Þörfin fyrir peninga
„PENINGAR eru rót alls ills.“ Hefur þú nokkurn tíma heyrt þetta sagt? Í raun er þetta afbökun orðanna: „Fégirndin er rót alls þess, sem illt er.“a
Satt er það að mikil illska hefur sprottið af eigingjarnri græðgi fólks í peninga. Þorri glæpa er framinn til að komast yfir peninga. En hvar stæðum við ef peningar væru ekki til?
Sú var auðvitað tíðin að peningar voru ekki til. Jafnvel eftir að þeir komu fram á sjónarsviðið var notkun þeirra takmörkuð og óreglubundin. Í landbúnaðarsamfélögum fortíðar var hver fjölskylda tiltölulega óháð öðrum og sjálfri sér nóg um flest. Menn gátu skipst á vörum eða varningi eftir því sem þörf krafði, skipt beint á einum hlut fyrir annan. Þessi viðskiptamáti hafði þó sína annmarka, einkum fyrir þann sem sérhæfði sig í ákveðinni iðn eða starfaði sem daglaunamaður.
Jesús minntist á slíka verkamenn í dæmisögu um landeiganda sem réði til sín menn til að vinna í víngarði. (Matteus 20:1-16) Daglaunamennirnir fengu að launum umsamda fjárhæð sem sýnir að peningar skipuðu orðið fastan sess á þeim tíma. En reyndu að gera þér í hugarlund að þú værir slíkur verkamaður og fengir laun þín greidd í vínberjum í stað peninga!
Vera má að þú sért sólginn í vínber en tæplega vildir þú nærast á þeim eingöngu. Þú myndir vilja fá kjarnmeiri og fjölbreyttari mat, meðal annars kjöt og grænmeti. Auk þess þyrftir þú skó, fatnað, eldsneyti og ýmsan annan varning og þjónustu. Þú yrðir því að reyna að finna einhvern sem væri fús til að þiggja vínber í stað þess sem þig vanhagaði um.
En hvernig færi ef menn væru lítt hrifnir af vínberjum eða vildu ekki þiggja þau? Þá yrðir þú að leita uppi einhvern sem vildi skipta á vínberjunum þínum og einhverju öðru sem þú síðan gætir skipt fyrir það sem þig vanhagaði um. Slík vöruskipti gætu kostað þig meiri tíma en það tók þig að vinna þér inn vínberin í upphafi!
Vöruskiptaverslun hefur líka þann annmarka að ákvarða þarf verðgildi hvers hlutar eða vöru miðað við annan. Hve margra vínberja virði er til dæmis einn kjúklingur? Hve mörg vínber kosta skór? Tilgreina þyrfti um sérhvern hlut, vöru eða þjónustu, hve mikils virði hann væri miðað við alla aðra hluti, vöru eða þjónustu. „Ef við segðum að á markaðinum væru eitt þúsund mismunandi vörur og þjónustugreinar,“ segir í bókinni Money, Banking and the United States Economy, „myndu ekki duga eitt þúsund mismunandi verð í dollurum [eða öðrum gjaldmiðli] til að mæla innbyrðis markaðsvirði þeirra, heldur þyrfti 499.500 skiptahlutföll!“
Bæði er það býsna mikið til að leggja á minnið auk þess sem stöðugt þyrfti að endurskoða og lagfæra skrána eftir því sem aðstæður breyttust. Og hvað skal gera ef varan, sem þú ætlar að láta af hendi, svo sem kýr, er meira virði en axarblaðið sem þú ætlar að kaupa? Hver fær kúna ef þú vilt nota andvirði hennar til kaupa á nokkrum hlutum sinn frá hverjum einstaklingi? Augljóst er að verslun og viðskipti yrðu býsna erfið við þær aðstæður! Bersýnilega kæmi einn sameiginlegur gjaldmiðill til notkunar í verslun og viðskiptum að góðum notum. Þar koma peningar til skjalanna.
Peningar þjóna því eftirfarandi hlutverki:
● Þeir eru gjaldmiðill sem auðveldar okkur að kaupa vörur eða þjónustu annarra.
● Þeir eru mælikvarði á verðgildi — staðaleining í viðskiptum sem hægt er að nota til að bera saman og tilgreina verðgildi allrar vöru og þjónustu.
● Þeir eru tæki til geymslu á verðmætum, gera mönnum fært að leggja fyrir tekjur sínar til síðari nota.
Peningar eru forsendan fyrir tilvist stórra iðnfyrirtækja sem framleiða alls kyns neysluvarning. Þeirra vegna getum við keypt okkur nýjustu og bestu vörurnar og þjónustuna. Peningar eru lífsblóð hagvaxtar sem verslun og viðskipti á allt sitt undir. Þeirra vegna þrífst umfangsmikil sérhæfing á ýmsum sviðum.
„En peningar, sem eru svona þarfur og eftirsóknarverður þjónn, eru stundum óþekkir,“ segir John A. Cochran í bók sinni Money, Banking and the Economy. „Peningar geta annaðhvort verið mikil blessun eða mikil bölvun.“ Þetta á einkum við um hið flókna hagkerfi okkar tíma þar sem hægt er að verða stórríkur eða tapa aleigunni á einni nóttu, þar sem fyrirtæki geta dafnað eða lagt upp laupana og ríkisstjórnir geta risið eða fallið. Í miðri hringiðu slíkra atburða er oft hinar stóru peningastofnanir — bankarnir. Á síðustu árum hafa bankagjaldþrot orðið tíðari en áður eru dæmi um. Er ástæða til að óttast um sinn hag af þeim sökum?
[Neðanmáls]
a Þessi orð er að finna í Biblíunni í 1. Tímóteusarbréfi 6:10. Páll postuli skrifaði þau í Makedóníu einhvern tíma á árabilinu 61 til 64.