Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g87 8.1. bls. 7-11
  • Hve öruggir eru bankarnir?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hve öruggir eru bankarnir?
  • Vaknið! – 1987
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Er ástæða til að óttast?
  • Skuldavandamálið
  • „Er bankinn minn traustur?“
  • Hvað er framundan?
  • Hvers vegna verða bankar gjaldþrota?
    Vaknið! – 1987
  • Hvers vegna að spara í stað þess að eyða?
    Vaknið! – 2011
Vaknið! – 1987
g87 8.1. bls. 7-11

Hve öruggir eru bankarnir?

„Að okkar mati er það aðeins spurning um tíma — fremur skamman — þar til sparifjáreigendur um allan heim munu flykkjast í bankana til að taka út innistæður sínar, og nánast allir bankar loka.“ — When Your Bank Fails eftir Dennis Turner.

„Bankakerfið er fullkomlega öruggt. Við höfum tiltækt það kerfi sem þarf til að mæta sérhverju vandamáli, smáu sem stóru, er upp kann að koma.“ — Haft eftir William Isaac, fyrrum stjórnarformanni Tryggingasjóðs bankastofnana í Bandaríkjunum, í U.S. News & World Report.

FÁIR geyma sparifé sitt undir rúmdýnunni núorðið. Auk þess að geta tapast vegna eldsvoða eða þjófnaðar standa þeir ekki á vöxtum heldur rýrna vegna verðbólgu eða gengissigs.

Nauðsynlegt er að gera eitthvað til að sparifé haldi verðgildi sínu eða vaxi. Langalgengast er að leggja það í banka. Þar er það bæði í traustri geymslu og ber auk þess vexti. En hve öruggir eru bankarnir? Eins og fram kom í byrjun greinarinnar eru skoðanir harla skiptar.

Er ástæða til að óttast?

„Allt bankakerfi heimsins er mjög samtengt,“ segir David Rockefeller, fyrrum stjórnarformaður Chase Manhattan Bank í Bandaríkjunum. „Bankar hafa af nauðsyn mikil viðskipti hver við annan svo að þeir eru gífurlega háðir hver öðrum.“ Þar af leiðandi stendur enginn banki og engin þjóð algerlega á eigin fótum. Þegar einn banki verður gjaldþrota er því hugsanlegt að hann dragi aðra með sér í fallinu eða rýri það traust sem er svo nauðsynlegt allri bankastarfsemi. Sú hætta er þá fyrir hendi að sparifjáreigendur annars staðar þyrpist í banka til að taka út sparifé sitt svo að fleiri bankar taki að falla stjórnlaust eins og spilaborg.

Er möguleiki á því að bankagjaldþrot á einum stað geti hrundið slíkri skriðu af stað svo að alþjóðabankakerfið hrynji? „Stjórnendur í Bandaríkjunum og öðrum löndum munu örugglega grípa til róttækra aðgerða til að koma í veg fyrir meiriháttar bankahrun ef það virtist blasa við,“ segir Rockefeller. „Mér þykir mjög ólíklegt að það muni gerast.“

Þótt nokkur alvarleg gjaldþrot hafi orðið víða í heiminum á síðustu árum hafa yfirvöld fram til þessa að jafnaði skorist í leikinn og gengið í ábyrgð fyrir illa staddar bankastofnanir. „Meira en nokkru sinni fyrr ásækir vofa ársins 1929 fjármálaráðherra og bankamenn, og þeir munu gera allt sem þeir geta til að forðast að fjármálahrunið fyrir hálfri öld endurtaki sig — í von um að geta með því afstýrt að því er virðist óumflýjanlegum afleiðingum þess, heimsstyrjöld,“ segir franska vikublaðið L’Express. Þó er ástæða til vissra áhyggna.

Skuldavandamálið

Bankastarfsemi er í eðli sínu áhættusöm. Bankarnir hafa um hönd mikið fé sem þeir eiga minnst af sjálfir. Auk þess hreinlega búa þeir til peninga og lána út fé langt umfram sínar eigin eignir. Þótt fyllstu varúðar sé gætt vita bankarnir að sumir skuldarar munu ekki standa í skilum. Þess vegna eru ákveðnar fjárhæðir lagðar í varasjóð til að vega á móti lánum sem ekki innheimtast. Ef óvenjumargir skuldarar standa ekki í skilum nægir sá varasjóður ekki fyrir tapinu eða því ef sparifjáreigendur taka út innstæður sínar í hrönnum. „Því meira af eigin fé, sem er í hættu vegna vanskila skuldara, þeim mun veikari verður fjárhagsstaða bankans,“ segir tímaritið New York. „Gjaldþrot verður þegar allt eigið fé bankans er uppurið.“

Æ fleiri bankar eru að komast í þessa aðstöðu — of margir skuldarar standa ekki í skilum og eigið fé bankans nægir ekki til að vega upp á móti því. Ástæðurnar, sem nefndar eru fyrir því, eru heill aragrúi: verðfall á olíu, viðskiptahömlur og sjóðþurrð, afturkippir í efnahagslífi, óstöðugir vextir, fjármagnsflótti, verðbólga, minnkandi verðbólga, viðskiptatregða, of kappsfull útlánastefna, gjaldþrot fyrirtækja, grimm samkeppni, ófullnægjandi eftirlit — jafnvel fáfræði og flónska.

En alltaf má finna leiðir til að halda sér á floti — á pappírnum. Breytingar á gjalddögum lána, að teygja afborganir yfir lengra tímabil, er ein sú aðferð sem notuð hefur verið aftur og aftur. Önnur er sú að tíunda lánin fullu verði þótt lítil von sé um að fá allan höfuðstólinn til baka. Önnur algeng aðferð er að lána skuldaranum meira fé til að hann geti greitt vexti af þeim skuldum sem fyrir eru.

Allar þessar aðferðir eru nú notaðar í sambandi við skuldir landa þriðja heimsins sem margir telja alþjóðabankakerfinu stafa mest hætta af. Samkvæmt könnun á vegum Alþjóðabankans náðu erlendar skuldir yfir hundrað þróunarlanda samtals 950 milljörðum dollara undir lok ársins 1985 og höfðu aukist um 4,6 af hundraði frá fyrra ári. Og þótt þessar skuldir séu þegar allt of miklar er búist við að þær fari upp í 1010 milljarða í árslok 1986. Hvers vegna? Vegna þess að margar þessara þjóða geta með engu móti staðið í skilum og þrýsta á um lengri greiðslufrest og meiri lán. Með tilliti til hinna gífurlegu skulda þeirra hafa margir bankar látið til leiðast. Það er líkt komið og maður einn lýsti svo: „Ef ég skulda þér hundraðkall er ég á þínu valdi, en ef ég skulda þér hundrað milljónir ert þú á mínu valdi.“

Sú hætta er alltaf yfirvofandi að stórskuldugar þjóðir, þreyttar á hörgultímum og sparnaðarástandi, hreinlega ákveði að hætta að greiða af lánum. Bankar hafa engin ráð með að þvinga fullvalda ríki til að greiða skuldir sínar. „Fyrir bankana er merking skuldakreppunnar í heiminum einföld,“ segir tímaritið Savvy. „Þeir hafa mestan hluta hagnaðar síns af útlánum, og geti þjóðir ekki endurgreitt sín stóru lán getur hagnaður þeirra, eignir og hlutabréfaverð hrapað niður úr öllu valdi. . . . Veruleg vanskil þriðja heimsins gætu þanið efnahagskerfið svo að það bresti, hugsanlega með þeim afleiðingum að stórar bankastofnanir verði gjaldþrota.“

Sérfræðingar vara við því að vanskil aðeins fjögurra ríkja — Mexíkó, Brasilíu, Argentínu og Venesúela, gætu orðið níu stærstu bönkum Bandaríkjanna að falli. „Að vanskil skuli ekki hafa orðið er undravert,“ segir tímaritið The New York Times Magazine. „Að sjálfsögðu mætti flokka það undir merkingarfræði. Rétt eins og ekki er lengur ‚lýst yfir‘ stríði er enginn lýstur gjaldþrota núna í ‚lagalegum‘ skilningi.“

„Er bankinn minn traustur?“

Er hægt að ganga úr skugga um hvort ákveðinn banki sé traustur og greiðslufær? „Erfitt er eða ómögulegt fyrir flesta sparifjáreigendur að finna út hver staða ákveðins banka er,“ segir tímaritið Changing Times. Dagblaðið The New York Times bætir við: „Reynslan hefur sýnt að það er ákaflega erfitt fyrir utanaðkomandi aðila að dæma um hve traustur banki sé. Sérfræðingar í bankaverðbréfum höfðu borið lof á nálega alla stóra banka sem orðið hafa gjaldþrota eða rambað á barmi gjaldþrots á síðustu árum. . . . Jafnvel bankaeftirliti og endurskoðendum tókst ekki að koma auga á að alvara væri á ferðum fyrr en alltof seint.“

Yfirleitt getur viðskiptavinur lítið annað gert en að skoða bankann frá fagurfræðilegu sjónarmiði: þá þjónustu sem í boði er, viðmót starfsfólks og hraða þjónustunnar. Það er yfirleitt þetta sem bankarnir leggja áherslu á í auglýsingum sínum — vingjarnlegt starfsfólk, skjóta lánafyrirgreiðslu, sérreikninga eða sérþjónustu, þægindi. Í sumum tilvikum eru boðnar gjafir til að lokka fólk til að opna reikning í bankanum. Að sjálfsögðu skiptir þjónusta bankans máli. Enn fremur þarf að gefa gaum hvaða vextir eru boðnir og hvernig þeir eru reiknaðir því að útkoman getur verið breytileg. Öryggi sparifjár skiptir reikningseigendur afarmiklu máli.

Hér er trygging sparifjár mjög mikilvæg. „Sparifjártrygging veldur því að gjaldþrot er vandamál stjórnenda og hluthafa bankans, ekki sparifjáreigenda, nema því aðeins að um algert bankahrun sé að ræða,“ segir tímaritið The Atlantic Monthly. „Það er afar ólíklegt að bankagjaldþrot geti nú á tímum rænt fólk sparifé sínu eins og var á fjórða áratugnum.“

Trygging sparifjár er breytileg frá einu landi til annars. Á Íslandi er tryggingum þannig háttað að ríkissjóður ábyrgist innistæður í ríkisbönkunum, en tveir sjóðir, tryggingasjóður banka og tryggingasjóður sparisjóða, ábyrgjast innistæður í öðrum bankastofnunum, svo sem þeir hrökkva til. Í Bandaríkjunum er starfræktur tryggingasjóður bankastofnana en það er alríkisstofnun sem tryggir að vissu marki bankainnistæður í þeim bönkum, sem eiga aðild að henni. Bankar geta líka staðið utan sjóðsins. Hjá þeim eru tryggingar stundum ónógar svo að sparifé getur tapast ef bankinn verður gjaldþrota. Stundum er líka sett þak á fjárhæðina sem tryggingar nýtur og þá þarf fólk að gæta þess að fara ekki upp fyrir ákveðna innistæðu vilji það tryggja allt sparifé sitt.

Hvað er framundan?

Búist er við að einstakir bankar muni halda áfram að verða gjaldþrota og að þeim kunni jafnvel að fjölga. Bankakerfinu er þó fyrir öllu að halda trausti manna. „Kreppuástand verður aðeins ef sparifjáreigendur túlka þessi áföll sem tilefni til að taka sparifé sitt út úr þeim bönkum sem málið varðar,“ segir tímaritið Fortune. Því er lagt ofurkapp á að styrkja kerfið og viðhalda trúnaðartrausti almennings.

Áform eru einnig uppi um að draga úr skuldum þjóða þriðja heimsins svo að þær verði viðráðanlegar og hjálpa þeim að standa við skuldbindingar sínar. „Endanlega þurfa skattgreiðendur um allan heim að taka á sig hinn gríðarlega halla,“ segir Albin Chalandon, fyrrum iðnaðarráðherra Frakklands.

Hve öruggir eru þá bankarnir? Bankamaður svaraði því þannig: „Bankarnir eru jafnöruggir og ríkisstjórnirnar sem styðja við bakið á þeim.“ Þótt það kunni að virðast fremur hughreystandi er það hugsandi fólki tilefni til að staldra við. Hvers vegna? Vegna þess að Biblían segir fyrir gereyðingu allra jarðneskra stjórna og að eilíft ríki Guðs komi í þeirra stað. (Daníel 2:44) Hún bendir á að atburðir 20. aldarinnar séu tákn um endalok hinnar núverandi heimsskipanar. — Matteus 24:3, 6, 7, 21, 22.

Biblían segir að þegar þar verður komið sögu muni fólk kasta silfri sínu og gulli út á strætin þar eð það sé verðlaust því til bjargar. (Esekíel 7:19; Sefanía 1:18) Fyrst svo er um þessa verðmætu málma, hvaða traust er þá hægt að bera til gjaldmiðla hinna ýmsu landa og peningastofnananna sem byggja allt sitt á þeim? Þá verða horfnar ríkisstjórnirnar sem standa að baki þeim!

Jesús gaf því þessa aðvörun: „Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu, þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela. Safnið yður heldur fjársjóðum á himni, þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela. Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera. . . . Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.“ — Matteus 6:19-21, 24.

[Rammagrein á blaðsíðu 9]

Það sem aðrir segja um ástand bankamála

● „Það er ekki ofmælt að stjórnir nokkurra tuga skuldum vafinna þjóða, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, stjórn Seðlabankans og hundruð bandarískra og erlendra banka sameiginlega standi frammi fyrir alvarlegustu og víðtækustu fjármálakreppu síðan á fjórða áratugnum.“ — Tímaritið New York.

● „Sú stefna, sem nú er fylgt, veitir mjög hæpna tryggingu. Efnahagsöryggi veraldar vegur salt á hnífsoddi. Skuldakreppan ógnar ekki aðeins framförum þróunarlandanna heldur líka stöðugleika bankakerfis hinna iðnvæddu ríkja.“ — Úr skýrslu sérfræðingahóps á vegum breska samveldisins í frásögn The Guardian í Lundúnum.

● „Hin gífurlega skuld ríkja þriðja heimsins við banka í Bandaríkjunum er eins og skriða sem getur hrunið yfir bankakerfi Bandaríkjanna hvenær sem er.“ — The New York Times Magazine.

● „Skuldir veraldar eru svo hrikalegar að þær hafa lagt grundvöllinn að fyrsta flokks kreppu í alþjóðabankakerfinu.“ „Mesta kaldhæðni alþjóðaskuldafensins er sú að bankarnir eru svo djúpt sokknir í það að þeir komast ekki upp úr því án þess að öll spilaborgin hrynji.“ — Tímaritið Savvy.

● „Staðan er enn tvísýnni og hættulegri nú en hún var á fjórða áratugnum.“ — Haft eftir vestur-þýska hagfræðingnum Kurt Richebächer í U.S. News & World Report.

[Tafla á blaðsíðu 10]

Sautján stórskuldug þróunarlönd

Land Erlendar skuldir Þar af við

(í dollurum) einkaaðila (%)a

Argentína 50,8 86,8

Bólivía 4,0 39,3

Brasilía 107,3 84,2

Chíle 21,0 87,2

Costa Ríca 4,2 59,7

Ekvador 8,5 73,8

Fílabeinsströndin 8,0 64,1

Filippseyjar 24,8 67,8

Jamaíka 3,4 24,0

Júgóslavía 19,6 64,0

Kólombía 11,3 57,5

Marokkó 14,0 39,1

Mexíkó 99,0 89,1

Nígería 19,3 88,2

Perú 13,4 60,7

Úrúguay 3,6 82,1

Venesúela 33,6 99,5

Samtals 445,9 80,8

[Neðanmáls]

a Aðallega viðskiptabankar

Heimild: World Debt Tables, 1985-86, gefin út af Alþjóðabankanum í Washington D.C.

[Mynd á blaðsíðu 8]

Þegar margir stórir bankar verða gjaldþrota gæti allt bankakerfið hrunið eins og spilaborg.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila