Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g95 8.4. bls. 29-30
  • Horft á heiminn

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Horft á heiminn
  • Vaknið! – 1995
  • Millifyrirsagnir
  • Hve margar fóstureyðingar?
  • Fyrstu æviárin skipta máli
  • Rusl á upplýsingahraðbrautinni
  • Besti staður í heimi?
  • Menntaðir rottubanar
  • „Öruggt kynlíf“ ekki öruggt fyrir konur
  • Heilaskokk
  • Ofveiði er að þurrausa höfin
  • Heilsuspillandi búskapur
  • Börn á sjónvarpslausri eyju
  • Egyptar eiga elsta veg með bundnu slitlagi
Vaknið! – 1995
g95 8.4. bls. 29-30

Horft á heiminn

Hve margar fóstureyðingar?

„Árlega eru framkvæmdar um 33 milljónir löglegra fóstureyðinga í heiminum, og ef öllum ólöglegum fóstureyðingum er bætt við verður heildartalan einhvers staðar á bilinu 40 til 60 milljónir,“ segir dagblaðið Clarín sem gefið er út í Búenos Aíres. „Sjötíu og sex af hundraði jarðarbúa eiga heima í löndum þar sem fóstureyðingar eru löglegar.“ Þau mannslíf, sem eytt er með fóstureyðingum, eru fleiri en sem nemur íbúatölu Argentínu og eru sambærileg við það að allir íbúar landa svo sem Bretlands, Egyptalands, Frakklands, Ítalíu, Suður-Afríku eða Tyrklands væru þurrkaðir út árlega. Talan er sambærileg við tölu fallinna þau sex ár sem síðari heimsstyrjöldin stóð sem var um 50 milljónir manna.

Fyrstu æviárin skipta máli

„Móttækileiki barns fyrir umheiminum er gríðarlega háður þeirri aðbúð sem það fær fyrir þriggja ára aldur og hefur síðan áhrif á taugaþroska þess, sjálfstraust og færni í að leysa vandamál hugvitssamlega,“ að sögn Tórontóblaðsins The Globe and Mail. „Börn, sem alast upp við bág kjör og slæmar félagslegar aðstæður, hafa minni möguleika á að vaxa upp sem nýtir og öfgalausir borgarar.“ Að sögn dr. Frasers Mustards, forstöðumanns Canadian Institute for Advanced Research, eru slík börn líklegri til að hætta í skóla en önnur börn og hafa tilhneigingu til að leysa vandamál með ofbeldi. „Þroski manns til að takast á við vandamál hefur gríðarleg áhrif á hæfnina til að aðlagast þjóðfélaginu,“ segir hann. Dagblaðið segir að rannsóknir Yale- og Montreal-háskóla sýni að „innihaldsrík samskipti foreldra við barnið séu geysimikilvæg fyrir líkams-, vitsmuna- og tilfinningaþroska barnsins.“

Rusl á upplýsingahraðbrautinni

Upplýsingahraðbrautin svonefnda, er kerfi tölvuneta sem býður tölvunotendum upp á að skiptast á upplýsingum, og hefur verið mikið hampað sem tækniundri. En hún hefur líka sína galla. Blaðamaðurinn Sean Silcoff hjá kanadíska dagblaðinu Globe and Mail greindi frá reynslu sinni á þeim tveim mánuðum sem hann notaði „hraðbrautina“ í rannsóknarskyni. Hann komst að þeirri niðurstöðu að hún sé „sjúskuð“ og „stráð sorpi vestrænnar menningar.“ Hann gat þess að það væru yfir 3500 „umræðuhópar“ á kerfinu sem hann notaði, margir helgaðir viðfangsefnum svo sem slúðri um stjörnur íþrótta og skemmtanalífs, ógeðslega smekklausum bröndurum og einskisverðum hégóma um vinsæla sjónvarpsþætti. Einn hópurinn fjallaði jafnvel um sjálfsmorðsaðferðir. Silcoff sagði: „Þjóðfélag, sem virðist vera sneisafullt af siðblindu og andfélagslegu fólki, er að misnota verkfæri sem gæti verið geysiöflugt.“

Besti staður í heimi?

Sameinuðu þjóðirnar hafa valið Kanada besta stað í heimi að búa á. „Þetta er í annað sinn sem Kanada er í efsta sæti af 173 löndum á þeim fimm árum sem stuðullinn hefur verið reiknaður út,“ segir The Toronto Star. Blaðið bætir við að þetta „merki þó ekki að Kanadamenn hafi notið mestra lífsgæða í heiminum.“ Af hverju er Kanada talið besti staðurinn? Skýrslan, sem unnin var af Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna, flokkar lönd eftir þrem atriðum samanlögðum: meðaltekjum, menntun og lífslíkum. Kanadamenn voru í sjötta sæti yfir langlífustu þjóðir heims með 77,2 ára meðallífslíkur. Kanada var meðal efstu þjóða þegar miðað var við fé sem varið er til mennta- og heilbrigðismála, og eins þegar litið var til dæmis á sjónvarps- og bifreiðaeign.

Menntaðir rottubanar

Þegar Bombay-borg auglýsti eftir 76 rottubönum kom upp vandamál. „Meirihluti þeirra ríflega 40.000, sem sóttu um störfin, eru háskólamenntaðir, innritaðir í háskóla eða hafa stundað háskólanám um tíma, enda þótt menntunarkrafan fyrir rottubana sé bara barnaskólanám,“ segir dagblaðið Indian Express. „Hvernig er hægt að skipa háskólagenginn mann í starf rottubana?“ spurði opinber embættismaður. Rottur eru leitaðar uppi að næturlagi og síðan drepnar með kylfu og fást 100 rúpíur (rétt liðlega 200 ÍSK) fyrir hverjar 25 nýdrepnar rottur. Nú er verið að reyna að finna „betri ráðningarleið.“ En þetta er ekki eina vandamálið sem borgaryfirvöld standa frammi fyrir. Þau eiga líka í trúarlegum vanda. Fylgismenn Jainatrúarinnar, auk annarra sem eru andvígir dýradrápi, hafa mútað starfsmönnum til að þyrma rottunum af mannúðarástæðum.

„Öruggt kynlíf“ ekki öruggt fyrir konur

Læknar eru farnir að efast um viskuna í hinum mikla áróðri fyrir „öruggu kynlífi“ og smokkanotkun til varnar gegn alnæmi. Í skýrslu, sem birtist í Parísarblaðinu Le Figaro, segir að enda þótt smokkar veiti karlmönnum vissa vernd gegn alnæmi verndi þeir konur miklu síður, af því að smitaður rekkjunautur getur hæglega smitað úthlið smokksins. Konum er líka sérstaklega hætt við smiti meðan tíðablæðingar standa yfir og eins ef þær eru með einhvers konar sýkingu eða sár í leggöngum. Samkvæmt talnaskýrslum virðast smokkar nú veita konum innan við 69 prósent vernd gegn alnæmissmiti. Læknir sagði um þennan lækkaða „öryggisstuðul“: „Hvað yrði sagt um flugvél sem hefði aðeins 69 prósent líkur á að farast ekki á árinu?“

Heilaskokk

„Lélegt minni er yfirleitt ekki forlögunum að kenna heldur ónógri þjálfun,“ segir DAK Magazin, þýskt sjúkratryggingatímarit. Líkt og vöðvar rýrna við notkunarleysi, eins stirðnar heilinn og geymir minni upplýsingar ef hann fær litla æfingu. Er þetta aðeins vandamál aldraðra? Því fer fjarri! „Þar eð okkur er oft gert auðvelt að hugsa, eða við þurfum þess alls ekki,“ segir tímaritið, eiga jafnvel börn og unglingar á hættu að minnið verði slappt ef þeir halda huganum ekki almennilega uppteknum. Hvað getur hjálpað? Tímaritið mælir með heilaskokki til að örva hugann og minnið, svo sem að leysa talna- og stafaþrautir. Krossgátur geta einnig komið að gagni.

Ofveiði er að þurrausa höfin

„‚Það er nægur fiskur í sjónum‘ segir máltækið. En það er rangt,“ að sögn The Economist. „Gengið hefur verið of hart að gnóttum hafsins.“ Sjávaraflinn í heiminum hefur farið minnkandi frá því hann náði hámarki árið 1989. Ástæðan er einföld: „Of lítill fiskur hefur verið skilinn eftir í sjónum til að viðhalda hrygningarstofnum. Sjómenn eru farnir að lifa á höfuðstólnum og eyða upp þeirri auðlind sem ætti að gefa af sér afla handa þeim.“ Að sögn Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna eru 13 af 17 helstu úthafsfiskimiðum heims illa á vegi stödd — og þar af 4 talin uppurin. Háþróuð tækni — svo sem sónar og gervihnattafjarskipti — hafa gert sjómönnum kleift að finna fisk jafnvel á afskekktustu slóðum og rata aftur á góða veiðistaði. Gríðarstórir verksmiðjutogarar á stærð við fótboltavöll og með enn stærri troll, hala inn ókjör af fiski. Stjórnvöld bera ábyrgðina á þessu bruðli, segir The Economist, þar eð 90 af hundraði sjávarafla í heiminum fæst innan 200 sjómílna frá ströndum sumra landa, á svæðum sem þær telja sig hafa lögsögu yfir. Stjórnvöld halda fiskveiðiflotum annarra þjóða utan fiskveiðilögsögunnar en leyfa heimaflotanum að stækka, og styrkja jafnvel veiðarnar með fjárframlögum.

Heilsuspillandi búskapur

Sveppaeitur, illgresiseyðir og skordýraeitur hafa dregið úr uppskerumissi bænda. En að sögn Alþjóðavinnumálastofnunarinnar má árlega rekja um 40.000 dauðsföll meðal landbúnaðarverkamanna beinlínis til efna sem notuð eru við akuryrkju. Talið er að þessi efni hafi mjög heilsupillandi áhrif á 3,5 til 5 milljónir manna að auki.

Börn á sjónvarpslausri eyju

St. Helena, smáeyja um þriðjungi vegar milli Vestur-Afríku og Suður-Ameríku, státar af „einhverjum best siðuðu börnum í heimi,“ að sögn Lundúnablaðsins The Times þar sem vitnað var í skýrslu í Support for Learning, virtu tímariti um menntamál. Höfundur skýrslunnar, dr. Tony Charlton, komst að raun um að einungis 3,4 af hundraði 9 til 12 ára barna á eynni áttu við alvarleg hegðunarvandamál að stríða. The Times sagði að þetta sé „lægsta hlutfallstala sem skráð hefur verið fyrir nokkurn aldurshóp nokkurs staðar í heiminum.“ Og hver er ástæðan? Einn möguleiki er mjög aðgengileg menntun í háum gæðaflokki handa börnunum. En Charlton hyggst rannsaka aðra hugsanlega ástæðu. Þangað til gervihnattasambandi var komið á nú fyrir skömmu hafði aldrei verið sent út sjónvarpsefni á eynni. Búist er við að innan þriggja ára verði 1300 af þeim 1500 fjölskyldum, sem búa á eynni, búnar að eignast sjónvarpstæki. Charlton hyggst bráðlega rannsaka þær breytingar sem það á eftir að hafa í för með sér fyrir börnin á eynni.

Egyptar eiga elsta veg með bundnu slitlagi

Jarðfræðingar hafa kortlagt 12 kílómetra langan vegarkafla með bundnu slitlagi í eyðimörkinni 69 kílómetra suðvestur af Kaíró. Þessi ævaforni vegur, sem lagður er hellum úr kalksteini, sandsteini og jafnvel einstaka steinrunnu tré, hefur verið aldursgreindur frá um það bil 2600 til 2200 f.o.t. eða frá dögum gamla ríkisins. Meðalbreidd hans er tveir metrar. Vegurinn var lagður til að auðvelda flutning stórgrýtis úr mikilli basaltnámu að strönd forns stöðuvatns sem tengdist Níl þegar flóð var í fljótinu. Stöðuvatnið er löngu horfið. Valdhafar Egyptalands til forna sóttust eftir dökkum steininum í steinlíkkistur og til að leggja í gólf útfararmusteranna í Gisa. „Hér er enn einn tæknisigurinn sem eigna má Forn-Egyptum,“ segir dr. James A. Harrell, jarðfræðiprófessor. Hellulagður vegur á Krít, ekki eldri en frá 2000 f.o.t., var áður talinn elsti vegur í heimi með bundnu slitlagi.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila