Að annast erfitt barn
„HVERNIG gekk hjá þér í dag?“ spyr Súsanna Óla son sinn um leið og hann klöngrast upp í bílinn fyrir utan skólann. Hann ygglir sig og ansar ekki. „Ó, þetta hlýtur að hafa verið erfiður dagur hjá þér,“ segir hún samúðarfull. „Viltu segja mér fá því?“
„Láttu mig í friði,“ muldrar hann gremjulega.
„Ég hef bara áhyggjur af þér. Þú ert eitthvað svo vansæll. Mig langar til að hjálpa þér.“
„Ég vil ekki að þú hjálpir mér!“ hrópar hann. „Láttu mig í friði! Ég hata þig! Ég vildi að ég væri dauður.“
„Óli þó!“ segir Súsanna með andköfum, „ekki tala svona við mig — annars flengi ég þig! Ég var bara að reyna að vera góð við þig. Ég skil ekki hvað gengur að þér. Þú ert óánægður með allt sem ég segi eða geri.“
Útkeyrð og í uppnámi eftir vinnuna ekur Súsanna heimleiðis. Henni er ráðgáta hvernig hún gat eignast svona barn. Hún er ringluð og finnst hún hjálparvana, en jafnframt er hún reið og gröm syni sínum auk þess sem sektarkenndin nagar hana. Súsanna kvíðir fyrir því að fara heim með hann — sitt eigið barn. Hana langar næstum ekki til að vita hvað gerðist í skólanum í dag. Kennarinn á eflaust eftir að hringja einu sinni enn. Stundum finnst henni mælirinn fullur.
Þannig geta smáatvik magnast upp í tilfinningaleg átök og þungar áhyggjur. Viðbrögð við vandamálum eru oft ofsafengin hjá eftirtektarveilum börnum, ofvirkum börnum eða börnum sem eru bara kölluð „erfið.“ Þau hafa tilhneigingu til að rjúka upp með þeim afleiðingum að foreldrarnir verða reiðir, ráðvilltir og loks úrvinda.
Að meta stöðuna og grípa í taumana
Þessi börn eru gjarnan vel gefin, hugmyndarík og mjög viðkvæm. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að þetta eru heilbrigð börn með óvenjulegar þarfir. Þar af leiðandi þarfnast þau skilnings umfram það sem gengur og gerist. Hér verða reifaðar nokkrar meginreglur og hugmyndir sem hafa reynst foreldrum slíkra barna vel.
Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að læra að þekkja aðstæður og áreiti sem koma barninu í uppnám. (Samanber Orðskviðina 20:5) Mikilvægt er að foreldrarnir séu vakandi fyrir einkennum, sem eru undanfari tilfinningaárekstra hjá barninu, og grípi strax inn í. Eitt helsta merkið er svipbrigði sem lýsa vaxandi vonbrigðum og vanmætti að takast á við tilteknar aðstæður. Gott getur verið að minna barnið vingjarnlega á að það þurfi að hafa stjórn á sér eða, ef því er að skipta, að fara með það af vettvangi. Að gera smáhlé getur til dæmis skilað góðum árangri, ekki sem refsing heldur sem tækifæri bæði fyrir barn og foreldri til að stilla sig og taka svo þráðinn upp aftur með ró og rökvísi.
Í dæminu, sem nefnt var, brást Óli ókvæða við einföldum spurningum. Þetta er dæmigert fyrir daglega hegðun hans. Þótt vissulega sé auðvelt fyrir foreldri að taka þessa reiði og gremju nærri sér, er mikilvægt að gera sér ljóst að þessi börn missa oft tengslin við raunveruleikann þegar álagsþoli þeirra er ofgert. Þess vegna er svo mikilvægt að sýna góða dómgreind. (Orðskviðirnir 19:11) Súsanna hefði getað dregið úr spennunni með því að hætta samtalinu og gefa drengnum tækifæri til að ná stjórn á sér, og kannski hefðu þau svo getað rætt viðburði dagsins síðar.
Taugaspennt börn
Aldrei fyrr hefur mannkynið staðið frammi fyrir jafngeigvænlegum vandamálum, álagi og áhyggjum sem nú. Tímarnir eru ólíkir því sem áður var og kröfurnar miklu meiri, einnig til barnanna. Bókin Good Kids, Bad Behavior segir um þetta mál: „Mörg þau vandamál, sem börn virðast eiga við að glíma, kunna annaðhvort beint eða óbeint að orsakast af breyttum væntingum þjóðfélagsins.“ Skólinn getur verið hrein martröð fyrir eftirtektarveil börn, hvort sem þau eru ofvirk eða ekki. Jafnhliða baráttu þeirra við eigin veikleika eru þau neydd til að laga sig að geysihröðum breytingum og tækniframförum í umhverfi sem virðist bæði fjandsamlegt og hættulegt. Það eykur kvíðann hjá þeim. Börn eru of tilfinningalega vanþroska til að ráða við öll þessi vandamál. Þau þarfnast hjálpar foreldra sinna.
Dragðu úr árekstrum
Stöðugleiki og regla skipta miklu máli fyrir hamingju og heilbrigði barna. Að einfalda líferni sitt gæti verið góð byrjun áhrifaríkrar áætlunar um að draga úr árekstrum á heimilinu. Þar eð þessi börn eru hvatvís, auðtrufluð og ofvirk er nauðsynlegt að draga úr skaðlegum áhrifum of mikillar örvunar. Láttu þau ekki leika sér með of mörg leikföng í einu. Reyndu ekki að fela þeim nema eitt verkefni í einu. Algengt er að þessi börn hafi ekki reiðu á hlutunum þannig að góð regla dregur úr gremju og óþoli hjá þeim. Því færri og aðgengilegri hluti sem þau þurfa að hugsa um, þeim mun auðveldara er að ráða við það sem máli skiptir.
Önnur áhrifarík leið til að draga úr streitu á heimilinu er sú að koma á skipulegum, þó ekki stífum, vanagangi sem veitir börnum vissa festu. Það skiptir meira máli að hlutirnir séu gerðir í fastákveðinni röð en á fastákveðnum tíma. Þessu mætti ná fram með því að nota eftirfarandi tillögur: Sjáðu um að barnið fái næringarríkar máltíðir og aukabita á ákveðnum tímum. Láttu andrúmsloftið kringum háttatímann vera hlýlegt, ástríkt og afslappandi. Verslunarferðir geta verið einum um of örvandi fyrir ofvirk börn þannig að það er gott að skipuleggja þær fyrirfram og reyna að fara ekki í of margar verslanir. Og þegar farið er í skemmtiferðir skaltu útskýra hvers konar hegðunar þú væntir. Ákveðinn vanagangur hjálpar barni með sérþarfir að stjórna hegðun sinni og ráða við hvatvísina. Auk þess auðveldar það barninu að skilja viðbrögð foreldra sinna og sjá þau fyrir.
Samhliða föstum vanagangi er gagnlegt að setja fram einhver boð og bönn og láta fylgja hvaða afleiðingar það hafi að brjóta ófrávíkjanlegar reglur. Skýrar reglur, sem eru sjálfum sér samkvæmar og bæði hjónin eru ásátt um, skilgreina hvað sé boðleg hegðun af hálfu barnanna — og kennir þeim líka að þau þurfi að vera ábyrg gerða sinna. Ef nauðsyn krefur geturðu sett up lista með reglum á áberandi stað (til að hjálpa bæði foreldrum og barni að muna þær). Lykillinn að því að barnið finni fyrir tilfinningalegu öryggi er að foreldrarnir séu sjálfum sér samkvæmir.
Það getur átt drjúgan þátt í að draga úr óþörfu álagi og spennu á heimilinu að skilja hverju barninu geðjast að og hverju ekki og laga sig að því. Þessi börn eru oft óútreiknanleg og hvatvís að eðlisfari og þar af leiðandi getur verið mjög erfitt fyrir þau að umgangast önnur börn. Þau geta til dæmis átt erfitt með að deila með öðrum, sérstaklega leikföngum, þannig að foreldrarnir gætu látið slíkt barn velja einhver uppáhaldsleikföng sem aðrir mega leika sér með. Þeir geta ennfremur séð um að það séu ekki of margir leikfélagar í heimsókn hverju sinni og að leikir barnanna æsi þau ekki um of. Það getur líka hjálpað barninu að hafa stjórn á sér.
Mikilvægt er að foreldrar leyfi hverju barni að vaxa eins og því er eiginlegt og forðist að þröngva því í fyrirfram ákveðið mót. Ef barnið hefur óbeit á vissum mat eða fötum er best að sleppa slíku. Þessir litlu ásteytingarsteinar eru hreinlega ekki átakanna virði. Með öðrum orðum, reyndu ekki að stjórna öllu. Gættu jafnvægis, en vertu alltaf stefnufastur í því hvað sé boðlegt í kristinni fjölskyldu.
Hegðunaraðhald
Óútreiknanleg börn þarfnast að jafnaði meira aðhalds en önnur. Margir foreldrar þjást þar af leiðandi af sektarkennd ef þeir þurfa að aga börn sín oft. Það er hins vegar mikilvægt að gera greinarmun á aga og misþyrmingu. Að sögn bókarinnar A Fine Line — When Discipline Becomes Child Abuse á 21 af hundraði allrar líkamlegrar misþyrmingar sér stað þegar börn sýna af sér árásarhneigð. Rannsóknarmenn telja því að eftirtektarveilum og ofvirkum börnum sé „hættara við líkamlegri misþyrmingu og vanrækslu“ en öðrum. Óneitanlega getur það tekið mjög á taugarnar að ala upp börn með sérþarfir, en það aðhald sem þeim er veitt verður að að vera heilbrigt og öfgalaust. Þar eð þessi börn eru yfirleitt vel gefin og mjög hugmyndarík er mikils krafist af foreldrum þegar upp koma aðstæður þar sem þarf að rökræða við þau. Slík börn eru oft býsna klók að koma auga á veilur í snjöllustu rökfærslu foreldra sinna. Láttu þau ekki komast upp með það! Viðhaltu myndugleika þínum sem foreldri.
Útskýrðu málin vingjarnlega en ákveðið. Hafðu skýringarnar stuttar og laggóðar og taktu ekki í mál að vikið sé frá ófrávíkjanlegum reglum. Láttu „já“ merkja já og „nei“ merkja nei. (Samanber Matteus 5:37.) Börn eru ekki fær um að ræða skoðanamun með yfirvegaðri rósemi þannig að samningaviðræður við þau enda oft með þrætu, reiði og vonbrigðum og geta jafnvel stigmagnast upp í öskur og handalögmál. (Efesusbréfið 4.31) Forðastu líka of margar viðvaranir. Ef ögun er nauðsynleg ætti að veita hana fljótt. Bókin Raising Positive Kids in a Negative World hvetur: „Stilling, sjálfstraust og festa — það er það sem myndugleiki snýst um.“ Og taktu eftir þessum ágætu tillögum sem birtust í The German Tribune: „Talaðu alltaf þannig við barnið að þú haldir athygli þess: ávarpaðu það oft með nafni, haltu augnasambandi við það og talaðu á einföldu máli.“
Þegar foreldrar missa stjórn á skapi sínu getur það endað með misþyrmingu. Ef foreldrið er farið að öskra er það búið að missa stjórn á sér. Fimmtándi kafli Orðskviðanna fjallar um barnauppeldi og ögun. Til dæmis segir fjórða versið: „Hógværð tungunnar er lífstré, en fals hennar veldur hugarkvöl“; vers 18: „Bráðlyndur maður vekur deilur, en sá sem seinn er til reiði, stillir þrætu“; og að lokum vers 28: „Hjarta hins réttláta íhugar, hverju svara skuli.“ Það er því mikilvægt að gera sér ekki aðeins grein fyrir hvað eigi að segja heldur líka hvernig eigi að segja það.
Hrós, ekki fordæming
Uppátæki erfiðra barna eru oft hugvitssamleg, undarleg eða jafnvel brjálæðisleg. Þess vegna hættir foreldrum til að verða aðfinnslusamir, gera gys að þeim, húðskamma þau eða ráðast á þau í reiðikasti. En í Efesusbréfinu 6:4 fyrirskipar Biblían foreldrum, samkvæmt orðalagi Today‘s English Version, að ala börn sín upp í „kristilegum aga og fræðslu.“ Hvernig agaði Jesús þá sem voru á villigötum? Agi hans fólst í fræðslu, þjálfun og kennslu og var í senn sanngjarn og ákveðinn. Ögun er ákveðið ferli, fræðsluaðferð sem felst í margfaldri endurtekningu, einkum þegar börn eiga í hlut. — Sjá greinina „The Bible’s Viewpoint . . . ‚The Rod of Discipline‘ — Is It Out-of-Date?“ í Vaknið! (enskri útgáfu) 8. september 1992.
Viðeigandi agi skapar traust, hlýju og stöðugleika, og þess vegna ætti að láta skýringar fylgja nauðsynlegri ögun. Í barnauppeldi eru ekki til neinar skyndilausnir sem hrífa á stundinni vegna þess að börn læra smám saman og það tekur tíma. Gott uppeldi hvaða barns sem er kostar heilmikla umhyggju og ást, ómældan tíma og vinnu — ekki síst þegar erfitt barn á í hlut. Kannski er gott að muna eftirfarandi lífsreglu: „Segðu það sem þú meinar, meinaðu það sem þú segir og gerðu það sem þú segist ætla að gera.“
Eitthvað það erfiðasta við að annast börn með hegðunarvandamál er sú gríðarlega athygli sem þau þurfa. Allt of oft er athyglin, sem þau fá, neikvæð en ekki jákvæð. Vertu fljótur til að taka eftir, hrósa eða umbuna fyrir góða hegðun eða vel unnið verk. Það er mjög hvetjandi fyrir barnið. Í fyrstu getur þér fundist þú vera að gera heldur mikið úr hlutunum, en viðleitnin er vel þess virði. Börn þurfa að fá dálitla en tafarlausa umbun.
Reynsla föður af Greg
„Greg, sonur okkar, greindist með eftirtektarveilu samhliða ofvirkni þegar hann var fimm ára og var í forskóla. Við fórum þá til læknis sem var sérfræðingur í þroskaferli barna. Hann staðfesti að Greg væri tvímælalaust eftirtektarveill og ofvirkur. Læknirinn sagði okkur: ‚Það er ekki honum að kenna og ekki heldur ykkur. Hann getur ekkert gert í því en það getið þið.‘
Við hugsum oft til þessara orða af því að þau minna okkur á að sem foreldrar berum við mikla ábyrgð á því að hjálpa syni okkar að takast á við eftirtektarveiluna og ofvirknina. Þennan sama dag gaf læknirinn okkur ýmis rit til að taka með heim og lesa og við teljum að þekkingin, sem við höfum aflað okkur síðastliðin þrjú ár, hafi reynst okkur heilladrjúg í því að rækja foreldraskyldur okkar við Greg.
Það er gríðarlega mikilvægt þegar maður elur upp eftirtektarveilt og ofvirkt barn að umbuna fyrir góða hegðun og vara við slæmri hegðun og refsa fyrir hana ef nauðsyn krefur. Því skipulegri og stefnufastari sem maður getur verið, þeim mun betri verður árangurinn. Þessar einföldu vinnureglur eru sennilega lykillinn að því að ala upp eftirtektarveilt og ofvirkt barn. En það er hægara sagt en gert af því að það þarf að fylgja þeim eftir svo mörgum sinnum á dag.
Stutt hlé eru eitthvert áhrifaríkasta verkfærið okkar. Þegar við gerum smáhlé á starfi og leik til að taka á slæmri framkomu veitum við líka umbun til að styrkja góða hegðun. Þessi styrking getur verið hrós, faðmlag eða jafnvel einhver smáhlutur eða sérréttindi. Við fórum í búð og keyptum límmiðaspjald. Efst á spjaldið skrifuðum við hvað væri boðleg hegðun. Í hvert sinn, sem við sjáum Greg hegða sér í samræmi við það, gefum við honum límmiða til að setja á spjaldið. Þegar spjaldið er fullt, til dæmis með 20 miða, fær hann verðlaun. Það er yfirleitt eitthvað sem honum finnst mjög skemmtilegt, til dæmis að fara í lystigarðinn. Það hjálpar af því að það hvetur hann til að hegða sér vel. Hann límir miðana á spjaldið og getur séð hvernig honum gengur og hve stutt hann á eftir í umbunina.
Önnur áhrifarík aðferð, sem við höfum fundið, er að gefa Greg valmöguleika. Í stað beinnar skipunar leyfum við honum að velja. Annaðhvort getur hann hegðað sér vel eða hann getur tekið eðlilegum afleiðingum þess að hegða sér illa. Það kennir honum að axla ábyrgð og taka réttar ákvarðanir. Ef eitthvert vandamál kemur upp aftur og aftur, svo sem að hegða sér illa úti í búð eða á veitingahúsi, getum við notað límmiðaspjaldið. Þannig sér hann kosti þess að hegða sér vel og við sýnum að við viðurkennum framfarir hans.
Fæstir gera sér grein fyrir að eftirtektarveila samhliða ofvirkni hefur áhrif á hæfni barns til að stjórna hegðun sinni og viðbrögðum. Margir halda að þessi börn geti stjórnað einbeitingu sinni og hegðun með því að leggja sig betur fram, og þegar þau gera það ekki er foreldrunum kennt um.
Eftirtektarveilt og ofvirkt barn er allsendis ófært um að sitja kyrrt í tvo klukkutíma á safnaðarsamkomu í ríkissalnum. Við gleymum aldrei hvernig Greg grét fyrir hverja einustu samkomu þegar hann var bara fimm ára og spurði okkur: ‚Er þetta löng samkoma eða stutt samkoma?‘ Hann grét mjög ákaft þegar tveggja stunda samkoma var framundan af því að hann vissi að hann gæti ekki setið kyrr svo lengi. Við verðum að taka tillit til kvillans og þeirra takmarka sem hann hefur í för með sér. Við vitum að Jehóva skilur kvillann betur en nokkur annar og það er okkur hughreysting. Greg er ekki á lyfjum þessa stundina og greindarþroski hans er eðlilegur.
Það heldur okkur gangandi að setja von okkar á Jehóva og einblína á nýja heiminn. Von okkar er nú þegar mikils virði fyrir Greg. Hann verður mjög spenntur og tárin koma jafnvel fram í augu hans þegar hann hugsar um hvernig Jehóva á eftir að losa hann við sjúkdóminn í paradís á jörð.“
[Rammi á blaðsíðu 25]
Þannig má umbuna fyrir góða hegðun
1. HRÓS — viðurkenning fyrir vel unnið verk; hrós fyrir góða hegðun samfara ást, faðmlögum og hlýlegum svipbrigðum.
2. LÍMMIÐASPJALD — á áberandi stað með litríkum límmiðum eða stjörnum til að hvetja til góðrar hegðunar.
3. LISTI YFIR GÓÐA HEGÐUN — góð og hrósunarverð afrek. Hvenær sem barnið gerir eitthvað vel, hve smávægilegt sem það er í fyrstu, skaltu skrifa það niður og lesa upp fyrir einhvern annan í fjölskyldunni.
4. HEGÐUNARMÆLIR — í samræmi við aldur barnsins má safna baunum eða sælgætismolum í krukku þegar barnið gerir eitthvað vel (áþreifanleg umbun). Markmiðið er að koma á punktakerfi til að umbuna barninu. Umbunin gæti falið í sér eitthvað sem fjölskyldan ætlar sér að gera hvort eð er, svo sem að fara í kvikmyndahús, á skauta eða borða á veitingahúsi. Í stað þess að segja barninu: „Við förum ekki ef þú hegðar þér illa,“ skaltu reyna: „Við förum ef þú hegðar þér vel.“ Lykillinn er sá að breyta neikvæðri hugsun í jákvæða og ætla hæfilegan tíma til að breytingin geti átt sér stað.
[Mynd á blaðsíðu 23]
Samræður geta stundum endað með upphlaupi.
[Mynd á blaðsíðu 24]
Þegar ákvarðanir eru teknar skaltu útskýra þær og framfylgja þeim.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Stoltur bætir hann nýjum límmiða á spjaldið sitt.