Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g95 8.4. bls. 19-21
  • Af hverju eru sum börn svona erfið?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Af hverju eru sum börn svona erfið?
  • Vaknið! – 1995
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Skólinn er örðugur hjalli
  • Reynsla móður af Ronnie
  • Að annast erfitt barn
    Vaknið! – 1995
  • Kenndu barninu frá unga aldri
    Farsælt fjölskyldulíf — hver er leyndardómurinn?
  • Maðurinn – hið mikla kraftaverk
    Lífið — varð það til við þróun eða sköpun?
  • Getur Biblían komið að gagni við barnauppeldi?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2004
Vaknið! – 1995
g95 8.4. bls. 19-21

Af hverju eru sum börn svona erfið?

„Erfðir, efnafræðileg starfsemi heilans og taugafræðilegur þroski hefur veruleg áhrif á hvernig við erum sem börn og hvernig við verðum sem fullorðnir.“ — STANLEY TURECKI, LÆKNIR

HVERT barn vex á sinn sérstaka og sérkennandi hátt. Börn sýna mismunandi skapferli og ótal einkenni sem virðast meðfædd — einkenni sem foreldrarnir ráða kannski litlu eða engu um. Vissulega hafa ólátabelgir og eirðarlaus og óstýrilát börn alltaf verið til. Bestu foreldrar geta átt barn sem er erfitt í uppeldi.

En af hverju eru sum börn svona miklu erfiðari en önnur? Þeim börnum fer fjölgandi sem eiga við alvarleg hegðunarvandamál að stríða. Læknar og rannsóknarmenn eru almennt sammála um að 5 til 10 af hundraði allra barna séu fram út hófi eirðarlaus og að þessi börn valdi sjálfum sér, fjölskyldu sinni, kennurum og jafnöldrum margvíslegum erfiðleikum af því að þau geta ekki fylgst með, einbeitt sér, fylgt reglum og stjórnað skyndihvötum sínum.

Dr. Bennett Shaywitz, prófessor í barnalækningum og taugasjúkdómafræði við læknadeild Yale-háskóla, bendir á að höfuðorsökin geti verið „arfgengar truflanir vissra efna í taugaboðkerfi heilans“ sem stjórna starfsemi heilafrumnanna og auðvelda heilanum að stýra hegðun. Hver svo sem ástæðan er fyrir því að barnið er erfitt í uppeldi ættu foreldrarnir að setja sér sem aðalmarkmið að hafa lag á því að stjórna hegðun barnsins og hvetja það og styðja frekar en gagnrýna og finna að.

Á biblíutímanum báru foreldrarnir ábyrgðina á fræðslu og þjálfun barna sinna. Þeir vissu að ögun og fræðsla í lögum Guðs gerði barnið viturt. (5. Mósebók 6:6, 7; 2. Tímóteusarbréf 3:15) Það er því ábyrgð foreldra, sem Guð hefur lagt þeim á herðar, að gera sitt ítrasta til að sinna þörfum barnsins þrátt fyrir aðrar annir, einkum að bregðast á uppbyggilegan hátt við slæmri hegðun. Þar eð mörg hegðunarvandamál, sem koma til kasta barnalækna nú á tímum, tengjast ofvirkni, hvatvísi eða eftirtektarleysi kann umræða um einbeitingarveilu (Attention Deficit Disorder) og einbeitingarveilu samhliða ofvirkni (Attention Deficit Hyperactivity Disorder) að koma að gagni í þessu sambandi.

Á sjötta áratugnum voru þessar veilur kallaðar „heilkenni lágmarksstarfstruflunar heila“ („minimal brain dysfunction“). Að sögn barnataugasjúkdómafræðingsins dr. Jan Mathisen var hætt að nota það heiti þegar rannsóknir leiddu í ljós að „eftirtektarveila stafaði alls ekki af heilaskemmdum.“ Dr. Mathisen segir: „Eftirtektarveila virðist orsakast af galla í vissum heilastöðvum. Við vitum ekki enn nákvæmlega hvaða taugaefnafræðilega kvilla er um að ræða, en við teljum að það megi rekja þá til efnis í heilanum sem kallað er dópamín.“ Hann álítur að kvillinn tengist dópamínbúskapnum. „Sennilega er ekki um að ræða eitt einstakt efni heldur samspil nokkurra,“ bætir hann við.

Enda þótt mörgum spurningum sé enn ósvarað um orsakir eftirtektarveilu eru rannsóknarmenn almennt sammála dr. Mathisen um að langvinn, ófullnægjandi stjórn á athygli, skyndihvötum og hreyfingum sé taugafræðilegs eðlis. Í nýlegum rannsóknum dr. Alans Zametkins og rannsóknarmanna við Bandarísku geðverndarstofnunina var eftirtektarveila í fyrsta sinn rakin til sérstakra efnaskiptatruflana í heilanum, enda þótt viðurkennt væri að „miklar viðbótarrannsóknir væru nauðsynlegar til að fá afdráttarlausari niðurstöður.“

Skólinn er örðugur hjalli

Skólinn reynist yfirleitt mjög erfiður fyrir börn sem eru sífellt annars hugar, auðtrufluð, hvatvís eða ofvirk, því að ætlast er til þess að þau sitji kyrr og hljóð og einbeiti sér í kennslustundum. Þar eð slík börn eiga svo erfitt með að einbeita sér að nokkrum hlut lengi í senn, hvað geta þau þá annað gert en að vera óþolandi ofvirk? Sum börn eiga svo erfitt með að einbeita sér að þau dragast aftur úr í námi, bæði heima og í skólanum. Ekki er óalgengt að þau séu öguð fyrir að vera annaðhvort „bekkjarplága“ eða „bekkjarhirðfífl,“ því að þau eiga erfitt með að hafa stjórn á hegðun sinni og meta afleiðingar gerða sinna.

Að lokum fá þau slæma sjálfsímynd og stimpla sig kannski „vond“ og „heimsk“ og hegða sér eftir því. Þessi börn fá falleinkunnir óháð því hve mikið þau leggja sig fram, þannig að þeim hættir við að mistakast allt.

Foreldrarnir botna ekki neitt í neinu og verða ráðvilltir og mjög áhyggjufullir út af truflandi hegðun barnsins. Stundum verða hjónin ósátt í ofanálag og kenna hvort öðru um. Margir foreldrar eyða heilmiklum tíma í að staglast á hinu neikvæða og gleyma hinu jákvæða. Viðbrögð þeirra við slæmu hegðunarmynstri gera síðan illt verra. Fjölskyldan, og að nokkru leyti aðrir sem samskipti eiga við barnið, festast þannig í valdabaráttu sem stafar af því að þeir skilja ekki og ráða ekki við erfiða barnið — barn sem er annaðhvort eftirtektarveilt eða ekki.

Reynsla móður af Ronnie

„Ronnie var aldrei ánægður. Hann var sígrátandi og órólegur frá þeirri stundu er hann kom í heiminn. Hann var með ofnæmi, útbrot, eyrnabólgur og sífelldan niðurgang.

Hreyfileikni Ronnies þroskaðist hins vegar vel í byrjun og hann var mjög fljótur til að sitja uppréttur, standa og síðan ganga — eða ætti ég kannski að segja hlaupa? Ég flýtti mér með heimilisverkin meðan hann fékk sér lúr, því að þegar litli ‚hvirfilvindurinn‘ minn vaknaði átti ég fullt í fangi með að koma í veg fyrir að hann færi sér að voða eða skemmdi það sem á vegi hans varð þegar hann geystist um húsið og reif og tætti allt sem hönd á festi og það var fátt sem hann lét ósnert!

Athyglin entist ósköp stutt hjá honum. Hann gat ekki dundað við neitt lengi í senn. Honum var meinilla við að sitja kyrr. Það var að sjálfsögðu vandamál þegar við fórum eitthvað með hann þar sem hann átti að sitja kyrr — sérstaklega á safnaðarsamkomur. Það var tilgangslaust að flengja hann fyrir að sitja ekki stilltur. Hann gat það bara ekki. Margt velviljað fólk kvartaði eða gaf okkur ráð en ekkert hreif.

Ronnie var vel gefinn þannig að við byrjuðum að lesa með honum daglega stutta stund í senn þegar hann var þriggja ára. Hann var orðinn þokkalega læs fimm ára. Þá byrjaði hann í skólanum. Um mánuði síðar bað kennarinn, sem var kona, mig að koma til viðtals. Hún sagði mér að sér hefði fundist Ronnie vera engli líkastur þegar hún sá hann fyrst, en eftir að hafa haft hann í bekknum í mánuð fyndist henni hann vera af hinu sauðahúsinu! Hún sagði mér að hann væri síhoppandi og alltaf að bregða fæti fyrir aðra krakka eða abbast upp á þá, hann fengist ekki til að sitja kyrr eða þegja og truflaði allan bekkinn, og hann skorti sjálfstjórn. Hún sagði líka að það væri farið að bera á uppreisnargirni hjá honum. Hún mælti með að hann yrði settur í sérkennslu og að við færum með hann til læknis og fengjum lyf til að róa hann. Við vorum niðurbrotin!

Ronnie þurfti ekki á lyfjum að halda en barnalæknirinn gaf okkur nokkur góð ráð. Hann var þeirrar skoðunar að Ronnie væri vel gefinn en leiddist og lagði þess vegna til að við létum hann hafa nóg fyrir stafni, og að við sýndum honum ást á ást ofan, værum þolinmóð og jákvæð. Hann taldi að Ronnie yrði meðfærilegri með aldrinum og með breyttu mataræði.

Við gerðum okkur ljóst að sonur okkar þarfnaðist nærfærni og umhyggju, að það þyrfti að kenna honum að beina kröftum sínum á réttar brautir. Við vissum að það yrði tímafrekt þannig að við breyttum daglegri stundaskrá okkar og notuðum margar klukkustundir í að hjálpa honum við heimaverkefnin og kenna honum og útskýra hlutina fyrir honum með þolinmæði. Við hættum að finna að eða skamma hann fyrir hugsunarleysi sitt og uppátæki. Markmiðið var að byggja upp sjálfsvirðingu hans sem var ekki mikil. Við ræddum málin við hann í stað þess að skipa eða krefjast. Ef um var að ræða einhverjar ákvarðanir, sem snertu hann, spurðum við hann álits.

Sumt sem er öðrum börnum eiginlegt var heilmikil þraut fyrir Ronnie. Til dæmis þurfti hann að læra að vera þolinmóður, stilltur, sitja kyrr og hafa stjórn á gríðarlegri athafnaþörf sinni. En það tókst. Þegar honum skildist að hann yrði að leggja sig fram við að hægja ferðina og hugsa um það sem hann væri að gera eða ætlaði að gera, jókst sjálfstraustið. Þegar hann var 13 ára var hegðun hans orðin eðlileg. Sem betur fer gekk allt snurðulaust þaðan í frá, jafnvel á táningaárunum þegar uppreisnarhugur gerir oft vart við sig.

Að sýna Ronnie mikla ást og þolinmæði í jöfnum hlutföllum hefur sannarlega skilað sér!“

[Rammi á blaðsíðu 20]

Foreldrar þurfa að setja sér sem aðalmarkmið að hafa lag á því að stjórna hegðun barnsins og hvetja það og styðja frekar en gagnrýna og finna að.

[Rammi á blaðsíðu 21]

Það er ábyrgð foreldra að gera sitt ítrasta til að sinna þörfum barnsins þrátt fyrir aðrar annir, einkum að bregðast á uppbyggilegan hátt við slæmri hegðun.

[Rammi á blaðsíðu 21]

‚Læknirinn lagði til að við létum Ronnie hafa nóg fyrir stafni, og að við sýndum honum ást á ást ofan, værum þolinmóð og jákvæð.‘

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila