Lausn sem dugir
TORONTORÁÐSTEFNUNNI, sem áður hefur verið getið, lauk með ákalli til allra þjóða um samstarf í að snúast gegn þeirri alvarlegu ógnun sem gróðurhúsaáhrifin eru. Tímaritið Discover segir svo frá: „Forsætisráðherrar Kanada, Brian Mulroney, og Noregs, Gro Harlem Brundtland, stóðu fyrir framan 12 metra breitt málverk, sem líktist einna helst ljósmynd af alskýjuðum himni, og strengdu þess heit að þjóðir þeirra myndu draga úr notkun jarðeldsneytis.“
Gro Harlem Brundtland, sem var forseti alþjóðanefndar Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun, sagði: „Áhrif loftslagsbreytingar um allan heim eru kannski örðugasta vandamál sem mannkynið hefur nokkurn tíma staðið frammi fyrir, ef frá er talið að koma í veg fyrir kjarnorkustyrjöld.“ Hún hvatti til þess að gerður yrði alþjóðasáttmáli um verndun andrúmslofts jarðar gegn frekara tjóni.
Hvað þyrfti að felast í slíkum sáttmála? Dr. Michael McElroy við Harvard-háskóla lýsti því þannig í ritgerð sem hann lagði fyrir ráðstefnuna: „Við ættum smám saman að draga stórlega úr notkun jarðeldsneytis. Það verður engan veginn auðvelt. Hvernig getum við talið þjóðir eins og Kínverja, sem ráða yfir miklum kolabirgðum, á að draga úr þróun og notkun auðfáanlegasta og ódýrasta eldsneytis sem þeir eiga völ á? Við verðum að grípa til alþjóðlegra aðgerða. . . . Við verðum að finna leiðir til að hvetja þjóðir þriðja heimsins til að vera vitrari en við höfum verið fram til þessa.“
En hvernig ætli þjóðir þriðja heimsins bregðist við hvatningu í þá átt? Lífshættir Vesturlandaþjóða, sem þjóðir þriðja heimsins telja svo eftirsóknarverða, eru gífurlega orkufrekir. Glansfínar bifreiðar, sem um allan heim eru taldar tákn valds og velmegunar, brenna jarðeldsneyti, nema því aðeins að þær séu notaðar eingöngu til skrauts fyrir framan hýbýli manna. Fallegar vörur, sem eru markaðssettar með ágengni og harðfylgni, þurfa að vera í plastumbúðum sem dr. Lester Lave við Carnegie-Mellon-háskólann kallar „storknaða orku.“ Það þarf einnig kynstrin öll af orku til að gera, lýsa og viðhalda nýjum hraðbrautum, skýjakljúfum og íburðarmiklum flugstöðvum og verslanamiðstöðvum. Hin auðugari ríki heims eru í rauninni að reyna að segja hinum fátækari: ‚Við erum búin að fá það sem við óskuðum okkur, en núna höfum við allt í einu áhyggjur af umhverfinu. Því miður getið þið ekki fengið það sem við erum búnar að fá. Þið neyðist til að vera skynsamari en við. Þið megið ekki nota alla þessa ódýru orku eins og við gerðum. Nú verðið þið að nota dýrari orkulindir og sætta ykkur við minni hagvöxt og láta þegnana bíða svolítið lengur eftir þeim lífsháttum sem við erum alltaf að segja þeim að þeir eigi að líkja eftir.‘ Hvernig ætli þjóðir þriðja heimsins taki slíkum rökum?
Dr. McElroy heldur áfram og segir um þetta vandamál: „Það mun óhjákvæmilega útheimta að við flytjum þjóðarauð frá okkur [iðnríkjunum] til þeirra [þriðja heimsins]. . . . Ætla mætti að viðeigandi væri að fjármagna það með því að skattleggja jarðeldsneyti sem er orsök svo margra af vandamálum okkar. Það er þó óljóst hvernig úthluta ætti slíkum skatti. Ætla mætti að til þess þyrfti alþjóðlegt ráð sem hefði meira vald og sjálfsforræði en áður hefur þekkst. Það hefði óhjákvæmilega í för með sér að þjóðir afsali sér að minnsta kosti hluta þess sjálfstæðis sem þær hafa fram til þessa talið óafsalanlegt.“
Hversu raunhæf er þessi hugmynd? Er líklegt að hinar auðugu þjóðir heims afsali sér fullveldi og skattlagningu í hendur einhverju alþjóðaráði til að flytja megi fjármuni til hinna fátæku þjóða og berjast gegn gróðurhúsaáhrifunum? Hinar auðugu og valdamiklu þjóðir urðu hvorki auðugar né valdamiklar með slíkri framsýni og óeigingirni. Þeim er einkar sárt um fullveldi sitt og verja það með kjafti og klóm. Það er harla ólíklegt að þær muni skipta um skoðun núna vegna þess að einhverjir vísindamenn hafa áhyggjur af gróðurhúsaáhrifunum.
Raunveruleg heimsstjórn
Það duga engar yfirlýsingar, vonir eða margþvældar tuggur til að takast á við ógnun sem steðjar að öllum þjóðum líkt og stjórnlaus gróðurhúsaáhrif. Til þess þarf raunverulega heimsstjórn sem er fær um að framfylgja heilbrigðri umhverfismálastefnu heimskautanna á milli. Saga mannkyns fram til þess gefur lítið tilefni til að ætla að því muni takast að mynda slíka stjórn í bráð. „Við höfum, í gegnum sögu mannkyns, gert öll þau mistök sem hægt er að hugsa sér og síðan endurtekið hver einustu aftur og aftur með ótal tilbrigðum og lagfæringum á hverju einasta glappaskoti, án þess að læra nokkurn skapaðan hlut,“ segir rithöfundurinn Allan Wirtanen í tímaritinu New Scientist, en hann skrifar um vísindi.
Þeir sem hafa kynnt sér sögu mannkyns rækilega geta dregið einn þýðingarmikinn lærdóm af öllu þessu — þann að maðurinn sé ófær um að annast reikistjörnuna jörð óháður skapara sínum. Þykir þér þessi niðurstaða hljóma of „trúarlega,“ ekki vera nógu „vísindaleg“ eða kannski eilítið „barnaleg“?
En hvort er í raun barnalegra — að vonast til að mannkynið muni brjóta blað í hörmungasögu sinni og brjóta niður múra þjóðernis, stjórnmála, trúar og menningar og taka upp framsýna stefnu til að forða heiminum frá stórslysi á næstu öld — eða að trúa því að Guð muni skerast í leikinn áður en það er um seinan? Skaparinn hefur heitið í orði sínu að „eyða þeim, sem jörðina eyða.“ (Opinberunarbókin 11:18) Fyrir liggja kappnóg söguleg og vísindaleg rök fyrir því að hann ætli að gera það. Væri ekki ráð að taka sér fáeinar mínútur til að fletta upp í Biblíunni á þeim loforðum sem hann hefur gefið viðvíkjandi jörðinni í Sálmi 37 og Jesajabók kafla 11 og 65? Berðu síðan loforð hans þar saman við hinar ófögru spár manna um afleiðingar gróðurhúsaáhrifanna. Hvaða spá heldur þú að lýsi framtíð jarðar? Finnst þér þú ekki skulda sjálfum þér og börnum þínum að ganga úr skugga um það?