Horft á heiminn
Útivinnandi börn
Í mörgum af löndum þriðja heimsins hafa breytt viðhorf og versnandi efnahagsástand neytt börn í vaxandi mæli til að hætta skólagöngu og fá sér vinnu. Samkvæmt tölum frá Alþjóðavinnumálastofnuninni, sem er ein af stofnunum Sameinuðu þjóðanna með aðsetur í Genf, eru að minnsta kosti 100 milljónir barna í heiminum undir 15 ára aldri (ef til vill tvöföld sú tala) útivinnandi. Jafnvel þótt skólaganga sé ókeypis í landinu ganga börnin ekki í skóla vegna þess að foreldrunum finnst það ekki munu breyta atvinnuhorfum barnanna í framtíðinni. Stofnunin telur að hvorki sé hægt að „afnema eða hafa hemil á“ slíkri misnotkun barna í náinni framtíð.
Hættulegar helgar
Banaslysum í umferðinni í sveitum Þýskalands um helgar hefur fjölgað mikið. „Þeir sem látast eða slasast alvarlega eru flestir undir tvítugu og fáir þeirra hafa haft ökuleyfi lengur en eitt ár,“ segir í þýska dagblaðinu Schweinfürter Tagblatt. Ástandið er orðið svo alvarlegt að stjórnvöld hafa gefið út blað sem nefnt er „Umferðarslys unglinga eftir samkvæmi.“ Sagt er að slysin megi meðal annars rekja til reynsluleysis ökumanna, yfirfullra bifreiða og aksturs undir áhrifum áfengis.
Þannig líður tíminn
„Flestir eyða um fimm árum ævinnar í að standa í biðröðum og sex mánuðum í að bíða á rauðu ljósi,“ segir í frétt í dagblaðinu The Express sem gefið er út í Easton í Pennsylvaniu. Í fréttinni segir að athuganir gerðar á vegum ráðgjafarfyrirtækis sýni einnig að „fólk eyði að meðaltali einu ári í að leita að hlutum sem ekki eru á sínum stað, . . . átta mánuðum í að opna umslög með auglýsingum í . . . og tveim árum í að reyna að ná símasambandi við fólk sem aldrei virðist vera heima.“ Hvernig er hægt að spara sér tíma og draga úr streitu? Meðal þess sem stungið er upp á má nefna: Veldu ferðaleiðir og tíma þannig að þú komist hjá töfum; hafðu lestrarefni og önnur verkefni við hendina til að nýta þér meðan þú bíður; hafðu ákveðna staði fyrir alla hluti, einkanlega þá sem þú notar oft, og gerðu skrá í lok hvers dags yfir mikilvægustu málin sem þú ætlar að sinna næsta dag. Könnunin gaf einnig til kynna að ‚hjón eyði að meðaltali fjórum mínútum á dag í samræður sem einhverju skipta, og að útivinnandi hjón eyði að meðaltali 30 sekúndum á dag í að tala við börnin sín.“ Forstjóri ráðgjafarfyrirtækisins, Michael Fortino, segir: „Flestir segja að fjölskyldan sé þeim mikilvæg en þeir lifa ekki þannig.“
Rammvillt kynslóð
Bandaríkjamenn á aldursbilinu 18 til 24 ára eru rammvilltir landfræðilega. Í nýlegri könnun, sem Gallup-stofnunin gerði meðal níu iðnríkja, var fólk beðið að finna 16 staði á landakorti. Bandaríkjamenn urðu í síðasta sæti. Könnunin, sem gerð var á vegum Bandaríska landfræðifélagsins, leiddi í ljós að einn Bandaríkjamaður af hverjum fimm í þessum aldurshópi „finnur ekki Bandaríkin á heimskorti,“ segir í frétt U.S. News & World Report. Einn af hverjum fjórum aðspurðra gat ekki bent á Kyrrahafið, einn af hverjum fimm gat ekki nefnt eitt einasta Evrópuland og helmingur aðspurðra fann ekki New Yorkríki á landakorti.
Rekið prestinn!
Hvað geta óánægð sóknarbörn gert við prestinn sinn? Mánaðarrit, sem mótmælendur gefa út í Vestur-Berlín, leggur til að þau greiði um það atkvæði hvort þau skuli leysa hann frá störfum, að því er segir í þýska dagblaðinu Nassauer Tageblatt. „Sóknin þarf að geta losað sig við prest sem er óhæfur eða er með falskenningar,“ segir í greininni. Ef þessari uppástungu yrði fylgt gæti hún haft áhrif á 12.600 presta sem þjóna hinum 10.600 sóknum lútersku kirkjunnar í Þýskalandi.
Indverjum fjölgar
„Indverjar eru orðnir yfir 800 milljónir,“ segir The New York Times, „og æðstu embættismenn stjórnarinnar segjast skelfingu lostnir yfir því að ekki skuli hafa tekist að draga úr fæðingartíðni meðal þjóðarinnar.“ Indverjum hefur fjölgað um liðlega 120 milljónir á innan við átta árum og þeir gætu farið fram úr Kínverjum, sem eru 1,1 milljarður talsins, og orðið fjölmennasta þjóð heims. Mannfjölgunin hefur gert að engu tilraunir stjórnvalda til að auka lífsgæði og útrýma fátækt. Saroj Kharpade, ráðherra heilbrigðis- og velferðarmála, varar við að svo gæti farið að það verði hvorki til „nægilegt húsnæði, vatn, skólar eða heilsugæslustöðvar til að taka við öllum fjöldanum.“
Minnistruflun
Tilraunir hafa verið gerðar til að kanna áhrif hávaða á minnisgáfuna. Vísindamenn prófuðu hæfni franskra háskólanema til að leggja á minnið níu stafa tölur í margs kyns hávaða. Athuganirnar leiddu í ljós að hávaði sambærilegur við hávaðann frá neðanjarðarlest hafði lítil eða engin áhrif á minnisgáfu nemendanna. Mannamál er hins vegar „truflandi jafnvel þótt það sé á ókunnu tungumáli,“ segir tímaritið Hippocrates. Alan Baddeley, vísindamaður við Cambridge-háskóla á Englandi, segir skýringuna vera þá að skammtímaminni sé tengt mæltu máli, en það skýrir hvers vegna mönnum sé nauðsynlegt að endurtaka upphátt nýtt símanúmer eða nýjan talnalykil. Í fréttinni segir að „mannsrödd trufli þetta ferli,“ hvort heldur er talað eða sungið.
Skordýraeitur mauranna
Vísindamönnum þykir forvitnileg ný aðferð sem fundin hefur verið til að losna við termíta og engisprettur. Skordýraeitrið, sem til þess er notað, er framleitt af smáum svörtum maur af tegundinni Monomorium, og örsmár skammtur dugir. Ef „einn dropi af eitrinu lendir á fórnarlambinu drepst það eftir fáeinar sekúndur,“ segir franska dagblaðið Le Monde. Skordýr virðast ekki mynda ónæmi gegn mauraeitrinu líkt og ýmsum tegundum skordýraeiturs sem menn hafa fundið upp. Tekist hefur að mynda þetta efni á tilraunastofu og í ráði er að hefja framleiðslu á þessu skordýraeitri mauranna.
Deyr sálin?
Krister Stendahl, biskup í Stokkhólmi, hefur hneykslað kirkjurækna Svía með hugmyndum sínum um ódauðleika sálarinnar, sem birtust í bók hans Meningar (Skoðanir) sem kom út fyrir nokkru. Stendahl segir að hin hefðbundna trú á ódauðleika sálarinnar sé að líða undir lok. Filip Fridolfsson, þingmaður á sænska þinginu, fullyrðir að afstaða biskupsins „veki efasemdir um grundvöll kristinnar trúar.“ En Stendahl segir: „Það er ekki mikinn stuðning að finna við kenninguna um ódauðleika sálarinnar í Biblíunni“ — sem er hinn raunverulegi grundvöllur kristinnar trúar. Já, kenning Biblíunnar er skýr. Sálin deyr og von mannsins um eilíft líf byggist á upprisu, eins og sjá má af ritningarstöðum svo sem Esekíel 18:4 og Postulasögunni 22:15.
Stærri öldur
Ölduhæð á norðausturhluta Atlantshafs fer vaxandi. Öldumælingar út af suðvesturodda Englands síðastliðinn aldarfjórðung leiða í ljós að ölduhæð hefur aukist um 25 af hundraði. Þetta kemur fram í vísindatímaritinu Nature. Vísindamenn kunna hins vegar enga skýringu á orsökunum. „Það er engin augljós skýring,“ segir vísindamaður einn eftir að hafa útilokað mælingaskekkjur og veðurfarsbreytingar. Áhrifin eru þó augljós. Þótt brimbrettaunnendur út af Cornwall á Englandi hafi kannski ekkert á móti hærri öldum sér olíu- og gasiðnaðurinn fram á aukinn kostnað, þar eð borpallar á hafi úti þurfa að vera stærri og sterkari til að standast stærri öldur.