Hjarta hans var snortið
„Við vorum þrettán systkin, fjórir strákar og níu stelpur,“ skrifar Gloria Adame. „Það var árið 1984. Þegar pabbi, sem hafði verið fjarverandi vegna vinnu í Bandaríkjunum, sneri heim til Mexíkó komst hann að því að fjölskyldan var byrjuð að nema Biblíuna hjá vottum Jehóva. Það var honum alls ekki að skapi og hann fór að sýna okkur andstöðu. Hjarta hans virtist harðna með hverjum deginum.
Okkur þótti mjög vænt um pabba og við vildum að hann nyti góðs af þeirri lífgandi þekkingu sem við vorum að fá. Við báðum innilega til Jehóva á hverjum degi og sárbændum hann að opna okkur leið til að segja pabba frá tilgangi sínum. Jehóva heyrði beiðni okkar því að hann gaf mömmu og okkur systrunum kjark til að safnast saman á hverju kvöldi til að lesa biblíutexta dagsins í setustofunni þar sem pabbi eyddi kvöldunum fyrir framan sjónvarpið.
Mamma stýrði umræðunum og þegar búið var að lesa skýringarnar skiptumst við á að fara með bæn. Þegar röðin kom að yngstu systur okkar Marie, sem var aðeins fimm ára gömul, bað hún alltaf innilega: ‚Jehóva vilt þú mýkja hjarta pabba svo að hann verði vottur þinn.‘ Pabbi virtist ekki vera að hlusta því að hann hækkaði í sjónvarpstækinu. En er fram liðu stundir byrjaði hann að lækka í því þar til hann slökkti hreinlega á því eitt kvöldið.
Þetta kvöld spurði mamma að venju hver ætti að lesa textann. Okkur til mikillar undrunar sagði pabbi: ‚Það er komið að mér.‘ Við vorum undrandi en sögðum ekkert. Mamma hvorki andmælti né spurði neins heldur rétti honum bæklinginn Rannsökum daglega ritningarnar. Þegar hann hafði stýrt umræðum um ritningarstaðinn spurði mamma að hverjum væri komið að fara með bæn. ‚Það er komið að mér,‘ sagði pabbi.
Við vorum orðlausar. Þegar bænin var hálfnuð gátum við ekki lengur haldið aftur af tárunum. Pabbi byrjaði líka að gráta og bað Jehóva að fyrirgefa sér að hafa lastmælt honum. Hann bað líka mömmu að fyrirgefa sér að hafa staðið á móti okkur.
Þannig lauk andstöðu pabba árið 1986. Árið 1990 fluttist fjölskylda okkar til Texas í Bandaríkjunum. Síðar vígði pabbi Jehóva líf sitt og sýndi það með vatnsskírn. Sjö af okkur systrunum gerðu hið sama. Í apríl árið 1997 var pabbi útnefndur kristinn öldungur. Fram á þennan dag er sameiginleg umræða um dagstextann okkur mjög mikilvæg og bæn til Jehóva er grundvallaratriði í fjölskyldulífi okkar.“
[Myndir á blaðsíðu 31]
1. Fjórar dætranna eru brautryðjendur í Mexíkó. Marie er fremst.
2. Juanita og Isaac Adame ásamt nokkrum barna sinna. Gloria er lengst til hægri.