ESRABÓK
1 Á fyrsta stjórnarári Kýrusar+ Persakonungs blés Jehóva honum í brjóst að gefa út yfirlýsingu í öllu ríki sínu. Jehóva gerði þetta til að orð sitt sem Jeremía hafði flutt+ myndi rætast. Yfirlýsingin, sem var einnig skrifleg,+ hljóðaði á þessa leið:
2 „Svo segir Kýrus Persakonungur: ‚Jehóva Guð himnanna hefur gefið mér öll ríki jarðar+ og hann hefur falið mér að reisa sér hús í Jerúsalem+ í Júda. 3 Hverjir á meðal ykkar tilheyra þjóð hans? Guð ykkar sé með ykkur. Þið skuluð fara upp til Jerúsalem í Júda og endurreisa hús Jehóva Guðs Ísraels. Hann er hinn sanni Guð sem átti sér hús í Jerúsalem.* 4 Hver sem er útlendingur+ í ríkinu, hvar sem hann er, skal fá hjálp frá nágrönnum sínum. Þeir skulu gefa honum silfur og gull, hluta af eigum sínum og búfé ásamt sjálfviljafórnum til húss hins sanna Guðs+ sem var í Jerúsalem.‘“
5 Ættarhöfðingjar Júda og Benjamíns auk prestanna og Levítanna, já, allir sem hinn sanni Guð hafði knúið til verka, bjuggu sig þá undir að fara og endurreisa hús Jehóva í Jerúsalem. 6 Allir nágrannar þeirra studdu þá* með því að gefa þeim gripi úr silfri og gulli, hluta af eigum sínum, búfé og önnur verðmæti auk allra sjálfviljafórnanna.
7 Kýrus konungur skilaði einnig áhöldunum sem Nebúkadnesar hafði tekið úr húsi Jehóva í Jerúsalem og sett í hús guðs síns.+ 8 Kýrus Persakonungur fól Mítredat féhirði að sækja þau og telja og afhenda síðan Sesbasar*+ höfðingja Júda.
9 Talan var þessi: 30 körfulaga ker úr gulli, 1.000 körfulaga ker úr silfri, 29 önnur ker, 10 30 litlar gullskálar, 410 litlar silfurskálar og 1.000 önnur áhöld. 11 Gull- og silfuráhöldin voru alls 5.400 talsins. Sesbasar tók þau öll með sér þegar útlagarnir+ voru fluttir frá Babýlon til Jerúsalem.
2 Þetta eru þeir úr skattlandinu* sem sneru heim úr útlegðinni,+ þeir sem Nebúkadnesar konungur Babýlonar hafði herleitt til Babýlonar+ og sneru síðar aftur til Jerúsalem og Júda, hver til sinnar borgar.+ 2 Þeir komu með Serúbabel,+ Jesúa,+ Nehemía, Seraja, Reelja, Mordekaí, Bilsan, Mispar, Bigvaí, Rehúm og Baana.
Fjöldi ísraelskra karla var þessi:+ 3 afkomendur Parósar 2.172; 4 afkomendur Sefatja 372; 5 afkomendur Ara+ 775; 6 afkomendur Pahats Móabs,+ af ætt Jesúa og Jóabs, 2.812; 7 afkomendur Elams+ 1.254; 8 afkomendur Sattú+ 945; 9 afkomendur Sakkaí 760; 10 afkomendur Baní 642; 11 afkomendur Bebaí 623; 12 afkomendur Asgads 1.222; 13 afkomendur Adóníkams 666; 14 afkomendur Bigvaí 2.056; 15 afkomendur Adíns 454; 16 afkomendur Aters, komnir af Hiskía, 98; 17 afkomendur Besaí 323; 18 afkomendur Jóra 112; 19 afkomendur Hasúms+ 223; 20 afkomendur Gibbars 95; 21 ættaðir frá Betlehem 123; 22 menn frá Netófa 56; 23 menn frá Anatót+ 128; 24 ættaðir frá Asmavet 42; 25 ættaðir frá Kirjat Jearím, Kefíra og Beerót 743; 26 ættaðir frá Rama+ og Geba+ 621; 27 menn frá Mikmas 122; 28 menn frá Betel og Aí+ 223; 29 ættaðir frá Nebó+ 52; 30 afkomendur Magbísar 156; 31 afkomendur hins Elams 1.254; 32 afkomendur Haríms 320; 33 ættaðir frá Lód, Hadíd og Ónó 725; 34 ættaðir frá Jeríkó 345; 35 ættaðir frá Senaa 3.630.
36 Prestarnir+ voru: afkomendur Jedaja+ af ætt Jesúa+ 973; 37 afkomendur Immers+ 1.052; 38 afkomendur Pashúrs+ 1.247; 39 afkomendur Haríms+ 1.017.
40 Levítarnir+ voru: afkomendur Jesúa og Kadmíels,+ af afkomendum Hódavja, 74. 41 Söngvararnir+ voru: afkomendur Asafs+ 128. 42 Afkomendur hliðvarðanna+ voru: afkomendur Sallúms, afkomendur Aters, afkomendur Talmóns,+ afkomendur Akkúbs,+ afkomendur Hatíta, afkomendur Sóbaí – samtals 139.
43 Musterisþjónarnir*+ voru: afkomendur Síha, afkomendur Hasúfa, afkomendur Tabbaóts, 44 afkomendur Kerósar, afkomendur Síaha, afkomendur Padóns, 45 afkomendur Lebana, afkomendur Hagaba, afkomendur Akkúbs, 46 afkomendur Hagabs, afkomendur Salmaí, afkomendur Hanans, 47 afkomendur Giddels, afkomendur Gahars, afkomendur Reaja, 48 afkomendur Resíns, afkomendur Nekóda, afkomendur Gassams, 49 afkomendur Ússa, afkomendur Pasea, afkomendur Besaí, 50 afkomendur Asna, afkomendur Meúníta,* afkomendur Nefúsíms,* 51 afkomendur Bakbúks, afkomendur Hakúfa, afkomendur Harhúrs, 52 afkomendur Baselúts, afkomendur Mehída, afkomendur Harsa, 53 afkomendur Barkósar, afkomendur Sísera, afkomendur Tema, 54 afkomendur Nesía, afkomendur Hatífa.
55 Afkomendur þjóna Salómons voru: afkomendur Sótaí, afkomendur Sóferets, afkomendur Perúda,+ 56 afkomendur Jaala, afkomendur Darkóns, afkomendur Giddels, 57 afkomendur Sefatja, afkomendur Hattils, afkomendur Pókerets Hassebaíms, afkomendur Ami.
58 Alls voru musterisþjónarnir* og afkomendur þjóna Salómons 392.
59 Og eftirfarandi komu frá Tel Mela, Tel Harsa, Kerúb, Addón og Immer en þeir gátu ekki staðfest ætterni sitt og uppruna, hvort þeir væru í raun Ísraelsmenn:+ 60 afkomendur Delaja, afkomendur Tobía og afkomendur Nekóda 652. 61 Afkomendur prestanna voru: afkomendur Habaja, afkomendur Hakkósar+ og afkomendur Barsillaí sem giftist einni af dætrum Barsillaí+ Gíleaðíta og tók sér nafn þeirra. 62 Þessir menn leituðu að ættartölum sínum til að staðfesta ætterni sitt en fundu þær ekki og voru fyrir vikið sviptir* prestsembættinu.+ 63 Landstjórinn* bannaði þeim að borða af hinu háheilaga+ þar til prestur kæmi fram sem gæti leitað svara með úrím og túmmím.+
64 Allur söfnuðurinn var samtals 42.360 manns+ 65 auk 7.337 þræla og ambátta. Þeir höfðu einnig 200 söngvara og söngkonur. 66 Þeir áttu 736 hesta og 245 múldýr, 67 435 úlfalda og 6.720 asna.
68 Þegar þeir komu að húsi Jehóva í Jerúsalem gáfu sumir af ættarhöfðingjunum sjálfviljagjafir+ til húss hins sanna Guðs til að hægt væri að endurreisa það á sínum stað.+ 69 Hver og einn gaf í framkvæmdasjóðinn eins og hann gat. Þeir gáfu 61.000 gulldrökmur,* 5.000 silfurmínur*+ og 100 kyrtla fyrir prestana. 70 Prestarnir, Levítarnir, ýmsir almennir borgarar, söngvararnir, hliðverðirnir og musterisþjónarnir* settust að í borgum sínum. Þannig settust allir Ísraelsmenn að í borgum sínum.+
3 Í byrjun sjöunda mánaðarins,+ þegar Ísraelsmenn höfðu sest að í borgum sínum, söfnuðust þeir saman í Jerúsalem eins og einn maður. 2 Jesúa+ Jósadaksson og hinir prestarnir tóku sig þá til ásamt Serúbabel+ Sealtíelssyni+ og bræðrum hans og reistu altari Guðs Ísraels til að geta fært á því brennifórnir eins og sagt er til um í lögum Móse+ sem var maður hins sanna Guðs.
3 Þeir reistu altarið á sínum fyrri stað þó að þeir óttuðust þjóðirnar í kring,+ og þeir færðu Jehóva brennifórnir á því, bæði morgun- og kvöldbrennifórnir.+ 4 Síðan héldu þeir laufskálahátíðina eins og kveðið er á um+ og færðu daglega allar þær brennifórnir sem ætlast var til hvern dag.+ 5 Þaðan í frá færðu þeir hina reglulegu brennifórn+ og sömuleiðis fórnirnar sem færa átti á tunglkomudögum+ og öllum helgum hátíðum+ Jehóva. Allir sem vildu gefa Jehóva sjálfviljagjöf+ báru líka fram fórn sína. 6 Allt frá fyrsta degi sjöunda mánaðarins+ færðu þeir Jehóva brennifórnir þó svo að grunnurinn að musteri Jehóva hefði enn ekki verið lagður.
7 Þeir greiddu steinhöggvurunum+ og handverksmönnunum+ í peningum og gáfu Sídoningum og Týrverjum mat, drykk og olíu fyrir að flytja sedrusvið frá Líbanon sjóleiðis til Joppe+ eins og Kýrus Persakonungur hafði gefið þeim heimild til.+
8 Á öðru árinu eftir komuna til húss hins sanna Guðs í Jerúsalem, í öðrum mánuðinum, hófust þeir Serúbabel Sealtíelsson og Jesúa Jósadaksson handa ásamt bræðrum sínum, prestunum og Levítunum, og öllum sem höfðu komið til Jerúsalem úr útlegðinni.+ Þeir fólu Levítunum, 20 ára og eldri, að hafa umsjón með vinnunni við hús Jehóva. 9 Jesúa, synir hans og bræður, og Kadmíel og synir hans, það er synir Júda, höfðu umsjón með þeim sem unnu að byggingu húss hins sanna Guðs ásamt sonum Henadads+ og sonum þeirra og bræðrum en þeir voru líka Levítar.
10 Þegar smiðirnir höfðu lagt grunninn að musteri Jehóva+ stigu prestarnir fram í embættisklæðnaði og með lúðra+ og Levítarnir, synir Asafs, með málmgjöll til að lofa Jehóva samkvæmt fyrirmælum Davíðs Ísraelskonungs.+ 11 Þeir lofuðu Jehóva og þökkuðu honum með því að syngja á víxl:+ „Því að hann er góður. Tryggur kærleikur hans til Ísraels varir að eilífu.“+ Þá hrópaði allt fólkið af fögnuði og lofaði Jehóva því að grunnurinn að húsi Jehóva hafði verið lagður. 12 Margir prestanna, Levítanna og ættarhöfðingjanna voru orðnir gamlir og höfðu því séð fyrra húsið.+ Þeir grétu hástöfum þegar þeir sáu grunninn að þessu húsi lagðan. En margir aðrir hrópuðu af gleði eins hátt og þeir gátu.+ 13 Fólkið hrópaði svo hátt að hljóðið heyrðist langar leiðir og ekki var hægt að greina á milli gleðiópanna og grátsins.
4 Þegar óvinir Júda og Benjamíns+ fréttu að þeir sem höfðu snúið heim úr útlegðinni+ væru að reisa musteri handa Jehóva Guði Ísraels 2 fóru þeir undireins til Serúbabels og ættarhöfðingjanna og sögðu við þá: „Við viljum byggja með ykkur því að við tilbiðjum Guð* ykkar+ eins og þið og við höfum fært honum fórnir allt frá dögum Asarhaddons+ Assýríukonungs sem flutti okkur hingað.“+ 3 En Serúbabel og Jesúa og aðrir ættarhöfðingjar Ísraels svöruðu þeim: „Þið eigið ekkert með að reisa hús Guðs okkar með okkur.+ Við ætlum einir að reisa það handa Jehóva Guði Ísraels eins og Kýrus Persakonungur hefur sagt okkur að gera.“+
4 Upp frá þessu reyndu íbúar landsins að draga kjarkinn úr* Júdamönnum og hræða þá frá því að byggja.+ 5 Þeir greiddu ráðgjöfum til að vinna gegn þeim og gera áform þeirra að engu+ alla stjórnartíð Kýrusar Persakonungs og þar til Daríus Persakonungur+ tók við völdum. 6 Stuttu eftir að Ahasverus settist að völdum skrifuðu þeir ákæru gegn íbúum Júda og Jerúsalem. 7 Og á dögum Artaxerxesar Persakonungs skrifuðu Bislam, Mítredat, Tabeel og félagar hans Artaxerxesi konungi. Þeir þýddu bréfið á arameísku+ og skrifuðu það með arameísku letri.*
8 * Rehúm háembættismaður og Simsaí ritari skrifuðu Artaxerxesi konungi eftirfarandi bréf þar sem þeir ákærðu Jerúsalembúa. 9 (Bréfið var frá Rehúm háembættismanni, Simsaí ritara og félögum þeirra, dómurunum og aðstoðarlandstjórunum, riturunum, mönnum frá Erek,+ Babýloníu og Súsa,+ það er Elamítum,+ 10 og frá hinum þjóðunum sem hinn mikli og háttvirti Asenappar flutti burt og lét setjast að í borgum Samaríu,+ og frá öðrum á svæðinu handan Fljótsins.*) 11 Þetta er afrit af bréfinu sem þeir sendu honum:
„Til Artaxerxesar konungs frá þjónum þínum, mönnunum handan Fljótsins. 12 Við viljum upplýsa konung um að Gyðingarnir sem lögðu af stað frá þér hingað upp eftir eru komnir til Jerúsalem. Þeir eru að endurreisa hina uppreisnargjörnu og illu borg. Þeir eru að reisa múrana að nýju+ og gera við undirstöðurnar. 13 Við viljum að konungi sé ljóst að þeir munu ekki greiða skatta, gjöld+ né tolla ef borgin verður endurreist ásamt múrum hennar, og það mun koma niður á fjárhirslu konunganna. 14 Þar sem við fáum laun okkar frá konungi* væri rangt af okkur að horfa aðgerðalausir á konung verða fyrir tjóni. Þess vegna höfum við sent þetta bréf til að láta konung vita, 15 svo að leitað verði í annálum forfeðra þinna.+ Í annálunum kemstu að raun um að borgin er uppreisnargjörn borg, skaðleg konungum og skattlöndum, og að í henni hafa menn æst til uppreisnar frá fyrstu tíð. Þess vegna var borgin lögð í eyði.+ 16 Við viljum að konungur viti að ef þessi borg verður endurreist og múrar hennar fullgerðir munu völd þín á svæðinu handan Fljótsins heyra sögunni til.“+
17 Konungur sendi svarbréf til Rehúms háembættismanns og Simsaí ritara, félaga þeirra sem bjuggu í Samaríu og hinna sem bjuggu handan Fljótsins:
„Heill og friður! 18 Bréfið sem þið senduð okkur hefur verið lesið skýrt og skilmerkilega* fyrir mig. 19 Ég skipaði svo fyrir að málið yrði kannað og í ljós kom að frá fyrstu tíð hefur borgin sett sig upp á móti konungum og uppreisnir og óeirðir brotist út í henni.+ 20 Voldugir konungar hafa ríkt yfir Jerúsalem og ráðið yfir öllu svæðinu handan Fljótsins. Þeim voru greiddir skattar, gjöld og tollar. 21 Skipið nú þessum mönnum að hætta að vinna svo að borgin verði ekki endurreist fyrr en ég skipa svo fyrir. 22 Fylgið málinu eftir án tafar svo að konungurinn verði ekki fyrir frekara tjóni.“+
23 Þegar afritið af bréfi Artaxerxesar konungs hafði verið lesið fyrir Rehúm, Simsaí ritara og félaga þeirra fóru þeir tafarlaust til Gyðinganna í Jerúsalem og neyddu þá með valdi til að hætta að vinna. 24 Þar með stöðvaðist vinnan við hús Guðs í Jerúsalem og lá niðri fram á annað stjórnarár Daríusar Persakonungs.+
5 Spámennirnir Haggaí+ og Sakaría+ sonarsonur Iddós+ spáðu nú meðal Gyðinganna í Júda og Jerúsalem í nafni Guðs Ísraels sem var yfir þeim. 2 Þeir Serúbabel+ Sealtíelsson og Jesúa+ Jósadaksson hófust þá aftur handa við að endurreisa hús Guðs+ í Jerúsalem og spámenn Guðs voru með þeim og studdu þá.+ 3 Um þær mundir komu Tatnaí, landstjóri handan Fljótsins,* Setar Bosnaí og félagar þeirra til þeirra og spurðu þá: „Hver skipaði ykkur að byggja þetta hús og reisa þessa bjálka?“ 4 Síðan spurðu þeir: „Hvað heita mennirnir sem vinna að þessari byggingu?“ 5 En Guð vakti yfir* öldungum Gyðinga+ svo að þeir gátu haldið áfram að vinna þangað til Daríusi hafði verið send skýrsla um málið og skriflegt svar borist til baka.
6 Hér er afrit af bréfinu sem Tatnaí, landstjóri handan Fljótsins, og Setar Bosnaí og félagar hans, aðstoðarlandstjórarnir handan Fljótsins, sendu Daríusi konungi. 7 Þeir sendu honum skýrslu sem í stóð:
„Til Daríusar konungs:
Heillaóskir! 8 Við viljum upplýsa konung um að við fórum til skattlandsins Júda, til húss hins mikla Guðs. Verið er að byggja það úr stórum steinum sem velt er á sinn stað og bjálkar eru settir í veggina. Fólkið vinnur af miklum krafti og verkinu miðar því vel áfram. 9 Við spurðum öldunga þeirra: ‚Hver skipaði ykkur að byggja þetta hús og reisa þessa bjálka?‘+ 10 Við spurðum einnig hvað þeir hétu og tókum niður nöfn þeirra til að geta látið þig vita hverjir fara með forystuna.
11 Þeir svöruðu okkur á þessa leið: ‚Við erum þjónar Guðs himins og jarðar og erum að endurreisa húsið sem mikill konungur í Ísrael reisti og fullgerði fyrir mörgum árum.+ 12 En feður okkar reittu Guð himinsins til reiði.+ Þess vegna seldi hann þá í hendur Kaldeanum Nebúkadnesari,+ konungi í Babýlon, sem reif þetta hús niður+ og flutti fólkið í útlegð til Babýlonar.+ 13 En á fyrsta stjórnarári sínu gaf Kýrus Babýlonarkonungur út tilskipun um að endurreisa þetta hús Guðs.+ 14 Hann lét auk þess sækja í musterið í Babýlon gull- og silfurílátin sem Nebúkadnesar hafði tekið úr húsi Guðs, musterinu í Jerúsalem, og flutt í musterið í Babýlon.+ Kýrus lét afhenda þau manni að nafni Sesbasar*+ sem hann gerði að landstjóra.+ 15 Kýrus sagði við hann: „Taktu þessi ílát og farðu með þau í musterið í Jerúsalem. Hús Guðs skal verða endurreist á sínum fyrri stað.“+ 16 Síðan kom Sesbasar þessi og lagði grunninn að húsi Guðs+ í Jerúsalem. Þaðan í frá hefur verið unnið að byggingunni en henni er enn ekki lokið.‘+
17 Ef konungi þóknast skal láta leita í hinni konunglegu fjárhirslu í Babýlon til að kanna hvort Kýrus konungur hafi gefið út tilskipun um að endurreisa þetta hús Guðs í Jerúsalem.+ Konungur upplýsi okkur síðan um ákvörðun sína í þessu máli.“
6 Þá gaf Daríus konungur þá skipun að leitað skyldi í skjalasafninu í Babýlon þar sem gersemarnar voru geymdar. 2 Og bókrolla fannst í borgarvirkinu í Ekbatana í skattlandinu Medíu. Í henni stóð eftirfarandi yfirlýsing:
3 „Á fyrsta stjórnarári sínu gaf Kýrus konungur út svohljóðandi tilskipun um hús Guðs í Jerúsalem:+ ‚Húsið skal verða endurreist til að þar verði hægt að færa fórnir. Grunnur þess skal lagður. Húsið skal vera 60 álnir* á hæð og 60 álnir á breidd,+ 4 með þrem lögum af stórum steinum sem velt er á sinn stað og einu lagi af viði,+ og kostnaðurinn skal greiddur úr fjárhirslu konungs.+ 5 Einnig skal gull- og silfurílátunum úr húsi Guðs skilað, þeim sem Nebúkadnesar tók úr musterinu í Jerúsalem og flutti til Babýlonar.+ Þau skulu sett á sinn stað í musterinu í Jerúsalem, húsi Guðs, og skulu geymd þar.‘+
6 Haldið ykkur því fjarri þessum stað, þið Tatnaí, landstjóri handan Fljótsins, Setar Bosnaí og félagar ykkar, aðstoðarlandstjórarnir handan Fljótsins.+ 7 Reynið ekki að hindra vinnuna við hús Guðs. Landstjóri Gyðinga og öldungar þeirra munu endurreisa það á sínum fyrri stað. 8 Ég gef ykkur einnig skipun um hvað þið eigið að gera fyrir öldunga Gyðinga svo að þeir geti endurreist þetta hús Guðs. Þið skuluð tafarlaust greiða þessum mönnum kostnaðinn úr fjárhirslu konungs,+ með sköttunum frá svæðinu handan Fljótsins, svo að vinnan dragist ekki á langinn.+ 9 Gefið þeim hvaðeina sem þörf er á eins og prestarnir í Jerúsalem segja til um – ungnaut,+ hrúta+ og lömb+ til brennifórna handa Guði himins sem og hveiti,+ salt,+ vín+ og olíu.+ Gefið þeim þetta undantekningarlaust á hverjum degi 10 til að þeir geti án afláts fært fórnir sem gleðja Guð himnanna og beðið fyrir lífi konungs og sona hans.+ 11 Ég hef líka skipað svo fyrir að ef einhver brýtur gegn þessari tilskipun skuli taka bjálka úr húsi hans og hann hengdur upp á hann,* og hús hans skal gert að almenningskamri* vegna þessa afbrots. 12 Og megi sá Guð sem hefur látið nafn sitt búa á þessum stað+ steypa hverjum þeim konungi og þjóð sem dirfist að brjóta gegn þessari skipun og eyðileggja þetta hús Guðs í Jerúsalem. Ég, Daríus, gef þessa skipun. Framfylgið henni án tafar.“
13 Tatnaí, landstjóri handan Fljótsins, Setar Bosnaí+ og félagar þeirra hlýddu þá skipun Daríusar konungs í einu og öllu og án tafar. 14 Öldungar Gyðinga héldu áfram að byggja og verkinu miðaði vel,+ en Haggaí+ spámaður og Sakaría+ sonarsonur Iddós hvöttu þá áfram með spádómsorðum sínum. Þannig luku þeir byggingunni eins og Guð Ísraels hafði sagt þeim að gera+ og samkvæmt skipun Kýrusar,+ Daríusar+ og Artaxerxesar+ Persakonungs. 15 Þeir luku við húsið á þriðja degi adarmánaðar* á sjötta stjórnarári Daríusar konungs.
16 Ísraelsmenn, það er að segja prestarnir, Levítarnir+ og aðrir sem voru komnir heim úr útlegðinni, vígðu síðan hús Guðs með fögnuði. 17 Við vígslu húss Guðs fórnuðu þeir 100 nautum, 200 hrútum og 400 lömbum og í syndafórn fyrir allan Ísrael báru þeir fram 12 geithafra, einn fyrir hverja ættkvísl Ísraels.+ 18 Prestarnir og Levítarnir voru útnefndir eftir flokkum sínum og deildum til að gegna þjónustunni við Guð í Jerúsalem+ samkvæmt fyrirmælunum í bók Móse.+
19 Þeir sem voru komnir úr útlegðinni héldu páska á 14. degi fyrsta mánaðarins.+ 20 Prestarnir og Levítarnir höfðu allir sem einn hreinsað sig+ og voru því allir hreinir. Þeir slátruðu páskalambinu fyrir alla sem höfðu verið í útlegðinni, fyrir sampresta sína og fyrir sjálfa sig. 21 Ísraelsmenn sem voru komnir úr útlegðinni neyttu síðan páskalambsins ásamt öllum sem höfðu aðgreint sig frá óhreinleika þjóðanna í landinu og slegist í lið með þeim til að tilbiðja* Jehóva Guð Ísraels.+ 22 Þeir héldu líka hátíð hinna ósýrðu brauða+ í sjö daga með fögnuði því að Jehóva hafði gefið þeim ástæðu til að gleðjast og snúið hjarta Assýríukonungs til þeirra+ svo að hann studdi þá* við byggingu húss hins sanna Guðs, Guðs Ísraels.
7 Eftir þessa atburði, í stjórnartíð Artaxerxesar+ Persakonungs, sneri Esra*+ aftur heim. Hann var sonur Seraja,+ sonar Asarja, sonar Hilkía,+ 2 sonar Sallúms, sonar Sadóks, sonar Ahítúbs, 3 sonar Amarja, sonar Asarja,+ sonar Merajóts, 4 sonar Serahja, sonar Ússí, sonar Búkkí, 5 sonar Abísúa, sonar Pínehasar,+ sonar Eleasars,+ sonar Arons+ yfirprests. 6 Esra þessi kom heim frá Babýlon. Hann var afritari* og vel heima í Móselögunum*+ sem Jehóva Guð Ísraels hafði gefið. Konungurinn veitti honum allt sem hann bað um því að hönd Jehóva Guðs hans var með honum.
7 Nokkrir af Ísraelsmönnum, þar á meðal prestar, Levítar,+ söngvarar,+ hliðverðir+ og musterisþjónar,*+ fóru með Esra til Jerúsalem á sjöunda stjórnarári Artaxerxesar konungs. 8 Esra kom til Jerúsalem í fimmta mánuðinum á sjöunda stjórnarári konungs. 9 Hann lagði af stað frá Babýlon fyrsta dag fyrsta mánaðarins og kom til Jerúsalem fyrsta dag fimmta mánaðarins því að hönd Guðs hans var með honum.+ 10 Esra hafði búið hjarta sitt undir* að leita ráða í lögum Jehóva og fylgja þeim+ og kenna ákvæði þeirra og meginreglur í Ísrael.+
11 Þetta er afrit af bréfinu sem Artaxerxes konungur gaf Esra, presti og afritara,* en Esra hafði mikla þekkingu á boðorðum Jehóva og lögunum* sem hann hafði gefið Ísrael:
12 * „Frá Artaxerxesi,+ konungi konunganna, til Esra prests, afritara* laga Guðs himnanna: Ég óska þér friðar í ríkum mæli. 13 Ég hef skipað svo fyrir að allir Ísraelsmenn í ríki mínu sem vilja fara með þér til Jerúsalem skuli fara, þar á meðal prestarnir og Levítarnir.+ 14 Þú ert sendur af konungi og ráðgjöfum hans sjö til að kanna hvort lögum Guðs þíns, sem þú hefur undir höndum, sé fylgt í Júda og Jerúsalem. 15 Þú skalt taka með þér silfrið og gullið sem konungur og ráðgjafar hans hafa af fúsum og frjálsum vilja gefið Guði Ísraels sem á sér aðsetur í Jerúsalem. 16 Taktu einnig með þér allt silfrið og gullið sem þú færð í skattlandinu Babýlon og eins sjálfviljagjafirnar sem þjóðin og prestarnir gefa til húss Guðs síns í Jerúsalem.+ 17 Fyrir þetta fé skaltu umsvifalaust kaupa naut,+ hrúta+ og lömb+ ásamt tilheyrandi korn- og drykkjarfórnum.+ Síðan skaltu fórna þeim á altari húss Guðs ykkar í Jerúsalem.
18 Þú og bræður þínir megið ráðstafa því sem eftir er af silfrinu og gullinu eins og þið teljið best og er í samræmi við vilja Guðs ykkar. 19 Og öll ílátin sem þú færð til guðsþjónustunnar skaltu leggja fram fyrir Guð í húsi hans í Jerúsalem.+ 20 Allt annað sem þörf er á í húsi Guðs og þú þarft að útvega skaltu greiða úr fjárhirslu konungs.+
21 Ég, Artaxerxes konungur, hef gefið öllum féhirðum handan Fljótsins* eftirfarandi skipun: Esra+ presti, afritara* laga Guðs himnanna, skal umsvifalaust gefið hvaðeina sem hann biður um, 22 allt að 100 talentur* silfurs, 100 kór* af hveiti, 100 böt* af víni,+ 100 böt af olíu+ og ótakmarkað magn af salti.+ 23 Allt sem Guð himnanna+ fyrirskipar að gert skuli fyrir hús sitt skal gert af heilum hug til að reiði hans komi ekki yfir ríki konungs og syni hans.+ 24 Einnig skuluð þið vita að óheimilt er að leggja skatta, gjöld+ eða tolla á nokkurn prest, Levíta, tónlistarmann,+ dyravörð, musterisþjón*+ eða annan starfsmann við þetta hús Guðs.
25 Og þú, Esra, skalt skipa löglærða menn og dómara samkvæmt þeirri visku sem Guð þinn hefur gefið þér. Þeir skulu dæma í málum allrar þjóðarinnar á svæðinu handan Fljótsins, allra þeirra sem þekkja lög Guðs þíns. En þeim sem þekkja þau ekki eigið þið að kenna.+ 26 Hver sem óhlýðnast lögum Guðs þíns og lögum konungs skal tafarlaust dæmdur og honum refsað, hvort heldur með dauða, útlegð, sekt eða fangavist.“
27 Lofaður sé Jehóva, Guð forfeðra okkar, því að hann blés konungi í brjóst að fegra hús Jehóva í Jerúsalem.+ 28 Hann hefur sýnt mér tryggan kærleika með því að veita mér velvild konungs+ og ráðgjafa hans+ og allra hinna voldugu höfðingja konungs. Þar sem hönd Jehóva Guðs míns var með mér tók ég í mig kjark og safnaði saman höfðingjum Ísraels til að fara með mér til Jerúsalem.
8 Þetta er skrá yfir ættir þeirra sem fóru með mér heim frá Babýlon í stjórnartíð Artaxerxesar konungs+ og yfir ættarhöfðingja þeirra: 2 Af afkomendum Pínehasar:+ Gersóm. Af afkomendum Ítamars:+ Daníel. Af afkomendum Davíðs: Hattús. 3 Af afkomendum Sekanja og afkomendum Parósar: Sakaría og með honum skráðir 150 karlmenn. 4 Af afkomendum Pahats Móabs:+ Elíóenaí Serahjason og með honum 200 karlmenn. 5 Af afkomendum Sattú:+ Sekanja Jahasíelsson og með honum 300 karlmenn. 6 Af afkomendum Adíns:+ Ebed Jónatansson og með honum 50 karlmenn. 7 Af afkomendum Elams:+ Jesaja Ataljason og með honum 70 karlmenn. 8 Af afkomendum Sefatja:+ Sebadía Mikaelsson og með honum 80 karlmenn. 9 Af afkomendum Jóabs: Óbadía Jehíelsson og með honum 218 karlmenn. 10 Af afkomendum Baní: Selómít Jósifjason og með honum 160 karlmenn. 11 Af afkomendum Bebaí:+ Sakaría Bebaíson og með honum 28 karlmenn. 12 Af afkomendum Asgads:+ Jóhanan Hakkatansson og með honum 110 karlmenn. 13 Af afkomendum Adóníkams,+ þeir sem voru síðastir: Elífelet, Jeíel og Semaja og með þeim 60 karlmenn. 14 Af afkomendum Bigvaí:+ Útaí og Sabbúd og með þeim 70 karlmenn.
15 Ég safnaði þeim saman við fljótið sem rennur til Ahava+ og við vorum þar í tjöldum í þrjá daga. En þegar ég kannaði búðirnar fann ég enga Levíta meðal fólksins og prestanna. 16 Þá sendi ég eftir forystumönnunum Elíeser, Aríel, Semaja, Elnatan, Jaríb, Elnatan, Natan, Sakaría og Mesúllam og kennurunum Jójaríb og Elnatan. 17 Ég gaf þeim fyrirmæli um að fara til Iddós, leiðtoga í Kasifja, og segja honum og bræðrum hans, musterisþjónunum* í Kasifja, að útvega okkur menn til að þjóna í húsi Guðs okkar. 18 Þar sem hönd Guðs var með okkur sendu þeir okkur Serebja,+ vitran mann sem var kominn af Mahelí,+ sonarsyni Leví Ísraelssonar, og einnig syni hans og bræður, alls 18 menn. 19 Þeir sendu einnig Hasabja og með honum Jesaja Meraríta,+ bræður hans og syni þeirra, alls 20 menn. 20 Og af musterisþjónunum,* sem Davíð og höfðingjarnir höfðu skipað til að þjóna Levítunum, sendu þeir 220 menn sem voru allir skráðir með nafni.
21 Síðan lýsti ég yfir að við skyldum fasta þarna við Ahavafljót til að auðmýkja okkur frammi fyrir Guði okkar, leita leiðsagnar hans fyrir ferðina og biðja hann að vernda okkur, börn okkar og eigur. 22 Ég kunni ekki við að biðja konung um hermenn og riddara til að vernda okkur fyrir óvinum á leiðinni því að við höfðum sagt við hann: „Hönd Guðs okkar er með öllum sem leita hans+ en máttur hans og reiði bitnar á öllum sem yfirgefa hann.“+ 23 Við föstuðum því og lögðum málið fyrir Guð okkar í bæn og hann bænheyrði okkur.+
24 Ég valdi síðan 12 af leiðtogum prestanna, þá Serebja og Hasabja+ ásamt tíu bræðrum þeirra. 25 Því næst vó ég silfrið, gullið og áhöldin sem konungur, ráðgjafar hans og höfðingjar og allir Ísraelsmenn sem voru viðstaddir höfðu gefið til húss Guðs okkar.+ 26 Ég vó og fékk þeim 650 talentur* silfurs, 100 silfuráhöld, tveggja talenta virði, 100 talentur gulls, 27 20 litlar gullskálar sem voru 1.000 daríka* virði og tvö ker úr rauðgljáandi gæðakopar sem voru eins dýrmæt og gull.
28 Síðan sagði ég við þá: „Þið eruð heilagir í augum Jehóva+ og áhöldin eru heilög, og silfrið og gullið er sjálfviljafórn handa Jehóva, Guði forfeðra ykkar. 29 Gætið þess vandlega þar til þið hafið vegið það frammi fyrir leiðtogum prestanna og Levítanna og ættarhöfðingjum Ísraels í herbergjum* húss Jehóva í Jerúsalem.“+ 30 Prestarnir og Levítarnir tóku þá við silfrinu, gullinu og áhöldunum sem höfðu verið vegin, til þess að fara með þau í hús Guðs okkar í Jerúsalem.
31 Loks lögðum við af stað frá Ahavafljóti+ á 12. degi fyrsta mánaðarins+ og héldum til Jerúsalem. Guð hélt hendi sinni yfir okkur og verndaði okkur fyrir árásum óvina og ræningjum sem sátu fyrir okkur á leiðinni. 32 Við komum síðan til Jerúsalem+ og vorum þar í þrjá daga. 33 En á fjórða degi vógum við silfrið, gullið og áhöldin í húsi Guðs okkar+ og afhentum þau Meremót,+ syni Úría prests. Með honum var Eleasar Pínehasson og með þeim Levítarnir Jósabad+ Jesúason og Nóadja Binnúíson.+ 34 Allt var talið og vegið og þyngdin var skráð. 35 Þeir sem komu úr útlegðinni, hinir herleiddu, færðu Guði Ísraels brennifórnir: 12 naut+ fyrir allan Ísrael, 96 hrúta,+ 77 hrútlömb og 12 geithafra+ í syndafórn. Allt var þetta brennifórn handa Jehóva.+
36 Við afhentum síðan skattlandsstjórum* konungs og landstjórunum handan Fljótsins*+ tilskipun konungs+ og þeir veittu þjóðinni og húsi hins sanna Guðs stuðning sinn.+
9 En eftir þetta komu höfðingjarnir til mín og sögðu: „Ísraelsmenn og prestarnir og Levítarnir hafa ekki haldið sig frá þjóðunum í kring og andstyggilegum siðum þeirra,+ siðum Kanverja, Hetíta, Peresíta, Jebúsíta, Ammóníta, Móabíta, Egypta+ og Amoríta.+ 2 Þeir hafa tekið sér og sonum sínum konur úr hópi dætra þeirra+ og nú hafa þeir, hin heilaga þjóð,*+ blandast þjóðunum í kring.+ Höfðingjarnir og embættismennirnir hafa verið fremstir í flokki í ótrúmennskunni.“
3 Þegar ég heyrði þetta reif ég föt mín og yfirhöfn, reytti hár mitt og skegg og settist niður harmi sleginn. 4 Allir sem báru djúpa virðingu fyrir* orðum Guðs Ísraels söfnuðust þá saman í kringum mig vegna ótrúmennsku þeirra sem höfðu snúið heim úr útlegðinni, en ég sat áfram harmi sleginn þar til kominn var tími til að færa kornfórnina um kvöldið.+
5 Þegar komið var að kvöldfórninni+ stóð ég upp úr niðurlægingu minni í rifnum fötum og yfirhöfn. Síðan féll ég á kné, lyfti höndum til Jehóva Guðs míns 6 og sagði: „Guð minn, ég skammast mín og þori varla að snúa mér til þín, Guð minn, því að sekt okkar hefur vaxið okkur yfir höfuð og syndir okkar hlaðist upp til himins.+ 7 Allt frá dögum forfeðra okkar og fram á þennan dag hefur sekt okkar verið mikil.+ Við, konungar okkar og prestar höfum verið seldir í hendur konunga annarra landa vegna synda okkar og þurft að þola sverð,+ útlegð,+ rán+ og niðurlægingu, og þetta megum við enn þola.+ 8 En nú hefur Jehóva Guð okkar sýnt okkur velvild um stuttan tíma með því að láta fáeina komast undan og með því að veita okkur öryggi á sínum heilaga stað.+ Guð okkar, þú vildir að augu okkar ljómuðu á ný og við fengjum örlítinn lífsþrótt í ánauð okkar. 9 Við erum vissulega þrælar+ en Guð hefur ekki yfirgefið okkur í ánauðinni. Hann hefur sýnt okkur tryggan kærleika með því að veita okkur velvild Persakonunga.+ Hann gaf okkur nýjan þrótt til að endurreisa hús Guðs okkar+ og reisa það úr rústum og hann hefur gefið okkur varnarmúr í Júda og Jerúsalem.
10 En hvað getum við nú sagt, Guð okkar, eftir allt þetta? Við höfum snúið baki við boðorðum þínum 11 sem þú gafst okkur fyrir milligöngu þjóna þinna, spámannanna. Þú sagðir: ‚Landið sem þið haldið inn í til að taka til eignar er óhreint því að þjóðirnar í landinu hafa vanhelgað það. Þær hafa fyllt það andstyggilegum siðum sínum og þannig vanhelgað það þvert og endilangt.+ 12 Látið því dætur ykkar ekki giftast sonum þeirra og takið ekki heldur dætur þeirra að eiginkonum handa sonum ykkar.+ Gerið ekkert til að stuðla að friði þeirra og velgengni.+ Þannig munuð þið eflast, njóta landsins gæða og fá sonum ykkar landið í arf um alla eilífð.‘ 13 Eftir allt sem við höfum þurft að þola vegna illskuverka okkar og mikillar sektar hefur þú, Guð okkar, samt sýnt okkur meiri mildi en við áttum skilið+ og látið þá sem hér eru komast undan.+ 14 Eigum við þá enn og aftur að brjóta boðorð þín og stofna til hjúskapartengsla* við þjóðirnar sem stunda þessa viðurstyggð?+ Yrðirðu þá ekki svo reiður út í okkur að þú þurrkaðir okkur algerlega út svo að enginn lifði af og kæmist undan? 15 Jehóva Guð Ísraels, þú ert réttlátur+ og þess vegna hafa fáeinir okkar lifað af. Nú stöndum við frammi fyrir þér í sekt okkar þótt enginn geti staðist frammi fyrir þér eftir allt sem á undan er gengið.“+
10 Meðan Esra lá grátandi fyrir framan hús hins sanna Guðs, baðst fyrir+ og játaði syndir fólksins flykktist að honum stór hópur Ísraelsmanna, karlar, konur og börn. Og fólkið grét hástöfum. 2 Sekanja Jehíelsson+ afkomandi Elams+ tók þá til máls og sagði við Esra: „Við höfum svikið Guð okkar með því að giftast* útlenskum konum af þjóðunum í landinu.+ Samt er ekki öll von úti fyrir Ísrael. 3 Gerum nú sáttmála við Guð okkar+ um að senda burt allar þessar konur og börnin sem þær hafa eignast. Þannig fylgjum við fyrirmælum Jehóva og þeirra sem bera djúpa virðingu fyrir* boðorðum Guðs okkar.+ Gerum eins og lögin segja til um. 4 Stattu upp því að málið hvílir á þínum herðum og við styðjum þig. Vertu hugrakkur og gakktu til verks.“
5 Esra stóð þá upp og lét leiðtoga prestanna, Levítanna og allra Ísraelsmanna sverja eið að því að gera það sem sagt hafði verið.+ Þeir sóru þann eið. 6 Esra fór nú þaðan sem hann hafði verið fyrir framan hús hins sanna Guðs og inn í herbergi* Jóhanans Eljasíbssonar. Þar fékk hann sér þó hvorki mat að borða né vatn að drekka því að hann var miður sín yfir ótrúmennsku hinna herleiddu.+
7 Nú var gefin út yfirlýsing í Júda og Jerúsalem um að allir sem höfðu snúið heim úr útlegðinni skyldu safnast saman í Jerúsalem. 8 Höfðingjarnir og öldungarnir ákváðu að hver sem kæmi ekki innan þriggja daga skyldi rekinn úr söfnuði hinna herleiddu og allar eigur hans gerðar upptækar.*+ 9 Eftir þrjá daga höfðu allir karlmenn af ættkvísl Júda og Benjamíns safnast saman í Jerúsalem, það er á 20. degi níunda mánaðarins. Allt fólkið sat í forgarði húss hins sanna Guðs og skalf vegna þessa máls og vegna þess að það var úrhellisrigning.
10 Þá stóð Esra prestur upp og sagði: „Þið hafið svikið Guð með því að giftast útlenskum konum.+ Þannig hafið þið aukið á sekt Ísraels. 11 Játið nú syndir ykkar fyrir Jehóva, Guði forfeðra ykkar, og gerið vilja hans. Skiljið ykkur frá þjóðunum í landinu og þessum útlensku konum.“+ 12 Allur söfnuðurinn svaraði hátt og skýrt: „Það er skylda okkar að gera eins og þú segir. 13 En fólkið er margt og regntíminn stendur yfir. Þess vegna getum við ekki staðið úti og málið verður ekki útkljáð á einum eða tveim dögum því að við höfum brotið alvarlega af okkur í þessu efni. 14 Leyfðu því höfðingjum okkar að koma fram fyrir hönd alls safnaðarins.+ Allir borgarbúar sem hafa gifst útlenskum konum geta síðan komið á tilteknum tíma ásamt öldungum og dómurum hverrar borgar til að útkljá málið og snúa hinni brennandi reiði Guðs frá okkur.“
15 Jónatan Asaelsson og Jahseja Tíkvason mótmæltu þessu og Levítarnir Mesúllam og Sabbetaí+ studdu þá. 16 Þeir sem höfðu verið í útlegðinni gerðu hins vegar það sem fallist var á. Esra prestur og ættarhöfðingjarnir, sem allir voru skráðir með nafni, komu saman fyrsta dag tíunda mánaðarins til að taka málið fyrir 17 og fyrsta dag fyrsta mánaðarins höfðu þeir útkljáð mál allra mannanna sem höfðu gifst útlenskum konum. 18 Í ljós kom að nokkrir af afkomendum prestanna höfðu gifst útlenskum konum:+ Af afkomendum Jesúa+ Jósadakssonar og bræðrum hans voru það þeir Maaseja, Elíeser, Jaríb og Gedalja. 19 Þeir lofuðu* að senda konur sínar burt og fórna hrút úr hjörðinni vegna sektar sinnar.+
20 Af afkomendum Immers:+ Hananí og Sebadía; 21 af afkomendum Haríms:+ Maaseja, Elía, Semaja, Jehíel og Ússía; 22 af afkomendum Pashúrs:+ Eljóenaí, Maaseja, Ísmael, Netanel, Jósabad og Eleasa. 23 Af Levítunum: Jósabad, Símeí, Kelaja (það er Kelíta), Petaja, Júda og Elíeser; 24 af söngvurunum: Eljasíb; af hliðvörðunum: Sallúm, Telem og Úrí.
25 Af öðrum Ísraelsmönnum voru það eftirtaldir: af afkomendum Parósar:+ Ramja, Jisía, Malkía, Míjamín, Eleasar, Malkía og Benaja; 26 af afkomendum Elams:+ Mattanja, Sakaría, Jehíel,+ Abdí, Jeremót og Elía; 27 af afkomendum Sattú:+ Eljóenaí, Eljasíb, Mattanja, Jeremót, Sabad og Asísa; 28 af afkomendum Bebaí:+ Jóhanan, Hananja, Sabbaí og Atlaí; 29 af afkomendum Baní: Mesúllam, Mallúk, Adaja, Jasúb, Seal og Jeramót; 30 af afkomendum Pahats Móabs:+ Adna, Kelal, Benaja, Maaseja, Mattanja, Besalel, Binnúí og Manasse; 31 af afkomendum Haríms:+ Elíeser, Jisía, Malkía,+ Semaja, Símeon, 32 Benjamín, Mallúk og Semarja; 33 af afkomendum Hasúms:+ Matnaí, Mattatta, Sabad, Elífelet, Jeremaí, Manasse og Símeí; 34 af afkomendum Baní: Maadaí, Amram, Úel, 35 Benaja, Bedja, Kelúhí, 36 Vanja, Meremót, Eljasíb, 37 Mattanja, Matnaí og Jaasaí; 38 af afkomendum Binnúí: Símeí, 39 Selemja, Natan, Adaja, 40 Maknadbaí, Sasaí, Saraí, 41 Asarel, Selemja, Semarja, 42 Sallúm, Amarja og Jósef; 43 af mönnum frá Nebó: Jeíel, Mattitja, Sabad, Sebína, Jaddaí, Jóel og Benaja. 44 Allir þessir menn höfðu gifst útlenskum konum.+ Nú sendu þeir konur sínar burt ásamt börnum.+
Eða hugsanl. „sem er í Jerúsalem“.
Orðrétt „styrktu hendur þeirra“.
Hugsanlega er átt við skattlandið Babýlon eða skattlandið Júda.
Á hebr. netiním sem þýðir ‚hinir gefnu‘, það er, til að þjóna Guði.
Eða hugsanl. „Meúníms“.
Eða hugsanl. „Nefísíta“.
Á hebr. netiním sem þýðir ‚hinir gefnu‘, það er, til að þjóna Guði.
Eða „álitnir óhreinir og því reknir úr“.
Á hebr. tirshata, persneskur titill skattlandsstjóra.
Ein slík drakma er almennt talin jafngilda persneska gulldaríkanum sem vó 8,4 g. Ekki sama drakma og í Grísku ritningunum. Sjá viðauka B14.
Mína í Hebresku ritningunum jafngilti 570 g. Sjá viðauka B14.
Á hebr. netiním sem þýðir ‚hinir gefnu‘, það er, til að þjóna Guði.
Orðrétt „leitum Guðs“.
Orðrétt „veikja hendur“.
Eða hugsanl. „Bréfið var skrifað á arameísku og síðan þýtt“.
Esr 4:8 til 6:18 var upphaflega skrifuð á arameísku.
Eða „vestan Efrat“.
Orðrétt „borðum salt hallarinnar“.
Eða hugsanl. „þýtt og lesið“.
Eða „vestan Efrat“.
Orðrétt „auga Guðs þeirra hvíldi á“.
Um 26,7 m. Sjá viðauka B14.
Eða „stjaksettur“.
Eða hugsanl. „ruslahaug; mykjuhaug“.
Sjá viðauka B15.
Orðrétt „leita“.
Orðrétt „styrkti hendur þeirra“.
Sem þýðir ‚hjálp‘.
Eða „fræðimaður“.
Eða „var fær afritari Móselaganna“.
Á hebr. netiním sem þýðir ‚hinir gefnu‘, það er, til að þjóna Guði.
Eða „ákveðið í hjarta sínu“.
Eða „fræðimanni“.
Eða „var afritari boðorða Jehóva og laganna“.
Esr 7:12 til 7:26 var upphaflega skrifuð á arameísku.
Eða „fræðimanns“.
Eða „vestan Efrat“.
Eða „fræðimanni“.
Talenta jafngilti 34,2 kg. Sjá viðauka B14.
Kór jafngilti 220 l. Sjá viðauka B14.
Bat jafngilti 22 l. Sjá viðauka B14.
Á hebr. netiním sem þýðir ‚hinir gefnu‘, það er, til að þjóna Guði.
Á hebr. netiním sem þýðir ‚hinir gefnu‘, það er, til að þjóna Guði.
Á hebr. netiním sem þýðir ‚hinir gefnu‘, það er, til að þjóna Guði.
Talenta jafngilti 34,2 kg. Sjá viðauka B14.
Daríki var persnesk gullmynt. Sjá viðauka B14.
Eða „matsölum“.
Eða „satröpum“, titill sem þýðir ‚verndarar ríkisins‘.
Eða „vestan Efrat“.
Eða „hinn heilagi ættleggur“.
Eða „óttuðust“.
Eða „mægjast“.
Eða „taka heim til okkar“.
Eða „óttast“.
Eða „matsal“.
Eða „helgaðar banni“.
Orðrétt „gáfu hönd sína upp á“.