoðu og hreint hvítt reykelsi, jafn mikið af hverju. 35 Gerðu reykelsi+ úr ilmefnunum og blandaðu þeim fagmannlega saman.* Blandan á að vera söltuð,+ hrein og heilög. 36 Steyttu hluta af henni í fínt duft og settu svolítið af því fyrir framan örk vitnisburðarins í samfundatjaldinu þar sem ég birtist þér. Reykelsið á að vera ykkur háheilagt. 37 Þið megið ekki gera reykelsi úr sams konar blöndu til eigin nota.+ Þið skuluð líta á það sem heilagt því að það er heilagt í augum Jehóva. 38 Sá sem gerir svona reykelsi til að njóta ilmsins af því skal tekinn af lífi.“

31 Jehóva hélt áfram og sagði við Móse: 2 „Ég hef valið* Besalel+ Úríson, sonar Húrs, af ættkvísl Júda.+ 3 Ég fylli hann anda Guðs og gef honum visku, skilning og færni í alls konar handverki 4 til að hanna listræna hluti, til að smíða úr gulli, silfri og kopar, 5 slípa steina og greypa þá í umgjarðir+ og smíða alls konar hluti úr tré.+ 6 Honum til aðstoðar hef ég tilnefnt Oholíab+ Akísamaksson af ættkvísl Dans og ég legg visku í hjörtu allra sem eru verklagnir* svo að þeir geti gert allt sem ég hef falið þér:+ 7 samfundatjaldið,+ örk vitnisburðarins+ og lokið+ á hana, allan búnað tjaldbúðarinnar, 8 borðið+ og áhöld þess, ljósastikuna úr hreinu gulli og öll áhöld hennar,+ reykelsisaltarið,+ 9 brennifórnaraltarið+ og öll áhöld þess, kerið og undirstöðugrind þess,+ 10 fatnaðinn úr fínum vefnaði, hinn heilaga fatnað Arons prests, prestfatnað sona hans,+ 11 smurningarolíuna og ilmreykelsið fyrir helgidóminn.+ Þeir eiga að gera allt sem ég hef sagt þér.“

12 Jehóva sagði einnig við Móse: 13 „Segðu Ísraelsmönnum: ‚Gætið þess vandlega að halda hvíldardaga mína+ því að hvíldardagurinn er tákn milli mín og ykkar um ókomnar kynslóðir til að þið munið að ég, Jehóva, helga ykkur. 14 Haldið hvíldardaginn því að hann er ykkur heilagur.+ Sá sem vanhelgar hann skal tekinn af lífi. Ef einhver vinnur nokkurt verk á hvíldardegi skal uppræta þann mann úr þjóðinni.*+ 15 Sex daga megið þið vinna en sjöundi dagurinn er alger hvíldardagur.+ Hann er heilagur í augum Jehóva. Sá sem vinnur á hvíldardegi skal tekinn af lífi. 16 Ísraelsmenn eiga að virða hvíldardaginn. Þeir eiga að halda hvíldardaginn um ókomnar kynslóðir. Það er ævarandi sáttmáli. 17 Hann er varanlegt tákn milli mín og Ísraelsmanna+ því að Jehóva gerði himin og jörð á sex dögum en á sjöunda deginum hvíldist hann og endurnærðist.‘“+

18 Þegar Guð hafði lokið máli sínu við Móse á Sínaífjalli fékk hann honum tvær töflur með vitnisburðinum,+ steintöflur sem ritað var á með fingri Guðs.+

32 Þegar fólkið sá að það dróst að Móse kæmi ofan af fjallinu+ safnaðist það kringum Aron og sagði við hann: „Gerðu guð handa okkur til að fara fyrir okkur+ því að við vitum ekki hvað er orðið um þennan Móse, manninn sem leiddi okkur út úr Egyptalandi.“ 2 Aron svaraði: „Takið gullhringina+ úr eyrum kvenna ykkar, sona og dætra og færið mér þá.“ 3 Allt fólkið tók þá gullhringina úr eyrunum og færði Aroni þá. 4 Hann tók við gullinu, mótaði það með meitli og gerði úr því líkneski* af kálfi.+ Þá sagði fólkið: „Ísrael, þetta er Guð þinn sem leiddi þig út úr Egyptalandi.“+

5 Þegar Aron sá þetta reisti hann altari frammi fyrir kálfinum. Síðan kallaði hann: „Á morgun verður haldin hátíð til heiðurs Jehóva.“ 6 Fólkið var því snemma á fótum morguninn eftir og færði brennifórnir og samneytisfórnir. Því næst settist það niður til að borða og drekka og stóð síðan upp til að skemmta sér.+

7 Jehóva sagði nú við Móse: „Farðu niður af fjallinu því að fólk þitt, sem þú leiddir út úr Egyptalandi, hefur gert það sem er illt.+ 8 Það var ekki lengi að fara út af þeirri braut sem ég sagði því að ganga.+ Það hefur búið sér til líkneski* af kálfi og það fellur fram fyrir kálfinum, færir honum fórnir og segir: ‚Ísrael, þetta er Guð þinn sem leiddi þig út úr Egyptalandi.‘“ 9 Jehóva sagði síðan við Móse: „Ég sé að þetta er þrjóskt* fólk.+ 10 Farðu nú frá mér því að ég ætla að útrýma því í brennandi reiði minni og í staðinn gera þig að mikilli þjóð.“+

11 Móse bað þá innilega til* Jehóva Guðs síns:+ „Jehóva, hvers vegna ætti reiði þín að blossa upp gegn fólki þínu eftir að þú hefur leitt það út úr Egyptalandi með miklum mætti og voldugri hendi?+ 12 Hvers vegna ættu Egyptar að geta sagt: ‚Hann hafði illt í hyggju þegar hann leiddi þá burt. Hann ætlaði að drepa þá á fjöllum uppi og uppræta þá af yfirborði jarðar‘?+ Viltu láta af brennandi reiði þinni og hætta við* að leiða þessa ógæfu yfir fólk þitt? 13 Mundu eftir þjónum þínum, Abraham, Ísak og Ísrael. Þú sórst við sjálfan þig og sagðir: ‚Ég geri afkomendur ykkar eins marga og stjörnur á himni+ og ég gef þeim allt þetta land sem ég hef tiltekið til að þeir eignist það til frambúðar.‘“*+

14 Jehóva hætti þá við* að leiða yfir fólk sitt ógæfuna sem hann hafði talað um.+

15 Móse fór nú niður af fjallinu og hélt á báðum vitnisburðartöflunum.+ Þær voru áletraðar báðum megin, bæði á framhlið og bakhlið. 16 Það var Guð sem gerði töflurnar og hann risti letrið í þær.+ 17 Þegar Jósúa heyrði hrópin og hávaðann í fólkinu sagði hann við Móse: „Það hljómar eins og verið sé að berjast í búðunum.“ 18 En Móse svaraði:

„Þetta er ekki sigursöngur* sem ég heyri

og það er ekki kvein undan ósigri.

