Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g97 8.4. bls. 31
  • Andlegt hungur í Rúmeníu

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Andlegt hungur í Rúmeníu
  • Vaknið! – 1997
Vaknið! – 1997
g97 8.4. bls. 31

Andlegt hungur í Rúmeníu

Í FRÉTT Associated Press frá Brasov í Rúmeníu segir að um 90 af hundraði Rúmena, sem eru 23 milljónir talsins, tilheyri rétttrúnaðarkirkjunni, en henni var leyft að starfa í stjórnartíð kommúnista. Dagblaðið Daily Record í Canon City í Colorado í Bandaríkjunum segir að nú séu margir orðnir óánægðir með kirkjuna. Í fyrirsögn í blaðinu sagði: „Rúmenum finnst rétttrúnaðarkirkjan úr tengslum við daglegt líf.“

„Alexandru Paleologu, rithöfundur og heimspekingur, talar um að kirkjulegum yfirvöldum sé ekki treyst og að siðvenjur og inntak trúarinnar hafi ruglast,“ sagði blaðið í október síðastliðnum. „Fólk krossar sig og fastar á réttum dögum, svo dæmi séu nefnd, en fóstureyðingar eru útbreiddar þótt kirkjan telji þær synd.“

Daily Record segir að margir hafi gerst vottar Jehóva og vitnar til þeirra áhrifa sem biblíufræðsla vottanna hafði á fjölskyldu nokkra: „Að sögn Florentinu Petrisor drakk eiginmaður hennar í óhófi og misþyrmdi henni. En síðan hjónin urðu vottar Jehóva er fjölskyldulífið friðsamt.“

Að sögn blaðsins yfirgaf Florentina, 38 ára saumakona, „rétttrúnaðarkirkjuna vegna þess að hún veitti enga persónulega kennslu, og vegna efnishyggju sóknarprestsins.“ Blaðið sagði: „Þegar tengdafaðir Florentinu dó þurfti fjölskyldan að borga prestinum og gefa honum mat til að tryggja þokkalega útfararathöfn, áður en hún gat keypt mat handa börnunum. ‚Mér fannst það ekki rétt,‘ sagði hún.“

Um ófrægingarherferð kirkjunnar gegn vottunum sagði Daily Record: „Rétttrúnaðarkirkjan í Rúmeníu, sem hefur komist til áhrifa á nýjan leik, átti sinn þátt í því að koma stjórnvöldum til að flytja fjöldasamkomu votta Jehóva í sumar frá höfuðborginni Búkarest til borganna Brasov og Cluj í Transsylvaníu.“

Vaknið! (ensk útgáfa) 22. febrúar 1997 sagði frá herferð kirkjunnar til að fá stjórnvöld til að afboða alþjóðamótið sem halda átti í Búkarest í júlí 1996. Þar segir frá því hvernig tókst á skömmum tíma að skipuleggja önnur mót í Cluj-Napoca og Brasov sem 34.866 manns sóttu. Atburðurinn vakti heimsathygli. „Það sem rétttrúnaðarkirkjan hélt verða okkur til hindrunar hefur raunverulega orðið fagnaðarerindinu til framdráttar,“ var haft eftir talsmanni vottanna á mótinu.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Gestir syngja á mótinu í Brasov.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila