Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • nwt Harmljóðin 1:1-5:22
  • Harmljóðin

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Harmljóðin
  • Biblían – Nýheimsþýðingin
Biblían – Nýheimsþýðingin
Harmljóðin

HARMLJÓÐIN

א [alef]*

1 Nú situr hún ein og yfirgefin, borgin sem iðaði af lífi!+

Hún er orðin eins og ekkja, hún sem var svo fjölmenn meðal þjóðanna!+

Hún sem var drottning meðal héraðanna er hneppt í nauðungarvinnu!+

ב [bet]

 2 Hún grætur ákaft á nóttinni+ og tárin streyma niður kinnarnar.

Af öllum elskhugum hennar er enginn til að hugga hana.+

Allir vinir hennar hafa svikið hana,+ þeir eru orðnir óvinir hennar.

ג [gimel]

 3 Júda er flutt í útlegð,+ þjökuð og þrælkuð.+

Hún þarf að búa meðal þjóðanna,+ hún finnur hvergi hvíldarstað.

Allir sem ofsækja hana eltu hana uppi í neyð hennar.

ד [dalet]

 4 Vegirnir til Síonar syrgja því að enginn kemur til hátíðarinnar.+

Hlið hennar eru öll hrunin,+ prestar hennar andvarpa.

Meyjar* hennar eru óhuggandi af sorg og sjálf er hún gripin angist.

ה [he]

 5 Fjandmenn hennar ráða nú yfir henni, óvinir hennar eru áhyggjulausir+

því að Jehóva hefur leitt óhamingju yfir hana vegna hennar mörgu synda.+

Óvinurinn rak börn hennar á undan sér og flutti þau í útlegð.+

ו [vá]

 6 Dóttirin Síon hefur glatað allri dýrð sinni.+

Höfðingjar hennar eru eins og hirtir sem finna ekkert beitiland.

Þeir ganga örmagna á flótta undan ofsækjandanum.

ז [zajin]

 7 Hrjáð og heimilislaus minnist Jerúsalem

allra dýrgripanna sem hún átti endur fyrir löngu.+

Þegar þjóð hennar féll í hendur óvinarins kom enginn henni til hjálpar,+

óvinirnir horfðu á hana og hlógu að* falli hennar.+

ח [het]

 8 Jerúsalem hefur syndgað gróflega.+

Þess vegna er hún orðin viðbjóður.

Allir sem heiðruðu hana fyrirlíta hana af því að þeir hafa séð nekt hennar.+

Hún stynur+ og snýr sér undan af skömm.

ט [tet]

 9 Óhreinleiki hennar er á pilsfaldi hennar.

Hún hugsaði ekkert um hvernig færi að lokum.+

Fall hennar var hrikalegt, hún hefur engan til að hugga sig.

Jehóva, sjáðu eymd mína því að óvinurinn hefur hrokast upp.+

י [jód]

10 Óvinurinn hefur látið greipar sópa um fjársjóði hennar.+

Hún sá þjóðir ganga inn í helgidóm sinn+

þótt þú hefðir bannað þeim að koma saman með söfnuði þínum.

כ [kaf]

11 Allir íbúar hennar andvarpa, þeir leita að brauði.+

Þeir hafa látið dýrgripi sína í skiptum fyrir mat til að halda lífi.

Líttu á mig, Jehóva, og sjáðu að ég er orðin einskis nýt.*

ל [lamed]

12 Skiptir þetta engu máli fyrir ykkur sem gangið fram hjá?

Lítið á mig!

Jafnast nokkur kvöl á við þá sem lögð var á mig,

þá sem Jehóva lét mig þola á degi brennandi reiði sinnar?+

מ [mem]

13 Frá hæðum sendi hann eld í bein mín+ og hann yfirbugar þau öll.

Hann hefur lagt net fyrir fætur mína, neytt mig til að snúa við.

Hann hefur valdið því að ég er yfirgefin.

Ég er sjúk allan liðlangan daginn.

נ [nún]

14 Syndir mínar eru hnýttar í ok, hann festi þær saman með eigin hendi.

Hann hefur lagt þær á háls minn og kraftur minn er á þrotum.

Jehóva hefur selt mig í hendur þeirra sem ég get ekki veitt viðnám.+

ס [samek]

15 Jehóva hefur hrifsað frá mér alla kappana.+

Hann stefndi liði gegn mér til að gera út af við unga menn mína.+

Jehóva hefur troðið á meyjunni Júdadóttur í vínpressunni.+

ע [ajin]

16 Þess vegna græt ég,+ augu mín flóa í tárum

því að allir sem gætu huggað mig og hughreyst eru langt í burtu.

Synir mínir eru úrkula vonar því að óvinurinn hefur sigrað.

פ [pe]

17 Síon réttir út hendurnar,+ hún hefur engan til að hugga sig.

Jehóva skipaði öllum nágrönnum Jakobs að snúast gegn honum.+

Jerúsalem er orðin viðbjóður í augum þeirra.+

צ [tsade]

18 Jehóva er réttlátur+ því að ég hef risið gegn fyrirmælum* hans.+

Hlustið, allar þjóðir, og sjáið kvöl mína.

Meyjar* mínar og ungir menn hafa verið flutt í útlegð.+

ק [qóf]

19 Ég kallaði á elskhuga mína en þeir hafa svikið mig.+

Prestar mínir og öldungar fórust í borginni

þegar þeir leituðu sér matar til að halda lífi.+

ר [res]

20 Sjáðu, Jehóva, ég er í sárri neyð!

Það ólgar innra með mér.*

Hjartað kvelst í brjósti mér því að ég hef verið svo uppreisnargjörn.+

Úti herjar sverðið,+ inni ríkir dauðinn.

ש [shin]

21 Fólk hefur heyrt andvörp mín, það er enginn til að hugga mig.

Allir óvinir mínir hafa heyrt um hörmungar mínar.

Þeir gleðjast því að þú stendur á bak við þær.+

En þú lætur þann dag renna upp sem þú hefur boðað,+ og þá verða þeir eins og ég.+

ת [tá]

22 Láttu alla illsku þeirra koma fyrir augu þín og refsaðu þeim+

eins og þú hefur refsað mér vegna allra synda minna

því að andvörp mín eru mörg og hjarta mitt sjúkt.

א [alef]

2 Í reiði sinni hefur Jehóva hulið dótturina Síon dimmu skýi.

Fegurð Ísraels hefur hann kastað niður frá himni til jarðar.+

Hann minntist ekki fótskemils síns+ á reiðidegi sínum.

ב [bet]

 2 Jehóva hefur vægðarlaust eytt öllum heimkynnum Jakobs.

Í heift sinni reif hann niður virki Júdadóttur.+

Hann steypti höfðingjum hennar og ríkinu til jarðar og vanhelgaði það.+

ג [gimel]

 3 Í brennandi reiði sinni svipti hann Ísrael öllum mætti.*

Hann dró að sér hægri höndina þegar óvinurinn nálgaðist+

og í Jakobi brann hann eins og eldur sem gleypir allt í kringum sig.+

ד [dalet]

 4 Hann spennti bogann eins og óvinur, lyfti hægri hendi gegn okkur eins og andstæðingur.+

Hann drap alla sem voru augunum yndi+

og úthellti heift sinni eins og eldi+ í tjald dótturinnar Síonar.+

ה [he]

 5 Jehóva er orðinn eins og óvinur,+

hann eyddi Ísrael.

Hann reif niður alla turna hennar,

lagði öll virkin í rúst

og Júdadóttur olli hann óheyrilegri sorg og harmi.

ו [vá]

 6 Hann fer grimmilega með skála sinn,+ eins og kofa í garði.

Hann hefur bundið enda á hátíðina.+

Jehóva hefur látið hátíðir og hvíldardaga falla í gleymsku í Síon

og í heiftarreiði sinni virðir hann konung og prest einskis.+

ז [zajin]

 7 Jehóva hefur hafnað altari sínu,

snúið baki við helgidómi sínum.+

Hann seldi víggirta turna hennar í hendur óvinanna.+

Þeir hrópuðu hátt í húsi Jehóva+ eins og á hátíðardegi.

ח [het]

 8 Jehóva var ákveðinn í að rífa niður múr dótturinnar Síonar.+

Hann strekkti mælisnúruna,+

veigraði sér ekki við að valda eyðileggingu.

Hann lætur varnargarð og múr syrgja

og báðir hafa örmagnast.

ט [tet]

 9 Hlið hennar eru sokkin í jörðina.+

Hann eyðilagði og braut slagbranda hennar.

Konungur hennar og höfðingjar eru meðal þjóðanna.+

Lögin eru* á bak og burt og spámenn hennar fá engar sýnir frá Jehóva.+

י [jód]

10 Öldungar dótturinnar Síonar sitja hljóðir á jörðinni.+

Þeir kasta mold á höfuðið og klæðast hærusekk.+

Meyjar Jerúsalem láta höfuðið hníga til jarðar.

כ [kaf]

11 Augu mín eru örmagna af gráti.+

Það ólgar innra með mér.*

Lifrinni er úthellt á jörðina vegna þess að dóttirin,* þjóð mín, er fallin,+

vegna þess að börn og ungbörn hníga niður á torgum borgarinnar.+

ל [lamed]

12 Þau þráspyrja mæður sínar: „Hvar er korn og vín?“+

og hníga niður eins og særðir menn á torgum borgarinnar.

Líf þeirra fjarar út í fangi mæðra þeirra.

מ [mem]

13 Hvaða dæmi get ég tekið?

Við hvað get ég líkt þér, dóttirin Jerúsalem?

Við hvað get ég jafnað þér til að hugga þig, meyjan, dóttirin Síon?

Hrun þitt er eins gífurlegt og víðátta hafsins.+ Hver getur læknað þig?+

נ [nún]

14 Sýnir spámanna þinna um þig voru falskar og innantómar+

og þeir afhjúpuðu ekki sekt þína til að afstýra útlegð þinni+

heldur fluttu þér falskar og villandi sýnir.+

ס [samek]

15 Allir sem eiga leið hjá klappa saman höndum til að hæðast að þér.+

Þeir blístra,*+ hrista höfuðið yfir dótturinni Jerúsalem og segja:

„Er þetta borgin sem sagt var um: ‚Hún er fullkomin að fegurð, gleði allrar jarðar‘?“+

פ [pe]

16 Allir óvinir þínir glenna upp ginið gegn þér.

Þeir blístra og gnísta tönnum og segja: „Við höfum gereytt henni!+

Þetta er dagurinn sem við höfum beðið eftir!+ Hann er kominn og við höfum séð hann!“+

ע [ajin]

17 Jehóva hefur framkvæmt það sem hann ákvað,+ hann hefur staðið við orð sín,+

það sem hann fyrirskipaði endur fyrir löngu.+

Hann hefur rifið niður vægðarlaust,+

látið óvininn fagna yfir þér, gert andstæðinga þína öfluga.*

צ [tsade]

18 Hjörtu fólksins hrópa til Jehóva, þú múr dótturinnar Síonar.

Láttu tárin streyma eins og iðandi læk dag og nótt.

Leyfðu þér ekki að hvílast, auga þitt* finni enga ró.

ק [qóf]

19 Farðu á fætur! Hrópaðu um nætur þegar vökurnar hefjast.

Úthelltu hjarta þínu eins og vatni frammi fyrir Jehóva.

Lyftu höndum til hans og biddu fyrir lífi barna þinna

sem hníga niður af hungri á hverju götuhorni.+

ר [res]

20 Sjáðu, Jehóva, og líttu á fólkið sem þú hefur farið svo illa með.

Eiga konur að borða sín eigin afkvæmi, heilbrigð ungbörn sín?+

Á að drepa presta og spámenn í helgidómi Jehóva?+

ש [shin]

21 Ungir og aldnir liggja dánir á strætunum.+

Meyjar* mínar og ungir menn féllu fyrir sverði.+

Þú drapst þau á reiðidegi þínum, slátraðir vægðarlaust.+

ת [tá]

22 Þú stefndir að mér skelfingum úr öllum áttum eins og til hátíðar.+

Enginn komst undan né lifði af reiðidag Jehóva.+

Óvinur minn útrýmdi börnunum sem ég fæddi og ól upp.+

א [alef]

3 Ég er maðurinn sem hefur séð þjáningar af völdum reiðivandar hans.

 2 Hann hefur rekið mig út og lætur mig ganga í myrkri en ekki í ljósi.+

 3 Hann snýr hendi sinni ítrekað á móti mér allan liðlangan daginn.+

ב [bet]

 4 Hann hefur látið hold mitt og húð tærast upp,

hann hefur brotið bein mín.

 5 Hann króaði mig inni, umkringdi mig með bitru eitri+ og eymd.

 6 Hann neyddi mig til að sitja í myrkri eins og þá sem eru löngu dánir.

ג [gimel]

 7 Hann hefur múrað mig inni svo að ég get ekki flúið,

hneppt mig í þunga koparhlekki.+

 8 Þegar ég hrópa örvæntingarfullur á hjálp hafnar* hann bæn minni.+

 9 Hann hefur lokað vegum mínum með tilhöggnum steinum,

gert stíga mína krókótta.+

ד [dalet]

10 Hann situr fyrir mér eins og björn, eins og ljón sem liggur í leyni.+

11 Hann neyddi mig út af veginum og reif mig í sundur,

hann skildi mig eftir einan og yfirgefinn.*+

12 Hann spennti bogann og stillti mér upp sem skotmarki fyrir örina.

ה [he]

13 Hann hæfði nýru mín með örvunum úr örvamæli sínum.*

14 Ég er orðinn að athlægi meðal allra þjóða, allan liðlangan daginn syngja þær níðvísur um mig.

15 Hann hefur mettað mig beiskju og gefið mér malurt að drekka.+

ו [vá]

16 Hann lætur mig bryðja möl svo að tennurnar brotna,

hann treður mig niður í öskuna.+

17 Þú rænir mig friði, ég hef gleymt hvað hamingja* er.

18 Þess vegna segi ég: „Dýrð mín er horfin og von mín til Jehóva brostin.“

ז [zajin]

19 Minnstu eymdar minnar og heimilisleysis,+ malurtarinnar og bitra eitursins.+

20 Þú munt minnast þess og beygja þig niður til mín.+

21 Ég hef þetta hugfast, þess vegna sýni ég biðlund.+

ח [het]

22 Það er tryggum kærleika Jehóva að þakka að ekki er úti um okkur+

því að miskunn hans tekur aldrei enda.+

23 Hún er ný á hverjum morgni,+ trúfesti þín er óþrjótandi.+

24 „Jehóva er hlutdeild mín,“+ sagði ég, „þess vegna bíð ég þolinmóður eftir honum.“+

ט [tet]

25 Jehóva er góður við þann sem vonar á hann,+ þann sem leitar hans.+

26 Það er gott að bíða hljóður*+ eftir hjálp Jehóva.+

27 Það er gott fyrir manninn að bera ok í æsku.+

י [jód]

28 Hann ætti að sitja einn og vera hljóður þegar Guð leggur það á hann.+

29 Hann ætti að liggja með munninn við jörðu,+ kannski er enn von.+

30 Hann ætti að bjóða þeim kinnina sem slær hann og fá fylli sína af svívirðingum

כ [kaf]

31 því að Jehóva útskúfar okkur ekki að eilífu.+

32 Þótt hann hafi valdið sorg mun hann sýna miskunn vegna síns mikla og trygga kærleika+

33 því að hann langar ekki til að hrjá né hryggja mennina.+

ל [lamed]

34 Að troða undir fótum alla fanga jarðar,+

35 að neita manni um réttlæti frammi fyrir Hinum hæsta,+

36 að svíkja mann í dómsmáli hans

– Jehóva umber það ekki.

מ [mem]

37 Hver getur látið orð sín rætast án þess að Jehóva fyrirskipi það?

38 Úr munni Hins hæsta

kemur ekki bæði gott og illt.

39 Hvers vegna ætti nokkur lifandi maður að kvarta yfir afleiðingum syndar sinnar?+

נ [nún]

40 Rannsökum breytni okkar og hugsum okkar gang+ og snúum aftur til Jehóva.+

41 Lyftum hjörtum okkar og höndum til Guðs á himnum:+

42 „Við höfum brotið af okkur og gert uppreisn+ og þú hefur ekki fyrirgefið.+

ס [samek]

43 Þú reiddist og hindraðir aðgang að þér,+

þú eltir okkur og drapst vægðarlaust.+

44 Þú hindraðir aðgang að þér með skýi svo að bænir okkar komast ekki í gegn.+

45 Þú hefur gert okkur að úrhraki og sorpi meðal þjóðanna.“

פ [pe]

46 Allir óvinir okkar glenna upp ginið gegn okkur.+

47 Hræðsla og gildrur eru hlutskipti okkar,+ eyðilegging og hrun.+

48 Táralækir streyma frá augum mínum vegna hruns dótturinnar, þjóðar minnar.+

ע [ajin]

49 Ég græt linnulaust, án afláts,+

50 þar til Jehóva lítur niður af himnum og sér.+

51 Það kvelur mig að horfa upp á allar dætur borgar minnar.+

צ [tsade]

52 Óvinir mínir eltu mig eins og fugl að tilefnislausu.

53 Þeir reyndu að drepa mig með því að varpa mér í gryfju og þeir köstuðu steinum á mig.

54 Vatn flæddi yfir höfuð mitt og ég sagði: „Það er úti um mig!“

ק [qóf]

55 Ég hrópaði nafn þitt, Jehóva, úr djúpi gryfjunnar.+

56 Heyrðu hróp mitt, lokaðu ekki eyrunum fyrir ákalli mínu um hjálp og björgun.

57 Þú nálgaðist mig daginn sem ég hrópaði til þín. Þú sagðir: „Vertu ekki hræddur.“

ר [res]

58 Þú varðir mál mitt, Jehóva, og bjargaðir* lífi mínu.+

59 Þú hefur séð, Jehóva, ranglætið sem ég hef þurft að þola, láttu mig ná rétti mínum.+

60 Þú hefur séð hefndarþorsta þeirra, allt ráðabrugg þeirra gegn mér.

ש [sin] eða [shin]

61 Þú hefur heyrt háðsglósur þeirra, Jehóva, allt ráðabrugg þeirra gegn mér,+

62 orðin af vörum andstæðinga minna og hvernig þeir hvískra um mig allan liðlangan daginn.

63 Sjáðu þá, hvort sem þeir sitja eða standa syngja þeir níðvísur um mig!

ת [tá]

64 Þú endurgeldur þeim, Jehóva, eftir verkum þeirra.

65 Þú herðir hjarta þeirra, það er bölvunin sem þú leiðir yfir þá.

66 Þú eltir þá í reiði þinni og afmáir þá undan himni Jehóva.

א [alef]

4 Skínandi gullið hefur glatað gljáa sínum, dýrindis gullið!+

Helgu steinarnir+ liggja á víð og dreif á hverju götuhorni!+

ב [bet]

 2 Dýrmætir synir Síonar, sem vógu jafn mikið* og skíragull,

eru nú metnir sem leirker,

handaverk leirkerasmiðs.

ג [gimel]

 3 Jafnvel sjakalar hleypa ungviði sínu á spena

en dóttirin, þjóð mín, er orðin harðbrjósta+ eins og strútar í óbyggðunum.+

ד [dalet]

 4 Tunga brjóstabarnsins loðir við góminn af þorsta,

börn betla brauð+ en enginn gefur þeim neitt.+

ה [he]

 5 Þeir sem voru vanir að gæða sér á kræsingum liggja nú sársvangir* á strætunum,+

þeir sem ólust upp í skarlati+ faðma nú öskuhauga.

ו [vá]

 6 Refsing* dótturinnar, þjóðar minnar, er þyngri en refsingin sem Sódóma hlaut fyrir syndir sínar,+

borgin sem var lögð í rúst á augabragði án þess að nokkur rétti henni hjálparhönd.+

ז [zajin]

 7 Nasírear+ hennar voru hreinni en snjór, hvítari en mjólk.

Þeir voru rauðari en kóralar, eins og slípaður safír.

ח [het]

 8 Þeir eru orðnir svartari en sót*

og þekkjast ekki á strætunum.

Húðin er skorpin að beinum,+ hún líkist þurrum viði.

ט [tet]

 9 Þeir sem féllu fyrir sverði voru betur settir en þeir sem féllu fyrir hungri,+

þeir sem vesluðust upp og voru eins og stungnir á hol af því að engin uppskera fékkst af akrinum.

י [jód]

10 Góðhjartaðar konur suðu börnin sín með eigin höndum.+

Þau voru þeim fæða* þegar dótturinni, þjóð minni, var eytt.+

כ [kaf]

11 Jehóva hefur látið í ljós heift sína,

úthellt brennandi reiði sinni.+

Hann kveikir eld í Síon sem gleypir undirstöður hennar.+

ל [lamed]

12 Enginn af konungum jarðar og öllum íbúum hennar trúði

að andstæðingurinn og óvinurinn myndi fara inn um hlið Jerúsalem.+

מ [mem]

13 Það gerðist vegna synda spámanna hennar og afbrota presta hennar+

sem úthelltu blóði réttlátra í borginni.+

נ [nún]

14 Þeir ráfuðu um strætin eins og blindir menn.+

Þeir eru flekkaðir blóði+

svo að enginn getur snert föt þeirra.

ס [samek]

15 „Burt með ykkur! Þið eruð óhreinir!“ hrópar fólk að þeim. „Burt með ykkur! Burt með ykkur! Snertið okkur ekki!“

því að þeir eru orðnir heimilislausir og flakka um.

Fólk af þjóðunum segir: „Þeir geta ekki búið hér hjá okkur.*+

פ [pe]

16 Jehóva hefur sjálfur* tvístrað þeim,+

hann lítur ekki framar á þá með velþóknun.

Menn bera enga virðingu fyrir prestunum+ og taka ekkert tillit til öldunganna.“+

ע [ajin]

17 Augu okkar eru örmagna því að við störðum eftir hjálp sem ekki barst.+

Við störðum í sífellu eftir hjálp frá þjóð sem gat ekki bjargað okkur.+

צ [tsade]

18 Óvinurinn var á hælunum á okkur+ svo að við gátum ekki gengið um torgin.

Endalok okkar nálgast, dagar okkar eru taldir, já, endalokin eru komin.

ק [qóf]

19 Ofsækjendur okkar voru skjótari en ernir á himni,+

þeir eltu okkur á fjöllunum, sátu fyrir okkur í óbyggðunum.

ר [res]

20 Smurður konungur Jehóva,+ lífsandi okkar,* var fangaður í stóra gryfju þeirra,+

hann sem við sögðum um: „Í skjóli* hans munum við lifa meðal þjóðanna.“

ש [sin]

21 Gleðstu og fagnaðu, dóttirin Edóm,+ þú sem býrð í Úslandi.

Bikarinn verður þó einnig fenginn þér,+ þú verður drukkin og afhjúpar nekt þína.+

ת [tá]

22 Refsingin fyrir afbrot þín, dóttirin Síon, er á enda.

Hann flytur þig aldrei aftur í útlegð.+

Hann ætlar að snúa sér að afbrotum þínum, dóttirin Edóm,

afhjúpa syndir þínar.+

5 Mundu, Jehóva, hvað hefur gengið yfir okkur.

Líttu á og sjáðu niðurlægingu okkar.+

 2 Erfðaland okkar er fallið í hendur ókunnugra, hús okkar í hendur útlendinga.+

 3 Við erum orðin munaðarlaus, föðurlaus. Mæður okkar eru eins og ekkjur.+

 4 Við þurfum að borga fyrir eigið drykkjarvatn+ og kaupa okkar eigin við.

 5 Þeir sem elta okkur anda ofan í hálsmálið á okkur,

við erum örþreytt en fáum enga hvíld.+

 6 Við réttum út höndina til Egyptalands+ og Assýríu+ til að fá brauð að borða.

 7 Forfeður okkar sem syndguðu eru horfnir en við þurfum að bera syndir þeirra.

 8 Nú ríkja þjónar yfir okkur, enginn er til að bjarga okkur úr höndum þeirra.

 9 Við hættum lífinu við að sækja brauð+ því að sverðið herjar í óbyggðunum.

10 Húðin á okkur er orðin heit sem ofn vegna skerandi hungurs.+

11 Þeir hafa svívirt* eiginkonurnar í Síon, meyjarnar í borgum Júda.+

12 Höfðingjar voru hengdir upp á annarri hendi+ og öldungum engin virðing sýnd.+

13 Ungir menn bera handkvörnina og drengir hrasa undir viðarbyrðunum.

14 Öldungarnir eru horfnir úr borgarhliðinu,+ ungu mennirnir hættir að leika tónlist.+

15 Gleðin er horfin úr hjörtum okkar, dansinn er vikinn fyrir sorg.+

16 Kórónan er fallin af höfði okkar. Það er úti um okkur því að við höfum syndgað!

17 Þess vegna er hjarta okkar sjúkt+

og þess vegna hafa augu okkar daprast,+

18 vegna Síonarfjalls sem er í eyði,+ nú eru refir þar á ferli.

19 En þú, Jehóva, situr í hásæti þínu að eilífu.

Hásæti þitt stendur kynslóð eftir kynslóð.+

20 Hvers vegna viltu gleyma okkur að eilífu, yfirgefa okkur í svo langan tíma?+

21 Leiddu okkur aftur til þín, Jehóva, þá snúum við til þín þegar í stað,+

láttu allt verða eins og í gamla daga.+

22 Þú hefur hafnað okkur með öllu

og ert enn bálreiður út í okkur.+

Í fyrstu fjórum köflunum er versunum raðað í stafrófsröð samkvæmt hebreska stafrófinu.

Eða „Ungar konur“.

Eða „hlökkuðu yfir“.

Jerúsalem er persónugerð sem kona.

Orðrétt „munni“.

Eða „Ungar konur“.

Orðrétt „Innyfli mín ólga“.

Orðrétt „hverju horni“.

Eða „Fræðsla er; Leiðsögn er“.

Orðrétt „Innyfli mín ólga“.

Ljóðræn persónugerving, hugsanlega til að tjá vorkunn eða samúð.

Sennilega til að láta í ljós undrun eða háð.

Orðrétt „upphafið horn andstæðinga þinna“.

Orðrétt „dóttir auga þíns“.

Eða „Ungar konur“.

Eða „hindrar“.

Eða hugsanl. „hann lætur mig liggja hreyfingarlausan“.

Orðrétt „sonum örvamælis síns“.

Orðrétt „gott“.

Eða „þolinmóður“.

Eða „leystir“.

Eða „voru jafn dýrmætir“.

Orðrétt „yfirgefnir“.

Orðrétt „Misgerð“.

Orðrétt „sorti“.

Eða „sorgarmatur“.

Eða „búið hér sem útlendingar“.

Orðrétt „Auglit Jehóva hefur“.

Orðrétt „andardráttur nasa okkar“.

Orðrétt „skugga“.

Eða „nauðgað“.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila