Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g97 8.7. bls. 11-15
  • Kynferðisleg misnotkun barna — heimsvandamál

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Kynferðisleg misnotkun barna — heimsvandamál
  • Vaknið! – 1997
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Sumar orsakirnar
  • Hverjir eru þeir?
  • Trúarbrögðin eiga hlut að máli
  • Hvað er til ráða?
  • Eina lausnin
  • Að vernda börnin
    Vaknið! – 2007
  • Ræðið um kynferðismál við börnin ykkar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
  • Að fræða barnið um kynferðismál
    Vaknið! – 2016
  • Hvernig geta foreldrar frætt börnin um kynferðismál?
    Biblíuspurningar og svör
Sjá meira
Vaknið! – 1997
g97 8.7. bls. 11-15

Kynferðisleg misnotkun barna — heimsvandamál

Eftir fréttaritara Vaknið! í Svíþjóð

Þjóðfélagið skelfur undan óhugnanlegri misnotkun barna sem er umfangsmeiri og grófari en menn gátu ímyndað sér til skamms tíma. Fyrir nokkru hittust fulltrúar 130 þjóða í Stokkhólmi á fyrstu ráðstefnu um kynferðislega misnotkun barna í gróðaskyni, til að ræða hvað hægt væri að gera til að vinna gegn þessu vandamáli. Fréttaritari Vaknið! í Svíþjóð var einnig viðstaddur.

ÞEGAR Magdalen var 14 ára var hún tæld til að vinna sem „framreiðslustúlka“ á bjórkrá í Manílu á Filippseyjum. Í verunni fólst starf hennar í því að fara með viðskiptavini krárinnar inn í lítið herbergi og afklæðast svo að þeir gætu misnotað hana kynferðislega. Að meðaltali voru þetta 15 karlmenn á kvöldi og 30 á laugardögum. Stundum, þegar hún sagðist ekki þola þetta lengur, neyddi framkvæmdastjórinn hana til að halda áfram. Hún var útkeyrð, niðurdregin og vansæl þegar „vinnudeginum“ lauk hjá henni, oft um fjögurleytið á nóttu.

Sareoun var munaðarlaus drengur í Pnom Pen í Kambódíu. Hann var með sárasótt og var þekktur fyrir að ‚fara út‘ með útlendingum. Hann fékk að búa í pagóðu einni þar sem fyrrverandi munkur ‚annaðist‘ hann. En þessi maður misnotaði drenginn kynferðislega og falbauð útlendingum hann til kynmaka. Þegar vistarverur Sareouns í pagóðunni voru rifnar settist hann að hjá frænku sinni en var eftir sem áður neyddur til að starfa á götunni.

Þetta eru aðeins tvö dæmi um hið óhugnanlega vandamál sem fjallað var um síðla á síðasta ári á heimsráðstefnunni um kynferðislega misnotkun barna í gróðaskyni. Hve útbreitt er þetta vandamál? Hundruð þúsunda barna eiga hlut að máli — milljónir segja sumir. Einn ráðstefnufulltrúi lýsti vandanum í hnotskurn: „Börn eru keypt og seld til kynferðislegra nota eins og verslunarvara. Verslað er með þau innanlands og utan líkt og smyglvarning, þau eru höfð í haldi í vændishúsum og neydd til að láta fjölmennan viðskiptamannahóp misnota sig.“

Í setningarræðu ráðstefnunnar stimplaði forsætisráðherra Svíþjóðar, Göran Persson, þessa misnotkun ‚grimmilegasta og viðurstyggilegasta glæp sem hugsast gæti.‘ Fulltrúi Sameinuðu þjóðanna talaði um hana sem „árás á börn úr öllum áttum . . . , andstyggilegasta og fyrirlitlegasta mannréttindabrot sem hægt væri að ímynda sér.“ Margir tóku í sama streng úr ræðustóli og lýstu viðbjóði sínum á kynferðislegri misnotkun barna er fjallað var um umfang, eðli, orsakir og áhrif hennar.

„Umfangið er alþjóðlegt, áhrifin vara frá einni kynslóð til annarrar,“ að sögn heimildarmanns nokkurs. Annar sagði: „Talið er að ein milljón barna bætist við hinn ólöglega kynlífsmarkað á ári hverju og veltan nemi milljörðum dollara.“ Og hver eru áhrifin? „Sæmdartilfinning, sjálfsmynd og sjálfsvirðing barnanna spillist og þau verða ófærari um að treysta öðrum. Líkams- og tilfinningaheilsu þeirra er stefnt í voða, réttindi þeirra brotin og framtíð þeirra teflt í tvísýnu.“

Sumar orsakirnar

Hvað veldur því að þetta vandamál hefur vaxið svo gríðarlega sem raun ber vitni? Sagt var að sum barnanna séu „þvinguð út í vændi aðstæðna vegna, þar sem það sé leið til að komast af á götunni, draga björg í bú handa fjölskyldunni eða til að þéna fyrir fötum og varningi. Önnur láta lokkast af auglýsingaflaumi fjölmiðla er sýna fólk sem á og nýtur efnislegra hluta.“ Og sumum er rænt og þau neydd til að stunda vændi. Hin hraða siðferðishnignun um heim allan, svo og almenn vonleysistilfinning, var einnig nefnd til sögunnar.

Margar stúlkur og drengir lenda í vændi vegna þess að þau sæta misnotkun og illri meðferð heima fyrir — ofbeldi og sifjaspell hrekur þau á vergang. Á götunni stafar þeim hætta af barnaníðingum og fleirum, jafnvel einstaka lögreglumönnum að því er virðist. Í skýrslu um vandann, sem nefnist Kids for Hire, er sagt frá sex ára stúlku í Brasilíu sem Katia heitir. Þegar lögregluþjónn handsamaði hana neyddi hann hana til ósæmilegra athafna og hótaði að drepa fjölskyldu hennar ef hún segði yfirmanni hans frá. Næsta dag kom hann með fimm aðra karlmenn sem allir vildu fá hana til þess sama.

Umboðsmaður barna í Svíþjóð sagði ráðstefnugestum: „Þegar rannsakað er hvað valdi barnavændi kemur ótvírætt í ljós að [kynlífs-] ferðamennska er ein af helstu orsökunum.“ Í skýrslu einni segir: „Hin ótrúlega aukning barnavændis á síðastliðnum tíu árum er bein afleiðing ferðaþjónustunnar. Barnavændi er það nýjasta sem notað er í þróunarlöndunum til að lokka að ferðamenn.“ „Kynlífsferðir“ frá Evrópu, Bandaríkjunum, Japan og öðrum löndum hafa í för með sér mikla eftirspurn eftir barnavændi um heim allan. Evrópskt flugfélag notaði teiknimynd af barni í eggjandi stellingum til að selja kynlífsferðir. Ferðaskrifstofur skipuleggja kynlífsferðir handa þúsundum manna ár hvert.

Á löngum lista yfir orsakir vandans er einnig nefnd ný tækni við alþjóðlega kynningu barnavændis. Internetið, ásamt annarri skyldri tölvutækni, er sagt vera stærsti, einstaki klámmiðill heims. Ódýr myndbandstækni hefur einnig greitt fyrir framleiðslu barnakláms.

Hverjir eru þeir?

Margir sem gera sig seka um kynferðislega misnotkun barna eru haldnir svonefndri barnagirnd eða barnahneigð. Að sögn umboðsmanns barna í Svíþjóð „eru það ekki endilega rosknir, subbulegir menn í regnfrakka eða ofbeldissinnaðar karlmennskuímyndir. Dæmigerður barnaníðingur er velmenntaður, miðaldra maður, og hann vinnur gjarnan með börnum, til dæmis sem kennari, læknir, félagsráðgjafi eða prestur.“

Sænski ráðstefnuhópurinn nefndi sem dæmi Rosario, 12 ára stúlku á Filippseyjum sem varð fyrir kynferðisofbeldi af hendi læknis frá Austurríki er dró hana til dauða.

Carol Bellamy, framkvæmdastjóri Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna í Genf, segir um þessa 12 ára filippseysku stúlku: „Oft er það einmitt fullorðna fólkið, sem trúað er fyrir umönnun og vernd barnanna, sem leyfir og stundar þessa óþolandi iðju. Þetta eru kennarar, heilbrigðisstarfsmenn, lögregluþjónar, stjórnmálamenn og prestar sem nota orðstír sinn og völd til að misnota börn kynferðislega.“

Trúarbrögðin eiga hlut að máli

Fulltrúi rómversk-kaþólsku kirkjunnar á ráðstefnunni í Stokkhólmi lýsti yfir að misnotkun barna sé „svívirðilegasti glæpurinn“ og „stafi af djúpstæðri brenglun og bresti í gildismati.“ Kaþólska kirkjan hefur þó orðið fyrir alvarlegum áföllum vegna slíkrar háttsemi meðal sinna eigin presta.

Tímaritið Newsweek birti hinn 16. ágúst 1993 grein sem hét „Prestar og kynferðisofbeldi“ og fjallaði um „verstu hneykslismál meðal presta sem um getur í nútímasögu kaþólsku kirkjunnar í Bandaríkjunum.“ Þar sagði: „Enda þótt talið sé að lagðar hafi verið fram ásakanir á hendur 400 prestum síðan 1982 telja sumir kirkjunnar menn að allt að 2500 prestar hafi beitt börn eða unglinga kynferðisofbeldi. . . . Hneykslið hefur ekki aðeins kostað kirkjuna fé heldur líka orðið henni alvarlegur álitshnekkir — og kostað hana nokkuð af siðferðilegu valdi sínu.“ Önnur trúfélög víða um heim eru undir sömu sökina seld.

Ray Wyre, breskur ráðgjafi í kynferðisafbrotamálum, sagði á ráðstefnunni í Stokkhólmi frá tveim drengjum sem prestur hafði beitt hrottalegu kynferðisofbeldi. Annar drengjanna rekur nú stofnun fyrir fórnarlömb kynferðisofbeldis af hálfu presta; hinn er sjálfur kynferðisafbrotamaður.

Mettanando Bhikkhu, búddhískur fræðimaður frá Taílandi, skýrði frá því að „sumar trúariðkanir Búddhatrúarmanna eigi vissan þátt í þeirri kynferðislegu misnotkun barna í gróðaskyni sem stunduð sé á Taílandi. Í þorpum Taílands hafa munkar stundum notið góðs af fé sem skilar sér til samfélagsins frá börnum sem hafa verið þvinguð út í vændi.“

Hvað er til ráða?

Dr. Julia O’Connell Davidson við Leicester-háskóla á Bretlandi hvatti ráðstefnuna til að mótmæla þeim rökum sem barnaníðingar og þeir sem gera út á barnavændi bera fram til að réttlæta hátterni sitt. Þeir einblína á ímyndað lauslæti og siðleysi barnsins og halda því fram að það sé orðið siðspillt hvort eð er. Sumir færa fram þau röngu og brengluðu rök að athafnir þeirra séu skaðlausar og barnið njóti góðs af.

Umræðuhópur, sem fjallaði um kynlífsferðamennsku, mælti með að barist yrði gegn henni með fræðslu í skólum. Auk þess ættu upplýsingar, sem beindust gegn kynferðislegri misnotkun barna, að berast ferðamönnum alla ferðina — fyrir brottför, meðan á henni stæði og á áfangastað.

Umræðuhópur einn lagði til að þjóðum yrðu látnar í té viðmiðunarreglur um nýju samskiptatæknina í því skyni að útrýma efni tengdu kynferðislegri misnotkun barna. Rætt var um að koma á fót einni alþjóðastofnun til að samræma aðgerðir á þessum vettvangi. Annar umræðuhópur mælti með að barnaklám í tölvum og það eitt að hafa undir höndum barnaklám skyldi teljast glæpur í öllum löndum heims og kveðið skyldi á um refsingu í lögum.

Hvað geta foreldrar gert? Umræðuhópur, sem fjallaði um hlutverk fjölmiðla, lagði til að foreldrar tækju ábyrgð á því að vernda börn sín. Í niðurstöðu hans sagði: „Foreldrar geta bæði leiðbeint börnum um notkun fjölmiðla, veitt þeim viðbótarupplýsingar og skýringar, bent þeim á aðra fjölbreytta upplýsingamiðla til mótvægis við áhrif fjölmiðla og hjálpað þeim að þroska skilning sinn.“

Í sænskum sjónvarpsþætti um ráðstefnuna var lögð áhersla á að foreldrar þyrftu að hafa betri gát á börnum sínum og vara þau við hættum. Þar var ráðlagt: „Varið börnin ekki aðeins við ‚gömlum, siðlausum körlum‘ því þá halda þau . . . að þau eigi bara að gæta sín á rosknum, subbulegum körlum, en sá sem fremur svona glæp gæti hæglega verið í einkennisbúningi eða snyrtilegum jakkafötum. Varið þau heldur við ókunnugum sem sýna þeim óvenjulegan áhuga.“ Að sjálfsögðu ætti líka að vara börnin við hverjum þeim sem gerist nærgöngull við þau, þeirra á meðal fólki sem þau þekkja — og hvetja þau til að gera yfirvöldum viðvart.

Eina lausnin

Ráðstefnan í Stokkhólmi gat ekki bent á neinar leiðir til að komast fyrir orsakir kynferðislegrar misnotkunar á börnum, svo sem hina hröðu siðferðishnignun almennt; vaxandi eigingirni og ásókn í efnislega hluti; aukið virðingarleysi fyrir lögum sem sett séu til að vernda fólk gegn ranglæti; vaxandi skeytingarleysi fyrir velferð, reisn og lífi annarra; hraða hnignun fjölskyldufyrirkomulagsins; útbreidda fátækt vegna offjölgunar, atvinnuleysis, þéttbýlismyndunar og fólksflutninga; vaxandi andúð á útlendingum og flóttamönnum; sívaxandi framleiðslu og viðskipti með fíkniefni, og spillt trúarviðhorf, athafnir og hefðir.

Enda þótt kynferðisleg misnotkun barna sé óhugnanleg kemur slík vonska þeim ekki á óvart sem lesa Biblíuna af gaumgæfni. Hvers vegna? Vegna þess að við lifum nú tíma sem Biblían kallar ‚síðustu daga‘ og „örðugar tíðir.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 13) Er þá nokkuð undarlegt að siðspilling skuli hafa aukist stórum?

En Biblían bendir á einu lausnina á hinum gríðarlegu vandamálum heimsins — algera hreinsun sem alvaldur Guð stendur fyrir. Bráðlega sýnir hann mátt sinn og upprætir alla þá af jörðinni sem fylgja ekki réttlátum meginreglum hans og lögum: „Hinir hreinskilnu munu byggja landið [„jörðina,“ NW], og hinir grandvöru verða eftir í því. En hinir óguðlegu munu upprættir verða úr landinu.“ — Orðskviðirnir 2:21, 22; 2. Þessaloníkubréf 1:6-9.

Meðal annars verða allir þeir „upprættir“ sem koma börnum út í vændi, og eins spilltu fólki sem misnotar börn. Orð Guðs segir: „Hvorki munu saurlífismenn . . . , hórkarlar né kynvillingar [sem misnota líka drengi] . . . Guðs ríki erfa.“ (1. Korintubréf 6:9, 10) Biblían bætir við að ‚viðurstyggilegir . . . og frillulífismenn‘ deyi ‚hinum öðrum dauða‘ — tortímist fyrir fullt og allt. — Opinberunarbókin 21:8.

Guð mun hreinsa jörðina og koma á algerlega nýju og réttlátu heimskerfi, ‚nýjum himni og nýrri jörð.‘ (2. Pétursbréf 3:13) Í nýja heiminum, sem hann skapar, fá spilltir öfuguggar aldrei aftur að misnota sér sakleysingja. Og aldrei framar þurfa sakleysingjarnir að óttast ofbeldi eða misnotkun því að ‚enginn mun hræða þá.‘ — Míka 4:4.

[Innskot á blaðsíðu 12]

„Grimmilegasti og viðurstyggilegasti glæpur sem hugsast getur.“ — Forsætisráðherra Svíþjóðar.

[Innskot á blaðsíðu 13]

„Vikulega ganga 10 til 12 milljónir karlmanna á fund barnungra vændiskvenna.“ — The Economist, Lundúnum.

[Innskot á blaðsíðu 14]

Kynlífsferðamennska er ein helsta orsök kynferðislegrar misnotkunar barna í þróunarlöndunum.

[Rammi á blaðsíðu 13]

Kynlífsferðamennska — hvers vegna?

(Nokkrar ástæður fyrir því að ferðamenn hafa kynmök við börn.)

(1) Ferðamaðurinn er óþekktur sem losar hann undan hinum félagslegu hömlum sem eru heima fyrir.

(2) Þegar ferðamaðurinn hefur takmarkaðan eða engan skilning á tungumáli staðarins er auðvelt að láta hann halda að það sé viðtekinn siður þar að greiða barni fé fyrir kynmök, eða að það sé leið til að hjálpa börnum að ná sér upp úr fátækt.

(3) Kynþáttafordómar fá ferðamenn til að misnota sér aðra sem þeir álíta sér óæðri.

(4) Ferðamönnum finnst þeir vera ríkir þegar þeir komast að raun um að þeir hafa hæglega efni á kynlífsþjónustu í þróunarlöndunum.

[Rammi á blaðsíðu 15]

Umfang vandans í heiminum

(Eftirfarandi upplýsingar eru byggðar á mati samtaka, stofnana og stjórnvalda ýmissa landa.)

Austur-Evrópa: 100.000 götubörn. Mörg eru send í vændishús í Vestur-Evrópu.

Bandaríkin: Samkvæmt opinberum heimildum stunda meira en 100.000 börn vændi.

Brasilía: Að minnsta kosti 250.000 börn stunda vændi.

Filippseyjar: 40.000 börn stunda vændi.

Indland: 400.000 börn selja blíðu sína.

Kanada: Þúsundir unglingsstúlkna stunda vændi á vegum skipulagðra vændishringja.

Kína: Á bilinu 200.000 til 500.000 börn stunda vændi. Á síðustu árum hafa um 5000 kínverskar stúlkur verið tældar yfir landamærin og seldar sem vændiskonur í Mýanmar.

Kólumbía: Tala barna, sem sæta kynferðislegri misnotkun á götum Bógóta, hefur fimmfaldast á síðastliðnum sjö árum.

Mósambík: Hjálparstofnanir sökuðu friðargæslusveitir Sameinuðu þjóðanna um kynferðislega misnotkun barna.

Mýanmar: 10.000 stúlkur og konur eru fluttar árlega til vændishúsa í Taílandi.

Srí Lanka: 10.000 börn á aldrinum 6 til 14 ára eru í þrælkun í vændishúsum, og 5000 á aldrinum 10 til 18 ára starfa sjálfstætt á ferðamannastöðum.

Taíland: 300.000 börn stunda vændi.

Taívan: 30.000 börn stunda vændi.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila