Horft á heiminn
Dómsdagsógnin lifir enn
Þótt menn tali um frið í sæluvímu eru risaveldin enn njörvuð niður í það sem einn samningamaður um afvopnun kallar „óstöðug heimsendisfaðmlög.“ Að því er segir í skýrslu frá 1989 ráða Sovétríkin yfir um 11.000 kjarnorkusprengjum. Bandaríkin miða um þessar mundir hér um bil 12.000 kjarnorkusprengjum á Sovétríkin. Tímaritið Time bendir hins vegar á að jafnvel sérfræðingar, sem álíta slík vopn fælingu gegn stríði, telji jafnframt að 3000 eða jafnvel 1000 sprengjur myndu duga. Ef tekið er sem dæmi að einungis þriðjungur kjarnorkusprengja Bandaríkjamanna hittu skotmörk sín myndu allar sovéskar borgir með fleiri en 25.000 íbúa þurrkast út. Ein kjarnorkusprengja, sem spryngi yfir Kreml í Moskvu, myndi jafna við jörðu hverja einustu byggingu innan sex kílómetra geisla. Bandaríkin miða 120 slíkum sprengjum á Moskvu eina.
Eyðni — dökkar horfur
Átta til tíu milljónir manna í heiminum eru sýktar eyðniveirunni, að sögn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, sem er töluverð aukning og ber vitni um að smitun milli gagnkynhneigðra færist í vöxt. „Nú er ljóst að eyðnismitun er í örum vexti, einkum í þróunarlöndunum,“ segir dr. Micael H. Merson, forstöðumaður stofnunarinnar. Stofnunin spáir því að þessi aukning muni draga minnst þrjár milljónir kvenna og barna til dauða á síðasta áratug aldarinnar, ríflega sexfalt fleiri en dóu úr eyðni á níunda áratugnum. Búist er við að enn fleiri karlar muni deyja úr eyðni síðasta áratuginn. Milljónir barna, sem ekki eru sýkt, verða munaðarlaus. Að því er segir í skýrslunni er eyðni nú þegar helsta dánarorsök kvenna á aldrinum tvítugs til fertugs í stærstu borgum Norður- og Suður-Ameríku, Vestur-Evrópu og Afríku sunnan Sahara, þar sem einn af hverjum 40 fullvaxta körlum og konum er sagður sýktur.
Fornmenjar Egyptalands í hættu
Gerð Aswan-stíflunnar á sjöunda áratug aldarinnar „breytti mjög umhverfisháttum Nílardalsins,“ að því er segir í The New York Times. „Grunnvatnsborð undir fornum menjum hefur hækkað; loftraki aukist þar eð áveituskurðir þorna aldrei; sölt í jarðveginum þrengja sér gegnum ævafornar yfirborðsþekjur þannig að þær flagna af steininum undir og skolpræsalagnir hafa litað jarðveginn.“ Afleiðingin er sú að hinir miklu fornmenjasjóðir Egyptalands — þeir mestu í heimi — sem hafa staðist tímans tönn svo margar árþúsundir, eru nú í alvarlegri hættu. Allt bendir til að jafnvel fornar menjar, sem ekki hafa verið grafnar upp og voru áður taldar óhultar, hafi skemmst. Sérfræðingar standa ráðþrota frammi fyrir þessu tröllaukna vandamáli. „Grafirnar eru yfir 2000 talsins og ósköpin öll af minnismerkjum, píramídum og broddsúlum,“ segir Sayed Tawfiq, forstöðumaður Fornmenjastofnunar Egyptalands í Kaíró. „Ef reiknað er með að það taki tvö ár að gera upp hverja gröf, þá tekur allt verkið 4000 ár.“
Þar sem ofbeldið ræður ríkjum
Bandaríkin hafa verið kölluð morðhöfuðborg iðnríkja heims og talnaskýrslur virðast staðfesta að sú nafngift eigi rétt á sér. Að sögn rannsóknarmanna við National Center for Health Statistics eru að meðaltali drepnir árlega 21,9 karlmenn á aldrinum 15 til 24 ára, miðað við hverja 100.000 bandaríska karlmenn. Af 21 öðru landi, sem kannanir þeirra náðu til, var næsthæsta tíðni manndrápa í Skotlandi þar sem 5 karlmenn af hverjum 100.000 í sama aldurshópi eru drepnir árlega. Austurríki er í neðsta sæti með 0,3 manndráp miðað við 100.000 karlmenn. Byssur eru notaðar við flest manndráp í Bandaríkjunum. Bæði eru nútímabyssur hættulegri en áður þekktist og eins skeyta glæpamenn minna um hlutlausa áhorfendur en áður tíðkaðist. Afbrotafræðingur segir að byssumenn kalli hlutlausa áhorfendur stundum „sveppi“ — það má troða þá niður ef þeir eru að þvælast fyrir.
◆ Ofbeldi í Bandaríkjunum beinist mjög að konum. Tímaritið Newsweek vitnar í eftirfarandi tölur sem dómaranefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings hefur tekið saman: „Á hverri klukkustund eiga 16 konur í höggi við nauðgara; konu er nauðgað á sex mínútna fresti. Þrem til fjórum milljónum kvenna er misþyrmt árlega; með 18 sekúndna millibili er kona barin. Þrjár konur af hverjum fjórum verða fórnarlamb a.m.k. eins ofbeldisglæps á ævinni. . . . Nauðganir eru þrettánfalt tíðari í Bandaríkjunum en Bretlandi, nálega fjórfalt tíðari en í Þýskalandi og yfir tuttugfalt tíðari en í Japan.“
Bambusrækt í sjónmáli
Að sögn vikuritsins Asiaweek notar fjórðungur jarðarbúa bambus til matar, sem gripafóður, smíðaefni í húsgögn og vinnupalla og sem hráefni í pappírsvörur. Risapöndur lifa á honum. Hann er sterkur, léttur og fúnar seint. En flestar bambustegundir blómgast og bera fræ aðeins einu sinni, þegar plantan er einhvers staðar á bilinu 12 til 120 ára gömul. Bambusinn virðist hafa einhverja innri klukku sem stýrir því hvenær það gerist, en eftir það deyr öll trjáþyrpingin. Fram til þessa hefur vísindamönnum mistekist að kynbæta bambus, því að þær tegundir, sem mestu máli skipta fyrir efnahag þjóða, blómgast á 30 ára fresti og lifa því oft vísindamennina sem að tilraununum vinna. Tímaritið Nature skýrir frá því að grasafræðingar telji sig nú hafa fundið leið til að yfirvinna klukkuna sem stýrir blómgun tveggja tegunda bambuss og flýta blómgun, þannig að hægt ætti að vera að kynbæta þær og fá fram betri stofna og tryggja stöðugt framboð á fræi til nýsáningar. Með því að gróðursetja nýgræðing í sérstakri næringarblöndu tókst að láta hann þroska blóm í fullri stærð á fáeinum vikum, og flestar plönturnar báru fræ eftir blómgun.
Nýjar tegundir fundnar
Ár hvert finna vísindamenn 10.000 nýjar tegundir jurta og dýra. Þar af er stór hluti skordýr, en einnig finnast fimm til tíu ný spendýr og álíka margar fuglategundir á ári. Þótt þetta kunni að virðast töluverður árangur eiga líffræðingar enn langt í land. Áætlað er að jurta- og dýrategundirnar í heiminum séu 50 milljónir talsins, en innan við 1,5 milljónir hafa verið greindar og skráðar. Það vakti nokkra athygli er nýr prímati fannst í um það bil 300 kílómetra fjarlægð frá þriðju stærstu borg veraldar, nálægt þéttbýlli strönd Brasilíu. Óttast er að samfara eyðingu regnskóganna muni tegundirnar hverfa hraðar en hægt er að finna þær.
Áhrif fjölskyldulífs
„Fjölskyldugerð hefur veruleg áhrif á heilsu og þroska barna,“ segir í grein í The Wall Street Journal. Hagtölur fengnar úr „könnun stjórnvalda á heilsu og tilfinningalífi um 17.000 barna allt frá barnsaldri til 17 ára“ leiddi í ljós að „börn í fjölskyldum utan hefðbundinnar gerðar áttu í verulega meiri erfiðleikum en þau sem bjuggu hjá báðum kynforeldrum sínum.“ Hættan á slysum eða meiðslum árið fyrir könnunina var 20 til 30 af hundraði hærri hjá börnum fráskilinna mæðra eða mæðra sem voru giftar aftur. Í samanburði við börn, sem bjuggu hjá báðum kynforeldrum sínum, var allt frá 40 til 75 af hundraði líklegra að slík börn féllu í skóla. Líkurnar á að börnum væri vikið úr skóla um tíma eða fyrir fullt og allt voru 70 af hundraði meiri ef foreldrar þeirra höfðu slitið samvistum en ella, og hjá þeim mæðrum, sem aldrei höfðu gifst, var tvöfalt líklegra að börnin ættu í þessum vandamálum. Þá var 50 af hundraði líklegra að börn, sem bjuggu hjá móður sinni einni, fengju astma en börn sem bjuggu hjá báðum kynforeldrum sínum.
Tímamótaskref?
Í stað þess að gefa fyrirbura, sem þjáðist af blóðskorti, blóð gripu læknar í Japan til þess ráðs að gefa honum rauðkornavaka (erythropoietin) en það er hormón sem örvar myndun rauðra blóðkorna. Barnið vóg aðeins 792 grömm við fæðingu og „blóðskorturinn komst á það stig að eðlilegt hefði verið að gefa blóð,“ að sögn dagblaðsins Asahi Shimbun. Foreldrar barnsins, sem voru vottar Jehóva, leyfðu ekki að því væri gefið blóð. Læknar brugðu því á það ráð að gefa því rauðkornavaka frá 39. degi eftir fæðingu. Innan viku tók rauðkornum blóðsins að fjölga. Síðar fór blóðrauðastyrkurinn einnig að vaxa. „Þótt ástæðan fyrir þessu hafi verið trúarleg,“ sagði læknirinn sem annaðist barnið, „er mjög sennilegt að þessi meðferð verði notuð í stórum stíl til að draga úr áhættu svo sem sýkingu af völdum blóðgjafa.“
Ekki fótur fyrir því
Þróunarsinnar ganga út frá því að snákar hafi þróast af eðlum, en þeim vefst tunga um tönn séu þeir beðnir að skýra hvers vegna eðlan hafi misst fæturna. Árið 1973 var því haldið fram í skýrslu frá Harvard-háskóla að eðlur hafi í orkusparnaðarskyni farið að skríða í stað þess að ganga, og þannig hafi snákar þróast af þeim. Nýverið ákváðu vísindamenn við University of California, Irvine, að láta reyna á þessa kenningu. Þeir bjuggu nokkra svartsnáka agnarsmáum súrefnisgrímum, komu þeim fyrir á stigmyllum og mældu hve mikla orku þeir notuðu til að skríða. Niðurstaðan var sú að snákar notuðu ýmist jafnmikla orku og eðlur nota til að ganga sömu vegalengd, eða upp undir sjöfalt meiri.