Horft á heiminn
Geislavirkir gimsteinar
Gimsteinar, sem seldir voru stórkaupmanni í Bangkok, urðu tilefni viðvörunar á alþjóðavettvangi þegar í ljós kom að þeir voru geislavirkir. Sahabudeen Nizamudeen, reyndur gimsteinakaupmaður, veit hvenær hann er að gera góð kaup. Þegar indónesískur kaupmaður bauð honum 50 skrautsteina á mun lægra verði en venjulega keypti hann þá snarlega. „Allir steinarnir voru í eftirsóttum súkkulaðilit, sem skiptist í tvennt af ópallýsandi rönd sem líktist sjáaldursrifu kattarins,“ segir tímaritið Asiaweek. En ljómi gimsteinanna reyndist af öðrum uppruna. Þeir höfðu verið geislaðir til að auka litinn svo að hægt væri að hækka verðgildi þeirra. Annar steinn, sem fannst á gimsteinamarkaði í Hong Kong, reyndist 25-falt geislavirkari en heimilt er samkvæmt öryggisreglum í Asíu. „Hingað til hefur vandamálið einskorðast við gul- eða grænleita beryllínaluminat-steina,“ segir tímaritið.
Lestrarvenjur
Brasilíumenn lesa að meðaltali 2,3 bækur árlega, segir dagblaðið Jornal da Tarde. Flestir Brasilíumenn koma ekki nálægt bókum eftir að skólagöngu lýkur. „Vandamálið er að 60 prósent bókanna, sem lesnar eru í Brasilíu, eru skyldulesning“ fyrir skólabörn, segir Ottaviano de Fiore, ráðherra mennta- og menningarmála. „Af hinum 40 prósentunum er meirihlutinn trúarlegar bækur og dulspekibækur, bækur um kynlíf eða sjálfshjálp,“ segir dagblaðið. De Fiore segir um lestrarvenjur manna: „Börn safnast saman með fjölskyldunni, í skólanum og fyrir framan sjónvarpið. Ef enginn hefur gaman af lestri í fjölskyldunni fá börnin aldrei hvatningu þaðan.“ Hann bætir við: „Það er síst á dagskrá stóru sjónvarpsstöðvanna að hvetja fólk til lestrar.“
Musteriskvittanir fundnar
Leirbrot, „sem virðist vera kvittun fyrir framlagi þriggja silfurpeninga til musteris Jahve,“ hefur „nýlega birst á fornleifamarkaði,“ segir tímaritið Biblical Archaeology Review. „Þetta er elsta heimild utan Biblíunnar, sem nokkurn tíma hefur fundist, þar sem minnst er á musteri Salómons konungs. [Orðin] BYT JHVH, ‚hús Drottins [Jahve],‘ . . . hafa áður fundist heil í aðeins einni áletrun utan Biblíunnar,“ og deilt hefur verið um merkingu hennar vegna þess hve samhengið er óskýrt. Hið nýja áletraða leirbrot er auðlesið og mælist 10,9 sinnum 8,6 sentimetrar og á því eru fimm línur. Það er aldursgreint frá um níundu öld f.o.t. og er því að minnsta kosti hundrað árum eldra en hin áletrunin og sérfræðingar hafa lýst yfir að það sé ekta.
Betra en mannleg afskipti
Árið 1987 felldi stormur 15 milljónir trjáa á Englandi. Tíu árum síðar kom í ljós að mesti vöxturinn var á skóglendi sem menn höfðu engin afskipti haft af, segir dagblaðið The Daily Telegraph. Meira ljós náði til jarðar þar sem trén höfðu fokið um koll. Það olli því að ung tré og runnar urðu allt að sex metrum á hæð, og skordýrum, fuglum og plöntum fjölgaði einnig. Margar fallnar eikur og ýviðir fúnuðu ekki eins og búist var við og timbrið, sem nú er unnið úr þeim, hefur þrefaldast í verði. Náttúruverndarsinninn Peter Raine segir: „Meiri skaði hlaust af vel meintum hreinsunaraðgerðum [mannsins] en af sjálfum storminum. Mörgum trjám var plantað um haustið, en það var hroðvirknislega gert svo að þau dóu.“
Vinna, álag og hjartaáföll
Andlegt álag á vinnustað er annar stærsti áhættuþáttur hjarta- og æðasjúkdóma næst á eftir reykingum, að sögn blaðsins Frankfurter Rundschau. Í fréttinni var gerður útdráttur úr könnun sem þýska Vinnu- og heilbrigðiseftirlitið í Berlín gerði. Blaðið segir: „Þeir sem eru í mestri hættu eru starfsmenn sem hafa mjög lítið svigrúm til ákvarðanatöku og eru í einhæfu starfi. Ef þeir eru einnig undir þrýstingi í frístundum, eru til dæmis að reisa sér hús eða hjúkra veikum ættingja, næstum nífaldast hættan á hjartaáfalli.“ Einn sérfræðingur hvetur til þess að starfsmönnum sé gefið meira svigrúm til ákvarðanatöku. „Aðeins einn umræðufundur á mánuði meðal allra starfsmanna í sömu deild gæti verið til bóta.“
Foreldrahjal — meira en sefandi hljóð?
Sumir vísindamenn segja að foreldrar, sem hjala við börnin, séu að gefa þeim mun meira en blíðu og ástúð. Patricia Kuhl við Washington-háskóla og samstarfsmenn hennar rannsökuðu hjal foreldra við börnin á þrem tungumálum — rússnesku, sænsku og ensku. Það virðist sem ýkt „barnamál“ foreldranna nái ekki einungis athygli barnsins heldur leggi líka grunn að því að það læri tungumálið. „Þegar börnin voru orðin sex mánaða lærðu þau að flokka sérhljóð, gefa gaum að sérkennum sem eru mikilvæg í tungumáli þeirra eins og muninum á ‚ee‘ og ‚ah,‘ og hunsa merkingarlaus tilbrigði,“ segir tímaritið Science.
Eyðimerkurnar stækka á Ítalíu
Enda þótt Ítalía sé ekki venjulega sett í samband við eyðimerkur hefur þar verið stofnuð Þjóðarnefnd til baráttu gegn eyðimörkinni. Hver er ástæðan? Ófrjósemi jarðvegsins hefur aukist hratt til norðurs. „Ef ekki verður tekin upp alvarleg umhverfisstefna til að draga úr lofttegundum sem valda gróðurhúsaáhrifum og breyta vissum skaðlegum jarðyrkjuaðferðum, gæti 27 prósent af [Ítalíu] orðið sviðin jörð,“ segir dagblaðið La Stampa. Viðvörunin var gefin á ráðstefnu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna um stækkun eyðimarka sem haldin var í Róm. Þar var útskýrt að hættusvæðin væru ekki lengur bundin við sunnanverða Ítalíu eins og Sikiley, Sardiníu, Calabríu, Apulíu og Basilicata. Nú eru ýmis svæði á Norður-Ítalíu í hættu, svæði sem hafa alltaf verið talin frjósöm, en nú mælist þar minni frjósemi en áður.
„Besta farartæki í heimi“
Ef ferðast er minna en átta kílómetra í þéttbýli er hugsanlegt að það sé fljótlegra að nota reiðhjól en bíl, segir dagblaðið The Island í Colombo á Srí Lanka. Alþjóðlegu umhverfisverndarsamtökin Vinir jarðar kalla reiðhjólið „besta farartæki í heimi.“ Þau segja að á fæðuorkunni, er samsvarar um fjórum lítrum af bensíni, megi komast allt að 2400 kílómetra án þess að menga andrúmsloftið. Blaðið bætir einnig við að hjólreiðar séu heilsubót.
Deilan um drottninguna af Saba
Í Eþíópíu er hún kölluð Makeda. Í Jemen heitir hún Bilqis. Hún er betur þekkt sem drottningin af Saba og er bæði minnst á hana í Biblíunni og Kóraninum. Bæði löndin gera tilkall til hennar og vona að gröf hennar finnist í sínu landi og hvetja því fornleifafræðinga til að halda áfram að grafa eftir sönnunum. Ef hægt er að finna sannanir fyrir tilvist drottningarinnar af Saba mun staðurinn draga að sér fjölmarga ferðamenn og fullgilda tilkall landsins til fornra siðmenningartengsla. „Fornleifafræðingar hafa fundið mikið af áletrunum frá hinu forna Sabaríki á gömlum steinum í Eþíópíu og Jemen,“ segir blaðið The Wall Street Journal. „Það er einkennilegt að engar þeirra minnast á Makedu eða Bilqis.“ Síðan bætir það við: „Biblían er ekki mikil hjálp. Hún lýsir í smáatriðum gullinu og kryddinu sem Saba færði Salómon en segir ekki hvaðan það kom.“
Bókrollur í gíslingu
Samverjar, sem eru aðeins 600 að tölu, þurfa að leggja fram rösklega 70 milljónir króna í lausnargjald til að endurheimta helgar bækur sínar. Bókrollunum tveim, sem sagðar eru vera 700 og 400 ára gamlar, var stolið úr samversku samkunduhúsi í borginni Nablus á Vesturbakkanum fyrir meira en þrem árum. Þjófarnir námu bókrollurnar af landi brott með leynd og það er stutt síðan þær birtust í Amman í Jórdaníu þar sem samverskir öldungar skoðuðu þær. Talið er að sá sem stal þeim hafi verið vel kunnugur því hvar þær voru geymdar. Flestir Samverjar búa á fjallatindi fyrir ofan Nablus sem er helgasti staðurinn þeirra. Þeir trúa að þar hafi Guð fyrirskipað Abraham að fórna syni sínum Ísak.
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 29]
Með góðfúslegu leyfi Shlomos Moussaieffs.