Hvers vegna verða bankar gjaldþrota?
ÞEGAR Havaji-banki opnaði útibú árið 1970 á eynni Yap í Míkrónesíu átti hann við ramman reip að draga — hvernig hann átti að telja Yap-búa á að leggja fjármuni sína í banka. „Við héldum fundi í bæjunum þar sem við skýrðum frumatriðin allt frá grunni,“ segir einn af fulltrúum bankans, Dominic B. Griffin III. „Í sjálfsþurftarhagkerfi getur hvað sem er verið gjaldmiðill. Við þurftum að útskýra fyrir fólki hvers vegna svín væri ekki peningar en að aftur á móti væri undirskrift á pappírssnepli peningar.“
Þetta vandamál, sem hér um ræðir, undirstrikar eitt meginatriði: Bankakerfi nútímans byggist á trausti. Það byggist á því trúnaðartrausti sem fólk — jafnt einstaklingar sem fyrirtæki — ber til bankanna sem það skiptir við og þeirra aðila sem styðja við bakið á þeim.
Á Yap var einn banki fyrir — steinpeningabankinn. Um aldaraðir höfðu eyjarskeggjar notað stórar steinkringlur sem gjaldmiðil. Þessar kringlur eru svo stórar að enga öryggisgeymslu þarf til að geyma þær eða vernda. Þeim er einfaldlega stillt upp við tré og veggi meðfram veginum utan við Kolonía. Steinarnir eru unnir á eynni Belá, suðvestur af Yap, og verðgildi þeirra ákvarðast af því hve erfitt er að eignast þá og flytja á smábátum til Yap. Steinpeningarnir eru aldrei hreyfðir. Allir þekkja hverja kringlu og sögu hennar. Eignarhald (en ekki steinninn sjálfur) flyst frá einni fjölskyldu til annarrar með kaupum og sölu á landi eða varningi.
Segja má að þurft hafi bókstaflega að færa Yap af „steinaldarstigi“ til nútímastigs í bankaviðskiptum, þar sem notaðar eru tölvur og rafeindatæki. Eyjarskeggjar þurftu að læra á tékka- og sparireikninga, gjaldeyrisviðskipti, skuldabréf, víxla og símagreiðslur. Fólk þurfti að læra á verðgildi pappírsmiða með ákveðinni áletrun og treysta á bankana sem myndu meðhöndla fjármuni þess, fjármuni sem það gat ekki séð.
Þannig er háttað peningaviðskiptum út um allan heiminn nú á dögum. Enginn heimtar að bankinn, sem hann skiptir við, sýni honum peningana sem hann á. Flest viðskipti við bankann fara meira að segja fram með hjálp rafeindatækja eða tékka. Fólk treystir því að bankarnir reiði af hendi það fé, sem þeir hafa heitið, þegar þess er krafist eða þegar bundinn reikningur er laus til útborgunar. Samt sem áður geyma bankarnir í öryggishvelfingum sínum aðeins nægilegt fé til daglegra nota hverju sinni. Þeir vita af reynslunni hve mikið reiðufé þarf að vera fyrir hendi á hverjum tíma. Hvar eru þá allir hinir peningarnir?
Heimur bankaviðskipta
Bankar eru viðskiptastofnanir sem starfa, eins og öll önnur fyrirtæki, með það að markmiði að skila hagnaði. En ólíkt flestum öðrum fyrirtækjum er framleiðsluvaran peningar. Í stuttu máli taka þeir fé að láni hjá einum og lána það út til annars. Með því að hafa útlánsvextina hærri en innlánsvextina afla þeir peninga handa sjálfum sér, hluthöfum sínum og sparifjáreigendum, auk þess að kosta daglegan rekstur. En bankarnir búa líka beinlínis til peninga. Hvernig fara þeir að því?
Dennis Turner skýrir það í bók sinni When Your Bank Fails: „Seðlabankinn krefst þess aðeins af bönkum að þeir hafi handbært örlítið brot af innlögðu fé. Krafan er eilítið breytileg eftir stærð bankans eða eðli hins innlagða fjár en nemur nú [1983 í Bandaríkjunum] að meðaltali 8%. Ef sparifjáreigandi leggur 100 dollara inn á reikning sinn getur bankinn lánað út 92 dollara þar af. Hvort sem lántakandinn eyðir fénu strax eða leggur það inn á annan bankareikning skapar hann bankanum 92 dollara í viðbót í innlögðu fé. Af þeirri upphæð má bankinn lána út 84,64 dollara en geymir 7,36 sem lausafé. Þetta píramídaferli heldur áfram þannig að með 8% lausafjárkröfu getur 100 dollara sparifé búið til 1200 dollara í nýju fé.“
Bankarnir notfæra sér yfirleitt útlánaheimildir sínar til hins ýtrasta. Ef orðrómur kemst hins vegar á kreik um að banki sé í kröggum geta sparifjáreigendur glatað trausti sínu til hans og flykkst þangað til að taka út innistæður sínar. Þá getur bankinn ekki greitt öllum sparifjáreigendum út innistæður sínar og gæti orðið gjaldþrota — nema því aðeins að stjórnvöld bjargi honum eða hann sameinist öðrum sterkari banka. Jafnvel bankar, sem stóðu traustum fótum fjárhagslega, hafa orðið gjaldþrota með þessum hætti.
Aðrar orsakir gjaldþrota
Oft eru það útlánin sjálf sem koma bönkum í kröggur, einkum ef þeir hafa lánað út mikið fé til langs tíma á lágum vöxtum. Yfirleitt valda slík lán engum vandkvæðum þegar stöðugleiki ríkir í efnahagsmálum og innlánsvextir til sparifjáreigenda og annarra eru lægri en útlánsvextir. Þegar innlánsvextir hins vegar hækka, eins og gerst hefur í sumum löndum á síðustu árum, geta bankarnir komist í þá aðstöðu að þurfa að greiða meira út en inn kemur.
Enn verra er það þó þegar lántakendur geta ekki staðið í skilum. Þannig er aðstaða fjölmargra bænda í Bandaríkjunum núna. Vanskil af þessu tagi hafa gert fjölmarga smábanka þar í landi gjaldþrota. „Nákvæmlega helmingur banka, sem urðu gjaldþrota árið 1985, voru nefndir búnaðarbankar, en það þýðir að minnst fjórðungur útlána þeirra var tengdur landbúnaði,“ segir í fjármálatímaritinu American Banker.
Bein fjársvik og fjárdráttur geta líka komið banka á kaldan klaka. Tölvutæknin hefur opnað mönnum leiðir til þjófnaðar í slíkum mæli að gamaldags bankarán virðast lítilfjörleg í samanburði. „Ameríska hagkerfið tapar ár hvert yfir 500 milljónum dollara með þessum hætti,“ segir Parísarblaðið Le Figaro. „Stórbankar Evrópu eru mun þagmælskari um tölur þar eð þeir vilja ekki gera vandamál sín opinská. Þeir viðurkenna þó að þeir tapi meira fé í gegnum tölvusvik en venjuleg bankarán og innbrot. Tölvusvik eru orðin að plágu nútímahagkerfis. . . . Jafnhraðan og tölvusérfræðingar finna upp gagnaðgerðir koma í ljós nýjar smugur sem hinir og þessir notfæra sér með hraði til að skara eld að sinni köku.“
Eins og hjá öllum fyrirtækjum getur óstjórn, rangar ákvarðanir og mistök líka leitt til gjaldþrots. Meira að segja er því haldið fram að óstjórn sé stórt atriði í flestum bankagjaldþrotum. Hún getur falist í því að bankastjórar veiti vinum eða ættingjum lán án nægrar tryggingar eða spenni bogann of hátt þegar vel árar. Stundum hefur græðgi og von um skjótan gróða valdið glæfralegum fjárfestingum.
Þá hefur hörð samkeppni komið bönkum til að taka meiri áhættu en góðu hófi gegnir. Sumir verða fórnarlömb eigin ofurkapps í útlánum. Til að reyna að bjarga sér þegar vandamálin skjóta upp kollinum hafa bankar stundum reynt að lokka til sín sparifjáreigendur með því að bjóða óvenjuháa innlásvexti eða stíga skrefi lengra í áhættusömum fjárfestingum.
Ábyrgð stjórnvalda á sparifé — sú baktrygging að sparifjáreigendur fái sitt hvað sem fyrir kann að koma — hefur líka komið sumum bönkum til að láta alla varfærni lönd og leið. En ekki er hægt að spá fyrir um framtíðina. Sumir sem fjárfestu í olíuvinnslu eða á öðrum sviðum orkuframleiðslu þegar verðlag var hátt, urðu til dæmis gjaldþrota þegar olíuverð lækkaði eða fyrirtæki lögðu upp laupana. Minnkandi verðbólga hefur komið illa við suma sem bjuggust við að geta endurgreitt lánsfé með verðminni peningum.
Erfiðleikar af þessu tagi geta gert fleiri en smábanka gjaldþrota. Sumar af stærstu peningastofnunum veraldar eru líka í miklum kröggum. Margar hafa lánað milljónir eða milljarða dollara til landa þriðja heimsins sem geta nú ekki lengur greitt vextina af lánunum, að ekki sé nú talað um höfuðstólinn. Hin fjölmörgu bankagjaldþrot síðustu ára hafa orðið til þess að menn eru farnir að spyrja sig hvort hægt sé að treysta bönkunum.
[Kort/Mynd á blaðsíðu 6]
Bankagjaldþrot í Bandaríkjunuma
1977 – 6
1978 – 7
1979 – 10
1980 – 10
1981 – 10
1982 – 42
1983 – 48
1984 – 79
1985 – 120
[Neðanmáls]
a Bankar sem njóta baktryggingar bandarískrar alríkisstofnunar sem tryggir að vissu marki bankainnistæður í aðildarbönkum sínum. Hér eru ekki talin með gjaldþrot annarra innlánsstofnana. Þann 11. mars 1986 voru 1196 bankar í erfiðleikum á skrá hjá stofnuninni.
[Mynd á blaðsíðu 5]
Steinpeningar stillt upp við húsvegg á eynni Yap.