Hin vonlausa barátta gegn glæpum
„HÆGT væri að ná tökum á glæpum á stundinni ef allir væru tilbúnir að leggja það á sig.“ Þetta var haft eftir fyrrverandi yfirmanni bresku stórborgarlögreglunnar í enska dagblaðinu Liverpool Daily Post. Glæpir væru vissulega úr sögunni ef allir hlýddu lögum.
Glæpir fara hins vegar vaxandi víðast hvar. Eftirfarandi orð eru enn í fullu gildi þótt þau hafi verið sögð fyrir árþúsundum: „Jörðin var spillt í augsýn Guðs, og jörðin fylltist glæpaverkum.“ (1. Mósebók 6:11) — Sjá rammann á næstu síðu.
Glæpir byrja smátt
Með því að brjóta lög í smáu er hægt að venja sig á að brjóta þau í stóru. Kennari lagði áherslu á þessa staðreynd við nemendur sína og sagði: „Bankaræningjar byrja á því að stela blýöntum í skóla.“
Hvað gerist svo síðar á vinnustað? Starfsmenn mæta ekki í vinnu, þykjast vera veikir og þiggja sjúkralaun sem þeir eiga ekki rétt á. Þetta er algengara en margir ætla. Svo nefnt sé dæmi ber sex prósent veikindadaga þýskra launþega upp á miðvikudaga, 10 prósent á þriðjudaga og 16 prósent á fimmtudaga, en hvorki meira né minna en 31 prósent veikindadaga ber upp á mánudaga og 37 prósent á föstudaga! Er fólk virkilega oftar veikt á mánudögum og föstudögum en aðra daga vikunnar eða er hreinlega um þjófnað að ræða?
Hverjir eru glæpamennirnir?
Glæpir meðal almennings hafa yfirleitt ekki sömu eftirmál og glæpir áhrifa- og valdamanna. Snemma á áttunda áratugnum var framinn pólitískur glæpur í Bandaríkjunum sem olli svo miklu fjaðrafoki að nafnið, sem tengdist honum, var jafnvel tekið upp í enska tungu.
Orðið er „Watergate“ sem merkir, samkvæmt orðabókinni Barnhart Dictionary of New English, „hneykslismál, einkum ef tilraun er gerð til að leyna skaðlegum upplýsingum eða ólöglegri starfsemi.“a Orðabókin bætir við: „Watergatemálið hafði sterk áhrif á málfar áttunda áratugarins. Orðið varð kveikja ýmissa nýyrða og orðhlutinn -gate var oft notaður um hneykslismál eða spillingu.“
Frá því á áttunda áratugnum hafa margs konar mál af sama toga og Watergatemálið sýnt og sannað að glæpir eru útbreiddir, jafnvel meðal þeirra sem ættu öðrum fremur að virða lög og rétt. Pólitísk spilling var orðin svo útbreidd í Japan að setja þurfti ný lög í byrjun þessa áratugar til að stemma stigu við henni. Ásakanir um spillingu urðu forseta Brasilíu að falli árið 1992.
Er ekki augljóst að afbrot þeirra sem fara með vald, svo sem foreldra, skólakennara og löggæslumanna, stuðla að afbrotum meðal fjöldans?
Góður vilji nægir ekki einn sér
Flestir eru eflaust sammála um að stjórnvöld vilji uppræta glæpi. Fyrrverandi embættismaður á eftirlaunum sagði hins vegar um heimaland sitt: „Stjórnin hefur aðhafst of lítið til að gera dómskerfið hraðvirkt og skilvirkt. Dómarar eru ekki nægilega margir þannig að þeir fáu, sem við höfum, eru útkeyrðir. Lögreglan er mannfá og illa búin. Lögregluþjónar fá ekki alltaf útborgað á réttum tíma þannig að það er freistandi fyrir þá að þiggja mútur.“
Ítalska tímaritið La Civiltà Cattolica harmar „getuleysi ríkisins í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi“ og segir svo: „Það er viðurkennt að löggæslustofnanir og dómskerfið sé helgað baráttunni gegn glæpum, en ljóst er að það hefur ekki minnstu áhrif á skipulagða glæpastarfsemi; þvert á móti vex styrkur hennar og vald.“
Góður vilji stjórnvalda til að berjast gegn glæpum nægir greinilega ekki. Anita Gradin, sem sér um útlendingaeftirlit og dómsmál á vegum Evrópusambandsins, sagði réttilega: „Okkur vantar betri og skilvirkari aðferðir til að vinna saman í baráttunni gegn smygli og sölu fíkniefna, ólöglegum innflytjendum, skipulögðum glæpum, fjársvikum og spillingu.“
Hve einarðir eru löggæslumenn?
Sumir véfengja að yfirvöld séu virkilega áfram um að berjast gegn glæpum. Fyrrverandi aðalvarðstjóri lögreglunnar í einu landi bendir á að allir „fordæmi spillingu og auðgunarglæpi,“ að minnsta kosti opinberlega. Margir séu hins vegar ekki í reynd áfjáðir í að uppræta glæpi og spillingu. Æ fleiri — þeirra á meðal löggæslumenn — virðast líta á mútur, fjársvik og þjófnað sem boðlegar leiðir til að koma sér áfram.
Sú staðreynd að margir, „sem fremja glæpi, sleppa algerlega við hegningu“ eins og tollvörður orðaði það, er eflaust ein ástæðan fyrir því að glæpum fjölgar. Rússneskt tímarit talar til dæmis um „hve auðveldlega glæpamenn sleppi við refsingu.“ Tímaritið bætir við að þetta „virðist hvetja venjulega borgara til að fremja hrottalegustu glæpi.“ Veruleikinn er sá hinn sami og biblíuritari lýsti fyrir um það bil 3000 árum: „Af því að dómi yfir verkum illskunnar er ekki fullnægt þegar í stað, þá svellur mönnum móður til þess að gjöra það sem illt er.“ — Prédikarinn 8:11.
Það eru engar ýkjur að segja að barátta stjórnvalda gegn glæpum sé vonlaus. Þýska dagblaðið Rheinischer Merkur segir: „Ótti almennings við vaxandi ofbeldisglæpi er djúpstæður og það er ekki hægt að sefa hann með venjulegu flokkspólitísku karpi eða talnaskýrslum sem gefa til kynna að ástandið sé ekki jafnslæmt og ætla mætti.“
Líklega er ástandið verra en ætla mætti. Þó er tilefni til að vera bjartsýnn. Heimur án glæpa er í sjónmáli og þú getur lifað það að sjá hann. Í næstu grein er sýnt fram á hvers vegna við getum fullyrt það.
[Neðanmáls]
a Watergatemálið var nefnt eftir húsasamstæðu þar sem brotist var inn árið 1972. Eftirmál þess leiddu til afsagnar Richards Nixons Bandaríkjaforseta og fangelsisdóma yfir nokkrum æðstu ráðgjöfum hans.
[Innskot á blaðsíðu 6]
Margir líta á glæpi sem boðlega leið til að komast áfram.
[Rammi á blaðsíðu 5]
Jörðin er full af glæpaverkum
BANDARÍKIN: „Bandaríkjamenn eru ofbeldisfyllsta þjóð hins iðnvædda heims. . . . Ekkert annað iðnríki kemst í hálfkvisti við þá.“ — Time.
BRASILÍA: „Vaxandi ofbeldisalda varð til þess að hundruð þúsunda manna fylltu miðbæjargötur [Rio de Janeiro] og lýstu ótta sínum og reiði yfir því að glæpir skuli hafa gert þá að föngum í eigin borg.“ — International Herald Tribune.
FILIPPSEYJAR: „Sex af hverjum tíu fjölskyldum á Filippseyjum segjast ekki telja sig óhultar á heimilum sínum eða á götum úti.“ — Asiaweek.
ÍRLAND: „Hálfgerð mafíusamtök hafa fest rætur í miðborg Dyflinnar og hinum fátækari úthverfum vesturborgarinnar. Óaldarflokkarnir eru æ betur vopnaðir.“ — The Economist.
KÍNA: „Bófar eru farnir að skjóta upp kollinum á nýjan leik í Kína og stórglæpir virðast óviðráðanlegir. . . . Kínverskir sérfræðingar segja að óaldarflokkum og ‚leynifélögum‘ fjölgi hraðar en svo að lögreglan hafi tölu á.“ — The New York Times.
MEXÍKÓ: „Glæpir hafa aukist uggvænlega á skömmum tíma.“ — The Wall Street Journal.
NÍGERÍA: „Fjölskyldan, kirkjurnar, moskurnar, skólarnir og klúbbarnir hafa brugðist þeirri skyldu að hindra að unglingar fari út á glæpabraut, að sögn talsmanns lögreglunnar, Franks Oditas.“ — Daily Champion.
RÚSSLAND: „Óaldarflokkar í mafíustíl hafa breytt borg, sem var á dögum Sovétríkjanna ein sú öruggasta í heimi, í hreina glæpamiðstöð. . . . ‚Þau 17 ár sem ég hef verið í götulögreglunni hef ég aldrei séð jafnmikla glæpi í Moskvu né jafnmikla grimmd,‘ segir Gennadí Groshikov lögregluforingi.“ — Time.
STÓRA-BRETLAND: „Ofbeldishneigðin hefur vaxið og líkurnar hafa aukist á því að ofbeldi sé fyrsta úrræði lögbrjótsins.“ — The Independent.
SUÐUR-AFRÍKA: „Taumlaust og næstum stjórnlaust ofbeldi ógnar okkur öllum og öllu sem við gerum — og það þarf að gera eitthvað róttækt.“ — The Star.
TAÍVAN: „Rán, líkamsárásir og morð hafa aukist hægt og sígandi á Taívan . . . Afbrotatíðnin eykst jafnt og þétt og er í sumum tilvikum orðin hærri en á Vesturlöndum.“ — The New York Times.
ÞÝSKALAND: „Bilið milli ofbeldisvilja og þeirra aðstæðna, sem koma fólki til að fremja ofbeldisverk, hefur stöðugt minnkað. Það kemur því varla á óvart að ofbeldi er orðið daglegt brauð.“ — Rheinischer Merkur.