Garðurinn er okkur kær
FINNST þér gott að leita skjóls fyrir erli og skarkala umheimsins í fögrum og friðsælum garði? Nýturðu þess að fara í nestisferð með fjölskyldunni eða gönguferð með vini um kyrrlátan lystigarð með grasflötum, blómum, trjám, runnum og tjörnum? Já, fallegir garðar eru friðsælir, sefandi, hressandi og jafnvel læknandi!
Enda þótt sumir vilji síður hafa garð um að hugsa, ef til vill sökum tímaleysis, höfum við öll yndi af litum, angan, klið og ávöxtum garðsins. Thomas Jefferson — sem var arkitekt, vísindamaður, lögfræðingur, uppfinningamaður og forseti Bandaríkjanna — unni garðinum. Hann skrifaði: „Ekkert starf þykir mér jafnunaðslegt og ræktun jarðar. . . . Enn er ég hrifinn af garðinum. Þótt gamall sé er ég ungur garðyrkjumaður.“
Margir taka undir með honum. Milljónir manna streyma á ári hverju í hina frægu garða heims — Kew-garðana (Hina konunglegu grasagarða) á Englandi, garðana í Kyótó í Japan, garðana við Versalahöll í Frakklandi og Longwood-garðana í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum, svo fáeinir séu nefndir. Í flestum löndum heims má finna borgar- og bæjarhverfi þar sem tré vaxa meðfram götum og húsin eru umkringd runnum, trjám og litríkum blómum — eins og í agnarsmárri paradís.
Garðar eru heilsubætandi
Menn hafa veitt því athygli að snerting við náttúruna er oft heilsubætandi fyrir fólk, jafnvel þótt snertingin sé ekki önnur en sú að sjá blóm, tré, runna og fugla út um gluggann. Af þessum sökum var komið fyrir garði á þaki spítala eins í New York. „Viðtökurnar voru stórkostlegar“ að sögn talsmanns spítalans. „[Garðurinn] hefur aukið baráttuþrek bæði sjúklinga og starfsmanna. . . . Við sjáum að hann býður upp á heilmikla lækningamöguleika.“ Rannsóknir sýna að fólk getur haft bæði líkamlegt, andlegt og tilfinningalegt gagn af því að láta skilningarvitin gæða sér á náttúrunni.
Og andlega sinnuðum manni getur fundist hann standa nær Guði þegar hann er umkringdur handaverkum hans. Þessi áhrif garðsins má rekja aftur til fyrsta garðsins á jörð, aldingarðsins Eden þar sem Guð átti sín fyrstu samskipti við manninn. — 1. Mósebók 2:15-17; 3:8.
Ást manna á görðum er almenn, og það er þýðingarmikið eins og við munum sjá. En áður en við ræðum nánar um það hvetjum við þig til að „ganga“ um nokkra garða sögunnar til að kanna hve djúpt þrá allra manna eftir paradís ristir.