Það er annars konar söngur sem ég heyri.“

19 Þegar Móse nálgaðist búðirnar og sá kálfinn+ og dansinn blossaði reiði hans upp og hann kastaði frá sér töflunum og mölbraut þær við fjallsræturnar.+ 20 Hann tók kálfinn sem þeir höfðu gert, brenndi hann í eldi og muldi hann mélinu smærra.+ Síðan dreifði hann duftinu í vatn og lét Ísraelsmenn drekka það.+ 21 Móse spurði síðan Aron: „Hvað gerði þetta fólk til að þú skyldir kalla þessa miklu synd yfir það?“ 22 „Reiðstu ekki, herra minn,“ svaraði Aron. „Þú veist vel að fólkið hefur tilhneigingu til að gera illt.+ 23 Það sagði við mig: ‚Gerðu guð handa okkur til að fara fyrir okkur því að við vitum ekki hvað er orðið um þennan Móse, manninn sem leiddi okkur út úr Egyptalandi.‘+ 24 Þá svaraði ég: ‚Allir sem eiga gull skulu taka það af sér og láta mig fá það.‘ Ég kastaði því á eldinn og þá varð þessi kálfur til.“

25 Móse sá að fólkið var taumlaust því að Aron hafði gefið því lausan tauminn þannig að það varð sér til skammar frammi fyrir andstæðingum sínum. 26 Móse tók sér þá stöðu í hliði búðanna og sagði: „Hverjir standa með Jehóva? Komið til mín!“+ Allir Levítarnir söfnuðust þá saman hjá honum. 27 Hann sagði við þá: „Þetta segir Jehóva Guð Ísraels: ‚Þið skuluð hver og einn gyrða ykkur sverði, fara um allar búðirnar frá einu hliði til annars og taka af lífi bræður ykkar, nágranna og nána vini.‘“+ 28 Levítarnir gerðu eins og Móse sagði og á þeim degi féllu um 3.000 manns. 29 Þá sagði Móse: „Aðgreinið ykkur* í dag til þjónustu Jehóva því að þið hafið allir farið gegn sonum ykkar og bræðrum.+ Þess vegna veitir hann ykkur blessun í dag.“+

30 Strax daginn eftir sagði Móse við fólkið: „Þið hafið framið mjög alvarlega synd. Nú ætla ég að fara upp til Jehóva til að kanna hvort ég geti bætt fyrir synd ykkar.“+ 31 Móse sneri síðan aftur til Jehóva og sagði: „Fólkið hefur framið grafalvarlega synd. Það gerði sér guð úr gulli!+ 32 Viltu fyrirgefa synd þess?+ Ef ekki, viltu þá afmá mig úr bók þinni sem þú hefur skrifað?“+ 33 En Jehóva svaraði Móse: „Ég afmái úr bók minni hvern þann sem hefur syndgað gegn mér. 34 Farðu nú og leiddu fólkið þangað sem ég hef sagt þér. Engill minn fer á undan þér,+ en daginn sem ég geri upp sakirnar refsa ég mönnum fyrir synd þeirra.“ 35 Jehóva sendi síðan plágu yfir fólkið vegna kálfsins sem það fékk Aron til að gera.

33 Jehóva sagði við Móse: „Haltu nú héðan með fólkið sem þú leiddir út úr Egyptalandi. Farðu til landsins sem ég sór Abraham, Ísak og Jakobi að gefa afkomendum þeirra.+ 2 Ég sendi engil á undan þér+ og rek burt Kanverja, Amoríta, Hetíta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta.+ 3 Farðu til lands sem flýtur í mjólk og hunangi.+ En ég fer ekki með ykkur því að þið eruð þrjóskt* fólk+ og svo gæti farið að ég útrýmdi ykkur á leiðinni.“+

4 Þegar fólkið heyrði þessi hörðu orð varð það sorgmætt og enginn setti á sig skartgripi. 5 Jehóva sagði við Móse: „Segðu við Ísraelsmenn: ‚Þið eruð þrjóskt* fólk.+ Ég gæti farið um búðir ykkar á augabragði og tortímt ykkur.+ Berið enga skartgripi meðan ég hugleiði hvað ég á að gera við ykkur.‘“ 6 Ísraelsmenn báru því ekki skartgripi þaðan í frá, eftir að þeir tóku þá af sér við Hórebfjall.

7 Móse tók nú tjald sitt og setti það upp fyrir utan búðirnar, í nokkurri fjarlægð frá þeim, og hann kallaði það samfundatjald. Allir sem leituðu svara hjá Jehóva+ fóru út til samfundatjaldsins fyrir utan búðirnar. 8 Þegar Móse gekk út til tjaldsins risu allir á fætur, stóðu við tjalddyr sínar og horfðu á eftir honum þar til hann var kominn inn í tjaldið. 9 Um leið og Móse fór inn í tjaldið seig skýstólpinn+ niður og nam staðar við tjalddyrnar á meðan Guð talaði við Móse.+ 10 Þegar fólkið sá skýstólpann standa við tjalddyrnar hneigði það sig, hver við sínar tjalddyr. 11 Jehóva talaði við Móse augliti til auglitis+ eins og maður talar við mann. Þegar Móse sneri aftur til búðanna var Jósúa+ Núnsson, þjónn hans og aðstoðarmaður,+ eftir í tjaldinu.

12 Móse sagði nú við Jehóva: „Þú hefur sagt mér að leiða þetta fólk en þú hefur ekki sagt mér hvern þú ætlar að senda með mér. Þú hefur líka sagt: ‚Ég þekki þig með nafni* og hef velþóknun á þér.‘ 13 Ef þú hefur velþóknun á mér viltu þá leyfa mér að kynnast vegum þínum+ svo að ég megi þekkja þig og njóta velþóknunar þinnar áfram. Mundu líka að þessi þjóð er fólk þitt.“+ 14 Hann sagði þá: „Ég skal sjálfur fara með þér+ og ég skal veita þér hvíld.“+ 15 Þá sagði Móse við hann: „Ef þú ferð ekki með okkur láttu okkur þá ekki fara héðan. 16 Hvernig eiga aðrir að vita að þú hefur velþóknun á mér og fólki þínu ef þú ferð ekki með okkur?+ Hvernig eiga þeir að sjá að við erum aðgreind frá öllum öðrum þjóðum á jörðinni?“+

17 Jehóva svaraði Móse: „Ég skal líka gera þetta sem þú biður um því að ég hef velþóknun á þér og þekki þig með nafni.“ 18 Þá sagði Móse: „Viltu sýna mér dýrð þína?“ 19 Hann svaraði: „Ég skal leyfa þér að sjá alla gæsku mína og ég skal kunngera þér nafn mitt, Jehóva.+ Ég sýni þeim góðvild sem ég sýni góðvild og miskunna þeim sem ég miskunna.“+ 20 En hann bætti við: „Þú getur ekki séð andlit mitt því að enginn maður getur séð mig og haldið lífi.“

21 Síðan sagði Jehóva: „Hér er staður nálægt mér. Stattu þarna á klettinum. 22 Þegar dýrð mín fer fram hjá læt ég þig standa í klettaskoru og skýli þér með hendi minni þar til ég er farinn fram hjá. 23 Síðan tek ég höndina frá og þú færð að sjá aftan á mig. En andlit mitt fær enginn að sjá.“+

34 Jehóva sagði nú við Móse: „Þú skalt höggva þér tvær steintöflur eins og þær fyrri+ og ég ætla að skrifa á þær sömu orð og stóðu á fyrri töflunum,+ þeim sem þú braust.+ 2 Vertu tilbúinn í fyrramálið því að þú átt að fara upp á Sínaífjall og standa þar frammi fyrir mér á fjallstindinum.+ 3 En enginn má fara þangað upp með þér og enginn annar má sjást nokkurs staðar á fjallinu. Sauðfé eða nautgripir eiga ekki einu sinni að vera á beit í grennd við fjallið.“+

4 Móse hjó þá til tvær steintöflur eins og þær fyrri. Hann fór snemma morguns upp á Sínaífjall eins og Jehóva hafði sagt honum og tók báðar steintöflurnar með sér. 5 Jehóva steig þá niður+ í skýinu, nam staðar þar hjá honum og kunngerði honum nafn sitt, Jehóva.+ 6 Jehóva gekk fram hjá honum og kallaði: „Jehóva, Jehóva, miskunnsamur+ og samúðarfullur+ Guð sem er seinn til reiði,+ sýnir tryggan kærleika*+ í ríkum mæli og er alltaf sannorður.*+ 7 Hann sýnir þúsundum tryggan kærleika+ og fyrirgefur misgerðir, afbrot og syndir.+ Hann lætur hinum seka þó ekki órefsað+ heldur lætur refsinguna fyrir syndir feðra koma niður á börnum og barnabörnum í þriðja og fjórða ættlið.“+

8 Móse kraup strax og féll fram. 9 Síðan sagði hann: „Jehóva, ef þú hefur velþóknun á mér þá bið ég þig, Jehóva, að koma með okkur og vera á meðal okkar+ þó að við séum þrjósk.*+ Fyrirgefðu misgerðir okkar og syndir+ og gerðu okkur að þinni eign.“ 10 Hann svaraði: „Ég geri sáttmála við ykkur: Ég geri máttarverk frammi fyrir öllu fólki þínu, máttarverk sem hafa aldrei verið gerð* á jörð eða hjá nokkurri annarri þjóð,+ og allar þjóðir sem þið búið á meðal munu sjá verk Jehóva því að það sem ég geri fyrir þig er mikilfenglegt.+

11 Taktu vel eftir því sem ég segi þér í dag.+ Ég hrek burt undan þér Amoríta, Kanverja, Hetíta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta.+ 12 Gættu þess vandlega að gera ekki sáttmála við íbúa landsins sem þú kemur til+ því að það gæti orðið þér að snöru.+ 13 Þið eigið að rífa niður ölturu þeirra, brjóta helgisúlur þeirra og höggva niður helgistólpa* þeirra.+ 14 Þú skalt ekki falla fram fyrir öðrum guði+ því að Jehóva er þekktur fyrir að krefjast óskiptrar hollustu.* Já, hann er Guð sem krefst óskiptrar hollustu.+ 15 Gættu þess að gera ekki sáttmála við íbúa landsins því að þegar þeir tilbiðja guði sína* og færa þeim fórnir+ verður þér boðið og þú munt borða af fórnum þeirra.+ 16 Þá muntu taka sumar af dætrum þeirra handa sonum þínum+ og þær munu drýgja þá synd að tilbiðja guði sína* og fá syni þína til að gera slíkt hið sama.+

17 Þú skalt ekki gera þér steypta guði.+

18 Þú átt að halda hátíð ósýrðu brauðanna.+ Þú skalt borða ósýrt brauð í sjö daga á tilteknum tíma í abíbmánuði*+ eins og ég hef sagt þér því að það var í abíbmánuði sem þú fórst frá Egyptalandi.

19 Allir karlkyns frumburðir* tilheyra mér,+ einnig af búfé þínu, hvort heldur fyrsti nautkálfurinn eða hrútlambið.+ 20 Frumburði asna áttu að kaupa lausa með sauðkind en ef þú leysir þá ekki skaltu hálsbrjóta þá. Þú skalt kaupa lausa alla frumgetna syni.+ Enginn á að koma tómhentur fram fyrir mig.

21 Sex daga áttu að vinna en sjöunda daginn áttu að hvílast.*+ Jafnvel á plægingar- og uppskerutíma áttu að hvílast.

22 Þú skalt halda viknahátíðina og fórna á henni frumgróða hveitiuppskerunnar og um áramót skaltu halda uppskeruhátíðina.*+

23 Þrisvar á ári eiga allir karlmenn á meðal þín að ganga fram fyrir hinn sanna Drottin, Jehóva Guð Ísraels.+ 24 Ég hrek þjóðirnar burt undan þér+ og stækka landsvæði þitt. Enginn mun reyna að taka land þitt meðan þú ferð til að ganga fram fyrir Jehóva Guð þinn þrisvar á ári.

25 Þú mátt ekki bera fram blóð fórnar minnar með nokkru sem er sýrt.+ Og fórn páskahátíðarinnar má ekki geyma yfir nótt til morguns.+

26 Þú átt að koma með það besta af frumgróða jarðar þinnar í hús Jehóva Guðs þíns.+

Þú mátt ekki sjóða kiðling í mjólk móður sinnar.“+

27 Jehóva hélt áfram og sagði við Móse: „Skrifaðu niður þessi orð+ því að ég geri sáttmála við þig og Ísrael byggðan á þeim.“+ 28 Hann var þar hjá Jehóva í 40 daga og 40 nætur. Hann át hvorki brauð né drakk vatn.+ Og hann* skrifaði orð sáttmálans, boðorðin tíu,* á töflurnar.+

29 Móse kom síðan niður af Sínaífjalli og hélt á báðum töflunum með vitnisburðinum.+ En hann vissi ekki að geislum stafaði af andliti hans af því að hann hafði talað við Guð. 30 Þegar Aron og allir Ísraelsmenn sáu Móse tóku þeir eftir að geislum stafaði af andliti hans og þeir þorðu ekki að koma nálægt honum.+

31 En Móse kallaði á þá þannig að Aron og allir höfðingjar safnaðarins komu til hans og Móse talaði við þá. 32 Síðan komu allir Ísraelsmenn til hans og hann flutti þeim öll þau fyrirmæli sem Jehóva hafði gefið honum á Sínaífjalli.+ 33 Þegar Móse lauk máli sínu huldi hann andlit sitt með slæðu.+ 34 En þegar hann fór inn og gekk fram fyrir Jehóva til að tala við hann tók hann slæðuna af sér.+ Síðan gekk hann út og flutti Ísraelsmönnum fyrirmælin sem hann hafði fengið.+ 35 Ísraelsmenn sáu að geislum stafaði af andliti Móse. Hann huldi þá andlitið aftur með slæðunni þangað til hann gekk inn til að tala við Guð.*+

35 Síðar stefndi Móse saman öllum söfnuði Ísraelsmanna og sagði: „Þetta er það sem Jehóva hefur sagt ykkur að gera:+ 2 Sex daga megið þið vinna en sjöundi dagurinn á að vera ykkur heilagur, alger hvíldardagur helgaður Jehóva.+ Sá sem vinnur þann dag skal tekinn af lífi.+ 3 Þið megið ekki kveikja eld á hvíldardegi, óháð því hvar þið búið.“

4 Móse sagði síðan við allan söfnuð Ísraelsmanna: „Þetta eru fyrirmæli Jehóva: 5 ‚Safnið saman framlögum handa Jehóva.+ Allir sem vilja gefa Jehóva af fúsu hjarta+ færi honum framlög: gull, silfur, kopar, 6 blátt garn, purpuralita ull, skarlatsrautt garn, fínt lín, geitarhár,+ 7 rauðlituð hrútskinn, selskinn, akasíuvið, 8 lampaolíu, balsam í smurningarolíu og í ilmreykelsi,+ 9 ónyxsteina og aðra steina til að festa á hökulinn+ og brjóstskjöldinn.+

10 Allir hæfileikamenn*+ á meðal ykkar skulu koma og búa til allt sem Jehóva hefur beðið um, 11 það er tjaldbúðina með tjalddúkum hennar og yfirtjöldum, krókum og veggrömmum, þverslám, súlum og undirstöðuplötum; 12 örkina+ með burðarstöngum+ hennar og loki+ og fortjaldið+ fyrir framan hana; 13 borðið+ ásamt burðarstöngunum, öll áhöld þess og skoðunarbrauðið;+ 14 ljósastikuna+ og áhöld hennar ásamt lömpum og olíu til lýsingar;+ 15 reykelsisaltarið+ með burðarstöngunum; smurningarolíuna og ilmreykelsið;+ forhengið fyrir inngang tjaldbúðarinnar; 16 brennifórnaraltarið+ og kopargrind þess, burðarstangirnar og öll áhöldin; kerið ásamt undirstöðugrindinni;+ 17 tjöldin fyrir forgarðinn+ með súlum þeirra og undirstöðuplötum; forhengið fyrir inngang forgarðsins; 18 tjaldhæla tjaldbúðarinnar og tjaldhæla forgarðsins ásamt stögum;+ 19 fatnaðinn úr fínum vefnaði+ fyrir þjónustuna í helgidóminum, hinn heilaga fatnað Arons+ prests og prestfatnað sona hans.‘“

20 Allur söfnuður Ísraelsmanna fór nú burt frá Móse. 21 Síðan komu allir sem voru knúnir af fúsum huga og hjarta+ með framlög sín handa Jehóva, allt sem þurfti að nota í samfundatjaldið, við þjónustuna þar og í hinn heilaga fatnað. 22 Bæði karlar og konur sem vildu gefa komu stöðugt með nælur, eyrnalokka, hringi og aðra skartgripi auk alls kyns gripa úr gulli. Öll færðu þau Jehóva fórnargjafir* sínar úr gulli.+ 23 Og allir sem áttu blátt garn, purpuralita ull, skarlatsrautt garn, fínt lín, geitarhár, rauðlituð hrútskinn og selskinn komu með það. 24 Allir sem vildu gefa silfur og kopar komu með það sem framlag til Jehóva, og allir sem áttu akasíuvið í eitthvað af því sem átti að gera komu með hann.

25 Allar konur sem voru færar í handavinnu+ spunnu og komu með það sem þær höfðu spunnið: blátt garn, purpuralita ull, skarlatsrautt garn og fínt lín. 26 Og allar konur sem höfðu kunnáttu til og voru fúsar spunnu geitarhár.

27 Höfðingjarnir komu með ónyxsteina og aðra steina til að festa á hökulinn og brjóstskjöldinn,+ 28 balsam og olíu til lýsingar og í smurningarolíuna+ og ilmreykelsið.+ 29 Karlar og konur sem voru knúin af örlátu hjarta komu öll með framlag til verksins sem Jehóva hafði gefið fyrirmæli um fyrir milligöngu Móse. Ísraelsmenn færðu Jehóva það að gjöf af fúsu geði.+

30 Móse sagði nú við Ísraelsmenn: „Jehóva hefur valið Besalel Úríson, sonar Húrs, af ættkvísl Júda.+ 31 Hann hefur fyllt hann anda Guðs og gefið honum visku, skilning og færni í alls konar handverki 32 til að hanna listræna hluti, til að smíða úr gulli, silfri og kopar, 33 slípa steina og greypa þá í umgjarðir og smíða alls konar listræna hluti úr tré. 34 Og hann hefur gert hann og Oholíab+ Akísamaksson af ættkvísl Dans hæfa til að kenna öðrum. 35 Hann hefur gefið þeim hæfileika*+ til að vinna hvers kyns handverk og til að sauma út og vefa úr bláu garni, purpuralitri ull, skarlatsrauðu garni og fínu líni og vefa annars konar vefnað. Þessir menn eiga að vinna alls konar verk og hanna alls konar hluti.

36 Besalel á að vinna með Oholíab og öllum handverksmönnunum.* Jehóva hefur gefið þeim visku og skilning svo að þeir viti hvernig á að vinna öll þau verk sem tengjast hinni heilögu þjónustu eins og Jehóva hefur gefið fyrirmæli um.“+

2 Móse kallaði nú á Besalel og Oholíab og alla handverksmenn sem Jehóva hafði gefið visku,+ alla sem buðu sig fúslega fram til að vinna verkið.+ 3 Síðan fengu þeir frá Móse öll framlögin+ sem Ísraelsmenn höfðu gefið til vinnunnar við helgidóminn. En Ísraelsmenn héldu áfram að færa honum framlög á hverjum morgni.

4 Eftir að handverksmennirnir hófust handa við hið heilaga verk komu þeir hver á fætur öðrum 5 til Móse og sögðu við hann: „Fólkið kemur með miklu meira en nauðsynlegt er til verksins sem Jehóva hefur gefið fyrirmæli um.“ 6 Móse lét því tilkynna um allar búðirnar: „Hvorki karlar né konur skulu leggja meira fram til helgidómsins.“ Þá hætti fólkið að koma með framlög. 7 Efniviðurinn nægði fyrir öllu sem átti að gera og meira en það.

8 Allir handverksmennirnir+ gerðu nú tjaldbúðina+ úr tíu tjalddúkum úr fínu tvinnuðu líni, bláu garni, purpuralitri ull og skarlatsrauðu garni. Hann* gerði þá með útsaumuðum kerúbamyndum.+ 9 Hver tjalddúkur var 28 álnir* á lengd og 4 álnir á breidd. Allir tjalddúkarnir voru jafn stórir. 10 Hann festi saman fimm tjalddúka í eina einingu og hina fimm tjalddúkana sömuleiðis. 11 Síðan gerði hann lykkjur úr bláu garni á jaðri annarrar einingarinnar og eins á jaðri hinnar einingarinnar þar sem átti að tengja þær saman. 12 Hann gerði 50 lykkjur á jaðri annarrar einingarinnar og 50 lykkjur á jaðri hinnar svo að lykkjurnar stóðust á þar sem átti að tengja þær saman. 13 Að lokum gerði hann 50 gullkróka og tengdi tjalddúkana saman með þeim þannig að tjaldbúðin varð ein samfelld heild.

14 Að því búnu gerði hann dúka úr geitarhári til að leggja yfir tjaldbúðina. Hann gerði 11 dúka.+ 15 Hver tjalddúkur var 30 álnir á lengd og 4 á breidd. Dúkarnir 11 voru jafn stórir. 16 Hann festi saman fimm af tjalddúkunum og festi líka saman hina sex. 17 Hann gerði síðan 50 lykkjur á jaðri annarrar einingarinnar, á ysta tjalddúknum, og 50 lykkjur á jaðri hinnar einingarinnar þar sem þær tengdust. 18 Hann gerði líka 50 króka úr kopar til að tengja tjaldið saman í eina heild.

19 Hann gerði yfirtjald úr rauðlituðum hrútskinnum og yfirtjald úr selskinnum til að leggja yfir það.+

20 Eftir það tók hann akasíuvið+ og gerði veggramma tjaldbúðarinnar sem stóðu upp á endann.+ 21 Hver rammi var tíu álnir á hæð og ein og hálf alin á breidd. 22 Á hverjum ramma voru tveir tappar* hlið við hlið. Þannig gerði hann alla veggramma tjaldbúðarinnar. 23 Hann gerði 20 veggramma fyrir suðurhlið tjaldbúðarinnar. 24 Síðan gerði hann 40 undirstöðuplötur úr silfri undir veggrammana 20, tvær plötur undir hvern ramma, hvora fyrir sinn tappann.+ 25 Hann gerði einnig 20 veggramma fyrir norðurhlið tjaldbúðarinnar 26 og 40 undirstöðuplötur fyrir þá úr silfri, tvær plötur undir hvern ramma.

27 Fyrir bakhlið tjaldbúðarinnar, sem snýr í vestur, gerði hann sex veggramma.+ 28 Hann gerði tvo ramma sem standa á báðum hornum bakhliðarinnar. 29 Þeir voru tvöfaldir neðan frá og upp úr, að efsta hringnum. Þannig gerði hann bæði hornin. 30 Veggrammarnir voru sem sagt átta með 16 undirstöðuplötum úr silfri, tveim plötum undir hverjum ramma.

31 Hann gerði síðan þverslár úr akasíuviði, fimm fyrir aðra hlið veggrammanna í tjaldbúðinni,+ 32 fimm fyrir hina hlið rammanna í tjaldbúðinni og fimm þverslár fyrir rammana í bakhlið tjaldbúðarinnar sem snýr í vestur. 33 Hann gerði miðslána sem er á miðjum veggrömmunum og nær endanna á milli. 34 Hann lagði veggrammana gulli, gerði hringi úr gulli sem halda þverslánum og lagði slárnar gulli.+

35 Hann gerði fortjald+ úr bláu garni, purpuralitri ull, skarlatsrauðu garni og fínu tvinnuðu líni og saumaði út kerúba+ á það.+ 36 Hann gerði fjórar súlur úr akasíuviði fyrir fortjaldið og lagði þær gulli. Hann gerði einnig króka úr gulli og steypti fjórar undirstöðuplötur úr silfri undir súlurnar. 37 Síðan gerði hann forhengi fyrir inngang tjaldsins, ofið úr bláu garni, purpuralitri ull, skarlatsrauðu garni og fínu tvinnuðu líni.+ 38 Hann gerði einnig fimm súlur ásamt krókum. Hann lagði súlnahöfuðin og festingar* þeirra gulli en undirstöðuplöturnar fimm voru úr kopar.

37 Besalel+ gerði síðan örkina+ úr akasíuviði. Hún var tvær og hálf alin* á lengd, ein og hálf alin á breidd og ein og hálf alin á hæð.+ 2 Hann lagði hana hreinu gulli bæði að utan og innan og gerði kant* úr gulli hringinn í kring.+ 3 Hann steypti fjóra hringi úr gulli og festi þá fyrir ofan fætur hennar fjóra, tvo á aðra hliðina og tvo á hina. 4 Eftir það gerði hann stangir úr akasíuviði og lagði þær gulli.+ 5 Hann renndi stöngunum gegnum hringina báðum megin á örkinni svo að hægt væri að bera hana.+

6 Hann gerði lokið úr hreinu gulli.+ Það var tvær og hálf alin á lengd og ein og hálf alin á breidd.+ 7 Síðan gerði hann tvo kerúba+ úr gulli, mótaða með hamri, og setti á báða enda loksins.+ 8 Annar kerúbinn var á öðrum endanum og hinn á hinum. Hann setti þá hvorn á sinn enda loksins. 9 Kerúbarnir breiddu út vængina upp á við svo að þeir skyggðu á lokið með vængjunum.+ Þeir sneru hvor að öðrum og andlit þeirra sneru að lokinu.+

10 Hann gerði borðið úr akasíuviði.+ Það var tvær álnir á lengd, ein alin á breidd og ein og hálf alin á hæð.+ 11 Hann lagði það hreinu gulli og gerði kant* úr gulli hringinn í kring. 12 Síðan gerði hann þverhandarbreiðan* lista hringinn í kring og gullkant* á listann. 13 Hann steypti fjóra hringi úr gulli og setti þá á hornin fjögur þar sem fæturnir voru festir. 14 Hringirnir til að halda stöngunum sem átti að bera borðið með voru þétt við listann. 15 Hann gerði burðarstangirnar úr akasíuviði og lagði þær gulli. 16 Hann gerði líka áhöldin sem tilheyrðu borðinu úr hreinu gulli – fötin, bikarana, skálarnar og könnur undir drykkjarfórnirnar.+

17 Síðan gerði hann ljósastikuna+ úr hreinu gulli og mótaði hana með hamri. Stallurinn, fóturinn, blómbikararnir, blómhnapparnir og blómin voru úr heilu stykki.+ 18 Sex armar gengu út frá fætinum, þrír öðrum megin og þrír hinum megin. 19 Á hverjum armi voru þrír bikarar í lögun eins og möndlublóm, og milli þeirra hnappar og blóm. Armarnir voru eins báðum megin. Þannig gengu allir sex armarnir út frá fæti ljósastikunnar. 20 Og á fæti hennar voru fjórir bikarar í lögun eins og möndlublóm, og milli þeirra voru hnappar og blóm. 21 Undir fyrstu tveim örmunum sem gengu út frá fætinum var blómhnappur, undir næstu tveim örmum var blómhnappur og sömuleiðis var blómhnappur undir síðustu tveim örmunum. Undir öllum sex örmunum sem gengu út frá fætinum var blómhnappur. 22 Hnapparnir, armarnir og öll ljósastikan var mótuð með hamri úr heilu stykki af hreinu gulli. 23 Hann gerði líka sjö lampa ljósastikunnar,+ ljósaskærin* og eldpönnurnar úr hreinu gulli. 24 Hann gerði ljósastikuna og öll áhöld hennar úr talentu* af hreinu gulli.

25 Nú gerði hann reykelsisaltarið+ úr akasíuviði. Það var ferningslaga, alin á lengd, alin á breidd og tvær álnir á hæð. Hornin voru úr sama planka og altarið.+ 26 Hann lagði það hreinu gulli, plötuna, allar hliðarnar og hornin, og gerði kant* úr gulli hringinn í kring. 27 Hann gerði tvo gullhringi fyrir neðan kantinn* báðum megin til að halda burðarstöngunum. 28 Eftir það gerði hann stangirnar úr akasíuviði og lagði þær gulli. 29 Hann gerði líka heilögu smurningarolíuna+ og hreina ilmreykelsið+ og blandaði það fagmannlega.*

38 Hann gerði brennifórnaraltarið úr akasíuviði. Það var ferningslaga, fimm álnir* á lengd, fimm álnir á breidd og þrjár á hæð.+ 2 Hann gerði horn sem stóðu upp af fjórum hornum altarisins en þau voru úr sama planka og það. Síðan lagði hann altarið kopar.+ 3 Hann gerði öll áhöld altarisins, föturnar, skóflurnar, skálarnar, gafflana og eldpönnurnar. Öll áhöldin voru gerð úr kopar. 4 Hann gerði líka grind úr kopar fyrir altarið. Hún var eins og net fyrir neðan brúnina og náði niður í mitt altarið. 5 Hann steypti fjóra hringi og festi þá á hornin fjögur á móts við kopargrindina til að halda burðarstöngunum. 6 Síðan gerði hann stangirnar úr akasíuviði og lagði þær kopar. 7 Hann renndi stöngunum í hringina á hliðum altarisins til að hægt væri að bera það. Altarið var eins og kassi úr borðum, holt að innan.

8 Hann gerði kerið og undirstöðugrind þess úr kopar+ og notaði í það spegla* kvennanna sem þjónuðu með skipulegum hætti við inngang samfundatjaldsins.

9 Síðan gerði hann forgarðinn.+ Á suðurhlið hans voru tjöld úr fínu tvinnuðu líni, 100 álnir á lengd.+ 10 Þar voru 20 súlur með 20 undirstöðuplötum úr kopar, og krókarnir á súlunum og festingar* þeirra voru úr silfri. 11 Á norðurhliðinni voru einnig tjöld, 100 álnir á lengd, með 20 súlum og 20 undirstöðuplötum úr kopar. Krókarnir á súlunum og festingar* þeirra voru úr silfri. 12 Tjöldin vestan megin voru 50 álna löng með tíu súlum og tíu undirstöðuplötum, og krókarnir á súlunum og festingar* þeirra voru úr silfri. 13 Austurhliðin, móti sólarupprásinni, var einnig 50 álnir á breidd. 14 Öðrum megin voru tjöldin 15 álnir á lengd með þrem súlum og þrem undirstöðuplötum. 15 Og hinum megin við inngang forgarðsins voru tjöldin líka 15 álnir á lengd með þrem súlum og þrem undirstöðuplötum. 16 Öll tjöldin kringum forgarðinn voru úr fínu tvinnuðu líni. 17 Undirstöðuplötur súlnanna voru úr kopar, krókarnir og festingarnar* úr silfri og súlnahöfuðin voru silfurlögð. Allar súlur forgarðsins voru með festingum úr silfri.+

18 Forhengið fyrir inngangi forgarðsins var ofið úr bláu garni, purpuralitri ull, skarlatsrauðu garni og fínu tvinnuðu líni. Það var 20 álnir á breidd og 5 álnir á hæð, jafn hátt og tjöldin kringum forgarðinn.+ 19 Fyrir forhengið voru gerðar fjórar súlur og fjórar undirstöðuplötur úr kopar. Krókarnir og festingarnar* voru úr silfri og súlnahöfuðin voru silfurlögð. 20 Allir tjaldhælar tjaldbúðarinnar og forgarðsins voru úr kopar.+

21 Móse skipaði svo fyrir að telja skyldi saman hve mikið efni hefði farið í að gera tjaldbúðina, tjaldbúð vitnisburðarins.+ Levítarnir+ fengu það verkefni undir umsjón Ítamars,+ sonar Arons prests. 22 Besalel+ Úríson, sonar Húrs, af ættkvísl Júda, gerði allt sem Jehóva hafði fyrirskipað Móse. 23 Með honum var Oholíab+ Akísamaksson af ættkvísl Dans. Hann var handverksmaður, kunni að sauma út og óf úr bláa garninu, purpuralitu ullinni, skarlatsrauða garninu og fína líninu.

24 Allt gullið sem notað var í vinnuna við helgidóminn, gullið sem fært var að veififórn,+ vó 29 talentur* og 730 sikla* eftir stöðluðum sikli helgidómsins.* 25 Og silfur þeirra sem voru skráðir í söfnuðinum nam 100 talentum og 1.775 siklum eftir stöðluðum sikli helgidómsins.* 26 Allir sem voru skráðir, 20 ára og eldri, greiddu hálfan sikil eftir stöðluðum sikli helgidómsins.*+ Þeir voru samtals 603.550.+

27 Til að steypa undirstöðuplöturnar fyrir helgidóminn og undirstöðuplötur fortjaldsins þurfti 100 talentur. Í 100 undirstöðuplötur fóru 100 talentur, ein talenta í hverja plötu.+ 28 Úr siklunum 1.775 gerði hann króka fyrir súlurnar og silfurlagði súlnahöfuðin. Hann tengdi síðan súlurnar saman.

29 Koparinn sem gefinn var í framlög* var 70 talentur og 2.400 siklar. 30 Úr honum gerði hann undirstöðuplötur fyrir inngang samfundatjaldsins, koparaltarið og kopargrindina í það, öll áhöld altarisins, 31 undirstöðuplötur forgarðsins allt í kring, undirstöðuplötur fyrir inngang forgarðsins og alla tjaldhæla+ tjaldbúðarinnar og forgarðsins.

39 Þeir gerðu fatnað fyrir þjónustuna í helgidóminum úr fínum vefnaði úr bláa garninu, purpuralitu ullinni og skarlatsrauða garninu.+ Þeir gerðu hinn heilaga fatnað handa Aroni+ eins og Jehóva hafði gefið Móse fyrirmæli um.

2 Hann* gerði hökulinn+ úr gulli, bláu garni, purpuralitri ull, skarlatsrauðu garni og fínu tvinnuðu líni. 3 Þeir hömruðu þynnur úr gullplötum og hann skar þær í þræði. Þræðirnir voru notaðir til að sauma út hökulinn sem var ofinn úr bláa garninu, purpuralitu ullinni, skarlatsrauða garninu og fína líninu. 4 Þeir gerðu hlýra á hökulinn sem voru festir saman að ofan. 5 Beltið* á höklinum til að gyrða hann að sér+ var ofið úr sömu efnum, úr gulli, bláu garni, purpuralitri ull, skarlatsrauðu garni og fínu tvinnuðu líni, eins og Jehóva hafði gefið Móse fyrirmæli um.

6 Síðan greyptu þeir ónyxsteinana í umgjarðir úr gulli og grófu á þá nöfn sona Ísraels eins og grafið er á innsigli.+ 7 Hann setti þá á hlýra hökulsins sem minnissteina fyrir syni Ísraels+ eins og Jehóva hafði gefið Móse fyrirmæli um. 8 Hann bjó til brjóstskjöldinn+ og saumaði hann út eins og hökulinn. Hann notaði gull, blátt garn, purpuralita ull, skarlatsrautt garn og fínt tvinnað lín.+ 9 Brjóstskjöldurinn var ferningslaga þegar efnið var brotið saman, spönn* á lengd og spönn á breidd. 10 Þeir festu á hann fjórar raðir af steinum. Í fyrstu röðinni var rúbín, tópas og smaragður. 11 Í annarri röðinni var túrkis, safír og jaspis. 12 Í þriðju röðinni var lesemsteinn,* agat og ametýst. 13 Og í fjórðu röðinni var krýsólít, ónyx og jaði. Steinarnir voru greyptir í umgjarðir úr gulli, 14 einn steinn fyrir hvern af 12 sonum Ísraels. Á hverjum steini stóð nafn, grafið eins og á innsigli, en nöfnin stóðu fyrir ættkvíslirnar 12.

15 Síðan gerðu þeir keðjur úr hreinu gulli fyrir brjóstskjöldinn, snúnar saman eins og reipi.+ 16 Þeir gerðu tvær umgjarðir úr gulli og tvo gullhringi og festu hringina á efri horn brjóstskjaldarins. 17 Þeir þræddu gullkeðjurnar tvær í gegnum hringina á báðum hornum brjóstskjaldarins. 18 Þeir þræddu síðan endana á keðjunum í gegnum umgjarðirnar tvær og festu þær á hlýra hökulsins að framanverðu. 19 Þeir gerðu tvo gullhringi og festu þá í neðri horn brjóstskjaldarins að innanverðu sem snýr að höklinum.+ 20 Þeir gerðu svo tvo gullhringi til viðbótar og festu þá framan á hökulinn fyrir neðan hlýrana og fyrir ofan beltið* þar sem hökullinn er festur saman. 21 Að lokum bundu þeir brjóstskjöldinn með bláu bandi sem lá úr hringjum hans í hringi hökulsins til að halda brjóstskildinum á sínum stað á höklinum fyrir ofan beltið* eins og Jehóva hafði gefið Móse fyrirmæli um.

22 Hann óf ermalausu yfirhöfnina sem er undir höklinum. Hún var öll ofin úr bláu garni.+ 23 Hálsmálið á yfirhöfninni var með borða eins og á brynju svo að ekki myndi rifna út úr því. 24 Þessu næst gerðu þeir granatepli úr bláu garni, purpuralitri ull og skarlatsrauðu garni sem var tvinnað saman og festu þau á faldinn á ermalausu yfirhöfninni. 25 Þeir gerðu líka bjöllur úr hreinu gulli og festu á milli granateplanna hringinn í kring á fald yfirhafnarinnar. 26 Þeir settu bjöllur og granatepli á víxl hringinn í kring á fald yfirhafnarinnar sem var notuð við þjónustuna eins og Jehóva hafði gefið Móse fyrirmæli um.

27 Þeir gerðu kyrtla handa Aroni og sonum hans, ofna úr fínu líni.+ 28 Þeir gerðu vefjarhöttinn+ og skreyttan höfuðbúnaðinn+ úr fínu líni, stuttbuxurnar*+ úr fínu tvinnuðu líni 29 og beltið, ofið úr fínu tvinnuðu líni, bláu garni, purpuralitri ull og skarlatsrauðu garni, eins og Jehóva hafði gefið Móse fyrirmæli um.

30 Að lokum gerðu þeir gljáandi plötuna, hið heilaga vígslutákn,* úr hreinu gulli og grófu á hana eins og á innsigli: „Jehóva er heilagur.“*+ 31 Þeir festu hana á vefjarhöttinn með bandi úr bláu garni eins og Jehóva hafði gefið Móse fyrirmæli um.

32 Allri vinnunni við tjaldbúðina, samfundatjaldið, var nú lokið og Ísraelsmenn gerðu allt sem Jehóva hafði gefið Móse fyrirmæli um.+ Þeir gerðu það í einu og öllu.

33 Síðan komu þeir með tjaldbúðina+ til Móse, tjaldið+ og allan búnað þess: krókana,+ veggrammana,+ þverslárnar,+ súlurnar og undirstöðuplöturnar;+ 34 yfirtjaldið úr rauðlituðum hrútskinnum,+ yfirtjaldið úr selskinnum og fortjaldið;+ 35 örk vitnisburðarins ásamt stöngum+ og loki;+ 36 borðið, öll áhöld þess+ og skoðunarbrauðin; 37 ljósastikuna úr hreinu gulli, lamparöðina á henni,+ öll áhöld hennar+ og olíuna til lýsingar;+ 38 gullaltarið,+ smurningarolíuna,+ ilmreykelsið,+ forhengið+ fyrir inngang tjaldsins; 39 koparaltarið+ og kopargrind þess ásamt burðarstöngum+ og öllum áhöldum,+ kerið ásamt undirstöðugrindinni;+ 40 tjöld forgarðsins, súlurnar ásamt undirstöðuplötunum,+ forhengið+ fyrir inngang forgarðsins, stögin og tjaldhælana+ og öll áhöld fyrir þjónustuna við tjaldbúðina, það er samfundatjaldið; 41 fatnaðinn úr fínum vefnaði fyrir þjónustuna í helgidóminum, hinn heilaga fatnað Arons prests+ og prestfatnað sona hans.

42 Ísraelsmenn unnu allt verkið í samræmi við öll þau fyrirmæli sem Jehóva hafði gefið Móse.+ 43 Móse skoðaði allt verk þeirra og sá að þeir höfðu unnið það eins og Jehóva hafði gefið fyrirmæli um, og Móse blessaði þá.

40 Jehóva sagði síðan við Móse: 2 „Á fyrsta degi fyrsta mánaðarins skaltu setja upp tjaldbúðina, það er samfundatjaldið.+ 3 Settu örk vitnisburðarins þar+ og hengdu fortjaldið fyrir framan hana.+ 4 Berðu borðið inn+ og raðaðu á það því sem á að vera þar og berðu síðan ljósastikuna inn+ og kveiktu á lömpunum.+ 5 Settu reykelsisaltarið+ úr gulli fyrir framan örk vitnisburðarins og hengdu upp forhengið fyrir inngang tjaldbúðarinnar.+

6 Settu brennifórnaraltarið+ fyrir framan inngang tjaldbúðarinnar, það er samfundatjaldsins. 7 Komdu kerinu fyrir milli samfundatjaldsins og altarisins og fylltu það vatni.+ 8 Girtu af forgarðinn+ og settu upp forhengið+ fyrir inngang hans. 9 Taktu síðan smurningarolíuna+ og smyrðu tjaldbúðina og allt sem í henni er.+ Helgaðu hana og öll áhöld hennar þannig að hún verði heilög. 10 Þú skalt smyrja brennifórnaraltarið ásamt öllum áhöldum þess og helga það þannig að það verði háheilagt.+ 11 Og smyrðu kerið ásamt undirstöðugrindinni og helgaðu það.

12 Leiddu síðan Aron og syni hans að inngangi samfundatjaldsins og þvoðu þá með vatni.+ 13 Klæddu Aron í hinn heilaga fatnað,+ smyrðu hann+ og helgaðu, og hann skal þjóna mér sem prestur. 14 Leiddu síðan syni hans fram og klæddu þá í kyrtla.+ 15 Þú átt að smyrja þá eins og þú smurðir föður þeirra+ þannig að þeir geti þjónað mér sem prestar. Smurningin veitir þeim varanlegan prestdóm kynslóð eftir kynslóð.“+

16 Móse gerði eins og Jehóva hafði gefið honum fyrirmæli um.+ Hann gerði það í einu og öllu.

17 Tjaldbúðin var sett upp í fyrsta mánuði annars ársins, á fyrsta degi mánaðarins.+ 18 Þegar Móse setti upp tjaldbúðina kom hann undirstöðuplötunum+ fyrir, reisti veggrammana,+ kom þverslánum+ fyrir og reisti upp súlurnar. 19 Móse breiddi tjalddúkana+ yfir tjaldbúðina og lagði yfirtjaldið+ yfir hana eins og Jehóva hafði sagt honum að gera.

20 Að því búnu tók hann steintöflurnar með vitnisburðinum+ og lagði þær í örkina,+ kom stöngunum+ fyrir á henni og lagði lokið+ á hana.+ 21 Móse fór með örkina inn í tjaldbúðina og hengdi upp fortjaldið+ svo að það stúkaði örk vitnisburðarins af,+ eins og Jehóva hafði sagt honum að gera.

22 Hann fór með borðið+ inn í samfundatjaldið, stillti því upp norðan megin í tjaldbúðinni fyrir utan fortjaldið 23 og staflaði brauðunum+ á það frammi fyrir Jehóva eins og Jehóva hafði sagt honum að gera.

24 Hann stillti ljósastikunni+ upp í samfundatjaldinu sunnan megin í tjaldbúðinni, á móts við borðið. 25 Hann kveikti á lömpunum+ frammi fyrir Jehóva eins og Jehóva hafði sagt honum að gera.

26 Móse setti gullaltarið+ inn í samfundatjaldið fyrir framan fortjaldið 27 til að brenna þar ilmreykelsi+ eins og Jehóva hafði sagt honum að gera.

28 Síðan hengdi hann upp forhengið+ fyrir inngang tjaldbúðarinnar.

29 Móse stillti brennifórnaraltarinu+ upp við inngang tjaldbúðarinnar, það er samfundatjaldsins, til að hann gæti fært þar brennifórnir+ og kornfórnir eins og Jehóva hafði sagt honum að gera.

30 Hann kom kerinu fyrir milli samfundatjaldsins og altarisins og fyllti það vatni til að nota til þvottar.+ 31 Móse, Aron og synir hans þvoðu sér þar um hendur og fætur. 32 Þeir þvoðu sér+ í hvert sinn áður en þeir gengu inn í samfundatjaldið eða að altarinu eins og Jehóva hafði gefið Móse fyrirmæli um.

33 Að lokum girti hann af forgarðinn+ kringum tjaldbúðina og altarið og setti upp forhengið fyrir inngang hans.+

Þar með lauk Móse verkinu. 34 Skýið huldi nú samfundatjaldið og dýrð Jehóva fyllti tjaldbúðina.+ 35 Móse gat ekki farið inn í samfundatjaldið því að skýið lá yfir því og dýrð Jehóva fyllti tjaldbúðina.+

36 Í hvert sinn sem skýið lyftist upp af tjaldbúðinni lögðu Ísraelsmenn af stað. Þetta gerðu þeir allan þann tíma sem þeir voru í óbyggðunum.+ 37 Þeir lögðu ekki af stað fyrr en skýið lyftist.+ 38 Ský Jehóva var yfir tjaldbúðinni á daginn og eldur var yfir henni á nóttinni fyrir augum allra Ísraelsmanna allan þann tíma sem ferðalag þeirra stóð yfir.+

Orðrétt „Þeir sem komu af lend Jakobs“.

Eða „örk“.

Sem þýðir ‚dreginn upp‘, það er, bjargað úr vatninu.

Eða „sterkur“.

Eða „varði“.

Það er, Jetrós.

Sem þýðir ‚útlendingur þar‘.

Orðrétt „Margir dagar“.

Eða „tilbiðja“.

Eða „ég vil“.

Eða „Ég verð það sem ég verð“. Sjá viðauka A4.

Eða „fara þrjár dagleiðir“.

Orðrétt „Mér er tregt um munn og tungu“.

Orðrétt „með munni þínum“.

Orðrétt „kenni“.

Eða „verður fulltrúi Guðs gagnvart honum“.

Eða „sóttust eftir sál þinni“.

Hugsanlega er átt við son Móse.

Eða „hníf úr tinnusteini“.

Eða „fara þrjár dagleiðir“.

Eða „Þið hafið gert okkur að ódaun í nösum faraós og þjóna hans“.

Eða „máttugum“.

Orðrétt „ég lyfti hendi minni upp á“.

Orðrétt „mig sem hef óumskornar varir“.

Orðrétt „eftir hersveitum þeirra“.

Orðrétt „Ég hef óumskornar varir“.

Orðrétt „leiða hersveitir mínar, þjóð mína“.

Það er, skurði út frá Níl.

Eða „deigskálar þínar“.

Hugsanlega flugur eins og hrossakleggjar eða hrossavembur.

Eða „fara þrjár dagleiðir“.

Eða „spila með“.

Hugsanlega lýsing á kröftugum eldingum.

Eða „var seinsprottið“.

Orðrétt „vera snara fyrir“.

Eða „og jörðin varð dökk af þeim“.

Greinilega Móse.

Eða „leyfa okkur að taka með okkur dýr“.

Orðrétt „klauf“.

Orðrétt „brýna tunguna“.

Orðrétt „hann“.

Orðrétt „milli kvöldanna tveggja“.

Orðrétt „gyrtir“.

Orðrétt „hersveitir ykkar“.

Það er, lamb eða kiðling.

Orðrétt „eyðilegginguna“.

Orðrétt „húsi vatnsþróarinnar“.

Eða „deigskálarnar“.

Greinilega er átt við vopnfæra menn.

Með ‚börnum‘ er líklega einnig átt við mæðurnar sem önnuðust þau.

Það er, blandaður hópur af öðrum þjóðernum, þar á meðal Egyptar.

Orðrétt „yfirgáfu allar hersveitir“.

Orðrétt „syni Ísraels ásamt hersveitum þeirra“.

Eða „Taktu frá handa“.

Orðrétt „alla frumburði sem opna móðurlíf“.

Sjá viðauka B15.

Orðrétt „milli augna þinna“.

Orðrétt „í munni“.

Orðrétt „alla sem opna móðurlíf“.

Orðrétt „allt sem opnar móðurlíf“.

Orðrétt „milli augna þinna“.

Orðrétt „gengu með upplyftri hendi“.

Það er, um kl. 2 til kl. 6.

Orðrétt „þá voldugu hönd“.

„Jah“ er stytting nafnsins Jehóva.

Orðrétt „fæðingarhríðir“.

Fursti var ættbálkahöfðingi.

Eða „harðstjóra“.

Mara þýðir ‚beiskur‘.

Orðrétt „Milli kvöldanna tveggja“.

Um 2,2 l. Sjá viðauka B14.

Eða „er hvíldardagshátíð“.

Eða „hvíldist því“.

Sennilega dregið af hebresku orði sem þýðir ‚hvað er þetta?‘

Greinilega er átt við kistu þar sem mikilvæg skjöl voru geymd.

Efa jafngilti 22 l. Sjá viðauka B14.

Sem þýðir ‚að reyna; prófraun‘.

Sem þýðir ‚rifrildi; kvörtun‘.

Sem þýðir ‚Jehóva er merkisstöng mín‘.

Sem þýðir ‚útlendingur þar‘.

Sem þýðir ‚Guð minn er hjálpari‘.

Orðrétt „í hvert sinn“.

Eða „dýrmæt“.

Ef til vill með boga og ör.

Orðrétt „Komið ekki nálægt konu“.

Orðrétt „ráðist ekki gegn þeim“.

Eða „til að ögra mér“. Orðrétt „gegn andliti mínu“.

Eða „táknmynd“.

Orðrétt „innan borgarhliða þinna“.

Eða „friðarfórnir“.

Eða „kynfæri þín“.

Orðrétt „lætur kaupa hana lausa“.

Eða „formælir“.

Eða hugsanl. „áhaldi“.

Eða „hljótast alvarleg meiðsl“.

Eða „sál fyrir sál“.

Sikill jafngilti 11,4 g. Sjá viðauka B14.

Eða „munaðarleysingja“.

Eða „bágstöddum“.

Eða „okrari“.

Eða „tryggingu fyrir láni“.

Eða „formæla“.

Eða „valdhafa“.

Orðrétt „fölsku orði“.

Eða „sýkna ekki illan mann“.

Eða „hvernig lífið er hjá útlendingi“.

Sjá viðauka B15.

Einnig kölluð viknahátíðin eða hvítasunna.

Einnig kölluð laufskálahátíðin (tjaldbúðahátíðin).

Orðrétt „nafn mitt er í honum“.

Eða „ég mun fylla fjölda daga þinna“.

Eða „snúa í ykkur bakinu og flýja“.

Eða hugsanl. „örvæntingu; skelfingu“.

Það er, Efrat.

Eða „hjartað knýr til að gefa“.

Eða „purpurarauða“.

Eða „búa í tjaldi“.

Eða „kistu“.

Alin jafngilti 44,5 cm. Sjá viðauka B14.

Eða „skrautlista“.

Eða „skrautlista“.

7,4 cm. Sjá viðauka B14.

Eða „skrautlista úr gulli“.

Eða „Tangirnar“.

Talenta jafngilti 34,2 kg. Sjá viðauka B14.

Alin jafngilti 44,5 cm. Sjá viðauka B14.

Eða „tvær stoðir“.

Hér virðist átt við krókana sem tengdu tjalddúkana saman.

Alin jafngilti 44,5 cm. Sjá viðauka B14.

Eða „fituöskuna“, það er, ösku blandaða fitu fórnardýranna.

Eða „hringir“ til festingar.

Eða „hringjum“ til festingar.

Orðrétt „alla sem eru vitrir í hjarta“.

Eða „Mittisbandið“.

Um 22 cm. Sjá viðauka B14.

Óþekktur eðalsteinn, hugsanlega raf, hýasint, ópal eða túrmalín.

Eða „mittisbandið“.

Eða „mittisbandið“.

Sjá orðaskýringar.

Eða „Heilagleiki tilheyrir Jehóva“.

Orðrétt „fylla hönd þeirra“.

Eða „nærbuxur úr líni“.

Eða „yfirhöfnina undir höklinum“.

Eða „mittisband hökulsins“.

Eða „hina heilögu ennisspöng“.

Orðrétt „fylla hönd Arons og hönd sona hans“.

Orðrétt „sefandi“.

Orðrétt „sefandi“.

Orðrétt „þegar hönd þeirra var fyllt“.

Orðrétt „ókunnugur“, það er, ekki af ætt Arons.

Orðrétt „fylla hönd þeirra“.

Orðrétt „milli kvöldanna tveggja“.

Efa jafngilti 22 l. Sjá viðauka B14.

Hín jafngilti 3,67 l. Sjá viðauka B14.

Orðrétt „milli kvöldanna tveggja“.

Orðrétt „sefandi“.

Eða „búa í tjaldi“.

Alin jafngilti 44,5 cm. Sjá viðauka B14.

Eða „skrautlista úr gulli“.

Eða „skrautlistann“.

Orðrétt „milli kvöldanna tveggja“.

Sikill jafngilti 11,4 g. Sjá viðauka B14.

Eða „eftir heilögum sikli“.

Gera jafngilti 0,57 g. Sjá viðauka B14.

Sikill jafngilti 11,4 g. Sjá viðauka B14.

Eða „eftir heilögum sikli“.

Hín jafngilti 3,67 l. Sjá viðauka B14.

Eða „að hætti smyrslagerðarmanna“.

Orðrétt „ókunnugan“, það er, ekki af ætt Arons.

Eða „blandaðu þeim saman að hætti smyrslagerðarmanna“.

Orðrétt „kallað með nafni“.

Orðrétt „vitrir í hjarta“.

Eða „taka þann mann af lífi“.

Eða „steypt líkneski“.

Eða „steypt líkneski“.

Orðrétt „harðsvírað“.

Eða „reyndi þá að milda“.

Eða „sjá eftir að ætla“.

Eða „það verði varanleg eign þeirra“.

Eða „sá þá eftir að hafa ætlað“.

Eða „söngur um afreksverk“.

Orðrétt „Fyllið hönd ykkar“.

Orðrétt „harðsvírað“.

Orðrétt „harðsvírað“.

Eða „hef valið þig“.

Eða „ástúðlega umhyggju“.

Eða „trúfastur“.

Orðrétt „harðsvírað fólk“.

Eða „sköpuð“.

Sjá orðaskýringar.

Eða „umbera ekki keppinauta“. Orðrétt „Jehóva heitir Hann sem krefst óskiptrar hollustu“.

Eða „stunda vændi með guðum sínum“.

Eða „munu stunda vændi með guðum sínum“.

Sjá viðauka B15.

Orðrétt „Allt sem opnar móðurlíf“.

Eða „halda hvíldardag“.

Einnig kölluð laufskálahátíðin (tjaldbúðahátíðin).

Hér er greinilega átt við Jehóva. Sjá 1. vers.

Orðrétt „orðin tíu“.

Orðrétt „hann“.

Orðrétt „Allir sem eru vitrir í hjarta“.

Eða „veififórnir“.

Orðrétt „visku í hjarta“.

Orðrétt „öllum sem eru vitrir í hjarta“.

Greinilega er átt við Besalel.

Alin jafngilti 44,5 cm. Sjá viðauka B14.

Eða „tvær stoðir“.

Eða „hringi“ til festingar.

Alin jafngilti 44,5 cm. Sjá viðauka B14.

Eða „skrautlista“.

Eða „skrautlista“.

7,4 cm. Sjá viðauka B14.

Eða „skrautlista úr gulli“.

Eða „tangirnar“.

Talenta jafngilti 34,2 kg. Sjá viðauka B14.

Eða „skrautlista“.

Eða „skrautlistann“.

Eða „að hætti smyrslagerðarmanna“.

Alin jafngilti 44,5 cm. Sjá viðauka B14.

Það er, gljáfægða málmspegla.

Eða „hringir“ til festingar.

Eða „hringir“ til festingar.

Eða „hringir“ til festingar.

Eða „hringirnir“ til festingar.

Eða „hringirnir“ til festingar.

Talenta jafngilti 34,2 kg. Sjá viðauka B14.

Sikill jafngilti 11,4 g. Sjá viðauka B14.

Eða „eftir heilögum sikli“.

Eða „eftir heilögum sikli“.

Eða „eftir heilögum sikli“.

Eða „veififórn“.

Greinilega er átt við Besalel hér og í versi 7, 8 og 22.

Eða „Mittisbandið“.

Um 22 cm. Sjá viðauka B14.

Óþekktur eðalsteinn, hugsanlega raf, hýasint, ópal eða túrmalín.

Eða „mittisbandið“.

Eða „mittisbandið“.

Eða „nærbuxurnar“.

Eða „hina heilögu ennisspöng“.

Eða „Heilagleiki tilheyrir Jehóva“.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila