Hvert stefnum við?
ÍMYNDAÐU þér að þú sért á ferð um ókunnar slóðir. Þú ættir að vera kominn á áfangastað, en götuskilti, bæjanöfn og kennileiti eru önnur en þú áttir von á. ‚Hvar er ég?‘ hugsarðu með þér. ‚Er ég á réttri leið?‘
Heimur nútímans stendur í svipuðum sporum. Mannkynið er á ókunnum slóðum þar sem það horfir upp á áður óþekkta þjóðfélagsupplausn. Með hliðsjón af öllum þeim vísinda- og tækniframförum, sem hafa átt sér stað, ættum við að búa í betri heimi núna en raun ber vitni. Í bókinni Great Ages of Man segir ritstjórinn, Russell Bourn, að fyrst núna á 20. öldinni hafi „hin aldagamla hugsjón um heimsbræðralag verið raunhæfur möguleiki.“
En mannkynið hefur ekki náð þeim áfangastað að sameinast í ‚heimsbræðralagi.‘ Hin fyrirheitnu kennileiti — fjárhagsöryggi, nægur matur handa öllum, bætt heilsa og hamingjuríkt fjölskyldulíf — finnast hvergi. „Á marga vegu,“ segir bókin Milestones of History, „hafa vísindaframfarir verið virkjaðar beint til tortímingar og grimmdarverka.“
Já, mannkynið er rammvillt í framandi umhverfi, víðsfjarri þeim friði og öryggi sem menn sáu fyrir sér um síðustu aldamót. Margir spyrja því til vegar: „Hvernig lentum við í þessari aðstöðu? Hvert stefnir þessi heimur? Lifum við á hinum síðustu dögum?“
Til að svara þessum spurningum verðum við fyrst að ganga úr skugga um hvar við erum stödd. Sumir segja að við stöndum á þröskuldi nýrrar heimsskipanar; aðrir að við römbum á barmi tortímingar. Biblían hjálpar okkur eins og vegakort að sjá hvar við erum stödd og hvert við stefnum.
Á ferðalögum er mikilvægt glöggva sig á staðsetningu sinni eftir skiltum og kennileitum. Biblían talar líka um viss teikn — heimsástand og viðhorf — sem áttu að einkenna það tímabil mannkynssögunnar sem kallast ‚hinir síðustu dagar.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Þessi nafngift, ‚síðustu dagar,‘ táknar ekki endalok hins bókstaflega himins og jarðar. Hún táknar ‚endalok heimskerfisins‘ eða „endi aldarinnar“ eins og tvær biblíuþýðingar orða það. — Matteus 24:3, NW, Today’s English Version.
„Á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir,“ skrifaði kristni postulinn Páll. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Vissulega mætti ætla að þetta gæti átt við önnur tímabil sögunnar því allar aldir hafa fengið sinn skerf af þjáningum. Hvaða ástæðu höfum við þá til að ætla að þessi orð eigi einmitt við okkar daga?
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 3]
Tom Haley/Sipa Press