Horfst í augu við staðreyndirnar: Staða tóbaksmála núna
RITSTJÓRI fréttabréfs um heilbrigðismál við Harvard Medical School í Bandaríkjunum undrast það að eftirspurn eftir sígarettum skuli hafa getað orðið slík sem nú er. Hann spyr: „Hvers vegna náði löstur, sem var á undanhaldi og litinn mjög hornauga á miðjum Viktoríutímanum [á áttunda áratug 19. aldar], skyndilega fótfestu á ný?“ Sagnfræðingar segja fíkniávana, auglýsingar og styrjaldir valda mestu um hina gífurlega útbreiddu notkun tóbaks. „Auglýsingar eru, næst á eftir fíkniávana, voldugasti bandamaður tóbaksiðnaðarins í baráttunni um hjörtu og hugi reykingamanna,“ segir maður sem nýlega hefur unnið að rannsóknum á þessu sviði. Það eru orð að sönnu, en liggur meira að baki?
Sagan að baki sögunnar
Biblíunemendur gera ekki lítið úr þýðingu hinnar svonefndu sígarettualdar. Hvers vegna? Vegna þess að þetta tímabil — einkum frá 1914 — hefur uppfyllt stórmerkan spádóm. Árið 1919 ‚reis þjóð gegn þjóð‘ í fyrsta sinn í heimsstyrjöld. Síðan, eins og Jesús Kristur spáði, ‚magnaðist lögleysi‘ sem olli ringulreið í mannlegu samfélagi. Þegar stríð svipti fólk tálvonum sínum og hið gamla verðmætamat Viktoríutímans hrundi var brautin rudd þessari fordæmislausu útbreiðslu sígarettunnar. — Matteus 24:7, 12.
Árið 1914 upphófst nýtt tímabil ótta og áhyggna, og sígarettuiðnaðurinn dafnaði. Margir gripu til sígarettunnar í því skyni að draga úr taugaspennu þessara ‚örðugu tíða‘ sem Biblían nefnir svo. Ginningarafl auglýsinga og fíkniánauð níkótíns stuðlaði að því að gera sjálfdekur að hinu nýja hugarástandi þjóðfélagsins. Réttilega hafði Biblían spáð því að á síðustu dögum myndu menn ‚elska munaðarlífið meira en Guð.‘ — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.
Allt þetta ætti að hjálpa okkur að skynja hversu áríðandi okkar tímar eru. Í stað þess að gefa því engan gaum, eins og Jesús sagði suma menn hafa gert á hættustund, getum við dregið lærdóm af sögunni. Biblían hvetur okkur til að treysta á ríki Guðs, ekki árangurslitla baráttu fyrir umbótum í heiminum — né tálvonir um að þjóðir heims muni einn góðan veðurdag láta af slæmum ávana svo sem reykingum. — Matteus 24:14, 39.
Getur heimurinn hætt reykingum?
Horfurnar á því að heimurinn hætti reykingum eru ekki bjartar. Árið 1962 varaði hinn konunglegi breski læknaháskóli fyrst við reykingum, en árið 1981 keyptu Bretar 110 milljarða sígarettna. Bandaríska landlæknisembættið varaði fyrst við því árið 1964 að reykingar gætu verið heilsuspillandi, en árið eftir náðist nýtt sölumet. Árið 1980 keyptu Bandaríkjamenn 135 milljörðum fleiri sígarettur en árið 1964, þrátt fyrir að á hverjum sígarettupakka standi aðvörun frá landlæknisembættinu um hættuna á heilsutjóni! Heimurinn kaupir núna 4 milljón milljón sígarettur á ári.
Hvort sem þú sjálfur reykir eða ekki ætti það fé, sem tóbaksiðnaðurinn veltir nú á dögum, að segja þér að yfirvöld og stjórnmálamenn muni tæplega binda enda á tóbaksiðnaðinn. Þótt 350 þúsund manns deyi ár hvert í Bandaríkjunum af völdum sígarettureykinga skilar tóbaksverslunin 21 milljarði dollara í skatta. Tóbaksiðnaðurinn veitir líka 2 milljónum manna atvinnu þar í landi, beint eða óbeint. Og tóbaksfyrirtækin horfa ekki í aurana. Á heimsmælikvarða eyða þau tveim milljörðum bandaríkjadala á ári til auglýsinga — svo að þær 7 milljónir dollara sem ameríska krabbameinsfélagið og lungnafélagið verja samanlagt til baráttunnar gegn reykingum virðist nánast ekki neitt.
Tökum annað dæmi — tvær stofnanir Sameinuðu þjóðanna og vandræðalegan ágreining þeirra um stefnu í tóbaksmálum: Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin tilkynnti nýverið að ef stöðva mætti „reykingafarsóttina“ í þriðja heiminum „gæti það stuðlað meira að bættri heilsu og lengra lífi . . . en nokkur önnur einstök aðgerð á sviði forvarnarstarfs.“ En Matvæla- og landbúnaðarstofnunin heldur því fram að „ræktun tóbaks skapi stórfellda atvinnu til sveita“ í löndum þriðja heimsins. Matvæla- og landbúnaðarstofnunin kallar tóbak „mjög þýðingarmikla og auðvirkjaða skatttekjulind“ sem sé bændum „mikil hvatning til að rækta tóbak“ og stjórnvöldum „til að ýta undir ræktun þess og framleiðslu.“
Horfst í augu við staðreyndir
Já, sígarettuævintýrið, einkanlega eftir 1914, kallar á að menn horfist í augu við ýmsar óþægilegar staðreyndir. Sumir segja að menn eigi að gera hvaðeina sem veitir þeim vellíðan, en sú staðreynd að lungna- og hjartasjúkdómar standa í beinu sambandi við reykingar ætti að forða mönnum frá slíkri skammsýni. Á Englandi eru sígarettureykingar sagðar drepa áttfalt fleiri en láta lífið í umferðarslysum. Á heimsmælikvarða hafa reykingar „lagt fleiri í valinn en allar styrjaldir þessarar aldar,“ segir í frétt í dagblaðinu Manchester Guardian Weekly.
Og hvað um ánauðina? Það er bláköld staðreynd að níkótín veldur fíkniánauð. Og mörgu hugsandi fólki finnst það ekki hafa efni á að loka augunum fyrir siðferðilegu og andlegu tjóni sem er tóbaksnotkun samfara.
Siðferðilegar ástæður
Þótt aðvaranir um heilsutjón séu nógu alvarlegar þykir kristnum mönnum enn þyngra á metunum það sem Ritningin hefur á móti reykingum og hið siðferðilega tjón sem þær valda. Tóbaksnotkun átti upphaf sitt í sálartrú, andatrú og dýrkun guða sem menn hafa gert sér — en allt er slíkt fordæmt í Biblíunni sem spillandi og niðurlægjandi er leiðir menn fjær skaparanum. (Sjá „Helga laufblaðið sem sigraði heiminn“ á bls. 4.) (Rómverjabréfið 1:23-25) Reykingar eru óhreinar, hættulegar og ganga þvert á kristna staðla. (2. Korintubréf 7:1) Og enn alvarlegra er að fíkniánauðin skipar tóbaksreykingum innan marka ‚lyfjanotkunar‘ — en það er sakfellingarorð notað í Biblíunni um andlega skaðlegar iðkanir og hjátrúarathafnir. — Sjá NW Reference Bible, neðanmálsathugasemd við Opinberunarbókina 21:8; 22:15.
Alvarlegt, siðferðilegt tjón er því tengt þessum ávana sem gleður skilningarvitin en spillir heilsu neytandans, mengar andrúmsloftið sem náunginn þarf að anda að sér og hvetur áhrifagjarna unglinga til að gera slíkt hið sama. Eftir töluverða umhugsun og ef til vill eilítið sársaukafulla endurskoðun verðmætamats hafa margir reykingamenn ákveðið að þeir verði að hætta — sjálfs sín vegna og ástvina sinna vegna.
Snúið við
Sá sem vill brjótast undan tóbaksánauð þarf að standast talsvert álag frá líkama sínum og umhverfi. Líkami þess sem reykir er háður níkótíni. Hann finnur fyrir sömu lönguninni og reykingamenn hafa gert í heila öld, allt frá því að mögulegt varð að anda að sér reyknum. Víða um heim blasa við auglýsingar í tímaritum og á veggspjöldum sem einatt tengja reykingar unaði, ánægju, frelsi, ævintýrum, útivist, fegurð og munaði. Reykingamenn líta gjarnan á það sem eðlilegt, hættulaust, saklaus, ánægjulegt og „fínt“ að reykja. Þeim sem lætur þessar hugmyndir hafa áhrif á sig finnst ekkert athugavert við reykingar.
Viljir þú hætta reykingum þarft þú sjálfur að snúa við því ferli sem lét heiminn ánetjast reykingum. Tillögur á borð við þær sem er að finna hér vinstra megin á síðunni geta hjálpað þér að brjótast gegn þróuninni í heiminum, en fyrsta skrefið hefur úrslitaþýðingu: Hafðu skýrt í huga hvers vegna þú vilt hætta. „Þessa ákvörðun verður að taka innst inni,“ segir dr. C. F. Tate í American Medical News. „Þegar ákvörðunin einu sinni er tekin ert þú kominn yfir erfiðasta hjallann.“
Og hvað um heiminn sem virðist ófær og ófús til að gera þær breytingar sem þú getur gert? Ekki er líklegt að þjóðfélagið hætti af eigin rammleik sjálfspillandi hátterni svo sem ástarævintýri sínu með sígarettunni. En þú mátt treysta að loforð Guðs um að „eyða þeim, sem jörðina eyða“ rætist. (Opinberunarbókin 11:18) Og verkfæri Guðs til að koma því til leiðar — himnesk ríkisstjórn hans — er þín trausta von um að sjá þann dag er andleg, siðferðileg og líkamleg heilsa manna fer batnandi dag frá degi alls staðar á jörðinni. — Jesaja 33:24.
[Skýringarmynd á blaðsíðu 9]
(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)
Þær sjö milljónir dollara, sem varið er til fræðslu um skaðsemi reykinga, mega sín lítið gegn þeim tveim milljörðum sem varið er ár hvert til að auglýsa sígarettur.
Reykingavarnir
7 milljónir
Sígarettuauglýsingar
2 milljarðar
(Hver rúða jafngildir einni milljón dollara.)