Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g90 8.1. bls. 25-27
  • Hvað er rangt við það að blóta af og til?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hvað er rangt við það að blóta af og til?
  • Vaknið! – 1990
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Hvers vegna unglingar blóta
  • Er það góð hjálp að bölva og ragna?
  • Kjarnyrði eða svívirðing?
  • Hópþrýstingur
  • Hvers vegna blótsyrði eru ekki fyrir kristna menn
    Vaknið! – 1993
  • Ungt fólk spyr . . .
    Vaknið! – 1990
  • Er í alvöru svo slæmt að blóta?
    Ungt fólk spyr
  • Forðumst meiðandi orð
    Vaknið! – 2003
Sjá meira
Vaknið! – 1990
g90 8.1. bls. 25-27

Ungt fólk spyr . . .

Hvað er rangt við það að blóta af og til?

„Allir blóta. . . . Það byrjar kannski smátt með fáeinum blótsyrðum sem maður lærir af skólafélögunum, en fljótlega er það farið að einkenna allt málfar manns og það verður sífellt erfiðara að ráða við það.“ — Lára, 14 ára.

BÖRN og unglingar heyra blót, formælingar og ljótt orðbragð úr öllum áttum. Blaðið U.S. News & World Report sagði fyrir nokkru: „Jafnt augu sem eyru nema ljótt orðbragð sem birtist á límmiðum, barmmerkjum og skyrtubolum.“ Formælingar og klúryrði heyrast í útvarpi og sjónvarpi og eru fastir þættir í greinum tímarita, sjónvarpsleikritum og kvikmyndum. Stjórnmálamenn og frægt fólk slær oft um sig með blótsyrðum og börn og unglingar heyra þau jafnvel daglega af vörum kunningja sinna og foreldra.

Rithöfundurinn Alfred Lubrano segir: „Blótsyrði eru orðin fastur þáttur í orðaforða margra á skrifstofunni, veitingahúsinu og íþróttaleikvanginum.“ Blót og formælingar eru orðnar svo algengar að sumum finnst þær meira að segja hafa misst kraft sinn. Þér er því kannski spurn hvort það geri nokkuð til þótt fáein „kjarnyrði“ hrjóti af vörum þér af og til, ekki síst ef eitthvað verður þér til skapraunar.

Hvers vegna unglingar blóta

Sálfræðingurinn Chaytor Mason fullyrðir: „Blót og formælingar eru hluti af eðli mannsins. Þær slaka á spennu líkt og það að klóra sér.“ Þegar blaðamenn á vegum tímaritsins Children’s Express spurðu allmörg börn og unglinga hvers vegna krakkar blótuðu, fengu þeir svör svo sem þessi: „Ég blóta vegna þess að ég er reiður.“ „Ég blóta bara þegar einhver reitir mig til reiði.“ „Mér líður betur við það, það er eins konar léttir.“

Við lifum tíma mikillar spennu og álags og því er eðlilegt að löngunin til að gefa því útrás komi býsna oft yfir fólk. Thomas Cottle, sem er lektor í sálfræði við Harvard-háskóla, telur reyndar viðtöku blótsyrða sem „eðlilegs málfars,“ merki um „veigamikla breytingu amerískrar menningar.“ Hann segir: „Fólki finnst tilveran fölsk og innantóm og það er reitt. Við hræðumst veruleikann og reiðumst því sem er sérstaklega raunverulegt. Að baki þessari reiði blundar árásarhneigðin.“

Þær breytingar, sem Thomas Cottle nefnir hér, eru þó í rauninni að eiga sér stað um allan heim. Páll postuli spáði því að á okkar dögum myndu menn vera „ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1, 3) Það er því ekkert undarlegt að unglingar skuli verða árásargjarnir í tali eftir því sem álagið eykst. Þeir „hvetja tungur sínar sem sverð“ og „leggja örvar sínar, beiskyrðin, á streng.“ — Sálmur 64:4.

Er það góð hjálp að bölva og ragna?

En hversu mikil hjálp er í því að bölva og ragna til að slaka á spennu? Málvísindamaðurinn Reinhold Ahman segir að blótsyrði hjálpi mönnum að „gefa reiði útrás.“ Hann heldur því jafnvel fram að geti menn ekki gefið tilfinningunum lausan tauminn með því að formæla og bölsótast eigi þeir á hættu að fá „magasár, höfuðverki og iðrablæðingar.“ Hann heldur því þannig fram að „eitt blótsyrði á dag komi heilsunni í lag.“

Að vísu getur virst sem það dragi úr spennu að hreyta út úr sér blótsyrði undir miklu álagi. Eigi að síður fordæmir Biblían slíkt orðbragð afdráttarlaust. Efesusbréfið 4:29 segir: „Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni.“ The New English Bible orðar versið svona: „Illt orðbragð má ekki koma út af vörum þínum heldur einungis það sem er gott og hjálplegt miðað við aðstæður.“ Góð og gild rök eru fyrir þessari áminningu.

Reiðileg orð gera fólk í flestum tilvikum reiðara í stað þess að vera ‚góð og hjálpleg miðað við aðstæður.‘ Og orðskviður í Biblíunni lýsir því þannig: „Uppstökkur maður fremur fíflsku.“ (Orðskviðirnir 14:17; 15:18) Reiðileg og meiðandi orð gera aðeins illt verra því að fólk bregst sjaldnast jákvætt við þeim. Orðskviðirnir 15:1 segja: „Mjúklegt andsvar stöðvar bræði, en meiðandi orð vekur reiði.“ Þeim sem hefur lagt í vana sinn að tauta blótsyrði fyrir munni sér við minnsta mótlæti getur hætt til að missa þau út úr sér á röngu augnabliki — eða við rangan aðila svo sem kennara eða foreldri.

Ljótt orðbragð er líklegt til þess að valda nýju álagi í stað þess að vera góð leið til að draga úr spennu. Það leysir engin vandamál heldur frestar því einungis að tekist sé á við þau af einurð.

Kjarnyrði eða svívirðing?

Blótsyrði og ljótt orðbragð er þó ekki alltaf notað í reiði. Bókin Exploring Language segir: „Unglingar nota oft ljótt orðbragð til að segja tvíræðar sögur . . . Hinar líkamlegu breytingar [gelgjuskeiðsins] vekja undrun og áhyggjur bæði pilta og stúlkna. Til að láta óttann ekki ná tökum á sér grípa þau til þess að segja brandara eða klúrar sögur um þessar breytingar.“ Sumum unglingum finnst jafnvel að ljótt orðbragð kryddi mál þeirra eða geri þá fullorðinslegri.

Klúrt orðbragð lýsir eðlilegu kynlífi og líkamsstarfsemi oft á niðurlægjandi hátt. Barbara Lawrence, sem er aðstoðarprófessor í hugvísindum, segir um sum þau orð sem algengt er að nota um kynlífið, að „uppruni og myndmál þessara orða tengist óneitanlega sársauka, ef ekki kvalalosta.“

Hið háleita og virðulega orðfæri Biblíunnar varðandi kynferðismál er harla ólíkt þessu! (Orðskviðirnir 5:15-23) Klúrt orðbragð gefur spilltar og rangsnúnar hugmyndir um kynlíf og hjónaband. Klúr orð eru hið sama fyrir munninn eins og klámmyndir fyrir augun. Ef talað er um kynlíf með klámfengnum orðum getur það á sama hátt og klámmyndir vakið upp rangar hugsanir. Þegar röngum löngunum hefur verið sáð í hjartað vantar ekkert nema tækifærið til að hrinda þeim í framkvæmd. — Jakobsbréfið 1:14, 15.

Láttu ekki telja þér trú um að þú gerir mál þitt litríkara með því að krydda það blótsyrðum. Þú gerir það einungis hneykslanlegt og fráhrindandi. Þrettán ára stúlka, sem tímaritið Children’s Express átti viðtal við, sagði: „Ég er búin að byggja upp með mér ofnæmi fyrir ljótu orðbragði . . . Það er sumt sem maður getur aldrei vanist.“ Spekingurinn Salómon „leitaðist við að finna fögur orð“ til að tjá hugsun sína. (Prédikarinn 12:10) Þú getur líka komið hugsun þinni skýrt á framfæri með því að vanda mál þitt. Það er alger óþarfi að krydda mál sitt með blótsyrðum.

Loks er að nefna að óviðurkvæmileg orð geta jafnvel lýst fyrirlitningu á Guði! Slíkt málfar myndi tvímælalaust hafa í för með sér vanþóknun hans. (2. Mósebók 20:7) Í ljósi alls þessa hvetur Biblían: „Frillulífi og óhreinleiki yfirleitt eða ágirnd á ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal yðar. Svo hæfir heilögum. Ekki heldur svívirðilegt hjal eða ósæmandi spé.“ — Efesusbréfið 5:3, 4.

Hópþrýstingur

Hópþrýstingur félaga og kunningja er enn ein ástæðan fyrir því að sumir unglingar temja sér ljótt orðbragð. Kristinn unglingur segir: „Fæstir unglingar vilja láta líta á sig sem kveif eða aula. Maður vill vera hluti af hópnum. Ef það er ætlast til þess af manni að maður blóti, þá gerir maður það.“

Hópþrýstingurinn getur verið sérlega sterkur til dæmis í tengslum við íþróttir. Sumir þjálfarar hvetja íþóttamenn jafnvel til þess að blóta og bölsótast. Unglingur að nafni Kinney segir til dæmis að mikið sé um blót og formælingar í búningsklefanum fyrir keppni í körfuknattleik, vegna þess að „það æsir leikmennina upp þannig að þeir eru að því komnir að springa.“

En hvað gerist oft þegar menn æsa sig upp með þessum hætti? Íþróttin hættir að vera skemmtileg íþrótt og breytist í fjandskap og miskunnarlausa baráttu. Slagsmál og líkamsmeiðingar eru algengar. Unglingur að nafni Tyrone segir: „Þegar brotið er á leikmanni í hita leiksins, og hann verður vondur og bölvar andstæðingi sínum eða dómaranum, þá getur maður smitast af því.“

Augljóst er að ljótt orðfæri er slæmur ávani sem „maður getur smitast af.“ Biblían segir: „Heimskinginn úthellir allri reiði sinni, en vitur maður sefar hana að lokum.“ (Orðskviðirnir 29:11) En hvernig er hægt að ‚leggja haft á munn sinn‘ þegar löngunin til að blóta gerir vart við sig? (Sálmur 39:2) Um það verður fjallað síðar.

[Mynd á blaðsíðu 27]

Sá sem leggur í vana sinn að bölva og ragna getur átt á hættu að gera það einnig á almannafæri.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila