Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g90 8.7. bls. 3-6
  • Leitin að lengra lífi

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Leitin að lengra lífi
  • Vaknið! – 1990
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Hin vísindalega aðferð
  • Hverjar eru horfurnar?
  • Hamingjuríkari og lengri ævi núna?
  • Það sem þú getur gert
  • Undursamlega gerð til að lifa en ekki deyja
    Vaknið! – 1989
  • Er öldrun óhjákvæmileg?
    Vaknið! – 2006
  • Hvers vegna hrörnum við?
    Vaknið! – 2006
  • Leitin að lengra lífi
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (almenn útgáfa) – 2019
Sjá meira
Vaknið! – 1990
g90 8.7. bls. 3-6

Leitin að lengra lífi

LEITIN að lengra lífi er nánast jafngömul lífinu sjálfu. Það er því ekkert undarlegt að fjölmörg munnmæli og sögur skuli vera til af fólki í leit að leyndardómi langlífisins.

Í rómantískri sagnfræði er til dæmis reynt að telja mönnum trú um að spænski landkönnuðurinn Juan Ponce de León hafi verið að leita að æskubrunninum er hann hélt norður á bóginn frá Púertó Ríkó árið 1513. Samtíðarmenn hans sögðu hins vegar að hann hefði lagt upp í ferðina til að afla sér þræla og leggja undir sig nýtt land. Reyndar fann hann ekki æskubrunninn heldur það sem nú heitir Flórida. Eigi að síður lifir þjóðsagan.

Sé farið enn lengra aftur í gráa forneskju segir akkadíska sagnaljóðið um Gilgamesh, ritað á leirtöflur einhvern tíma fyrir 18. öld f.o.t., frá því hvernig Gilgamesh var sjúklega hræddur við að deyja eftir að vinur hans, Enkídú, lést. Ljóðið lýsir ferðum hans og árangurslausu erfiði við að reyna að öðlast ódauðleika.

Í nýlegri skáldskap lýsti James Hilton í skáldsögu sinni árið 1933, Horfin Sjónarmið (í íslenskri þýðingu árið 1945), ímynduðu landi er hann nefndi Shangri-La. Landsmenn voru nánast fullkomnir og lifðu mun lengri ævi en við þekkjum við skilyrði er líktust paradís.

Enn þann dag í dag eru til menn sem helga sig óvenjulegum og framandi hugmyndum um það hvernig hægt sé að bæta og lengja lífið. Aðrir eru raunsærri í afstöðu sinni, strangnákvæmir í því að lifa sem heilbrigðustu líferni, stunda líkamsrækt og fylgja nákvæmu mataræði. Þeir vonast til að það muni halda þeim unglegum og stuðla að betri líðan.

Allt undirstrikar þetta þá eðlislægu þrá mannsins að lifa lengri og hamingjuríkari ævi en nú er.

Hin vísindalega aðferð

Rannsóknir á öldrun og vandamálum aldraðra er orðin að alvarlegri vísindagrein. Virtir vísindamenn telja sig við það að uppgötva orsök ellihrörnunar. Sumir halda að hún sé innbyggð í arfberana. Aðrir telja hana uppsöfnuð áhrif skaðlegra sjúkdóma og hættulegra úrgangsefna sem myndast við efnaskipti líkamans. Og sumir telja að rekja megi ellihrörnun eða öldrun til hormóna eða ónæmiskerfisins. Vísindamenn vonast til að geta unnið bug á orsökum öldrunar, svo fremi þeim tekst að einangra hana.

Leit mannsins að ódauðleika hefur orðið til þess að mörkin milli vísinda og vísindaskáldskapar verða sífellt óljósari. Einræktun eða klónun er eitt slíkt dæmi. Sumir gera sér von um að hægt sé með frumu- og erfðatækni að klóna eða einrækta nýjan líkama er sé nákvæm eftirmynd hins upprunalega. Síðan, er líkamshlutar sýkjast eða bila, sé hægt að sækja nýtt líffæri í einræktaða líkamann og græða það í, ekki ósvipað og hægt er að kaupa varahlut í bifreið og skipta um bilaðan hlut. Sumir vísindamenn halda því fram að fræðilega séu því engin takmörk sett hvað hægt sé að gera með einrækt.

Sé stigið einu skrefi lengra má nefna svonefnda frerageymslu. Þeir sem aðhyllast hana segja að hægt sé að frysta líkamann, þegar hann deyr, og geyma uns lækning finnst á þeim sjúkdómi sem nú er ólæknanlegur. Þá sé hægt að þíða líkamann, lífga við og endurnýja — vonandi til lengra og hamingjuríkara lífs.

Hverju hefur allt þetta erfiði og allar þær háu fjárhæðir, sem eytt hefur verið í rannsóknir, skilað? Stöndum við eitthvað nær því nú að varpa af okkur oki dauðans en allar þær þúsundir milljóna manna sem lifðu og dóu á undan okkur?

Hverjar eru horfurnar?

Sé eingöngu miðað við bjartsýnar yfirlýsingar og spár sumra þeirra, sem lagt hafa stund á slíkar rannsóknir, mætti ætla að lengri ævi en við höfum átt að venjast sé nú innan seilingar. Hér fara á eftir fáein dæmi frá síðari hluta sjöunda áratugarins.

„Sú þekking, sem slík leit skilar, færir okkur í hendur þau vopn sem við þurfum til að berjast gegn síðasta óvininum — dauðanum — á heimavígstöðvum hans. Þá er ódauðleiki nánast innan seilingar . . . Hann gæti orðið að veruleika á okkar dögum.“ — Alan E. Nourse, læknir og rithöfundur.

„Við munum sigrast að fullu á öldrun, þannig að slys verða eiginlega eina dánarorsök manna.“ — Augustus B. Kinzel, þáverandi forseti Salk Institute for Biological Studies.

„Ódauðleiki (í þeim skilningi að hægt sé að teygja lífið endalaust) er tæknilegur möguleiki, ekki aðeins fyrir afkomendur okkar heldur einnig okkur sjálfa.“ — Robert C. W. Ettinger í The Prospect of Immortality.

Þótt ekki væru allir öldrunarfræðingar og vísindamenn jafnbjartsýnir virtust sérfræðingar þó nokkuð sammála um að hægt yrði að ráða við öldrun á byrjun 21. aldar og lengja mannsævina verulega.

Hvernig er útlitið núna er dregið hefur mun nær byrjun 21. aldar? Er lengri mannsævi, að ekki sé talað um ódauðleika, innan seilingar? Við skulum athuga hvað fróðir menn segja.

„Öldrunarfræðingar eru margir hverjir sammála um að margt sé óljóst um þessar mundir. Við vitum hvorki hvaða ferli er undirrót öldrunar né getum mælt öldrunarhraða eftir nákvæmum, lífefnafræðilegum kvarða.“ — Journal of Gerontology, september 1986.

„Enginn veit nákvæmlega hvað öldrunarferlið er og hvers vegna það tekur ólíkar stefnur hjá mismunandi einstaklingum. Enginn veit heldur hvernig lengja megi mannsævina, þrátt fyrir óheiðarlegar og stundum hættulegar fullyrðingar yngingarlyfjaprangara og annarra sem misnota sér ótta og kvilla aldraðra til ólöglegra viðskipta.“ — FDA Consumer, opinbert málgagn bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitsins, október 1988.

Fyrri spár manna um það að sigrast á dauðanum og lengja mannsævina verulega byggðust greinilega á allt of mikilli bjartsýni. Ódauðleiki fyrir atbeina vísindanna er enn fjarlægur draumur. Getum við þá ekkert gert til að lengja líf okkar, eða í það minnsta bæta það, fyrr en einhver tímamótaárangur verður á sviði vísinda eða tækni?

Hamingjuríkari og lengri ævi núna?

Þótt vísindamönnum hafi enn ekki tekist að leysa þá gátu hver sé leyndardómur langlífis hafa þeir eigi að síður komist að mörgu varðandi lífið og öldrunarferlið. Hægt er að notfæra sér sumt af því sér til hagsbóta.

Tilraunir með dýr hafa til dæmis leitt í ljós að „nákvæmlega mæld vannæring getur lengt hámarksævi um meira en 50 af hundraði og tafið og dregið úr mörgum vandamálum sem tengjast ellinni,“ segir Lundúnablaðið Times. Niðurstöðurnar hafa leitt til rannsókna á því hvort hið sama gildi um menn.

Afleiðingin er sú að dr. Roy Walford mælir í bók sinni The 120 Year Diet, með hitaeininga- og fitusnauðu, en þó afar næringarríku fæði, samhliða reglulegri líkamsrækt. Hann bendir á íbúa eynnar Okinawa sem dæmi. Í fæði þeirra eru um 40 af hundraði færri hitaeiningar en hjá Japönum að meðaltali, en þó „eru á bilinu 5 til 40 falt fleiri sem ná þar 100 ára aldri en á öðrum eyjum Japans.“

Íbúar Kákasussvæðisins í vestanverðum Sovétríkjunum eru oft nefndir sem dæmi um langlífi. Sula Benet, sem bjó meðal Kákasusmanna, segir í bók sinni, How To Live To Be 100, að óvenjumargir meðal þessa fólks séu heilbrigðir og starfssamir töluvert fram yfir hundrað ára aldur, og nokkrir eru sagðir hafa lifað yfir 140 ár. Hún segir að tvennt séu fastir liðir í mataræði Kákasusbúa: 1. Ekkert ofát . . . 2. Afarmikil neysla náttúrlegra vítamína í fersku grænmeti.“ Auk þess sér „vinnan þeim bæði fyrir hreyfingu og þeirri vitneskju að þeir leggi fram verðmætan skerf til heilla samfélagsins.“

Það sem þú getur gert

Er lausnin þá sú að flytjast til Okinawa eða Kákasushéraða, eða annarra staða þar sem íbúar lifa lengur en gengur og gerist? Varla. Margt er þó hægt að gera sér til gagns. Til dæmis er hægt að líkja eftir góðum lífsvenjum þeirra sem ná háum aldri og fylgja ráðum góðra lækna, næringarfræðinga og heilbrigðissérfræðinga.

Nálega allir sérfræðingar mæla með hófsemi. Það merkir ekki aðeins að sýna hóf í því hve mikið við borðum heldur einnig að gæta þess að borða næringarríka og holla fæðu sem við höfum völ á. Góð áhrif reglulegrar líkamsræktar er einnig velþekkt. Það er nánast óhjákvæmilegt að þér líði betur ef þú leggur þig hæfilega fram við að fylgja þessum grundvallaratriðum og forðast með öllu skaðlega ósiði nútímaþjóðfélags, svo sem reykingar, fíkniefnanotkun og ofneyslu áfengis.

Það er rökrétt að við séum því hraustari sem við förum betur með líkama okkar. Og því hraustari sem við erum, þeim mun betri líkur höfum við á að lifa lengur. En óháð því hvað við gerum er meðalævi manna eftir sem áður 70 til 80 ár eins og Biblían segir. (Sálmur 90:10) Er einhver von um að einvern tíma verði hægt að lengja mannsævina og þá hve mikið?

[Rammi á blaðsíðu 5]

HVE GAMALL ERT ÞÚ?

Þú ert töluvert miklu eldri en þú gerir þér ef til vill grein fyrir. Líffræðin vekur athygli okkar á að eggjastokkar konunnar eru til þegar hún fæðist og innihalda þá þegar öll þau egg sem hún mun framleiða á ævinni. Ef móðir þín var þrítug þegar þú varst getinn, þá var eggið, sem þú óxst úr, orðið þrítugt.

Þér finnst þú sennilega ekkert eldri fyrir það en þú eldist samt dag frá degi. Hvort sem við erum ung eða gömul hrörnum við með aldrinum. Flestir vildu geta hægt á þessu ferli — ef ekki stöðvað það með öllu.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila