Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g97 8.4. bls. 29-30
  • Horft á heiminn

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Horft á heiminn
  • Vaknið! – 1997
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Áhrif alnæmis á mennta- og efnahagsþróun
  • Læsi og atvinna
  • Kakkalakkaofnæmi
  • Fátækt eykst
  • Fíkniefnaneysla í Evrópu
  • „Alræði megurðarinnar“
  • Óvæntur biblíuáhugi
  • Langvarandi vinátta
  • Borðaðu ávexti daglega
  • Að annast sjúklinga með elliglöp
  • Hættulegra en reykingar?
  • Horft á heiminn
    Vaknið! – 1998
Vaknið! – 1997
g97 8.4. bls. 29-30

Horft á heiminn

Áhrif alnæmis á mennta- og efnahagsþróun

Alnæmisfaraldurinn hefur seinkað mennta- og efnahagsþróun í heiminum um 1,3 ár, að því er segir í nýlegri skýrslu Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Ýmsar Afríkuþjóðir hafa orðið verst úti — Sambía hefur dregist aftur úr um meira en tíu ár í mennta- og efnahagsþróun, Tansanía átta ár, Rúanda sjö ár og Mið-Afríkulýðveldið meira en sex ár. Alnæmi hefur einnig stytt ævilíkur manna. Í Norður-Ameríku og Evrópu er alnæmi algengasta dánarorsök fullorðinna innan við 45 ára. Um heim allan smitast 6000 manns af alnæmi á hverjum degi, 1 á 15 sekúndna fresti. Meira en 85 af hundraði þeirra sem deyja úr alnæmi er fólk á aldrinum 20 til 45 ára.

Læsi og atvinna

„Læsi er ófullnægjandi hjá 56 til 64 af hundraði atvinnulausra Kanadamanna,“ samkvæmt kanadískum hagskýrslum. Frá þessu er skýrt í dagblaðinu The Vancouver Sun. Í könnun, sem gerð var árið 1995 á færni í lestri óbundins máls, skjala og talna, kom í ljós að 36 af hundraði Kanadamanna eiga í erfiðleikum á öllum þrem sviðunum. „Læsi er að jafnaði lakast . . . í ‚gömlu‘ atvinnugreinunum, svo sem landbúnaði, námugrefti, framleiðsluiðnaði og byggingariðnaði,“ segir í dagblaðinu. Með dvínandi atvinnu í þessum greinum eiga illa læsir verkamenn sérstaklega á hættu að verða sagt upp. John O’Leary, forseti samtaka sem beita sér fyrir bættri lestrarkunnáttu, segir að „árið 1996 sé fólk, sem er á mörkum þess að lesa nægilega vel, útilokað frá fjölmörgum atvinnutækifærum og persónulegum tækifærum.“

Kakkalakkaofnæmi

Að sögn fréttabréfsins University of California at Berkeley Wellness Letter, er talið að á bilinu 10 til 15 milljónir Bandaríkjamanna hafi ofnæmi fyrir kakkalökkum. Snerting við kakkalakka getur valdið „húðertingu og frjónæmi eða astmaeinkennum“ hjá þeim sem hefur ofnæmi. Fréttabréfið bendir á að „upp undir 80% allra astmasjúkra barna séu viðkvæm fyrir kakkalökkum.“ Kakkalakkar eru ekki endilega vísbending um sóðalegt eldhús. Þeir finnast jafnvel „í hreinustu eldhúsum,“ segir fréttabréfið. Talið er að verið geti allt að 1000 kakkalakkar á heimilinu á móti hverjum einum sem sést. Eitt kakkalakkapar getur getið af sér um 100.000 afkomendur á aðeins einu ári.

Fátækt eykst

Um 1,3 milljarðar manna, eða næstum fjórðungur jarðarbúa, búa við algera fátækt sem er miðuð við að árstekjur séu innan við 25.000 krónur. Flestir þeirra búa í þróunarlöndunum. Þetta fólk hefur yfirleitt ekki aðgang að nægum mat, heilnæmu vatni, heilsugæslu, boðlegu húsnæði, menntun eða atvinnu. Í flestum tilvikum er það vanmetið í þjóðfélaginu þar sem það býr og getur engu breytt um aðstæður sínar. Að sögn Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna fjölgar þeim sem búa við algera fátækt um næstum 25 milljónir á ári.

Fíkniefnaneysla í Evrópu

Ný evrópsk stofnun, sem hefur það hlutverk að fylgjast með notkun ávana- og fíkniefna, birti fyrstu ársskýrslu sína fyrir skömmu. Franska dagblaðið Le Monde segir að samkvæmt rannsóknum stofnunarinnar séu „á bilinu hálf til ein milljón“ heróínfíkla í löndum Evrópusambandsins. Heróínfíkn virðist vera nokkuð stöðug eða fara jafnvel minnkandi í stærstu borgum Evrópu, en í smærri borgum er hún vaxandi. Kannabisefni, svo sem hass og maríúana, eru mest notuðu fíkniefnin í Evrópu. Sérfræðingar hafa áhyggjur af vaxandi vinsældum svokallaðra „kokkteila“ þar sem fíkniefnum er blandað saman við lyf og áfengi. Amfetamín, e-töflur (unnar úr metamfetamíni) og LSD njóta vaxandi vinsælda meðal ungs fólks í Norður-Evrópu.

