Horft á heiminn
Rafhlöðulaust útvarpstæki
Lítil verksmiðja í grennd við Höfðaborg í Suður-Afríku hefur sett á markað ferðaútvarpstæki með innbyggðum, handsnúnum rafal, sem talið er koma sér vel í sveitum Afríku þar sem ekki er rafmagn og rafhlöður vandfengnar. „Snúðu handfanginu hressilega nokkrum sinnum og útvarpstækið glymur í hálftíma,“ segir dagblaðið The New York Times. Þótt tækið sé á stærð við nestisbox og vegi um þrjú kílógrömm er talið víst að það slái í gegn. Að sögn Siyanga Maluma, yfirmanns markaðsdeildar verksmiðjunnar, má spara 35.000 til 70.000 krónur í rafhlöðukaup á þrem árum miðað við að tækið sé í gangi í fimm til tíu klukkustundir á dag. Að meðtöldu reiðhjóli og mótorhjóli er „útvarpstæki eitt af þrem helstu stöðutáknunum í Afríku,“ segir Maluma. „Það er öruggt mál að maður getur nælt sér í konu“ með því einu að eiga útvarpstæki, að hans sögn.
Vansvefta táningar
Að sögn tímaritsins Asiaweek álíta ástralskir og bandarískir sérfræðingar um svefn að það geti verið fleira en sjónvarpið, uppreisnargirni eða leti sem fái unglinga til að vilja liggja frameftir á morgnana. Ástralski sérfræðingurinn dr. Chris Seton segir að hormónabreytingar og vaxtarkippir geti skýrt hvers vegna margir táningar vilji sofa frameftir. Svefnþörf barna eykst um níu ára aldur. Í könnun, sem náði til 3000 bandarískra skólanema á aldrinum 17 til 19 ára, kom hins vegar í ljós að 85 af hundraði fengu ekki nægan svefn. Dagblaðið The New York Times segir að afleiðingin sé sú að skólanemar eigi í sífelldri baráttu við syfju í tímum, einkum snemma morguns. „Þessir krakkar eru svo vansvefta að þeir eru næstum eins og í vímu,“ segir prófessor James B. Maas við Cornellháskóla. Sérfræðingar telja að táningar þurfi að minnsta kosti átta og hálfrar stundar svefn á nóttu.
Banvænt regn
Súrt regn virðist eiga óbeinan þátt í hárri dánartíðni elgs í Skandinavíu, að sögn sænska vísindamannsins, dr. Adrians Franks. Kalk er borið á akra og dreift yfir vötn í þeim tilgangi að vinna gegn áhrifum af súru regni. Jurtir, sem vaxa í kalkbornum jarðvegi, innihalda hins vegar aukið magn vissra frumefna, einkum mólýbdens. Þegar elgir fá of mikið mólýbden veldur það hættulegum koparskorti sem hefur alvarleg áhrif á ónæmiskerfi skepnunnar. Af öðrum afleiðingum af súru regni má nefna að fiskur þrífst ekki lengur í meira en 4000 vötnum í Svíþjóð og silungastofn Noregs er ekki nema helmingur þess sem áður var. Lundúnablaðið The Sunday Telegraph segir að enda þótt bresk stjórnvöld séu að draga úr brennisteinsútblæstri frá orkuverum í því skyni að halda menguninni í skefjum geti áhrifa súra regnsins gætt í mörg ár eftir að menguninni linnir.
Barnaherir
Um 250.000 börn, allt niður í sjö ára gömul, þjóna í herjum víða um heim samkvæmt niðurstöðu rannsóknar sem gerð var í 26 löndum. Frá þessu er skýrt í Manchesterblaðinu Guardian Weekly á Englandi. Í skýrslu, sem greinir frá niðurstöðum tveggja ára rannsóknar á vegum Sameinuðu þjóðanna, segir að barnungir nýliðar hafi verið sljóvgaðir tilfinningalega, oft með því að neyða þá til að horfa upp á ættingja pyndaða eða drepna. Börnin eru síðan notuð sem böðlar, launmorðingjar og njósnarar. Í einu landi „hafði flestum börnum í hernum verið skipað að pynda, limlesta eða drepa börn eða fullorðna sem reyndu að komast undan.“ Börn, sem oft er gefið áfengi eða fíkniefni fyrir bardaga, hafa sést æða út í orustu „eins og þau héldu sig vera ódauðleg eða ósæranleg.“
Flótti frá borgum til sveita
Lítill en vaxandi hópur Japana hefur fengið sig fullsaddan á streitu og erli borgarlífsins og er farinn að flýja borgirnar og setjast að í sveit. Enda þótt sveitalífið bjóði upp á einfaldara líferni í náttúrlegra umhverfi en borgin, er ekki með öllu vandalaust að skipta á jakkafötum og samfestingi. „Margir nýir bændur hafa afsalað sér föstum tekjum, þægindum borgarlífsins og kannski þeirri þjóðfélagsstöðu sem fylgir því að vinna hjá þekktu fyrirtæki,“ segir tímaritið Asiaweek. Og „nýgræðingar sveitanna viðurkenna að þeir þurfi að draga úr útgjöldum og neyðist stundum til að vinna lítilmótleg störf til búdrýginda.“ Landbúnaðarráðuneytið hefur samt sem áður komið á laggirnar sérstökum bændaskóla til að auðvelda borgarbúum að laga sig að sveitalífinu.
Kirkja viðurkennir kynskipting sem prest
Öldungakirkjuprestur í Bandaríkjunum hefur fengið leyfi til að halda hempunni eftir kynskiptaaðgerð. Úrskurðurinn var felldur þegar Eric Swenson, 49 ára, fór fram á það við dómþing öldungakirkjunnar í Atlanta og nágrenni (í Georgíu) að fá að breyta nafni sínu í Erin eftir að hann lét fjarlægja kynfæri sín með skurðaðgerð. „Anne Sayre, samstarfsmaður dómþingsins í kvenréttinda- og réttlætismálum, benti á að þingið hafi átt í ‚mjög erfiðri togstreitu‘ en komist að þeirri niðurstöðu að það hefði ‚engar forsendur, hvorki guðfræðilegar né siðferðilegar,‘ til að afturkalla prestvígsluna,“ að sögn tímaritsins The Christian Century. En Don Wade, prestur sem greiddi atkvæði gegn beiðni Swensons, sagði að „það hefði engin alvarleg umræða farið fram um guðfræðilegu hliðina.“
Fiskveiðistríð
Of mörg skip eru að eltast við minnkandi fiskistofna, og það „hefur leitt til alvarlegra árekstra milli fiskiskipaflota og sjóherja,“ að sögn tímaritsins U.S.News & World Report. Fiskiskipafloti heims var kominn í um þrjár milljónir skipa árið 1990 og hafði fjölgað um næstum helming frá 1970. Og nútímaveiðarfæri, svo sem sónar og risavörpur, hafa stóraukið afkastagetu skipanna. „Afleiðingin er sú að stjórnir strandríkja eiga í óslitinni baráttu við erlenda flota“ er þær reyna að vernda dvínandi fiskistofna sína. Á síðastliðnum tveim árum hafa skærur milli fiskiskipaflota á úthöfunum kostað átta sjómenn lífið.
Angandi af hvítlauk
Stjórnvöld á Taívan gripu nýverið til nýstárlegra aðferða til að draga úr offramboði á hvítlauk. Yfirvöld hafa hvatt almenning til að „borða meiri hvítlauk,“ að sögn dagblaðsins South China Morning Post. Ku Te-yeh, embættismaður hjá taívanska landbúnaðarráðuneytinu, segir: „Við settum einfaldlega niður of mikið af hvítlauk þetta árið.“ Stjórnvöld eru að gefa út bækling með hvítlauksuppskriftum í því skyni að auka neyslu. Ku Te-yeh viðurkenndi þó að „ekki væri hægt að ætlast til að almenningur sporðrenndi öllu vandamálinu,“ að sögn blaðsins.
Tekjubilið breikkar
Samkvæmt nýlegri skýrslu Sameinuðu þjóðanna um þjóðfélagsþróun ganga 83 prósent af tekjum heims til þeirra 20 prósenta manna sem ríkastir eru. Með öðrum orðum jafngildir sameiginlegur auður hinna 358 milljarðamæringa heims (miðað við eignir í dollurum) samanlögðum tekjum 2,4 milljarða fátækustu jarðarbúanna. Árið 1960 voru meðalárstekjur fólks í iðnríkjum heims um 400.000 krónum hærri en meðalárstekjur íbúa þróunarlandanna. Árið 1993 hafði munurinn á meðaltekjum iðnríkjanna á hvern íbúa og meðaltekjum þróunarlandanna á hvern íbúa aukist í rösklega eina milljón króna.
Haldið hita á sjúklingum í skurðaðgerð
Skurðstofum spítala er haldið köldum til að hefta vöxt sýkla sem berast með lofti, en í niðurstöðum nýrrar rannsóknar svæfingalæknisins Daniels Sesslers við University of California segir að þetta þrefaldi sýkingarhættuna. „Það eru í rauninni ekki sýklar í loftinu sem valda sýkingum í sárum heldur minna mótstöðuafl sjúklingsins gegn sýklum á húðinni eða í líkamanum,“ að sögn Sesslers. Kaldar skurðstofur geta lækkað líkamshita sjúklings um allt að tvær gráður. Og lágur líkamshiti dregur úr flæði ildaðs blóðs sem er nauðsynlegt í baráttunni gegn sýkingum. Sessler segir að „frumurnar og ensímin, sem stjórni ónæmi líkamans, starfi hreinlega ekki vel þegar líkaminn sé kaldur.“ Sessler og samstarfsmenn hans komust að raun um að auk færri sýkinga voru legudagar sjúklinga, sem var haldið með eðlilegum líkamshita í skurðaðgerð, næstum þrem færri en sjúklinga sem ekki var haldið hita á.