Leiðin heim til paradísar
ÞEGAR litið er á þrá mannsins eftir paradís og allar tilraunir hans til að endurskapa hana skyldi maður ætla að jörðin væri orðin raunveruleg paradís. En svo er ekki.
Mannkynið hefur látið ágirndina ráða ferðinni, oft á kostnað umhverfisins og hins fjölskrúðuga lífheims. Margir búast við að fégræðgin gangi með sigur af hólmi og hafa gefið upp alla von um að jörðinni verði nokkurn tíma breytt í paradís. Þeir telja einu paradísarvonina fólgna í framhaldslífi á himnum. Ef þetta viðhorf er rétt merkir það í fyrsta lagi að eðlilegri þrá okkar eftir paradís verði aldrei fullnægt, og í öðru lagi að Guð hafi eftirlátið mönnum að leggja jörðina í rúst með flónsku sinni og græðgi. Er það rétt? Hvað ber framtíðin eiginlega í skauti sínu? Og hvar verður sú framtíð?
Paradís — á himni eða jörð?
Fyrir nálega 2000 árum sagði Jesús við iðrunarfullan þjóf sem staurfestur var við hlið hans: „Þú skalt vera með mér í paradís.“ (Lúkas 23:43, NW) Átti Jesús við það að þjófurinn færi með honum til himna? Nei.
Illvirkjanum hafði ekki einu sinni dottið slíkt í hug. Af hverju ekki? Af því að hann hefur sennilega þekkt kafla í Hebresku ritningunum sem til voru í hans tíð, svo sem fyrri hlutann af Sálmi 37:29: „Hinir réttlátu fá landið [það er að segja jörðina] til eignar.“ Jesús kenndi það sama og sagði: „Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa.“ (Matteus 5:5) Þessi ritningargrein kemur heim og saman við Faðirvorið, sem svo er kallað, þar sem segir: „Verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ — Matteus 6:9, 10.
Biblían kennir að Guð hafi skapað jörðina en ekki himininn sem heimili mannkyns. Orð hans segir að hann hafi „eigi skapað hana til þess, að hún væri auðn, heldur myndað hana svo, að hún væri byggileg.“ (Jesaja 45:18) Hve lengi? „Þú [Guð] grundvallar jörðina á undirstöðum hennar, svo að hún haggast eigi um aldur og ævi.“ (Sálmur 104:5) Já, „jörðin stendur að eilífu.“ — Prédikarinn 1:4.
Það er tilgangur Guðs að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem þjóna honum búi að eilífu á jörðinni. Taktu eftir hvað orð hans, Biblían, segir um það. Sálmur 37:11 spáir: „Hinir hógværu fá landið [jörðina] til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“ Hve lengi? Sálmur 37:29 segir: „Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“ Þá rætist ritningarstaðurinn sem segir: „Þú [Guð] lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun,“ það er að segja svalar öllum löngunum sem eru í samræmi við vilja hans. — Sálmur 145:16.
Hvað um þá sem langar alls ekki til að gera vilja Guðs? Orðskviðirnir 2:21, 22 segja: „Hinir hreinskilnu munu byggja landið [jörðina], og hinir grandvöru verða eftir í því. En hinir óguðlegu munu upprættir verða úr landinu, og hinum svikulu verða útrýmt þaðan.“
Paradís endurreist
Innan skamms verður dómi Guðs yfir þessum illa heimi fullnægt. (Matteus 24:3-14; 2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 13) En Guð varðveitir ‚mikinn múg‘ manna í þessari komandi eyðingu og leiðir þá inn í nýjan heim sem hann skapar. — Opinberunarbókin 7:9-17.
Þá mun Guð stjórna því gleðilega starfi mennskra þegna sinna að breyta allri jörðinni í paradísarheimili handa þeim. Biblían lofar: „Eyðimörkin og hið þurra landið skulu gleðjast, öræfin skulu fagna og blómgast sem lilja . . . því að vatnslindir spretta upp í eyðimörkinni og lækir á öræfunum.“ — Jesaja 35:1, 6.
Í þessari paradís, sem verður stækkuð smám saman, verður ekkert hungur, engin örbirgð, fátækrahverfi, heimilislaust fólk eða glæpahverfi. „Gnóttir korns munu vera í landinu.“ (Sálmur 72:16) „Tré merkurinnar munu bera sinn ávöxt, og jörðin mun bera sinn gróða.“ (Esekíel 34:27) „Þeir munu reisa hús og búa í þeim, og þeir munu planta víngarða og eta ávöxtu þeirra. Eigi munu þeir reisa og aðrir í búa, eigi munu þeir planta og aðrir eta.“ (Jesaja 65:21, 22) „Hver mun búa undir sínu víntré og undir sínu fíkjutré og enginn hræða þá.“ — Míka 4:4.
Hvers vegna sumir fara til himna
Flestir játa sennilega að þeir þrái paradís á jörð. Það er eðlilegt því að Guð gaf manninum aldrei löngun til að búa á himnum. Menn geta ekki einu sinni ímyndað sér hvernig það er að búa þar. Pat, sem sótti kirkju dyggilega, sagði til dæmis í samtali við prestinn sinn í ensku biskupakirkjunni: „Það hvarflaði aldrei að mér að fara til himna. Mig langar ekki þangað, og hvað ætti ég svo sem að gera þar?“ — Samanber Sálm 115:16.
Biblían kennir að vísu að takmarkaður fjöldi manna, 144.000 talsins, fari til himna. (Opinberunarbókin 14:1, 4) Hún útskýrir líka ástæðuna: „Þú gerðir þá að konungsríki og prestum handa Guði okkar, og þeir eiga að ríkja sem konungar yfir jörðinni.“ (Opinberunarbókin 5:9, 10, NW) Ásamt konungi sínum, Jesú Kristi, mynda þeir ‚ríkið,‘ nýja himneska stjórn jarðar sem kristnir menn biðja um. Þessi stjórn mun hafa umsjón með algerri endurreisn jarðar og mannkyns. — Daníel 2:44; 2. Pétursbréf 3:13.
En þar eð menn eru ekki fæddir með löngun til að búa á himnum, „vitnar“ andi Guðs með hinum 144.000 á sérstakan hátt til að þeir finni fyrir þessari „himinköllun.“ (Rómverjabréfið 8:16, 17; Filippíbréfið 3:14, Biblían 1912) En andi Guðs þarf augljóslega ekki að gera neitt slíkt fyrir mannkynið í heild, því að eilífðarheimili þess verður í paradís á jörð.
Andleg paradís undirbýr veginn
Hvaða kröfur þurfa menn að uppfylla til að hljóta eilíft líf í paradís á jörð? Jesús sagði: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Jesaja 11:9 tengir friðsæl samskipti manna í milli við þekkingu á Guði og segir: „Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra, því að jörðin er full af þekkingu á [Jehóva], eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.“ — Samanber Jesaja 48:18.
Þessi þekking er auðvitað ekki aðeins huglæg. Hún hefur áhrif á persónuleika okkar og nærir eiginleika Guði að skapi, svo sem ‚kærleika, gleði, frið, langlyndi, gæsku, góðvild, trúmennsku, hógværð og sjálfstjórn.‘ (Galatabréfið 5:22, 23) Vottar Jehóva kappkosta að rækta með sér þessa eiginleika og búa því núna í heilnæmri, andlegri paradís. — Jesaja 65:13, 14.
Hvílíkur munur á andlegu ástandi þeirra og umheimsins sem sekkur æ dýpra í óguðleika og spillingu. En bráðlega eyðir Guð þessum illa heimi. Þangað til hvetja vottar Jehóva þig til að heimsækja — og skoða — andlegu paradísina sem þeir búa í. Sjáðu með eigin augum hvernig Jesús, ósýnilegur konungur á himnum, leiðir væntanlega íbúa nýja heimsins hljóðlega eftir mjóa veginum sem liggur til jarðneskrar paradísar og eilífs lífs! — Matteus 7:13, 14; Opinberunarbókin 7:17; 21:3, 4.
[Mynd á blaðsíðu 8]
Þeir sem lifa af endi þessa heims fá að taka þátt í að breyta jörðinni í paradís.