Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g97 8.7. bls. 4-7
  • Litið við í frægum görðum fyrr og nú

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Litið við í frægum görðum fyrr og nú
  • Vaknið! – 1997
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Garðar fortíðar
  • Frá arabískum görðum til enskra
  • Landslagsgarðar Austurlanda
  • Almenn ást
  • Garðurinn er okkur kær
    Vaknið! – 1997
  • Paradís á jörð – ímyndun eða veruleiki?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (almenn útgáfa) – 2017
  • Hvar er paradísin sem talað er um í Biblíunni?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
Vaknið! – 1997
g97 8.7. bls. 4-7

Litið við í frægum görðum fyrr og nú

FYRSTU kynni mannsins af paradís voru í garði sem hét Eden, ef til vill í nánd við Vanvatn í Tyrklandi. Þar rann á sem kvíslaðist í fjórar aðrar er vökvuðu garðinn sem Adam og Eva áttu að ‚yrkja og gæta.‘ Það hlýtur að hafa verið unaðslegt að annast garð þar sem uxu „alls konar tré, sem voru girnileg á að líta og góð að eta af.“ — 1. Mósebók 2:8-15.

Eden var fullkomið heimili. Adam og Eva og afkomendur þeirra áttu að stækka garðinn, eflaust með hina undurfögru, upphaflegu hönnun Guðs að fyrirmynd. Smám saman yrði öll jörðin paradís þar sem byggi hæfilegur fjöldi fólks. En vísvitandi óhlýðni fyrstu foreldra okkar varð þess valdandi að þau voru borin út úr þessum griðastað. Því miður fæddust allir aðrir menn utan þessa heimilis í Eden.

En skaparinn gerði mannkynið til að lifa í paradís. Það var því eðlilegt að ókomnar kynslóðir skyldu reyna að skapa sér umhverfi sem líktist henni.

Garðar fortíðar

Hengigarðar Babýlonar hafa verið rómaðir sem eitt af undrum veraldar til forna. Nebúkadnesar konungur lét gera þá fyrir meira en 2500 árum handa medískri konu sinni er þráði skóga og hæðir heimalands síns. Þetta var 22 metra há stallabygging með bogahvelfingum, miklum gróðri og nægum jarðvegi handa stórum trjám. Líklega hefur eitthvað dregið úr heimþrá drottningar við það að ganga um þessa gróðurvin.

Skrúðgarðyrkja var mikið stunduð í hinum frjósama Nílardal í Egyptalandi. Bókin The Oxford Companion to Gardens segir: „Elstu garðamyndir í heimi eru frá Egyptalandi sem á sér óvenjulanga . . . garðyrkjuhefð.“ Til er landslagsuppdráttur af garði egypsks embættismanns í Þebu frá því um 1400 f.o.t. sem sýnir tjarnir, trjágöng og skála. Musterisgarðar voru næstir konungagörðum að grósku og íburði. Þar voru trjálundir, blóm og jurtir sem vökvaðar voru með áveituskurðum úr tjörnum og vötnum með fugli, fiski og vatnaliljum. — Samanber 2. Mósebók 7:19.

Persar létu snemma til sín taka í garðyrkju. Svo heillandi voru garðar Persíu og Egyptalands að sigursælar hersveitir Alexanders mikla voru vel birgar af fræjum, jurtum og hugmyndum er þær sneru heim til Grikklands á fjórðu öld f.o.t. Í Aþenu söfnuðu Aristóteles og Þeófrastos, nemandi hans, jurtategundunum og komu á fót grasagarði í því skyni að rannsaka og flokka plöntur. Margir auðugir Grikkir áttu mikla garða líkt og Egyptar og Persar höfðu átt.

Rómverskir borgarbúar blönduðu saman húsum og görðum í hinu takmarkaða rými borgarinnar. Auðmenn gerðu sér tilkomumikla lystigarða á sveitasetrum sínum. Harðstjórinn Neró var meira að segja svo áfjáður í eigin Edengarð að hann lét miskunnarlaust bera út hundruð fjölskyldna, reif hús þeirra og gerði sér 50 hektara einkagarð umhverfis höll sína. Síðar, um árið 138, náði landslagsarkitektúr Rómverja hátindi á sveitasetri Hadríanusar keisara í Tívólí. Þar voru garðar, tjarnir, stöðuvötn og gosbrunnar á 243 hektara landi.

Ísraelsmenn til forna áttu sér líka einkagarða og lystigarða. Gyðingasagnfræðingurinn Jósefus segir frá unaðslegum lystigörðum með mörgum lækjum á stað sem nefndist Etam, um 13-16 kílómetra frá Jerúsalem. Garðarnir í Etam voru kannski hluti þeirra ‚jurtagarða, aldingarða, vatnstjarna og skóga‘ sem Biblían segir að Salómon hafi ‚gert sér.‘ (Prédikarinn 2:5, 6) Á Olíufjallinu, rétt utan við Jerúsalem, var Getsemanegarðurinn sem Jesús Kristur gerði frægan. Hann átti sér þar afdrep þar sem hann gat kennt lærisveinum sínum í ró og næði. — Matteus 26:36; Jóhannes 18:1, 2.

Frá arabískum görðum til enskra

Þegar arabískir herir fóru til austurs og vesturs á sjöundu öld gengu þeir líka fram á garða Persíu. (Samanber Esterarbók 1:5.) „Arabar komust að raun um að persnesku garðarnir voru mjög áþekkir paradísinni sem hinum trúföstu var heitið í Kóraninum,“ segir Howard Loxton. Dæmigerður arabískur garður, allt frá görðum Mára á Spáni til garðanna í Kasmír, átti sér persneska fyrirmynd. Fjórir lækir skiptu garðinum í fernt en sameinuðust í tjörn eða gosbrunni í honum miðjum, sem minnir óneitanlega á árnar fjórar í Eden.

Við Dalvatn í hinum fagra Kasmírdal á Norður-Indlandi gerðu mongólskir stjórnendur sautjándu aldar sér meira en 700 lystigarða. Innan um stórkostlega litadýrðina voru hundruð gosbrunna, stalla og fossa. Á svarta marmaraskálanum, sem Shah Jahan (er byggði Taj Mahal) reisti á strönd Dalvatns, stendur enn: „Ef til er paradís á jörð er hún hér, er hún hér, er hún hér.“

Fáeinum öldum áður viku miðaldir í Evrópu fyrir endurreisnarstefnu 14. aldar. Garðræktarhefðir Rómverja, sem voru fótum troðnar þegar miðaldir gengu í garð á fimmtu öld, tóku að blómstra á ný, þessu sinni undir handarjaðri kirkjunnar. Í augum kristna heimsins var garðurinn ‚stundleg paradís.‘ Á uppdrætti af klaustri frá níundu öld eru sýndir tveir garðar sem nefndir eru „Paradís.“ Garðar kristna heimsins urðu fljótlega stærri og tilkomumeiri, en í stað þess að endurspegla andlegar hugsjónir urðu margir þeirra tákn auðs og valda.

Þegar Karl 8. Frakklandskonungur lagði undir sig Napólí á Ítalíu árið 1495 skrifaði hann heim: „Þið mynduð ekki trúa hve fagra garða ég á í þessari borg . . . Ekkert virðist vanta nema Adam og Evu til að gera hana að jarðneskri paradís.“ En hefði Karl lifað fram á 17. öld hefði hann séð hina miklu garða Loðvíks konungs 14. á franskri grund. Bókin The Garden staðhæfir að garðar Versalahallar „geti enn talist stærstu og fegurstu garðar í heimi.“

En endurreisnin skilgreindi paradís upp á nýtt: náttúran á að vera undirgefin hinum upplýsta manni sem á að koma röð og reglu á garðinn með því að hindra allan villigróður. Tré og blóm voru gróðursett eftir nákvæmum rúmfræðilínum. Formklipping Rómverja — sú list að móta tré og runna með klippingu og bindingu — hlaut glæsilega endurreisn.

Á 18. og 19. öld urðu landkönnunar- og kaupskipasiglingar til þess að hinn vestræni heimur kynntist nýjum plöntum og garðyrkjuhugmyndum. Englendingar tóku til hendinni við garðahönnun. Alfræðibókin The New Encyclopædia Britannica segir: „Á 18. öld vaknaði maðurinn betur til vitundar um náttúruna sem hann tilheyrði. Í stað þess að fjötra náttúruna eftir rúmfræðireglum tók hann að laga líf sitt að náttúrunni.“ Menn á borð við William Kent og Lancelot Brown sköruðu fram úr í landslagsarkitektúr. Brown skipulagði meira en 200 landareignir á Englandi. Tveir menn, sem urðu forsetar Bandaríkjanna, þeir Thomas Jefferson og John Adams, ferðuðust um England árið 1786 til að kynna sér enska garða.

Landslagsgarðar Austurlanda

Kínversk garðyrkjuhefð er jafnrík í menningu Austurlanda og egypskar, grískar og rómverskar hefðir í menningu Vesturlanda. Til forna trúðu Kínverjar að allir hlutir í náttúrunni, jafnt ár sem klettar og fjöll, væru líkamnaðir andar og skyldu því virtir. Síðar gengu taóismi, Konfúsíusartrú og búddhatrú yfir landið og sköpuðu sínar eigin garðyrkjuhefðir.

Handan Japanshafs þróuðu japanskir garðyrkjumenn sinn eigin stíl þar sem lögð er meiri áhersla á form en liti og hver hlutur er nákvæmlega staðsettur. Í því skyni að fanga á takmörkuðu svæði fagurfræði og fjölbreytni náttúrunnar staðsetur garðyrkjumaðurinn steina og plöntur af nákvæmni og snyrtir plöntur vandvirknislega. Það má sjá af ræktun dvergtrjáa sem haldið er smávöxnum í nákvæmu formi og hlutföllum, eða jafnvel heilla lunda með slíkum trjám.

Enda þótt stíllinn sé nokkuð ólíkur vestrænum görðum endurspegla garðar Austurlanda einnig paradísarþrá mannsins. Wybe Kuitert, sem er sérfræðingur í sögu japanskra garða, segir til dæmis að á Heian-tímabilinu í Japan (794-1185) hafi garðyrkjumenn freistað þess að kalla fram andrúmsloft „paradísar á jörð.“

Almenn ást

Jafnvel meðal ættflokka veiðimanna og safnara, sem búa í „náttúrlegum“ görðum, það er að segja frumskógum og gresjum, er ástin á garðinum almenn. Alfræðibókin Britannica segir að meðal „Asteka í Mexíkó og Inka í Perú hafi landvinningamennirnir fundið margbrotna garða með hjöllóttum hæðum, lundum, uppsprettum og skrauttjörnum . . . ekki ósvipað görðum samtíðarinnar á Vesturlöndum.“

Já, hvað endurspegla hinir fornu trjálundir meðfram Níl, landslagsgarðar Austurlanda og almennings- og grasagarðar nútímans? Þrá mannsins eftir paradís. Rithöfundurinn Terry Comito segir um þennan stöðuga „paradísarsöknuð“: „Okkur finnst við eiga heima í garðinum.“ Og hvaða maður vildi ekki geta sagt: ‚Heimili mitt er eins og Edengarður‘? En er Edengarður um víða veröld — ekki aðeins handa ríkum — bara draumsýn eða verður hann að veruleika í framtíðinni?

[Myndir á blaðsíðu 7]

Hugmynd listamanns um hengigarða Babýlonar.

[Myndir á blaðsíðu 7]

Sígildur japanskur garður.

[Myndir á blaðsíðu 7]

Versalir í Frakklandi.

Alla mannkynssöguna hafa menn þráð paradís.

[Rétthafi]

Ríkisferðaskrifstofa Frakklands/Rosine Mazin

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila