Sjónarmið Biblíunnar
Hvers vegna eru spádómar Biblíunnar verðmætir fyrir þig?
„VIÐ myndum gjarnan trúa á Biblíuna ef við hefðum örugga sönnun fyrir því að hún sé orð Guðs,“ segja sumir. Margir geta hins vegar ekki skýrt það nánar hvaða „örugga sönnun“ þyrfti til að sannfæra þá. Sumum finnst sennilega að til þess þyrfti heilt kraftaverk.
Jesús vann mörg kraftaverk meðan hann var á jörðinni en þrátt fyrir það vildu efahyggjumenn ekki viðurkenna þau sem sönnun fyrir því að hann væri talsmaður Guðs. Sumir fullyrtu jafnvel að það væri „með fulltingi Beelsebúls, höfðingja illra anda,“ sem Jesús ynni viss kraftaverk! Jesús viðurkenndi að sum „kraftaverk“ annarra væru í raun verk Satans. (Lúkas 11:14-19; Matteus 7:22, 23) Kraftaverk eru þess vegna ekki nægilega skýr sönnun fyrir því að Biblían sé orð Guðs — sönnun þess að sjálf orð Biblíunnar, boðskapurinn sem hún flytur, sé frá Guði.
Þessa sönnun er hins vegar að finna á síðum Biblíunnar sjálfrar — í spádómum hennar. Jehóva er Guð sannleikans, uppspretta viskunnar, og hann hlýtur því að geta séð og sagt fyrir hvað gerast mun í framtíðinni, meðal annars á okkar tímum. (Sálmur 31:5, NW; Orðskviðirnir 2:6; Jesaja 46:9, 10) Það hefur hann gert í rituðu orði sínu, oft í smæstu atriðum. Við skulum líta á aðeins fáeina spádóma sem fjalla um Jesú Krist.
Spádómar sem sanna að Jesús er Messías
Mörg hundruð af spádómum Biblíunnar rættust á Jesú Kristi.a Sumir halda að vísu fram að Jesús og lærisveinar hans hafi búið svo um hnútana að spádómarnir rættust. En er það trúlegt? Skoðum nokkrar staðreyndir nánar.
Hvorki Jesús né foreldrar hans hefðu getað fengið rómverskan keisara til að gefa út tilskipun sem hafði í för með sér að Jósef og María þurftu að fara til heimaborgar sinnar, Betlehem, vegna manntals og skrásetningar til skattlagningar, einmitt á þeim tíma er Jesús fæddist. Rómverjar, sem höfðu ekki minnsta áhuga á því að uppfylla spádóma Biblíunnar, gegndu þannig ákveðnu hlutverk í því að Jesús skyldi fæðast í Betlehem, í samræmi við spádóminn í Míka 5:2.
Því meir sem Jesús afhjúpaði hræsni trúarleiðtoga Gyðinganna, þeim mun ákveðnari voru þeir í að drepa hann. Það voru þó ekki samlandar Jesú sem tóku hann beinlínis af lífi. Hefðu Gyðingar líflátið Jesú hefðu þeir líklega grýtt hann til bana, því að það var sú aftökuaðferð sem Móselögin kváðu á um. (Jóhannes 8:59; 10:31) Í samræmi við spádómana skyldi Messías hengdur á staur til að fjarlægja „bölvun lögmálsins.“ (Berðu saman 5. Mósebók 21:22, 23 og Galatabréfið 3:13.) Hann þurfti að vera „hafinn upp“ til að „draga alla til [sín].“ (Berðu saman 4. Mósebók 21:4, 9 og Jóhannes 3:14 og 12:32, 33.) Með aftökuaðferð Rómverja, sem var staurfesting, gat enginn vafi leikið á að þessir spádómar hefðu uppfyllst. Þannig áttu Rómverjar aftur þátt í að láta spádómsorð Jehóva uppfyllast, enda þótt þeir hefðu engan áhuga á því.
Meðan Jesús hékk á staurnum hafði hann engin tök á því að hafa áhrif á hvað gert yrði við klæði hans. Hann gat ekki komið rómversku hermönnunum til að varpa hlutkesti um þau. Það gerðu þeir eigi að síður nákvæmlega eins og spádómar Biblíunnar höfðu sagt fyrir! (Sálmur 22:19; Jóhannes 19:24) Enn sem fyrr voru það Rómverjar, ekki Jesús eða lærisveinar hans, sem sáu til þess að spádómarnir uppfylltust nákvæmlega.
Jesús sagði fyrir atburði sem áttu að gerast í Jerúsalem í hans kynslóð er tengdust skyndilegum endalokum borgarinnnar. (Lúkas 21:5-24) Meira en 500 árum fyrir daga Jesú hafði Daníel sagt fyrir fall Jerúsalem. (Daníel 9:26, 27) Árið 70 var Jerúsalem lögð í rúst. Orð Jesú og Daníels rættust. Enn sem fyrr höfðu spádómar Biblíunnar sýnt sig áreiðanlega.
Munt þú njóta góðs af spádómum Biblíunnar?
Enn eiga margir af spádómum Biblíunnar eftir að rætast. Til dæmis lét Jehóva son sinn, Jesú Krist, segja fyrir að hið illa heimskerfi, sem nú er, myndi líða undir lok og í kjölfar þess myndi koma nýr, réttlátur heimur undir stjórn ríkis hans á himnum. (Matteus 24:3-14; Opinberunarbókin 21:1-5; sjá einnig 2. Pétursbréf 3:7-13.) Allt stendur þetta skráð í Biblíunni, spádómsorði Jehóva, sem hefur alltaf reynst satt og trúverðugt. Ættum við þá ekki að gefa því alvarlegan gaum?
Hvaða ástæðu hafa börn til að vantreysta loforðum foreldra sinna sem hafa ævinlega gert þeim gott eitt og alltaf staðið við orð sín? Hvaða ástæðu höfum við til að vantreysta loforði Jehóva um að láta koma ríkið í höndum sonar síns? Hvaða ástæðu höfum við til að ætla að Jehóva, sem hefur gert svo margt gott fyrir sköpunarverur sínar í fortíðinni, missi allt í einu allan áhuga á velferð þeirra?
Fyrir því eru engin sannfærandi rök. Við höfum því fullt tilefni til að treysta á Jehóva og orð hans. Hið áreiðanlega spádómsorð hans gefur lífi okkar tilgang. Það setur okkur verðug markmið að vinna að. Það er sannarlega mjög verðmætt fyrir okkur nútímamenn.
[Neðanmáls]
a Dæmi er að finna í bókinni Er Biblían í raun og veru orð Guðs?, bls. 114 og 115, útgefin af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
[Rammi á blaðsíðu 28]
Spádómar Biblíunnar um eyðingu borga, svo sem Sódómu og Gómorru (1. Mósebók 18:20, 21; 19:12, 13), Níníve (Sefanía 2:13), Babýlonar (Jeremía 51:1, 2) og Petru í Edóm (Jeremía 49:7-22), sýna greinilega að spádómsorð Guðs hefur reynst nákvæmt.
[Rammi á blaðsíðu 29]
GÆTIR ÞÚ HUGSAÐ ÞÉR AÐ VERÐA VITNI AÐ UPPFYLLINGU ÞESSARA SPÁDÓMA?
„Hann stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar.“ — Sálmur 46:10.
„Enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er sjúkur.‘“ — Jesaja 33:24.
„Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“ — Opinberunarbókin 21:4.
„Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans og ganga fram.“ — Jóhannes 5:28, 29.
Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“ — Sálmur 37:29.