„Alræði megurðarinnar“

Dagblaðið The Irish Times segir undir fyrirsögninni „Barist gegn alræði megurðarinnar“: „Blóðleysi, sem rekja má til rangs mataræðis, hefur aldrei verið algengara meðal unglingsstúlkna.“ Læknar eru mjög uggandi vegna þessarar þróunar. Í sumum tilvikum er tískuiðnaðurinn sakaður um að hafa „skaðleg áhrif á áhrifagjarna unglinga.“ Í fréttinni segir að fyrir einni kynslóð hafi tískufyrirsæta að meðaltali verið 8 af hundraði léttari en meðalkona. Nú sé hún 23 prósent léttari. „Horaðir útlimir eru í tísku,“ segir í The Irish Times, „og ofurgrönnum, fölum, ungum stúlkum, sem líta út eins og þær séu með lystarstol, . . . er skákað fram sem eðlilegum.“ Mataræði margra ungra stúlkna, sem vilja vera ofurgrannar eins og fyrirsæturnar, er slíkt að þær fá ekki það járn, prótín og vítamín sem þær þurfa.

Óvæntur biblíuáhugi

„Hálf milljón eintaka af Nýja testamentinu á dönsku hefur verið gefin — eitt eintak á um 98 prósent heimila í Kaupmannahöfn,“ að sögn fréttabréfsins ENI Bulletin. Með þessari dreifingu var verið að fagna því að Kaupmannahöfn skyldi vera valin menningarhöfuðborg Evrópu árið 1996. Spáð hafði verið að á bilinu 10 til 20 af hundraði heimila í Kaupmannahöfn myndu afþakka gjöfina. En að sögn Mortens Aagaards, aðalframkvæmdastjóra Danska biblíufélagsins, afþökkuðu „aðeins eitt til tvö prósent heimila“ boðið. Sams konar dreifing er fyrirhuguð í Stokkhólmi árið 1998.

Langvarandi vinátta

Níu af hverjum tíu Þjóðverjum segjast eiga trausta og nána vini, að sögn dagblaðsins Nassauische Neue Presse. Þetta kom fram í félagsfræðikönnun sem náði til liðlega 1000 manns á aldrinum 16 til 60 ára. Tjáskipti og heiðarleiki voru álitnar einhverjar mikilvægustu forsendur langvarandi vináttu. Nálega allir, sem talað var við, voru sammála um að ótryggð og trúnaðarbrestur byndi örugglega enda á slíka vináttu. „Aðeins 16 prósent búast við að góður vinur láni sér peninga í neyð,“ að sögn blaðsins. Á hinn bóginn áleit stór hundraðshluti mjög þýðingarmikið að njóta stuðnings vinar í veikindum.

Borðaðu ávexti daglega

Samkvæmt niðurstöðum rannsókna, sem staðið hafa í 17 ár og náðu til 11.000 manns, má draga úr hættunni á hjartasjúkdómum með því að borða ferska ávexti daglega. Frá þessu er skýrt í breska læknatímaritinu British Medical Journal. Meðal þátttakenda í könnuninni, sem átu ferska ávexti daglega, voru 24 prósent færri dauðsföll af völdum hjartasjúkdóma og 32 prósent færri dauðsföll af völdum heilablæðingar en meðal hinna sem ekki neyttu ávaxta daglega. Af þeim sem neyttu ávaxta á hverjum degi dóu 21 prósent færri í samanburði við þá sem átu ávexti sjaldnar. Hópur breskra og spænskra vísindamanna bendir á að skortur á ferskum ávöxtum í mataræði geti aukið hættuna á æðasjúkdómum, svo sem heilablæðingu og hjartasjúkdómum, meðal sumra þjóðahópa. Rannsóknarmenn segja að mestur heilsubati fáist með því að borða að minnsta kosti fimm skammta af grænmeti og ávöxtum á dag. Ef ferskir ávextir og grænmeti er ófáanlegt má hafa svipað gagn af frosnum ávöxtum og grænmeti, að sögn British Medical Journal.

Að annast sjúklinga með elliglöp

„Hafragrautur, slakandi tónlist og vel hannað umhverfi eru engar byltingarkenndar uppgötvanir í læknisfræði, en skiptir samt sköpum í umönnun aldraðra,“ segir kanadíska dagblaðið The Globe and Mail. Með einföldum og ódýrum breytingum á því hvernig sjúklingar eru baðaðir og nærðir má draga úr ruglingi og áhyggjum þeirra. Til dæmis segir í fréttinni að með því að bera sjúklingi einn rétt í einu á matartímum losni hann við að ákveða hvað hann eigi að borða fyrst, sem er oft erfitt fyrir sjúkling með elliglöp. Með því að reyna nýjar aðferðir hefur jafnvel tekist að draga talsvert úr notkun geðbrigðalyfja.

Hættulegra en reykingar?

Samkvæmt kanadískum hagskýrslum er „kyrrsetulíferni meira en tvöfalt hættulegra en sígarettureykingar,“ að því er segir í tímaritinu The Medical Post. Um sjö milljónir Kanadamanna eiga á hættu alvarleg heilsuvandamál og dauða um aldur fram vegna tóbaksreykinga, en á bilinu 14 til 17 milljónir manna eru í svipaðri hættu vegna hreyfingarleysis. Tímaskortur, kraftleysi og áhugaleysi er helst talið koma í veg fyrir reglulega hreyfingu. Kyrrsetufólk er einnig líklegra til að neyta meiri fitu og minna af ávöxtum og grænmeti en hinir. „Núverandi markmið, og það sem er æskilegast fyrir hjartað, er að fá fólk til að hreyfa sig . . . í að minnsta kosti 30 mínútur af hóflegum eða meiri krafti,“ segir dagblaðið.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila